Færslur

Brennisteinsfjöll

Brennistaeinsjallasvæðið hefur nú verið friðlýst. Því ber að fagna.
Verndarsvæðið er 123 ferkílómetrar að stærð og liggur í 400-500 metra hæð milli Kleifarvatns og Heiðarinnar há. Um er að ræða stærsta óbyggða víðerni sem eftir er í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem finna má ósnortnar gosminjar og minjar um brennisteinsnám en einnig kjarri vaxið svæði við Herdísarvík.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum.

Í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla er að finna skýrt afmarkaða gos- og sprungurein en einnig dyngjur og er Kistufell þeirra mest. Brennisteinsnám var stundað á svæðinu í nokkur ár milli 1876 og 1883 og sjást ummerki þess enn í hrauninu.

Kista

Kista í Brennisteinsfjöllum – samtal.

Með friðlýsingunni er háhitasvæði Brennisteinsfjalla verndað gegn orkuvinnslu yfir 50MW í varmaafli. Friðlýsingin nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu.

Brennisteinsfjöll

Útsýni yfir Reykjanesskagann til vesturs frá Bollum.

Hreindýr

Guðmundur G. Bárðarson skrifar um “Hreindýr á Reykjanesskaga” í Náttúrufræðinginn árið 1932:

Kerlingaskarð

Kerlingaskarð.

“Það mun hafa verið árið 1771, að hreindýrum var hleypt á land á Reykjanesskaga og sleppt í hraunin fyrir sunnan Hafnarfjörð. Voru hreindýr þessi fengin frá Finnmörku. Hreindýrin munu hafa þrifizt þar vel og talsvert fjölgað. Er þeirra oft getið á skaganum síðan, og hafa stundum veiðst þar til muna. Þorvaldur Thoroddsen hyggur, að þau hafi flest fallið harða veturinn 1880—1881, en eftir það hafi þeim nokkuð fjölgað aftur. Segir hann, að 1890 hafi sézt 15—20 hreindýr í einum hóp nærri Bláfjöllum. (Lýsing Íslands II, bls. 457—58).

Hreindýr

Hreindýr.

Síðar munu eigi hafa komið svo harðir vetur, að hreindýrunum hafi stafað veruleg hætta af. Þó er nú svo komið, að hreindýrin munu vera orðin afar fágæt hér á skaganum, ef ekki alveg horfin. Síðustu sumrin hefi eg farið mjög víða um fjalllendin og hraunin á Reykjanesskaga, gengið upp á flest fjöllin, og notið útsýnis með góðum sjónauka yfir héruðin umhverfis þau; en hvergi hefi eg getað komið auga á hreindýr, og ekki heldur fundið horn eða bein af hreinum. Ýmsa kunnuga menn, sem fengizt hafa við smalamennsku, hefi eg líka spurt um hreindýrin, og kváðust þeir ekki hafa séð þau síðustu árin.

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum. Hvalhnúkur fjær.

Guðmundur Jónsson, frá Setbergi í Hafnarfirði, er manna kunnugastur í hraununum og fjöllunum suður og austur frá Kaldárseli. Hann hefir sagt mér, að hann hafi séð 35 hreindýr í hóp uppi á Lönguhlíðarfjöllum fyrir vestan Brennisteinsfjöll. Það var um haustið, í réttum, árið 1880. Um aldamótin síðustu sá hann 2 hreindýr seint í maímánuði; var það bæði kýr og tarfur, og fylgdi þeim kálfur. Það var fyrir neðan Skörðin, fyrir vestan Þrívörðuhnúk. Smalahundur Guðmundar hljóp á eftir hreinunum, og flýðu dýrin upp brekkuna; varð þar brattur skafl á leið þeirra. Runnu þau upp skaflinn, en þar varð kálfurinn seinfærari og hrataði niður skaflinn aftur. Sótti þá hundurinn að honum. Snéru þá fullorðnu dýrin í skyndi aftur. Réðist tarfurinn móti hundinum með miklum ofsa og reyndi að stanga hann. En kýrin lagði af stað með kálfinn upp skaflinn á meðan; lét hún hann ganga við hlið sér, brekkumegin, svo að hann hefði stuðning af sér, meðan þau sneiddu fönnina. Loks tókst Guðmundi að aftra hundinum. Tók þá tarfurinn á rás eftir hinum dýrunum. — Guðmundur kveðst sjálfur ekki hafa séð hreindýrin hér á skaganum eftir þetta.

Hreindýr

Hreindýr.

Á árunum 1885—’90 voru tvö hreindýr skotin hjá Sandfelli, fyrir vestan Vífilsfell; hafði veiðimaðurinn hitt þau í Kristjánsdölum og elt þau þvert yfir brunahraunin unz hann náði færi á þeim við Sandfell. Síðla vetrar um 1890 komu 9 hreindýr í hóp, niður undir Smalaskála hjá Kaldárseli. Þá var heldur harður vetur og knappt um haga. Hreinar þessir urðu fyrir styggð af hundum og flýðu norður fyrir Búrfell.
Ólafur Þorvaldsson, sem nú er bóndi í Herdísarvík, kveðst hafa séð 4 hreindýr í október 1910. Lágu þau á hæð upp á Lönguhlíðarfjöllum norðaustur af Vörðufelli, er hann sá þau fyrst. Komst hann mjög nærri þeim og gat um stund athugað þau í næði. Loks urðu þau vör við hann og tóku á rás. Hlupu þau stóran hring umhverfis hann og fóru á brokki, en stukku eigi; en við og við stönzuðu þau til að athuga hvað manninum liði. Síðan héldu þau áfram í enn stærri hring, unz þau hurfu austur fyrir Brennisteinsfjöll.

Brennisteinsfjöll.

Í Brennisteinsfjöllum.

Dr. Bjarni Sæmundsson hefir sagt mér, eitt hreindýr hafi sézt nærri sjó, skammt fyrir vestan Grindavík, að vorlagi um 1877. Þótti það nýlunda, því að þau voru víst mjög fágæt svo utarlega á skaganum.

Hreindýr

Hreindýr.

Guðmundur Einarsson, listamaður, frá Miðdal, kveðst hafa séð tvö hreindýr í maí 1918 eða 1919. Voru þau suður hjá Bláfföllum. Í september 1926 sá hann eitt ungt hreindýr nálægt Lyklafelli. Er það síðasta hreindýr, sem eg veit til að hafi sézt hér nærlendis. Hann kveðst og hafa séð spor eftir hreindýr að vetrarlagi upp á Heiðinni-há, fyrir 3—4 árum síðan.
Þórður Eyjólfsson frá Vindheimum hefir sagt mér að all-mikið hafði verið af hreindýrum á austur hluta skagans, einkum kringum Bláfjöll og á Heiðinni-há, þegar hann var drengur, rétt fyrir 1880. Sáu menn stundum 50 dýr saman í hóp. Voru þau þá talsvert veidd. Vorið 1908 sá hann 9 í hóp sunnan við Grindaskörð, og á þeim árum kom það fyrir að nokkur hreindýr komu niður að sjó í Selvognum. Var þá fannþungt og hagleysur til fjalla. Meðan hreindýrin voru algengari, var það oft að menn fundu hreinahorn í smalamennskum og fjallleitum þar efra.
Hreindýr
Guðmundur Hannesson, sem eitt sinn bjó á Vigdísarvöllum, hafði oft veitt hreindýr hér á fjöllunum. Mér hefir líka verið sagt, að skotmaður nokkur hafi komið að hreindýrahóp í Marardal, vestan vert við Hengilinn. Er dalurinn girtur klettum á allar hliðar, nema einstígi út úr honum að vestan. Maðurinn komst í einstigið og sat fyrir dýrunum. Þau leituðu fast á að komast út, en hann skaut þau niður hvert af öðru. Hann hafði afturhlaðna byssu, og var það mesta þrekraun fyrir hann, að verja dýrunum útgöngu, meðan hann hlóð byssuna.

Marardalur

Marardalur.

Segja sumir, að hann hafi að lokum orðið að gefa upp vörnina, og sleppa miklu af hópnum, en hafði þó fengið góða veiði. Aðrir segja að hann hafi fellt öll dýrin. Eigi hefi eg getað grafið upp hvaða ár þetta var eða hver þessi skotmaður var. Þætti mér vænt um, ef einhver gæti frætt mig um það.
Af þessum strjálu upplýsingum má ráða það, að aðalheimkynni hreindýranna hafi verið í f jöllunum á austanverðum Reykjanesskaga. Þó hefi eg heyrt þess getið, að þau hafi stundum sézt á Mosfellsheiði og Strandaheiði. Þau munu hafa verið mjög algeng eftir miðja síðustu öld, fram til 1880, en hafa víst týnt mjög tölunni harða veturinn 1880—’81, eins og Þorv. Thoroddsen skýrir frá. Þau hafa líka verið mikið veidd árin þar á undan. Ef til vill hefir þeim fjölgað nokkuð aftur. En síðustu tvo áratugi hefir þeim farið sí fækkandi og eru nú að mestu eða öllu leyti horfin héðan af skaganum. Ástæðan til þessarar síðustu fækkunar hreinanna hér um slóðir geta margar verið, t. d. aukin veiði, að stofninn hafi verið genginn úr sér og orðinn ver fær til þess að bjarga sér, eða það að þau hafi flutt sig af skaganum lengra til norðausturs upp í hálendið, vegna sí-vaxandi umferðar og ónæðis á hinum fornu stöðvum sínum.
Hreindýr
Eigum vér að láta hér við sitja og gera eigi neitt til að koma upp hreindýrastofni á Reykjanesskaga aftur? Í Norður-Ameríku hefir Vilhjálmur Stefánsson landkönnunarmaður beitt sér fyrir því, að hin köldu og óræktanlegu haglendi nyrzt í Ameríku, yrðu gerð að arðbæru landi, með því að koma upp hreinahjörðum, er gengu þar sjálfala, en hefðu aðhald af girðingum, svo að smala mætti þeim saman, reka í kvíar, og velja úr hópunum dýr til slátrunar. — þetta er þegar að nokkru komið í framkvæmd, og þykir bera ákjósanlegan árangur. Austurf jöllin á Reykjanesskaga virðast ágætiega fallin fyrir hreindýr. Á Lönguhlíðarfjöllum, Heiðinni-há og hálendinu þar í grend, er gnægð af fléttugróðri (skófir, hreindýramosi o. fl.) og allmikið af öðrum kjarngróðri, sem góður ætti að vera til beitar handa hreindýrum.
Hreindýr
Nú er komin fjárgirðing úr Selvogi alla leið norðaustur á Hellisheiði. Með lítilli endurbót ætti hún að nægja til að hindra það, að hreindýr af skaganum reikuðu austur. Til viðbótar vantaði girðingu, er stæði fyrir þeim að norðan, svo eigi töpuðust þau þá leið af skaganum.

Hreindýr

Hreindýr.

— Ef til vill gætu og hreindýrin þrifist í þrengri girðingum, þar sem hægra væri við þau að ráða, gefa þeim í harðindum og velja úr þeim til slátrunar. Hreindýrahjarðir hér á skaganum ættu að geta veitt nokkurn arð, ef að svo væri frá girðingum gengið að hafa mætti hemil á þeim, og reka þau saman á haustin til að velja úr þeim slátursdýr.
Verði byrjað á slíku, væri öruggast að fá nýjan og hraustan stofn frá Finnmörku, ala hann fyrst í girðingu, svo hafa mætti eftirlit með dýrunum fyrstu árin. Hagagirðingin á Straumi fyrir sunnan Hafnarfjörð væri hafandi til slíks. Þar er víðlendi nokkuð mikið innan girðingar, og góður gróður, sem hreindýr mundi geta þrifist á, og girðingin sögð traust. Ef til vill mundi og hagagirðing Hafnarfjarðarkaupstaðar, með lítilli viðbót, geta orðið hentug handa slíkum hreindýrum.” – G.G.B.

Sjá meira um hreindýrin á Reykjanesskaga HÉR.

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn – 1.-2. tölublað (01.02.1932), G.G.B. – Hreindýr á Reykjanesskaga, bls. 7-10.

Hreindýr

Hreindýrshorn við Hjartartröð ofan Hafnarfjarðar.

Krýsuvíkurkirkja

Eyjólfur Sæmundsson skrifaði þrjár greinar í Fjarðarpóstinn árið 1998 undir fyrirsögninni “Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður“:

Eyjólfur

Eyjólfur Sæmundsson

“Að undanförnu hefur orðið vart aukins áhuga Hafnfirðinga á Krýsuvík. Þessi víðáttumesta jörð í landnámi Ingólfs er að hluta í eigu Hafnfirðinga, en að hluta er eignarhaldið umdeilt og standa málaferli fyrír dyrum til að skera úr umþað. Sumir bæjarbúar þekkja Krýsuvík og eiga jafnvel uppruna sinn að rekja þangað. Aðrir hafa gengið þar um fornar þjóðbrautir eða hrjóstruga og víða hrikalega náttúruna sem er svo fjölbreytileg að undrum sætir. Þangað hafa menn sótt kraft og innblástur til sköpunar, svo sem Sveinn Björnsson listmálari sem þar hafði vinnustofu. Enn aðrir sjá fyrir sér nýtingu jarðvarmans og telja hann geta orðið auðsuppsprettu Hafnfirðinga.
En þeir eru líka fjölmargir sem lítið vita um Krýsuvík og þekkja ekki þá náttúruperlu, nema e.t.v. hina gjósandi borholu í Seltúni. Upplýsingar eru heldur ekki á lausu og full þörf á að bæta þar úr. Eyjólfur Sæmundsson hefur verið tengiliður bæjarins við Hitaveitu Reykjavíkur, m.a. varðandi hitaréttindin í Krýsuvík, en er auk þess áhugamaður um allt er varðar staðinn. Hann mun skrifa greinaflokk hér í blaðið til þess að upplýsa bæjarbúa um þessa náttúruparadís og kraumandi orkulind.

Inngangur

Grindarskörð

Kvöldsýn frá Grindaskörðum, ystu mörkum Krýsuvíkur í norðri.

Í þessum greinarflokki mun ég leitast við að gera lesendum nokkra grein fyrir málefnum Krýsuvíkur, landamerkjum jarðarinnar, tildrögum þessi að hún komst í eigu Hafnfirðinga, jarðhita sem þar er að finna og álitamálum sem uppi eru um eignarhald á landinu. Sögu og náttúrufari verða gerð nokkur skil, en það væri efni í langan greinaflokk eitt og sér ef vel ætti að vera.

Krýsuvíkurtorfan

Krýsuvík

Krýsuvíkurtorfan – kort; ÓSÁ

Þegar rætt er um Krýsuvík eða Krýsuvíkurland í dag er í raun átt við land jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar og er það stundum nefnt Krýsuvíkurtorfan. Auk þessara jarða sem töldust eiga landið voru þarna allmörg kot, Norðurkot, Suðurkot, Snorrakot, Litli-Nýibær, Lækur, Fitjar, Arnarfell o.fl. voru á svæðinu umhverfis Bæjarfell og Arnarfell. Vigdísarvellir eru aftur á móti á milli Sveifluháls og Vesturháls og þar held ég að tvö kot hafi verið um skeið. Útræði var fram á síðustu öld frá Selatöngum sem eru austasti hluti Ögmundarhrauns þar sem það fellur í sjó fram. Þar eru miklar og merkar minjar sem friðlýstar hafa verið, en vert væri að gefa meiri gaum.

Víðátta og fjölbreytni

Húshólmi

Skálatóft í Húshólma í Gömlu-Krýsuvík.

Landsvæðið er gríðarstórt eða rúmlega 200 ferkílómetrar sem jafngildir 20.000 hekturum. Það nær frá Brennisteinsfjöllum í austri að Höskuldarvöllum í vestri og frá sjó í suðri að Vatnsskarði í norðri. Landslagið er ótrúlega fjölbreytilegt, eldfjöll, stöðuvötn, Krýsuvíkurbjarg sem er mesta fuglabjarg utan Vestfjarðakjálkans, framræstar mýrar, sprengigýgar, rennislétt helluhraun, úfin og illfær apalhraun, móbergshryggir, ófærar gjár, hellar, formfagrir eldgígar, litfögur hverasvæði og svo mætti lengi telja. Fáar jarðir á Íslandi, ef nokkrar, eru jafn fjölbreytilegar hvað varðar jarðræði og landmótun. Það er helst gróðurleysið og hin hrjóstruga ásýnd sem kann að virka fráhrindandi á suma. Vitað er að gróður var mun meiri á svæðinu fyrr á tímum og landið er illa farið af ágangi búfjár og manna. Enn beita Grindvíkingar fé sínu á svæðið þó vonandi hilli nú undir endalok þess.

Krýsuvík

Krýsuvík 1923.

Jarðvegurinn er öskublandinn og mjög viðkvæmur. Nýlokið er könnun á ástandi gróðurfars og ljóst að mikið verk þarf að vinna við endurheimt landgæða.
Hraunstraumur fyllir víkina Byggðin sem lýst var að framan er ekki hin upprunalega Krýsuvík. Reyndar er ekki sjáanleg nein vík á ströndinni í dag sem landsvæðið gæti dregið nafn af. Líklegt er að hin upphaflega Krýsuvík hafi fyllst af hrauni þegar Ögmundarhraun rann árið 1151 (síðari ártöl hafa verið nefnd en þau koma ekki heim og saman við geislakolsmælingu á aldri hraunsins). Kapelluhraun rann í sjó fram í Straumsvík, hinum megin á nesinu um sama leyti, sennilega í sama gosi eða goshrinu.
Á hólma sem stendur upp úr Ögmundarhrauni má greina bæjarrústir sem að hluta fóru undir hraunið og nefnist hann Húshólmi. Líklegast er að þarna hafi hin gamla Krýsuvík staðið en hún lagst af í gosinu og íbúarnir fært sig ofar í landið. Þjóðsagan skýrir nafn Krýsuvíkur með frásögninni af tröllskessunum Krýsu og Herdísi sem heima áttu í víkunum og elduðu grátt silfur.

Stóri-Nýibær

Stóri-Nýibær í Krýsuvík.

Landnám og þróun byggðar
Byggð hefur verið í Krýsuvík frá landnámsöld, en hún var innan landnáms Ingólfs Arnarsonar. Í Landnámu segir frá því að Þórir haustmyrkur nam land í Herdísarvík og Krýsuvík og að Heggur sonur hans bjó að Vogi (Selvogi). Því er freistandi að álykta að Þórir hafi sjálfur búið í Krýsuvík. Lítið er vitað um sögu byggðarinnar gegn um aldirnar. Skipst hafa á skin og skúrir í mannlífinu þar sem annars staðar og mannfjöldi sveiflast upp og niður. Við manntalið 1801 voru 39 í Krýsuvíkursókn og er þá aðeins búið á jörðunum tveim og þremur kotum. Ekki er þá byggð á Vigdísarvöllum.

Stóri-Nýibær

Í fróðlegu viðtali í Lesbók Morgunblaðsins, sem Árni Óla átti við Guðmund árið 1932 segir svo: Hlunnindi eru lítil, trjáreki er þó nokkur og eggja- og fuglatekja í Krýsuvíkurbjargi, en síga verður eftir hverju eggi og hverjum fugli. Í Geststaðavatni, sem er þar uppi í heiðinni, er dálítil silungsveiði. Var silungur fluttur þangað fyrir mörgum árum, að ráði Bjarna Sæmundssonar, og hefur hann þrifist þar vel. Það hefði einhverntíma verið kallað gott bú hjá bóndanum í Nýjabæ: 3 kýr, 14 hross og rúmlega 400 fjár framgengið. En hvað er gott bú nú? „Ég hefi reynt að halda í horfinu“, segir Guðmundur, „og búið hefur ekki gengið saman. En nú er svo komið, að það er einskis virði, nema það sem fæst af því til heimilisins. Í haust sem leið fékk ég 200 krónur fyrir jafnmargar kindur og lögðu sig á 1100 krónur á stríðsárunum. Ull og gærur telur maður ekki lengur. Fyrir 10 punda sauðagæru fékk ég t.d. kr. 1,50 í haust sem leið.“

17 systkini í Stór-Nýjabæ

Krýsuvík

Stóri-Nýibær 1944.

Eftir því sem leið á síðustu öld virðist íbúum hafa eitthvað fjölgað og hef ég heyrt að þeir hafi komist upp undir hundraðið þegar flest var í byrjun þessarar aldar, en það er óstaðfest. Allmargir Hafnfirðingar eiga rætur að rekja til Krýsuvíkur. Hjónin Magnús Ólafsson frá Lónakoti og Þóra Þorvarðardóttir frá Jófríðarstöðum bjuggu í Krýsuvík. Þau eignuðust 5 börn og komust fjögur upp.  Magnús dvaldist síðast á sumrin í Krýsuvík en flutti alfarið til Hafnarfjarðar 1945.
Hjónin Guðmundur Jónsson frá Hlíð í Ölfusi og Kristín Bjarnadóttir úr Herdísarvík voru gefin saman í Krýsuvíkurkirju 8. september 1895 og bjuggu í Stóra-Nýjabæ þaðan í frá til 1933. Þau eignuðust 18 börn og komust 17 á legg. Frá þeim er mikill ættbogi kominn.
Guðrún Runólfsdóttir, langamma þessi sem þetta ritar, fæddist í Krýsuvík 1865. Þá sat þar Sigurður Sverresen sýslumaður og sóknarprestur var Þórður Árnason, bróðir Jóns Árnasonar þjóðsagnaritara.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvík

Útlit Krýsurvíkurkirkja árið 1810 fyrir endurbyggingu árið 1857.

Kirkja hefur sennilega verið í Krýsuvík frá ómuna tíð en sú sem nú stendur var reist árið 1857 af Beinteini Stefánssyni sem þá bjó á Arnarfelli en flutti síðar á Hvaleyri. Kirkjan fór í niðurníðslu og var endurvígð 1931 og svo aftur í maí 1964 eftir endurbyggingu sem Björn Jóhannesson bæjarfulltrúi stóð fyrir og kostaði af eigin fé. Yfirsmiður við það verk var kunnur Hafnfirðingur, Sigurbent Gíslason, barnabarn Beinteins sem upphaflega byggði kirkjuna. Hún er nú friðlýst og í umsjón Þjóðminjasafnsins [skrifað fyrir 2010 þegar kirkjan brann].

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja var einföld timburkirkja í Krýsuvík. Hún var byggð árið 1857, endurbyggð árið 1964 og fór þá í vörslu þjóðminjavarðar og komst við það á lista yfir friðuð hús. Altaristafla kirkjunar var málverk eftir Svein Björnsson, listmálara. Krýsuvíkurkirkja var notuð sem sóknarkirkja allt fram undir 1910. Hún var aflögð 1917 og notuð til íbúðar frá 1929, en síðan aftur breytt í kirkju 1963-64 fyrir tilstuðlan Björns Jóhannessonar, fyrrverandi forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði, en Hafnarfjarðarbær færði Þjóðminjasafninu húsið til varðveislu haustið 1964.

Krýsuvíkurkirkja er fábrotin að allri gerð. Ef hún er borin saman við aðrar kirkjur frá svipuðum tíma, t.d. Skútustaðakirkju í Mývatnssveit, og gengið er út frá því að kirkjubyggingar endurspegli efnahag sóknarbarna, þá virðist ljóst að fremur hafi fólk verið fátækt í Krýsuvík um miðja síðustu öld. En Guðs ríki kemur til fátækra og margir skynja þann djúpa frið sem ríkir í þessu litla guðshúsi mitt í tröllaukinni náttúrunni.
Í þessari framhaldsgrein um málefni Krýsuvíkur er fjallað um landamerki hinna jarðanna þar, eignarnám þeirra og afsal til Hafnarfjarðar.

Árni Gíslason

Húshólmi

Húshólmi.

Vorið 1880 urðu nokkur straumhvörf í Krýsuvík. Þá flutti þangað Árni Gíslason sem verið hafði sýslumaður Skaftfellinga og búið að Kirkjubæjarklaustri, en haft annað bú í Holti. Árni þótti búhöldur mikill. Reisulegt tvíflyft timburhús sem hann bjó í hefur verið endurreist á byggðasafninu í Skógum.

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja – legsteinn Árna Gíslasonar.

Árni var sonur séra Gísla Gíslasonar í Vesturhópshólum. Bróðir Árni var Gísli Gíslasonar, síðari maður Skáld- Rósu, en þau bjuggu nokkur ár hér í Hafnarfirði í Flensborgarverslun og Óseyrarkoti. Árni lét af sýslumannsembættinu þegar hann flutti til Krýsuvíkur, en var þó gjarnan kallaður Arni sýslumaður í almannatali. Hann var einn mesti fjárbóndi landsins og hafði með sér hundruð fjár. Stór hluti þess strauk fljótlega og stefndi á heimaslóðir, en drukknaði flestallt í stórám á leiðinni. Sagt er að ein kind hafi komist alla leið heim í Holt.
Hvers vegna Árni fór frá embætti og eignum fyrir austan er ekki vitað. Það hlýtur að hafa farið gott orð af landkostum í Krýsuvík. Árni lést um síðustu aldamót og hvílir í kirkjugarðinum í Krýsuvík.

Gróðurkort

Gróðurkort af landi Hafnarfjarðar í Krýsuvík.

Landamerkjabréfið
Nokkru fyrir 1890 tóku gildi ný jarðalög sem kváðu á um að fyrir allar jarðir þyrfti að vera til þinglýst landamerkjabréf. Eigandi jarðar þurfti að standa fyrir gerð bréfsins og eigendur allra aðliggjandi jarða að skrifa upp á. Ef ekki voru uppi deilur um landamerki var greiður vegur að ganga frá málum.
Árni Gíslason gerði landamerkjabréf fyrir land Maríukirkju í Krýsuvík sem hann hafði keypt. Bréfið er dagsett 14. maí 1890 og því þinglýst 20. júní sama ár. Þar er Iandamerkjum lýst þannig:
1. að vestan; sjónhending úr Dagon (Raufarkletti), sem er klettur við sjávarmál á Selatöngum, í Trölladyngju fjallsrætur að vestan, sem er útbrunnið eldfjall, norðanvert í Vesturhálsi; þaðan bein stefna í Markhelluhól, háan steindranga við Búðarvatnsstæði.
2. að norðan; úr Markhelluhól, sjónhending norðan við Fjallið Eina í Melrakkagil (Markrakkagil (ofanlínu)) í Undirhlíðum og þaðan sjónhending að vesturmörkum Herdísarvfkur, eða sýslumörkum Gullbringu og Árnessýslu.
3. Að austan; samþykkt og þinglýst vesturmörk Herdísarvíkur, sjónhending úr Kóngsfelli, sem er lág, mosavaxin eldborg, umhverfis djúpan gíg, á hægri hönd við þjóðveginn frá Selvogi til Hafnarfjarðar, örskammt frá veginum, í Seljabótarnef, klett við sjó fram.
4. Að sunnan nær landið allt að sjó.

Krýsuvíkurbúið

Krýsuvíkurbúið.

Allir nábúar skrifuðu upp á bréfið án umtalsverðra athugasemda, þar á meðal bændur á Vatnsleysuströnd sem skiptir miklu máli nú þegar landeigendur þar ásælast hluta landsins vegna jarðhitans. Athugasemd ábúenda Hvassahrauns um að “Markhellu” skyldi breytt í “Markhelluhól” var tekin til greina. Mótmæli séra Odds Sigurðssonar á Stað í Grindavík vegna vesturlandamerkja voru ekki tekin til greina enda var harm ekki aðili að málinu. Ýmislegt áhugavert kemur fram í bréfinu. Staðfest var t.d. að Krýsuvík ætti Sogasel en Kálfatjörn hefði þar sem ítak mánaðarselsetu á sumri hverju. Sogasel er í eldgíg sem er á jarðhitasvæðinu við Trölladyngju.

Landamerkjum breytt

Sýslusteinn

Sýslusteinn.

Áhöld voru um það hvar Melrakkagil væri en með umdeildum dómi 1971 var það ákveðið.
Árið 1980 var gerð “dómsátt” sem breytti landamerkjunum að austanverðu þannig að þau væru ekki beint úr Stóra-Kóngsfelli í Seljarbótarnef heldur úr fellinu í svonefndan Sýslustein og þaðan í nefið. Þetta færði sneið úr Krýsuvíkurlandi yfir til Herdísarvíkur sem er í eigu Háskóla Íslands. “Sáttin” var gerð án aðildar Hafnarfjarðar sem þó á mestu verðmætín á svæðinu, þ.e. jarðhitann í Brennisteinsfjöllum. Bæjaryfirvöld þurfa að krefjast ógildingar á þessum gjörningi. Eignarnámið á fjórða áratugnum fara Hafnfirðingar að sýna áhuga á því að eignast Krýsuvíkurland og beitti Emil Jónsson sér í því máli.
Með lögum nr. 11/1936 var ríkissjóði heimilað að taka eignarnámi lönd í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar og lönd sem liggja að Hafnarfirði. Heimildin nær m.a. til jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar sem þá voru í eigu dánarbús Einars Benediktssonar skálds. Gerðu þau ráð fyrir að lönd þessi skyldu seld eða leigð bænum. Þessi lög þóttu óljós og taldi ríkisvaldið ekki unnt að afsala landinu eftir eignarnám á grundvelli þeirra. Því var þeim breytt með lögum nr. 101/1940. Í þeim segir: “Jarðir þær sem um getur í 4. tölulið 1. gr. skal afhenda Hafnarfjarðarkaupstað og Gullbringusýslu, þannig að sýslan fái í sinn hlut lítt ræktanlegt land jarðanna til sumarbeitar fyrir sauðfé, samkvæmt skiptagerð sem framkvæmd var af hinni þar til kjörnu matsnefnd, sbr. niðurlag þessarar greinar, 1. maí 1939. En Hafnarfjarðarkaupstaður fái jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem jörðunum fylgja og fylgja ber, að undanteknum námuréttindum.”

Afsalið til Hafnarfjarðar

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Afsal var gefið út 20. febrúar 1941, en einungis hluti landsins var lýstur full eign Hafnarfjarðar, þ.e. um 43 ferkílómetrar sem töldust ræktanlegt land og varð það síðar fært undir lögsögu Hafnarfjarðar. Hitaréttindum á öllu landi jarðanna fylgja í afsalinu, þ.e. einnig þau réttindi sem eru utan hins afsalaða landsvæðis. Bærinn hefur rétt til að athafna sig á öllu landinu vegna nýtingar hans. Greiddar voru kr. 44.000 fyrir hin afsöluðu réttindi samkvæmt matsgerð sem fyrir lá auk kostnaðar kr. 6.813,10. Ekki var greitt fyrir námuréttindi sem metin voru á kr.2.000 né lítt ræktanlegt land til sumarbeitar á kr. 5.000, þar sem þessi réttindi voru undanskilin. Greiðsla Hafnarfjarðar var fyrir jarðhita kr. 30.000, ræktanlegt land kr. 10.000, Krýsuvíkurbjarg kr. 4.000 og Kleifarvatn kr. O.
Ekki er kunnugt um að Gullbringusýsla hafi greitt fyrir beitarréttindin og ekki hefur verið gefið út afsal vegna þeirra.

Kúabú í Krýsuvík

Krýsuvík

Krýsuvíkurfjósið.

Tilgangur bæjaryfirvalda með því að eignast Krýsuvíkurland var tvíþættur, að komast yfir jarðhitaréttindin til húshitunar í bænum og að koma upp kúabúi á vegum bæjarins. Meirihluti Alþýðuflokksins í bæjarstjórn stóð fyrir kúabúshugmyndinni gegn króftugri andstöðu Sjálfstæðismanna. Byggð voru heilmikil mannvirki, en hugmyndin komst þó aldrei í framkvæmd.

Umdeilt beitarland og námuréttindi

Seltún

Seltún – námuréttindin í Krýsuvík 1950.

Hér verður ekki farið út í lögskýringu á fyrrgreindum lögum og afsali, slíkt er fremur á færi annarra. Eðlilegt er að Hafnarfjörður krefjist eignarhalds á landinu öllu og láti á það reyna fyrir dómstólum. Það hefur verið undirbúið og er stefna í vændum. Til andsvars eru helst Grindvfkingar, en sá hluti landsins sem ekki var afsalað til Hafnarfjarðar er nú í lögsögu þeirra þó þeir eigi það ekki.
Í eignarnámslögunum kemur fram að ekki skuli afhenda Hafnarfirði námuréttindi, en í greinargerðum kemur fram að átt er við brennisteinsnámur vegna þess að eignarhald á þeim var óljóst eftir að erlendir aðilar höfðu eignast þau.
Í skjóli þessa hefur Landbúnaðarráðuneytið leyft stórfellda vinnslu jarðrefna við Vatnsskarð. Þetta verður að telja fullkomlega óeðlilegt. Engin hefð var fyrir slfkri efnistöku á svæðinu og vafasamt að hún teljist námaréttindi í skilningi eignarnámslaganna.

Hafnfirðingar standi á rétti sínum

Krýsuvíkurkirkja

Krýsuvíkurkirkja.

Ég leyfi mér að fullyrða að Landbúnaðarráðuneytið hefur verið Hafnfirðingum óvilhallt í gegnum tíðina og reynt að draga úr ítökum okkar eins og það hefur getað. Hér að framan var fjallað um breytinguna á landamerkjum 1980 sem gerð var að tilhlutan ráðuneytisins án samráðs við bæjaryfirvöld og vafasama efnistöku. Jafnframt stendur ráðuneytið í vegi þess að landinu sé öllu afsalað til Hafnarfjarðar, hefur margsynjað erindum þess efnis.
Þessu til viðbótar hefur ráðuneytið verið að kanna frekari skerðingu á landinu með breytingu á landamerkjum og fulltrúar þess farið í könnunarleiðangra með öðrum landeigendum í þessu skyni án minnsta samráðs við Hafnfirðinga. Þessari atlögu hefur tekist að hrinda, í bili a.m.k.
Hafnfirðingar þurfa að vera á varðbergi gegn ásælni annarra landeigenda á svæðinu og hlutdrægni ríkisvaldsins og krefjast síns réttar í Krýsuvík skilyrðislaust. Það er alveg ljóst af eignarnámslögunum að ríkinu var ekki ætlað að halda eftir neinum ítökum í Krýsuvfk öðrum en brennisteinsnámum.

Í nœstu grein verður fjallað um jarðhitann í Krýsuvík, mögulega nýtingu hans og samninginn við Reykjavíkurborg 1973 um hitaveitu í Hafnarfirði, en þá var réttindunum að hluta afsalað til Hitaveitu Reykjavíkur.

Í þessari þriðju og síðustu grein um Krýsuvík er fjallað um jarðhitann þar, mögulega nýtingu lians og samninginn við Reykjavíkurborg 1973 um hitaveitu í Hafnarflrði, en þá var réttindunum að hluta afsalað til Hitaveitu Reykjavíkur.

Eðli jarðhitans

Seltún

Í Seltúni.

Jarðhitasvæðum er skipt í tvo flokka. Svokallaður lághiti er á svæðum þar sem ekki er eldvirkni (t.d. Mosfellsbæ). Þar er vatnið oftast innan við 100’C og yfirleitt má nota það beint á dreifikerfi hitaveitna. Háhiti er á eldvirkum svæðum og fær vatnið þá hitann frá bráðinni eða nýstorknaðri bergkviku sem þrengt hefur sér inn í jarðlögin eða orðið eftir við eldgos. Hitastig vatnsins er mun hærra en á lághitasvæðum, allt að 300’C og jafnvel hærra.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Mikill þrýstingur er á vatninu og ryðst það út sem gufa ef borað er ofan í það og holan höfð opin. Þetta vatn er mettað af uppleystum efnum úr berginu og ekki hægt að nota það beint á dreifikerfi. Viðnám í jarðlögum er vísbending um jarðhita Þegar heitt vatn kraumar í jörðu leysir það upp ýmis efni úr berginu sem verður til þess að vatnið og jarðlögin sem það mettar leiða rafmagn mun betur en ella. Þvf hærri sem hitinn er þeim mun betur leíðir bergið rafmagn. Við rannsóknir á jarðhitasvæðum mæla menn viðnámið gegn rafleiðni. Því lægra sem það er, þeim mun betur leiða jarðlögin rafmagn og þeim mun sterkari vísbending er um jarðhita. Með þar til gerðum tækjum má mæla viðnámið djúpt í jörðu. Með því að kortleggja það á stórum svæðum þar sem jarðhita gætir má fara nokkuð nærri um útbreiðslu jarðhitans og uppstreymi.

Tvö háhitasvæði

Seltún - Trölladyngja

Seltún – Trölladyngja.

Á Reykjanesskaganum eru fimm háhitasvæði sem tengjast jafnmörgum megineldstöðvum. Þetta eru Hengill (Nesjavellir eru innan þess), Brennisteinsfjöll, Sveifluháls-Trölladyngja, Svartsengi og Reykjanes. Af þeim eru tvö í landi Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar, Sveifluháls-Trölladyngja og Brennisteinsfjöll, og eru þau sýnd á kortinu sem fylgir greininni.
Svæðin teygja sig bæði út úr Krýsuvíkurlandi og eru hitaréttindin því sameign Hafnarfjarðar og annarra eigenda. Eins og fram kom í síðustu grein eignuðust Hafnfirðingar öll hitaréttindin í landi Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar með afsali sem gefið var út 20. febrúar 1941 og greiddi fyrir þau kr. 30.000. Þetta gildir bæði um þann jarðhita sem er á þeim hluta landsins sem bærinn eignaðist og þeim hluta sem átti að vera beitarland Gullbringusýslu.

Sveifluháls-Trölladyngja

Seltún

Seltún árið 1950.

Þetta svæði hefur nokkuð verið rannsakað og tilraunir verið gerðar til nýtingar þess. Svæðið er nokkuð dreift, þ.e. viðnám í jörðu mælist lágt á mjög mörgum stöðum. Við Sveifluhálsinn og víðar er jarðhitinn áberandi á yfirborði, en annars staðar er hveravirkni vart sjáanleg.
Sveifluhálsinn er allur í landi Krýsuvíkur sem og fleiri „augu” á þessu kerfi þar í grennd. Borholan kunna við Seltún er ein nokkurra hola sem þarna hafa verið boraðar, flestar upp úr 1970. Því miður gáfu þær ekki nógu góða raun. Hiti er mikill ofarlega í jarðlögunum (efstu 500 m) en lækkar síðan eftir því sem neðar dregur í stað þess að hækka. Þetta bendir til þess að holurnar séu of fjarri meginuppstreymi hitans sem í raun og veru er ekki þekkt ennþá.
Við Trölladyngju eru tvö mjög álitleg hitasvæði sem kenna má við Sog og Eldborg. Landamæri Krýsuvíkur liggja í gegnum þessi svæði. Ein hola var boruð á Eldborgarblettinum upp úr 1970 og mældist þar hæsta hitastig í borholu á svæðinu öllu eða um 260’C. Hann lækkaði hins vegar þegar neðar kom eins og í öðrum holum sem boraðar voru og olli það vonbrigðum. Heitt svæði við Sandafell er hluti háhitasvæðisins, en það er utan landamæra Krýsuvíkur. Þar hefur ekki verið borað.
Nokkuð er um liðið síðan þetta svæði var rannsakað og holurnar sem boraðar voru þættu ekki merkilegar í dag. Nauðsynlegt er að rannsaka svæðið allt á ný með nýjustu tækni og ef menn hyggja á nýtingu þarf að bora 2 – 4 holur. Efnasamsetning vatns- og gasinnihald bendir til að þarna streymi upp mun heitara vatn en fannst í gömlu holunum eða allt að 290’C. Það væri mjög álitlegt til virkjunar.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum er minna rannsakað, þar hafa t.d engar holur verið boraðar. Orkustofnun hefur gert þarna viðnámsmælingar og birti um þær skýrslu haustið 1995. Niðurstöður gáfu skýra mynd af jarðhitasvæði sem þarna er og er það töluvert frábrugðið Sveifluháls-Trölladyngjusvæðinu, myndar meira eina heild eins og sést á kortinu. Hitastig á 700 – 800 m. dýpi er líklega um 240 °C en það gæti verið töluvert hærra á meira dýpi. Þetta svæði virðist efnilegt til nýtingar í framtíðinni. Hér erum við hins vegar komin í stórbrotna og lítt snortna náttúru og fara verður að öllu með gát.

Virkjun jarðhitans

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun.

Hagkvæmasta leiðin til að virkja háhitasvæði er að framleiða bæði raforku og heitt vatn. Heita vatnið er þá tekið út borholunum sem gufa við háan þrýsting og látið knýja hverfla og framleiða rafmagn. Afgangur orkunnar er síðan notaður til að hita upp ferskt vatn til húshitunar.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Ef einungis er framleitt rafmagn nýtast aðeins 10 – 15 % orkunnar, afganginum er kastað á glæ og það telst varla verjanleg nýting auðlindar sem annars myndi varðveitast að mestu í jörðu og nýtast komandi kynslóðum. Til umræðu hefur verið að nýta jarðhitann að hluta til iðnaðar á Straumsvíkursvæðinu og virðist það geta orðið vænlegur kostur. Þá gæti komið til greina raforkuvinnsla, iðnaðaraotkun og framleiðsla heits vatns, allt í senn. Kröfur Kyoto bókunarinnar gera okkur erfitt um vik að byggja frekari iðnvæðingu á brennslu eldsneytis og virkjanir á hálendinu eru umdeildar. Nýting jarðhitans getur skapað tækifæri sem eru laus við þessi vandamál bæði.
Nýtingu jarðhita á svæðum sem þessum má líkja við námavinnslu. Hitinn endurnýjast ekki og klárast því á endanum, nema eldgos eða kvikuinnstreymi eigi sér stað. Jarðhitinn er því ekki endurnýjanleg auðlind á sama hátt og vatnsaflið. Orkuinnihald einstakra svæða getur hins vegar verið geysimikið og kann að endast áratugum eða jafnvel öldum saman ef rétt er að nýtingu staðið.

Aðrir ásælast landið

Sog

Sog í Trölladyngju.

Eins og fram kom í síðustu grein eru rætur Trölladyngju að vestanverðu landamerki Krýsuvíkurlands. Þarna liggja landamærin í gegn um tvo heita reiti við Sog og Eldborg. Jarðirnar Stóra- og Minni Vatnsleysa eiga í þessum reitum einnig og er hlutur þeirra ámóta stór og Hafnfirðinga. Þessir landeigendur hafa talið sig eiga jarðhitann allan og viljað fá landamerkin færð upp í Grænavatnseggjar í fjalllendinu þarna fyrir ofan og notið stuðnings sveitarstjórnar Vatnsleysustrandarhrepps. Leitað var til Landbúnaðaráðuneytisins á árinu 1996 og beðið um atbeina þess í málinu. Eftir að ráðuneytið hafði legið yfir þessu í heilt ár var erindi landeigendanna loks synjað.

Krýsuvík

Borað í Krýsuvík um 1950.

Hafnarfjarðarbær gerði samning við Reykjavfkurborg um hitaveitu í Hafnarfirði. 11. gr. hans hljóðar þannig: „Hitaveitan skal hafa rétt til jarðhitaleitar og virkjunar til húshitunar í eignarlandi Hafnarfjarðarkaupstaðar í Krýsuvík. Ef Hitaveitan rœðst til virkjunar í Krýsuvík ber henni að greiða bœjarsjóði Hafnarfjarðar hlutfallslega sama verð og hitaréttindin hafa kostað Hafnarfjarðarkaupstað samkvœmt mati á hitaréttindunum þegar kaupstaðurinn fékk þau, og hlutfallslegan kostnað hans af rannsóknum, sem fram hafa farið á jarðhitasvœðinu, samkvæmt nánara samkomulagi aðila. Þessi réttur Hitaveitunnar nær eingöngu til húshitunar og annarrar venjubundinnar notkunar Hitaveitu Reykjavíkur. Verðmæti þessi skal meta til verðs á sama hátt og Hitaveita Reykjavíkur notar til endurmats eigna sinna á sama tíma, sbr. 8. gr. Aðilar eru sammála um, að önnur notkun jarðhitans í Krýsuvík verði ákveðin þannig að möguleikinn til virkjunar til húshitunar verði tryggður.” Ekki verður betur séð en að með þessu ákvæði sé Hitaveita Reykjavíkur orðinn eigandi jarðhitaréttindanna í Krýsuvík að miklu leyti. Þó er hugsanleg sú túlkun að jarðhitaréttur bæjarins á því svæði sem hann fékk ekki afsal fyrir (beitarland fyrir Gullbringusýslu) falli ekki undir þetta ákvæði og sjálfsagt að láta á það reyna.

Víti

Víti í Krýsuvík.

Lokaorð
Um þessar mundir er mjög til umræðu hvernig Hafnarfjörður skuli standa að orkumálum í framtíðinni og horft til samstafs við Suðurnesjamenn. Sjálfsagt er eiga samstarf við þá, en það á alls ekki að útiloka samstarf við nýtt orkufyrirtæki Reykvíkinga í þessum málum. En við þurfum að gæta okkar því báðir þessir aðilar ásælast jarðhitann í Krýsuvík. Við þurfum að gæta vel að stöðu okkar og hagsmunum. En við þurfum einnig að huga að því að Krýsuvíkurland er náttúruperla og eitt víðáttumesta útivistarsvæði á Suðvesturlandi. Við verðum að finna leiðir sem gera okkur kleift að nýta auðlindirnar á ábyrgan hátt án þess að spilla landinu varanlega.”

Heimild:
– Fjarðarpósturinn – 40. tölublað (26.11.1998) – I – Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður – Eyjólfur Sæmundsson.
– Fjarðarpósturinn – 41. tölublað (03.12.1998) – II – Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður – Eyjólfur Sæmundsson.
– Fjarðarpósturinn – 42. tölublað (10.12.1998) – III – Krýsuvík – náttúrperla og orkusjóður – Eyjólfur Sæmundsson.

Víti

Víti í Kálfadölum.

Reykjanesskagi

Helgi Páll Jónsson skrifaði ritgerð um “Eldfjallagarð og jarðminjasvæði á Reykjanesskaga” við jarðvísindadeild Háskóla Íslands 2011. Hér má sjá þann hluta af ritgerðinni er fjallar um einstaka staði innan slíks svæðis:
Eldfjallagarður“Í ritgerðinni er fjallað um jarðminjasvæði á Reykjanesskaga í tengslum við uppbyggingu eldfjallagarðs á svæðinu. Farið er yfir landfræðilega legu skagans, jarðfræðirannsóknir og fjallað almennt um ástæður eldvirkninnar. Helstu jarðmyndunum eldfjallalandslagsins er lýst og fjallað er um jarðfræðilega fjölbreytni, jarðfræðilega arfleifð og jarðfræðitengda ferðaþjónustu sem mun gegna veigamiklu hlutverki í eldfjallagarði verði hann byggður upp á svæðinu. Megininntak ritgerðarinnar er lýsing á 14 jarðminjasvæðum á skaganum sem kæmu til greina sem lykil- eða ítarsvæði í eldfjallagarði, verði ákveðið að skipuleggja hann úr frá slíku svæðisvali.

Reykjanes

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræði.

Reykjanes er í jarðfræðilegu tilliti merkasta svæðið á Reykjanesskaga, þar sem Atlantshafshryggurinn rís úr sæ. Í fjörunni vestur af Valahnúkum er að finna rofnar gígleifar sem eru til marks um sprungugos sem varð bæði í sjó og á landi samtímis. Magnús Á. Sigurgeirsson hefur lýst þessum gosviðburðum í grein sinni um yngra Stampagosið á Reykjanesi sem átti sér stað í goshrinu Reykjaneselda um 1226, en Magnús byggir rannsóknir sínar einkum á athugunum á gjóskulögum. Frá gígunum sem kallast Stampagígar-Yngri er Yngra-Stampahraunið runnið, en það er yngsta hraunið á svæðinu. Í þessu gosi myndaðist einnig Miðaldalagið sem er útbreitt gjóskulag á Reykjanesskaga og þykkast við Reykjanes.
StamparYngri-Stampagígar tilheyra gígaröð sem er sú vestari af tveimur gígaröðum sem þarna ganga inn til landsins frá sjónum, en gosvirkni hefur verið bundin við hana síðustu tvö þúsund árin á meðan ekki hefur gosið á hinni austari í þrjú þúsund ár. Gígaraðirnar stefna í NA-SV frá Kerlingarbás og inn til lands og fylgja þannig algengustu stefnu sprungna á Reykjanesskaga.

Reykjanes

Reykjanes – loftmynd.

Gígarnir í austari gígaröðinni nefnast Stampagígar-Eldri og frá þeim hefur Eldra-Stampahraunið runnið. Víðáttumesta hraunið á Reykjanesi nefnist Tjaldstaðargjárhraun. Það er skammt austur af Eldra-Stampahrauni og hefur runnið frá gígum sem eru í beinu framhaldi af Eldri-Stampagígum. Rannsóknir með gjóskulögum og geislakoli hafa leitt í ljós að þessi síðastnefndu hraun hafa að öllum líkindum myndast í gosum fyrir um 2000 árum en Tjaldstaðagjárhraun hefur þó runnið eitthvað fyrr en Eldra-Stampahraunið.

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.

Á Reykjanesi eru tvær dyngjur sem eru af ólíkum aldri en þó líklega báðar myndaðar í upphafi nútíma. Stærri dyngjan er Skálafell og basaltið í henni er af ólivínþóleiít gerð. Frá Skálafelli hafa hraun runnið ofan á hraun eldri dyngjunnar sem nefnist Háleyjarbunga, en í henni er basaltið af pikrít gerð. Í fjörunni austan við Háleyjarbungu hefur sjórinn rofið dyngjuna og má þar sjá afar fróðlegar opnur sem gefa innsýn inn í hvernig dyngjan er byggð upp. Háhitasvæði er á Reykjanesi og kemur að vel fram á yfirborði en þar er að finna hveravirkni og litskrúðugar ummyndanir á yfirborði.

Gunnuhver

Gunnuhver á Reykjanesi.

Háhitasvæðið er nýtt af Hitaveitu Suðurnesja sem þarna hefur sett upp jarðvarmavirkjun en inni í húsakynnum hitaveitunnar er sýningarsalur þar sem er orkusýning. Saltverksmiðja var reist á þessu svæði eins og áður hefur verið minnst á en hún er ekki í rekstri og eru mannvirkin sem henni fylgja eru nokkuð lýti á þessu svæði.
Mælt er með Reykjanesi sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð fyrst og fremst vegna sérstakrar jarðfræðilegrar legu og tengsla við Atlantshafshrygginn en ekki síður vegna fróðlegra jarðmyndana sem þar er að finna.

Önglabrjótsnef

Önglabrjótsnef – Karlinn fjær.

Í fjörunni skammt vestan Valahnúks má fá innsýn í hvernig jarðlög hlaðast upp við neðansjávargos eða Surtseysk gos (nefnd eftir gosinu sem myndaði Surtsey árið 1963) sem mynda gjóskugíga af hverfjallsgerð. Söguleg hraun, dyngjur, gígaraðir og háhitasvæði eru á svæðinu og er landslagið allt mjög mótað af mikill eldvirkni. Auk þess gefst þarna kostur á að kynna sér nýtingu jarðhitans vegna jarðhitavirkjunarinnar sem þar er til staðar. Sprungumyndunin á svæðinu er lýsandi fyrir gliðnun milli jarðskorpufleka og eru fá svæði á jörðu, fyrir utan Afar sigdalinn í Austur-Afríku, þar sem jafn auðvelt er að skoða slíkar jarðfræðilegar aðstæður. Fremur auðvelt aðgengi er víða um Reykjanes, en um það liggja vegir og slóðar og eru til að mynda bílastæði og upplýsingaskilti til staðar við Valahnúk og útsýnispallar við húsakynni orkuveitunnar.

Hafnarsandur

Sandvík

Stóra-Sandvík.

Á Hafnarsandi rétt austan við Stóru-Sandvík, er svæði þar sem sprungur eru sérstaklega áberandi á yfirborði. Sprungurnar liggja í dyngjuhraunum sem runnið hafa frá Sandfellshæð í austri og Langhól rétt norðan við svæðið. Landrekið hefur síðan opnað sprungur í hraunið þar sem gjár hafa myndast. Gjárnar eru breiðar, nokkrar rúmir 40 m á breidd en dýptina er erfiðara að ákvarða þar sem margar þeirra eru að fyllast af sandi, en á þessu svæði er sandfok mikið og hraunið víðast hvar orðið slípað og matt vegna sandroksins. Sprungusvæðið liggur einnig í grágrýtishrauni frá dyngjunum Berghól norðan við svæðið og frá dyngjunni Sandfellshæð sem nánar verður fjallað um síðar. Val á þessu svæði fyrir eldfjallagarð byggðist fyrst og fremst á hinum sýnilegu og stórbrotnu sprungum sem þar eru.

Reykjanes

Reykjanes – “Brú milli heimsálfa”.

Talið að svæðið gæti vel hentað vel til að gera grein fyrir gliðnun jarðskorpuflekanna og þeim ferlum sem því fylgja. Önnur helsta ástæða fyrir vali svæðisins er að þarna hefur þegar verið komið upp aðstöðu fyrir ferðamenn með hinni svonefndu Álfubrú, sem er göngubrú yfir eina sprunguna og einskonar minnisvarði um flekaskilin á Reykjanesskaga. Við brúnna hefur verið komið fyrir bílastæði sem gerir svæðið mjög aðgengilegt og er það þegar orðin að vinsælum viðkomustað á Reykjanesskaga. Svæðið gæti einnig hentað vel sem æfingasvæði í sprungukortlagninu t.d. fyrir jarðfræðinema.

Eldvörp-Sandfellshæð

Eldvörp

Eldvörp – gígaröð.

Eldvörp er stórbrotin gígaröð sem liggur norðvestur af Grindavík. Hún stefnir NA-SV og er hún um 10 km á lengd. Dyngjan Sandfellshæð liggur rétt vestur af gígaröðinni, en hún er stærsta og reglulegasta dyngja á utanverðum Reykjanesskaga.
Norðan Sandfellshæðar er Sandfell sem er lítið fell, að mestu úr bólstrabrotabergi og þar norðan við er svo önnur dyngja er nefnist Lágafell. Hraun á Eldvarpasvæðinu tengjast eldgosum frá tveimur tímaskeiðum eldsumbrota. Á fyrra tímaskeiðinu hefur hraun runnið frá Sandfellshæð, líklega í upphafi nútíma eða fyrir 12.500 árum síðan. Ofan á Sandfellshæðarhraunið leggst síðan Eldvarpahraunið, sem runnið hefur frá gígaröðinni og hafa rannsóknir sýnt fram á að þetta hraun rann í Reykjaneseldum.

Eldvörp

Eldvörp.

Reykjaneseldar geisuðu á tímabilinu 1211-1240, en Eldvarpahraun er líklega frá árinu 1226 líkt og Stampahraun-Yngra á Reykjanesi, Arnarseturshraun og Illahraun við Svartsengi. Sandfellshæðardyngja er eldri en dyngjan Lágafell, því hraun frá Sandfellshæð hafa runnið yfir hraun frá Lágafelli. Lágafell er pikrít-dyngja líkt og Háleyjarbunga á Reykjanesi.

Svæði við Eldvörp og Sandfellshæð voru valin sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð af nokkrum ástæðum. Þar er til dæmis einfalt að sýna fram á ákveðna tímaröð jarðlaganna á svæðinu og bera kennsl á hvernig mismunandi eldvörp hafa gosið á mismunandi tíma.

Eldvörp

Eldvörp – borstæði.

Önnur ástæða er hin langa og stórbrotna gígaröð sem liggur á svæðinu en hún hefur að mati höfundar hátt verndargildi en er þó ekki friðuð sem náttúruvætti. Skammt austur af Sandfellshæð liggur háhitasvæði í gígaröðinni og er þar að sjá gufuaugu og ummyndunarskellur í gígunum. Þar hefur nú verið sett niður borstæði þar sem er blásandi jarðhitahola, en af henni er talsverður hávaði sem gefur til kynna orkuna á svæðinu. Borframkvæmdum hefur fylgt vegalagning þannig að auðvelt aðgengi er að háhitasvæðinu auk þess sem gönguleið liggur meðfram gígunum og gerir göngu um umhverfi gígana einfalda.

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Þarna er mikill fjölbreytileiki gjall- og klepragíga, og hraunmyndana sem vert er að skoða. Svæði í kringum Eldvarpagígaröðina og Sandfellshæðardyngju er tiltölulega afskekkt þótt stutt sé í bæði í Grindavíkurkaupstað og baðstaðinn Bláa lónið sem er einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna á Reykjanesskaga.
Það væri því mögulegt að vekja meiri athygli á fróðlegu jarðfræðilegu umhverfi svæðisins t.d. fyrir þá ferðalanga sem viðkomu hafa í baðstaðnum vinsæla.

Hrólfsvík-Festarfjall

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Hrólfsvík er grýtt fjara sem liggur innan stærri víkur, Hraunsvíkur, skammt austur af Grindavík. Rétt norður af þessu svæði eru Vatnsheiðardyngjur, en þær eru sömu gerðar og dyngjurnar Háleyjarbunga á Reykjanesi og Lágafell norðan Sandfellshæðar þar sem bergtegundin er pikrít basalt. Í Hrólfsvík er að finna hraunlag úr pikríti sem inniheldur talsvert magn af hnyðlingum (eða framandsteinum) úr djúpbergstegundinni gabbrói, en þeir hafa borist upp um gosrás við eldgos. Undir hraunlaginu er einnig móbergslag þar sem töluvert er um samskonar hnyðlinga.

Hnyðlingur

Hnyðlingur í Hrólfsvík.

Hnyðlingar eru rannsóknarviðfangsefni innan bergfræðinnar þar sem þeir eru taldir veita upplýsingar um uppruna úthafsbasalts (úthafsþóleiíts). Um bergfræðilega tilurð hnyðlingana í Hrólfsvík hefur Ingar A. Sigurðsson ritað í námsritgerð sína og skal nánar vísað til skrifa hans um það efni. Hnyðlingar finnast reyndar víða á Reykjanesskaga, en hvergi munu þeir þó finnast í jafnmiklum mæli og í Hrólfsvík. Ekki er nákvæmlega vitað hvaðan hraunlagið í Hrólfsvík er komið en það gæti verið komið frá Vatnsheiðardyngjum norðan við víkina, eða verið rofleif af gamalli eldstöð sem að tengist Festarfjalli skammt austur af víkinni og sjórinn hefur nú brotið niður.

Festarfjall

Festarfjall og Ægissandur.

Þegar gengið er austur eftir Hraunsvíkinni frá Hrólfsvík, er komið að móbergsklettum með mjórri sandfjöru neðan við sem nefnist Hraunssandur eða Ægissandur.
Skammt austar er Festarfjall, sem er 190 m hátt og rofið af sjónum til hálfs. Rétt við Festarfjall er hægt að komast niður í sandfjöruna og má þar sjá fróðlegar jarðmyndanir, s.s. rauðleit gjalllög sem hraun hefur runnið yfir, jökulberg, bergganga, auk jarðlagastafla þar sem skiptast á basalthraun og móbergslög frá jökulskeiðum og hlýskeiðum ísaldar.

Festarfjall

Festarfjall – berggangur.

Hrólfsvík er valin sem svæði í eldfjallagarð fyrst og fremst vegna hnyðlinganna sem eru bergfræðilega forvitnilegir og varðveita ákveðna upplýsingar um kvikuna og bergið sem upp kemur í eldgosum á skaganum. Víkin og umhverfi hennar er því fróðlegur staður og þá sérstaklega fyrir fræðimenn á sviði bergfræði og skyldum greinum. Fjaran við Festarfjallið er afar fróðleg vegna jarðlaganna sem þar er að finna auk þess sem hún er skemmtilegt göngusvæði, en sjávargangur verður þó að vera með minnsta móti. Aðgengi að fjörunni þyrfti að bæta ef svæðið ætti að verða aðdráttarafl í eldfjallagarði og fara skyldi með varúð undir háa klettana þar sem talsverð hætta er þarna á grjóthruni og augljós ummerki eru um hrun úr Festarfjalli og móbergsklettunum ofan fjöruna.

Méltunnuklif
Méltunnuklif kallast svæði á milli Grindavíkur og Krýsuvíkur sem liggur í Ögmundarhrauni. Svæðið lætur ekki mikið yfir sér, en við akveginn sem liggur framhjá því er opna þar sem finnast nokkuð athyglisverðar jarðmyndanir.

Méltunnuklif - misgengi

Méltunnuklif- misgengi.

Í rannsóknum sínum á jarðfræði Reykjanesskaga hafa jarðfræðingarnir Jón Jónsson og Freysteinn Sigurðsson sérstaklega lýst jarðlögum við Méltunnuklif. Í opnunni er að finna þrjú grágrýtishraunlög og að minnsta kosti tvö jökulbergslög inni á milli þeirra. Efst í þessum jarðlagastafla er svo að finna móberg.
Hraunlögin eru jökulrákuð við efri lagmót. Méltunnuklif geymir því nokkrar „blaðsíður” í jarðsögu Reykjanesskagans ef svo má að orði komast.

Méltunnuklif

Méltunnuklif – gamla þjóðleiðin til Krýsuvíkur.

Jökulbergið ber vitni þess, að minnsta kosti tvisvar sinnum hafa jöklar gengið yfir þetta svæði. Hraunlögin benda til að svæðið hafi síðan orðið íslaust og eldgos með tilheyrandi hraunrennsli hafi átt sér stað.
Móbergið efst í syrpunni bendir til að jöklar hafi gengið yfir svæðið í þriðja skipti og eldsumbrot hafi orðið undir jökli. Í þessari opnu eru því ummerki um þrjú hlýskeið og þrjú jökulskeið sem orðið hafa á Reykjanesskaga. Önnur sérkennileg myndun á þessu svæði er misgengi og djúp gjá í Katlahrauni, sem rekja má um 2 km til suðvesturs frá opnunni.

Mælifell

Skála-Mælifell.

Í Skála-Mælifelli sem liggur rétt vestur af Méltunnuklifi er einnig að finna jarðsögulega merkilegt hraunlag með öfuga segulstefnu, tengda er við skammlífan viðsnúning í segulstefnu jarðar fyrir um 43 þúsund árum. Hefur hraunið því runnið um það leyti. Þessi viðsnúningur segulsviðsins er kenndur við Laschamp í Frakklandi, en þar finnast jarðlög tengd þessu skeiði auk þess sem þau finnast á Nýja-Sjálandi og víðar.

Keilir-Keilisbörn

Keilir

Keilir og Keilisbörn.

Keilir er líklega þekktasta fjall á Reykjanesskaga, en fjallið er mjög reglulega lagað og formfagurt á að líta. Hæð fjallsins er þó ekki mikil, eða 379 m yfir sjó.
Keilir er myndaður við gos undir jökli, sennilega á stöku gosopi eða stuttri sprungu þar sem hann er hvorki stapa- eða hryggjarmyndun. Fjallið stendur upp úr Þráinsskjaldarhrauni og sker sig nokkuð úr fjallamyndinni þegar horft er yfir Reykjanesskaga úr fjarska. Norðan Keilis eru lægri hnúkar sem nefnast Keilisbörn og eru einnig úr móbergi. Á toppi fjallsins hefur verið komið fyrir útsýnispalli og gestabók en útsýni af toppi fjallsins er afar mikið yfir Reykjanesskaga.

Keilir

Keilir og Keilisbörn.

Í Keili og Keilisbörnum er ekki mikil fjölbreytni jarðmyndana þar sem fjallið er að öllu leyti gert úr móbergi. Þegar hinsvegar móbergið er skoðað nánar og þegar gengið er niður fjallið að norðanverðu eru talsvert fjölbreytt rofform í móberginu og áhugavert að skoða samsetningu þess.
Keilir er valin sem jarðminjasvæði inn í eldfjallagarð einkum vegna þess að hann er einkennisfjall á Reykjanesskaga og vekur mikla eftirtekt vegna forms síns vegna. Hann hefur þannig einnig nokkuð táknrænt gildi fyrir Reykjanesskagann auk þess að vera vinsælt göngufjall og útivistarsvæði sem auðvelt er að komast að.

Trölladyngja-Sog

Trölladyngja

Á Trölladyngju.

Trölladyngja er fjall norðarlega í vesturhluta Núpshlíðarháls, en hún liggur rétt austur af Höskuldarvöllum og er vel gróið svæði. Norðan við Trölladyngju er Eldborg, gígur sem nú er löngu skemmdur vegna efnistöku. Skammt sunnan við Trölladyngju er nokkur lægð í landslagið og er þar litskrúðugt háhitasvæði sem kallast Sog og er grasi gróið allt um kring. Í Sogunum er ekki mikil yfirborðsvirkni jarðhita en fróðlegar rofmyndanir er þar að finna í ummynduðu berginu. Þegar gengið er upp úr Sogunum að sunnanverðu og haldið til austurs, fæst útsýni yfir Móhálsadal á milli Sveifluháls og Núpshlíðarháls.

Sogin

Sogin.

Eldfjallalandslagið í dalnum er tilkomumikið og þar er mikið um fjölbreytileg eldvörp, gíga, gígaraðir og nútímahraun. Hugsanlega er eitt tilkomumesta útsýni fyrir eldfjallalandslagið á Reykjanesskaga á þessu svæði. Þarna eru nokkur minniháttar stöðuvötn eða tjarnir í landslaginu. Djúpavatn liggur í dalverpi skammt suðaustur af Sogum og minni vötn sem nefnast Grænavatn (sunnar) og Spákonuvatn (norðar) liggja upp á hálsinum sjálfum en líklega hefur eldgos úr gíg stíflað upp lítið dalverpi og myndað tjörnina sem kallast Spákonuvatn.

Trölladyngja

Trölladyngja og nágrenni.

Vestan við Núpshlíðarhálsinn er eldfjallalandslagið ekki síður tilkomumikið. Þar er til að mynda að finna einn sérstæðasta gíg á Reykjanesskaga er Jón Jónsson hefur nefnt Moshól.
Gígurinn er afar reglulegur og stendur mosavaxin upp úr grasi grónu sléttlendinu. Það er nokkuð lýti á þessu sérstæða náttúrufyrirbæri að reynt hefur verið að aka upp á gíginn að norðanverðu og þar hefur mosakápan skemmst nokkuð. Gígurinn er dæmi um eldvarp sem höfundur telur að ætti að njóta sérstakrar verndar þó ekki væri nema vegna fagurfræðilegs gildis.

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Eftir því sem haldið er í norður frá gígnum í átt að Trölladyngju eru það ýmsar gígmyndanir sem hraun hafa flætt úr á sögulegum tíma og runnið upp að móbergshryggjunum. Þessu svæði hefur nú verið raskað verulega með lagningu vega og slóða auk þess sem borstæði hefur verið komið fyrir á svæðinu og má leiða að því líkum að þetta dragi talsvert úr náttúrulegri upplifun á eldfjallalandslagi svæðisins.
Svæðið var valið sem jarðminjasvæði í eldfjallagarð þar sem þar er hægt að sjá þar afar fjölbreytt eldvörp og litskrúðugt háhitasvæði á nokkuð stuttri og auðveldri göngu. Í öðru lagi er gróðursæld svæðisins sérstök og gefur eldfjallalandslaginu sérstaka ásýnd. Svæðið er nokkuð afskekkt og útsýni er stórbrotið þegar gengið er upp frá háhitasvæðinu og eftir móbergshryggnum.

Grænavatn-Seltún

Grænavatn

Grænavatn í Krýsuvík.

Grænavatn er sprengígur í Krýsuvík. Gígurinn tilheyrir þyrpingu sprengigíga í Krýsuvík sem eru yfir 6000 ára gamlir. Annar sprengigígur rétt við Grænavatn er Gestsstaðavatn. Þess má þó geta þess að Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur lýsir Gestsstaðavatni ekki sem sprengigíg heldur sem dauðísmyndun eða jökulkeri og telur þannig vötnin tvö af gjörólíkum uppruna. Sprengigígar myndast í sprengigosum þar sem lítið er um gjóskumyndun og gosefnin eru aðallega gosgufur og vatnsgufur.

Krýsuvík

Krýsuvík – Gestsstaðavatn (nær) og Grænavatn.

Hægt er að ganga hringinn í kringum vatnið meðfram fjöruborði gígsins, en fróðleg hraunlög eru á austurbakkanum en þar er hraunlag með gabbróhnyðlingum. Vatnið í gígnum hefur sérstakan grænan lit sem mun vera vegna kísils og brennisteins sem í því er. Grænavatn er sérstætt eldvarp og því talið vera ágætt dæmi um jarðminjasvæði í eldfjallagarði og ætti að vekja þar nokkra eftirtekt.
Seltún er vinsæll viðkomustaður í háhitasvæðinu í Krýsuvík og er mjög fjölsóttur ferðamannastaður. Helsta aðdráttarafl svæðisins er yfirborðsvirkni jarðhitans og má þar sjá litskrúðugar ummyndunarskellur og leirhveri. Á þessu svæði þarf þó að fara gætilega því jarðhitasvæði með hveravirkni geta reynst varhugaverð ef göngufólk og ferðafólk gáir ekki að sér, en þegar hefur verið komið upp viðvörunarskiltum og göngupöllum í Seltúni. Bílastæði eru bæði við Seltún og Grænavatn og aðgengi að svæðunum auðvelt.

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg

Stóra-Eldborg.

Á Reykjanesskaga eru nokkrir gígar af eldborgargerð og er einn sá reisulegasti þeirra staðsettur undir móbergsstapanum Geitahlíð. Eldborgir hlaðast upp á gosopi þar sem lítið er um kvikustrókavirkni, en hraunslettur mynda háa gígbarma. Eldborgirnar undir Geitahlíð eru í raun tvær, Stóra-Eldborg og Litla-Eldborg en þeirri síðarnefndu hefur verið raskað verulega með efnistöku. Litla-Eldborg er í raun gígaröð af hraunklepra og gjallgígum og ætti því síður að tala um hana í eintölu líkt og Stóru-Eldborg. Eldborgirnar eru ekki af sama aldri og hraunið sem rann frá Litlu-Eldborg er mjög ólíkt hrauninu frá Stóru-Eldborg að samsetningu. Stóra- Eldborg er þó einnig partur af gígaröð sem stefnir SV-NA sem má greinilega sjá þegar staðið er upp á henni. Þegar komið er upp á Geitahlíð heldur þessi gígaröð þar áfram í sömu stefnu.

Stóra-Eldborg

Eldborgarhraunin – uppdráttur Jón Jónsson.

Hraunið frá eldborgargígunum báðum hefur runnið til sjávar og út frá Stóru-Eldborg liggja nokkrar hrauntraðir. Eldborg er eins og áður hefur komið fram friðað náttúruvætti. Jón Jónsson jarðfræðingur rannsakaði þessar gígmyndanir sérstaklega og lýsir Stóru-Eldborg á eftirfarandi hátt: “Stóra Eldborg er einhver fegursti hraungígurinn á öllu Suðvesturlandi hún er yfir 50 m há yfir næsta umhverfi og gígurinn er um 30 m djúpur. Borgin er hlaðin úr hraunkleprum og gjalli og hin fegursta náttúrusmíði.”

Eldborg

Stóra-Eldborg.

Eldborgir eru sjaldgæf eldvörp utan Íslands, þótt Stóra-Eldborg sé ekki eina eldborgin á Reykjanesskaga eða á landinu. Hún er þegar friðað náttúruvætti og er það áberandi gígmyndun að hún vekur eftirtekt hjá hverjum ferðalangi, sem áhuga hefur á náttúrunni og fer um veginn sunnan við Geitahlíð. Að þessu leyti á Stóra-Eldborg undir Geitahlíð fullt erindi sem jarðminjasvæði í Eldfjallagarði.

Hrútagjárdyngja

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Við norðanverðan Sveifluháls er Hrútagjárdyngja, eitt sérstæðasta eldvarp sem finnst á Reykjanesskaga. Jón Jónsson kortlagði dyngjuna og lýsir henni svo í Árbók Ferðafélags Íslands 1984: “Það er afar stór og mjög sérkennileg eldstöð sem ekki á sinn líka á Reykjanesskaga og ekki þekki ég annað eldvarp þessu líkt. Hingað til hef ég kennt það við Hrútagjá en það er sprunga í annarri hlið þessarar miklu eldstöðvar. Dottið hefur mér í hug að e.t.v. mætti nefna eldstöð þessa Eldriða en skýring þess nafns kann að reynast hæpin.

Hrútagjá

Hrútagjá – hrauntröð í Hrútargjárdyngju.

Ljóst er að nafnið Eldriði hefur ekki haldist um þetta eldvarp, en Hrútagjárdyngja er með sanni furðulegt eldvarp og hefur afar sérstæða lögun. Eins og nafnið gefur til kynna er um að ræða dyngjumyndun og hefur hraun frá henni líklega breiðst yfir um 100 km2 lands (3-4 km3) allt til sjávar á milli Vatnsleysustrandar og Hafnarfjarðar fyrir rúmlega 5000 árum. Það sem einkum gerir Hrútagjárdyngju svo sérstaka er að hún er umkringd gjám á þrjá vegu og er sú stærsta þeirra að vestanverðu og er nefnd Hrútagjá.”

Hrútagjá

Hrútagjárdyngja ofan Hafnarfjarðar.

Hvernig nákvæmlega Hrútagjárdyngja og gjárnar í kringum hana eru til orðnar er ekki að fullu þekkt en Jón Jónsson setur fram eftirfarandi tilgátu um myndun dyngjunnar: “Sennilega hefur hraunið komið upp á tveim stöðum, þ.e. þar sem stóri hraungígurinn nú er og þar sem sigketillinn er. Gosið hefur verið hægfara og yfirborð hraunsins hefur storknað fljótt. Hraunkvikan hefur haldið áfram að streyma upp undir þaki úr storku og á þann hátt hefur myndast hraunbunga, sem fljótandi hraunkvika var undir.

Hrútagjá

Hrútagjá.

Nú er tvennt til: Annað hvort hefur það hraun fengið örvaða útrás einhvers staðar svo að það hefur streymt út en hraunstorkan við það sigið niður og sprunga myndast allt í kring, eða þá að hraunið hefur í lok gossins sigið niður í gosopið, en við það sígur hraunsléttan öll, gjárnar myndast umhverfis hana og jafnframt sigketillinn, sem áður er getið, en hann er vafalítið yfir gosopi.

Að dæma af útliti aðal gígsins hefur að gosinu loknu gígbotninn í heild sigið.
Af ofangreindu má ráða að Hrútagjárdyngja er með forvitnilegri eldvörpum á Reykjanesskaga og er atburðarrásin í kringum myndun hennar nokkur ráðgáta. Ekki hefur höfundur fundið neinar heimildir um frekari rannsóknir sem hafa farið fram varðandi myndun Hrútagjárdyngju. Væri hún eflaust heppilegt viðfangsefni fyrir nemendur í eldfjallafræðum í eldfjallagarði.”
Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn vestanvert.

Sveifluháls er einn mesti móbergshryggur á Reykjanesskaga en austan hans og rétt norðan við Krýsuvík liggur stöðuvatnið Kleifarvatn. Krýsuvíkurvegur liggur eftir Sveifluhálsinum austanverðum og meðfram vesturbakka vatnsins. Á þessu svæði frá Miðdegishnúki að Hellutindum eru mjög fjölbreyttar ásýndir móbergs og má þar sjá fróðlegar opnur inn í móbergsmyndun Sveifluhálsins. Svæði sem þetta gæti t.d. verið tilvalið til kennslu (t.d. fyrir jarðfræðinema) um móbergsmyndanir og samspil eldvirkni og jökulíss en líklega eru fá svæði jafn aðgengileg í þeim tilgangi og einmitt þarna við vesturbakka Kleifarvatns. Þarna er hægt að skoða uppbyggingu og samsetningu móbergsmyndana, lagskiptingu, bólstrabrot og bergganga sem ganga í gegnum móbergið. Rofform móbergsins eru fjölbreytt og víða mikið sjónarspil því að móbergið er auðrjúfanlegra en storkubergið. Svæði sem þetta er hér talið hafa talsvert fræðslugildi í eldfjallagarði því móbergsmyndanir eru einna sýnilegastar hér á landi og eru þarna talsvert fjölbreyttar á ekki stærra svæði.

Brennisteinsfjöll-Grindaskörð

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Brennisteinsfjöll liggja suðaustur af Kleifarvatni og eru eitt víðáttumesta svæðið á Reykjanesskaga. Brennisteinsfjöll eru hraunaflæmi prýdd fjölbreyttum eldvörpum sem myndast hafa á eldstöðvarkerfinu sem kennt er við fjöllin. Apalhraun og helluhraun þekja mestan hluta svæðisins. Þarna eru mikil hraunaflæmi sem runnið hafa bæði til norðurs og suðurs meðal annars steypst fram af Herdísavíkurfjalli í hraunfossum og þaðan runnið ofan í sjó.

Ferlir

Í hellinum Ferlir í Brennisteinsfjöllum.

Í helluhrauninu er mikið um hella, stórbrotnar hrauntraðir og niðurföll. Margir reisulegir gígar eru á svæðinu en mesta jarðfræðilega undrið verður þó að telja Kistufell sem er afar sérstæð gígmyndun. Gígveggirnir eru stuðlaðir og hafa yngri hraun runnið inn gíginn. Jafn sérstætt eldvarp og hér um ræðir hefur að mati höfundar mikið verndargildi og spurning hvort slíkt eldvarp ætti ekki að njóta algjörrar friðunar.
Lítið háhitasvæði er í Brennisteinsfjöllum sem sýnir ekki miklar virkni á yfirborði en kemur fram í gufuaugum og ummyndunarskellum á yfirborði.

Brennisteinsfjöll

Gígaröð í Brennisteinsfjöllum.

Helgi Torfason og Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingar, hafa gert úttekt á háhitasvæðinu í Brennisteinsfjöllum í ritgerð þeirra segir meðal annars um fjölbreytileika svæðisins: “Gígaraðir og einstakir gígar, hrauntraðir og hraunhellar, niðurföll í hraunum og ólíkir hraunstraumar gera þetta svæði mjög sérstakt til rannsókna og skoðunar á slíkum myndunum […] Við rannsóknir á jarðhita með borunum á þessum slóðum þarf að taka tillit til umhverfisins auk mikillar umbrotasögu svæðisins, en þar hefur oft verið umbrotasamt og lega mannvirkja þarf að taka mið af því. Þá þarf að huga vel að því að spilla ekki sérstæðri náttúru svæðisins.”

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Í Grindaskörðum er einnig fjöldi reisulegra gíga. Þegar komið er upp úr skarðinu er þar allnokkuð misgengi og sigdalur. Í sigdalnum að norðan eru áhugaverðir gígar á gígaröð en sunnar er dalurinn þakin helluhrauni sem er afar auðvelt að ganga eftir. Mestur gíga á þessu svæði er sá sem Jón Jónsson hefur nefnt Gráfeld en frá honum hefur Selvogshraun runnið. Grindaskörð tengjast einnig brennisteinsnámi sem stundað var í Brennisteinsfjöllum um skeið og á sér nokkuð fróðlega sögu.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námumannahús.

Í pistli Sveins Þórðarsonar um brennisteinsvinnslu á Íslandi vísar hann í rit Páls Eggerts Ólasonar prófessors, Saga Íslendinga, en þar segir: “Var Ísland snemma frægt brennisteins land, og er það til marks, að í tilraunum Danakonungs til að veðsetja landið er því einkum til gildis talið, að þar séu gnægðir miklar af brennisteini. Var þetta þá arðvænleg verzlunarvara, enda nauðsynleg hernaðarþjóðum til púðurgerðar, eins og hún fór þá fram”.
Agnes Stefánsdóttir (2008) fjallar nokkuð um Brennisteinsnámið í Brennisteinsfjöllum í skýrslu um fornleifaskráningu á svæðinu. Þar segir að Jón Hjaltalín landlæknir hafi rannsakað brennisteinsnámur árið 1851.

Brennisteinsnámur

Brennisteinsnámur í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Fann hann fjórar námur í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvík sem síðar voru keyptar af Englendingnum J. W. Busby fyrir tilstuðlan Jóns. Námastígurinn liggur af Grindaskarðavegi meðfram Draugahlíðum og niður í Námahvamm, en þar sést ennþá rúst Námamannaskálans og ummerki námugraftarins.
Brennisteinninn var unnin bæði í Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum, en brennisteinninn úr Brennisteinsfjöllum þótti hreinni og virtist hagkvæmara að flytja hann, þar sem styttri vegalengd var þaðan til Hafnafjarðar. Það reyndist þó örðugra að komast að Brennisteininum í Brennisteinsfjöllum þar sem hann lá undir nærri metra þykku hraunlagi. Fluttur var inn vír frá útlöndum sem áætlað var að strengja frá fjallsbrún niður á jafnsléttu. Var þetta gert til að sleppa við að flytja brennisteininn á hestum niður Kerlingaskarð. Vírinn reyndist hinsvegar of þungur til að flytja hann upp í Brennisteinfjöll og varð því aldrei neitt úr þessum áformum og fór að draga út brennisteinsvinnslunni eftir þetta. Það tók um 12-14 tíma að flytja brennistein á hesti til Hafnafjarðar og var borguð ein króna (þess tíma) á hvern hestburð.

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Ljóst er af ofansögðu að Brennisteinsfjöll eru einstakt jarðminjasvæði og ættu að vera mikið aðdráttarafl í eldfjallagarði á Reykjanesskaga, bæði vegna mikils fjölda eldvarpa og ekki síður vegna menningarminja. Brennisteinsfjöll liggja nokkuð afskekkt og eru fremur óaðgengileg því þangað liggja engir akvegir. Svæðið myndi því henta vel fyrir ferðafólk sem vill njóta ósnortins víðernis og náttúru og í lengri ferðum og upplifa stórbrotnar hraunmyndanir, eldvörp og eldfjallalandslag.

Búrfell

Helgadalur

Helgadalur – Búrfell fjær.

Búrfell er gígur sem er staðsettur skammt austan við Hafnafjörð og myndar nyrsta gíginn í Krýsuvíkur- eða Trölladyngjukerfinu. Gígurinn er af eldborgargerð, en frá honum liggur einhver lengsta hrauntröð á Íslandi sem er Búrfellsgjá. Mikil misgengi eru auk þess á svæðinu við Búrfell og er Hjallamisgengið þeirra mest. Árni Hjartarson skiptir gossögu Búrfells í fjóra þætti eða lotur sem hér segir:

Hraunflæði

Búrfellshraun.

1. Straumsvíkurlota: þá rann Búrfellshraun til suðvesturs í átt að Kaldárbotnum og niður til sjávar hjá Straumsvík og þar í grennd. Hraunið er nú hulið yngri hraunum.
2. Lambagjárlota: Hraunið rennur niður með Ásfjalli og nær hugsanlega til sjávar utan við Hamarinn í Hafnafirði. Þarna myndaðist Lambagjá sem er hrauntröð við Kaldárbotna.
3. Urriðavatnslota: Hraun fyllir sigdalinn neðan við Búrfell og tekur að renna niður með Vífilsstaðahlíð. Það stíflar uppi Urriðavatn og nær til sjávar bæði við Hafnafjörð og í Arnarnesvogi. Hraunrennslið hefur verið langvarandi og þarna myndast Búrfellsgjáin sem meginfarvegur hraunsins frá gígnum.

Búrfell

Búrfellsgjá.

4. Goslok: Hraunrennsli hættir í Búrfellsgjá og hraunrennsli hefst til suðurs frá gígnum um undirgöng. Þá verða til hrauntjarnir sem tæmast svo í goslok og mynduðu Kringlóttugjá. Gosið hefur líklega staðið í 1-2 ár þar sem hrauntraðir og hellar þurfa nokkurn tíma til að myndast.
Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur ritaði ítarlega grein um Búrfellshraun og lét gera aldursgreiningar á gróðurleifum undan því og ofan af því.

Búrfell

Búrfell og nágrenni – herforingjakort 1903.

Árni Hjartarsson umreiknar þessar aldursákvarðanir yfir í raunaldur og sýna niðurstöðurnar að Búrfellshraun er líklega um 8000 ára og hefur því runnið um 6000 f. Kr. Sjávarstaða hefur á þessum tíma verið um 10 m lægri og eru því ystu mörk hraunsins neðan sjávarborðs í dag.
Nokkrar hrauntraðir hafa myndast í eldsumbrotunum sem mynduðu Búrfell. Elsta tröðin nefnist Lambagjá og liggur niður hjá Kaldárseli en yngst er Kringlóttagjá sunnan við Búfellsgíginn.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá.

Búrfellsgjáin er þó sú hrauntröð sem vekur mesta eftirtekt og mun eiga fá sína líka á Íslandi. Veggir traðarinnar eru oft 5-10 m háir og sumsstaðar slútandi þannig að víða hafa myndast skjólríkir skútar sem áður fyrr var notað sem afrep fyrir sauðfé í vondum veðrum, en þar finnast einnig gamlar seljarústir og minjar um forna búskaparhætti. Búrfell og Búrfellsgjár eru jarðminjar um eldgos sem myndað hefur sérstæð eldvörp, Búrfellsgíg og Búrfellsgjánna. Í gjánni eru einnig menningarminjar og er svæðið þegar orðið afar vinsælt útivistar og göngusvæði sem á tvímælalaust heima sem jarðminjasvæði í eldfjallagarði.

Þríhnúkagígur

Þríhnúkagígur

Þríhnúkagígur – op.

Það eldvarp á Reykjanesskaga sem hefur líklega fengið meiri umfjöllun en nokkuð annað sem mögulegt aðdráttarafl í eldfjallagarði er Þríhnúkagígur. Þríhnúkagígur er staðsettur á milli Grindaskarða og Stóra-Kóngfells skammt norðvestan við skíðasvæðið í Bláfjöllum.
Lítið var vitað um tilurð hinnar miklu hvelfingar eða hellis ofan í gígnum fyrr en sigið var ofan í hann árið 1974. Fyrstur til að síga í hellinn var Árni B. Stefánsson, augnlæknir og hellakönnuður sem lýsir hellinum í grein í tímaritinu Náttúrufræðingnum. Sigdýptin í hvelfingunni í hellinum er um 120-130 m og er þvermálið á botni hennar um 50 m. Nákvæma lýsingu á umfangi hellisins er að finna í áðurnefndri grein Árna þar sem ítarlega er fjallað um sigferð í hellinn. Í seinni tíð hefur Árni komið fram með þær hugmyndir að bora í Þríhnúkagíg í þeim tilgangi að kynna almenningi innihald hvelfingarinnar.

Þríhnúkagígur

Í Þríhnúkagíg.

Nokkur svæði á Íslandi eru friðuð sem náttúruvætti vegna sérstöðu sinnar og sé Þríhnúkagígur í slíkum sérflokki sem raun ber vitni, jafnvel einstakur á heimsvísu, má spyrja hvort að ekki væri skynsamlegra að vernda hann algjörlega í stað þess að bora í hann? Samkvæmt Umhverfisstofnun eru 34 svæði á Íslandi friðlýst sem náttúruvætti en um þau segir: “Náttúruvætti eru sérstæðar náttúrumyndanir, s.s. fossar, eldstöðvar, hverir, drangar, hellar og hraun, ásamt fundarstöðum steingervinga og merkilegra steinda. Náttúruvætti eru mörg þess eðlis að á þeim hvílir almenn helgi og markmið friðlýsingar er að koma í veg fyrir jarðrask.”

Þríhnúkar

Þríhnúkar – þverskurður.

Þríhnúkagígur er ekki friðaður sem náttúruvætti en liggur innan Bláfjallafólkvangs sem nýtur friðunar upp að ákveðnu marki. Ljóst má vera að borun í gíginn er rask á eldvarpinu og borframkvæmdir munu hafa jarðrask í för með sér. Sumir hraunhellar landsins eru lokaðir gagnvart átroðningi vegna þeirra dropasteinsmyndana sem þar er að finna og má spyrja hvort slík lokun ekki einnig að gilda um Þríhnúkagíg þar sem hvergi annarsstaðar á Íslandi er vitað um sambærilegar jarðminjar? Á annað borð mætti ef til vill benda á þau rök að engin vissi af innviðum Þíhnúkagígs ef ekki hefði verið sigið í hann og frægð hans myndi aukast ef borað væri í hann og innihaldið sýnt almenningi. Það myndi jafnvel glæða áhuga á jarðfræði nærliggjandi svæðis og vera eitt mesta aðdráttarafl í eldfjallagarði. Þetta gæti verið eitt sjónarmið fyrir borun í gíginn. En gæti verið að Þríhnúkagígur yrði jafnmikið aðdráttarafl ósnertur ef einfaldlega yrði kynnt hvað leyndist í gígnum? Yrði dulúð hans þá meiri og væru ferðalangar og ævintýramenn hugsanlega tilbúnir að borga fyrir dýrar sigferðir ofan í hellinn? Eða á hellirinn einfaldlega að vera öllum opinn? Hvort væri betra í eldfjallagarði á Reykjanesskaga?

Þríhnúkar

Í Þríhnúkagíg.

Hér að ofan hefur verið velt upp ýmsum spurningum hvað varðar borun í Þríhnúkagíg en tekið skal skýrt fram að ekki er verið að taka afstöðu til þess hvort borun í gíginn sé réttlætanleg. Það sem helst vakir fyrir höfundi með ofangreindum vangaveltum er að borun í Þríhnúkagíg á erindi við umræðuna um verndun jarðminja og náttúruvernd. Má vel vera að borunin sjálf gæti leitt til aukinnar verndunar svæðisins og nánasta umhverfi þess. Sjálfsagt er þó að allar hliðar málsins séu skoðaðar. Það er þó ljóst að Þríhnúkagígur hvort
sem borað verður í hann eða ekki, á mikið erindi í eldfjallagarð sem stórbrotið eldvarp og jarðminjasvæði.”

Heimild:
-Eldfjallagarður og jarðminjasvæði á Reykjanesskaga, Helgi Páll Jónsson, Jarðvísindadeild Háskóli Íslands 2011.

Reykjanesskagi

Eldgos á Reykjanesskaga 2021.

Ferlir

Sögulegt ferðalag hófst með tölvupósti eitt síðdegið; “Hér er einstaklingur, Þjóðverji, sem þarfnast leiðsagnar upp í Brennisteinsfjöll – í hellinn Ferlir. Getur þú bjargað því? Ég þekki engan, sem þekkir hann betur en þú.”

Brennisteinsfjöll

Efst í Kerlingarskarði.

Ég var nú ekki beinlínis að leiðsegja fólki þrátt fyrir að hafa gengið svæðið fram og aftur og auk þess lokið námi í svæðaleiðsögn á Reykjanesskaganum á vegum FSS.
En hvað gerir maður ekki fyrir vini sína. Svarið var: “Já, en þú þarft að sjá um innheimtu og tryggingar”. Sendandinn var Björn Hróarsson hjá Iceland Extreme, þaulreyndur í faginu (að ég hélt).
Sótti einstaklinginn, Carlottu, á hótel sitt í Reykjavík á umsömdum tíma. Með okkur í för var dyggur aðstoðarmaður, Alda; þaulkunnug í Brennisteinsfjöllum.
Í ljós kom að Carlotta hafði keypt ferð í Fjöllin í tilefni af fimmtugsafmæli sínu. Draumur hennar var að sjá “græna stöffið” í hellinum Ferlir. Hún hafði séð stöffið á myndum og langaði að berja það eigin augum. Sjálf væri hún leiðsögumaður og hefði um stund átt íslenskan kærasta (sem var reyndar aukaatriði).
Spurð hvort hún treysti sér í a.m.k. 10 tíma göngu svaraði hún: “Að sjálfsögðu. Tju, hvað heldur’u að ég sé? Ég hef meira úthald en það.”
“Græna stöffið er mun óaðgengilegra en þú heldur”, svaraði ég, “og það er og verður þitt vandamál þegar þangað kemur”.

Brennisteinsfjöll

Á leið í Brennisteinsfjöll.

Ekið var á tveimur bílum á Suðurstrandarveg, öðrum lagt við veginn neðan við Lyngskjöld og hinum ekið til baka að Bláfjallavegi og lagt neðan Kerlingarskarðs. Þaðan héldum við þrjú áleiðis upp skarðið, ég studdur af göngustafnum “Staðföstum” og Carlotta með bakpoka um axlir. Þegar komið var inn fyrir Kistufell skall á niðdimm þoka. Tekin var nestispása í skjóli undir stórbrotnum börmum gígsins.
Þokan var jafndimm sem fyrr. Að fenginni reynslu var ákveðið að feta sig blindandi áfram um kunnar lægðir Kistuhraunsins til suðurs uns ákveðið var að setjast niður um stund. Carlotta spurði hvort við værum villt.

Brennisteinsfjöll

Gígurinn í Brennisteinsfjöllum.

Svarið var: “Nei, við þurfum einungis að bíða hér stutta stund. Að baki okkar er hár gígur. Hann ekki sést núna, en þegar rofar til sjáum við hann og finnum við leiðina að hellinum Ferli.” Við höfðum gengið í þrjár klukkustundir.
Ekki var að sökum að spyrja; þokunni létti. Við sátum undir gígnum umtalaða.
Stefnan var tekin niður að hellisopinu. Þegar inn var komið tók Calotta upp vasaljós og myndaði innvolsið á Iphone og spurði: “Hvar er græna stöffið?”
Við horfðum á hana – og síðan hvort á annað. Hún virtist ólíkleg til árangursríks klifurs eða skriðs um þröngar rásirnar.

Ferlir

Ferlir – Carlotta skoðar sig um í hellinum.

“Græna stöffið er innan við rás á efri hæð hellisins. Til þess að komast þangað þarftu að klifra þangað upp og skríða síðan um þrönga rás uns hún opnast í neðanverðum gangi. Innan við hann er uppgangur. Í honum er stöffið.”
Eftir svolitla umhugsun kvaðst Carlotta hvorki treysta sér í klifrið né í skriðið. Samkomulag náðist loks um að Alda tæki með sér tölvuna hennar, klifraði upp í rásina og næði á hana eftirsóknarverðum myndum. Þetta gekk eftir með tilheyrandi biðtíma, enda ferðalagið um ofanverð göngin allt annað en auðvelt. “Græna stöffið” er lítill marglitur hraunfoss innst í einni rásinni, sem fyrr sagði. Nýbráðið bergið hafði náð að storkna þar áður en upprunalegu litir þess blönduðust og mynduðu hinn venjulega súpugráa hraunlit. Fyrirbærið er í rauninni einstakt á heimsvísu og vel þess virði að leggja á sig ferðalag til að berja það augum – treysti fólk sér til þess. Eitt er þó að rata inn og annað að finna leiðina til baka um ranghalana!

Ferlir

Hellisopið.

Þegar út úr hellinum var komið var um tvær leiðir að velja; að ganga til baka upp þokukenndar hlíðar Brennisteinsfjalla eða niður með augljósum hlíðum Vörðufells og Sandfells um Lyngskjöld að Suðurstrandarvegi.
Ákveðið var að halda áfram niður á við til suðurs. Eftir stutta göngu sagðist Carlotta ekki geta gengið lengra. Hún væri komin með gamalreyndan verk í mjöðm. Hún hefði fengið slíkan verk áður og þá fengið viðeigandi lyf er virkaði, en það gleymdist á hótelherberginu.

Ferlir

Leiðin að “græna stöffinu”.

Nú voru góð ráð rándýr. Tveir möguleikar voru í boði; annars vegar að kalla til þyrlu Landhelgisgæslunnar eða halda áfram á fæti.
Ég byrjaði á að taka bakpokann af Carlottu. Sá virtist óvenju þungur. Kíkti í pokann. Í ljós kom m.a. stórt vasaljós og tugir þungra rafhlaða, sem hún hafði fengið í fararteski hjá ferðaþjónustunni. Ákvað að axla pokann á annarri og styðja Carlottu með hinni, fetandi sporið í rólegheitunum með hana kvartandi áleiðis niður að Lyngskyldi. Carlotta var nokkrum sinni komin að því að gefast endanlega upp. Þykkur mosinn í hæðum og lægðum var torfær og allt annað en auðveldur yfirferðar. Við settumst því niður með jöfnu millibili. Alda ákvað að taka þungan bakpokann á bakið og halda ein áfram áleiðis niður að bílnum utar við Suðurstrandarveginn og færa hann mun nær þeim stað á veginum sem okkar var að vænta.

Regnbogi

Hluti regnbogans.

Ég bauð Carlottu göngustafinn Staðfast til stuðnings. Hún var í fyrstu treg til en þáði loks boðið og studdi sig dyggilega við hann í framhaldinu. Saman tókst okkur þannig, fet fyrir fet, að komast yfir mosahraunið og niður að Lyngskyldi. Ofan af brúninni sást til sjávar á annars bjartri sumarnóttunni. Handan við ströndina lék marglitur regnbogi alls kyns listir í næturskímunni.
Carlotta sat um stund þegjandi yfir dásemdinni, stóð síðan upp á báðum fótum og sagði þetta vera óútskýranlegt tákn um að hún væri hólpin. Almættið hefði brosað til hennar.
Við komust niður af Lyngskyldi 12 klukkustundum eftir að við lögðum á Kerlingarskarðið handan fjallanna.
Bæði vasaljósi og öllum rafhlöðunum var skilað á skrifstofu ferðaþjónustunnar tveimur dögum síðar. Björn var ekki við.  Aldrei hefur verið rukkað fyrir ómakið. – ÓSÁ

Ferlir

“Græna stöffið”.

Seltún

Verkefnið um Brennisteinsvinnslu í Krýsuvík er unnið 2010-2014 með það að markmiði að safna upplýsingum um minjar tengdar brennisteinsnámusvæðunum á Reykjanesskaganum; í Seltúni og Baðstofu í Krýsuvík annars vegar og Brennisteinsfjöllum hins vegar, sem og að skrá og miðla fróðleiknum til annarra.

Brennisteinsvinnsla

Brennisteinsnám á Reykjanesskaga.

Meginviðfangsefnið er þó að reyna að gefa sem sögulegast yfirlit um brennisteinsvinnsluna, bæði í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum, með hliðsjón af fyrirliggjandi heimildum og leggja fram fornleifaskráningu af svæðunum (sjá fornleifaskráningu af svæðu, auk korta og örnefnaloftmynda á Krýsuvíkursvæðinu). Fylgt var leiðbeiningum Minjsstofnunar Íslands (Fornleifaverndar ríkisins) um fornleifaskráningu.
Eins og að framan greinir er Krýsuvíkursvæðinu skipt í tvennt, annars vegar Seltúnssvæðið með tilheyrandi minjum sem og svæði norðan Kleifarvatns er tengst gæti brennisteinsvinnslunni á árunum 1879-1883 og hins vegar Baðstofusvæðinu ofan svonefndra bústjórahúsa. Götur að námunum eru tilgreindar í örnefnalýsingum um Krýsuvík og verður því einnig lýst hér, enda hlutar af órjúfanlegri minjaheild.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í Brennisteinsfjöllum er í lýsingum og getið heimilda um leiðir að og frá námunni og minja við þr sem og námusvæðið sjálft austan Kistufells. Öll voru námusvæðin fyrrum í Krýsuvíkurlandi (sjá kort á bls. 4) og tilheyrðu því lögsagnarumdæmi Grindavíkur á meðan var. Um er að ræða hluta af atvinnu- og verslunarsögu Íslands og því ástæða til að halda henni til haga. Talið er að brennisteinn hafi verið unninn af Krýsuvíkurbónda á námusvæðinum allt frá 12. öd. Á 17. öld yfirtók danski konungurinn eignarhaldið uns þar var framselt einstaklingum og loks félögum í eigu erlendra aðila. Endalok brennisteinsvinnslu í Krýsuvík var um 1882 og í Brennisteinsfjöllum þremur árum síðar.

Ritið í heild fæst hjá Antikva ehf í Garðabæ.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

FERLIR hefur safnað og skráð heimildir um brennisteinsnám í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Safnið er 68 blaðsíður þar sem getið er bæði um sögu brennisteinsnámsins og sögu.

1. Inngangur

Uppdráttur af brennisteinsnámusvæðinu í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Verkefnið var unnið sem áfangi í fornleifafræðinámi við Háskóla Íslands í samráði við skoraformann í sagnfræði- og heimspekideild, Steinunni. J. Kristjánsdóttur.

Meginviðfangsefnið er að gefa sögulegt yfirlit um brennisteinsvinnslu í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum með hliðsjón af fyrirliggjandi heimildum og leggja fram fornleifaskráningu af svæðunum (sjá fylgiskjöl auk korta). Fylgt var leiðbeiningum Fornleifaverndar ríksins um fornleifaskráningu.

Í Krýsuvík er svæðinu skipt í tvennt, annars vegar Seltúnssvæðið með tilheyrandi minjum og svæði norðan Kleifarvatns er tengst gæti brennisteinsvinnslunni á árunum 1879 til 1883 og hins vegar Baðstofusvæðið ofan fyrrverandi bústjórnarhúsa. Götur að námunum eru tilgreindar í örnefnalýsingum um Krýsuvík.

Krýsuvík

Krýsuvík – brennisteinsnámur; Nicholas Pocock 1791.

Í Brennisteinsfjöllum er í lýsingum getið heimilda um leiðir að og frá námunni og minja við þær sem og námusvæðið sjálft austan Kistufells. Öll eru námusvæðin í Krýsuvíkurlandi.

Um er að ræða hluta af atvinnu- og verslunarsögu Íslands og því ástæða til að halda henni til haga. Talið er að brennisteinn hafi verið unninn af Krýsuvíkurbónda á námusvæðunum allt frá 12. öld. Á 17. öld yfirtók danski konungurinn eignarhaldið uns það var framselt einstaklingum og loks félögum í eigu erlendra aðila. Endalok brennisteinsvinnslu í Krýsuvík var um 1882 og í Brennisteinsfjöllum þremur árum síðar.
Ritgerð – brennisteinsnam III

Heimildir:
-Fornleifaskráning. Skráningarstaðlar og leiðbeiningar. Fornleifavernd ríkisins 2008 – http://www.fornleifavernd.is/files/8/20080609105155104.pdf
-Frank Ponzi. Ísland fyrir aldamót, 1995, bls. 126-141 og Sveinn Þórðarson, Auður úr iðrum jarðar, 1998, bls. 113-129.
-Ólafur Olavius. Ferðabók, landshagir í norðvestur, norður- og norðaustursýslum Íslands 1775-1777, ásamt ritgerðum Ole Henchels um brennistein og brennisteinsnám og Christian Zieners um  surtarbrand, 1965, bls. 259-274.
-Ari Gíslason. Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík (ÖÍ) og Gísli Sigurðsson, Örnefnalýsing fyrir Krýsuvík (ÖÍ).
-Gísli Sigurðsson. Örnefnalýsingi fyrir Krýsuvík (ÖÍ) og Ólafur Þorvaldsson, Selvogsgata og Krýsuvíkurleiðir, sérrit úr Árbók Ferðafélags Íslands 1999, 36 bls.
-Sveinn Þórðarson. Auður úr iðrum jarðar, saga hitaveitna og jarðhitanýtingar á Íslandi, 1998, bls. 113-127.
-Frank Ponzi. Ísland fyrir aldamót, 1995, bls. 126-141 og Sveinn Þórðarson, Auður úr iðrum jarðar, 1998, bls. 113-129.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námusvæðið.

Brennisteinsfjöll

Haldið var upp Kerlingarskarð frá sæluhúsinu við Bláfjallaveg, gengið suður með vestanverðum Draugahlíðum, inn í brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum, og þær skoðaðar sem og tóftir búðanna. Litið var eftir hellisopum, sem spurnir hafa borist af, í suðaustanverðu Kistufelli og kíkt á flugvélaflak sunnan í fellinu. Þá var gengið upp í Kistufellsgíg og til norðurs austan Hvirfils. Ljósmyndari frá tímaritinu Útiveru var með í för til að festa landslag, minjar og fleira á filmu til birtingar með grein, sem mun birtast fljótlega í tímaritinu.

Kerlingarskarð

Búð námumanna undir Kerlingaskarði.

Þegar gengið er áleiðis upp í skarðið blasa Bollarnir við, nyrst Stóribolli, þá Miðbolli og síðan Syðstubollar (Þríbollar), en einu nafni nefnast þeir Grindarskarðshnúkar. Undir skarðinu er tóft frá tímum brennisteinsvinnslunnar. Þar hafa námumenn “umskipað” afurðunum og tekið með sér birgðir upp á námusvæðið. Tugir hesta voru í hverri lest og margir höfðu atvinnu af vinnslunni og flutningunum. Til stóð að strengja vír úr Grindarskarðshnúkum niður á slétt hraunið neðan skarðsins, vírnum var skipað á land í Hafnarfirði, en hann var það þungur að ekkert farartæki gat flutt hann upp fyrir skarðið. Vírinn lá því óhreyfður á hafnarbakkanum árum saman.

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Á uppleiðinni eru nokkrir stuttir hellar og stór hrauntröð úr Miðbolla. Fallegar hraunmyndanir eru í sumum hellanna. Efst í Kerlingarskarði er drykkjarsteinn. Hann var hálffullur af vatni. Sumar sagnir segja að drykkjarsteinarnir hafi átt að vera tveir þarna. Þegar betur var að gáð sást hvar önnur skál í móbergsklöpp var þar örfáum metrum ofar. Eftir að hafa hreinsað mold og möl upp úr skálinni kom í ljós hinn myndarlegasti drykkjarsteinn, greinilega mikið notaður í gegnum aldir. Sennilega hefur hann fyllst þegar ferðir lögðust að mestu af um götuna og enginn orðið til að halda honum við (hreinsa upp úr honum eins og drykkjarsteina er þörf). Nú er þessi stærri skál orðin tilbúin að nýju og vonandi fyllst hún fljótlega af vatni, vegfarendum til svölunar.

Kerlingarskarð

Drykkjarsteinn efst í Kerlingarskarði.

Ofan við skarðið var staðnæmst og dást að útsýninu. Ofan þess blasir Miðbolli við í norðri, Kóngsfellið og Bláfjöllin austar. Löngum hefur verið deilt um hvort sýslumörkin mættust í Kóngsfelli eða Stóra-Kóngsfelli við Drottningu undir Bláfjöllum. Sagt er að fjárkóngarnir að austan, sunnan, vestan og norðan hafi mæst í Kóngsfelli og ráðið ráðum sínum. En þar sem menn hafi ekki verið alveg vissir um hvaða fell var hið eina rétta Kóngsfell, enda öll keimlík aðkomu, hafi nöfnin færst yfir á hin. Litla-Kóngsfell er t.d. á mótum þriggja gatna og Kóngsfell er á mótum þriggja sýslna. Kannski þess vegna hefur línan einhvern tímann verið dregin í Stóra-Kóngsfell, svona til að hafa það með í hópnum.

Miðbolli er einn fallegasti eldgígur landsins. Neðar mátti sjá Litla Kóngsfell og sunnar Draugahlíðar. Í suðri voru nokkrir eldgígar.

Brennisteinsfjöll

Miðbolli (t.h.) og Kóngsfell.

Gengið var meðfram þeim og síðan til suðurs vestan Draugahlíða, framhjá útdauðu hverasvæði og síðan suður með miklu misgengi (sigdal), sem þarna liggur þvert í gegn ofan Draugahlíða. Hinn myndarlegi Draugahlíðagígur trjónaði stór og stoltlegur á baki þeim. Hvirfill stendur að vestanverðu, en hann er stærsta eldstöð Brennisteinsfjalla, frá því á síðasta jökulskeiði. Þegar komið var upp á hrygg sunnan gígins opnaðist fagurt útsýni yfir Brennisteinsfjöllin. Þessi fjallshryggur hefur verið eldvirkur fyrir og eftir landnám.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll.

Gengið var á ská niður gróna hlíð, niður að tóft af búðum brennisteinsnámumanna. Í henni má enn sjá bálkana beggja vegna sem og leifar pottofns. Tóftin stendur undir læk, sem kemur ofan úr hlíðinni. Reyndar var hann vatnslítill þetta sinnið. Tveir hálfleygir rjúpuungar leituðu að öruggara skjóli. Móðirin fylgdist lífsreynd með.

Brennisteinsfjöll

Tóft námumanna í Námuhvammi.

Neðar eru brennisteinsnámurnar. Þær eru í hraunhlíð. Sést vel hvernig grafið hafði verið inn í bakkann og brennisteinskjarninn eltur inn og niður í hraunið. Svæðið hefur að öllum líkindum verið miklu mun virkara á námutímanum. Götur liggja frá námusvæðinu út á stóra hrauka þar sem námumenn hafa losað sig við afkastið. Hlaðin tóft er í skjóli í hraunkvos og við hana ofn hlaðinn úr múrsteinum. Bakki hafði hrunið yfir ofninn, en með því að skafa lausan jarðveg ofan af kom efsti hluti hans í ljós.

Brennisteinsnámur

Brennisteinsnámur í Brennisteinsfjöllum – uppdráttur ÓSÁ.

Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin sjálfr er sögð hafa verið um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Brennisteinn var fluttur út frá Íslandi allt frá 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld.

Brennisteinsfjöll

Bræðsluofn í brennisteinsnámunum.

Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279. Mest er af brennisteini á norðausturhluta og suðvesturhluta landsins og er þar að finna stærstu námurnar, t.d. í Reykjahlíð í Mývatnssveit á Norðausturlandi en í Brennisteinsfjöllum og í Krísuvík á Suðvesturlandi.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:

Brennisteinsfjöll

Ofninn.

“Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.”

Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.

Brennisteinsfjöll

Gata í námunum.

Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær en svo virðist sem bæði kirkju- og konungsvald hafi áttað sig á þessu snemma enda reyndu þau mikið til að afla sér einkaréttar á verslun með brennistein. Landið varð snemma frægt fyrir þetta gula efni en í tilraunum Danakonunga fyrr á öldum til þess að veðsetja landið var talinn mikill kostur að landið væri ríkt af brennisteini.

Brennisteinsfjöll

Í brennisteinsnámunum.

Námusvæðið var rissað upp til varðveislu í Reykjanesskinnu til síðari tíma nota.
Þá var gengið til suðurs með Brennisteinsfjöllum og áleiðis upp í suðausturhlíðar Kistufells. Þar var að sjá mikið brak úr flugvél, sem brotlenti í hlíðinni. Mótorinn var neðar, en talsvert af hlutum á víð og dreif hingað og þangað. Um var að ræða Hudson l/251, tveggja hreyfla kafbátaleitarvél frá breska flughernum. Slysið varð í 27. mars árið 1945. Með vélinni fórust fimm menn. Af einhverri ástæðu varð ein FERLIRshúfan eftir þegar svæðið var yfirgefið. Hún kom hins vegar í leitirnar síðar þegar annar leiðangur heimsótti svæðið.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Gengið var upp með sunnanverðu Kistufelli og að Kistufellsgíg (Kistugíg). Hann er einn stórkostlegasti gígur landsins. Háir hamraveggir eru umhverfis gíginn og nýrri hraun hefur runnið ofan í hann á tveimur stöðum. Lóuhreiður var á gjárbarminum og var fyrsti unginn að reyna að brjóta sér leið út. Móðirin hafði greinilega verpt öðru sinni þetta sumarið. Hálffleigur lóungi reyndi að flögra í felur, en stefndi fram af gígbarminum. Aðstaðan hlaut að hafa komið honum á óvart. Kistufellið er 602 m.y.s.

Kistufell

Kistufellstaumur.

Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist. Nýjasta er sennilega á 14. öld. Eftir að jökul leysti af skaganum fyrir um 12-15 þúsund árum hafa um 200 eldstöðvar á fjórum eldstöðvarkerum verið virkar á svæðinu og úr þeim runnið um 42 rúmkílómetrar af hrauni sem þekur yfir 1000 ferkílómetra landssvæði. Þar má finna helstu gerðir íslenskra eldstöðva eins og hraunskildir(dyngjur), gígaraðir, gígahópar og sprengigíga. Flest þessara einkenna má finna í Brennisteinsfjöllum.
Gengið var niður í gíginn og hann skoðaður neðanfrá. Þá sást vel hversu stórfengleg náttúrusmíð hann er. Gígurinn er sigdæld líkt og misgengisdalurinn austan Hvirfils. Norðan gígsins er stór og mikið hrauntröð er liggur til norðurs og beygir síðan til vesturs.

Kistufell

Hreyfillinn, sem fjarlægður var úr Kistufelli.

Skoðað var í hellaop suðaustan í Kistufelli og síðan haldið til norðurs milli Hvirfils og Draugahlíða. Þar á ás, ofan við brennisteinsmámasvæðið, er varða. Frá henni sést í aðra vörðu ofar á ásnum. Við hana er stórt vatnsstæði í gíg. Talsverð landeyðing er þarna efst, en þegar götu frá vörðunni er fylgt til norðurs má sjá hana greinilega liggja niður ásinn og áfram með vestanverðum hraunkantinum, milli hans og hlíðarinnar. Varða er við rætur ássins þeim megin og síðan tvær fallnar vörður við stíginn þar sem hann liggur áleiðis að sunnanverðum syðsta Syðstabolla.

Brennisteinsfjöll

Leið vestan Kerlingarhnúka að Kerlingarskarði.

Þar liggur gatan greinilega niður dalverpi með háum hamravegg á vinstri hönd og Bollann á þá hægri. Þetta er mjög falleg leið og auðfarin. Þegar halla fer niður á við beygir gatan til vinstri og síðan áleiðis niður mosahlíðina vestan undir Bollunum. Hér gæti hafa verið um aðra leið brennisteinsnámumanna að ræða, en hún er stysta og einnig sú greiðfærasta þangað, auk þess bæði áreiðanlegt og gott vatnsstæði er á leiðinni.
Frábært veður – sól og hiti. Gangan tók 6 klst og 6 mín.

Um brennistein:
http://www.idan.is/1000/01,01,02_brennisteinn.html

Kistufellsgígur

Kistufellsgígur.

Selvogsgata

Gengið var frá Bláfjallavegi suður Selvogsgötu áleiðis upp Kerlingarskarð.

Selvogsgata

Kerlingarskarð framundan.

Við götuna, þegar komið er svo til miðja vegu upp í skarðið, eru nokkrir hellar, hér nefndir Hallahellar eftir einum þáttttakenda, sem var hvað áhugasamastur um leitina. Einn þeirra (vinstra megin við götuna) er í sæmilegu jarðfalli og gengið inn í hann til suðurs. Þegar inn er komið liggja rásir bæði til hægri og vinstri. Hægri rásin opnast út en sú vinstri lokast fljótlega. Í loftinu er einstaklega fallegt rósamynstur. Innar eru myndarlegir separ (Spenastofuhellir). Skammt norðar er mjög stórt jarðfall, sem band þarf til að komast niður í. Það hefur ekki verið kannað, svo vitað sé.

Spenastofuhellir

Í Spenastofuhelli.

Rúst af búðum brennisteinsnámumanna er norðan til undir Kerlingarskarði. Efst í skarðinu (vinstra megin) er drykkjarsteinn, sem ferðalangar hafa löngum stólað á að væri vatn í. Svo reyndist vera að þessu sinni. Fokið hafði í skálina og var tækifærið notað og hreinsað upp úr henni. Drykkjarsteinn átti einnig að hafa verið í Grindarskörðum, en hann virðist hafa verið fjarlægður.
Gengið var til vesturs ofan við Bolla, framhjá fallegum hraungígum, inn eftir tiltölulega sléttum helluhraunsdal og áleiðis að Kistufelli. Staðnæmst var við Kistufellsgíginn og litið yfir hann, en gígurinn er einn sá fallegasti og stórbrotnasti hér á landi. Vestan við gíginn eru nokkur stór jarðföll og í þeim hellahvelfingar. Í sumum þeirra er jökull á botninum og í jöklinum pollar eftir vatnsdropa. Þegar droparnir falla í pollanna mynda þeir taktbundna hljómkviðu í geimunum.

Kerlingarskarð

Tóft brennisteinsvinnslumanna undir Kerlingarskarði.

Haldið var undan hlíðum, niður í brennisteinsnámurnar í Brennisteinsfjöllum. Ofan þeirra er tóft af búðum námumanna. Sést vel móta fyrir henni. Neðar er námusvæðið. Þar má sjá hvar brennisteinninn var tekinn úr kjarnaholum, en gjall og grjót forfært og sturtað í hauga. Sjá má móta fyrir götum við haugana, sem og nokkrum múrsteinum frá námuvinnslunni. Undir bakka er hægt að sjá einn ofninn, ef vel er að gáð.
Gengið var niður með suðurenda Draugahlíða. Þar fyrir ofan er gígur, sem mikið úfið hraun hefur runnið úr áleiðis niður í Stakkavík.

Selvogsgata

Selvogsgata ofan Bolla og Kóngsfells.

Selvogsgatan var gengin upp að Kóngsfelli, en frá því má sjá a.m.k. tvö önnur fell með sama nafni, þ.e. Stóra-Kóngsfell austar (Kóngsfell) og Litla-Kóngsfell sunnar. Stóra-Kóngsfell er á mörkum þriggja sýslna og er sagt að þar í skjóli gígsins hafi fjárkóngar hist fyrrum og ráðið ráðum sínum.

Stóribolli

Stóribolli – gígurinn.

Til baka var gengið austur og norður með Mið-Bolla og fyrir Stóra-Bolla og niður Grindarskörðin. Á sumum kortum er gamla gatan sýnd liggja milli Bollanna. Mið-Bolli er með fallegustu eldgígum á landinu. Reyndar er allt Brennisteinsfjallasvæðið mikið ævintýraland fyrir áhugafólk um útivist, jarðfræði og stórbrotið ósnert umhverfi. Varða er efst á hálsinum og síðan nokkrar á stangli á leið niður mosahlíðina. Þegar niður er komið má sjá vörðubrot og gömlu götuna markaða á kafla áleiðis að Selvogsgötunni þar sem hún liggur yfir Bláfjallaveginn og áfram áleiðis niður í Mygludali.
Veður var frábært. Gangan tók 5 klst og 2 mín.

Námuhvammur

Tóftin í Námuhvammi oafn við brennisteinsnámurnar.

Ferlir

Haldið var upp Mosaskarð með öflugri sveit HERFÍsmanna.
Á leiðinni var litið ofan í Mosaskarðshelli, en ekki farið niður í hann. Uppi við brún að vestanverðu fundu hinir vönu hellamenn strax lykt af opinni rás og fannst þá op (Mosaskarðshellir efri) er reyndist vera um 20 metra hellir í lítilli rás.

Ferlir

Í Ferli.

Gengið var beint upp hraunið yfir á jökulskjöldinn og þaðan á ská áleiðis í FERLIR. Hann var skoðaður í um 3 klst. Skoðaðir voru um 450 metrar af hellinum, en hann mun enn ekki vera fullkannaður. Kúbeinið góða var ekki með í för og takmarkaði það möguleikana að nokkru. Litið var á djásnin og ýmislegt fleira kom í ljós við nánari skoðun.
Björn Hóarsson lifir á reynslunni enda hefur hann ásamt félögum sínum skoðað flestalla hraunhella á Íslandi. Hann er ekki vanur að láta háfleyg lýsingarorð fylgja útlistunum á nýfundnum hellum, vill í seinni tíð hafa þá rúma og mikla um sig. Hann sagði þó litadýrðina í FERLIR vera sérstæðu hans, glerjunginn á veggunum og lengdina og þar með hliðarrásirnar.

K-4

K-4

Leitað var að opnum ofar eftir stækkaðri loftmynd. Reyndust þar vera göt, sem skoðuð voru í maímánuði í fyrra. Þær rásir eru heldur ekki fullkannaðar.
Þá var haldið niður á K-hellasvæðið og það skoðað. Fundust enn fleiri op en í síðasta leiðangri. Nefnast þau K-4, K-5 og K-6. Þá fannst K-7, en hann er framhald af K-6. Á svæðinu virðast vera hellingur af hellum.

K-4 er með fallega niðurgöngu. Um er að ræða gasuppstreymisop að hluta og upp úr því er liggur um 40 metra rás. Grönn rás liggur þvert á hana, en niðurleiðin skiptist í tvær rásir. Reyndist önnur vera um 80 metra og hin um 120 metra. Hellirinn er því um 240 metra langur.
K-5 er 60-70 m langur.

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

K-6 er víð og há rás. Liggur um 120 metra löng rás til hægri, en framundan er þverrás, bæði upp í hraunið og niður. Hliðarrásin opnast í jarðfalli og heldur síðan áfram niður um 60 metra. Þar er hann mjög hár og víður og var ís í botninum.
Ljóst er að hellasvæði þetta er að mestu ókannað, en þarna leynast áreiðanlega fjölmargar fallegar rásir sem og aðrar gersemar.
Í bakaleiðinni var gengið niður helluhraun, farið yfir fallega hrauntröð í apalhrauni og gróinni hlíð fylgt nokkra leið. Þá var gömlu girðingunni upp úr Mosaskaði henni fylgt áleiðis að skarðinu, farið yfir stóra og fallega hraunrás og síðan áfram niður skarðið. Á leiðinni niður voru nokkrar hraunbombur teknar til handargangs.
Hlýtt og bjart. Gangan tók 7 klst og 2 mín.

Mosaskardshellir

Í Mosaskardshelli. (BH)