Ratleikur

Ratleikjakortið má m.a. finna í sumum verslunum, á flestum bensínstöðvum og sundlaugum í Hafnarfirði – ókeypis.

Þema Ratleiks Hafnarfjarðar  2021 er hraun og skyldi engan undra miðað við þann áhuga sem fólk hefur á eldgosinu á Reykjanesskaganum. Margar eldstöðvar eru ofan við Hafnarfjörð og mörg hraun hafa runnið og oft yfir eldri hraun. Þá hafa hraunin skapað aðstöðu til búskapar, auk þess sem um þau liggja ótal götur og leiðir frá fyrri tíð.
Þrátt fyrir að tilgreindu staðirnir 27 á ratleikskortinu þyki áhugaverðir eru jafnan í nágrenni þeirra engu að síður staðir eða svæði, sem vert er að gefa gaum í leiðinni.
Allt áhugasamt fólk um hreyfingu og heilsu er vill nýta nánasta umhverfi sitt til sögulegs fróðleiks sjálfu sér til handa er hvatt til þátttöku í ratleiknum. Og ekki er verra að vegleg verðlaun eru í boði fyrir heppna þátttakendur…

1.      Bali – Búrfellshraun:

Bali

Balavarða (landamerkjavarða) – Hafnarfjörður í bakgrunni.

Bali er nú austasti bærinn í Garðahverfi í Garðabæ. Balavarðan, fremst á hraunstrandarbrúninni, markar skil Hafnarfjarðar og Garðabæjar. Fyrrum náði þó Garðahreppur yfir allan Hafnarfjörð, allt að Hvassahrauni í vestri.

Gálgahraun

Hraunmyndanir í Gálgahrauni.

Búrfellshraun er samnefni yfir hraunasvæði sem teygir sig yfir stórt svæði ofan Hafnarfjarðar. Hraunin runnu fyrir um 8000 árum en þá varð eldgos sem myndaði eldborgina Búrfell ofan Garðabæjar. Hraunin nefnast ólíkum nöfnum eftir staðsetningu þeirra eða útliti, s.s. Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun, Stekkjahraun, Engidalshraun, Klettahraun, Svínahraun, Vífilsstaðahraun, Gálgahraun og Balahraun.  Sjá nánar  um hraunin HÉR og HÉR.

Guðmundur Kjartansson jarðfræðingur rannsakaði Búrfellshraun (1954) og lét aldursgreina það með geislakoli (1973). Niðurstaðan var að hraunið væri um 8000 ára. Fyrst rann taumur niður í Straumsvík – hann er nú grafinn undir yngri hraunum (t.d. Kapelluhrauni) utan smáskækill sem stendur upp úr og nefnist Selhraun. Næst rann taumurinn; Gráhelluhraun til sjávar í Hafnarfirði. Þá þriðji taumur til sjávar milli Álftaness og Arnarness (Urriðakotshraun, Vífilsstaðahraun, Gálgahraun). Og loks hinn fjórði, smáskækill til suðurs frá Búrfelli (Helgadalur), [Kaldársselshraun og Gjár].

2.      Víðistaðir – Búrfellshraun:

Víðistaðatún

Víðistaðatún.

Víðistaðir er óbrennishólmi í Hafnarfirði, umlukin Búrfellshrauninu, sem rann frá Búrfelli fyrir um 8000 árum. Til er skemmtileg þjóðsaga um tilurð þess að hraun rann ekki yfir Víðistaðatún sem má lesa í ítarupplýsingum á vef Ratleiksins, sjá HÉR. Hins vegar hefur þarna verið eyja sem hraunið hefur runnið í kringum en jarðvegurinn fokið í burtu og lækkað.

Víðistaðatún

Á Víðistaðatúni.

Þjóðsagan um tilurð Víðistaðatúns er á þá leið að smali frá Görðum var látinn gæta fjár á völlunum þar sem nú er Norðurbærinn í Hafnarfirði. Hann var utan við sig og átti til að gleyma sér við dagdrauma og svo var einmitt þegar hraunið rann. Þegar hann loks rankaði við sér hafði eimyrjan þegar lokað leiðinni heim til Garða og nálgaðist nú jafnt á þrjá vegu en rjúkandi sjór lokaði undankomuleiðinni í fjórðu áttina. Drengurinn sá að sér og hjörðinni sem honum hafði verið trúað fyrir var bani búinn og hann fengi ekkert að gert. I angist sinni leitaði hann til Drottins og fól honum allt sitt ráð. Þegar hann leit upp hafði hraunið klofnað og hraungarður hlaðist upp hringinn í kring þar sem hann og skepnurnar voru. Hann hafði hlotið bænheyrslu og Víðistaðir voru orðnir til.

Stefán Júlíusson, rithöfundur, komst svo að orði um Víðistaði í Jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1959: „Ekki man ég svo langt aftur, að Víðistaðirnir væru mér ekki ráðgáta. Beinn og jafn vegurinn yfir hraunlausa svæðið stakk svo mjög í stúf við brekkurnar, bugður og sneiðinga, báðum megin við, að barnshugurinn hlaut að undrast. Og slétt og gróin túnin mitt í úfnu hrauni á alla vegu, þar sem á skiptust klettar og gjár, klungur og gjótur, harðbalar og djúpar lautir, urðu mér stöðugt umhugsunarefni. Hvernig gat staðið á þessari vin í hrikalegu hrauninu? Með hvaða hætti hafði þessari litlu spildu verið hlíft við yfirgangi hraunsins?

Það var sízt að undra, þótt fávís og forvitinn drengsnáði, sem leið átti þarna um dags daglega, velti þessu fyrir sér. Ekki vissi ég þá, að hér hafði átt sér stað furðulegt fyrirbæri í jarðmyndunarsögunni, þótt jafnan byggi það mér í grun, að merkileg undur hefðu hér gerzt.

Enginn, sem ég þekkti í bernsku, kunni skil á því, hvernig þessum bletti hefði verið þyrmt, þegar hraunið rann.“

Sjá meira HÉR.

3.      Klettahraun/Álfaskeið – Búrfellshraun:

Klettahraun

Klettahraun.

Klettahraun er hluti Garðahrauns. Í Klettahrauni eru álfaborgir, skv. heimildum, og ber því að umgangast það með varfærni. Þrátt fyrir byggð svæði í og ofan Hafnarfjarðar hafa skipulagsyfirvöld jafnan reynt að gæta þess að varðveita einstakar hraunmyndanir, líkt og finna má í Klettahrauni. Annað dæmi um slíkt er Hellisgerði.

Hluti Búrfellshrauns nefnist Garðahraun og skiptist í Engidalshraun og Klettahraun sem er líka nefnt Klettar. Allstórir ólivín-dílar eru helsta einkenni Búrfellshrauns en þeir eru fremur sjaldséðir á Reykjanesskaga og koma einkum fyrir í eldri hraunum en eru áberandi í nýja hrauninu í Geldingardölum. Upptakasvæðið er afar sérstakt, einkum fyrir hrauntröðina Búrfellsgjá og ummerki eftir stórar hrauntjarnir norðan (Búrfellsgjá og Selgjá) og austan (Lambagjá) vestan við Kaldársel (Gjárnar).

4. Hraun við Ástjörn – Eldra Hellnahraun:

Ástjörn

Ástjörn.

Eldra Hellnahraunið, sem lokar af Ástjörnina til vesturs, rann fyrir um 2200 árum. Nánast allt Vallarhverfið í Hafnarfirði er byggt á þessu hrauni. Ofan þess er Yngra Hellnahraunið, um 1100 ára.

Ástjörn og svæðið umhverfis hana var friðlýst árið 1978. Í desember 1996 var verndarsvæðið stækkað með stofnun fólkvangs við Ástjörn og Ásfjall umhverfis friðlandið. Ofan við Ástjörnina stóðu tveir bæir, Ás og Stekkur. – Sjá meira um Ástjörn HÉR.

Ástjörn er einstætt náttúrufyrirbæri sem á sér enga hliðstæðu í næsta nágrenni hins nær samfellda þéttbýlis höfuðborgarsvæðisins. Tjörnin og svæðið umhverfis hana einkennist af mjög auðugu gróður- og dýralífi. Þar er t.d. að finna flórgoðavarp, en tegundinni fækkað til muna frá því sem var á fyrri hluta 20. aldar og er flórgoði alfriðuð tegund og á válista. Honum hefur fjölgað í seinni tíð og má segja að flórgoðinn verpi nú á öllum vötnum höfuðborgarsvæðisins. Í Ástjörninni er mikið smádýralíf sem er þó lítt rannsakað. Bakkar tjarnarinnar eru raklendir og að norðaustanverðu er stórt mýrarstykki niður undan gamla Ásbænum. Upp af votlendinu taka við þurrir grýttir móar sem eru að gróa upp og hefur trjám verið plantað í þá norðan og austan megin við tjörnina.

5. Ásfjall – Ísaldarhraun:

Asfjall

Ásfjall.

Ásfjall er hæsti hluti móbergsfjallaklasa ofan Hafnarfjarðar. Neðri hluti þess er úr móbergi en á toppi þess og hlíðum er grágrýtishraunhetta. Móbergið myndaðist undir jökli á síðasta jökulskeiði en hraunhettan eftir að gosið náði upp úr ísaldajöklinum. Á fjallinu eru nokkur illa hlaðin skotbyrgi frá stríðsárunum.

Ásfjall

Á Ásfjalli.

Á heimasíðu Náttúrustofu Reykjaness er fjallað um jarðfræði og gróður á Reykjanesi. Þar segir m.a.: „Fyrir meira en 10.000 árum myndaðist Reykjanesskaginn út frá Lönguhlíðafjöllunum og Undirhlíðum, Öskjuhlíðin, Digranesið, Arnarnesið, Hálsarnir fyrir ofan Hafnarfjörð, Hvaleyrartanginn og Holtin, Vesturháls, Austurháls, Skógfellin, Þórðarfell, Þorbjarnarfell, Miðnesið og slík auðkenni. Síðan hlóðust hraungos allt í kring og fylltu inn á milli og myndaði Reykjaneskagann í þeirri mynd, sem við þekkjum hann í dag.“

6. Dalurinn, Hamranes – Eldra Hellnahraun:

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum.

Dalurinn er lægð norðan Hamraness, að hluta til orpinn um 2200 ára hrauni. Um „Dalinn“ segir Gísli Sigurðsson m.a. í Örnefnalýsingu sinni um Ás: „Línan liggur af hálsinum yfir svonefnt Hellisdalshraun, sem liggur í Hellisdal, en austast, innst í hrauntungunni, er Hellirinn eða Hellishraunsskjól. Hann var í eina tíð vel upp hlaðinn, en er nú saman hruninn. Hellishraun, svo var hraunið í Hellisdal einnig nefnt.“

Dalurinn

Dalurinn – fjárskjólið.

Fjárskjólið er í Eldra Hellnahrauni og ágætt dæmi um hvernig fólk fyrrum nýtti sér náttúrulegar aðstæður til skjóls fyrir skepnur sínar. Nú hefur hraunþakið fallið niður, en eftir stendur hlaðinn gangurinn, sem fyrr er minnst á. Niðurfallið er í dag þakið plastdrusli og öðrum úrgangi – dæmigerð afurð nútímafólksins, sem engan áhuga virðist hafa á arfleiðinni.

7. Hraun við Þórðarvík – Eldra Hellnahraun:

Þórðarvík

Þórðarvík.

Í örnefnalýsingu fyrir Hvaleyri segir m.a.: „Þórðarvík, er þar við Brunann [Kapelluhraun/Nýjahraun]. Hér upp frá sjónum er allúfið brunahraun, sem heitir Hvaleyrarhraun eða Hellnahraun. Upp frá Þórðarvík opnast dalir, er ganga þaðan inn í hraunið, og heita þeir Leynidalir.“ Hraunið er um 2200 ára gamalt. – Sjá nánar á vef.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir í Hraunum.

Í örnefnalýsingu fyrir Þorbjarnarstaði segir m.a.: „Norðurtakmörk ofannefndrar jarðar er, samkvæmt máldaga Hvaleyrarkirkju frá 15. öld, norðurbrún Nýjahrauns milli fjalls og fjöru. Af þessari landareign á hver jörð sitt umgirta tún, en utantúns á Þorbjarnarstaðir 3/4 en Stóri-Lambhagi 1/4.“ (Bréfið dags. í Hafnarfirði 1890.) Landamerkjalínan liggur úr Þórðarvík suður og upp um Leynidali og síðan áfram upp austurbrún Brunans.

Jón Sigurðsson frá Skollagróf minntist Guðmundar Tjörva Guðmundssonar, sem bjó í Straumi í Litla Bergþóri árið 1999. „Tjörvi þótti góður bóndi. Sauðfjárbúskapur mun hafa verið traustasta undirstaða búskapar í Hraununum. Vetrarbeit reyndist þar farsæl og örugg í flestum árum, bæði til fjalls og fjöru. Sölvareki á hausti og í vetrarbyrjun var árviss við Þórðarvík skammt frá Lambhagabæjum. Kvist- og lyngbeit ágæt upp um hraunlandið.“ Lambhagabæirnir voru norðan Straumsvíkur.

8. Leynir – Hrútargjárdyngja:

Leynir

Skjól í Leyni.

Leynir eða Leynidalir eru í hraunklofa ofan við Þórðarvík mitt á milli Hvaleyrar og Straums. Ofan við víkina er Hellnahraun en við hana vestanverða er Bruninn. Upp með honum lágu landamerki Hvaleyrar og Þorbjarnarstaða í Hraunum – upp í gegnum Leynidali. Flestum landamerkjunum hefur verið eytt. Neðanvert í þeim er Hellnahraun, en í þeim ofanverðum er lágbruninn. Línan liggur (lá) upp með Brunahorninu. Alfaraleiðin lá suðvestur eftir Brunanum.

Skolpframræðslustöð er nú ofan við Þórðarvík. Sjá má þó eina vörðu ofan Reykjanesbrautar enn í dag; Háuvörðu. Hún var (er) á fyrrnefndum landamerkjum.

Í Leynidali lá Leynisstígur yfir Brunann frá Þorbjarnarstöðum ofan við Gerði. Fé sótti þangað yfir svo hlaðin voru þar smalaskjól, eitt á klettastandi og annað í hraunsprungu, sem sjá má enn í dag.

09. Þorbjarnarstaðir stekkur/rétt – Hrútargjárdyngja:

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn.

Stekkurinn ofan Þorbjarnarstaða er enn eitt dæmið um hvernig fólkið fyrrum hefur nýtt sér aðstæðurnar í hraununum til sjálfsbjargar. Stekkurinn (þar sem lömbin voru skilin frá mæðrum sínum í sumarbyrjun) er vel hlaðinn grjóti undir háu hraunhveli. Síðar var hlaðinn rétt út frá stekknum, enda stekkstíðin þá liðin undir lok. Skammt frá er Kápuskúti, fyrirhlaðið fjárskjól í gróinni hraunkvos. Ofar er Nátthagi í grónum hraundal. Segja má að fólk hafi kunnað að meta hvaðaneina er skjólgott hraunið umhverfis hafði upp á bjóða fyrrum.

10. Réttarklettar – Hrútargjárdyngja:

Réttarklettar

Réttarklettar.

Réttarklettar eru á millum Lónakots og Hvassahrauns. Þeir eru álitleg klettaborg í annars hlutlausu ofvöxnu hrauni. Augljóst er að þarna hafði Hrútarghárdyngjuhraunið runnið í sjó fram fyrir um 7500 árum síðan og eldur og vatn í sameiningu skapað þau náttúruundur, sem þarna sést. Umleikis Réttarkletta eru miklar mannvistaleifar.

Nípuskjól

Nípuskjól.

Þarna upp af í hrauninu var fjárskjól, Nípuskjól, og rétt, Nípurétt. Milli þeirra voru allvel grónar flatir og réttartættur, garðar og skjól, sem enn sjást vel. Dæmigerðar aðstæður er fólkið okkar fyrrum nýtti sér hugvitsamlega við náttúrulegar aðstæður – sjálfu sér og afkomendum þeirra til framdráttar. Talið er að undir Réttarklettum hafi kot það er Svínakot nefndist, síðar verið nýtt frá Lónakoti.

11. Draughólshraun:

Draughóll

Draughóll í Draughólshrauni.

Draughólshraun er að öllum líkindum eitt fáfarnasta hraunið á Reykjanesskaganum. Reyndar er hraunið ekki víðfeðmt, en nægilegt þó til þess að bæði fólk og skepnur, nema kannski refurinn, hafa löngum lagt lykkju á leið sína til að forðast að þurfa að ganga um það.

Draughólshraun.

Draughólshraun – varða.

Draughólshraun heitir eftir efsta stóra hólnum í hrauninu; Draughól. Það er dæmigerð afurð apalhrauns. Líklega hefur varða á brún Draughólshrauns komið til af því að fæla fólk að fara um svæðið af ástæðulausu, sem síðar átti eftir að koma í ljós, eða sem vísbending um að þangað væri ekki óhætt að fara. Í raun er hraunið hluti af stærra hrauni, eða hraunum, á svæðinu. Meginhraunið er Hrútagjárdyngjuhraunið. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að það hafi myndast fyrir um 4500 árum.

Hraunin ná yfir 80 km² svæði. Neðarlega, skammt ofan við Þorbjarnastaði í Hraunum, eru nokkrar lítt áberandi hraunskellur, nefndar Selhraun 1, 2, 3 og 4. Hraun þessi eru öll yngri en Hrútagjárdyngjuhraunið, misgömul þó, en öll u.þ.b. 4000 ára. Svo virðist sem undirlag þeirra hafi orðið til í jarðhræringunum í kjölfar dyngjugossins í Hrútagjá, sum jafnvel um svipað leyti. Gróningar benda þó til þess að hraunin geti verið, það yngsta, allt að 2000 árum yngri. Elsti flákinn er Selhraun 4, svonefnt Gráhelluhraun. Í því er t.d. Kolbeinshæðaskjólið og Kolbeinshæðahellir. Þá koma þrjú Selhraun 3, annars vegar vestan í Brunanum (Nýjahrauni/Kapelluhrauni) og hins vegar Draughólshraunið.

12. Gjásels- og Fornaselsstígur – Búrfellshraun:

Gjáselsstígur

Gjásels- og Fornaselsstígur.

Um hraunin ofan Hafnarfjarðar liggur fjöldi stíga. Fyrstu „ferðamennirnir“ hér á landi fóru flestir alfaraleiðirnar milli áhugaverðra náttúru- og/eða minjastaða. Einn þeirra staða var t.a.m. hverasvæðið í Krýsuvík, þrátt fyrir að Sveinn Pálsson hafi lýst Reykjanesskaganum í ferðabók sinni seint á 19. öld með eftirfarandi orðum; „Hér er ekkert merkilegt að sjá…“
Selsstígarnir voru jafnan ekki alfaraleiðir, í þeim skilningi. Selstígurinn upp frá Þorbjarnastöðum að Gjáseli og Fornaseli (ofar) hefur augljóslega verið notaður um langt skeið. Á gróinni hraunsléttunni ofan við Tobburétt eystri má sjá hann grópaðan í hraunhelluna á kafla.
Stígurinn hefur af sumum verið, að hluta, einnig nefndur Straumselsstígur eystri.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur BE.

Bjarni Einarsson, fornleifafræðingur hjá Fornleifafræðistofunni, gróf prufuholur í Fornaseli árið 2000 og birti skýrslu um árangurinn árið 2001.
Markmið rannsóknanna var að freista þess að ná viðarkolum eða húsdýrabeinum til geislakols-aldursgreininga (C-14) og að kanna í hvaða ástandi fornleifarnar að Fornaseli væru. Að öðru leyti verður að líta á þessar rannsóknir sem fyrsta skref í rannsóknum á staðnum. Allt bendir til þess að haft hafi verið í seli að Fornaseli frá því um 1600 og fram á 19. öld.
Ekki hefur verið gerð sambærileg rannsókn í Gjáseli.

13. Kápuskjól – Laufhöfðahraun:

Kápuskjól

Kápuskjól (Kápuhellir).

Í örnefnalýsingunni segir m.a.: „Austan við Katlana var Laufhöfðahraun með Laufhöfðavatnsstæði, sunnan undir Laufhöfða. Í brúninni á Gjáselsvarðanhrauni þessu var Kápuhellir/-skjól. Landamerkjalínan liggur um Katlana í Jónshöfða austast í Straumsselhöfðum ofan Kápuhellis (Gísli Guðjónsson).“

Kápuskjól (Kápuhellir) er grunnur hraunskúti með lágri mosavaxinni fyrirhleðslu í allstóru torförnu grónu jarðfalli. Auðveldast er að komast inn í það að norðanverðu.  Skjólin eru í rauninni tvö; skammt frá hvort öðru.

Kápuskjól hefur jafnan verið staðsett uppi í Laufhöfðahrauninu. Í örnefnalýsngum er það staðsett „í brúninni inni á hrauni þessu“. Aðalheimildin um Kápuskjól er örnefnalýsingar, upphaflega skráð af Gísla Sigurðssyni, örnefni eftir Ástvald Þorkelsson frá Þorbjarnarstöðum, Gísla Guðjónsson frá Hlíð, Magnúsi Guðjónsson frá Stóra-Lambhaga og Gústaf Brynjólfsson frá Eyðikoti. Laufhöfðahraun er lítið hraun í Hrútargjárdyngjuhrauni, eldra en 2400 ára.

14. Gjásel – Hrútagjárdyngjuhraun:

Gjásel

Gjásel.

Gjásel er eitt u.þ.b. 400 selja á Reykjanesskaganum – í fyrrum landnámi Ingólfs. Það er, líkt og nágrannar þess, Fornasel og Straumssel, í Hrútargjárdyngjuhrauninu.  Frá selinu lá Gjáselsstígur, en hann er nú óglöggur mjög, nema ef vera skyldi ofan eystri Tobburéttar. Skammt sunnan selsins er Gránuskúti. Hlaðinn hleðsla er niður í hann, en nú umlukin trjágróðri.

Straumsselsstígur

Gjáselsstígur ofan Tobburéttar vestari.

Hrútagjárdyngja er um 4.500 ára hraundyngja sem þekur um 80-100 km² lands. Alls rúmir 3 rúmkílómetrar af hrauni. Dyngjan er með stórum toppgíg og skorin djúpum gjám sem kunna að vera merki um ris vegna kvikuinnskota. Hrútagjárdyngja er einn af stærstu hraunskjöldum á Reykjanesi. Í hrauninu er hægt að finna allmarga hraunhella, þ.á.m Steinbogahelli, Maístjörnuna og Híðið. – Sjá nánar HÉR.

Eitt af stærstu hraununum í kringum Hafnarfjörð er komið úr Hrútagjárdyngju. Upptök þess eru nyrst í Móháls[a]dal. Á gígsvæðinu er allmikil gjá sem heitir Hrútagjá og við hana er dyngjan kennd. Hraunið hefur að mestu runnið til norðurs og til sjávar og hefur myndað ströndina milli Vatnleysuvíkur og Straumsvíkur. Í daglegu tali gengur stærsti hluti hraunsins undir nafninu Almenningur. Öskulög í jarðvegi ofan á hrauninu benda til að hún hafi myndast fyrir 4000- 5000 árum (leiðréttur aldur ~ 4500).

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja – gígurinn áður en nýrra hraun rann í hann.

Ljóst er þó, þegar gengið er um Dyngjuna og umhverfis hana, að hér hefur ekki verið um eina goshrinu að ræða heldur a.m.k. tvær eða fleiri. Nýjustu ummerkin sjást hvað best suðaustast í Hrútagjárdyngjunni. Þar er gígur og hrauntröð. Verksummerki eftir miðkaflan sjást hins vegar gleggst vestan við mikla hrauntjörn sunnanlega á dyngjusvæðinu og í hrauntröð út frá henni til norðurs. Þar hefur glóandi hraunkvikan leitað út úr gamla dyngjusvæðinu nyrst í henni og myndað ábreiðu næst dyngjunni.

Gamli gígurinn í Hrútagjárdyngju, sem gaf af sér hina miklu kviku, sést enn, en hefur nánast fyllst af nýrra hrauni.

15. Brunntorfuskjól – Hrútargjárdyngja:

Brunntorfuskjól

Brunntorfuskjól.

Í Brunntorfum eru fjölmargar mannvistarleifar, flestar eru þær enn óskráðar. Ein þeirra er Stóra Brunntorfuskjólið. Vitund þess hefur einungis, hingað til a.m.k., verið til í huga örfárra.

Er þetta hugvitsamlega hlaðið fjárskjól í lágu jarðfalli í Hrútargjárdungjuhrauni. Hlaðinn er gangur að skjólinu, er greinist síðan til beggja hliða. Þegar inn er komið, hvoru megin sem er, má sjá að um talsvert mannvirki hafi verið um að ræða í þá tíð. Skjól, sem þetta, er þó ekkert sérstakt þegar horft er til Hraunanna. Víðs vegar í þeim má sjá slík skjól taka mið af náttúrulegum aðstæðum, sem bændur fyrrum nýttu sér og sínum í lífsbaráttu þess tíma. Fjárskjólið hefur að öllum líkindum tengst Fornaseli, sem er þarna skammt vestar.

16. Kapelluhraun:

Kapelluhraun

Kapelluhraun.

Kapelluhraun, líka nefnt Nýjahraun og Bruninn, er úfið og gróðursnautt milli Hafnarfjarðar og Staums. Talið er að það hafi runnið snemma á sögulegum tíma (1010-1020). Hraunið kom úr tveimur gígum norðvestan við Hraunhól undir Vatnsskarði (um 3500 ára). Undir því er hraun frá nefndum hól (hólum) svo og eldra hraun frá Sandfellsklofa (um  3000 ára). Í hrauninu, sunnan við Reykjanesbrautina, beint á móti álverinu í Staumsvík er lítið tóft, hlaðin úr hraungrýti, sem nefnist Kapella. Um var að ræða athvarf við gömlu Alfaraleiðina til og frá Suðurnesjum millum Hafnarfjarðar og Hvassahrauns.

KapellaÁrið 1950 fannst þar við uppgröft í henni lítið líkneski heilagrar Barböru. Á síðustu öld var mikið efni verið tekið úr hrauninu í húsgrunna og götur á Stór-Reykjavíkursvæðinu og það sléttað. Hraunhóllinn með endurhlaðinni kapellunni hefur verið látinn ósnortinn og er nú friðlýstur. Enn má sjá móta fyrir Alfaraleiðinni við kapelluna.

Sagnir voru um, að einn sveina Kristjáns skrifara, sem drepinn var á Kirkjubóli á Miðnesi, hafi verið dysjaður við Kapelluna. Var því þarna stundum kölluð Dysin eða Kapelludys.

17. Stórhöfði – Óbrinnishólabruni:

Stórhöfðahraun

Við hraunjaðar Stórhöfðahrauns.

Stórhöfði er móbergsstandur frá ísaldarskeiði, líkt og höfðarnir umleikis, Selhöfði, Húshöfði og Fremstihöfði. Framan við Stórhöfða eru Óbrennishólahraunin (Hellnahraun).

Guðmundur Kjartansson, jarðfræðingur, sagði eftirfarandi m.a. um Óbrinnishólahraun: „Ofan á gjalli eldri giganna í Óbrinnishólum er moldarlag nokkuð mismunandi þykkt, en víðast 5-8 cm. Þó er það á stöku stað 10-15 cm. Efsti hluti moldarlagsins er svartur af koluðum gróðurleifum. Virðist það að verulegu leyti hafa verið mosi, enda má víða greina heillega mosa í þessu. För eftir birkistofna og greinar sjást víða og hafa stofnarnir sums staðar náð 15-20 cm upp í gjallið.

Stórhöfðastígur

Stórhöfðastígur.

Víða er sjálfur stofninn horfinn með öllu en eftir stendur börkurinn sem hólkur upp í gjallið. Gjallið hefur sums staðar verið svo heitt, að viðurinn hefur kolast algerlega og má því finna mikið af mjóum greinum og stofnum, sem eru kolaðir í gegn. Flestir eru slíkir stofnar eða greinar um 6 mm í þvermál og þaðan af mjórri. Vel gæti þetta hafa verið lyng, fjalldrapi eða víðir eins og birki. Sverari stofnar og greinar eru oftast kolaðir aðeins þeim megin, sem að gjallinu snýr, en fúnir eða horfnir með öllu nema börkurinn hinum megin: Norðan við syðsta gíghólinn, en úr honum var aðal hraunrennslið, fann ég allmarga stofna, sem voru alveg heillegir og 10-15 cm í þvermál. Þeir voru mjúkir og héldu formi á meðan þeir voru blautir, en urðu harðir sem grjót, þegar þeir höfðu þornað. Svo virðist sem hríslurnar hafi þarna vaxið í mosa líkt og birkihríslurnar, sem ennþá vaxa sunnan í nyrsta gíghólnum og á víð og dreif í hrauninu. Þegar stofninn lagðist til jarðar undir ofurþunga gosefnanna, pressaðist hann niður í mjúkan mosann og liefur varðveitzt þar, en mosinn einangrað hann það vel frá hitanum, að kolnun hefur ekki átt sér stað nema rétt þar sem hin heita gosmöl lagðist beint ofan á stofninn. Leifar af þessum forna birkiskógi hef ég sent til aldursákvörðunar á rannsóknastofu háskólans í Uppsölum, þar sem dr. Ingrid U. Olsson hefur gert á þeim C14 aldursákvörðun. Voru gerðar tvær ákvarðanir, eftir að efnið hafði fyrst verið meðhöndlað á mismunandi hátt. Útkoman varð þessi:

Sýni nr. U-2268 – 2370 ± 70 C1* ár

Sýni nr. U-2269 – 2100 ± 80 C14 ár

Með þeirri óvissu, sem við þessar ákvarðanir loðir enn, má telja að síðara gosið í Óbrinnishólum hafi því orðið um 650 árum f. Kr.“

18. Arnarklettar – Óbrinnishólabruni:

Arnarklettar

Arnarklettar.

Kapellu- og Óbrinnishólahraun (-bruni) eru með þeim yngstu í Hafnarfirði og skilja sig greinilega frá öðrum þar sem þau eru að miklum hluta úfin kargahraun með samfelldri mosaþembu. Óbrinnishólabruni rann 190 f. Kr. og Kapelluhraun (Nýjahraun/Bruninn) rann 1151 e.Kr. Hraunsvæðið suðaustan við Stórhöfða hefur stundum verið nefnt Arnarklettabruni í Stórhöfðahrauni. Upp úr því rísa þrír áberandi klettastandar; Arnarklettar. Feta þarf fótinn varlega um mosavaxið hraunið að klettunum. Í því felast m.a. hreiður auðnutittlingshreiður – auk þess sem rjúpan hvílir þar undir á hreiðri skammt frá.

19. Búrfell – Búrfellshraun:

Búrfell

Búrfellsgígur.

Búrfell upp af Hafnarfirði [Garðabæ] er eldstöð af þeirri gerð sem kallast eldborg. Eldborgir einkennast af því að gos hefur átt sér stað á stuttri sprungu eða pípulaga gosrás og myndar því stakan aðalgíg og stundum smærri gíga þar hjá. Engir hliðargígar eru hjá Búrfelli, það stendur eitt og stakt, 180 m hátt yfir sjó, hlaðið úr gjalli og hraunkleprum. Hraunstraumarnir sem runnu frá gígnum nefnast einu nafni Búrfellshraun en hafa fjölmörg sérnöfn eftir einstökum hlutum hraunsins, svo sem Smyrlabúðarhraun, Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Urriðakotshraun, Hafnarfjarðarhraun, Garðahraun og Gálgahraun. Út frá gígnum má sjá hraunrásir (Búrfellsgjá og Selgjá) til norðurs og hrauntjörnina Kringlóttugjá til vesturs.

Búrfell

Búrfellsgjá.

Þrjár stórar hrauntungur runnu frá Búrfelli til norðurs og allar náð til sjávar. Stærsta tungan rann niður með Vífilsstaðahlíð og náði í sjó bæði í Hafnarfirði og við Arnarnesvog. Mörg hverfi í Hafnarfirði og Garðabæ standa á þessum hluta hraunsins. Önnur hrauntunga rann í átt að Kaldárbotnum og síðan niður hjá Ásfjalli og í sjó við Hamarinn í Hafnarfirði. Þriðja hrauntungan rann suður fyrir Kaldárbotna og til sjávar í Straumsvík. Hún er nú að mestu hulin yngri hraunum. Þegar hraunið rann stóð sjór um 10 m lægra við landið en hann gerir í dag. Ystu totur hraunsins eru því sokknar í sæ og teygja sig nokkuð út fyrir núverandi strönd.

Kringlóttagjá

Kringlóttagjá.

Búrfell og Búrfellsgjá voru friðlýst árið 2020 – sjá HÉR.

20. Helgadalur – Búrfellshraun:

Helgadalur

Tóft í Helgadal.

Helgadalur er í um 8000 ára Búrfellshrauninu. Um dalinn gengur áberandi sveimsprunga, allt að 10 m há. Sprungukerfið er í misgengi, sem eru reyndar mörg á svæðinu. Má þar nefna Hjallamisgengið. Vatnsstreymið í gegnum hraunin ofan dalsins staðnæmast við sprungurnar og vatn safnast saman í gjánum. Á vatnasviðinu er Kaldárbotnar, er tengist væntanlega m.a. Vatnsgjánni sem er í Búrfellsgjá. Frá þessu vatnasviði fá Hafnfirðingar og fleiri hið daglega neysluvatn sitt – hið sjálfsagða, en jafnframt eina dýrmætustu lífsnauðsyn samtímans.

Helgadalur

Helgadalur – misgengi.

Hafnarfjarðarkaupstaður stendur hálfur á jökulsorfinni grágrýtisklöpp, hinn helmingurinn er í úfnu hrauni. Lækurinn, sem fyrrum hét fullu nafni Hamarskotslækur, en nú oftast Lækurinn, fylgir nákvæmlega mörkum þessara jarðmyndana. Að hafnfirskri málvenju er grágrýtissvæðið „fyrir sunnan læk“ en hraunið „fyrir vestan læk“. Raunar er grágrýtið, bæði sunnan lækjar í Hafnarfirði og um öll innnes allt til Kollafjarðar, einnig hraun að uppruna, en of gamalt og máð til að heita svo í daglegu máli. Þessum fornu grágrýtishraunum er hárrétt lýst í tveimur ljóðlínum í kvæði Arnar Arnarsonar um Hamarinn í Hafnarfirði:

„Jökulhefluð hamrasteypa,
hafi sorfin, stormi fægð“.

21. Helgafell – gígur:

Helgafell

Helgafell.

Helgafell er 338 metra hár móbergsstapi suðaustur af Hafnarfirði. Fjallið myndaðist við gos undir jökli seint á ísöld, fyrir 11000 árum. Efst uppi á fjallinu er varða, sem er í raun berggangur sem grjóti hefur verið hlaðið í kringum. Í suðaustri er klettadrangur í fjallinu, sem heitir Riddari. Fyrrum var Riddarinn sjómið af öðrum samnefndum ofan Straumsvíkur, sem því miður hefur verið fargað. Þaðan er fær gönguleið niður af fjallinu og liggur hún í gegnum stóran steinboga.

Nafn fjallsins kann að vera komið til vegna einhvers konar helgi á fjallinu til forna en einnig gæti það verið skylt mannsnafninu Helgi.

Helgafell

Á göngu um Helgafell.

Fjallið er vinsælt meðal Hafnfirðinga og annarra íbúa á höfuðborgarsvæðinu og er tiltölulega auðvelt uppgöngu. Greinileg slóð liggur að fjallinu frá Kaldárbotnum, þaðan sem flestir hefja för sína. Gengið er með sléttu helluhrauni upp að norðausturhlíð fjallsins, þar sem einfaldast er að hefja gönguna. Þaðan er gengið eftir troðinni slóð sem liggur upp með fjallshlíðinni. Fyrst er gengið upp gróna brekku en síðan eftir móbergsfláum þar til komið er upp á topp fjallsins.

Útsýnið af toppnum yfir höfuðborgarsvæðið sem og nánast Reykjanesskagann allan, er frábært, þó að fjallið sjálft sé ekki mjög hátt.

22. Kýrskarð – Ögmundarhraun:

Kýrgil

Kýrgil.

Um Kýrskarð rann hrauntunga frá Gvendarselsgígunum. Gígarnir þeir voru nyrstu útstöðvar Ögmundarhraunsgígaraðarinnar frá um 1151. Um það eldgos á einstakri sprungurein hafa verið skrifaðar fjölmargar lærðar ritgerðir. Hrauntröð er í Kýrskarði. Þar hefur hraun runnið úr tveimur syðstu gígum Gvendarselsgígaraðarinnar ofan Undirhlíða. Þeir eru hluti Ögmundarhrauns. – Sjá nánar HÉR.

Ögmundarhraun er komið upp í eldstöðvakerfi sem oftast hefur verið kennt við Krýsuvík, en stundum við Trölladyngju. Eldstöðvakerfið einkennist aðallega af gígaröðum og gapandi gjám og sprungum. Sprungureinin er víðast um og innan við 5 km breið og nær 50 km löng. Hún liggur frá Ísólfsskála í suðvestri, norðaustur um Núpshlíðarháls og Sveifluháls og áfram um Undirhlíðar og endar millum Helgafells og Kaldárhnúka fyrir ofan Hafnarfjörð. Þar endar gosvirknin að mestu, en sprungurnar ná lengra til norðausturs yfir Heiðmörk, Elliðavatn og Rauðavatn og enda í Mosfellssveit.

23. Kerin – Ögmundarhraun:

Kerið

Kerið – gígur.

Að minnsta kosti 12 hraun hafa runnið á Reykjanessskaga síðan land byggðist, s.s. Afstapahraun um 900, Hvaleyrarhraun og Svínahraun um 1000, Ögmundarhraun um 1151 og Kapelluhraun 1020 og Rjúpnadyngjuhraun og Mávahlíðahraun um 1188. Svartahraun við Bláa lónið er frá 1226. Yngra Afstapahraun er frá sögulegum tíma og Stampahraun og Arnarseturshraun eru frá 1226. Nýjasta er sennilega frá 14. öld, þ.e. hraun við Hlíðarvatn frá árinu 1340.

Kerin eru hluti sprungureinar er Ögmundarhraun rann um 1151 og þar með hluti af Gvendarselsgígunum stuttu efra. Ofan við Kerin hefur eitt elsta og stærsta villta grenitréð á Skaganum náð að dafna.

24. Óbrinnishólar:

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar – “milli mjórra dranga”.

Tvisvar hefur gosið í Óbrinnishólum. Talið er að fyrra gosið hafi verið fyrir um 21 öld en síðara gosið hafi verið 650 árum f.Kr.

Jón Jónsson, jarðfræðingur, sagði eftirfarandi um Óbrinnishóla: „Hraun frá fyrra gosinu í Óbrinnishólum hef ég ekki fundið í næsta nágrenni þeirra, en um 1-2 km vestur af hólunum eru hólmar tveir, sem yngra hraunið hefur ekki runnið yfir. Vel má vera að eldra hraunið komi þar fram, en ekki hef ég haft tækifæri til að athuga það. Næst syðsti gígurinn í Óbrinnishólum er frá fyrra gosinu og eftir nokkra leit fannst þar allþétt hraunlag inni í gjallinu. Kom þá í ljós, að hraun það, er komið hefur í fyrra gosinu, er mjög ólíkt hrauninu úr því síðara. Aftur á móti er það svo líkt Búrfellshrauni, að það verður naumast frá því skilið. Kemur þetta hvað greinilegast fram, þegar taldar hafa verið steintegundir á báðum hraunum“.

Óbrinnishólar

Óbrinnishólar eru nú nánast óþekkjanlegri frá fyrri tíð vegna gífulegrar efnistöku.

Um aldur fyrra gossins í Óbrinnishólum er ekki vitað. Samkvæmt rannsóknum Guðmundar Kjartanssonar (1972) gæti fyrra gosið í Óbrinnishólum hafa orðið á sama tíma og Búrfellshraun. Vaknar því sú spurning: Er það tilviljun ein að hraunin eru svona lík að gerð eða er það kannski vegna þess, að samtímis gaus á báðum stöðum? Ekki verður með vissu sagt, hvað margir gígir hafa myndast í fyrra gosinu á þessum stað, en þrír hafa þeir verið a. m. k. Af þeim hafa tveir algerlega horfið undir gjall frá síðara gosinu.

Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur, taldi að Óbrinnishólahraun hafi runnið fyrir ~2100 árum.

25. Dauðadalir:

Dauðadalir

Dauðadalir – hellisop í jarðfalli.

Stórabollahraun er talið vera um 2700 ára. Hraunið ber keim af dyngjugosi. Gígurinn, mjög stór, er utan í vestanverðu Kóngsfelli í norðanverðum Grindaskörðum ofan Hafnarfjarðar. Hraunið er undir Tvíbollahrauni, komið úr gígum skammt sunnar.

Dauðadalahellarnir eru í Stórabollahrauni, Þeir eru nokkrir, þ.á.m. Flóki. Leiðarendi, einn mest sótti ferðamannahellir á landinu, er einnig í Stórabollahrauni. Yfir honum hvílir Tvíbollahraunið. Á einum stað hefur það náð að þröngva sér inn í hellinn.

Dauðadalir

Í Dauðadalahellum.

Upptök Tvíbollahrauns eru í framangreindum Tví-Bollum eða Mið-Bollum. Tví-Bollarnir þeir eru tveir samliggjandi gígar í brúnum Grindarskarða, í um 480 m hæð yfir sjó. Hraunið hefur fossað niður bratta hlíðina niður á láglendið en einnig runnið í lokuðum rásum. Hraunið flæmdist síðan til norðurs milli móbergshnúka og klapparholta allt niður undir Hvaleyrarholt við Hafnarfjörð.

Tvíbollahraun er runnið eftir landnám og er eitt af nokkrum hraunum sem brunnu í miklum eldum á 10.-11. öld.

26. Skúlatún – Skúlatúnshraun:

Skúlatún

Skúlatún – Helgafell fjær.

Skúlatún er Óbrennishólmi í Skúlatúnshrauni (Stórabllahrauni) sem rann fyrir um 2000 árum. Sumir vilja ætla að þar megi sjá til fornra minja, en slíkt verður að telja hæpið.

Nokkrir gervígígar í Skúlatúnshrauni sýna hvar ströndin hefur legið þegar fyrri hraun runnu út í sjó. Þessir gervigígar eru taldir myndaðir eftir ísöld og eldri en hraunin í kring, þar með talin Skúlatúnshraun og Tvíbollahraun.

Gervigígarnir eru til marks um að fyrir tíma Skúlatúnshrauns og Tvíbollahrauns hafa hraun runnið sömu leið til sjávar en þegar þeir myndast þeytast upp hraun og setlög. Er þetta ástæðan fyrir því að í gervigígunum í Skúlatúnshrauni megi meðal annars finna skeljar í bland við klepra og gjall en skeljarnar hafa verið undan ströndinni sem hraunið rann yfir.

Skílatún

Skúlatún norðanvert.

Skúlatúnshraun (Eldra Hellnahraun) og Tvíbollahraun (Yngra Hellnahraun) eru mjög lík í ásýndum og lengi hefur þótt erfitt að greina þau að. Skúlatúnshraunið, líkt og Tvíbollahraunið, hefur komið úr Brennisteinsfjallakerfinu og hefur það runnið svipaða leið til sjávar. Er hraunið komið suðaustan úr Stórabolla sem er, líkt og Tvíbollar, í Grindaskörðum. Breiddi hraunið mjög úr sér sunnan og austan við Helgafell og rann svo sömu leið og Tvíbollahraunið suður fyrir Helgafell, í norðvesturátt með Gvendarselshæð, vestur með Kaldárseli og til sjávar í Hraunavík. Er hraunið nú undir nýrri hraunum að miklu leyti en kemur fram á nokkrum stöðum, til dæmis við Hvaleyrarvatn, Ástjörn og við sjóinn vestan Hvaleyrarholts (Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998; Kristján Sæmundsson o.fl., 2010).

Skúlatúnshraun hefur verið þunnfljótandi helluhraun og myndaði það ströndina milli Hvaleyrarhöfða og Álversins í Straumsvík en þar tók Kapelluhraunið við strandmynduninni síðar meir. Hefur Skúlatúnshraunið einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Vatnshlíðar og Selhöfða og myndað þannig Hvaleyrarvatn og einnig runnið fyrir mynni kvosarinnar milli Grísaness og Hvaleyrarholts og myndað þannig Ástjörn (Árni Hjartarson, 2010; Landmælingar Íslands, 2011; Haukur Jóhannesson & Sigmundur Einarsson, 1998). Nær Skúlatúnshraunið því yfir stærra svæði nærri byggð en Tvíbollahraunið.

27. Búðarvatnsstæði – Yngra Afstapahraun:

Búðarvatnsstæðið

Búðarvatnsstæðið.

Vestan undir Búðarvatnsstæðinu er hár hraunkantur. Undir honum, þar sem einn síðasti girðingarstaur mæðiveikigirðingarinnar á mörkum Krýsuvíkur og Vatnsleysustrandarhrepps, stendur enn, er fyrrnefnt Búðarvatnsstæði. Markaði girðingin landaskil milli Óttarsstaða og Hvassahrauns, og þar með á milli Hafnarfjarðar og Voga. Hraunkanturinn er hluti af Yngra Afstapahrauni frá um 1325.

Vatnsstæðið er nokkuð stórt og virðist hafa verið lagað til af mannahöndum. Það kúrir í grasbletti ofan við úfið hraunið og þaðan er útsýnið vítt og fallegt til suðurs og austurs. Örnefnið er sérkennilegt og gæti bent til þess að við vatnsstæðið hafi verið áningarstaður. Ekki er ólíklegt að þeir sem unnu við kolagerð í Almenningi hafi hafst við tímabundið við Búðarvatnsstæðið og af því sé nafnið dregið.

Markhella

Áletrun á Markhellu.

Þegar farið er upp á hraunjaðarinn ofan við Búðarvatnsstæðið sést merkileg varða. Hún er hlaðin úr sléttum hraunhellum. Eðlilegt hefur verið að hlaða vörðuna þarna því hún er í beinni línu úr Markakletti, mörkum Hvassahrauns og Lónakots við Hraunsnes, og sést því vel þegar komið er úr norðri. Búðarvatnsstæðið hefur verið þungamiðjan í lýsingum fyrri alda, enda fáum slíkum til að dreifa svo ofarlega í Almenningi. Það hefur því óumdeilt verið eitt helsta kennileiti í heiðinni fyrrum. Ekki er óraunhæft að álykta að um þar hafi markalínan verið dregin og þar með hafa allar jarðirnar þrjár átt tilkall til þess, enda sennilega einn helsti áfangastaður á ferðum fólks milli byggðalaganna. Þar hefur og verið tilvalið að slá upp búðum, enda um „hálfnaðarleið“ að ræða.

Málið er hins vegar öllu verra; Þarna efra hefur sögufölsun átt sér stað. Einhver eða einhverjir hafa gert sér að leik að krota skammstöfun bæja á „Markhelluna“, ca. 1.5 km ofar, væntanlega í þeim tilgangi að útfæra bæjarlönd sín á kostnað Krýsuvíkurbænda.

Sjá Ratleik Hafnarfjarðar 2021 HÉR.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – örnefni.