Færslur

Brennisteinsnám

Brennisteinsfjöll draga nafn sitt af brennisteinssvæði því sem áður var unninn úr brennisteinn. Enn má sjá þar leifar námunnar sem og minjar eftir námumennina. Einnig á leið þeirra til og frá námusvæðinu, s.s. undir Kerlingarskarði við Grindarskörð (norðar) eða Bollaskörð, eins og þau voru einnig nefnd. Nefndir bollar eru ofan skarðanna þriggja, sem jafnan voru fær um hlíðarnarnar. Þverskarð er syðst þeirra.

Brennisteinsnámur

Brennisteinsnámur – uppdráttur ÓSÁ.

Þegar gengið er áleiðis upp í Kerlingarskarðið blasa Bollarnir við, nyrst Stóribolli, þá Miðbolli og síðan Syðstubollar (Þríbollar), en einu nafni nefnast þeir Grindarskarðshnúkar. Undir skarðinu er tóft frá tímum brennisteinsvinnslunnar. Þar hafa námumenn “umskipað” afurðunum og tekið með sér birgðir upp á námusvæðið. Tugir hesta voru í hverri lest og margir höfðu atvinnu af vinnslunni og flutningunum. Til stóð að strengja vír úr Grindarskarðshnúkum niður á slétt hraunið neðan skarðsins, vírnum var skipað á land í Hafnarfirði, en hann var það þungur að ekkert farartæki gat flutt hann upp fyrir skarðið. Vírinn lá því óhreyfður á hafnarbakkanum árum saman – og væri þar enn ef einhver hefði ekki séð einhvern verðmæti í honum og/eða notagildi.
Ofan skarðsins blasir Miðbolli við í norðri, Kóngsfellið og Bláfjöllin austar. Löngum hefur verið deilt um hvort sýslumörkin mættust í Kóngsfelli eða Stóra-Kóngsfelli við Drottningu undir Bláfjöllum. Sagt er að fjárkóngarnir að austan, sunnan, vestan og norðan hafi mæst í Kóngsfelli og ráðið ráðum sínum þar. En þar sem menn hafi ekki verið alveg vissir um hvaða fell var hið eina rétta Kóngsfell, enda öll keimlík aðkomu, hafi nöfnin færst yfir á hin. Litla-Kóngsfell er t.d. á mótum þriggja gatna og Kóngsfell er á mótum þriggja sýslna.

Brennisteinsnámur

Ofninn í brennisteinsnámunum.

Þegar haldið er inn í brennissteinsnámurnar sunnan í Brennisteinsfjöllum er þægilegast að halda til suðurs vestan Draugahlíða, yfir litlar gígaþústir, framhjá útdauðu hverasvæði á vinstri hönd og síðan suður eftir miklu misgengi (sigdal), sem þarna liggur þvert í gegn ofan Draugahlíða. Hinn myndarlegi Draugahlíðagígur trjónar stór og stoltlegur á baki þeim. Hvirfill stendur að vestanverðu, en hann er stærsta eldstöð Brennisteinsfjalla, frá því á síðasta jökulskeiði. Þegar komið var upp á hrygg sunnan gígins opnaðist fagurt útsýni yfir Brennisteinsfjöllin. Þessi fjallshryggur hefur verið eldvirkur fyrir og eftir landnám.
Þegar gengið er á ská niður gróna hlíð má fljótlega sjá nokkuð stóra tóft af búðum brennisteinsnámumanna. Í henni má enn sjá bálkana beggja vegna sem og leifar pottofns. Tóftin stendur undir læk, sem kemur ofan úr hlíðinni.
Neðar eru brennisteinsnámurnar. Þær eru í hraunhlíð. Sést vel hvernig grafið hafði verið inn í bakkann og brennisteinskjarninn eltur inn og niður í hraunið. Svæðið hefur að öllum líkindum verið miklu mun virkara á námutímanum. Götur liggja frá námusvæðinu út á stóra hrauka þar sem námumenn hafa losað sig við afkastið. Hlaðin tóft er í skjóli í hraunkvos og við hana ofn hlaðinn úr múrsteinum. Bakki hefur hrunið yfir ofninn, en með því að skafa jarðveginn ofan af kemur hann í ljós.

Brennisteinsnámur

Tóft brennisteinsmanna í Námuhvammi.

Englendingar hófu þar brennisteinsnám í kringum 1880 fyrir atbeina Skotans W.C. Spence Paterson, sem kenndi á Möðruvöllum í tvo vetur og varð síðan ræðismaður í Hafnarfirði. Það þurfti að brjótast í gegnum 3-4 m þykka hraunskorpu til að komast að brennisteininum og flutningar voru erfiðir, þannig að þessi starfsemi varð ekki langvinn. Flutningaleiðin sjálfr er sögð hafa verið um Grindaskörð til Hafnarfjarðar.
Brennisteinn var fyrst fluttur út frá Íslandi á 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld. Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:
“Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.”
Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.

Brennisteinsnám

Tóft húss námumanna undir Kerlingarskarði.

Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær. Árið 1560 náði konungur undir sig brennisteinsversluninni en hagnaður hans af þeirri verslun fyrsta árið var nokkur. Hagnaðurinn fór síðan minnkandi og mátti m.a. kenna um lágu verði á brennisteini erlendis. Á fyrri hluta 18. aldar lifnaði þó aftur yfir brennisteinsversluninni en árið 1852 var ákveðið að hvíla brennisteinsnámurnar þar sem búið var að fara illa með þær og vinna í þeim í langan tíma en brennisteinninn hafði í raun ekki fengið að endurnýja sig. Undir lok 19. aldar var nokkur brennisteinsvinnsla í Krýsuvík. Árið 1951 gerði Íslenska brennisteinsvinnslan hf. síðan tilraun til brennisteinsvinnslu í námum í Suður-Þingeyjarsýslu en sú starfsemi gaf fljótt upp öndina.”

Selvogsgata

Gata um Kerlingarskarð.

Þar með lauk áhuga manna á brennisteinsvinnslu hér á landi. Eftir standa námusvæðin, þ.á.m. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvík, um þennan sérstaka þátt í atvinnu- og útflutningssögu landsins. Líkt og ofninn, námurnar og minjar námumanna eru enn sýnilegar í Brennisteinsfjöllum má enn sjá minjar brennisteinsnámsins við Seltún og í Baðstofu í Krýsuvík – ef vel er að gáð. Vonandi ber landsmönnum gæfa til að varðveita þessi svæði – þrátt fyrir stóriðju og “knýjandi” orkuþörf, sem verður óþörf innan skammrar fram framtíðar.
Augljóst þykir að landsmenn hafa þörf fyrir nútímaþægindi, s.s. rafmagn. Stóriðja er hins vegar tilbúin skammtímahagvaxtarvon. Þessi skammtímahagvaxtarvon er líklegasta og greiðasta leiðin að eyðileggingu hinnar ómetanlegu náttúru og hins óafturkræfa umhverfis til lengri tíma litið.
Landsfólk þarf að gera þá kröfu til stjórnmálamanna, am.k. þeirra, sem vænta má að hafi eitthvert vit í kollinum (hvort sem um er að ræða karla eða konur), að þeir gefi sér tíma, afli nauðsynlegra upplýsinga, meti síðan valkosti og taki “réttmæta” ákvörðun, líkt og dómarar þurfa að gera í “mannefnalegum” málum. Það er “kýrskýrt” (GÁS) að hinum síðastnefndu hefur oftlega mistekist að lesa skynsamlega út úr raunverulegu meginmáli einstakra viðfangsefna þeirra (kannski vegna tímaleysis eða “færibandslegra, kerfis-, laga- eða reglugerðalegra krafna” (forskrifta)) og niðurstöðurnar verið eftir því. Ákvörðunar um náttúruna og umhverfið má aldrei vega með sama viðmiði.
Auðvitað er niðurlagið raunamædd ræða – en nauðsynleg áminning samt sem áður. Staðreyndir segja að meðan 80% fólks er sama um hvað sem er (nema sjálft sig) er 20% fólks hugsandi um hið sama (um annað en sjálft sig).
Framangreint niðurlag er ekki gagnrýni eða vanmat – einungis “föðurleg” ábending til nálægrar framtíðar (og hefur vonandi skapað rými fyrir enn eina upplýsandi ljósmynd/uppdrátt).

Heimildir m.a.:
-http://www.idan.is/1000/01,01,02_brennisteinn.html
-Saga Hafnarfjarðar.

Brennisteinsnám

Gata á námusvæðinu.

Hverasvæði

Hvera- og jarðhitasvæðin eru nokkur á Reykjanesskaganum, enda landsvæðið bæði tiltölulega ungt á jarðfræðilegan mælikvarða auk þess sem flekaskil liggja um skagann endilangann. Þau skiptast í háhita- og lághitasvæði.
Helstu háhitasvæðin eru í Brennisteinsfjöllum, á Hengilssvæðinu, yst á Reykjanesi, í Krýsuvík, við Trölladyngju, við Stóru Sandvík, í Eldvörpum og í Svartsengi. Sum svæðanna tengjast innbyrðis að einhverju leyti.

Háhitasvæði
Á vefnum Wikipedia.org er fjallað almennt um háhitasvæði:
“Háhitasvæði eru svæði þar sem hiti á 1 km dýpi er yfir 200°C. Jarðhitasvæðum er skipt eftir hámarkshitastigi í efsta lagi jarðskorpu en það er gjarnan metið með mælingu á hitastigli svæðisins. Háhitasvæði eru iðulega að finna á virkum gos- og rekbeltum, ýmist á flekamótum eða flekaskilum. Þar er jarðskorpan heitust og fer kólnandi eftir því sem fjær dregur og jarðlögin jafnframt eldri. Ummerki um háhitasvæði á yfirborði jarðar eru brennisteinshverir, gufuhverir, leirhverir og vatnshverir.

Háhitasvæði
Hitastig í miðju jarðar í kjarna hennar er um 7000°C. Uppruni þessa hita er tvíþættur. Sú orka sem átti þátt í myndun jarðarinnar fyrir 4600 milljónum ára umbreyttist í varma. Hins vegar myndast varmi í möttli og jarðskorpu vegna klofnunar geislavirkra samsæta á borð við þóríum 232Th, úraníum 238U og kalíum 40K0 og berst hann til yfirborðsins með varmaburði og varmaleiðni.

Laugardalur

Laugardalur – þvottalaugarnar.

Talið er að maðurinn hafi öldum saman nýtt sér jarðhita til að mæta ýmsum þörfum. Þar má nefna notkun til baða, þvotta, matseldar og iðnaðar. Ein frægasta laugin á Íslandi er líklega Snorralaug. Þá bendir ýmislegt til þess að jarðhiti hafi verið notaður til ylræktar til dæmis í Hveragerði og á Flúðum. Eins og nafn þeirra bendir til, voru Þvottalaugarnar í Laugardalnum lengi vel notaðar til þvotta og upp úr 1930 var farið að nota þær til húshitunar. Laugardalurinn telst þó til lághitasvæða. Þegar olíukreppa skall á árið 1970 hófst mikil vinna við að finna orkugjafa sem leysti olíu og kol af hólmi til kyndingar. Í dag eru opinberar hitaveitur á fjórða tug og litlar sveitahitaveitur tæplega tvö hundruð.

Ítalir voru fyrstir til að nýta jarðhita til raforkuframleiðslu en þá var gufuvél tengd við rafal sem framleiðir rafmagn. Í kjölfarið var fyrsta jarðhitavirkjun heims reist þar með 250 kW afköstum. Í dag er afl virkjunarinnar rúmlega 700 MW og til stendur að stækka hana í 1200 MW.  Íslendingar hafa lengi verið í fremstu röð hvað varðar jarðhitarannsóknir og jarðhitanýtingu.”

Á vefsíðum Orkustofnunnar og ÍSOR má lesa eftirfarandi um háhitasvæðin:
Megineldstöðvar
“Mið-Atlantshafshryggurinn liggur í gegnum Ísland, sem skýrir dreifingu jarðhitans um landið. Öflugustu háhitasvæðin liggja öll í gosbeltinu sem hefur myndast á flekaskilum. Þar eru skilyrði sérlega góð til myndunar jarðhitakerfa vegna nægra varmagjafa í formi heitra kvikuinnskota og margsprunginnar og vel vatnsgengrar jarðskorpu. Hringrás vatnsins flytur smám saman varma frá dýpri hlutum skorpunnar upp undir yfirborð þar sem hún þéttir að nokkru leyti yfirborðsjarðlögin með útfellingum og myndar jarðhitageyma eins og þekktir eru frá borunum niður á 1 – 3 km dýpi.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – aðkoman upp frá Fagradal – ÓSÁ.

Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í 400–500 m hæð yfir sjó. Í eldstöðvakerfinu sem kennt er við Brennisteinsfjöll er skýrt afmörkuð gos- og sprungurein með stefnu NA-SV. Kjarninn í henni er á milli Heiðarinnar há og Bláfjalla að austan og Lönguhlíðarstapans að vestan. Bláfjöll eru oft felld undir þetta sama eldstöðvakerfi sem sérstök gosrein með móbergshryggjum, dyngjum og fáeinum gígaröðum, mikilli gosframleiðslu, en furðulítið er þar um brot. Jarðhitasvæði er ekki sýnilegt í Bláfjallareininni. Brennisteinsfjöll voru á náttúruverndaráætlun 2003-2008. Þau þykja sérstök vegna óvenju fjölbreyttra jarðmyndana og þá einkum gosmenja. Bent er á að Brennisteinsfjöll og umhverfi eru meðal fárra slíkra svæða nærri höfuðborgarsvæðinu sem mega heita ósnert. Hins vegar er land þar niðurnítt af beit og uppblásið með flögum og vatnsgrafningum.
Viðnámsmælingar benda til þess að svæðið sé um 18 km2 á 700 m dýpi undir sjávarmáli, um 1200 m undir yfirborði þar sem jarðhita verður vart.

Jarðhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – námusvæðið.

Virkur jarðhiti kemur fram sem gufur í um 450 m hæð en köld ummyndun er á fjórum stöðum og vitnar um meiri virkni á fyrri tíð. Jarðhiti á yfirborði er óverulegur og miðað við útbreiðslu jarðhita og ummyndunar er svæðið um 3 km2. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum liggur í samnefndri sprungurein og hefur gosið þar a.m.k. 30–40 sinnum eftir að ísöld lauk. Brotalínur eru ungar á svæðinu frá sjó og norður á Mosfellsheiði og verða oft jarðskjálftar á um 5 km breiðu og um 40 km löngu belti. Jarðskjálftar í Brennisteinsfjöllum geta orðið nokkuð stórir.
Megingerð jarðlaga er móberg og þar sem gosstöðvar hafa náð upp úr jökli hafa runnið hraun og myndast stapar eða hraunahryggir. Allar bergmyndanir eru basalt og ekkert súrt eða ísúrt berg hefur fundist á yfirborði.

Hengilssvæði

Hengilssvæðið

Horft yfir Hengilssvæðið að hluta.

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 140 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn. Vesturhlutinn tengist eldstöðvarkerfi Hengilsins. Innan hans eru vinnslusvæðin á Nesjavöllum og á Hellisheiði. Austan Hengils er Ölkeldu­hálssvæðið, sem tengist Hrómundar­tindseldstöðinni. Sunnan þess er Hverahlíð og ný gögn benda til að vinnanlegur jarðhiti geti verið við Gráuhnúka og Meitil. Austasti hluti háhita­svæðisins tengist Hveragerðiseldstöðinni sem er útdauð og sundurgrafin.

Hellisheiðavirkjun nýtir jarðhitavökva frá Hellisheiði og Hverahlíð. Alls er talið að Hengilssvæðið geti staðið undir um 700 MWe rafafli og enn meira varmafli.

Jarðhiti á Hengilssvæðinu

Hengilssvæðið

Á Hengilssvæðinu.

Hengilssvæðið nær yfir tvær megineldstöðvar og nágrenni þeirra. Önnur, Hveragerðiseldstöðin, er útdauð og sundurgrafin. Hin er virk og nær yfir Hengil og Hrómundartind. Gosmyndanir á svæðinu eru um 800.000 ára gamlar. Elstu jarðlögin er að finna í ásunum suðaustan við Hveragerði en yngst eru hraunin sem flætt hafa frá gosreininni gegnum Hengil.

Gosmyndanir á Hengilssvæðinu eru fjölbreyttar. Aðalgerðir eldstöðva eru þó einungis tvær, tengdar sprungugosum og dyngjugosum. Jarðskorpuhreyfingar í gliðnunarbelti, eins og verið hefur á Hengilssvæði allan þann tíma sem jarðsaga þess spannar, sýna sig í gjám og misgengjum og hallandi jarðlögum á jaðarsvæðunum. Skjálftabelti Suðurlands gengur austan til inn í Hengilssvæðið.

Henglafjöll

Henglafjöll.

Á vestanverðu Hengilssvæðinu er landslagið mótað af gosmyndunum sem hafa hlaðist upp á síðasta jökulskeiði og á nútíma. Austan til hafa roföflin hins vegar mótað það.

Laus jarðlög þekja sléttlendi og fjallshlíðar eru hvergi mjög skriðurunnar nema þar sem þykk hraunlög eru í brúnum eða fjöllin eingöngu úr bólstrabergi. Um vatnafar á Hengilssvæðinu skiptir í tvö horn. Á því vestanverðu eru stöðugar lindir og lækir einungis þar sem jarðlögin eru svo ummynduð að þau halda vatni. Annars sígur þar allt vatn í jörð. Á austanverðu svæðinu renna ár og lækir árið um kring.

Hengilssvæðið er með stærstu jarðhitasvæðum á landinu, eða um 100 km2. Það er þó ekki allt einn og sami suðupotturinn, heldur er það a.m.k. þrískipt:

Grændalur

Í Grændal.

Suðaustasti hluti þess er í Hveragerðiseldstöðinni (Grændalur). Hún er hætt gosum og þegar nokkuð rofin. Boranir í Hveragerði og upp með Varmá hafa sýnt að þar er á ferðinni afrennsli af heitara svæði norðar eða norðvestar. Vinnsla umfram það sem núverandi borholur gefa myndi því byggjast á borunum í Grændal. Ef nefna ætti eitthvert séreinkenni þessa svæðis, þá væru það kísilhverirnir í Hveragerði og á Reykjum, eða hinar fjölmörgu laugar sem spretta fram úr berghlaupum í Grændal. Innan um eru gufuhverir sem gjarnan fylgja sprungum tengdum Suðurlandsskjálftum. Mörg dæmi eru um hverabreytingar á þessu svæði, bæði fornar og nýjar. Svæðið er þægilega lágt í landinu, um og innan við 200 m. Aðgengi útheimtir vegalagningu yfir skriðurnar vestan megin í dalnum án þess að spilla hverum eða laugasvæðum.

Reykjadalur

Í Reykjadal.

Ölkelduhálssvæðið sker sig úr fyrir kolsýrulaugarnar sem eru í þyrpingu frá Ölkelduhálsi suður í Reykjadal og í Hverakjálka. Jarðhitinn þar fylgir gosrein með misgömlum móbergsfjöllum og stökum hraungígi, Tjarnarhnúki.
Loks er jarðhitasvæðið í Henglafjöllum. Það nær frá Nesjavöllum suðvestur í Hveradali og Hverahlíð. Jarðhitinn er mestur og samfelldastur utan í Hengli alls staðar nema norðvestan megin. Brennisteinshverir eru mestir vestan til í Henglafjöllum, þ.e. í Sleggjubeinsdölum, norðan við Innstadal og ofan við Hagavíkurlaugar. Austan megin eru kalkhverir og kolsýrulaugar algengar. Jarðhitanum á Henglafjöllum má hugsanlega skipta í nokkur vinnslusvæði, sem öll gætu verið innbyrðis í þrýstisambandi: Nesjavelli, Sleggjubeinsdal, Hellisheiði, Hverahlíð, Þverárdal, Innstadal og Fremstadal.
Landslag á svæðinu er fjöllótt og vinnsla jarðhita fer mjög eftir aðgengi að viðkomandi svæðum. Einnig eru jarðhitasvæðin misjafnlega heppileg til nýtingar, sem aðallega fer eftir hita og kolsýruinnihaldi.

Reykjanessvæði

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ÍSOR.

Á Reykjanesi kemur gliðnunarbelti Reykjaneshryggjarins úr sjó. Eystri hluti Reykjaness er klofinn af misgengjum og opnum gjám, en vestari hlutinn að mestu hulinn yngri hraunum úr Stamparöðinni. Úr henni hefur gosið 3-4 sinnum á síðustu 5 þúsund árum, síðast 1226. Líklegt er að tvær aðskildar sprungureinar séu á Reykjanestá, og að háhitakerfið sé tengt þeirri eystri en nái ekki yfir í þá sem vestar liggur, þ.e. Stampareinina. Viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið sé bundið við þrönga uppstreymisrás eða sprungu og heitt afrennsli út frá henni á 2–300 m dýpi í allar áttir. Þegar rýnt er í viðnámsmyndina neðan lágviðnámskápunnar niður á 5 km dýpi má sjá svæði eða strók með lægra viðnámi en umhverfis. Vökvinn í jarðhitakerfinu er jarðsjór og hiti fylgir suðumarksferli yfir 300°C. Stærð svæðisins er talin um 9 km2 og vinnslugeta er metin 45 MWe.

Framkvæmdasvæðið er innan svæðisins Reykjanes-Eldvörp-Hafnaberg sem er á Náttúruminjaskrá, ekki síst vegna merkilegra jarðmyndana. Einnig njóta jarðmyndanir á svæðinu sérstakrar verndar skv. 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Það á við um nánast öll hraun á svæðinu, fjölda gíga, Stamparöðina og Skálafell og hvera­svæðið við Gunnuhver.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi

Gunnuhver

Á Reykjanesi – Gunnuhver og nágrenni.

Jarðhitasvæðið á Reykjanesi (á hælnum) er um það bil 1 km2 að stærð sé einungis miðað við hverina og önnur sýnileg jarðhitamerki. Viðnámsmælingar benda til að það sé a.m.k. fjórfalt stærra og teygist auk þess út í sjó til suðvesturs. Jarðhitasvæðið er að mestu þakið hraunum en móbergs- og bólstrabergshryggir standa upp úr. Einn þeirra, Rauðhólar, nær inn á jarðhitasvæðið. Þar voru fyrstu vel heppnuðu vinnsluholurnar boraðar.

Tvær gosreinar liggja yfir “hælinn” á Reykjanesi og er jarðhitinn á þeirri eystri milli Skálafells og Litla-Vatnsfells. Vestar er Stampareinin með yngstu hraununum. Á henni er ekki jarðhiti en viðnámsmælingar gefa til kynna að jarðhitakerfið nái einnig til hennar.

Stampar

Stampar.

Á Reykjanesi er að finna mörg jarðfræðileg fyrirbæri sem vert er að skoða. Þar ber af öskugíg með berggöngum þar sem Stampagígarnir ganga fram í sjó. Á jarðhitasvæðinu hafa goshverir komið upp endrum og eins, raunar tvisvar á síðustu öld í tengslum við jarðskjálftahrinur. Þeir gjósa jarðsjó en hafa reynst skammlífir.

Kísilhóll

Kísilhóll h.m.

Langlífari hefur verið goshver í svo kölluðum Kísilhól sem nú er óvirkur. Hann er úr móbergi með metraþykku kísilhrúðri ofan á. Þar má einnig sjá sprungu sem reif sig upp í skjálftahrinu fyrir 35 árum og sýnist enn fersk þar sem hún liggur norðaustur frá Gunnuhver. Það sem gefur Reykjanessvæðinu mest gildi er vitundin um að þar koma plötuskil Reykjaneshryggjarins á land.

Ferðamenn sem fara út á Reykjanes staldra hjá Valahnúkum til að skoða brimið og hjá Gunnuhver sem er leirpyttaklasi norðan undir Kísilhólnum.

Höyer

Búsetuminjar við Gunnuhver.

Búseta á Reykjanesi hefur skilið eftir sig ummerki (bú vitavarðar og nýbýlið Hveravellir). Garðrækt hefur lengi verið stunduð, efnistaka í vegi, boranir og verksmiðjurekstur og því hróflað við mörgu. Ný fyrirbæri hafa skapast. Merkast af þeim eru kísilpaldrarnir vestan undir Rauðhólum í afrennslinu frá saltverksmiðjunni.

Reykjanessvæðið er eitt best rannsakaða háhitasvæði landsins. Grunnurinn að þeim rannsóknum var lagður á árunum fyrir 1970. Þá var nýafstaðin öflug skjálftahrina og við hana færðist líf í hveri. Síðan hefur virknin dvínað töluvert.

Reykjanessvæðið er með þeim heitustu sem nýtt eru hér á landi. 30 ára vinnsla hefur ekki haft nein merkjanleg áhrif á forðann í jarðhitakerfinu. Efnainnihald í jarðsjónum skapar vanda við nýtingu en jafnframt seljanlega vöru.

Krýsuvíkursvæðið – Seltún

Seltún

Hverasvæðið í Seltúni.

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, í Krýsuvík, í Köldunámum, Trölladyngju, og við Sandfell. Krýsuvík er hluti af Fólkvangi á Reykjanesskaga. Land í Krýsuvík er í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn.

Meginsvæðið er um 80 km2 að flatarmáli. Umfangsmiklar rannsóknir standa yfir en segja má að miðja uppstreymis sé enn ekki staðsett. Í Trölladyngju eru tvær borholur. Í báðum er um 250°C hiti ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 330°C hita á rúmlega 2 km dýpi. Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á Sveifluhálsinn, með gufu- og leirhverum. Í Krýsuvík hefur dýpst verið borað um 1200 m. Hæstur hiti í borholum þar er í Hveradölum um 230°C og nærri suðuferli niður á um 300 m dýpi en þar neðan við kólnar.

Viðnámsmælingar gefa vonir um að rafafl svæðisins sé 440 MWe og varmaafl öllu meira. Svæðið er metið 89 km2 og rafafl 445 MWe. Óvissa ríkir um vinnslugetu meðan miðja uppstreymis er ekki fundin með rannsóknarborunum.

Jarðhitasvæðið Krýsuvík

Austurengjar

Hveraummyndanir á Austurengjum.

Krýsuvíkursvæðið nær yfir jarðhitasvæðin á Austurengjum, í Krýsuvík, Köldunámum, Trölladyngju og við Sandfell. Fjögur þau fyrsttöldu sýna sig samfelld í viðnámsmælingum en Sandfellssvæðið er laust frá. Meginsvæðið er hringlaga um 50 km2 að flatarmáli innan 10 ohmm jafnlínu. Sandfellssvæðið er mælt á sama hátt um 4 km2. Sveifluháls og Vesturháls með Trölladyngju eru móbergshryggir samsettir úr mörgum goseiningum og ná mest í 300-400 m hæð. Nútímahraun þekja allt sléttlendi vestan við hálsana og á milli þeirra. Upptök þeirra eru í gossprungum báðum megin við og utan í Vesturhálsi og Trölladyngju. Gossprungur eru einnig austan í Sveifluhálsi og sprengigígar á öldunum vestan hans en hraunmagn úr öllum er lítið. Gosvirknin hjaðnar þaðan til NA og verður að lægð þar sem Kleifarvatn er. Jarðmyndanir milli Sveifluháls og Austurengja eru eldri en vestur í hálsunum og á hraunasvæðunum. Efnismiklar móbergsmyndanir úr öðru eldstöðvakerfi eru austan við Kleifarvatn og öldurnar þar suður af.

Hveravirknin á fyrrnefndum fjórum jarðhitasvæðum er að ýmsu leyti ólík.

Baðstofa

Í Baðstofu.

Í Krýsuvík er hveravirknin samfelldust í Hveradölum og við Seltún og nokkuð upp á hálsinn, með gufu- og leirhverum. Þar er nokkuð um brennisteinshveri og miklar gifsútfellingar. Hverir eru einnig í Grænavatni. Frá Grænavatni og Gestsstaðavatni liggja gossprungur með fleiri gígum til norðurs, og stefnir önnur upp í Hveradali en hin á hverina við Seltún. Hæstur hiti í borholum er í Hveradölum um 230°C. Dýpst hefur verið borað um 1200 m. Hiti er nærri suðuferli niður á ~300 m dýpi en þar neðan við kólnar. Engar mælingar eru til úr borholum neðan 400 m.

Austurengjahver

Austurengjahver.

Á Austurengjum er jarðhitinn aðallega á einni rák sem nær frá Austurengjahver norður í Kleifarvatn. Töluverð ummyndun sést í bergi alllangt út frá beggja vegna. Auk jarðhitans eru á þessari hitarák nokkrir sprengigígar sem gosið hafa gjalli og smáhraunum með úrkastinu. Sá stærsti er um 100 m í þvermál skammt norðaustur af Stóra-Lambafelli og mikil gjalldreif austur frá honum. Gígar þessir eru frá því snemma á nútíma. Ein 600 m djúp borhola er við Kleifarvatn um 150 m vestan við hverarákina. Hæstur hiti í henni er um 160°C. Síðsumars 1924 lifnaði Austurengjahver við jarðskjálfta en var áður lítilfjörlegur. Stórir hverasprengigígar eru norður frá honum en eldri, sem bendir til að grunnt sé á jarðhitakerfi nærri suðu líkt og í Krýsuvík.

Köldunámur

Köldunámur.

Köldunámur heita vestan í Sveifluhálsi langt norður frá jarðhitanum í Krýsuvík. Þar skammt vestur af eru gufuaugu í hraunbolla og nokkur brennisteinn (Leynihver) en í hlíðinni köld jarðhitaskella. Gifsmulningur sést sem bendir til að þar hafi einhvern tíma verið brennisteinshverir.

Leynihver

Leynihver.

Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir fyrrnnefnda A-V-skák. Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Vestan í hálsinum frá Sogum, suður á móts við Hverinn eina, er móbergið einnig ummyndað en hvergi nærri eins og í Sogum. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Kalkhrúður finnst á tveim stöðum. Hitarák með gufuhverum liggur frá Trölladyngju um Eldborg norður í Lambafell, bundin nánast við eina sprungu. Hverinn eini er í hrauni skammt suðvestur af SV-endanum á Oddafelli. Gufuauga með smávegis brennisteini er í hraunbolla og gufur á smásvæði í kring. Þar hjá er dálítil hrúðurbunga (kísill) og kaldar hveraholur í henni. Í Trölladyngju eru tvær borholur, önnur við hverasprunguna norðan undir henni og hin á hverasvæðinu vestan undir hálsinum. Báðar gefa um 260°C hita ofarlega, síðan hitalækkun, en dýpri holan endar í 320°C hita á rúmlega tveggja km dýpi.

Sogin

Í Sogum.

Jarðhitinn sem kenndur er við Sandfell er í hrauni norðaustan undir fellinu. Þar stígur gufueimur máttleysislega upp á nokkrum stöðum. Á bletti er leirkennd ummyndun í jarðvegi og þar hefur hiti mælst nærri suðumarki. Móbergið í Vesturhálsi er nokkuð ummyndað á móts við Sandfell og inn með Selvöllum og þar eru grónar hlíðar með rennandi lækjum. Uppi á háhálsinum gegnt gufunum við Sandfell er allstór, leirgul hveraskella en alveg köld. Svæðið gæti samkvæmt því verið stærra en sýnist af yfirborðsmerkjunum.

Hitalækkun í borholum eftir að nokkur hundruð metra dýpi er náð hefur vakið spurningu um hvar uppstreymis sé að leita. Boranirnar í Trölladyngju benda til að þar sé þess að leita undir Sogum. Í Krýsuvík væri þess helst að leita undir Sveifluhálsi. Austurengjahitinn er í útjaðri jarðhitakerfisins skv. viðnámsmælingum, líkt og Trölladyngjuholurnar vestan megin. Svæðið þar sem viðnámsmælingar skynja hátt viðnám undir lágu þarf ekki að lýsa núverandi ástandi því þær sjá ekki mun á því sem var og er >240°C heitt.

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík

Stóra Sandvík.

Niðurstöður djúpviðnámsmælinga gefa til kynna að jarðhita kunni að vera að finna á Stóru Sandvíkursvæðinu. Ekki er unnt að meta stærð hugsanlegs jarðhitageymis því veru­legur hluti hans gæti legið utan við ströndina. Boranir þarf til að fullvissa sig um hvort nýtanlegur hiti sé á svæðinu. Líklegt er að jarðhitakerfið sé tengt jarðhitakerfinu á Reykjanesi og því mætti líta á Stóru Sandvík sem annan virkjunarstað á Reykjanessvæðinu.

Eldvörp – Svartsengi

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Í Svartsengi hefur verið rekin jarðhitavirkjun frá 1977 og er núverandi afl hennar 70 MWe. Í Eldvörpum liggur fyrir hugmynd um að virkja 30-50 MWe í fyrsta áfanga. Borhola, EG-2 var boruð þar árið 1983 niður í 1265 m dýpi. Hún hefur aldrei verið nýtt, en hefur verið blástursprófuð og eftirlitsmæld nær árlega alla tíð síðan. Hún sýnir náin tengsl við jarðhitasvæðið í Svartsengi, og niðurdælingasvæði Svartsengis liggur mitt á milli svæðanna. Svæðið Eldvörp-Svartsengi er talið um 30 km2 og rafafl þess er metið 150 MWe.”

Lághitasvæði

Ölfus

Ölfusölkelda á Hengilssvæðinu.

Í Wikipedia.org er einnig fjallað um lághitasvæði:
“Lághitasvæði eru skilgreind svæði með jarðhita þar sem hiti er lægri en 150°C á 1-3 km dýpi í jörðu. Lághitasvæði Íslands eru fjölmörg en þau eru misdreifð um landið. Mikill lághiti er á Vestfjörðum, í Borgarfirði og víða um Suðurland og Miðnorðurland. Lítið er um lághita á Austfjörðum og í Skaftafellssýslum. Leit að heitu vatni á lághitasvæðum til húshitunar, garðyrkju, fiskeldis eða annarra nota beinist að því að finna heitt vatn á sem ódýrastan hátt. Lághitavatn keppir við aðra orkugjafa til húshitunar.

Lághitasvæði eru stundum talin nálægt 250 á landinu, og eru þau mjög misstór, allt frá einstökum volgrum og upp í nokkra tugi uppsprettna. Oft er erfitt að skera úr hvað skuli teljast til eins og sama lághitasvæðis, og geta slíkar skilgreiningar breyst með tímanum eftir því sem þekking eykst á einstökum svæðum.”

Á vef ÍSOR segir um lághitasvæði:
Lághitasvæði“Lághitasvæði landsins eru utan við virka gosbeltið sem nær frá Reykjanestá norður um landið út í Öxarfjörð. Þau ná frá jöðrum gosbeltanna, út um allt land og út á landgrunnið. Að vísu má ná ágætis lághitavatni innan gosbeltisins, hvort heldur er til húshitunar, garðyrkju eða fiskeldis, og eru Reykjanesskaginn og Öxarfjörður gott dæmi þar um.

Lághitarannsóknir

Ölkelda

Ölkelda í Hengladölum – nú horfin.

Leit að heitu vatni á lághitasvæðum til húshitunar, garðyrkju, fiskeldis eða annarra nota gengur út á að finna heitt vatn á sem ódýrastan hátt. Lághitavatn keppir við aðra orkugjafa til húshitunar. Einstaklingar og smærri byggðarlög eiga því nokkuð undir högg að sækja þar sem samanlagður jarðhitaleitar- og vinnslukostnaður má ekki fara yfir ákveðið hámark á einhverjum ásættanlegum afskriftatíma, þó í reynd njóti nokkrar kynslóðir góðs af stundum áhættusamri jarðhitaleit.

Með breyttri tækni í jarðborunum hefur þróast upp ný leitartækni hjá ÍSOR sem kallast hefur jarðhitaleit á köldum svæðum (þurrum svæðum) og gengur slík leit út á að gera fjölda viðnámsmælinga eða bora margar 50-60 m djúpar ódýrar hitastigulsholur á tilteknu landsvæði og finna þannig út hvar grynnst er á nýtanlegan jarðhita til húshitunar (helst >60°C). Ef álitlegur valkostur finnst er nokkur hundruð metra djúp vinnsluhola boruð.”

Reykir
Lághitasvæði á Reykjanesskaganum eru t.d. yst á Reykjanesi, á Krýsuvíkursvæðinu, í Ölfusdölum, á Hengilssvæðinu og á Reykjavíkursvæðinu, s.s. á Reykjum í Mosfellsbæ og í Hvammsvík í Kjós.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/H%C3%A1hitasv%C3%A6%C3%B0i
-https://orkustofnun.is/jardhiti/jardhitasvaedi-a-islandi/hahitasvaedi/
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-i-brennisteinsfjollum
-https://www.isor.is/jardhiti-hengilssvaedinu
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-reykjanesi
-https://www.isor.is/jardhitasvaedid-krysuvik
-https://is.wikipedia.org/wiki/L%C3%A1ghitasv%C3%A6%C3%B0i
-https://www.isor.is/laghiti

Hverasvæði

Á hverasvæði Reykjaness.

Ferlir

Í Morgunblaðinu 2006 fjallar Örlygur Steinn Sigurjónsson um “Hellana í Brennisteinsfjöllum“:

“Í Brennisteinsfjöllum á Reykjanesi er áhugavert útivistarsvæði sem státar af fjölmörgum hraunhellum, skrifar Örlygur Steinn Sigurjónsson að lokinni gönguferð um svæðið í fylgd kunnugra.

Brennisteinsfjöll

Ofan Fagradals.

Það er alltaf sérstök og dulúðug stemmning að fara í hellaferð og hvernig gat mann grunað að hin margumræddu Brennisteinsfjöll lumuðu á talsverðum fjölda hella sem vert er að skoða? Fróðir ferðafélagar á borð við Ómar Smára Ármannsson frá gönguhópnum FERLIR og Einar Júlíusson frá Hellarannsóknafélagi Íslands eru nauðsynlegir á ferðum sem þessum en einnig má þess geta að bæði umrædd félög halda úti heimasíðu, www.ferlir.is og www.speleo.is. Ekki er úr vegi að geta þess einnig að Hellarannsóknafélagið hefur á heimasíðu sinni lýst yfir stuðningi við framtíðarsýn Landverndar undir yfirskriftinni „Reykjanesskagi – eldfjallagarður og fólkvangur“. Segir ennfremur að
framtíðarsýnin grundvallist á náttúruvernd samhliða fjölbreyttri nýtingu á auðlindum Rekjanesskagans.
Hellarannsóknafélag Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við þetta verkefni og telur það sérstaklega ánægjulegt að vernda eigi stór hraun, hraunmyndanir og gíga sem eru einstakir á heimsvísu. Segir Hellarannsóknafélagið að Brennsteinsfjöllin og næsta nágrenni við þau sé stærsta ósnortna landsvæðið á Reykjanesskaganum og hafi að geyma ótal marga hella sem hafa verið lítt rannsakaðir. Gígarnir og hraunin séu ótalmörg og hvert og eitt einstakt út af fyrir sig og mikil þörf á að vernda þetta svæði í heild sinni.
Undir þetta getur hver sá sem skoðar sig um á svæðinu tekið heilshugar og víst er að af nógu er að taka. Bara í þeirri ferð sem farin var að þessu sinni var í senn farið í þekkta hella og leitað nýrra.

Rannsóknarlögreglan neðanjarðar

FERLIR

FERLIR – húfa, sem þaulsetnir þátttakendur fengu sem viðurkenningarvott.

Um gönguhópinn FERLIR er það að segja að hann stóð upphaflega fyrir Ferðahóp rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík og hefur vaxið fiskur um hrygg frá stofnun árið 1999. Segja má að félagsskapurinn sé nú orðinn ein helsta uppspretta þekkingar á hellum, seljum, letursteinum, skútum, fjárborgum og fleiru á Reykjanesskaganum. Lögð er nokkur áhersla á að fá staðkunnuga á hverjum stað til að fræða þátttakendur í hverri ferð og eru

Lýðveldishellir

Við op Lýðveldishellis.

Ferlisferðirnar nú orðnar vel yfir eitt þúsund talsins. Því fylgir nokkuð sérstök tilfinning að ferðast með rannsóknarlögreglumönnum í leit að hellum og guð hjálpi þeim heimska bófa sem dytti í hug að ramba inn á Reykjanesið með ránsfeng eða fíkniefni og telja góssið öruggt í fyrsta hellisskúta sem hann fyndi. Með þeirri aðferðafræði myndi skrattinn aldeilis hitta ömmu sína en það er önnur saga. Ferlisfélagar eru heldur ekki eingöngu rannsóknarlögreglumenn heldur fólk úr lögreglunni almennt og allir þeirra vinir eða vandamenn. Sérstök derhúfa er veitt sem viðurkenning fyrir fimm Ferlisferðir. En gönguhópurinn hefur nú nýtt undanfarin misseri til að ganga um hin einstöku svæði á Reykjanesi og var upphaflegt markmið að fara eitt hundrað ferðir um svæðið til að skoða það helsta. En þrátt fyrir ferðirnar þúsund eru enn stór svæði ókönnuð. Hafa Ferlismenn nú skoðað á fjórða hundrað hella og nafngreinda skúta svo fátt sé talið.

Kistuhellar

Í Kistuhellum.

Finna má urmul leiðarlýsinga á heimasíðu Ferlis og má samsinna fullyrðingum um að svæðið á Brennisteinsfjöllum, þ.e. Kistufell, Kista og Eldborg, sé ótrúlegur undraheimur með ósnertum litskrúðugum hellum og einstökum náttúrufyrirbærum er nauðsynlegt er að standa vörð um þessa einstöku veröld, segir þar.
Á liðnum árum hafa uppgötvast þarna langir hellar og enn er svæðið langt í frá fullkannað. Gangan yfir að hellasvæðinu í Brennisteinsfjöllum tekur 2–3 klukkustundir og er haldið frá bílunum við Breiðdal við Kleifarvatn. Upp úr Hvammadal er fylgt gömlum stíg sem áður var genginn milli Kaldársels og Krýsuvíkur. Þegar upp á brúnina er komið er beygt til vinstri til að fylgja stíg austur með brúninni yfir á slétta hraunhellu Kistuhrauns, sem liggur þar milli Kistufellshraunsins í austri og Eldborgarhraunsins í vestri. Undir hinu síðarnefnda og vestar sjást fleiri Eldborgarhraun. Gangan getur talist löng og sjálfsagt er að reikna með heilum degi í hana fram og tilbaka að meðtöldum hellaferðunum.

Duttu niður í Lýðveldishellinn

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

Í vesturhlíðum Kistu er svokallaður Lýðveldishellir sem dregur nafn sitt af því að þann 17. júní árið 1994 fundu Guðmundur Löve og Þröstur Jónsson hellinn. Samkvæmt frásögn Ferlis voru þeir þarna á ferð í mikilli þoku og rigningu þegar þeir svo til „duttu“ niður um opið á hellinum. Er hann um 200 metra langur. Ferlismenn leituðu þessa hellis á sínum tíma en við þá leit uppgötvaðist annar hellir, sem fékk heitið Þjóðhátíðarhellir Norðmanna því hellisfundinn bar einmitt upp á 17. maí. Hellisopin eru ekki langt hvort frá öðru, en reyndar sinn í hvoru hrauninu, segir á Ferlisvef.
FerlirAð þessu sinni var farið ofan í annan helli sem Ferlismenn fundu líka og heitir sá FERLIR og er þarna í nágrenninu. Er þetta með litskrúðugri hellum landsins og ógleymanlegur þeim sem niður í hann fara. Lítil hraunbreiða sem þar er að finna er svo óveðruð að halda mætti að hraunið væri nýrunnið og -storknað. Þótt aldur þess sé talin í mörgun öldum virðist það samt svo glænýtt og það er töfrum líkast og horfa á þetta fyrirbæri sem gæti jafnast á við að hitta fyrir ungbarn úr grárri forneskju.
Í raun jafnast fátt á við góða hellaferð. Ljóst er að margfalt fleiri hellar en eingöngu Raufarhólshellir standa fólki til boða. Sjálfsagt er að taka með góð ljós og hlýjan fatnað sem má skemmast við mögulegan núning í hellunum. Nesti og ferðatilhögun þarf að ganga frá og sýna góða umgengni hvar sem farið er.”

Heimild:
-Morgunblaðið, 350 tbl. 24.12.2006. Hellarnir í Brennisteinsfjöllum, bls. 52.

Ferlir

Skrautlegar jarðmyndanir í hellinum FERLIR.

Hrútafellshraun

Nýlega barst FERLIR eftirfarandi póstur:
“Sæl og blessuð. Datt í hug að senda þessar myndir sem ég tók í síðustu viku þegar ég fór að finna ratleiksmerki 27 við Búðavatnsstæðið.
Á göngu eftir Hrauntungustíg sá ég hvar slétt Hrútagjárdyngjuhraunið var eins og upprétt eða uppsprengt á talsvert löngum kafla. Getur þú útskýrt fyrir mér hvaða fyrirbæri er þetta sem var þarna í gagni á sínum tíma?
Það er alveg meirihátta að sjá hraunið svona. Hef prufað að ganga yfir það og langar ekki að reyna það aftur.
Með bestu kveðju, Guðmundur Gunnarsson.”

Hrútafellshraun

Hrútafellshraun.

Svar FERLIRs var: Sæll Guðmundur, þetta er bæði sérstakt og merkilegt hraunhaft í Hrútargjárdyngjuhrauninu, sem rann fyrir ca. 7000 árum. Þegar hraun rann síðar til norðurs frá gígum norðan við Hrútafell náði það að lyfta upp hraunhellunni í jöðrum þess þannig að hraunflekar risu upp og mynduðu þessar stórbrotnu hraunmyndanir.
Eldsumbrotaskeiðið, sem stóð í um 450 ár, hófst um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraunið fyrrnefna. Síðastnefnda hraunið rann niður með Hrútagjárdyngjunni, sem fyrr sagði. Um 1151 rann svo Ögmundarhraun (sem heitir ýmsum nöfnum) á þessum kafla, frá Lat í suðri að Helgafelli í norðri. Það hraun setti einnig svip sitt á landslagið, en þó einkum austan Dyngjunar.”

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Guðmundur svaraði: Sæl, Takk kærlega fyrir greinagóða lýsingu á fyrirbærinu. Það hefur myndast gríðarlegur þrýstingur á hraunið þarna svo það brotnaði „mélinu smærra“ ef svo má að orði komast.
Mér finnst allt umhverfi Hrútagjárdyngunnar alveg einstakt og gaman að horfa á gjárnar miklu sem hafa líklega myndast við jarðsig þegar toppur dyngjunnar brotnar niður. Það er einnig gaman að ganga með henni að „utanverðu“ alveg til móts við Fjallið eina og raunar allan norðurkantinn líka.
Þakka fyrir frábæran vef, Ferlir. Hann er gríðarlega mikil þekkingarbanki um eiginlega allan Reykjanesskagann og þar hef ég leitað að upplýsingum um hitt og þetta um langt skeið. Ég byrjaði óvart í ratleiknum árið 2006 þegar ég rakst á merki við Undirhíðarnar og datt þá inn á þinn frábæra vef og hef margoft notað hann síðan mér til fróðleiks og skemmtunar.”

Á Haustráðstefnu Jarðfræðafélags Íslands 26. nóvember 2010 var m.a. fjallað um Hrútafellshraun, sem hingað til hefur flestum verið hulið:

Landnámslagið

Landnámslagið (Settlement) í sniði.

“Kortlagning og aldursgreiningar á hraunum á Reykjanesskaga hefur leitt í ljós að eldvirknin síðustu 10.000 árin einkennist af gosskeiðum sem vara í 400-600 ár. Á milli gosskeiðanna eru um 600-800 ára goshlé. Á hverju gosskeiði verða flest eða jafnvel öll eldstöðvakerfin á skaganum virk. Gossaga síðustu tveggja gosskeiða er allvel þekkt og myndin af því þriðja síðasta óðum að skýrast. Um eldri gosskeið liggja fyrir takmarkaðar upplýsingar enn sem komið er, þó bætist smám saman við ný vitneskja. Tímasetning hrauna á Reykjanesskaga byggir annars vegar á C-14 aldursgreiningum á gróðurleifum undan hraunum og hins vegar á gjóskulagatímatali.
Gjóskutímatalið byggir á Heklu- og Kötlulögum ásamt gjóskulögum sem eiga upptök í sjó við Reykjanes. Landnámslagið (LNL), frá því um 870 e.Kr. (Karl Grönvold o.fl. 1995), finnst um allan skagann og er eitt mikilvægasta leiðarlagið. Á seinni hluta nútíma, síðustu 4500 árin, er stutt á milli gjóskulaga í jarðvegssniðum og tímatalið því notadrjúgt en neðar verður það hins vegar mun gisnara, sem takmarkar notagildi þess (Magnús Á. Sigurgeirsson og Árný Erla Sveinbjörnsdóttir 2000).

Kristnitökuhraun

Jarðfræðikort.

Frá síðasta gosskeiði eru þekktir þrennir eldar, þeir fyrstu á 10. öld og hinir síðari á 12. og 13. öld. Hraun frá fyrstu eldunum eru í Brennisteinsfjallakerfinu, s.s. Tvíbollahraun, Breiðdalshraun, Húsfellsbruni, Selvogshraun og Kristnitökuhraunið. Þrjú fyrstnefndu hraunin hafa verið aldursgreind (Jón Jónsson 1983). Mögulegt verður að teljast að einhver þessara hrauna hafi brunnið á 11. öld. Öll liggja þessi hraun ofan á Landnámslaginu og undir Miðaldalaginu (ML) frá 1226.
Við kortlagningu hrauna í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu síðustu tvö sumur kom í ljós að þar er að finna hraun sem liggja fast undir Landnámslaginu. Lítill sem enginn jarðvegur er sjáanlegur þar á milli. Næsta þekkjanlega gjóskulag undir þessum hraunum, eða gjalli frá upptakagígum þeirra, er Heklulag sem er 1400-1500 ára gamalt (kallað „Gráa lagið“ vegna sérstaks litar). Yfirleitt er nokkur jarðvegur á milli „Gráa lagsins“ og hraunanna. Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga teljum við að þau séu frá 8.-9. öld. Ljóst er að hraunin tilheyra síðasta gosskeiði en ekki því næsta á undan sem varð fyrir um tvö þúsund árum. Síðasta gosskeið lengist því um allt að 200 ár og spannar tímabilið frá um 750-1240 e.Kr., eða um 500 ár.

Gjóskulög

Gjóskulög í jarðvegssniði.

Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjallakerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson (1978, 1983) taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Móhálsadalur

Móhálsadalur.

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun (hrf) (Kristján Sæmundsson o. fl. 2010). Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).

Sogin

Hraun norðan Soga.

Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.
Á báðum svæðunum, þ.e. í Móhálsadal og í Brennisteinsfjöllum, hafa hlaðist upp stórir gjall- og klepragígar sem bendir til að gosin hafa verið kröftug og staðið nokkuð lengi.

Hvammahraun

Hvammahraun.

Hraunin í Brennisteinsfjöllum ná yfir stórt svæði. Gosvirknin þar hefur smám saman færst í einn megingíg sem gefið hefur frá sér mikið af hrauninu. Hvammahraun er að mestu úfið og illfært apalhraun en umhverfis gígasvæðið er helluhraun. Talsverð hraunbunga með dyngjulögun er við aðalgíginn. Bergfræðirannsókn hefur ekki farið fram á hraununum, en samkvæmt athugunum Jóns Jónssonar (1978) er Hvammahraun fremur ólivínríkt.
Eldarnir á 8.-9. öld bæta nokkru við þá mynd sem við höfum af eldvirkni á Reykjanesskaga. Til dæmis er nú ljóst að á sama gosskeiðinu hefur gosið tvisvar í sama eldstöðvakerfi. Einnig bendir nú flest til að gosskeiðin séu nokkru lengri en talið hefur verið, en vísbendingar um það hafa einnig komið fram varðandi gosskeiðið fyrir um 2000 árum.”

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – loftmynd.

Á síðasta gosskeiði hófst gosvirknin um 800 e.Kr. í Brennsteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Rannsóknir benda til að þar hafi gosið samtímis eða því sem næst. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraun. Um hálfri annarri öld eftir að þessum eldum lauk hófst gos í Krýsuvíkurkerfinu um miðja 12. öld, líklega árið 1151. Nefnast þessir eldar Krýsuvíkureldar. Ritaðar heimildir benda til að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, sem er þeirra syðst, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun.

Vörðufellsborgir

Vörðufellsborgir.

Hraunin sem um ræðir er annars vegar að finna í Brennisteinsfjallakerfinu og hins vegar í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum eru það Hvammahraun og Vörðufellsborgahraun. Upptök þess fyrrnefnda eru í gígaröð efst í Brennisteinsfjöllum. Stærsti gígurinn heitir Eldborg. Síðarnefnda hraunið kemur frá gígaröð nokkru sunnar, vestan undir Vörðufelli, sem nefnd er Vörðufellsborgir. Skammur tími hefur liðið á milli gosanna. Hraunin eru ungleg og hafa stundum verið talin meðal sögulegra hrauna. Jón Jónsson (1978, 1983) taldi þau ekki með í þeim hópi en þó vera mjög ung. Hraunin þekja til samans ríflega 40 km2 og runnu ofan úr fjöllunum á nokkrum stöðum, s.s. um Hvamma í átt að Kleifarvatni og fram af Herdísarvíkurfjalli um Lyngskjöld og nokkur fjallaskörð þar fyrir austan.

Hrútafellshraun

Hrútafellshraun.

Í Krýsuvíkurkerfinu er hraun frá líkum tíma í Móhálsadal. Upptök þess eru á um sjö kílómetra langri gígaröð, talsvert slitróttri. Á nýlegu jarðfræðikorti af Reykjanesskaga er hraunið nefnt Hrútafellshraun (hrf) (Kristján Sæmundsson o. fl. 2010). Stærstu gígarnir eru Lækjarvallagígar austan við Djúpavatn. Lítill hraunfláki sem aðgreinist frá meginhrauninu er á risspildu Hrútagjárdyngju. Ofan á henni, skammt norðvestur af gíg dyngjunnar, hefur opnast tveggja kílómetra löng gossprunga sem gefið hefur frá sér hraun sem er um 0,66 km2 að flatarmáli. Meginhraunið er hins vegar um 6,8 km2 að lágmarki en syðsti hluti þess er hulinn af Ögmundarhrauni, sem er frá 12. öld (Sigmundur Einarsson o.fl. 1991).
Út frá afstöðu hraunanna til gjóskulaga verður ekki annað séð en að þau séu öll mynduð á mjög svipuðum tíma. Ekki er þó víst að eldar hafi verið uppi í báðum eldstöðvakerfunum samtímis, en skammt hefur liðið á milli þeirra. Úr þessu mætti mögulega fá skorið með aldursgreiningum á koluðum gróðurleifum og mó undan hraunum og gjalli. Slík sýni hafa nýverið náðst frá tveimur stöðum. Annar staðurinn er norðan við rissvæði Hrútagjárdyngju og hinn í Sogum. Sýnin hafa verið send til greiningar.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort ÍSOR af Reykjanesskaga.

Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin. „Ef byrjar að gjósa væri það líklega byrjun á svona skeiði, í nokkrar aldir myndi ég halda. Það hefur allavega verið þannig í síðustu þrjú skipti, og lengra aftur reyndar, en það eru ekki til jafn nákvæm gögn um það,“ segir Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur hjá ÍSOR, í samtali við mbl.is í dag. Hann tók saman upplýsingar um síðustu gosskeið á Reykjanesskaganum og þau hraun sem runnu í hvert skipti. Aðalatriði samantektarinnar má lesa hér: “Allgóð þekking er til staðar um síðustu þrjú gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3.000-3.500 árum, 1.900-2.400 árum og svo 800-1240 e.Kr. er kemur fram í samantektinni. Hana byggir Magnús á jarðfræðikortum af Reykjanesskaga og bókinni Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar.
Rannsóknir hafa leitt í ljós að á seinni hluta Hólósen ([nútíminn í jarðfræðilegu samhengi] sem nær yfir síðustu 11.700 árin) hefur gosið í kerfunum á 900-1.100 ára fresti. Um fyrri hluta Hólósen er meiri óvissa sem orsakast af færri og ónákvæmari aldursgreiningum.
Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprungum sem geta orðið allt að 12 kílómetra langar.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga.

Á Reykjanesskaga eru sex eldstöðvakerfi sem raða sér skáhallt eftir honum í NA-SV stefnu. Vestast er Reykjaneskerfið og austar koma kerfi kennd við Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og að síðustu Hengil.
Síðasta eldsumbrotaskeið stóð í um 450 ár. Á síðasta gosskeiði hófst gosvirknin um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og í Krýsuvíkurkerfinu. Í Brennisteinsfjöllum rann Hvammahraun og í Móhálsadal rann Hrútafellshraun.
Á 10. öld gaus síðan aftur í Brennisteinsfjallakerfinu og runnu þá m.a. Svínahraunsbruni (Kristnitökuhraun) í Þrengslum, Húsafellsbruni í Heiðmörk, Breiðdalshraun, Selvogshraun og Tvíbollahraun/Hellnahraun.
Um hálfri annarri öld eftir að þessum eldum lauk hófst gos í Krýsuvíkurkerfinu um miðja 12. öld, líklega árið 1151. Nefnast þessir eldar Krýsuvíkureldar. Ritaðar heimildir benda til að þeim hafi lokið árið 1188. Hraun sem runnu í Krýsuvíkureldum eru Ögmundarhraun, sem er þeirra syðst, Mávahlíðahraun og Kapelluhraun. Ögmundarhraun eyddi a.m.k. einu býli sem sjá má merki um í óbrennishólmum.

Stampar

Stampar.

Eftir um 20 ára hlé hefjast síðan Reykjaneseldar sem stóðu yfir á tímabilinu 1210-1240 og marka lok um 450 ára langs eldsumbrotaskeiðs. Allgóð vitneskja er fyrir hendi um framgang Reykjaneselda 1210-1240. Eldarnir hófust með gosi í sjó við Kerlingarbás á Reykjanesi (skammt norður af Valahnúk). Eftir þetta færist gosvirknin á land og rann þá Yngra-Stampahraun frá 4 kílómetra langri gígaröð, líklega árið 1211. Samkvæmt rituðum heimildum gaus að minnsta kosti sex sinnum í sjó í Reykjaneseldum. Gjóskulög má merkja frá Reykjaneseldum í Þingvallasveit og í Borgarfirði frá um 1226 og á Álftanesi frá um 1231. Um tuttugu árum eftir Yngra-Stampagosið hófst sprungugos í Svartsengiskerfinu og á tímabilinu 1230-1240 runnu Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Eftir það lýkur eldunum og hefur ekki orðið hraungos á Reykjanesskaga síðan – eða í u.þ.b. 800 ár.”
Sjá þó MYNDIR af gosinu í Geldingadölum árið 2021…”.

Heimildir:
-Tölvupóstar.
-Haustráðstefna Jarðfræðafélags Íslands 26. nóvember 2010
-Eldgos á Reykjanesskaga á 8. og 9. öld Magnús Á. Sigurgeirsson og Kristján Sæmundsson Íslenskar Orkurannsóknir, Grensásvegi 9, 108 Reykjavík.

Brennisteinsfjöll

Eldborg í Brennisteinsfjöllum.

Rjúpa

Brennisteinsfjöll voru þann 24. apríl 2020 friðlýst gagnvart orkuvinnslu á grundvelli 53. gr. laga nr. 60/2013, um náttúruvernd og sbr. ályktun Alþingis nr. 13/141, frá 14. janúar 2013. Verndarsvæðið er 123.131 km² að stærð.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Í mbl.is 25.4.2020 segir: “Brennisteinsfjöll friðlýst“.
“Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, undirritaði í dag á Degi umhverfisins, friðlýsingu háhitasvæðis Brennisteinsfjalla á Reykjanesskaga í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórnarráðinu.

Guðmundur

Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Tekið er fram að verndarsvæðið sé 123 ferkílómetrar að stærð og liggi í 400-500 metra hæð milli Kleifarvatns og Heiðarinnar há. Um sé að ræða stærsta óbyggða víðerni sem eftir sé í nágrenni höfuðborgarsvæðisins þar sem finna megi ósnortnar gosminjar og minjar um brennisteinsnám, en einnig kjarri vaxið svæði við Herdísarvík.
„Í eldstöðvakerfi Brennisteinsfjalla er að finna skýrt afmarkaða gos- og sprungurein en einnig dyngjur og er Kistufell þeirra mest. Brennisteinsnám var stundað á svæðinu í nokkur ár milli 1876 og 1883 og sjást ummerki þess enn í hrauninu. Með friðlýsingunni er háhitasvæði Brennisteinsfjalla verndað gegn orkuvinnslu yfir 50MW í varmaafli. Friðlýsingin nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu,“ segir í tilkynningunni.
Bent er á að friðlýsing háhitasvæðis Brennisteinsfjalla gegn orkuvinnslu sé hluti af friðlýsingaátaki sem umhverfis- og auðlindaráðherra ýtti úr vör árið 2018.
„Teymi ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar vinnur að friðlýsingum svæða í verndarflokki rammaáætlunar, svæða á náttúruverndaráætlunum og svæða sem hafa verið undir álagi ferðamanna, auk annarra friðlýsinga.“

Í Fréttablaðinu 25. apríl 2020 segir:

Brennisteinsfjöll

Í Brennisteinsfjöllum.

Háhitasvæði Brennisteinsfjalla friðlýst á degi umhverfisins
“Háhitasvæði Brennisteinsfjalla á Reykjanesskaga var í dag friðlýst af umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, á sérstökum „degi umhverfisins“. Svæðið er það sjöunda sem ráðherrann friðlýsir.
Friðlýsingin er í samræmi við ákvörðun Alþingis um rammaáætlun frá árinu 2013 en rétt er að taka fram að friðlýsingin nær ekki til annarra þátta en orkuvinnslu. Verndarsvæðið er 123 ferkílómetrar og liggur á milli Kleifarvatns og Heiðarinnar há. Svæðið er stærsta óbyggða víðerni sem eftir er í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og má þar finna gosminjar og minjar um brennisteinsnám sem þar var stundað í nokkur ár milli 1876 og 1883.
Umhverfis- og auðlindaráðherra fór af stað með friðlýsingarátak árið 2018 og er þetta sjöunda svæðið sem hann friðlýsir síðan. „Mér er bæði ljúft og skylt að friðlýsa Brennisteinsfjallasvæðið gegn orkuvinnslu á degi umhverfisins,“ segir ráðherrann.
„Við þessa friðlýsingu verður mér sérstaklega hugsað til þeirra forréttinda fyrir íbúa og gesti höfuðborgarsvæðisins að eiga ennþá óbyggð víðerni í nágrenni svæðisins. Háhitasvæðið í Brennisteinsfjöllum er á þessum víðernum. Í þessu felast ómæld verðmæti og þeim fylgir ábyrgð sem við rísum undir í dag með þessari friðlýsingu,“ segir Guðmundur loks.”

AUGLÝSING um verndarsvæði á Reykjanesskaga – háhiti Brennisteinsfjallasvæðis í verndarflokki verndar- og orkunýtingaráætlunar.

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – verndarsvæðið.

1. gr.
Um friðlýsinguna.
Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið, á grundvelli verndarflokks þingsályktunar nr. 13/141 um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, frá 14. janúar 2013, að friðlýsa háhitasvæði Brennisteinsfjalla: 68 Brennisteinsfjöll í Grindavíkurbæ, Hafnarfjarðarkaupstað og Sveitarfélaginu Ölfusi gagnvart orkuvinnslu á grundvelli 53. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.
Verndarsvæðið er 123 km² að stærð.

2. gr.
Markmið friðlýsingarinnar.
Tilgangur og markmið friðlýsingarinnar er að vernda háhitasvæði Brennisteinsfjalla: 68 Brennisteinsfjöll gegn orkuvinnslu, sbr. 1. gr.

3. gr.
Mörk verndarsvæðisins.
Mörk verndarsvæðisins eru sýnd á korti og afmarkast af þeim hnitum sem gefin eru upp í ISN93 hnitakerfi í viðauka I, sem birtur er með auglýsingu þessari.
Afmörkun jarðhita er dregin eftir útbreiðslu háhita samkvæmt viðnámsmælingum og yfir gíga og nýlega eldvirkni í nálægu landslagi.

4. gr.
Mannvirkjagerð og orkurannsóknir.
Orkuvinnsla varmaafls með uppsett varmaafl 50 MW eða meira innan marka svæðisins er óheimil. Ekki er heimilt að veita leyfi tengd orkurannsóknum eða orkuvinnslu á verndarsvæðinu vegna virkjunar jarðvarma með uppsett varmaafl 50 MW eða meira. Að fengnu samþykki Umhverfisstofnunar og að undangenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands er heimilt að stunda yfirborðsrannsóknir á verndarsvæðinu.

5. gr.
Viðurlög.
Brot gegn friðlýsingu þessari varða sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, sbr. 90. gr. laga um náttúruvernd, nr. 60/2013.

6. gr.
Gildistaka.
Friðlýsingin öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 25. apríl 2020.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.

Heimildir:
-https://www.ust.is/nattura/fridlysingar/fridlyst-svaedi-a-rammaaaetlun/brennisteinsfjoll-rammaaaetlun/
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2020/04/25/brennisteinsfjoll_fridlyst/
-https://www.frettabladid.is/frettir/hahitasvaedi-brennisteinsfjalla-fridlyst-degi-umhverfisins/
-https://www.stjornartidindi.is/Advert.aspx?recordID=b2f53425-a55c-4918-a2bc-5e99284b1cdd

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – tóft af húsi námumanna í Námuhvammi.

Herdísarvík

Eftirfarandi frásögn um ferð yfir Reykjanesfjallgarðinn er Ólafs Þorvaldssonar í Sunnudagsblaði Tímans árið 1969. Ólafur og fjölskylda hans bjó um tíma í Herdísarvík og hefur skrifað margan fróðleiksþáttinn um svæðið:

Selvosgleidir-551

“Ferð þessa fór ég að liðnum fardögum árið 1928. Ég lagði upp frá Hafnarfirði, einhesta, á hina ævafornu, fjölförnu leið milli Selvogssveitar og Hafnarfjarðar, sem liggur um þveran Reykjanesskagann nyrzt. Yfir fjallið er farið norðan Lönguhlíðar um skarð, er Kerlingarskarð heitir, og er á hinni gömlu Grindskarðaleið. Mín ferð var gerð til Herdísarvíkur, sem er vestust jörð í Selvogi og þar með í Árnessýslu, við sjó fram.
Ekki var Rauður minn neinn gæðingur. en léttur var hann og þægilegur ásetu, mjög góður ferðahestur, traustur og hraustur, svo að erfitt held ég hefði verið að ofbjóða honum. Þess utan var Rauður fallegur og vel vaxinn.
Klukkan tíu að kvöldi lagði ég af stað frá Hafnarfirði, austur yfir fjall. Veðrið var unaðslegt, logn og ekki skýskán á himni. Á ferð minni hafði ég hinn gamla og sjálfsagða máta; að fara hægt til að byrja méð, aðeins ferðamannagutl, en þess á milli lét ég kasta toppi. Alllangur aðdragandi er frá Hafnarfirði upp að fjalli, allt heldur á fótinn, en hvergi bratt. Mörg kennileiti eru á þessari leið, sem bera sitt nafn, og nefni ég hér þau helztu: Helgadalur, og er talið að þar hafi verið byggð að fornu og sjást þar enn rústir nokkrar, þar suður af er hið tigulega Helgafell, Valhnjúk, Mygludalir og þar vestur af Búrfell, sem einhvern tíma hefur gosið miklu hraungosi, þar nokkru austar Húsfell, stórt og ábúðarmikið. Allt þetta nefnda svæði má heita, að hafi verið mínar æsku- og ungdómsheimahagar. Ég gat því vel raulað fyrir munni mér hina fornu vísu: Þessar klappir þekkti ég fyrr, þegar ég var ungur…

Kerlingarskard-553

Úr Mygludölum liggur leiðin upp á hraunið, sem er hluti hins úfna og illfæra Húsfellsbruna. Í Mygludölum voru margir vanir að á smá stund, einkum á austurleið, þar eð þarna er síðasta grænlendi nálægt vegi, þar til kemur langt austur á fjall. Snertispöl upp í hrauninu eru Kaplatór, en til forna nefndar Strandartorfur. Þar átti Strandarkirkja í Selvogi skógarhögg, en nú sést þar öngin hrísla.
Á miðnætti var ég kominn allhátt í fjallið, þar sem grasi gróin hvilft er inn í efsta hluta þess. Í hvilft þessari fóru lausríðandi menn oft af baki, á austurleið. Á síðari helmingi nítjándu aldar var byggt þarna ofurlítið sæluhús. Kofa þann lét byggja W. G. S. Paterson, skozkur maður, forstjóri brennisteinsvinnslunar í Krýsuvík og Brennisteinsfjöllum. Brennisteinninn var fluttur á hestum til Hafnarfjarðar frá báðum þessum stöðum, og lá Brennisteinsfjallaleiðin vestur yfir Kerlingarskarð. Í áðurnefndri hvilft var
eins konar umhleðslustöð. Til þessara flutninga þurfti fjölda hesta, og mun Paterson hafa haft nær sjötíu, og sagðist hann vera mesti lestamaður Íslands.
Kerlingarskard-552Frá Brennisteinsfjöllum var brennisteinninn selfluttur þannig, að lest að austan fór ekki lengra en ofan fyrir skarðið í hvilft þá, sem hér er nefnd, og sú, sem frá Hafnarfirði korm, stanzaði einnig þarna. Svo var skipt um farangur, þannig að önnur lestin tók bagga 

hinnar og fór sína leið aftur til baka. Sæluhúskofann lét Paterson byggja sem afdrep handa lestamönnum og farangri, ef bíða þurfti eftir annarri hvorri lestinni. Uppruni þessa litla sæluhúss, held ég, að fæstum Selvogamanna hafi verið kunnur að hálfri öld liðinni frá tilkomu þess.
Svona gleymast á stundum, atvik og hlutir undrafljótt. Í þessu tilfelli gat ég, nýkominn í hreppinn frætt þá um þetta. Ég vék Rauð í hvilftina, út af götunni lítið eitt til vinstri, að litlu tóftinni, sem enn var allstæðileg, teymdi hann upp í brekkuna, spretti af hnakk og beizli, lét vel að Rauði og sagði við hann, að nú skyldi hann blása mæðinni, því “við eigum brekku eftir, hún er há”.

Brennisteinsnamur-551

Nú var lægst stund nætur, þegar náttúran tekur að mestu á sig náðir litla stund — enginn andblær, ekkert hljóð. Og einmana ferðalangur hefur heldur ekki hátt um sig. Eina hljóðið, sem ég heyrði, var þegar Rauður minn klippti grængresið ótt og reglubundið, svo og hinn lági andardráttur náttúrunnar, sem maður skynjar aðeins, þegar öll önnur hljóð þagna. Ég settist með hnakktösku mína framan undir öðrum dyrakampinum og fékk mér ofurlítinn miðnæturbita, og Rauður fékk sinn hluta. Ég fór að hugsa um það starf, sem hér fór fram fyrir sem næst hálfri öld. Hér heyrðust ekki lengur æðaslög athafnalífsins. Nú blundaði hér allt, nema ég og Rauður minn. Og mér varð hugsað til hinna mörgu frænda minna og vina, sem sumir lifðu nokkuð fram á tuttugustu öldina, er verið höfðu lestamenn Patersons. Í þennan litla hvamm fluttu þeir mat og annað til þeirra, sem í námunum unni í Brennisteinsfjöllum hér suður af.
Í miðnæturkyrrðinni er sem ég heyri málróm lestamanna, þeirra sem ég man bezt. Þeir, sem koma úr Selvogsgata-559margmenninu, segja fréttir þaðan, hinir, sem frá námunum koma, segja það, sem fréttnæmt er úr fámenni fjallanna. Síðan var skipzt á farangri og aftur haldið af stað, en hvammurinn og litla sæluhúsið biðu í kyrrð fjalla næstu komumanna. Vel man ég einn þeirra, sem unnu í þessum brennisteinsnámum, og ég spurði hann og spurði. Meðal annars sagði hann mér, að sjaldnast hefðu námumenn getað verið lengur niðri í námunum en fimm eða sex mínútur í einu sökum hitans — þá hefði verið skipt um. Allir urðu að vera í tréskóm, klossum, allt annað soðnaði óðar. Og margt annað sagði hann mér um lífið og starfið þarna, sem of langt mál er að rekja. Það er runninn nýr og bjartur dagur, klukkan er eitt ef
tir miðnætti.

Draugahlidagigur-551Ég rís á fætur, fel þessari enn stæðilegu sæluhústóft þær hugsanir mínar, sem bundnar eru henni og þeim mönnum, er hún var gerð handa fyrir rösklega hálfri öld. Tóftin lætur ekki mikið yfir sér og mun nú flestum óþekkt. Og ekki liggur lengur þarna um sá aðalvegur og sú alfaraleið þess byggðarlags, sem að minnsta kosti í fjórar aldir var voldug sveit og víðþekkt, bæði innan lands og utan, Selvogssveitar. Í þeirri sveit sátu um aldir margir lögmenn landsins. Þar sátu einnig á 14. öld tveir hirðstjórar, Vigfús Jónsson og sonur hans, Ívar Hólmur. Þegar þetta er skrifað, 1968, búa aðeins, að ég ætla, fjórir eða fimm bændur í Selvogi og enginn hjáleigubóndi. Þar munu nú ekki vera nein teljandi stekkjarþrengsli, og er mér tjáð, að bændur þessir búi vel, eftir því sem heyrist nú úr sveitum yfirleitt. Nú fer enginn Selvogsmaður lengur þessa gömlu Grindaskarðaleið. Að vísu var Kerlingarskarð farið seinustu áratugina, og er það skarð aðeins sunnar í fjallinu en Grindaskarð, því það þótti að ýmsu leyti greiðari leið, en leiðin engu síður kölluð Grindaskarðaleið. Þessi leið milli Selvogs og Hafnarfjarðar hefur verið mjög fjölfarin um margar aldir, það sýna hellurnar vestan fjallsins. Þar um má hafa það, sem Grímur Thomsen sagði af öðru tilefni: „Ennþá sjást í hellum hófaförin”. En nú sporar enginn hestur lengur þessar klappir.

Kerlingarskard-555Ég lagði á síðasta og örðugasta hjallann, sem var á leið minni austur. Ég læt Rauð ganga á undan mér, þar til komið er á hæstu brúnina. Útsýni þaðan er mikið til tveggja höfuðátta, austurs og vesturs. Sá, sem kemur upp á brún þessa mikla fjallaskaga og er ekki því kunnugri, mun þykja geta á að líta fyrst í stað. Það má segja, að þarna séu nokkur heimaskil. Við höfum í svipinn yfirgefið „vesturheim” og höldum í „austurheim”. Fljótt á litið, er landið ekki ólíkt yfir að sjá og áður var — hraunflákar miklir, sem runnið hafa kringum fell og hæðir, lítið af samfelldu gróðurlendi. Þó er gróðurinn nokkuð meiri til austurs. þótt lítt sé greinanlegur sökum fjarlægðar og halla landsins. En lengst í austri ber við „hið víða, blikandi haf”, Atlantshafið, sem héðan séð virðist engin takmörk eiga. Við litum aftur til vesturs yfir nýfarinn veg, og sjáum, að undirlendið er ekki ósvipað því, sem að austan er lýst. Þegar landið þrýtur blasir þar einnig við haf, Faxaflói, sem liggur til „mikils lands og fagurs” í hinum víða faðmi tveggja mikilla fjallaskaga, Reykjaness og Snæfellsness. Svo gott var skyggnið til vesturs að þessu sinni, að með góðum sjónauka hefði ég að öllum líkindum séð Kerlinguna við samnefnt skarð á Snæfellsnesi. En á því Kerlingarskarði, sem ég var staddur á er engin kerling. Við hvaða kerlingu er þá þetta skarð nyrzt á Reykjanesskaga kennt? Ef til vill skýrist það síðar.
Brennisteinsfjoll-567Ég stíg á bak, og Rauður fer að fikra sig ofan fyrri brekku fjallsins, unz komið er að miklum hraunfláka, sem fyllir dalinn milli Draugahlíðar að vestan og Hvalhnúks að austan. Á hraunbrúninni eru tvær allstórar vörður, Þarna greinist vegurinn af í þrjár kvíslar. Ein er lengst til hægri, liggur suðvestur með Draugahlíðum til Brennlsteinsfjalla. Beint af augum fram er götuslóði í suðaustur út á hraunið, og var einkum farinn af þeim útbæjanmönnum í Stakkavík og Herdísarvík. Lengst til vinstri er gata milli hrauns og hlíðar um svonefndan Grafning til Stóra-Leirdals vestan Hvalskarðs. Þetta er leið þeirra Austanvogsmanna. Þessum leiðum, ásamt fleiri fornum slóðum, hef ég nokkuð lýst í bók minni, Harðsporar, sem enn mun fáanleg hjá bókaforlagi Odds Björnssonar á Akureyri.

Kistufell-551Ég rifja ég upp gamla sögu og segi Rauð mínum hana á meðan við löftrum austur yfir hraunflákann í átt til Hvalhnjúks. Vitanlega er þetta þjóðsaga eins og sú saga, sem sögð var skáldinu og sýslumanninum endur fyrir löngu vestur í hinu Kerlingarskarðinu. Saga sú, sem ég rifja hér upp, er sem næst á þessa leið: Í fyrndinni bjó tröllkona í Tröllkonugjá, norðaustur af Grindaskörðum. Eitt sinn fór hún að leitafanga til Selvogs. Kom hún þar á hvalfjöru og hafði þaðan með sér það, sem hún treysti sér til að komast með. En til hennar sást, og hún var elt. Erfið varð undankoman, og náðist kerla í skarði því, sem síðan er nefnt Hvalskarð og hnjúkurinn þar suður af Hvalhnjúkur. Og þjóðsagan heldur áfram og segir: Bóndi sá, sem kerlinguna elti, fékk sig ekki til að svipta hana hvalfengnum, heldur gerði við hana þann samning, að hún verði fyrir sig skörðin vestur á fjallinu, svo að sauðir hans rynnu ekki þar af fjallinu, heldur sneri hún þeim aftur til austurs. Eftir þetta setti tröllkonan grindur í nyrðri skörðin, en syðsta skarðið varði hún sjálf, sem eftir það var kallað Kerlingarskarð. Ekki getur sagan æviloka þessarar tröllkonu, og hvergi þar í grennd sjást þess merki, að hún hafi steinrunnið.

Brennisteinsfjoll-uppdratturNú vorum við komnir austur úr hrauninu að suðvesturenda Hvalhnjúks. Á fyrstu grösum brá ég mér af baki og gekk upp í brekkuna, leit á klukkuna og sá þá, að hún var lítillega farin að halla í þrjú. Þarna var ég næsta ókunnugur á móts við það, sem síðar varð. Af brekkunni sá ég til tveggja átta, til austurs og vesturs, og varð mér á að líta fyrst í austurátt. Héðan hallar landinu til austurs og suðausturs fram á brún þess fjalls, sem ég var enn staddur á, en þó nýfarinn yfir bæsta hrygg þess. Austur frá fjallinu tók við Selvogsheiði, allmikið land, en austur af henni blasti Atlantshafiö við í norðaustri „brosti á móti mér, Heiðin há, í helgiljóma” og birtu upprennandi sólar, löngu fyrir miðjan morgun. Þessi heiði ber fagurt nafn og fágætt. Þessa heiði hafa tveir andans menn, þeir Grétar Fells og Sigvaldi Kaldalóns, gert víðfræga í ljóði og lagi, og er ljóðlínan hér á undan úr því kvæði. Og svo varð „sólskin á sérhverjum tindi”. Síðan leit ég til vesturs yfir nýfarinn veg, Grindaskörð, og sá, að þar skein einnig „fagur roði á fjöllin”. Grindaskörð eiga sammerkt öðrum fjallvegum landsins um það, að þar skiptast á skin og skúrir. Þetta var ég búinn að reyna ári áður í Grindaskörðum. Mér flaug í hug kvæði Kristjáns Jónssonar um illveður í Grindaskörðum fyrir hundrað árum. Um tildrög þess segir höfundur: 

Selvogsleidin gamla-670„Eftirmæli eftir Jón Jónsson, barón v. Repp. Kveðið við þá harmafregn, er spurðist lát hans 1867, og að hann hefði frosið í hel í Grindaskörðum. Ég reis úr sæti sínu í brekkunni, beizlaði Rauð og steig á bak. Nú hallaði heldur undan fæti, og vegurinn var mýkri undir fæti og greiðari. Ég fór norðan við Svörtuhnjúka og Urðarás og hélt niður milli hraunsins og ásanna. Þannig „styttist leiðin löng og ströng”, þótt engan heyrði ég svanasöng. Í svonefndum Selbrekkum, neðarlega í Ásunum, vissi ég af vatni og fór með Rauð þangað. Þar drakk hann nægju sína. Þarna hefur einhvern tíma endur fyrir löngu verið grafið eftir mó, efalaust frá Stakkavík, og sést enn móta fyrir mógröfunum. Þar hefur einnig verið selstöð fyrrum.

Hliðarvatn-552Ég beindi nú Rauð í götuslóðann og lagði í síðasta áfangann að austurbrún fjallsins, þar sem Selstígur, brattur og krókóttur, liggur niður fjallið. Þeir, sem koma í góðu skyggni á þennan stað í fyrsta sinn, hljóta að verða einkennilega snortnir af því, sem þá blasir við. Hér skal aðeins nefnt hið helzta, sem sést. Fyrir fótum okkar liggur vatn, ekki svo lítið, Hlíðarvatn í Selvogi, og er sem næstu skrefin verði að stíga út í þetta vatn, þar eð það er svo nærri fjallinu, að ekki er gengt með því, en götuslóðinn allhátt uppi í brekkunni. Framan vatnsins er Víðisandur að sjó. Á sjávarströndinni, nokkuð austan vatnsins, hillir uppi hina fornfrægu Strandakirkju. Lengst til vesturs sér til Geitahlíðar innan Krýsuvíkur.

Strandarkirkja-590Ég fer af baki á brún fjallsins, læt Rauð rölta lausan á undan niður stíginn, sem er nokkuð í krókum, fyrst um smágerða skriðu, unz komið er í vel grónar brekkur fjallsins, kjarri vaxnar með blóm og góðgresi. Þegar niður úr sjálfum stígnum er komið,  tekur við hrauntunga, sem breiðist austur að vatninu. Yfir hraunið liggur gatan að túngarði jarðarinnar Stakkavíkur.
Klukkan er rösklega þrjú að morgni — allUr hljóta að sofa um þetta leyti nætur inni í litla bænum, sem Herdisarvik-579þá var enn. Þar bjuggu þá æskuvinur minn, Kristimundur Þorláksson, og kona hans, Lára, ásamt börnum sínum, sem voru mörg. Nú var Hlíðarvatn, sem lá að bæjardyrum Stakkavíkur, eins og spegill, og hafði skammt undan enn stærri spegill, þar eð morgunkyljan er enn ekki runnin á. Nú finnst mér sem ég sé nógu lengi búinn að halda til austurs og suðausturs, breyti hér algerlega stefnu minni og held nú í vestur, heim að Herdísarvík. Rauður tekur götuna vestur á hraunið, hann veit hvað við á. Hraun þetta, sem er mjög auðugt að örnefnum, nær frá Hlíðarvatni vestur að Krýsuvíkurheiði, og er því sú vegarlengd sem næst fimmtán kílómetrar. Að fjórðungi stundar liðnum komum við að austurhliði túngarðsins um heimatún Herdísarvíkur. Við vorum komnir heim eftir fimm og hálfrar klukkustundar ferð frá Hafnarfirði, sem er heldur rólega farið lausríðandi. Hér átti heimili okkar að vera, að minnsta kosti næstu fimm árin. Raunar urðu þau sex. Þá varð ég að standa upp af jörðinni fyrir eiganda hennar, Einari Benediktssyni skáldi.

Herdisarvik-gamliÉg spretti af Rauð, strýk honum um höfuð og háls og þakka honum góða og trausta samveru, hleypi honum síðan til tjarnarinnar, svo að hann geti fengið sér að drekka tært uppsprettuvatn. Ég tek hnakk og beizli og geng rólega heim að bænum. Kaffon minn fagnar mér að vanda hávaðalaus, hlær bara út að eyrum. Ég lít á úr mitt, klukkan er hálffjögur.
Í þetta skipti var ég að koma frá að skila af mér ábúð, sem við höfðum búið á síðastliðin tvö ár og lá undir Hafnarfjarðarkauptað. Von var á litlum þilfarsbáti, sem ég hafði tekið á leigu til þess að flytja búslóð okkar, ásamt matarforða og öðrum nauðsynjum til sumarsins.
Bátur þessi átti að hafa í eftirdragi stórt þriggja marina far, sem ég hafði keypt í Hafnarfirði. Báðir voru bátar þessir hlaðnir varningi, og þurfti því að sæta góðu veHerdisarvik-leifar gamlaðri og kyrrum sjó — Reykjanesröst á miðri leið. Þetta var því mikil áhætta, þótt nokkuð væri vátryggt. Um þetta, ásamt ýmsu fleira, var ég að hugsa á ferð okkar Rauðs yfir brattan fjallveginn með hraunbreiðurnar til beggja hliða. Og nú stóð ég á langþreyðu hlaði Herdísarvíkur. Ég geng að baðstofuglugga á suðurgafli, því að innan við hann vissi ég, að kona mín svaf, ásamt dóttur okkar, en vinnuhjú í austurenda baðstofunnar. Ég drep létt á rúðu, og í næstu andrá er tjaldi lyft frá, við horfumst í augu augnablik, og tjaldið fellur aftur fyrir. Eftir andartaksstund er loka dregin frá og kona mín stendur léttklædd innandyra. Þetta er mikill fagnaðarfundur, þar eð ég hef verið
 alllengi að heiman, og enginn vissi, hvernig mér gekk eða hvenær mín var von. En ég skal skjóta því hér við, að báturinn kom á öðrum, degi frá heimkomu minni með allan flutninginn algerlega óskemmdan.

Sú jörð, sem ég var þá að flytjast á, Herdísarvík í Selvogshreppi, á sannarlega sína sögu — og hana ekki ómerkilega. En Hún verður ekki sögð hér — og ef til aldrei. Nú er þessi jörð grafin gullkista og yzta borð hennar nokkuð farið að hrörna. Ef til vill opnar enginn framar þessa gullkistu…”

Heimild:
-Tíminn, sunnudagsblað, Reykjanesfjallgarður, Ólafur Þorvaldsson, 7. des. 1969, bls. 988-992.

Stakkavikurvegur-591

Portfolio Items