Sauðabrekkugígar

Gengið var upp frá Krýsuvíkurvegi upp um svonefndan Holtsenda á sýnilegri norðurbrún Dyngnahrauns (Hrútagjárdyngjuhrauns). Þar er varða er sagði fyrrum til um brúnamörkin. Varða þessi sést mjög vel hvaðanæva í ofanverðum Almenningi. Skammt norðaustar ber minna á myndrænni fuglaþúfu.
Holtsendinn er norðausturmörk Hafurbjarnarholts. Neðar er tilkomumikill hraunuppistandsrani.
FjallsgjaAllt hraunsvæðið ofanvert er komið frá Hrútargjárdyngju fyrir um 5000 árum. Þó má sjá í því lítil síðari tíma gos, s.s. frá Sauðabrekkugígaröðinni. Um hefur verið að ræða stutt og lítið sprungureinagos sem bæði hefur gefið af sér litla gjósku og lítil hraun. Hið litla er þó fyrirhafnarinnar virði að berja augum, en hvaðan sem gengið er frá vegi tekur u.þ.b. 2 klst (í rólegheitum) að komast þangað á fæti.
Kapelluhraunið frá 1151 er mest áberandi þegar ekið er suður Krýsuvíkurveg. Áður höfðu runnið þar hraun eftir að dyngjugosunum lauk, í fyrstu sem rauðamelsgjallhaugar upp úr sjó en síðar sem stærri sprungureinagos.
SaudabrekkugigarGosið úr Hraunhól, sem er skammt norðan við Vatnsskarð, gaf af sér talsvert þunnfljótandi hraun er náði alla leið niður að ofanverðum Þorbjarnarstöðum, vestan við Þorbjarnarstaða-Rauðamel. Hraunhóll er nú rústir einar eftir efnisnám. Hraunið frá honum kemur fram í Selhrauni, um einn og hálfan kílómetra suður af Straumsvík, og hefur sannanlega runnið þar í sjó fram.
Neðst í Almenningum og Selhrauni koma fram þrjú hraun sem eru yngri en Búrfellshraun. Upptök þeirra eru ekki þekkt og hafa gígarnir líklega horfið undir yngri hraun. Eitt þessara hrauna er sýnu mest og hefur það runnið fram í a.m.k. fjögurra kílómetra breiðri tungu og fært þáverandi strönd allnokkuð út. Skáhallt norðaustur yfir Almenninga neðarlega hefur runnið þunnt hraun sem hverfur inn undir Kapelluhraun skammt suður af Straumsvík. 

Saudabrekkugja

Upptök þessa hrauns eru líklega norðan við Grænudyngju. Aldur hraunsins er óþekktur nema af afstöðunni til annarra hrauna, og er það yngra en Hrútagjárdyngja og eldra en Kapelluhraun.
Á gígsvæði þessu er allmikil gjá sem Hrútagjá heitir og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og myndar það ströndina milli Vatnsleysuvíkur og Straumsvíkur. Stærsti hluti hraunsins gengur í daglegu tali undir nafninu Almenningar. Að vestan hefur hraunið runnið upp að eða út á hraundyngju frá ísaldarlokum, Þráinsskjaldarhraun. Þegar Hrútagjárdyngja rann var sjávarstaða nokkru lægri en nú er og hefur hraunið fært ströndina mikið fram. Bungulögun Hrútagjárdyngju og Þráinsskjaldar veldur því að slakki er á milli dyngnanna og eins er slakki austan Hrútagjárdyngju, milli hennar og Undirhlíða. Yngri hraun hafa haft tilhneigingu til að renna í átt til sjávar eftir þessum slökkum. Ekki hefur enn tekist að aldurssetja Hrútagjárdyngju, en öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir um 5.000 árum.
Margar djúpar og gjár og misgengissprungur er að finna í Hrútagjárdyngjuhrauni. Þar á meðal er sprungurein sem er spölkorn norðvestan við Fjallið eina en meðfram henni lá áður ein af mörgum leiðum um Almenninginn. Gjáin, Fjallgjá, virkar eins og hellisop inn í Hrútagjárdyngjuhraunið séð frá Krýsuvíkurveginum. Skemmtilegt er að fylgja henni vestanverðir áleiðis upp að Fjallinu eina, þótt ekki væri fyrir annað en að smyrillinn verpir í gjárbarminum og lætur jafnan öllum illum látum er ókunnugir nálgast hreiðurstæðið.

Sauðabrekkuhellar

Sauðabrekkuhellar.

Annars er Fjallgjá austari hluti landsigsmisgengis milli hennar og Sauðabrekkugjár. Vestari snið þetta má sjá í gegnum Smyrlabúð, yfir mót Selgjár og Búrfellsgjár og um Hjallamisgengið í Heiðmörk. Austari sniðið liggur um Fjallsgjá, Helgadal, miðja Búrfellsgjá og Löngubrekkur. Ásýndin er ekki ólík því sem sjá má á Þingvöllum eða milli Hrafnagjár og Aragjánna í Vogaheiðinni.
Gengið var upp í Sauðabrekkugíga. Gígarnir eru skammt norðan Sauðabrekkugjár, en svo nefnist stórbrotin misgengissprunga með áberandi hamraveggjum sem eru hærri að austanverðu. Í lýsingu segir m.a.: “Sauðabrekkugígarnir urðu til við gos allnokkru eftir að Hrútagjárdyngjuhraunið rann. Hrauntungustígurinn liggur því sem næst yfir miðja gígaröðina”. Taka ber þessu með hæfilegum fyrirvara. Augljóst má telja að hraunið hafi runnið eftir Hrútargjárdyngjuhraunsgosið, enda um sprungureinagos að ræða. Þá hefur gosið verið bæði stutt og svolítið sætt, án þess þó að nokkur lifandi maður ætti þess kost að verja það augum fyrir u.þ.b. 1.600 árum. Hluti þess rann til stutt til norðurs og annar til austurs. Það náði að fylla gjá, sem þar er a.m.k. að hluta, en þó ekki alveg (sjá HÉR).

Búðargjá

Búðargjá.

Skv. nýlegum skrifum á gjá ein í Dyngnahrauni að heita Búðargjá. Sú á að fylgir sömu stefnu og misgengissprungan Sauðabrekkugjá. “Þetta er ekki sama sprungureinin sem sést á því að hún er öðruvísi ásýndar. Búðargjá er nokkurnvegin á landamerkjum Hafnarfjarðar- og Krýsuvíkurlands. Nafnið er fornt og talið tengjast Búðarvatnsstæðinu, sem er eigi allfjarri gjánni.” Hafa ber þó í huga að á eldri landakortum og í örnefnalýsingum ber kennileiti þetta hvergi á góma og virðist því í fljótu bragði vera seinni tíma tilbúningur. En þegar eftirfarandi er skoðað má vera ljóst að um er að ræða gjána suðsuðvestur af Sauðabrekkum (ofan (norðan) Sauðabrekkugjár); Eftirfarandi landamerkjalýsing þar sem nafnið Búðarhólagjá kemur fyrir, en eldra nafn hennar er Búðargjá, var lesin upp á Görðum á manntalsþingi 22. júní 1849 og þinglýst þann dag: “Fyrst milli Garðakirkju fjalllands, úr Steinhúsi suður í Markagil eða Undirhlíðum, þaðan í Hæðstaholt á Dauðadölum á annan veg úr Dauðadölum norður í Húsfell upp í Þríhnúka, þaðan í suðurenda Bláfells á milli afrétta Álftanes- og Seltjarnarneshrepps. Á milli Gullbringu- og Árnessýslu af Bláfjöllum á Kistufell. Á milli Álftaneshrepps og Almenning og Krýsuvíkur landa af Kistufelli niður í syðra horn á Fagradalsbrún, þaðan í Marakkagil, svo í þúfu á Fjallinu Eina. Þaðan í Helguflöt norðan á Búðarhólum. Á milli jarðanna Heimalands og afréttar af Búðarhólum eptir Búðarhólagjá, þaðan aptur í Steinhús.”
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a:
-Náttúrufræðingurinn 1997-1998,  bls. 174.
-Hraun í nágrenni Straumsvíkur – Haukur Jóhannesson og Sigmundur Einarsson.
-Landamerkjalýsing frá Görðum.

Sauðabrekkuskjól

Sauðabrekkuskjól.