Reykkjanes
Eftirfarandi frétt birtist á MBL.is fimmtudaginn 22. júlí 2004:
“Fjöldi smáskjálfta á Reykjanesi”.
Reykjanes

Jarðfræði Reykjaness.

Jarðskjálftahrinan við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga heldur áfram. Eftir að hrinan náði hámarki í gær milli klukkan 14 og 16 minnkaði virknin fram til kl. 21 en þá jókst virknin aftur og náði hámarki á milli klukkan 2 og 3 í nótt. Á tímabilinu milli klukkan 1 og 4 í nótt mældust að jafnaði fleiri en 1 skjálfti á mínútu, að sögn Veðurstofunnar. Í morgun á milli klukkan 9 og 10 var virknin komin niður í 8 mælda skjálfta á klukkutíma, en eftir 10 virðist virknin vera að aukast aftur.”Við þetta má bæta að Fagradalsfjall er á einni af misgengisreinunum er ganga í gegnum Reykjanesskagann. Hver rein er virk í um 300 ár, en virknin liggur síðan niðri þess á milli.

Stampar

Stampagígaröðin.

Langar gígaraðir hafa myndast á reinunum, s.s. Stamparnir (4 gos), Eldvörpin, Sundhnúkarnir, Eldborgirnar, Vesturásagígaröðin, Brennisteinsfjöllin o.fl. Reinarnar eru að gliðna (um 1 cm að jafnaði á ári) og má t.d. sjá þess glögg merki í heiðinni ofan við Voga og einnig á Þingvöllum. Jörðin lyftist og hnígur. Gjárnar og misgengin bera þess einnig augljós merki. Misgengin má t.d. sjá þvert í gegnum Þorbjarnarfellið og á Hábjalla í Vogum, í sunnanverðu Helgafelli og víðar. Undirbergið (jarðskorpan) flýtur stöðugt niður í möttulinn á flekaskilum og verður að kviku, sem leitar á ný upp á yfirborðið. Möttulstrókur undir Vatnajökli heldur t.a.m. Íslandi á floti og viðheldur því. Þetta er lögmál jarðarinnar og gerist allt saman á lengri tíma en lifandi maður fær skynjað. Upphafið að sköpun alheimsins, eins og við þekkjum hann, er talið hafa átt sér stað með Miklahvelli fyrir 17 milljörðum ára. Síðan hefur þróunin haldið áfram og svo mun verða meðan tíminn verður til.

Fgaradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni skv. herforingjaráðskorti 1906.

Nyrst í Fagradalsfjalli er fallegur þverskorinn gígur. Víða í því eru ummerki eftir eldsumbrot og jarðskorpuhreyfingar. Stóri Hrútur og Kistufell er ágæt dæmi um umbrotin. Fjallið sjálft er geysilegur massi, sem mikla krafta þarf til að færa til. En þegar það gerist verða óneitanlega nokkur læti er vekja athygli, a.m.k. þeirra sem ekki hafa fengið tækifæri til að stíga ölduna. Umhverfis Fagradalsfjall eru fallegir eldgígar, s.s. Sundhnúkarnir og Vatnsheiðin, sem er gömul dyngja. Grindavík stendur t.d. á hrauni, sem kom upp úr þessum gígum fyrir nokkur þúsund árum. Þannig hefur mannfólkið hagnýtt sér þær hagstæðu aðstæður er sjóútrunnið hraunið hefur skapað með ströndum svæðisins. Fegurð þess er einstök (þá eru ekki talin með svæði, sem maðurinn hefur aflagað, t.d. með efnistöku); fallegir hraungígar, langar hrauntraðir, hellar og rásir, skjól fyrir gróður, dýr og menn, fjöll og dalir.

Fagradalsfjall

Gígurinn nyrst í Fagradalsfjalli.

Þrátt fyrir að einstaka hraun sé umfangsmikið, s.s. Skógfellshraun og Arnarseturshraun, að ekki sé talað um Sandfellshæðina (sem reyndar er dyngja) þá hafa flest gosin á svæðinu gefið af sér lítil og nett hraun – og fagra gíga.
Jarðskjálftar á svæðinu geta gefið þrennt til kynna; 1. bólgan hjaðnar og ekkert sérstakt gerist, 2. gliðnun verður með tilheyrandi lokaskjálfta eða 3. hraun rennur úr jörðu.
Hæfilegar áhyggjur af hugsanlegu gosi eru sjálfsagðar, en ólíklegt er að það raski byggð miðað við legu hæða á þessu svæði (færi þó eftir hvar það kæmi upp).

Fagridalur

Í Fagradal.

Hraungos í eða í námunda við Fagradalsfjall myndi stefna til sjávar austan Grindavíkur (eða í versta falli áleiðis niður í Voga). Meiri áhyggjur þyrfti að hafa af því að birgðir verslana bæjarins myndu þrjóta þegar túrhestarnir kæmu í bæinn í löngum röðum með það fyrir augum að reyna að komast sem næst hraunstraumnum. Þá þurfa yfirvöld að vera snör í snúningum og setja upp alkunn varúðarskilti á völdum stöðum – “Ekki snetra”.
Rétt er að minna á að öll gos á Reykjanesi síðustu aldirnar hafa orðið úti fyrir ströndum þess.
FERLIR er búinn að skrá og mynda allar minjar nálægt Fagradalsfjalli svo til verða heimildir um það sem var – ef svo illa færi.
Frábært veður.

Fagradalsfjall

Stóri-Hrútur í Fagradalsfjalli. Nú er umhverfið þar breytt.