Fagridalur

Gengið var um undirlendi Lönguhlíðar að Fagradalsmúla og hann “sniðgenginn”. Ofan hans var haldið eftir utanverði brún hlíðarinnar að Mýgandagróf og síðan niður Kerlingargilið innanvert við Lönguhlíðarhornið. Frá vörðu á efstu brún Lönguhlíðar er æði víðsýnt um vestan- og norðanverðan Reykjanesskagann. Ekki er ólíkt um að litast þaðan og að horfa yfir loftmynd af svæðinu – nema hvað þarna er allt í þrívídd.

Kerlingarskarð

Þegar gengið var um undirlendið fyrrnefnda baðaði Langahlíðin sig ríkumlega í kvöldsólinni. Í þeirri mynd komu allir gilskorningar greinilega í ljós, en ekki síður hinar miklu hvanngrænu gróðurtorfur undir henni. Vel má sjá hvernig gróðureyðingin ofan Leirdalshöfða hefur smám saman sótt að torfunum. Einungis þær hörðustu, sem notið hafa hvað mestan áburð sauðfjárins fyrrum, hafa náð að þrauka áganginn. Grasið ræður þar ríkjum, en mosinn hefur sótt á í hlíðunum. Víða bera þó melarnir að handan vott um sigur eyðingaraflanna, sem stöðugt sækja á. Og ekki hefur mannskepnan látið sitt eftir liggja til liðsinnis eyðingaröflunum. Hún hefur ekið sem slík á jeppum og torfærutækjum um viðkvæmt svæðið svo víða má bæði sjá melarákir í mosa og vatnsrásir í annars sléttum grasflötum. Ber hvorutveggja merki um ótrúlegt virðingarleysi fyrir umhverfinu og náttúrunni, en er jafnframt bæði vottur og minnisvarði um algert hugsunarleysi viðkomandi. Vatn og vindar, frost og þurrkar hafa lagst á eitt við að útvíkka áganginn. Svæðið er því vont dæmi fyrir mannfólkið um það hvernig ekki á að haga sér.
Neðar er Tvíbolllahraunið, úfið apalhraun, klætt þykkum gamburmosa. Hraunið er ~950 ára. Yngra Hellnahraunið er undir því, en það kom úr sömu uppsprettum skömmu áður. Eins og nafnið gefur til kynna er þar um helluhraun að ræða.

Eldra Hellnahraunið, sem einnig kom úr gígum Grindarskarða er u.þ.b. 1000 árum eldra. Stundum er erfitt að sjá greinileg skil á hraununum, en með þolinmæði má þó gera það. Hellnahraunin ná alveg niður að sjó milli Hvaleyrar og Straums, en eldra hraunið mun hafa lokað af kvosir þær er nú mynda Hvaleyrarvatn og Ástjörn. Yngra hraunið bætti um betur.
Í kvöldsólinni, eftir rigningardag, sást vel hvernig grænn mosinn í Tvíbollahrauni og annars rembandi gróðurlandnemar í Hellnahraununum hafa reynt og náð að klæða hraunin, hver með sínu lagi. Fáir nýgræðingar eru enn sem komið er í Tvíbollahrauni, en margir í eldra Hellnahrauninu. Af því má sjá hvernig hraunin ná að gróa upp með tímanum. Í Almenningi má t.a.m. sjá hraun er runnu úr Hrútargjárdyngju fyrir u.þ.b. 5000 árum. Að var og er nú að nýju að mestu kjarri vaxið. Hins vegar er Nýjahraun (Kapelluhraun), sem rann árið 1151, enn nær eingöngu þakið mosa, líkt og Tvíbollahraunið.

Fagradalsmúli

Fjárgötur liggja með hlíðum Lönguhlíðar. Tvær slíkar liggja áfram upp Fagradalsmúlann að norðvestanverðu. Þær eru tiltölulega auðveldar uppgöngu. Leitað var eftir hugsanlegri leið Stakkavíkurbræðra á leið þeirra um Múlann til og frá Hafnarfirði, en erfitt var að ákvarða hann af nákvæmni. Þó má ætla að þeir hafi farið greiðfærustu leiðina upp og niður hlíðina, þ.e. utan við gilskorning, sem þar er.
Þegar upp á Fagradalsmúla er komið er ljóst að leiðin hefur verið greið ofan hans, allt að eldborgum vestan Kistu. Um slétt helluhraun er að ræða alla leiðina, mosalaust. Sunnan eldborganna tekur við mosahraun, en í því er stígur um tvo óbrennishólma. Enn neðar liggur stígur um slétt hraun að Nátthagaskarði eða með brúnum Stakkavíkurfjalls að Selstígnum neðan Stakkavíkursels. Mun þessi leið hafa verið um tveimur kukkustundum styttri en sú hefðbundna um Selvogsgötu eða Hlíðarveg. Þeir, sem gengið hafa þessa leið, geta staðfest það, enda hvergi um torfæru að fara, nema til endanna þar sem hæðirnar hafa tafið fyrir. Þessi leið var einkum farin að vetrarlagi og þá af kunnugum.

Þegar komið var upp á austurbrún Fagradalsmúla var haldið til austurs með ofanverðri brúninni. Í fjarska sást til vörðu. Frá henni var hið stórbrotnasta útsýni er fyrr var lýst. Sjá mátti þaðan hálsana, Sveifluháls (Austurháls) og Núpshlíðarháls (Vesturháls) frá upphafi til enda, Keili, Trölladyngju, Grindavíkurfjöllin sem og Rosmhvalanesið allt. Þaðan var hið ágætasta útsýni er gaf ásjáandanum “heilsusamlega” heildarmynd af svæðinu, án þess að þurfa að horfa upp á eyðilegginguna neðanverða í smáatriðum. Þess vegna var fegurðin allsráðandi. Meira að segja skemmdarverk Hitaveitu eða Orkuveitu náðu ekki athyglinni við slíka yfirsýn.
Gengið var áfram til austurs uns komið var að Mýgandagróf. Um er að ræða sigdæld eða jökulsorfna geil í innanverða hlíðina. Ekki verður langs að bíða (nokkrar aldir kannski) uns dældin mun líta út líkt og aðrar geilir eða skörð í “núverandi” Lönguhlíð. Einungis vantar herslumuninn til að framanvert haftið, milli þess og brúnarinnar, rofni og myndi myndarlegt gil til frambúðar. Geilin er bara það djúp að nægilegt magn vatns hefur enn ekki náð að safnast þar saman með tilheyrandi rofi. Mikil litadýrð er þarna í bökkum og börmum; svo margir óteljandi grænir litir að jafnvel Framsóknarflokkurinn sálumleitandi gæti fyllst stolti við slíka sjón – og er þá mikið sagt er umhverfi og náttúra eru annarsvegar.
Telja má víst að Gísli Sigurðsson, fyrrum lögregluvarðstjóri, göngugarpur, örnefnaskrásetjari og fróðleiksfíkill um Reykjanesskagann hafi gefið þessum stað nafn það sem á hann hefur fests. Lýsingarhöfundi er minnisstæð mynd af Gísla, sem tekinn var efst í Grindarskörðum, einmitt á þessari leið, þar sem hann sat á hraunhól kæddur hlírabol, stígvélum og alklæðnaði þar á millum. Þar virtist “landshöfðinginn” vera í essinu sínu, enda vænlegheit bæði framundan og að baki.

Við Kistufell

Frá Mýgandagróf var haldið heldur innlendis uns komið var að vörðu ofan Kerlingargils. Neðan hennar og ofan gilsins er kvos, lituð hvanngrænum mosatóum. Þarna, efst í gilinu, mun hafa farist flugvél á seinni hluta 20. aldar. Hún var hlaðin bílavarahlutum og munu áhugasamir lengi vel lagt leið sína upp í gilið til að leita að hentugum varahlutum. Í dag má sjá þar enn einstaka álhlut og smábrak úr vélinni, einkum við neðanvert gilið.
Ofan frá séð er gilið tilkomumikið og fallegt útsýni er þaðan óneitanlega yfir fyrrnefnd hraun, Skúlatún, Helgafell, Kaldársel og höfuðborgarsvæðið allt. Niðurgangan er mun auðveldari en uppgangan, en FERLIR hefur nokkrum sinnum áður gengið um Kerlingargil á leið sinni upp í Kistufell í Brennisteinsfjöllum.
Þegar komið var neðar í gilið ber “gamlan” hraunhól við sjónarrönd austan þess. Hóll þessi stendur bæði út og upp úr hlíðinni. Þótt fáfróðir hafi jafnan borið því við aðspurðir að litlir hólar eða hæðir gætu varla heitið mikið verðskuldar þessi hóll nafn með rentum. Hann fær hér með nafnið “Uppleggur”, enda ekki hjá því komist að fara upp með honum á leið um gilið.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Langahlíð

Langahlíð.