Sveifluháls

Tilgangur Ferðahóps rannsóknardeildar lögreglunnar í Reykjavík (FERLIR) var að stuðla að, undirbúa og skipuleggja sjálfbærar hollferðir starfsmanna á fæti um helgar um sumar (þ.e.a.s. þeirra sem ekki voru á helgarvöktum) – hlutaðeigendum að kostnaðarlausu.

Ferlir

Jóhann Davíðsson var við öllu búinn í fyrstu FERLIRsferðinni.

Þátttakendur gátu einnig verið aðstandendur í boði starfsfólks (konur og börn) og í vissum tilvikum skjólstæðingar, auk útvalinna lögfræðinga. (Þeir, sem eingöngu voru að sækjast eftir félagsskap hinna síðastnefndu voru hvattir til að nota tímann í eitthvað annað. Ekki var ætlunin að ræða um vinnuna). Þátttökufjöldinn takmarkaðist einungis við þungatakmarkanir Vegagerðarinnar á hverjum stað. Einu kröfurnar, sem gerðar voru til þátttakenda, voru að þeir gætu hreyft sig, haft áhuga á hreyfingu eða haft gaman að því að sjá aðra hreyfa sig. Þeir þurftu þó að koma sér sjálfir á upphafsreit. Ferðahraðinn réðst af yfirferð þess síðasta í hópnum. Áhersla var lögð á að halda hópinn, en ekki var sérstaklega fundið að viðsnúningi í undartekningartilvikum. Gott skap var nauðsynlegt sem og vilji til að reyna svolítið á sig. Gengið var annað hvort á laugardegi eða sunnudegi yfir sumarið – svo starfsmenn gætu slappað vel af fyrir og eftir göngur í vinnunni.

Ferlir

Vel úbúinn FERLIRsfélagi á leið í Brennisteinsfjöll.

Fyrsta gönguferðin var farin laugardaginn 29. apríl. (Fólk hafði þá sunnudaginn þann 30. til að jafna sig). Mæting var fyrir kl. 13:55 innan við gatnamótin (beygt til vinstri) að sumarbústöðunum (Litla-Hraun) við Sléttuhlíð af Kaldárselsvegi fyrir ofan Hafnarfjörð (og beygt til hægri hjá bleiku blöðrunni). Ekið var inn á nefndan Kaldárselsveg við kirkjugarðinn sunnan við Keflavíkurveg á móts við gatnamót Öldugötu, af Flóttamannavegi, áleiðis að Sléttuhlíð.

Búnaður þurfti einungis að vera góðir skór, létt og fitusnautt nesti, bitjárn og vasaljós, auk hlífðarfatnaðar (sem var sjaldgæfur í Hafnarfirði í þá daga). Gengið var sumarbústaðaveginn ofan Sléttuhlíðar, yfir á Kaldárselsveg, að Kaldá (tærasta vatnsbóli á Íslandi), yfir ána að rótum Helgafells (ca. 250 m hátt). Þaðan var fetað beint af augum upp norðurhlíðina.

Ferlir

FERLIRsfélagar hafa mætt mörgu áhugaverðu á ferðum sínum um Reykjanesskagann.

Andinn var dreginn í dalverpi eftir fyrstu 92 metrana og síðan haldið áfram suðuryfir og upp vesturhlíðina uns toppnum var náð. Þar gafst kostur á að njóta útsýnisins yfir svo til allt Stór-Hafnarfjarðarsvæðið og krota upphafsstafi sína í nærtækt móbergið með bitjárni. Eftir það var haldið niður aflíðandi austurhlíðina og yfir að Valabóli. Þar var áð við Músarhelli með útsýni yfir að Búrfelli og Mygludali. Þar var nestið dregið fram.

Ferlir

FERLIRsfélagar fóru um öll þau svæði er þá lysti – þrátt fyrir boð og bönn.

Frá Valabóli var gengið eftir gömlum vegarslóða í norður að hraunsprungu þar sem falinn er undir hrauninu u.þ.b. 100 metra langur hellir. Þeir, sem ekki höfðu þá þegar týnt vasaljósunum, gátu skoða sig þar lítillega um.

Urriðakotsdalur

Gengið um Efri-Urriðakotsdal (þar sem nú er golfvöllur).

Þá var gengið eftir gömlu Selvogsgötunni, framhjá Smyrlabúðum að Kershelli. Þeir sem enn höfðu eitthvert þrek gátu skoðað Lambshelli í u.þ.b. 300 metra fjarlægð. Eftir stutta dvöl við hellana var gengið að bílunum, sem þá voru í innan við 570 metra fjarlægð. Þangað var komið fyrr en seinna (enda nánast enginn mótvindur).

Þar sem þátttakan var bæði sæmileg og ágæt, var ákveðið að fara í fleiri slíkar sjálfbærar gönguferðir af og til um helgar um sumarið. Stefnt var m.a. að því að ganga á Þorbjörn (ca. 220 metra hátt) fyrir ofan Grindavík, horfa yfir þorpið og feta síðan niður Þjófagjá og yfir að Eldvörpum þar sem fyrir eru mannhlaðinn hraunbyrgi frá tímum Tyrkjaránins. Leiðsögumaður í þeirri för verðurSigurður Ágústsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og formaður ferðanefndar rannsóknardeildar lögreglunnar í Grindavík (FERÐLEGIR).

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Ætlunin var og að ganga á Akrafjall fyrir utan Akranes undir leiðsögn. Þegar fólk væri komið í sæmilega þjálfun yrði e.t.v. gengið af Bláfjallavegi upp Grindarskörð (gömlu Selvogsgötuna) og litið á Tvíbolla eða Stóra-Bolla, gengið áfram með Draugahlíðum að brennisteinsnámunum, upp að Kistufelli og horft yfir Gullbringuna og Reykjanesið – sjáva á millum. (Hugsanlega yrði þá lögð lykkja á leiðina yfir á Kristjánsdalahorn til að kíkja niður í u.þ.b. 200 metra djúpan helli, sem þar er.)

Ferlir

Ferlir á Vatnsleysuströnd.

Tillaga kom fram að ganga frá Höskuldarvöllum á Keili. Þá var einnig stefnt að fjörugönguferð, t.d. um Straumsvík, Óttastaði og Lónakot sem og stungið var upp á göngu um Laugaveg að Lækjartorgi og áfram um og yfir gamla Grímstaðaholtið, þ.e.a.s. ef leiðsögumaður fengist til göngunnar.
Fleiri hugmyndir og tillögur komu fram um skemmtilegar gönguleiðir í nágrenninu, bæði um Hengilsvæðið, í Krýsuvík og á Reykjanesskaganum. Starfsfólk var hvatt til að skila inn tillögum. Farið yrði með þær sem trúnaðarmál þangað til þær yrðu auglýstar áhugasömum.

Framhaldið yrði undir þátttakendum komið. Tillit yrði ekki tekið til vilja einhverra varðandi fyrirkomulag gönguferðanna, en þeir myndu þó geta haft einhver áhrif á undirbúninginn, framkvæmdina og stemmninguna á hverjum tíma.

Helgafell

Á Helgafelli.

Ekki var um skyldumætingu að ræða og ekki var greidd aukavinna fyrir þátttökuna. Ekki einu sinni ferða- eða matarpeningar. Þátttakendur báru bæði ábyrgð á sjálfum sér og sínum birgðum. Eina ábyrgðin var tekin á góðu gönguveðri, a.m.k. í nágrenni Hafnarfjarðar. Þeir, sem missa máttu aukakílóin og höfðu gaman af að ferðast um torfærar slóðir, voru hvattir til að sýna gildandi jeppaeigendum hvernig fara mætti að því.

Í stuttu máli sagt – fyrsta FERLIRsgangan gekk að mestu eftir skv. framangreindri lýsingu. Hún tók 4 klst og 21 mínútu. Sól og blíða.

Sjá fleirri myndir frá fyrstur FERLIRsferðum.

-ÓSÁ skráði.

Ferlir

FERLIR á ferð um Selvog.

Ferlir

Gengið um Sveifluháls.