Færslur

Efri-hellar

Gengið var frá Gerði eftir að stóttir gamla bæjarins höfðu verið skoðaðar sem og útihúsatóttir sunnan þeirra. Haldið var eftir Gerðisstíg til suðausturs að kanti Kapelluhrauns.

Efri-Hellar

Efri-Hellar.

Stígurinn hefur verið ruddur þar sem hann liggur inn í Selhraunið og áfram með hraunkantinum. Á leiðinni eru nokkur merki frá Byggðasafni Hafnarfjarðar er benda til fornminja. Má m.a. sjá marka fyrir fornri óskráðri tótt á einum stað.
Neðan við Þorbjarnarstaðar-Rauðamel er komið í Neðri-hella, gróið svæði ofan við hraunkantinn. Fyrst birtist hlaðið gerði við leiðina, en ofan þess til suðurs er fjárhellirinn. Þetta er rúmgóður skúti með hleðslum fyrir í grónu jarðfalli. Enn sunnar, ofan hæðar, er víð og gróin sprunga. Í og norðan við hana eru hleðslur svo og lokar há hleðsla sprungunni að suðaustanverðu. Hún hefur líklega verið notuð sem aðhald eða skjól fyrir fé. Ofan við sprunguna er staur í hleðslu. Þar eru landamerki Straums.
Í sjónlínu til austurs ber Vorréttin við kantinn á Kapelluhrauni. Þetta er vel hlaðin rétt. Gott skjól eru í hraunskútum innan hennar. Haldið var áfram upp stíginn með hraunkantinum.

Hrauntungur

Hrauntunguskjól.

Eftir góða stund er enn komið á gróið svæði. Í því er hlaðið framan við tvo langa skúta, sem í raun eru samtengdir. Þetta eru Efri-hellar, gamlir fjárhellar. Enn ofan eru Hrauntungurnar, innan við hraunkantinn. Tungurnar eru allsstórt gróið hraunssvæði, umlukið nýja hrauninu. Í þeim austanverðum er fallegur skúti, Hrauntunguhellrar, sem hlaðið er fyrir. Skútinn er í jarðfalli utan í hraunklettum og lokar hrísla opinu eftir að hún tekur að laufgast. Getur þá verið erfitt að finna það, auk þess sem hleðslurnar, sem eru allmiklar, falla vel að klettinum.

Hrauntungustígur

Hrauntungustígur.

Ef stígnum, sem komið hafði verið inn á og liggur inn í Hrauntungurnar, er fylgt áfram til norðausturs er komið inn á Hrauntungustíginn þar sem hann liggur út úr Tungunum og inn á hraunið. Stígurinn er nú orðinn stuttur þarna því búið er að ryðja svo til allt hraunið þarna fyrir austan og norðan. Þó má enn sjá móta fyrir Hrauntungustígnum beggja vegna Krýsuvíkurvegarins skammt norðvestan aðkeyrslu að námusvæðinu. Skammt vestan vegarins er varða og liggur Hrauntungustígurinn svo til við hana.
Hrauntungustígur er vel greinilegur frá Krýsuvíkurvegi að malargryfjunum. Sunnan þeirra sést hann vel ef rétt er að komið. Gaumgæfa þarf leiðina vel í gegnum Hrauntungarnar uns komið er í Brunntorfur. Í gegnum þar liggur stígurinn upp í Fornasel og þaðan áleiðis upp í hæðirnar fyrir austan Hafurbjarnarhæð, að Steininum og áfram að Sauðabrekkum, um Mosa og Hrúthólma inn á Ketilsstíg.
Frábært veður.

Vorréttin

Vorréttin.

Vorréttin

Gengið var með manni, fæddum í Straumi fyrir um 70 árum, eftir Gerðisstíg frá Þorbjarnarstaða-Rauðamel. Norðan Rauðamelsins, undir Rauðamelsklettum, eru Neðri-Hellar, fjárhellar frá Gerði.

Vorrétt

Vorréttin.

Ofar með kapelluhraunskantinum er Rauðamelsréttin, eða Vorréttin, fallega hlaðin. Enn ofar við hraunkantinn eru Efri-Hellar, fjárhellar frá Þorbjarnastöðum. Hægt er að ganga á milli þessara staða eftir gömlum stíg, en Gerðisstígurinn liggur vestar og ofar í grónu hrauninu, á milli Kapelluhrauns og Selhrauns. Stígurinn er nokkuð vel varðaður og tiltölulega auðvelt að fylgja honum. Þegar komið er skammt upp fyrir Efri-hella er há varða á vinstri hönd, svolítið frá stígnum. Hún stendur ofan við Kolbeinshæðahelli, en hellirinn er nokkurn veginn þar sem Kolbeinshæðir byrja að norðanverðu. Þetta er rúmgóður fjárhellir.

Efri-hellar

Efri-Hellar.

Frá honum er stutt eftir á stígnum að Kolbeinshæðaskjóli. Skjólið sést vel á grasi grónu svæði fyrir framan það og í næsta nágrenni. Það er í skúta í vestanverðum hæðunum og er hlaðið fyrir. Áður var reft yfir og má enn sjá leifar timburverksins. Fjárskjól þetta var notað frá Þorbjarnastöðum. Sunnan við skjólið er sléttur hraundalur áður en komið er upp á hæðirnar þar fyrir ofan. Suðvestan er Straumsselshöfði, en í skammt suðri má sjá háa vörðu á hól. Hún stendur skammt norðvestan við Gjásel. Frá því er stutt í Straumssel í vestri.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).

Gengið var áfram upp með hraunkantinum og beygt með honum til vesturs og síðan til norðvesturs með kanti Selhrauns og yfir á Straumsselsstíg. Allt þetta svæði er nokkuð gróið, en mun auðveldara yfirferðar en selhraunið sjálft, sem er nokkuð úfið.
Gengið var til norðvesturs vestan við Þorbjarnarstaða-Rauðamel og að hlaðinni rétt undir hraunhól sunnan við Þorbjarnastaði. Svæðið við réttina er nokkuð gróið og nefnist það Stekkjatún. Í vestur frá því er há varða upp á hól. Hún heitir Miðmundarvarða og er eyktarmark frá Þorbjarnastöðum (kl. 15:00 í sólarstað).
Gangan tók um klukkustund í björtu og góðu veðri.

Kolbeinshæðarskjól

Kolbeinshæðaskjól.