Við strönd Reykjaness, báðum megin nessins, hafa orðið mörg og mikil sjóslys á umliðnum öldum, ekki síst þeirri tuttugustu. Við Reykjanesið strandaði m.a. eitt af stærstu skipum sem strandað hefur við Ísland, olíuskipið Clam.
Það var 28. febrúar árið 1950. Skipið varð vélarvana eftir að hafa rekið upp í fjöru í Reykjavík og var á leið til útlanda, dregið af dráttarbáti, sem það slitnaði frá í ofsaveðri. Þarna fórust 27 manns en 23 tókst að bjarga.
Slysið var þétt upp við hamravegginn sunnan Valahnúks. Um borð voru 50 manns, helmingur Kínverjar og helmingur Englendingar. Hluti áhafnarinnar fór í björgunarbáta, en hluti var um kyrrt í skipinu. Allir sem fóru í björgunarbáta fórust, en hinum var öllum bjargað af björgunarsveitinni Þorbirni frá Grindavík, en skipið brotnaði í spón á staðnum innan skamms. Þessi atburður var rótin að skáldsögunni Strandið eftir Hannes Sigfússon, en hann var einmitt á Reykjanesvita þegar þessir atburðir gerðust.
Víkur nú sögunni að upphafinu. Þann 21. febrúar 1950 rak breska olíuskipið Clam á land við Köllunarklett í Reykjavík og laskaðist nokkuð. Að morgni 28. febrúar var það í togi á leið til Cardiff í Bretlandi til viðgerðar þegar það slitnaði frá dráttarbátnum. Skipið rak stjórnlaust að landi og strandaði, miðja vegu milli gamla og nýja Reykjanesvitans og því sem næst fremst á nesinu. Yfirmenn voru allir enskir en undirmenn flestir af kínversku bergi brotnir. Við strandið greip mikil skelfing um sig meðal kínversku skipverjanna og þustu allmargir til (31 maður, þar af 5 Bretar) og reyndu að bjargast á land í tveimur björgunarbátum. Afleiðingarnar urðu sorgleg endalok 27 manna sem fórust er bátunum hvolfdi. Aðeins fjórum var bjargað á land. Þeim 19 mönnum, sem eftir urðu um borð í Clam, var bjargað nokkru síðar án teljandi erfiðleika. Viku síðar fundu menn níu lík rekin, um það bil einn kílómetra frá sjálfum strandstaðnum. Þau voru flutt til Reykjavíkur og komið fyrir í Fossvogskapellu. Þar sem líkin reyndust óþekkjanleg, var tæknideild rannsóknarlögreglunnar beðin um aðstoð. Var þá haft í huga að ef til vill yrði hægt að ná fingraförum af líkunum, en fingraför voru til af allri áhöfninni í spjaldskrám skipafélagsins. Rannsókn tæknideildarmanna varð til þess, að fimm líkanna þekktust aftur. Fingraförin sem tekin voru af hinum látnu voru send til Englands þar sem samanburður fór fram. Þetta er í fyrsta skipti sem aðstoð við slíka rannsókn er framkvæmd hérlendis. Bretar heiðruðu Axel Helgason fyrir ómetanlegt starf við þessa rannsókn.
Ýmislegt var hirt úr skipunu áður en grimmur sjórinn á þessum slóðum tók það sem eftir var. Sigurjón Ólafsson, vitavörður í Reykjanesvita, sem hafði komið á slysstað og tekið þátt í björgunaraðgerðunum, náði t.a.m. fágætri kommóðu úr skipinu. Hún var síðar (árið 2005) afhent Byggðasafni Reykjanesbæjar. Kommóðan kom til safnsins frá Ólafi syni Sigurjóns.
Björgunarsveit Grindavíkur undir stjórn Tómasar Þorvaldssonar, bjargaði 19 mannanna með því að skjóta línu út í skipið. Líklegt er talið að bjarga hefði mátt flestum ef ekki öllum úr áhöfninni ef þeir hefðu beðið í skipinu í stað þess að freista þess að ná landi í björgunarbátunum. Fimmtán lík rak á land og voru þau jarðsett í Fossvogskirkjugarði.
Ekki er óeðlilegt að einhverjar spurningar kynnu að vakna um það hvernig stæði á því að 50 manns hafi verið um borð í vélarvana skipi í drætti frá Íslandi til Bretlands á þessum tíma??? Ekki er vitað til þess að þeirri spurningu hafi nokkurn tímann verið svarað – enda kannski aldrei lögð fram!
Heimild:
-http://www.logreglan.is/default.asp?cat_id=660
-http://www.wikipedia.org/wiki/Reykjanes+clam+reykjanes
-http://www.rnb.is/clam+reykjanes
-Ljósmynd 2; í eigu Sævars Jóhannessonar, rannsóknarlögreglumanns í Reykjavík.