Tag Archive for: Akurgerði

Hamarskot

Í „Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983″ eftir Ásgeir Guðmundsson er m.a. fjallað um bújarðir í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar:

Hvaleyri

Hvaleyri fyrrum – tilgáta.

„Helsta bújörð í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar var Hvaleyri. Lítið er vitað um hana fram til ársins 1703 annað en það, að hún var í eigu Viðeyjarklausturs fram að siðaskiptum, en þá sló konungur eign sinni á hana eins og annað í klaustursgóss. Í kaþólskum sið var kirkja á Hvaleyri, sem var annexía frá Garðakirkju á Álftanesi. Þessi kirkja var lögð niður árið 1765.

Hvaleyri

Hvaleyri 1772.

Rækilegar upplýsingar um Hvaleyri er að fá í jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703. Þar kemur fram, að jörðin var ekki mikil bújörð, en höfuðkostur hennar var góð lega til fiskviða, enda var útræði frá Hvaleyri allan ársins hring. Þó var útvegur Hvaleyrarbónda heldur lítilfjörlegur árið 1703. Á fyrri hluta 18. aldar varð túnið á Hvaleyri fyrir miklum skemmdum af völdum sandfoks og ágangs fugls og maðks. þegar Þorsteinn Jónsson varð ábúandi á Hvaleyri árið 1770, hófst hann handa um umbætur á jörðinni, og tók hún miklum stakkaskiptum. Frá árinu 1772 eru til tvær myndir af bæ Þorsteins á Hvaleyri, sem menn í leiðangri Sir Joseph Banks teiknuðu. Árið 1870 keypti séra Bjarni Sívertsen Hvaleyri af konungi, en að Bjarna látnum var jörðin seld, og gekk hún kaupum og sölum næstu áratugina.
FlensborgarskóliÁrið 1870 keypti séra Þórarinn Böðvarsson heimajörðina á Hvaleyri, og nokkrum árum síðar gaf hann og kona hans jörðina ásamt tilheyrandi húsum, svo og Flensborgarlóðina, til stofnunar alþýðu- og gagnfræðaskóla í Flensborg. Heimajörðin á Hvaleyri var síðan í eigu Flensborgarskólans og síðar Gjafasjóðs séra Þórarins Böðvarssonar og konu hans, uns Hafnarfjarðarbær keypti hana árið 1956 með leyfi menntamálaráðuneytisins. Nú er golfvöllur á Hvaleyri.
Þorsteinn Egilsson kaupmaður eignaðist smám saman alla Hvaleyrartorfuna, að undanskilinni heimajörðinni. Hinn 12. desember 1912 seldu erfingjar Þorsteins Hafnarfjarðarbæ torfuna.

Jófríðarstaðir

Jófríðarstaðir fyrrum – tilgáta.

Önnur helsta bújörðin í lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðar var Jófríðarstaðir. Jarðarinnar er fyrst getið 1541, og var hún þá eign Skálholtsdómkirkju, en árið 1563 eignaðist konungur Jófríðarstaði og nokkrar aðrar jarðeignir í Gullbringusýslu.
JófríðastaðirÁrið 1804 keypti Bjarni Sívertsen jörðina af konungi og reisti þar skipasmíðastöð. Að Bjarna látnum gekk jörðin kaupum og sölum, uns kaþólska trúboðið (Campagnie de Marie) eignaðist hana alla árið 1922.
Þriðja bújörðin í landi Hafnarfjarðar var Hamarskot, sem dró nafn sitt af Hamrinum. Nafnið bendir til þess, að hér hefur ekki verið um stórbúli að ræða. Hamarskot er fyrst getið árið 1579, og var það þá í eigu Garðakirku. Síðar eignaðist landssjóður jörðina, en árið 1913 keypti Hafnarfjarðabær hana, að undanskildu Hamarskotstúni innan girðingar og Undirhamarstúnbletti. Hafnarfjarðarbær keypti þessi tvö tún árið 1930, og hefur allt Hamarskotslandið því verið í eigu bæjarins frá þeim tíma.

Akurgerði

Akurgerði og klettar ofan þess.

Fjórða bújörðin í Hafnarfirði var Akurgerði norðanmegin fjarðarins. Búskap lauk þar á seinni hluta 17. alfar. Fram til 1677 var akurgerði hjáleiga frá Görðum á Álftanesi, en þá hafði Hans Nansen yngri makaskipti á Akurgerði og hálfum Rauðkollsstöðum í Eyjahreppi í Hnappadalssýslu. Um leið var verslunarstaðurinn, sem hafði verið á Háagranda á Hvaleyrarhöfða, fluttur í Aksurgerðisland. Einungis var um þurrabúðir að ræða í Akurgerði eftir 1677.
Hafnarfjörður 1772Af því, sem hefur verið rakið hér að framan, er ljóst að fram til 1677 voru fjórar bújarðir í Hafnarfirði, en þegar Akurgerði var tekið undir verslunarstað, voru þrjár eftir. Það var ekki fyrr en á fyrri hluta 19. aldar, að byggðin fór að aukast í firðinum og allmörg smámýli risu í lægðinni sunnan við fjarðarbotninn. Þessi smábýli voru upphaflega þurrabúðir, sem voru reistar í hinu forna Jófríðarstaðarlandi, þ.e. þeim hluta þess, sem firmað Jensen & Schmidt seldi Steingrími Jónssyni og Árna Hildibrandssyni árið 1848 og hlaut seinna nafnið Hamar. Hafnarfjarðarbær eignaðist Hamarsland árið 1915. Af nýbýlum í Hamarslandi er Óseyri elst.“

Heimild:
-Saga Hafnarfjarðar 1908-1983, Ásgeir Guðmundsson – Bújarðir í Hafnarfirði, I. bindi, bls. 25-26.

Hamarskot

Hamarskot fyrrum – tilgáta.

Hafnarfjörður

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1951 segir svo um lönd Akurgerðis og Garða:
Akurgerdi 221„Akurgerði hjet jörð inst í Hafnarfirði og var hún eign Garðakirkju. Árið 1677 var hún tekin handa kaupmönnum, en Garðakirkja látin fá í staðinn 1/2 Rauðkollsstaði í Hnappadalssýslu, en vegna fjarlægðar varð kirkjan að selja þá jörð. Akurgerðisland eyddist smám saman af sjávargangi, og segir sjera Árni Helgason í sóknarlýsingu um 1840: ,,Enginn veit nú hve mikið land Akurgerði fylgdi, það hefur dankað svona, að kaupmenn sem eiga Akurgerði, eigna sjer ströndina frá Fiskakletti og inn að Hamarskotslæk, og prestar í Görðum hafa ei ákært.“ Eftir þessu að dæma virðist hann hafa álitið að kaupmenn hafi sölsað undir sig meira land en þeim bar, jafnharðan og Akurgerðisland eyddist.
Kirkjuland heitir fyrir ofan bygðina, frá Elliðavatns og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi, og upp undir fjöllin. Þar áttu Garðar selstöðu og þar var haft í seli fram um 1832. Um 1840 var sett þar rjett fyrir Garðahrepp, hin svonefnda Gjáarrjett, sem enn stendur.
Garðakirkja átti um miðja fyrri öld alt Garðahverfi og auk þess þessi býli: Hamarskot, Vífilsstaði, Hraunsholt og Selskarð. Hamarskotsland fekk Hafnarfjarðarkaupstaður keypt árið 1913, samkvæmt lagaheimild.
gardar-999Skúli Magnússon segir í sýslulýsingu sinni að þá sje 32 býli í Garðakirkjusókn, þar af voru 11 konungseign, 19 eign Garðakirkju og aðeins 2 bændaeign… Syðsta býlið í sókninni var Lónakot, en það hafði eyðst af sjávargangi 1776. Gekk þá sjór yfir túnið, reif upp allan grassvörð, fylti bæjarhúsin og vörina með grjóti og möl. Sjera Árni Helgason segir að þau munnmæli gangi að út af þessu hafi bóndinn þar orðið svo sturlaður að hann hafi fyrirfarið sjer, og síðan hafi enginn þorað að búa þar. En Skúli Magnússon segir að margar skoðunargerðir hafi farið fram á jörðinni, og þar sje hvergi 30 ferálna stór blettur, sem hægt sje að gera að túni. Þó var bygð tekin upp aftur í Lónakoti um 1840.
Árið 1781 eru áhöld um fólksfjölda í Garðasókn og Reykjavík. Þá eru taldir 385 íbúar í Garðasókn en 394 í Reykjavík. En talsverður munur virðist hafa verið á lífskjörum manna í þessum tveim ur sóknum, hvað þau hafa verið betri í Garðasókn. Þar var þá 41 bóndi, 14 hjáleigumenn og 34 þurra búðarmenn. En í Reykjavíkursókn voru 8 bændur, 24 hjáleigubændur og 59 þurrabúðarmenn. Kvikfjáreign þessara manna var samtals (tölurnar fyrir Reykjavík í svig um): kýr 112 (69), kvígur 5 (1), naut 2 (1), kálfar 3 (2), ær 200 (20), sauðir 116 (9), hross 146 (106).
Samkvæmt þessu eru rúmlega 3 Skerseyri-221menn um hverja kú í Garðasókn, en 5 1/2 um hverja kú í Reykjavík. Í Garðasókn eru tæplega tveir um hverja á, en nær 20 í Reykjavík. Og þegar þess er nú gætt, að þá var altaf fært frá, sjest best hvað viðurværi hefur verið betra í Garðasókn vegna þess að þeir höfðu miklu meiri mjólk en Reykvíkingar. Og svo eiga þeir í Garðasókn sauði til frálags, en Reykvíkingar sama sem sauðlausir.
„Vestast á hraunbrúninni í Garðahverfi stendur Bali, þá kemur Hraunhvammur, austar er Skerseyri, þá Brúsastaðir, en síðan Eyrarhraun. Þar næst koma Langeyrarmalir… Í kring um húsin er sléttur malarbás undir hraunbrúninni. Litlu austar er Langeyri… en síðan tekur við samfelld byggð kaupstaðarins allt frá Fiskakletti og suður undir Flensborg.“
Það er ekki nema svo sem fjögurra rasta vegur frá Hamarskotslæk út að Görðum, og Hafnarfjarðarbær hefur nú teygt sig hálfa leiðina. Vegurinn liggur út með ströndinni. Út á móts við Skerseyri liggur vegurinn yfir djúpa gjá eða hraunhvos og er þar hátt ofan af honum til beggja handa. Niðri í gjótunni liggja stórir steyptir steinar, þrístrendir og toppmyndaðir og líklega um metra á hæð. Steina þessa ljet herstjórnin steypa hjer á árunum og raðaði þeim á veginn. Var ætlunin að þvergirða veginn með þeim, ef til bardaga kæmi á landi. Eftir að herinn var farinn var þessum ferlíkjum velt ofan í gjótuna, en þeir eru, ásamt svo fjölda mörgu óðru, talandi tákn um það, að hernámsliðið bjóst við því í alvöru, að Þjóðverjar mundu gera innrás hjer.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 24. desember 1951, bls. 585-591.
-Vikan, 7. árg. 1944, 5. tbl., bls. 3.

Garðar

Garðar.

Hafnarfjörður

Fiskaklettur í Hafnarfirði stendur traustur í hjarta framkvæmda á Norðurbakkanum í Hafnarfirði. Skammt ofar er Huldukonuklettur. Á honum er lítil varða. Enn ofar er varða við Vörðustíg. Þessar vörður, ásamt nokkrum öðrum, vörðuðu land Akurgerðis fyrrum, allt að Hamarskotslæk. Aðrar vörður en þessar tvær eru nú horfnar undir óskipulega byggð þess tíma. Skammt austan við Vörðustígsvörðuna er Álfaklettur við Merkugötu.

Fiskaklettur

Fiskaklettur – Jónatan Garðarsson við Fiskaklett 1905.

Í Morgunblaðinu árið 2005 fjallar Svavar Knút Kristinsson um Fiskaklett; „Einn af framvörðum hafnfirska hraunsins„:
„Vegfarendur sem eiga leið um athafnasvæði við höfnina í Hafnarfirði, þar sem gamla bæjarútgerðin áður stóð, reka margir augun í undarlegan klett sem stendur dálítið eins og óboðinn gestur innan um rymjandi gröfur, lyftara og jarðýtur. Kletturinn, sem nefnist Fiskaklettur, er alls ekki óþekktur meðal Hafnfirðinga, en hann skipar mikilvægan sess í sögu bæjarins frá upphafi byggðar.
Fiskaklettur er í raun ysti oddi hraunsins í Hafnarfirði og lá hann dálítið út í sjó. Nú stendur hann í miðju landfyllingar sem byggingarnar á höfninni voru reistar á.
„Fiskaklettur var lengi eins konar útvörður Hafnarfjarðar, á meðan bærinn var lítill kaupmannsbær,“ segir Jónatan Garðarsson, dagskrárgerðarmaður og ferðamálaráðgjafi hjá Hafnarfjarðarbæ. „Það var mjög aðdjúpt við klettinn og fiskigöngur áttu það til að lóna við hann og því var hann kjörinn veiðistaður. Þaðan er nafnið dregið.“

Gamalt og merkilegt kennileiti

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarhöfn 1776-1778 skv. mælingum H.E. Minor.

Fiskaklettur er merktur inn í uppdrátt sem gerður var eftir mælingum sjóliðsforingjans H.E. Minor frá árunum 1776–78. Á uppdrættinum eru merkt inn þau fáu hús sem stóðu við Hafnarfjörð ásamt þeim kennileitum sem markverðust þóttu. Fiskaklettur er þar sýndur rétt vestan við verslunarhúsin í Akurgerði.
Þegar stjórnvöld ákváðu að reisa tvo vita í Hafnarfirði árið 1900 var annar þeirra byggður hátt uppi á hraunbrúninni, þar sem Vitastígur er nú, en hinn vitinn settur niður vestur með sjó. Fyrstu árin voru vitarnir reknir á kostnað landstjórnarinnar, en eftir að Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi, 1. júní 1908, óskaði Stjórnarráð Íslands eftir því að bærinn tæki við rekstri vitanna. 1. janúar 1911 tók bærinn alfarið við rekstri vitanna.

Hafnarfjörður

Hafnarfjarðarvitinn efri.

Árið 1913 var fyrsta hafskipabryggja landsins tekin í notkun í Hafnarfirði, rétt innan við Fiskaklett við Hellyershúsin, en þar höfðu mikil bólvirki verið hlaðin upp og steypt á klettabrúninni. Þá var Fríkirkjan risin og skyggði hún á ljósgeisla vitans á hraunbrúninni. Þess vegna var ákveðið að stækka hann og færa hinn vitann innar í fjörðinn. Var vitinn endurreistur á Fiskakletti, en þar stóð hann til ársins 1931 þegar hann var rifinn.
Verndaður „óvart“

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2003.

Um 1960 var hafnarbakkinn í norðurhöfninni gerður og stálþil rekið niður á rúmlega 170 metra kafla. Á næstu árum var haldið áfram með landfyllingar í áttina að Norðurgarði. Á þessum árum komst efsti hluti Fiskakletts á þurrt land. Þrátt fyrir margs konar framkvæmdir, byggingu stórra vöruskemma og að gömlu fiskverkunarhúsin væru rifin í áföngum var Fiskakletti jafnan hlíft, enda talinn náttúrlegur minnisvarði sem bæri að vernda.

Fiskaklettur

Fiskaklettur – skilti.

„Það má segja að Fiskaklettur hafi verið friðaður óvart,“ segir Jónatan og bætir við að menn hafi ætíð sýnt klettinum mikla nærgætni enda mikil virðing borin fyrir honum. „Þegar menn hafa verið að vinna hér í einhverjum framkvæmdum hafa þeir alltaf gætt mjög vel að því að raska ekki klettinum. Þeir hafa meira að segja raðað gámum í kringum klettinn til að vernda hann þegar mikið er um að vera. En hann virðist alltaf hafa verið verndaður hér fyrir einhverja meðvitund Hafnfirðinga sjálfra frekar en opinbera friðun.
Það var ekki fyrr en fyrir einhverjum árum sem hann fór inn á deiliskipulag sem friðaður staður. Nú hafa verktakarnir sem byggja hér gert ráð fyrir honum í hönnuninni.“
Fegrunarnefnd Hfj. merkti klettinn 1981 og lét setja á hann koparskjöld sem á stendur: „Þetta er Fiskaklettur einn af framvörðum hafnfirska hraunsins, sem mikil fiskimið voru við hér fyrr á árum.“

Í Fornleifaskrá Hafnarfjarðar I frá árinu 2020 er m.a. fjallað um Fiskakett og svæðið ofan hans:

Hafnarfjörður
„Hafnarfjörður hefur ætíð byggt afkomu sína af því sem kom úr hafinu og því sem kom af því. Í kring um 1400 komu norsk skip að landi og er elsta heimildin um slíka komu árið 1391 og aftur 1394. Fjórtánda öldin er gjarnan kölluð norska öldin, en við henni tók öld sem kölluð hefur verið enska öldin frá því um 1400. Og enskir tóku að venja komur sínar til Hafnarfjarðar og varð Hafnarfjörður ein helsta höfn Englendinga allt fram til um 1480, en þá tóku þýskir Hansakaupmenn við keflinu og ekki alltaf án átaka. Ítök þýskra varði allt til þess er einokunarverslunin var í lög sett árið 1602, en þá tóku Danir alfarið yfir. Skreiðin var sú vara sem allir þessir aðilar sóttust eftir, en aðrar vörur voru einnig eftirsóttar, t.d. lýsi og brennisteinn.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1902.

Árið 1677 kaupir Hans Nansen kaupmaður land Akurgerðis, sem þá var hjáleiga frá Görðum frá ómunatíð, og við það leggst búskapur endanlega af á býlinu og í staðinn rísa þar þurrabúðir, tvær árið 1703 og ein eyðibúð. Þeim hefur væntanlega fjölgað smám saman, en við tóku betri húsakynni í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. og standa mörg hver enn. Þetta er hluti af því sem nú er kallað Vesturbærinn og því hluti af verkefninu Verndarsvæði í byggð. Þó engin þessara þurrabúða hafi lifað fram á daginn í dag, er líklegt að dreifing þeirra hafi verið sama marki brennd og byggðin varð síðar, „… aðhúsaskipun og götulagning þar væri í mesta ólagi, enda byggði þar hver eftir sínum eigin geðþþótta, óátalið, og væri auðsýnt, að ef svo búið stæði til lengdar, mundi bæjarstæðið skemmast til þeirra muna, að engin tiltök yrði að lagfæra það.“ (Sigurður Skúlason 1933). Þetta var í nefndaráliti nefndar um bæjarstjórn í Hafnarfirði þann 25. febrúar árið 1903.

Hafnarfjörður 1925

Hafnarfjörður 1925 – uppdráttur Jóns Víðis. Hér sjást hinir gömlu garðar vel.

Dreifing húsa sem nú standa hefur tekið mið af hinu sérstæða hraunlandslagi. Húsin hafa gjarnan fundið sér stað í skjóli í hraunbollum eða grasblettum hlémegin við hraunhóla. Utan um þau hafa verið byggðir grjótgarðar sem afmörkuðu lóðirnar frá hvor annarri. Engar eiginlegar götur hafa verið lagðar svo að heitið geti, en slóðar og troðningar legið á milli húsanna. Um 1890 var enginn upp hlaðinn vegur í Hafnarfirði og svo var að mestu leyti fram yfir aldamótin. „Milli húsa eru víðast engar götur og engin fráræsla frá húsum.“ Þetta var í bréfi Guðmundar Björnssonar héraðslæknis í Reykjavík, síðar landlæknis, til Valtýs Guðmundssonar árið 1903.
Innan lóðarmarkanna hafa stundum verið dálitlir ræktunarreitir. Útlendur ferðamaður lýsti Hafnarfirði svo árið 1907: „Geysimikill hraunveggur verndar bæinn gegn bitrum austanvindinum, og húsin eru beinlínis greypt milli hraunklettanna og eru á hlýlegum stöðum.“ (Poulsen, Sven o.fl. 1907).
Opinbert skipulag leit ekki dagsins ljós fyrr en 1926 (Sigurður Júlíusson 1933).“

Í Fornleifaskránni segir auk þessa:

Huldukonuklettur – þjóðsaga

Hafnarfjörður

Huldukonuklettur – varðan sést vel upp á klettinum.

Kletturinn er nánast uppvið Vesturbraut 26b. „Í klettnum neðst við Vesturbraut býr huldukona […]. Hún er stundum sögð eiga tvo uppkomna syni.“ (Bryndís Björgvinsdóttir & Svala Ragnarsdóttir (2018). Krossgötur: Álfatrú, álfabyggðir og bannhelgi á Íslandi).

Álfaklettur – þjóðsaga

Hafnarfjörður

Álfaklettur við Merkurgötu.

Við Merkurgötu. Á milli húsa 9 og 9a. Vegurinn sveigir framhjá klettinum og innkeyrsla fast sunnan við hann.
„Við Merkurgötu er stór álfaklettur eða álfasteinn […]. Vegurinn sveigist hinsvegar og þrengist við steininn áður en hann breiðir úr sér aftur. Sagan segir að til hafi staðið að brjóta klettinn niður árið 1937 vegna framkvæmda […]. Járnkarl sem notaður var til verksins festist í klettinum og „mikil ógæfa helltist yfir vinnumenn þá sem áttu að fjarlægja hann.“
Járnkarlinn situr enn á sínum stað og kletturinn nýtur nú hverfisverndar […].“ (Bryndís Björgvinsdóttir & Svala Ragnarsdóttir (2018). Krossgötur: Álfatrú,
álfabyggðir og bannhelgi á Íslandi).

Fiskaklettur – örnefni

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2022.

Kletturinn er á milli húsanna Norðurbakki 15 og 17.
„Fiskaklettur. Krosssprunginn klettur vestur frá Gestshúsum í sjó fram. Allmikið dýpi var við klettinn og þar fiskaðist vel.[…] Í skjölum og sögnum síðari alda kemur Fiskaklettur oft við sögu. Þetta mun oftast vera vegna þess, að hann var endimark hinnar fornu verzlunarlóðar (Akurgerðislóðar) að vestan með sjó.“
Kletturinn hefur verið varðveittur á milli bygginga. (Guðlaugur Rúnar Guðmundsson. (2004). Örnefnalýsing Hafnarfjarðarlands).

Varða við Vörðustíg – landamerki

Hafnarfjörður

Vörðustígur – Landamerkjavarðan; Bragi Brynjólfsson stendur við vörðuna 2022.

Á lóð Vörðustígs 2. Varðan er 1-1,2m við botn, nær ferhyrnd og 1,9 m há. Úr hraungrýti með steypu á milli steina. (Bjarni F. Einarsson, 2018).

Heimildir:
-Morgunblaðið, 228. tbl. 25.08.2005, Fiskaklettur; einn af framvörðum hafnfirska hraunsins – Svavar Knút Kristinsson, bls. 18.
-Fornleifaskrá Hafnarfjarðar I, 2020.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Kirkjuvegur 1925.