Kolbeinshæðarskjól.
Þetta er rúmgóður fjárhellir. Frá honum er stutt eftir á stígnum að Kolbeinshæðaskjóli. Skjólið sést vel á grasi grónu svæði fyrir framan það og í næsta nágrenni. Það er í skúta í vestanverðum hæðunum og er hlaðið fyrir. Áður var reft yfir og má enn sjá leifar timburverksins. Fjárskjól þetta var notað frá Þorbjarnastöðum. Sunnan við skjólið er sléttur hraundalur áður en komið er upp á hæðirnar þar fyrir ofan. Suðvestan er Straumsselshöfði, en í skammt suðri má sjá háa vörðu á hól. Hún stendur skammt norðvestan við Gjásel. Frá því er stutt í Straumssel í vestri.
Gengið var áfram upp með hraunkantinum og beygt með honum til vesturs og síðan til norðvesturs með kanti Selhrauns og yfir á Straumsselsstíg. Allt þetta svæði er nokkuð gróið, en mun auðveldara yfirferðar en selhraunið sjálft, sem er nokkuð úfið.
Gengið var til norðvesturs vestan við Þorbjarnarstaða-Rauðamel og að hlaðinni rétt undir hraunhól sunnan við Þorbjarnastaði. Svæðið við réttina er nokkuð gróið og nefnist það Stekkjatún. Í vestur frá því er há varða upp á hól. Hún heitir Miðmundarvarða og er eyktarmark frá Þorbjarnastöðum (kl. 15:00 í sólarstað).
Gangan tók um klukkustund í björtu og góðu veðri.

Kolbeinshæðaskjól.