Færslur

Suðurlandsvegur

Hólmsá er í og ofan við Reykjavík. Upptök Hólmsár eru við Elliðakotsbrekkur og áin rennur í Elliðavatn og heitir þá Bugða. Árið 1887 var fyrst byggð brú á Hólmsá á þjóðveginum austur fyrir fjall. Sú brú sem var 18 álna löng, tók af í vetrarflóði 1888. Afrennsli Selvatns heitir einungis Ós og fellur um Gljúfur og Elliðakotsmýrar í Hólmsá, þar sem heitir Óskjaftur.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin er mörkuð í hraunhelluna.

Hólmsá rennur fyrir norðan við bæinnn Gunnarshólma undir Hólmsábrú suður um Heiðartagl. Þar fellur kvíslin Ármótakvísl úr Hólmsá í Suðurá en Hólmsá norðan við bæinn Hólm. Áin heitir Hólmsá þangað til hún er til móts við Baldurshaga en þá heitir hún ýmist Hólmsá eða Bugða. Vegagerð ríkisins brúaði Hólmsá árið 1926 og lagði veg frá Suðurlandsvegi í Rauðhóla. Fyrrum lá leiðin upp frá Árbæ, með Selási og sunnan Hólms þar sem hún greindist í tvennt skammt austar; annars vegar í Austurleiðir upp frá Elliðakoti að Lyklafelli norðan og sunnan þess og áfram um Hellisskarð og hins vegar um Lækjarbotna upp í Öldur þar sem sú leið greindist annars vegar inn með Svínahraunsbruna að Hellisskarði þar sem hún sameinaðist Austurleiðunum og hins vegar inn á Ólafsskarðsveg. Þessar götur sjást enn greinilega, einkum sporið á hellunni suðaustan Hólms.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin.

Vagnvegur var lagður frá Öldum um Klifheiði og suður fyrir Rauðavatn árið 1887. Þá var brú sett á vað yfir Hólmsá, en hún entist stutt. Vestan og ofan við vaðið er klappað í klöpp ártal (18?7) og nafn (Ágúst), líklega frá þeim tíma er vagnvegurinn var lagður þar árið 1887.

Brúin yfir Hólmsá var byggð samhliða veglagningu 1887. Hún var strax nefnd Rauða brúin vegna litarins. Árið 1888 tók brúna af í miklum vetrarflóðum. Hún var síðan endurnýjuð 1926. Gamla brúin var 18 álnir á lengd og voru 4 álnir upp í hana venjulega. Stöplarnir voru steinhlaðnir og skemmdust þegar brúna tók af í flóðunum. Brúin var brotin niður en hluta af stöplum hennar er að finna um 45 m vestan ár.
Suðurlandsvegur var lagður að grunni til (vagnvegurinn) árið 1886, í landi Geitháls. Grunnur gamla vegarins er enn sjáanlegur, þ.e.a.s. frá bæjarstæði Geitháls að Hólmsá. Vegurinn var upphaflega lagður 10 fet á breidd (3,13 m). Snemma á 20. öld var vegurinn breikkaður og aðlagaður að bílaumferð.

Suðurlandsvegur

Vaðið á Hólmsá. Letrið neðst.

Í Ísafold 1888 er fjallað um “Veginn nýja”, sem Norðmennirnir hafa verið við 2 sumur undanfarin, frá Fóelluvötnum niður í Reykjavík, og kominð var í haust nærri niður undir Hólm, með 18 álna brú yfir Hólmsá, hefir skemmzt stórkostlega í leysingunum vikuna sem leið, og brúna tekið af ánni aðfaranótt hins ll. Skemmdirnar eru mestar á hólmunum upp frá brúarstæðinu, og sömuleiðis mjög miklar upp á Sandskeiði : stórt haf brotið í brúna yfir það og klofinn frá annar jaðarinn vegarins þar á löngu bili. Nánari skýrsla um þetta ljóta áfall, sem líklega nemur 7—8000 kr. skaða, verður að bíða næsta blaðs.

Suðurlandsvegur

Áletrið við Hólmsá; 18?7 – Ágúst.

Þá segir undir fyrirsögninni “Skemmdir af vatnavöxtum”: Skemmdirnar á norska veginum*, milli Svínahrauns og Hólmsár, hafa þó ekki orðið eins miklar og fyrst var látið, þótt ærnar sjeu. Fyrst eru nokkrar skemmdir á Öldunum fyrir ofan Sandskeiðið. Svo er á Sandskeiðinu grafið skarð í veginn við efstu brúna og austurkampurinn undir henni fallinn, en brúin á því miðju öll á burt og vegurinn þar horfinn á 18 föðmum; enn fremur grafið djúpt ker ofan í gegnum hann neðst á skeiðinu, og loks jetin skörð inn í hann hingað og þangað að ofanverðu, til þriðjunga eða helminga inn í hann. Þá eru litlar skemmdir þaðan ofan að Lækjarbotnum. Hjá Lækjarbotnum hefir áin meðal annars numið burta vegiun á 20 faðma bili og brotið vesturkampinn undir brúnni þar.

Suðurlandsvegur

Letrið.

Fyrir neðan brúna er vegurinn gjörsamlega sópaður burtu ofan í klappir á löngu færi; við Hraunsnefið efra 3 faðma skarð í veginn; brotinn annar kampurinn af brúnni þar, en hinn hangir; og að öðru leyti talsverðar skemmdir á veginn um allt niður að aðalbrúarstæðinu á Hólmsá, en brúin yfir hana, 18 álna löng og 4 álna hátt yfir vatnið venjulega, öll á burtu, og kamparnir (rammgjörvir) skemmdir til muna: efsta lagið raskað á vesturstöplinum og hornsteinar í öðru, en 2 steinalögin efstu í þeim eystri mjög skemmd, og nokkuð neðar. Brúin sjálf í tvennu lagi: þriðjungur af henni rjett fyrir neðan brúarstæðið, en hitt langar leiðir niðar betur. Guðm. bóndi Magnússon í Elliðakoti, er þetta er haft mest eptir, samkvæmt skýrslu hans til amtmanns, með hliðsjón á skýrslu annara skoðunarmanna, fullyrðir, að 1871 hafi komið fullt eins mikið flóð í á þessa, og 1885 annað nokkuð minna.
— Í Ölvesá kom líka feiknaflóð í sömu leysingunni; hún flóði yfir mikið af Kaldaðarneshverfi í Flóa, bæði fjenaðarbús og bæi; allt fjeð á einum bænum, Lambastöðum, drukknaði í fjárhúsinu (30 kindur).

Auðvelt er að fylgja framangreindum leiðum milli byggðalaga vestra og eystra, utan elstu leiðarinnar sem hverfur í gróður og umhverfisspjöll vestan við Hólm.

Heimildir:
Morgunblaðið, 143. tölublað (29.06.1967), bls. 4.
-Þorkell Jóhannesson og Óttar Kjartansson. “Elliðavatnsheiði og Hólmar“, 208.
-Ísafold 18. og 23. janúar 1888, 11, 15 og 16.
-Ísafold 24. ágúst 1926.
-Magnús Grímsson. „Um vegagerð og hestvagnaferðir á Suðvesturlandi“, 93.

Suðurlandsvegur

Elsta leiðin upp frá Reykjavík til austurs (blá brotalína).

Landnám

Í ritinu “Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess”, I. bindi, skrifar Björn Þorsteinsson m.a. eftirfarandi um Landnám Ingólfs.

Ritun Landnámu
Ari fróði setti saman Íslendingabók snemma á 12. öld, en hún er höfuðritheimild um atburði hér norður frá fyrir 1100; “Ísland byggðist fyrst úr Noregi á dögum Haralds hins hárfagra Hálfdánarsonar hins svarta í þann tíð… er Ívar Ragnarsson loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hinn níunda hundraðs eftir burð Krists að því er ritað er í sögu hans.

Landnáma

Landnáma – endurgerð.

Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var 16 vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjavík. Þar er Ingólfshöfði kallaður fyrir austan Minþakseyri, sem hann kom fyrst á land, en þar Ingólfsfell fyrir vestan Ölfossá, er hann lagði sína eigu á síðan.”
Svo farast Ara orð í 1. kafla Íslendingabókar, og er þetta marktækasta frásögnin, sem við eigum um upphaf Íslandsbyggðar, en hún var skrifuð um 250 árum eftir að atburðirnir áttu að hafa gerst.
Um svipað leyti og Ari fróði safnaði efni í Íslendingabók um 1100 varð til stofninn að Landnámu, sagnasafni um upphaf fólks og byggðar á íslandi. Þar greinir frá um 430 svonefndum landnámsmönnum, forystumönnum um landnám á íslandi og kynkvíslum þeirra, en haukur lögmaður, sem setti saman Hauksbók, síðustu miðaldagerð bókarinnar snemma á 13. öld, segir hana ritaða “eftir því sem fróðir menn hafa skrifað, fyrst Ari prestur hinn fróði Þorgilsson og Kolskeggur hinn vitri. En þessa bók ritaði ég, Haukur Erlendsson, eftir þeirri bók, sem ritað hafði Sturla lögmaður, hinn fróðasti maður, og eftir þeirri bók annarri, er ritað hafði Styrmir hinn fróði, og hafði ég það úr hvorri, sem framar greindi, en mikill þorri var þar, er þær sögðu eins báðar; og því er það ekki að undra þó að þessi Landnámabók sé lengri en nokkur önnur” (Í.fr.I, 395-97).
Þetta er það helsta sem vitað er um ritun Landnámu.

Íslendingabók

Blaðsíða úr Íslendingabók.

Ari fróði (d. 1148) og Kolskeggur vitri skrifuðu fyrstu gerðina, Frumlandnámu, snemma á 12. öld, en hún er glötuð.
Styrmir Kárason fróði (d. 1245) prestur og lögsögumaður, síðast príor í Viðey og um skeið prestur í Reykholti hjá Snorra Sturlusyni, skrifaði aðra gerð, Styrmisbók, um 1220, en hún er einnig glötuð.
Sturla Þórðarson sagnaritari (d. 1284) skrifaði þriðju gerðina, Sturlubók, líklega um 1270. Hún er sæmilega varðveitt í afritum.
Haukur Erlendsson (d. 1334) skrifaði fjórðu gerðina, hauksbók, um 1310, og er hún varðveitt í eiginhandarriti.
Landnáma hefur verið vinsæl bók og einhverjar fleiri gerðir hennar hafa verið til (SR.: S.L. 68-84).
Af varðveittum gerðum bókarinnar sést að afritarar hafa talið sér heimilt að breyta forritum sínum bæði með viðbótum, breytingum á efnisröð og jafnvel textanum sjálfum.
Handrit líttskaddað, af stofni Styrmisbókar, hefur verið til frá 17. öld, og var þá afritað og aukið eftir öðrum Landnámugerðum af Þórði Jónssyni prófasti í Hítardal (d. 1670), og þá varð til Þórðarbók. Þar eru í eftirmála taldar hvatirnar að ritun Landnámu, og er klausan ýmist eignuð Styrmi fróða eða talin úr Frumlandnámu og verður það hér haft fyrir satt.
Samkvæmt frásögn Landnámu var henni ætlað að vera:
1) varnarrit gegn meintu illmæli erlendra manna,
2) ættfræðirit,
3) almennt fræðirit um upphaf byggða á landinu.
Landnáma var m.ö.o. skrifuð til fróðleiks og af metnaðar hvötum eins og öll önnur saga, en metnaður og pólitík hafa lengi verið samtvinnaðir þættir í samskiptum manna. Mikilvægasti fróðleikurinn fjallaði um upphafið; frumhöfundur Landnámu segist ætla að grafast fyrir um upphaf ætta, byggða og skipanir, því að sá sé háttur allra vitra þjóða að vilja vita um upphaf sitt.
Landnáma er heildstætt safn sagna og skáldskapar og sett á skrá snemma á 12. öld, af því að landslýðurinn var orðinn tíundarskyldur biskupum, sem þurftu að vita skil á byggðum landsins. Oft er frásögn ritsins lítið annað en eyðufylling, og leikur að örnefnum eins og Þórhallur Vildmundarson hefur fjallað um manna rækilegast:
“Þorgeir hét maður, er nam Þorgeirsfjörð og Hvalvatnsfjörð” (Í.fr.I, 272).
Sagnir Landnámu eru margar sannanlegu skáldskapur, og ýmsir nafngreindir landnámsmenn hafa líklega aldrei verið til. Samt sem áður er bókin storkandi heimild um sjálft landnámið og þ.á.m. um hann Ingólf landnámsmann.

Ingólfur landnámsmaður

Landnám

Ingólfur og fjölskylda í Reykjavík.

Upphafleg gerð Landnámu er löngu glötuð, og á 13. öld tók Sturla Þórðarson sér fyrir hendur að breyta þáverandi gerð bókarinnar í inngangsrit að sögu Íslendinga með sérstökum kafla um fund landsins (J.Jóh. G.L.b. 70). Fram á hans daga hafði bókin hafist á Sunnlendingafjórðungi, landnámi Þrasa í Skógum undir Eyjafjöllum, og verið rakin landnámin sólarsinnis umhverfis landið. Landnáma Sturlu hefst hins vegar á byggð Ingólfs í Reykjavík, þegar landfundasögunni sleppir. Við breytinguna hækkaði hagur landnámshetjunnar Ingólfs sem breiðir úr sér við upphaf og endi Sturlubókar.
Þórðarbók Landnámu heldur fyrri efnisskipan, en þar hefst frásögnin af Landnámu vestan Ölfusár og Sogs á þætt um Ingólf landnámsmann, eins og þekkt er.
Íslendingabók Ara er varðveitt í annarri útgáfu endurskoðaðri, ef svo má að orði komast. Þar fullyrðir hann að Ingólfur hafi farið fyrstur manna úr Noregi til Íslands, lagt undir sig og ætt sína ákveðin héruð á tilgreindu aldursári Haralds hárfagra eða um 870, og nefnir örnefni frásögninni til styrktar. Ari segir ekki að Ingólfur hafi verið fyrsti landneminn á Íslandi, heldur fór hann fyrstur frá Noregi til Íslands. Það ríður því ekki í bág við frásögn Ara, þótt fólk af Bretlandseyjum hafi numið hér land á undan honum.
Landnámsöld er tíminn frá 850-950. Fólksflutningarnir til landsins hafa verið dræmir fyrstu áratugina, eða fram undir 890, en glæðst þá og fjara síðan út eftir 930.
Ingólfsfrásögnina og tímasetningu hennar hafði Ari eftir Teiti Ísleifssyni biskups (d. um 1110), en hann var manna spakastur; Þorkeli föðurbróður sínum, “er langt mundi fram”, og Þuríði Snorradóttur goða (d. 1112), “er var margspök og óljúgfróð”. Þessir vinir og vandamenn Ara fróða og Skálhyltingar hafa talið Ingólf einn helsta brautryðjanda landnámsins, af því að upphaf forréttindastéttar og þingaskipunar varð til í landnámi hans.
Á dögum Landnámshöfunda hefur ýmsum sögnum farið af fyrstu landnemunum í héruðum, en Ingólfur vann forsætið meðal þeirra af því að nafn hans var tengt stjórnskipaninni og afkomendur hans nefndust allsherjargoðar og settu alþingi árlega. Sagan er tæki til þess að skapa hefð og reglu, og í þá veru unnu Ari fróði og félagar hans. Alþingi og stjórnskipanin hefur einkum orðið til þess að halda á loft minningum um hálfgleymda söguhetju (Íb. 3. kap; J.Jóh.I, 53-59).

Landnámið

Landnám

Landnámið.

Landnáma greinir að Ingólfur hafi kannað sunnanvert landið í þrjú ár. Fyrsta árið hafði hann bækistöð við Ingólfshöfða, annað árið við Hjörleifshöfða, þriðja undir Ingólfsfjalli, og á fjórða ári fluttist hann til Reykjavíkur.
Innnesin buðu Ingólfi og félögum hans allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða. Þar var mikið undirlendi, varp og akureyjar, svo hægt væri að rækta bygg og brugga öl, en bygg er samstofna orðinu byggð; þar sem ekki var hægt að rækta bygg var óbyggilegt. Eyjar fyrir landi voru sjálfgirt akurlönd, sífrjó af fugladriti og sjórinn varði þær fyrir næturfrosti, haust og vor. Við Reykjavík voru laxár, veiðivötn, selalátur og fiskigengd upp að landsteinum, hvalagöngur inn í Hvalfjörð, fuglabjörg ekki langt undan og talsverður reki. Þá voru heitar laugar til baða og þvotta, og sjálf nesin voru allmiklu stærri að fornu en þau eru í dag, og var þægilegt að gæta búgjár bæði fyrir vargi og víðáttu meðan það var fátt; hlaða mátti garða yfir eyði og hafa fénað úti í Viðey. Innnesin tóku vel á móti gestum sínum og voru örlát, og beitilandið á Reykjanesskaga brást aldrei. Bændur, sem komu úr barrskógaþykknum Skandinavíu hafa verið hugfangnir af björtu og grösugu birkiskógunum íslensku. Þar voru svo góð beitilönd, að sumir þeirra vissu brátt ekki sauða sinna tal, eins og sagt var um Hafur-Björn Gnúpsson landnámsmann í Grindavík.

Landnám

Búfé.

Búfé landnemanna fjölgaði ört, og er landið var ósnortið, graslendi rúmlega helmingi stærra en það er nú og árferði allgott. Ef 30% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 220 á 3 árum, en 340.000 á 31 ári. Ef 20% fæddra lamba eru gimbrar, verða 100 ær 207 á 4 árum, en 304.000 á 44 árum. þessar tölur sýna að á skömmum tíma hafa landnemarnir getað haft þann fjölda fjár sem þeir vildu, og Íslendingar hafa snemma orðið önnum kafnir við ullariðnað. Vaðmál virðist hafa verið verðmæt útflutningsvara á 10. öld, 6 álnir, um 3 m af algengri tegund hafa gengið á eyri silfurs, um 27 gr., en fyrir 48 álnir fékkst aðeins 1 silfureyrir, þegar komið var fram á 12. öld og ullariðnaður var hafi í Vestur-Evrópu.
Ari segir að Ingólfur hafi lagt eign sína á allt land vestan Ölfusár, og Landnámabækurnar endurtaka þá staðhæfingu með tilbrigðum. Þinglýsing á þeirri einkaeign hefur aldrei verið til, en landnemum á Íslandi hefur auðvitað verið kappsmál að ná undir sig og vildarlið sitt sem stærstum og kostbestum héruðum, og það varð ekki gert nema með mannafla. Landnám Ingólfs vestan Ölfossár og Sogs og sunnan Hvalfjarðar var skýrt afmörkuð landfræðileg heild milli höfuðhéraða Vestur- og Suðurlands og kostasæl mjög með góðri skipaleið undan ströndum Faxaflóa, en aðrir hlutar landnámsins skiptu ekki máli, af því að þeir hlutu að verða fámenn jaðarsvæði. Hvaða serimoníur sem Ingólfur og félagar hans hafi haft í frammi, þegar þeir ákváðu bústað sinn, var þeim mikilvægara að fá fólk, trausta félaga, til þess að setjast að í héraðinu. Landnámabækurnar greina á annan tug dæma um landnámsmenn, sem voru hraktir úr landnámi sínu af ofbeldismönnum, sem síðar komu að því að hinir höfðu einangrast. landhelgun, hvernig sem hún var framkvæmd, dugði ekki til þess að eignast land, ef mannafla skorti. Landnemahóparnir voru aðeins ein eða tvær skipshafnir, nokkrir tugir karla og kvenna, og gátu ekki lagt undir sig svæði í grennd byggðra héraða nema með samþykki nágrannanna. Nágrennisvald höfðingja hefur snemma tekið talsvert út fyrir heimasveitina.
Engum sögum fer af því, hvernig fréttir bárust austur yfir hafið um nýja landvinninga, sem engin styrjöld fylgdi, en frændur og vinir sigldu í kjölfar frumherjanna og röðuðu sér á ströndina frá Reykjanesi og inn í Hvalfjörð.

Landnámsliðið: Frændur og venslamenn

Landnám

Landnám Ingólfs – Safn til sögu þess, I. bindi.

Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs, nam land milli Hraunholtslækjar, sem fellur úr Vífilsstaðavatni í Arnarnesvog, og Hvassahraun eða nærfellt allan hinn gamla Álftaneshrepp og núverandi; Bessastaðahrepp, Garðabæ og Hafnarfjörð. Ásbjörn bjó á Skúlastöðum, en þeir eru óþekktir og hafa sennilega verið upphafið að stórbýlinu Görðum á Álftanesi og nafnbreyting orðið við flutninga.
Vífill, þræll Ingólfs hlaut frelsi og land á Vífilstóftum. Þetta er merkileg saga um fyrsta kotið á Íslandi. Bærinn hefur líklega legið í eyði á elsta stigi Landnámuritunar, en byggst aftur undir nafninu Vífilsstaðir seint á 13. öld, en svo nefnist hann í Hauksbók (Í.fr. I, 48).
Steinunn gamla, frændkona Ingólfs, leitaði á fund hans, þegar hún var orðin ekkja eftir víking á Bretlandseyjum. Hann “bauðst að gefa henni Rosmhvalanes (Rostunganes) allt fyrir utan Hvassahraun, en hún gaf honum heklu flekkótta, enska og vildi kaup kalla. Henni þótti það óhættara við riftingum” (Mb. 28). Heklan hefur verið tískukápa og dýrust flík, sem Íslendingur hefur borið. Í henni sprangaði fyrsti bóndinn í Reykjavík um tilvonandi Austurvöll, og galt fyrir gripinn; Vatnsleysuströnd, Njarðvíkur báðar, Keflavík, landið undir Keflavíkurflugvelli og Miðneshreppa. þetta mun hafa orðið með þekktustu jarðakaupum á Íslandi.

Landnám

Landnám Ingólfs – skipting.

Herjólfur að nafni, frændi og fóstbróðir Ingólfs, byggði að sögn Landnámu syðst á Reykjanesi í Vogi eða núverandi Hafnahrepp og hefur búið í Gamla-Kirkjuvogi. Þar eru ókannaðar rústir sunnan við Ósabotna. Sonarsonur hans, Herjólfur yngri, bjó á Drepstokki (Rekstokki) á Eyrarbakka og sigldi til Grænlands og byggði á Herjólfsnesi syðst á landinu. Herjólfur er sagður fóstbróðir Ingólfs í melabók og Hauksbók, en Sturla Þórðarson sviptir hann titlinum og setur hann á Hjörleif Hróðmarsson, sem hann hafði miklar mætur á. Hér liggur beint við að barna söguna og gera Herjólf að farmanni, fá honum skip og senda hann til landnáms með Ingólfi, sem gerði hann að útverði landnámsins og flotaforingja suður í Höfnum. Þar er Þórshöfn gegnt Kirkjuvogi.
Eyvindur, frændi og fóstri Steinunnar gömlu, hlaut hjá henni Voga og Vatnsleysuströnd, og settist hann að í Kvíguvogum. Þaðan hrökklaðist hann undan Hrolleifi Einarssyni barnakarls, sem telst hafa komið út seint á landnámstíð, vera margtengdur Ingólfsfrændum og lenti hjá þeim á Heiðarbæ í Þingvallasveit og undi þar illa við murtuveiði í vatninu. Hann bauð Eyvindi bústaðaskipti eða hólmgöngu öðrum kosti. Eyvindur kaus skiptin og stofnaði líklega til sjósóknar hjá Steinunni frænku á Bæjarskerjum á Miðnesi, en hefur haft búsmala á Heiðarbæ.
Við Gufuskála á Rosmhvalanesi á hrakhólavíkingur að hafa lent, og hrekja Landnámahöfundar hann úr einum Gufu-staðnum í annan; frá Gufuskálum í Rosmhvalanesi í Gufunes og þaðan í Gufuám þá í nýja Gufuskála og loks í Gufufjörð. Melabók nefnir manninn Gufa Ketilsson Bresasonar, en Ketill faðir hans “átti Akranes allt fyrir vestan Reyni og fyrir norðan Akraffell og til Urriðaár” og hafði komið frá Írlandi til Íslands (Mb. 33). Gufi “vildi byggja á Nesi (Gufunesi), en Ingólfur rak hann á brott þaðan. Þá fór hann á Rosmhvalanes og vildi byggja að Gufu (skálum). En þau Steinunn keyptu saman að hann skyldi á burt fara en vermannastöð skyldi ávallt vera frá Hólmi” (Mb. 35). Hér mum um Hólm í Leiru að ræða, en þar er talið að Steinunn gamla hafi búið.
Þórður skeggi Hrappsson Bjarnasonar bunu var giftur prinsessu, sem átti sér þjóðardýrling Engilsaxa fyrir afa. Þórður fluttist austan úr Lóni líkt og Ingólfur frændi hans hafði gert og tók sér bólfestu í nágrenni hans að Skeggjastöðum í Mosfellssveit. Hann nam land milli Leirvogsár og Úlfarsár, sem nú nefnist Korpúlfsstaðaá, en lönd sín í Lóni seldi hann Úlfljóti, sem síðar gerðist löggjafi Íslendinga. Þórður hefur hlotið rúmlega allan Mosfellsdalinn til búskapar og utanverða Mosfellsheiði, og styrkt stöðu sína og frændliðsins pólitískt við flutningana.
Hallur goðlausi á hafa verið tengdur Þórði skeggja og numið land frá Leiruvogi til Mógilsár. Hann reisti bæ að Múla, en bæjarstæðið er glatað. Leirvogsá hefur skilið lönd þerra Þórðar allt að Leirvogsvatni, en Esjan frá Mógilsá markað landnámið að norðan. Líklega hefur Þerney fylgt landnámi halls. Sonarsonur hans á fyrstur að hafa reist bú í Álfsnesi.
Helgi bjóla Grímsson Bjarnasonar bunu, fór úr Suðureyjum og nam land á Hofi á Kjalarnesi milli Mógilsár og Mýdalsár, sem síðar nefndist Miðdalsá og nú Kiðafellsá á mótum Kjósar og Kjalarness. Niður við Hofsvoginn norðaustur frá bænum eru miklar rústir, sem virtust við könnun 1973 vera frá elsta skeiði byggðarinnar.
Örlygur gamli, annar Suðureyingur og frændi þeirra Helga, sigldi á hans fund. Hann tók hér land með liðið sínu norður í Örlygshöfn við Patreksfjörð. Þar hefur hann frétt hverra kosta hann átti völ hjá frændliðinu við Faxaflóa. Hann sigldi suður og hlaut land milli Mógilsár og Ósvífurár, sem á síðari öldum kallst Ósénulækur, eða Ósýnilækur (L.L. 86). Örlygur bjá að Esjubergi. Hann telst hafa verið kristinn og reist kirkju á bæ sínum.
Svartkell katneski, frá Katanesi á Skotlandi, nam land milli Kiðafellsár og Elífsdalsár, sem nú heitir Dælisá og Bugða og fellur í Laxá neðanverða. Hann bjó að Kiðafelli og síðar á Eyri í Kjós.
Valþjófur Örlygsson frá Esjubergi nam Kjós alla segir Landnáma og bjó að Meðalfelli. Hér mun átt við Meðalfellsdalinn báðum megin Laxár að Bugðu.
Þessir tíu landnámsmenn eru allir tengdir Ingólfi og liði hans í frásögnum Landnámu nema Svartkell katneski á Kiðafelli. Frá Reynivallahálsi og suður í Hafnir lá kjarnasvæði byggðarinnar sunnan Hvalfjarðar og vestan fljótsins mikla, Ölfusár. Utan þess lágu jaðarsvæði, sem gátu ekki orðið neinir mótandi byggðarkjarnar á frumstigi mannlífsins í landinu.

Jaðarsvæði

Landnám

Landnámið – landnámsmenn.

Hvamm-Þórir nam land milli Laxár og Fossár og bjó í Hvammi. Engin deili eru sögð á honum.
Þorsteinn Sölmundarson Þórólfssonar smjörs af ætt Gríms kambans, sem nam Færeyjar, nam land frá Fossá að Botnsá og Brynjudal allan. Um bústað hans er ekki annað vitað en sonur hans telst búa á Múla í Brynjudal, en bær með því nafni er ókkur í dalnum.
Molda-Gnúpur kom frá Moldatúni (Moldtuna) á Norðmæri til Íslands og nam Álftaver. Hann flýði þaðan með fólk sitt undan jarðeldi (úr Eldgjá 934) vestur til Grindavíkur, og námu synir hans land frá Selatöngum til reykjaness. þeir komu þangað með fátt kvikfé, sem gekk mjög ört, og vissi Hafur-Björn Gnúpsson ekki sauða sinna tal.
Þórir haustmyrkur nam Selvog og krýsuvík líklega austur á Hafnarberg og miðja Selvogsheiði, en sonur hans Heggur byggði í Vogi, sem síðar varð Vogsósar.

Landnám

Þórir haustmyrkur nam Selvog.

Álfur hinn egski frá frá Ögðum í Noregi og “kom skipi sínu í þann ós, er við hann er kenndur og heitir Álfsós” (Mb. 37). Álfi er eignað landnám fra Varmá út á Selvogsheiði að mörkum Selvogshrepps, en annars telst tilvera hans vafasöm. Nafn hans mun til orðið vegna misskilnings á heitinu Ölfus, sem telst samsett úr stofni orðsins elfur og ós. Um 1700 hafa gengið sagnir um það að Álfur hafi komið skipi sínu “inn Ölversármynni, upp eftir Þorleifslæk í Álfsós og bjó að Gnúpum. Ós þessi liggur að austanverðu, nær því við Þurárhraun” (L.I.II, 13; III, 4). Hér mun um að ræða tilraun til þess að staðsetja örnefnið Álfós, sem er hvergi nefnt í fornritum nema í Landnámu, og var þar sem Varmá féll “í Ölversá fyrir austan Arnarbælisstað” (L.I.II, 10). Síðar brýtur Varmá sér leið vestur “allt í Álfós” (L.I.III, 4, 10), sem sumir nefna Álftárós, segir í Jarðabók Árna og Páls (II, 420, 422) en það mun upprunalegt nafn (Í.fr.I, 390-91).
Ormur hinn gamli Eyvindarson “nam land fyrir austan Varmá til Þverár og um Ingólfsfell allt og bjó í Hvammi” (Mb, 27). Þverá sú er þar getur heitir nú Tunguá og fellur í Sogið.
Þorgrímur bíldur Úlfsson “nam lönd fyrir ofan Þverá (Tunguá) og bjó að Bíldsfelli.” Hér er um að ræða allan Grafning ofan Tunguár að mörkum Þingvallasveitar.
Steinröður Melpatriksson af Írlandi og leysingi Þorgríms bílds og tengdasonur “nam öll Vatnalönd og bjó að Steinröðarstöðum” (Mb, 27). Vatnalönd munu efri hluti Grafnings sunnan Þingvallavatns og Jórukleifar og landnáms Hrolleifs á Heiðarbæ, sem nam land allt fyrir utan Öxará til móts við Steinröð.
Ketilbjörn gamli úr Naumudal í Noregi telst tengdasonur Þórðar skeggja, en hann fór til Íslands, “þá er landið var víða byggt með sjó.” Hann hafði veturvist hjá tengdaföður sínum, en fór þá austur um heiði og “nam Grímsnes allt upp frá Höskuldslæk og Laugardal allan og alla Biskupstungu upp til Stakkslækjar (Stakksár) og byggði að Mosfelli” (Mb. 24-25). Landnámsmörkin að vestan voru ekki glögg og hafa verið þrætuland, en Ketilbjörn hefur náð undir sig mjög miklu landi, þ.á.m. Tungunni ytri (E.A.:Á. 102, 124-128). Þetta var mikilvægt svæði. Þar stóð höfuðstaður Íslands í 7 aldir í Skálholti, en Þingvöllur lá á milli landnáms Ingólfs og Ketilbjarnar, og þangað lágu þjóðleiðir.
Landnám Ketilbjarnar rak smiðshöggið á landvinninga þeirra Ingólfsfrænda og tengdaliðs þeirra suðvestan lands. þar höfðu þeir lagt undir sig kjarasvæði, en ættmenn áttu þeir á Snæfellsnesi, um Breiðafjörð, Eyjafjörð, austur á Síðu og víðar um land.
Samkvæmt frásögn Landnámu var þetta fólk komið úr ýmsum áttum í Noregi og á Bretlandseyjum, bæði frá írlandi, Suðureyjum og Katanesi á Skotlandi. Það hefur haft ýmis kynni af kristinni trú og verið blendið í skoðunum.

Framkvæmd landnámsins

Landnám

Landnámið virðist hafa verið framkvæmt á þann hátt að
1) ættingjar og tengdafólk raðaði sér á ströndina sunna úr Vogum og inn í Hvalfjörð;
2) menn voru fengnir til þess að flytjast úr öðrum landnámum á þetta svæði;
3) þaðan lögðu menn undir sig uppsveitir Árnesþings.
Hér var unnið skipulega að ákveðnu marki. Í landnámi Ingólfs hafa menn líklega frá upphafi stefnt að því að stofna stórbændasamfélag undir forystu goðans í Reykjavík og verja eignarrétt og forréttindi í héruðum, halda þrælum í skefjum og skipuleggja byggðina. valdastétt goða er óþekkt utan Íslands og virðist hér nýgervingur og til orðin vegna óvenjulegra aðstæðna. Hér voru allir nýgræðingar í stóru og dreifbýlu landi; landnemarnir hafa fæsti verið af höfðingjaættum, en flestir þekkt til þingaskipanar undir forystu ákveðins bændahöfðingja. Við sunnanverðan Faxaflóa hafa forystumenn landnámsins þingað, bundist samtökum um skipulag allt frá því að þeir tóku sér bólfestu, og nágrennisvald þeirra hefur verið allríkt í héruðum suðvestan lands. Fólksflutningar voru dræmir fyrstu áratugina, svo að fyrstu landnemunum gafst tóm til að búa um sig.

Heimild:
-Landnám Ingólfs – Nýtt safn til sögu þess, Björn Þorsteinsson; Landnám Ingólfs, bls. 9-35.

Landnám

Farkostur landnámsmanna.

Ártún.

Í fornleifaskráningu Margrétar Bjarkar Magnúsdóttur á jörðinni Ártúns á Kjalarnesi segir m.a.:

Ártún

Ártún – túnakort frá 1916.

“Sem fyrr liggur land Ártúns að jörðinni Bakka að sunnan og ræður Ártúnsá frá sjó að Blikdalsmynni. Að norðan liggur land Ártúns að jörðinni Dalsmynni, sem varð til árið 1930 þegar jörðinni Saurbæ var skipt, og að Melagerði og Melavöllum. Að sögn Ásthildar Skjaldardóttur bónda á Bakka voru Melagerði og Melavellir byggðir út úr Ártúni en bræðurnir Bjarni og Gunnar Þorvarðarsynir, sem voru bændur á Bakka frá árinu 1950 til 1997, seldu landspildur fyrir Melagerði árið 1975 og Melavelli árið 1979. Efrimörk jarðarinnar eru við mynni Blikdals sem er stór grösugur dalur í vestanverðri Esju. Dalurinn er nú allur í eigu Reykjavíkurborgar en skiptist áður á milli kirkjujarðanna í Saurbæ og Brautarholts. Blikdalur skiptist eftir ánni sem rennur eftir honum miðjum og átti Saurbær dalinn að norðanverðu en Brautarholt að sunnanverðu. Dalurinn hefur löngum verið nýttur til uppreksturs búfjár frá bæjum á Kjalarnesi og áður fyrr voru þar einnig nokkrar selstöður sem enn má sjá minjar um.

Saga Ártúns

Ártún

Ártún 1950.

Ártún var talin lítil og kostarýr jörð. Hún var lengst af kirkjujörð frá Saurbæ, afbýli úr þeirri jörð og jafnframt ysti bær í Saurbæjarsókn. Jörðin fór í eyði á fardögum árið 1956 þegar síðustu ábúendur fluttu þaðan burt. Ártúns er getið í Gíslamáldögum frá 1570 og síðar, en þá átti Saurbæjarkirkja þrjátíu hundruð í heimalandinu ásamt tveimur kotum „…enn thad eru ij kot. Artun og Hiardarnes. X. Aura Landskylld af huorre.“

Ártún

Ártún 1935.

Árið 1695 er Ártún kirkjujörð í bændaeign með fjögur og hálft kúgildi, 90 álnir í landleigu og skattálagningu 15 hundruð. Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1705 þá er Ártún kirkjujörð sem liggur til Saurbæjarkirkju, og þar til proprietarius, eða eiganda sem var hr. lögmaður Sigurður Björnsson og bjó í Saurbæ. Einn ábúandi, Þórarinn Hallsson, er þá í Ártúni og galt hann í landskuld níutíu álnir með landaurum í fríðu eða dauðu, fóðri eða öðru. Áður galst hún í fiski að hluta þegar fiskgengd var góð í Hvalfirði og galst heim til eiganda. Leigukúgildi jarðarinnar eru þrjú og hálft og átti kirkjan í Saurbæ þau, en kúgildin höfðu áður verið fimm. Kvikfénaður var fimm kýr, tvær kvígur veturgamlar, tveir kálfar, tólf ær með lömbum, ein geld, tíu sauðir veturgamlir og tveir hestar. Jörðin hafði selstöðu og beit fría í Blikdal um sumar og vetur í landi Saurbæjar. Torfrista og stunga var talin bjargleg en reiðingsrista lítt nýtandi. Móskurð hafði jörðin eftir nauðsyn í Saurbæjarlandi. Hvorki var hvannatekja eða rótargröftur teljandi. Sölvafjöru og fjörugrös nýtti jörðin fyrir Saurbæjarlandi og þang til eldiviðar var talið nægilegt auk þess sem talin var nokkur rekavon fyrir landi jarðarinnar. Skipsuppsátur var ekkert og engin lending, vatnsból erfitt um vetur og búpeningi var flæðihætt. Í Jarðamati J. Johnsens frá 1847 var Ártún enn kirkjujörð og metin til fimmtán hundruða. Árið 1861 er Ártún metið á 15 forn hundruð og 8,7 ný hundruð.

Ártún

Ártún 1967.

Í landamerkjabréfi frá 1890 fyrir Saurbæ, með Hjarðarneskoti og Ártúni, kemur fram að á Bleikdal eigi Ártún óskipta beit en slægjur fyrir neðan götu frá Selgilslæk að Heygilslæk. Árið 1896 búa í Ártúni Guðmundur Guðmundsson og Margrét Ólafsdóttir og búa þar til ársins 1898, en eftir það og til ársins 1913 búa þar Þorkell Ásmundsson og Guðrún Jónsdóttir. Frá 1914 til 1955 búa þar Gunnlaugur Sigurðsson og Guðrún Bjarnadóttir. Árið 1921 er heildarmat á Ártúni 31 hundrað. Árið 1932 er heildarverðmat 38 hundruð, bæjarhús úr torfi og grjóti og miðstöð sögð komin í bæinn. Túnið er 2,2 hektarar og girt í kring og bústofninn er þrjár kýr, fimmtíu kindur og þrjú hross.

Ártún

Ártúnsrétt.

Árið 1942 er fasteignamat Ártúns 42 hundruð, bústofn er þrjár kýr, þrjátíu kindur og fjórir hestar, og jörðin í einkaeign en leigð til ábúðar.
Síðustu ábúendur í Ártúni voru þau Böðvar Eyjólfsson og Anna Margrét Sigurðardóttir sem bjuggu þar í eitt ár, frá 1955 til 1956, en fóstri Önnu, Ólafur Eyjólfsson í Saurbæ, var eigandi Ártúns. Vorið 1956 var Ártún selt Lárusi Lúðvíkssyni í Reykjavík sem fékkst við fiskeldi í ánni.
Sjá má minjar um framkvæmdir hans á bökkum Ártúnsár, austur af Kringlumýri. Nú er mestur hluti jarðarinnar eign bændanna á Bakka. Í Fasteignabók frá 1956-70 er jörðin Ártún sögð auð en heildarmat er 15.500 krónur.

Ártún

Ártún – þrívíddarmynd af tóftum bæjarins.

Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni eru vel greinanlegar á bæjarhólnum þar sem röð bæjarhúsa snýr fram á hlað í suðvestur með tveimur húsum að baki. Framan við bæinn sér enn í kálgarð með greinilegri garðhleðslu austanmegin. Heimatúnið er líka vel greinanlegt í muni á gróðurfari og hafa útlínur lítið breyst frá því sem sjá má á túnakorti frá 1916. Þó hefur Vesturlandsvegurinn verið lagður í gegnum túnið í tvígang og á spildu á milli gamla og nýja vegarins hefur nú verið plantað trjám. Töluvert er einnig af stríðsminjum á melunum fyrir norðan bæjarhólinn en á stríðsárunum var setuliðið með aðstöðu víðsvegar á Kjalarnesinu og var með aðstöðu öll stríðsárin í Dalsmynni sem er næsti bær við Ártún. Þar voru byggð braggahverfi sem og í landi Stekkjarkots og í Tíðarskarði.

Kristrún Ósk Kalmansdóttir er fædd 23. mars í Ártúni. Þar ólst hún upp hjá hjónunum Gunnlaugi Sigurðssyni og Guðrúnu Bjarnadóttur en móðir hennar var uppeldisdóttir þeirra hjóna. Gunnlaugur, Guðrún og Kristrún voru síðustu íbúar torfbæjarins sem nú er orðinn að tóftum á bæjarhólnum í Ártúni. Leitað var til Kristrúnar um upplýsingar varðandi Ártún og greindi hún frá ýmsu sem varðaði búskap í Ártúni í hennar tíð og til hvers húsakynni voru síðast notuð.

Ártún

Ártún – örnefni.

Bærinn samanstóð af nokkrum samhliða húsum á bæjarhólnum. Að sögn Kristrúnar var skemma vestast í bæjarröðinni, þá baðstofa, bæjargöng og búr. Austast voru fjós og hænsnahús. Í bæinn var aldrei leitt vatn, rafmagn eða sími en sími var á næsta bæ, Dalsmynni, ef á þurfti að halda. Í skemmunni voru geymd matvæli og reiðtygi. Baðstofan var tveggja stafgólfa og voru tvö rúm hvorumegin, en þriðja stafgólfið í húsinu var inngangur og eldhús. Á þaki baðstofunnar var að sögn Kristrúnar bárujárn sem tyrft var yfir. Í eldhúsinu var kolaeldavél sem hitaði húsið og eldað var á. Í Fasteignabók frá 1932 kemur fram að miðstöð sé komin í bæinn og er þá trúlega átt við kolaeldavélina. Kristrún sagði að áður en kolaeldavélin kom til hefði verið notað hlóðaeldhús sem var bakatil inn af bæjargöngum, eins og sjá má á túnakorti frá 1916, en lítil ummerki eru eftir hlóðaeldhúsið nema inngangurinn.
Um 1940 var hlóðaeldhúsið fyllt upp og jafnað út til að bæta aðgengi heyvagna að hlöðunni.

Ártún

Ártún – Kristrún Ósk Kalmansdóttir málaði þessa mynd af síðasta bænum í Ártúni.

Kristrún minnist þess ekki að eldaður hafi verið matur í hlóðaeldhúsinu en man að þar var stöku sinnum soðinn þvottur í stórum potti sem einnig var notaður til að þvo í ull niður við á. Næst komu bæjargöng en úr þeim var einnig gengið inní búrið sem var til vinstri handar. Þar var geymdur matur í trétunnum, korn og fleira. Þar var einnig geymdur vatnsforði en allt vatn þurfti að sækja niður í á. Næsta hús var sex bása fjós og austast var svo hænsnahús sem hafði áður verið notað sem lambhús. Á milli fjóssins og hænsnahússins var settur niður kamar í tíð Kristrúnar. Bakatil austan megin á bæjarhólnum var niðurgrafin hlaða og vestan megin að baki skemmunni var hesthús. Tóftir þessara húsa eru nú grasigrónar og vel greinanlegar. Efst og norðaustan í heimatúninu er fjárhústóft með hlöðnum grjótgarði eftir miðju og sagði Kristrún að húsið hefði tekið fimmtíu kindur. Á túnakort frá 1916 er teiknað hús við traðirnar nyrst í heimatúninu sem ekki sér til í dag og hefur tóft þess sennilega farið undir núverandi Vesturlandsveg. Að sögn Kristrúnar var það lítið hesthús sem tók fjóra hesta og var það helst notað til að hýsa hesta ferðalanga. Traðirnar austur af bænum sem liggja niður að Ártúnsá sagði Kristrún að hefðu í hennar tíð eingöngu verið notaðar til að sækja vatn í ána. Aðkoma að bænum hefði verið norðvestan megin, hlaðvarpi við skemmuna og traðir sem lágu í norður framhjá litla hesthúsinu. Við traðirnar sagði hún að hefði verið lítill hóll sem kallaður var Traðarhóll og sumir notuðu til að komast á bak. Þessi slóði lagðist af þegar Vesturlandsvegurinn kom og myndaðist þá nýr slóði.

Ártún

Ártún – Úr kvikmyndinni “Síðasti bærinn í dalnum”.

Í árdaga íslenskrar kvikmyndagerðar var Ártún mikið notað sem kvikmyndaver eða eins og segir í grein í Morgunblaðsins frá 1970: „Þetta var einskonar Hollywood Íslands um tíma og má muna fífil sinn fegri.“ Kvikmyndin Milli fjalls og fjöru er fyrsta íslenska kvikmyndin sem gerð var í fullri lengd og jafnframt fyrsta íslenska talmyndin. Loftur Guðmundsson gerði myndina árið 1949 og frumsýndi það sama ár. Myndin er trúlega elsta myndin sem er kvikmynduð í Ártúni en bærinn í myndinni er Ártún. Bærinn kom einnig við sögu í tökum á kvikmyndinni Síðasti bærinn í dalnum eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1950. Þá bjuggu Bakkabræður í Ártúni í kvikmyndinni Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra en það var gamanmynd eftir Loft Guðmundsson sem frumsýnd var árið 1951. Ártún kom einnig lítillega við sögu í kvikmyndinni Sölku Völku sem Edda-film gerði og frumsýnd var árið 1954.
Kvikmyndin Gilitrutt var frumsýnd árið 1957 en í myndinni eldar tröllskessan Gilitrutt matinn í Ártúni.

Ártún

Ártún 1972.

Skýringu á því hvers vegna Ártún kom svo mikið við sögu við upptöku á kvikmyndum um miðja síðustu öld má kannski finna í því að Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað í Ártúni árið 1945 eða 1946. Loftur var fæddur í Hvammsvík í Kjós árið 1892 og þekkti vel til á Kjalarnesinu. Sumarbústaðinn reisti Loftur rétt fyrir ofan heimatúnið og klettinn Hæring þar sem bústaðurinn stóð til ársins 1955 en Loftur lést árið 1952. Þegar hjónin Anna Margrét Sigurðardóttir og Böðvar Eyjólfsson fengu jörðina til ábúðar árið 1955, fluttu þau bústaðinn niður fyrir bæinn og bjuggu þar í honum í eitt ár. Bústaðin seldu þau seinna í Bergvík á Kjalarnesi.

Flestar stríðsminjarnar á jörðinni eru holur sem rutt hefur verið upp úr í kringum þær. Að sögn Kristrúnar voru stærri holurnar notaðar fyrir loftvarnarbyssur en þær minni notuðu hermenn til að fela sig í og strengdu yfir þær græn net.

Ártún

Ártún – bæjarhóllinn 2018.

Hlutverk Ártúns sem kvikmyndaver við upphaf kvikmyndagerðar á Íslandi er athyglisvert. Það hefur trúlega haft áhrif á staðarval við upptökur á kvikmyndum að einn af frumkvöðlum íslenskrar kvikmyndagerðar Loftur Guðmundsson ljósmyndari og kvikmyndagerðarmaður byggði sér sumarbústað rétt ofan við bæinn.
Í Ártúni er um að ræða minjaheild búsetuminja sem samanstendur af bæjarhól með híbýlum og skepnuhúsum. Aðgengi að minjunum er gott svo ef vilji væri fyrir hendi mætti gera það enn betra og einnig mætti setja fram upplýsingar með sögu staðarins í máli og myndum. Tóftir síðasta bæjarins í Ártúni sýna einstakt búsetulandslag í næsta nágrenni Reykjavíkur.
Búsetuminjar sem er að finna á jörðinni eru gott dæmi um búsetu á svæðinu. Minjarnar hafa ekki orðið fyrir raski eftir að búskapur lagðist af á jörðinni og eru einstakar vegna þess að þær eru vel varðveitt minjaheild innan vébanda höfuðborgarinnar.”

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Fornleifaskráning jarðarinnar Ártúns á Kjalarnesi, Reykjavík 2010 – Minjasafn Reykjavíkur.

Ártún

Ártún.

Álfsnes

Í fornleifaskráningu fyrir Álfsnes frá árinu 2018 segir m.a.:

Sundakot

Saga Sundakots er nokkuð sérstök, þar sem í túnfætinum hefur verið verslunarstaður á miðöldum nefndur Þerneyjarsund. Á þjóðveldisöld voru helstu útflutningsvörur Íslendinga ullarvörur.

Álfsnes

Álfsnes – fornleifar.

Helstu kauphafnirnar, „hin sjálfgerðu skipalægi frá náttúrunnar hendi, hafa verið í grennd við aðallandbúnaðar- héruðin.“ Til eru heimildir um siglingu hafskipa í Elliðaár og Leiruvog á þjóðveldistímanum en líklega hefur Hvítá í Borgarfirði verið helsti verslunarstaðurinn á svæðinu fram til 1340 en þá fer að bera á breytingum.
Á fyrri hluta 14. aldar varð mikil breyting á viðskiptum við Ísland en þá hófst útflutningur á skreið sem átti eftir að vera meginútflutningsvara Íslendinga fram á 19. öld.
Þá urðu nýjar hafnir fyrir valinu, hafnir „sem lágu vel við sjósókn, á sunnan- og vestanverðu landinu.“ Þorleifur Óskarsson telur að langmest af fiski hafi verið flutt út frá Vestmannaeyjum, Faxaflóa, Snæfellsnesi og Vestfjörðum.
Helstu kauphafnir í grennd við Seltirninga voru við Þerneyjarsund, í Hafnarfirði og Hvalfirði.
Elsta heimild um höfn við Þerneyjarsund er Kjalnesinga saga en þar segir: „Eftir það býr Örlygur ferð sína og er frá ferð hans það fyrst að segja að allt gekk eftir því sem biskup sagði. Hann tók í Þerneyjarsundi höfn. Síðan fór hann að finna Helga bjólu og tók hann vel við honum. Reisti Örlygur þar nú bú og kirkju og bjó þar síðan til elli.“23 Saga þessi er talin vera rituð á 14. öld og þykir nokkur ævintýrablær á henni. Þrátt fyrir það er ekki óvarlegt að ætla að höfundur hafi þekkt til þess að skip tækju höfn við Þerneyjarsund enda styðja aðrar heimildir það. Til dæmis er nokkrum sinnum minnst á Þerneyjarsund í annálum. Sagt er frá því að árið 1391 hafi Þorsteinn Snorrason verið vígður til ábóta að Helgafelli af Miceli biskupi. Kom Þorsteinn út í Þerneyjarsundi á „Hösnabúsunni“. Árið 1411 komst Björn bóndi Einarsson út í Þerneyjarsund heilu og höldnu.
Árið 1419 lét Jón biskup í haf og kom að Íslandi í Þerneyjarsundi heill á húfi.

Álfsnes

Sundakot – loftmynd.

Til eru skjöl frá byrjun 15. aldar sem sýna fram á tengsl Þerneyjar við siglingar og verslun á þessum tíma. Þann 3. júlí 1409 var Oddur Þórðarson lögmaður kallaður til af hirðstjóra á Alþingi til að úrskurða um flutning á konungsgóssi til Noregs með kaupskipum frá Íslandi. Ekki hefur verið kallað á þennan úrskurð að tilefnislausu því stuttu seinna, eða 7. júlí 1409, er Oddur lögmaður mættur út í Þerney til að úrskurða um flutning á konungsgóssi frá Íslandi með kaupskipi sem konungur átti hlut í en var leigt öðrum.
Þerneyjarsundi bregður aftur fyrir í úrskurði Stefáns biskups í Skálholti, dagsettum 11. desember 1492. Stefán úrskurðar um þrjá landseta sem ekki höfðu staðið í skilum við hann um það hrossalán sem þeim bar að veita staðnum í Skálholti samkvæmt leigumála þeirra.
Stefán úrskurðar landsetana skylduga til að fara eftir leigumálum og hafa til reiðu lestfæran kapal undir þriggja vætta klyfjar í Grindavík, á Romshvalanes, til Þerneyjarsunds eða á hvern þann stað „sem stadarens naudsyniar standa til.“
Frá 18. öld eru til tvær lýsingar á Þerneyjarsundi, lýsingar P. de Löwenörn og Skúla Magnússonar, þar sem aðallega er verið að draga fram kosti sundsins sem mögulegrar hafnar fremur en að verið sé að lýsa þáverandi stöðu.
En hvenær lauk tímabili kauphafnar við Þerneyjarsund og hvers vegna? Helgi Þorláksson telur að skipakomur og kaupstefnur hafi verið töluverðar við Þerney um 1400 og fram á 15. öld.
Siglingatækninni hafi svo fleygt fram á 15. öld og um 1500 komust menn næstum því á þá vík er þeir kusu.
Björn Þorsteinsson vildi meina að verslunarstaðirnir Þerneyjarsund og Hvalfjörður eða Búðasandur á Hálsnesi hafi líklega lagst af snemma á 15. öld.
Kristján Eldjárn taldi aftur á móti að til væru ritaðar heimildir um notkun Þerneyjarsunds sem hafnar og kaupstefnustaðar á tímabilinu 1300 til 1500. Það gæti verið vel í takt við þá skoðun Þorleifs Óskarssonar að verslunin hafi í byrjun 16. aldar færst nær Víkinni (Reykjavík) sem líklega má rekja til innbyrðis baráttu Þjóðverja um viðskipti við Íslendinga en „elsta dæmið um verslun í Hólminum við Reykjavík sé frá árinu 1521.“
Álfsnes
Kristján Eldjárn taldi miklar líkur benda til þess að lendingarstaðurinn og búðirnar hafi verið á þúfnasvæði við hvamm einn þar sem Sundakot stóð. Á 8. áratugnum voru uppi hugmyndir um að friðlýsa svæðið og má sjá á grein Kristjáns að hann telur að svæðið, bæði búðasvæði og Sundakot, sé þegar friðlýst en það hefur verið á misskilningi byggt.
Svæðið hefur sigið mikið og sjást búðirnar ekki lengur.
Sundakot (hét Niðurkot í Jarðatali Johnsens) var önnur hjáleiga Þerneyjar á fastalandi og reiknaðist jarðardýrleikinn í heimajörðinni. Svo var enn í Jarðatali Johnsens. Landskuld hennar var sextíu álnir og greiddist með fiski til heimabónda, leigukúgildi eitt og greiddist í smjöri. Kvaðir voru mannslán árið um kring utan sláttar en þó einn dagsláttur. Kvikfénaður var tvær leigu kýr og einn kálfur, eitt hross og eitt veturgamalt trippi. Heimilismenn voru sex. Torfristu, stungu og eldiviðartak sóttu menn á fastaland með heimabónda. Hjáleigan hafði engin sjávarhlunnindi. Tekið er fram að Sundakot hafi verið í byggð lengur en menn reki minni til.
Undir Sundakot eru skráðir 19 minjastaðir, þar ber helst að nefna bæjahólinn, minjar innan hringlaga túngarðs auk búðarrústa sem ekki eru greinanlegar lengur á yfirborði, sjórinn gengur þar á land og minjastaðurinn er í hættu vegna ágangs sjávar.
Engar fornleifar á áætluðu framkvæmdarsvæði eru skráðar undir Sundakot, furða má sig á að engin steinhlaðin skreiðarbyrgi skuli finnast Sundakotsmegin við Fornugrafir, því ætla mætti að byrgjunum væri valinn staður sem næst höfninni á Þerneyjarsundi. Skýring kann að vera að heppilegri steinastærð er að finna á holtinu að norðanverðu.

Glóra

Álfsnes

Glóra- loftmynd.

Hjáleiga Álfsness var nefnd Urðarkot eða Glóra (nefnd svo í Jarðabók Johnsens). Ekki er ljóst hvenær byggð hófst þar. Þegar Jarðabók Árna og Páls var gerð 1705 var dýrleiki reiknaður með heimajörðinni. Hjáleigan var þá ýmist nefnd Glóra eða Urðarkot og á lausu blaði í Jarðabókinni einnig nefnt Hallsneshjáleiga.
Landskuld greiddist til heimabænda í landaurum ef ekki var til fiskur.
Leigukúgildi var eitt og greiddist í smjöri eða fóðri til heimabónda. Vatnsból var á heimajörðinni.

Álfsnes

Dýrleika jarðarinnar er hvorki getið í Jarðabók né Jarðatali. Á Glóru var búið til ársins 1896. Þá fór bærinn í eyði og ekki var búið í honum þegar túnakort er gert árið 1916, bæjarhúsin voru þá tóftir. Síðast var búið í Glóru frá 1928 til 1935. Þá bjó þar Benedikt Kristjánsson frá Álfsnesi sem rak þar kúabú ásamt því að halda nokkur hross og kindur.
Fornleifar í Glóru tengjast bæði búsetu og sjósókn. Búsetuminjar eru helst rústir bæjar- og útihúsa, garðlög, mógrafir og landamerki. Sjávarútvegsminjar sem tilheyra landsvæði Glóru eru allar mun eldri og eru rústir eftir fiskbyrgi sem eru allar innan úttektarsvæðisins. Fiskbyrgin voru notuð til að þurrka fisk við framleiðslu á skreið og gætu þau verið frá tímabilinu 1300-1500 þegar Þerneyjarsund var útflutningshöfn. Einnig eru nokkrar yngri minjar í landi Glóru eftir hersetuna.

Minjastaðurinn við Þerneyjarsund
„Þessi staður er einn af fyrirrennurum Reykjavíkur og á að varðveitast eins og hann er“. Svo komst dr. Kristján Eldjárn fyrrverandi þjóðminjavörður og forseti Íslands að orði um minjastaðinn við Þerneyjarsund í grein sinni í Árbók Hins íslenska fornleifafélags frá árinu 1980. Þar fjallar hann um hluta þeirra minja sem finna má á Gunnunesi eða Álfsnesi, nánar tiltekið kaupstað sem þar var á miðöldum samkvæmt heimildum. Hann leiðir líkum að því í greininni að kaupstaðurinn hafi verið niður undan túninu í Niðurkoti (einnig kallað Sundakot) en erfitt er að sjá til búðanna vegna mikilla þúfna. Reyndar segir hann einnig að hvort sem þúfurnar séu manngerðar eða ekki þá er minjastaðurinn „engu að síður kaupstaðurinn við Þerneyjarsund, með búðum eða búðalaus“. Hann telur staðinn sem slíkan merkilegan hvort sem sést til minja eða ekki.

Kaupstaðurinn er þó bara hluti þeirra stórmerkilegu minja sem finna má á svæðinu. Þar er að finna þrjú bæjarstæði sem hvert um sig hefur mikið minjagildi og saman mynda þau einstaka minjaheild. Það eru Sundakot, Glóra og Þerney.
Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem rituð er í byrjun 18. aldar segir að að Sundakot hafi verið lengur í byggð en menn muna. Því má gera ráð fyrir að þar hafi verið búið að minnsta kosti frá 16. eða 17. öld og jafnvel fyrr. Rústir bæjarins eru sjáanlegar á yfirborði ásamt útihúsum og túngarði sem afmarkar heimatún bæjarins. Minjarnar í Sundakoti eru gott dæmi um smábýli á Íslandi.

Glóra
Álfsnes

ornleifar í Glóru tengjast bæði búsetu og sjósókn. Búsetuminjar eru rústir bæjar- og útihúsa, garðlög, mógrafir og landamerki. Minjar sem tengjast sjósókn á landsvæði Glóru eru allar mun eldri og eru helst rústir eftir fiskbyrgi. Fiskbyrgin voru notuð til að að þurrka fisk við framleiðslu á skreið og gætu þau verið frá tímabilinu 1300-1500 þegar Þerneyjarsund var útflutningshöfn. Heimildir eru um að Þorlákssúðin, skip Skálholtsbiskups, hafi legið í höfninni í Þerneyjarsundi árið 1409 og að þangað hafi komið ráðamenn að loknu Alþingi, m.a. Skálholtsbiskup, Vigfús Ívarsson hirðstjóri, sem hafði aðstöðu á Bessastöðum, og Oddur Þórðarson lögmaður.
Ekki er víst hvenær búseta hefst á Glóru. Vitað er að þar var búið til ársins 1896 og aftur á árunum 1928 til 1935. Glóra er gott dæmi um hjáleigu frá fyrri hluta 20. aldar í nágrenni Reykjavíkur, fyrir tíma vélvæðingar. Fáir staðir státa af svo heillegum minjum sem sýna heilt bæjarstæði og ekkert sambærilegt er að finna í borgarlandi Reykjavíkur.

Þerney

Þerney

Þerney – loftmynd.

Í Þerney eru margvíslegar minjar um búsetu fólks í eynni en hún var í eigu Skálholtsstaðar og þar bjó kotbóndi sem leigði jörðina af Skálholtsstað. Kirkja var í eynni líklega allt frá 12. – 13. öld. Litlar sem engar rannsóknir hafa verið gerðar á búsetusögu eyjarinnar enn sem komið er en út frá þeim heimildum sem þó eru til má álykta að þar megi finna ósnertar minjar allavega frá miðöldum.
Þegar allt þetta er lagt saman er ljóst að umhverfis Þerneyjarsund er einstakt og enn sem komið er óraskað minjasvæði sem mikilvægt er að varðveita í heild sinni.

Sjá meira um ferð FERLIRs um Álfsnes HÉR.

Heimildir:
-http://www.minjastofnun.is/gagnasafn-/ahugavert-efni/minjar-manadarins/
-Skýrsla um “fornleifaskráningu á Álfsnesi”, Anna Lísa Guðmundsdóttir og Margrét Björk Magnúsdóttir, Borgarsögusafn Reykjavíkur 2018.

Álfsnes

Eyjarnar norðan Reykjavíkur.

Blikdalur

Margrét Björk Magnúsdóttir skrifaði skýrslu um “Rannsóknir á seljum í Reykjavík” fyrir Minjasafn reykjavíkur árið 2011. Þar fjallaði hún m.a. um selin átta í Blikdal:

Selstöður á Blikdal
Blikdalur

Yfirlit um sel í Blikdal.

Blikdalur er stór og grösugur dalur í vesturhluta Esju. Hann liggur frá Gunnlaugsskarði í austri og hallar í vestur að klettabelti við Tíðarskarð en dalsmynnið er skammt austan við það. Blikdalur var áður nefndur Bleikdalur sem gæti verið vegna þess að háhitavirkni náði norður yfir dalinn og gaf berginu ljósan lit en innar í dalnum er ljósleitt og grænsoðið móberg. Eftir dalnum rennur á sem nefnist Blikdalsá, en frá dalsmynni að sjó nefnist hún Ártúnsá eftir samnefndum bæ við mynni dalsins.

Blikdalur

Saubæjarsel í Blikdal.

Blikdalur hefur löngum verið nytjaður af bæjum á Kjalarnesi fyrir lausagöngu hesta til fjáruppreksturs, og selstöðu. Suðurhluti Blikdals lá undir kirkjustaðnum Brautarholti, en sá nyrðri undir kirkjustaðinn Saurbæ og skiptist hann um Blikdalsá. Blikdals er ekki getið beint í skriflegum heimildum fyrr en í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns.
Hinsvegar er Blikdalsár getið í máldaga Saurbæjarkirkju 1220, þar sem fram kemur kvöð um að halda skuli brú yfir ánna: „… bru scal hallda a blic dals a. þar milli fialls oc fjoru. ær sa vill sem j saurbæ byr.“48 Þessi kvöð er áréttuð í Vilchinsmáldaga frá 1397 og í vísitasíum 1642, 1678, 1703 og 1724. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns er Blikdals getið við nokkra bæi varðandi fjárupprekstur og selstöðu. Blikdals er getið í landamerkjabréfi fyrir Saurbæ árið 1890. Þar segir: „Á Bleikdal eiga allar jarðirnar óskipta beit en slægjur þannig að Hjarðarnesin (bæði kotin) hafa slægjur fyrir ofan götu milli Heygils og Bolagils en Ártún fyrir neðan götu frá Seljagilslæk að Heygilslæk.“

Blikdalur

Sel í sunnanverðum Blikdal.

Nokkur örnefni í dalnum vísa til selja og þar eru sýnilegar sex selstöður neðan við Selfjall. Tvær selstöður eru í norðan Blikdalsár, Saurbæjarsel sem stendur við læk ofan um 120 m ofan við ána og Holusel sem er um 370 m innar einnig staðsett við læk rétt ofan við ána. Saurbæjarsel hefur verið í notkun framundir árið 1874 en heimildir geta þess að Guðrún Runólfsdóttir frá Saurbæ hafi verið þar selráðskona.51 Hún varð árið 1875 þriðja kona skáldsins Matthíasar Jochumssonar sem bjó á Móum á Kjalarnesi. Á eyri sem liggur sunnan við ána eru fjórar selstöður sem voru í landi Brautarholts. Efsta og innsta selstaðan er væntanlega sú sem síðast hefur verið í notkun og gæti verið frá svipuðum tíma og Saurbæjarsel. Saurbær er kirkjustaður en kirkju er þar fyrst getið um 1200. Þegar Jarðabókin var gerð er Saurbær orðin annexía frá Brautarholtskirkju. Saurbær er á ofanverðu Kjalarnesi, á sjávarbakka niður af Tíðarskarði. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Fjárupprekstur, hestagöngu og selstöðu hefur jörðin í sínu eigin landi, þar sem heitir Blikdalur.“ Þar er segir einnig; „Selvegur lángur og erfiður.“ Á þeim tíma var jörðin í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Ártún

Ártún 1967.

Ártún var kirkjujörð frá Saurbæ og stendur við mynni Blikdals við Ártúnsá. Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu og beit hefur jörðin frí á Blikdal um sumar og vetur í Saurbæjarlandi.“ Þáverandi eigandi Ártúns var Saurbæjarkirkja sem var í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.
Hjarðarnes var byggt út úr Saurbæ og kirkjujörð þaðan. Bærinn er á sjávarbakka um 1,5 km í norðaustur frá Saurbæ rétt innan við Tíðarskarð. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Fjárupprekstur hefur jörðin frí á Blikdal í Saurbæjarlandi. Item selstöðu frí ibidem.“ Þáverandi eigandi Saurbæjarkirkja, sem var í eigu Sigurðar Björnssonar lögmanns.

Brautarholt

Brautarholtskirkja.

Brautarholt stendur á hæð sem kallast Kirkjuhóll á vestanverðu nesinu og vestur af bænum er lítið og mjótt nes, Músarnes við mynni Hvalfjarðar. Brautarholts er fyrst getið í Landnámabók og kirkja var komin þar árið 1200. Fram kemur í máldaga Brautarholtskirkju frá 1497-1518 að hún eigi hálfan Stardal á móti Þerneyjarkirkju. Í Jarðabók Árna og Páls segir: „Selstöðu og beitiland á kirkjan á Blikdal og liggur það til jarðarinnar, tekur nú mjög af sjer að gánga af skriðum og vatnsgángi.“ Þá var eigandi jarðarinnar prófastsekkjan Sigríður Hákonardóttir að Rauðamel eða sonur hennar Oddur Sigurðsson.

Borg var kirkjujörð frá Brautarholti og var um 175 m í norðaustur af klettinum Borg og 335 m suðaustur frá botni Borgvíkur. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu á jörðin frí í Blikdal þar sem er Brautarholts kirkjuland.“

Mýrarholt var einnig kirkjujörð frá Brautarholti. Var í neðri túnum Brautarholts um 100 m suðaustur af Krosshól og 350 m vestur af svínabúinu í Brautarholti. Í Jarðabók Árna og Páls segir; „Selstöðu má jörðin hafa með frjálsu í Brautarholtskirkjulandi Blikdal.“

Hof var landnámsjörð sem er austur af Brautarholti og skammt vestan við Grundahverfi. Þar er sagt að til forna hafi verið hálfkirkja eða bænhús. Í Jarðabók Árna og Páls segir um selstöðu Hofs; „Menn töldu að Hof hafi haft í seljum í Blikdal þar sem heita Hofssel gömlu en ekki vissu menn hvort þar hefði verið haft frítt eða nokkuð greitt til Brautarholts.“ Þá voru eigendur jarðarinnar nokkrir Sr. Vigfús Ísleifsson prestur í Skaftafellssýslu og bróðir hans Magnús Ísleifsson lögréttumaður á Höfðabrekku í Skaftafellsþingi, Hallfríður Snorradóttir ekkja, Kolbeinn Snorrason Seljatungu í Flóa.

Lykkja var tíundi partur úr jörðinni Hofi, en á Hofi er sagt að til forna hafi verið hálfkirkja eða bænhús. Um Lykkju segir: „Selstaða segja menn að hjeðan hafi brúkuð verið á Blikdal þar sem heita Hofsel gömlu, hvort frí eða fyrir toll nokkurn til Brautarholts vita menn ekki.“

Blikdalur

Sel í Blikdal.

Við vettvangskönnun sumarið 2010 fundust að því er virðist fjórar selstöður á eyri sem er um sunnan Blikdalsár um miðjan Blikdal í Brautarholtslandi. Efsta selið er greinilega það sem síðast hefur verið notað en hin eru fornleg að sjá. Handan árinnar norðan megin eru tvær sýnilegar selstöður og fylgir örnefnið Saurbæjarsel þeirri fremri sem síðast var notað frá Saurbæ. Selið er við læk uppí miðri hlíð undir Selfjalli en hin Holusel er aðeins innar í dalnum og niður við Blikdalsá, einnig við læk. Beggja vegna í dalnum eru greinilegar götur að selstöðunum.

Sjá meira um Rannsókn á seljum í Reykjavík HÉR og HÉR.

Sjá skýrsluna í heild HÉR.

Heimild:
-Margrét Björk Magnúsdóttir, Rannsókn á seljum í Reykjavík – Reykjavík 2011, Minjasafn Reykjavíkur – Skýrsla nr. 159, bls. 11-14.

Blikdalsselin

Selin í Blikdal  þjappað saman – uppdráttur ÓSÁ.

Elliðaárdalur

Í skýrslu um “Sjálfbæran Elliðaárdal – stefna Reykjavíkur – Lokaskýrsla starfshóps 31. ágúst 2016“, er m.a. fjallað um sögu og minjar í dalnum.

Á fundi borgarráðs Reykjavíkurborgar 26. mars 2015 var skipaður starfshópur um sjálfbæran Elliðaárdal. Starfshópurinn fékk það hlutverk að gera tillögur að framtíðarfyrirkomulagi og fjármögnun á umhirðu og rekstri dalsins. Við gerð skýrslunnar var rætt við fulltrúa hagsmunaaðila, hverfisráð og hollvinasamtök sem einnig skiluðu athugasemdum við skýrsluna.
Helstu niðurstöður starfshópsins eru að dalurinn verði áfram eitt af aðalútivistarsvæðum borgarinnar, að fjölbreytilegt lífríki dalsins njóti verndar og að þess verði gætt að Elliðaárnar verði áfram frjósöm laxveiðiá.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Starfshópurinn telur að jafnvægi þurfi að ríkja á milli útivistarsvæða í dalnum og íbúabyggðar. Þá séu tækifæri til að styrkja vistvænar samgöngur í dalnum.
Starfshópurinn telur að kanna þurfi  vægi og fjölda vegfarenda um svæðið til að sjá hvar áherslum þurfi að breyta eða hvar bæta þurfi aðstöðu fyrir hjólreiðamenn, gangandi vegfarendur eða hestamenn.
Elliðaárdalurinn gegnir veigamiklu hlutverki í markmiðum borgarinnar í loftslagsmálum því dalurinn er með stærri grænum svæðum í borginni. Hlúa þarf að því lífríki sem er finna í dalnum og vakta það.  Fylgjast þarf með fjölda minka og kanína og viðhalda fjölbreyttu fuglalífi.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Fjöldi tækifæra eru í Elliðaárdalurinn fyrir umhverfismennt, rannsóknir á vistkerfinu og fræðslu og skoða þarf ólíkar leiðir til þess en staðsetning dalsins í miðri borg eykur notkunarmöguleika hans til muna.
Starfshópurinn telur að vernda þurfi mannvirki sem tengjast raforkuframleiðslu og sögu hennar í dalnum en henni hefur verið hætt. Stærsta mannvirkið sem tengist raforkuframleiðslunni er Toppstöðin og leggur starfshópurinn til að annars vegar verði framkvæmd húsakönnun á byggingunni og hins vegar að unnin verði drög að fyrirkomulagi hugmyndasamkeppni um mögulega starfsemi í húsinu. Undanfarin ár hefur verið frumkvöðlasetur í húsinu en ljóst er að ráðast þarf í umfangsmiklar endurbætur á húsinu.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Það er niðurstaða hópsins að ekki sé þörf á aukinni skógrækt í dalnum og grisjunarþörf sé umtalsverð til að bæta útivistarsvæðið.
Þegar starfshópurinn horfir á aukningu meðal ferðamanna er það mat hans að þó að margir þeirra leggi ferð sína í dalinn sé hlutverk hans fyrst og fremst að vera athvarf og útivistarsvæði fyrir borgarbúa. Aðgerðir sem farið verður í til að bæta innviði dalsins miði að þörfum allra sem dalinn sækja heim.
Borgarbúum er flestum annt um Elliðaárdalinn og því telur starfshópurinn þörf fyrir  lifandi vettvang fyrir samræður og samstarf. Hópurinn leggur því til að borgin haldi utan um reglulega/árlega samráðsfundi um dalinn þar sem allir sem áhuga hafa geta hist og rætt brýn mál.
Elliðaárdalurinn er ein af útivistarperlum Reykjavíkur. Hann nýtur borgarverndar vegna sérstaks náttúrufars og möguleika til útivistar. Þar eru merkilegir sögustaðir og friðlýstar minjar. Lengd hans á milli Elliðavatns og ósa Elliðaánna er u.þ.b. 6 km og breiddin milli hálfur til einn kílómetri. Reykvíkingar fóru gjarnan í lautarferðir þangað á 19. öld, en eftir að bílar komu til sögunnar fór fólk að sækja lengra. Nú er fólk farið að gefa dalnum gaum á ný og nýtur umhverfisins þar sem aldrei fyrr. Jarðfræði dalsins er hægt að lesa í Háubökkum við Elliðavog, þar sem er að finna skýringar á skilti. Meðalrennsli Elliðaánna er 5,5 m³/sek. Áætlað er, að flóðið mikla árið 1968 hafi náð 220 m³/sek. Orkuveita Reykjavíkir (Vatnsveita) sækir vatn sitt að mestu leyti af vatnasviði Elliðaánna, u.þ.b. 0,6 m³/sek. og verður því vatnsmagn Elliðaánna að sama skapi minna.

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Gróður í dalnum er víða mikill, bæði náttúrulegur og ræktaður, a.m.k. 160 tegundir blómplantna. Skógrækt hófst líklega í dalnum upp úr 1920 með gróðursetningu reynitrjáa. Þegar hús og sumarbústaðir fóru að rísa í dalnum, kom til garðrækt. Orkuveita Reykjavíkur (Rafmagnsveita) hóf skógrækt í Árhólmanum upp úr 1950. Helztu varpfuglar í dalnum eru álftir, grágæsir, stokkendur, rauðhöfðaendur, urtendur, straumendur, duggendur, æðarfugl, toppönd, grafönd, hrossagaukar, skógarþrestir, starrar, auðnutittlingar, þúfutittlingar, steindeplar, maríuerlur, hrafnar, himbrimar, o.fl. Alls má telja 59 fuglategundir, en 31 þeirra eru fastir varpfuglar og 18 tegundir eru árvissir gestir.
ElliðaárstöðinElliðaárnar hafa löngum verið meðal beztu laxveiðiáa landsins en þar eru einnig urriði, bleikja, hornsíli og áll. Rústir þófaramyllu og litunarhúsi Innréttinganna má finna á takmörkuðu svæði í Árhólmanum undan bæjarhólnum að Ártúni. Elliðaárvirkjun var tekin í notkun árið 1921.
Rafmagnsveita Reykjavíkur hóf söfnun muna, sem tengjast sögu hennar, árið 1971. Skráning munanna hófst 1988 og þar með skipuleg söfnun.
Rafveitusafnið var formlega stofnað árið 1990 og það er skemmtilegt að heimsækja það í dalnum. Orkuveita Reykjavíkur (Hitaveita) á átta borholur í dalnum.
Á árum síðari heimsstyrjaldarinnar voru fjórir kampar í landi Ártúns, Camp Alabaster (Camp Pershing), Camp Battle, Camp Hickham, Camp Fenton Street og Camp Ártún á Ártúnshöfða. Víðivellir, athafnasvæði hestamanna, er aðallega á tveimur aðskildum svæðum ofarlega í dalnum og þriðja og elzta svæðið er við enda Bústaðavegar. Árbæjarsafnið, sem var opnað árið 1957, er hluti af Elliðaárdalnum.

Búskapur og landbúnaður

Árbær

Árbær.

Elliðaárdalur hefur verið landbúnaðarsvæði um langt skeið en getið er búskapar á bænum Ártúni á 14. öld og Árbæ á 15. öld. Á Árbæ var búskapur í minnst 500 ár. Ummerki um þennan landbúnað eru mjög áberandi enn í dag því tún eru kringum bæjarstæðin sem reyndar gáfu ekki mikið af sér og þótti harðbýlt á báðum bæjum. Dalurinn var lengi vel notaður sem úthagi þar til hann var friðaður fyrir sauðfjár- og hrossabeit á sjöunda áratug tuttugustu aldar. Í Ártúni var gisti- og veitingaþjónusta fyrir ferðafólk um langt skeið, allt fram á 19. öld. Áður en byggðin reis í Árbæjar- og Breiðholtshverfum var mikið um að leigð væru erfðafestulönd í dalnum, einkum norðan Elliðaáa undir Ártúnsholti austur að Selás. Þar reisti fólk sér sumarbústaði og önnur smáhús og eigendur stunduðu garð- og trjáyrkju.
Sumarbústaðabyggðin lagðist niður að mestu á tímabilinu frá 1960-1990 en enn standa nokkur stærri hús sem eru heilsárshús, flest á Ártúnsblettum við Rafstöðvarveg en einnig nokkur í Árbæjar- og Seláshverfum. Eru það elstu húsin á þessum slóðum. Smáhýsi eru einnig í Löngugróf sunnan Árbæjarstíflu nálægt Stekkjarbakka (Árni Hjartarson o.fl., 1998).

Aðrar söguminjar

Elliðaárbrú

Elliðaárbrú 1927.

Elliðaárdalur var í lykilhlutverki í ullarvefnaðariðnaði í Reykjavík 18. öld sem var hluti af starfsemi Innréttinga Skúla Magnússonar landfógeta. Í árhólmanum má sjá ummerki um mannvirkin er þessu tengdust en þar stóðu þófaramylla, litunarhús og sútunarverkstæði. Var vatnskraftur Elliðaánna nýttur við að þæfa og lita ullina. Þjóðleiðin frá Reykjavík lá einnig yfir Elliðaárnar neðarlega í dalnum og má finna ummerki um gömul vegstæði og vöð og var Ártúnsvað fjölfarnasta vaðið (Árni Hjartarson o.fl., 1998). Fyrstu brýr yfir Elliðaárnar voru byggðar 1883 en hafa þær verið endurnýjaðar alloft síðan þá, stækkaðar og styrktar. Í dag eru tvær brýr fyrir bílaumferð, Höfðabakkabrú frá 1981 og Breiðholtsbrautarbrú frá 1993 auk brúar fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi til móts við Árbæjarlaug.
Stríðsminjar finnast einnig í dalnum en fimm herkampar voru á túni Ártúns á heimsstyrjaldarárunum síðari og má sjá ummerki um þá í túninu við bæinn. Einn stór kampur, Camp Baldurshagi, var á Víðidalssvæðinu en lítil ummerki eru þar eftir í dag.
Ekkert er minnst á veru Arnesar útilegumanns, veru hans í dalnum og fylgsni hans í Árhólmum.

Raforkuframleiðsla

Elliðaárdalur

Elliðaárrafstöðin.

Rafstöðin við Elliðaár var tekin í notkun sumarið 1921 og var raforkan framleidd með tveimur vélum og flutt eftir háspennuraflínu að aðveitustöð á Skólavörðuholti. Var raforkan fyrst og fremst notuð fyrir lýsingu í Reykjavík. Helstu mannvirki er tengjast raforkuframleiðslunni eru stíflurnar tvær, Árbæjarstífla sem var fullgerð árið 1929 og Elliðavatnsstífla sem var reist á árunum 1924-8 og endurgerð 1978, rafstöðvarhúsið sjálft ásamt fallstokknum sem liggur frá Árbæjarstíflu niður í rafstöðina auk nálægra húsa er tengjast starfseminni. Stærsta byggingin er þó Toppstöðin sem var
vara- og álagsstöð fyrir meginrafstöðina og tók til starfa 1948. Hlutverki hennar lauk á áttunda áratugnum og hýsir húsið nú frumkvöðlasetur. Eftir að pípan í fallstokknum rofnaði árið 2013 hefur
ekki verið virk raforkuframleiðsla í Elliðaárvirkjun (www.or.is)

Skógrækt

Elliðaárdalur

Í Elliðaárdal.

Skógrækt hefur sett mikinn svip á Elliðaárdalssvæðið. Á 30 ára afmæli Rafmagnsveitu Reykjavíkur árið 1951 var hafin skógrækt í Elliðaárhólma og var gróðursett þar árlega til um 1970. Í Sveinbjarnarlundi í Ártúnsholti eru enn eldri grenitré eða frá 1937 sem í dag eru talin hæstu grenitré á Íslandi eða um 20 metra há. Skógræktarfélag Reykjavíkur stundaði einnig skógrækt í Elliðaárdalnum um alllangt skeið í samstarfi við Vinnuskóla Reykjavíkur, t.d. í Breiðholtshvarfi (Árni Hjartarson o.fl., 1998). Mikill vöxtur hefur verið á plöntuðum trjágróðri þar síðustu misseri og víða finnst þéttur skógur og há tré.
Starfsmenn Reykjavíkurborgar sinna nú grisjun í skóginum.

Ísaldaminjar

Elliðaárdalur

Blesaþúfa framundan. Meðfylgjandi texti á á skiltinu vinstra megin á myndinni.

Í Elliðaárdal er nokkuð mikið af setmyndunum jökla frá lokum ísaldar, en henni lauk fyrir um 10 þúsund árum. Þá hófu jöklar að hörfa af Bláfjallahálendinu og Hengilssvæðinu þar sem skriðjökullinn, sem lá yfir Elliðaárdal, átti upptök sín.

Elliðaárdalur

Elliðaá og Blesaþúfa framundan.

Á þessum tíma hafði þykkur jökulísinn myndað mikið farg sem olli því að land þrýstist niður um tugi metra. Þegar jökullinn hörfaði varð sjávarstaða til skamms tíma mun hærri en þekkt er í dag. Við árósa og annars staðar, þar sem mikill framburður lausra efna frá bráðnandi jöklinum hlóðst upp, mynduðust malarhjallar og setfyllur.

Í Elliðaárdal má finna minjar um hærri sjávarstöðu frá ísaldarlokum, sem myndanir tengdar henni og frárennsli bránandi jökuls. Á þessum tíma mynduðust sandfjörur og sandeyrar sem teygðu sig út með Blesugróf og Árbæjarhverfi.
Þessar myndanir sem nefndar eru strandhjallar og óseyrar, benda til að sjávarmál hafi verið um 40 m hærra en nú er. Glöggt dæmi um fornar strandlínur má t.d. finna innan við Ártún. Á þessum tíma voru Elliðaár beljandi jökulfljót, en ekki kyrrlátar kindár eins og nú er.
Blesaþúfa er dæmigerðar leifar af fornri óseyri.

Heimildir:
-https://www.nat.is/travelguide/ahugav_st_ellidaardalur.htm
-Sjálfbær Elliðaárdalur – stefna Reykjavíkur – Lokaskýrsla starfshóps 31. ágúst 2016.

Elliðaárdalur

Skötutjörn.

Lækjargata

Grjóthleðsla og torf, sem fannst við framkvæmdir nýs hótels á lóð Íslandsbanka við Lækjargötu, er talið vera ummerki eftir torfbæinn Lækjarkot sem byggður var árið 1799 og var fyrsta íbúðar­húsið sem reist var á þessum slóðum.

Lækjarkot

Uppgraftarsvæðið við Lækjargötu.

Bærinn á sér merka sögu, af honum eru til teikningar og málverk frá fyrri árum og Kristján konungur IX. kom þar inn í Íslandsheimsókn sinni 1874, að því er fram kemur í umfjöllun um uppgröft þennan í Morgunblaðinu.
Sýni voru tekin á svæðinu og eru þau nú til rannsóknar hjá Fornleifastofnun. Sé um bæinn að ræða, er líklegt að svæðið verði rannsakað og grafið upp, að mati Lísabetar Guðmundsdóttur, fornleifafræðings hjá Fornleifastofnun Íslands.

Fornleifagröftur við hornið á Lækjargötu og Vonarstræti, sem hófst í maí síðastliðnum vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar, hefur leitt í ljós það sem virðist vera skálabygging frá tímum landnáms. Lísabet Guðmundsdóttir fornleifafræðingur, sem stýrir uppgreftrinum, segir þennan fund breyta miklu um það sem við töldum okkur vita um byggðasögu Reykjavíkur.

„Við höfum náttúrulega vitað um þessa elstu byggð í Reykjavík þar sem Aðalstrætið er,“ segir Lísabet, en þær bæjarrústir komu í ljós við uppgröft á áttunda áratugnum. „Við töldum okkur vita að aðalbyggðakjarninn hafi verið á því svæði, en okkur bara datt ekki í hug að það væri eitthvað þarna við Lækjargötuna. Og það var eiginlega það sem var svolítið skemmtilegt.“

Lækjarkot.Áfram var grafið í sólinni í dag.Vísir/Andri MarinóUppgröfturinn átti upphaflega að taka um fjórar vikur en sú áætlun breyttist skiljanlega þegar skálinn fannst í síðasta mánuði. Fyrir var vitað að bærinn Lækjarkot, sem byggður var árið 1799, hafði staðið á lóðinni, sem og timburhús sem reist var árið 1887.

„Þegar við vorum búin að klára að grafa þær byggingar upp, þá var náttúrulega slatti eftir,“ segir Lísabet. „Það var með svona ofsalega flottu landnámstorfi í veggjum, þannig að það virtist vera frekar gamalt. Við erum náttúrulega ekki komin með aldurinn á hreint ennþá,en það kemur bara þegar við förum í úrvinnsluna.“

Lísabet segist búast við því að uppgröfturinn muni standa yfir í um tvær til þrjár vikur til viðbótar. Hún telur ekki líkur á að áform um hótelbyggingu raskist nokkuð vegna fundarins en segir viðræður þegar hafnar við framkvæmdaraðila um varðveislu grjóts, hellna og varðeldar úr skálanum.

Heimildir:
-https://www.mbl.is/frettir/innlent/2015/05/06/merkur_baer_ur_felum_vid_laekjargotu/
-https://www.visir.is/g/2015314513d
-http://www.torfbaeir.com/Tomthus/T-Laekjarkot.html

Lækjarkot

Mynd Jóns Helgarsonar af Reykjavík árið 1836, trúlega máluð nálægt 1890. Lækjarkot sést lengst til vinstri á myndinni suðaustan við Dómkirkjuna. Efst á myndinni má sjá Hlíðarhús og torfbæi i Grjótaþorpi og við Vesturgötu. Lækjarkot var reist árið 1799 austast á Austuvelli. Runólfur forstjóri Innréttinganna bjó þar en drukknaði í Tjörninni 1811 “aðeins mjög lítið drukkinn” samkvæmt annálum. Meðal seinni ábúenda má nefna Þórð malakoff, sem var um margt sérkennilegur og bjó þar um 1870. Bærinn var rifinn árið 1887. Bærinn stóð þar sem nú er Lækjargata 10a sem er óbyggð lóð í dag. Fornleifauppgröftur árið 2015 sýndi ekki aðeins merki um bæinn Lækjarkot heldur einnig áður ókunnan landsnámsbæ.

Örfirisey

Garðar Svavarsson skrifar um örnefnið “Reykjanes” í Morgunblaðið 16. apríl 2006 undir fyrirsögninni “Nafngjafi Reykjavíkur”:

“Nafnið Reykjavík er okkur tamt í munni, en sjaldnast leiðum við hugann að því af hverju það er dregið. Hér verður fjallað um uppruna og sögu örnefnisins.
Á norðurenda Örfiriseyjar handan olíustöðvar er örnefnið Reykjanes. Fleiri staðir á landinu bera þetta nafn og má þar nefna Reykjanes á Suðurnesjum, í Reykhólasveit og við Ísafjarðardjúp. Á þessum þremur síðasttöldu stöðum er jarðhiti, laugar eða hverir, og myndarleg nes svo augljóst er af hverju staðirnir draga nafn sitt. Hvorugu er til að dreifa í Örfirisey, þar er enginn jarðhiti og varla er hægt að kalla lítið klapparnef nes.

Örfirisey„Norðvestur í Effersey er nes, er kallað hefur verið Reykjanes, og er það gamalla manna sögn að þar hafi verið laug, sem sjór er nú genginn yfir. Ekkert kannast samt elztu núlifandi Reykvíkingar við þá sögn.“ (Örfirisey var alla jafnan kölluð Effersey fram undir miðja síðustu öld). Þótt Klemensi tækist ekki að finna neinn sem gæti staðfest sögnina um jarðhita í eyjunni hafnaði hann ekki þeim möguleika að þar hefðu verið heitar laugar við landnám. Hins vegar átti eftir að kom í ljós að einn úr flokki aldraðra Reykvíkinga vissi af eigin reynd hvar jarðhita var að finna í Örfirisey.

Í bók Þórbergs Þórbergssonar, rithöfundar, Frásagnir, sem kom út árið 1972, fjallar hann m.a. um Örfirisey, Grandann og Hólmann. Helsti viðmælandi hans í Reykjavíkurhluta bókarinnar var Ólafur Jónsson fiskimatsmaður. Ólafur var fæddur 1856 í Hlíðarhúsum, en það var húsaþyrping neðarlega við Vesturgötuna, og ól hann allan sinn aldur í Reykjavík. Hann var lengstum sjómaður eins og faðir hans og stundaði sjóinn frá Reykjavík og víðar. Þórbergur getur þess sérstaklega að þeir Ólafur hafi farið út í Örfirisey 30. mars 1935 til að skoða þá staði, sem Ólafur hafði nefnt í viðtölunum. Um Reykjanes farast honum svo orð í frásögn Þórbergs: „Í norðnorðvestur frá norðvesturhorni Örfiriseyjar eru tvö sker, annað nær eyjunni, hitt fjær. Út í þau má ganga um stórstraumsfjöru. Þau voru í mínu ungdæmi kölluð Reykjarnes. Nokkurn spöl fyrir austan sker þessi, hér um bil mitt á milli þeirra og Hásteina og þar úti sem þarinn er þykkastur, var dálítil flöt flúð, sem var upp úr sjó um stórstraumsfjöru. Í flúðinni var glufa um hálf fingurhæð að breidd. Upp úr þessari glufu rauk um stórstraumsfjörur framan af ævi minni.“ (bls. 151).

Reykjanes

Reykjanes við Reykjavík.

Þetta er óneitanlega skilmerkileg frásögn og engin ástæða er til að draga hana í efa enda Ólafur margoft búinn að sýna í viðtölum um önnur efni að hann hafði traust og gott minni. Það er athyglisvert að hann kallar fjöruna á þessum stað með skerjunum tveim Reykjarnes, en á öðrum stað í frásögninni um Örfirisey og Hólmann segir: „Það er engum efa bundið, að land allt hefur sigið hér mjög í sjó á síðari öldum. Einhvern tíma hefur Hólminn verið allstór eyja grasi vaxin, og þar sem Vesturgrandi og Örfiriseyjargrandi stóðu aðeins upp úr sjó um fjöru sem nakin malarrif, þar hafi fyrr á tímum verið grasi gróin eiði, sem hafi verið ofansjávar jafnvel í mestu stórstrauma.“ (bls.150).
Þessi lýsing hér að ofan um landsig og meðfylgjandi landbrot á að sjálfsögðu við um Örfirisey alla og þar með talið fjöruna sem nefnd var Reykjanes. Nú er vitað að land hefur sigið hér á Reykjavíkursvæðinu í mörg þúsund ár og telja fræðimenn á þessu sviði að land sé nú að minnsta kosti 2 m lægra en við upphaf landnáms. Þetta mikla landsig hefur valdið gríðarlegum breytingum á landi við
sjávarsíðuna. Klemens Jónsson ýjar að þessu í Sögu Reykjavíkur þegar hann segir að líklega hafi Effersey verið landföst við landnám. Nú er eyjan land umflotið vatni og því er landföst eyja ekki til frá náttúrunnar hendi. Hafi Örfirisey verið landföst við landnám hefur því verið um að ræða tanga eða nes, en ekki eyju.

Í Landnámu segir að Ingólfur Arnarson hafi komið hingað til lands tveimur til þremur árum áður en hann settist hér að. Vafalaust hefur hann verið að kanna hvort landið væri gott til búsetu og finna heppilegan stað til landnáms. Skip landnámsmanna, knerrirnir, voru ekki stór og því ljóst að ekki var hægt að flytja búpening til landsins nema í mjög smáum stíl. Því varð að treysta á veiðar fyrstu árin eða jafnvel í áratugi meðan bústofninn var að eflast. Ingólfur finnur staðinn sem hann leitaði að í Reykjavík og er nú best að vitna í orð Björns Þorsteinssonar í Íslenskri miðaldasögu: „– því að þar var allt að hafa sem hugur hans girntist: höfn, eyjagagn, veiðivötn og laxá, landrými og jarðhiti. Í rauninni jafnaðist hér enginn staður á við Reykjavík að fjölþættum náttúrugæðum.“ (bls. 27).

Örfirisey

Örfirisey – Reykjanes.

Þegar Ingólfur og áhöfn hans sigla skipi sínu inn í mynni Kollafjarðar, væntanlega fyrstir manna, blasa við þeim eyjar, sund og vogar og er ekki ósennilegt að þetta land hafi minnt þá á heimahagana í Vestur-Noregi. En eitt hefur þó ugglaust vakið sérstaka athygli þeirra og furðu. Upp af litlu nesi, sem teygði sig til norðurs frá meginlandinu, steig hvítur reykur til lofts, náttúrufyrirbæri sem þeir hafa tæpast séð áður. Nafnið á staðnum var sjálfgefið, Reykjanes. Víkin innan við nesið, sem er vel afmörkuð milli Reykjaness og Arnarhólstanga, hlaut einnig að draga nafn af hvernum á nesinu og kallast síðan Reykjavík.
Með fullri virðingu fyrir Þvottalaugunum er vægast sagt hæpið að Reykjavík dragi nafn sitt af þeim. Bæði er að Þvottalaugarnar eru í nokkurra kílómetra fjarlægð frá víkinni og leiti ber í milli svo að reykurinn frá þeim sást tæpast af hafi eða í víkinni nema við sérstök veðurskilyrði.

Örfirisey

Mynd SE tekin frá Skólavörðuholti um 1900.

En mótun landsins hélt áfram eins og hún hafði gert frá örófi alda. Á hverju ári nagaði sjórinn smáspildu af nesinu og þar kom að útsynningsbrimið braut sér leið gegnum nesið þar sem það var mjóst og Reykjanesið varð að eyju. Hvenær þetta átti sér stað veit enginn, en vafalaust var það nokkrum öldum eftir landnám. Vera má að þetta hafi átt sér stað í stórflóði sambærilegu við Básendaflóðið 1799, en þá gekk sjór yfir alla Örfirisey og lagðist þar af búseta um tíma. Þessar breytingar voru löngu um garð gengnar í upphafi átjándu aldar en í Jarðabókinni frá 1703 er eftirfarandi umsögn um býlið Erfersey: „Vatnsból í lakasta máta, þrýtur bæði sumar og vetur og þarf þá til lands á skipum að sækja eður sæta sjáfarfalli að þurt megi gánga um fjörurif það, sem kallað er Grandi.“ (Þriðja bindi, bls. 255).
Í þessari lýsingu er komin til sögunar eyja og grandi, en nes er ekki nefnt. Á þessum tíma er Geldinganes í líkri stöðu landfræðilega og Örfirisey, þ.e. eyja tengd við land með eiði sem sjór féll yfir á flóði, en þrátt fyrir það breytist nes ekki í eyju. Hvað veldur því að nafnið Reykjanes þokar til hliðar, en nafnið Örfirisey kemur í staðinn. Gæti verið að lausnar gátunnar væri að leita í nafni annarrar eyjar lítið eitt vestar?

Örfirisey

Örfirisey – loftmynd.

Akurey er yst eyja á Kollafirði og nafnið er vafalítið dregið af akuryrkju í eyjunni. Það er augljóst að þetta nafn fær eyjan löngu eftir landnám því að þó að akuryrkja hafi verið stunduð af landnámsmönnum frá upphafi hafa akrar verið nærri bæjum meðan þar var nægilegt landrými, en ekki í úteyjum. Einnig hefur Reykjanes verið góður kostur því að auðvelt var að girða nesið af og hindra þannig ágang búfjár. Var þá eyjan nafnlaus, jafnvel um aldir? Það er ákaflega ólíklegt því að eyjan er á þeim stað þar sem skip og bátar voru mikið á ferðinni eða við fiskveiðar og því brýn nauðsyn að kennileitum væri gefin nöfn. Leitum nú enn á ný í bókina Frásagnir. Steingrímur Steingrímsson frá Klöpp var einn af viðmælendum Þórbergs. Honum segist svo frá: „að Níels á Klöpp hafi sagt sér, að í hans ungdæmi hafði verið hægt að vaða úr Hólmanum og út í Akurey um stórstreymsfjörur, og hefði sjór þar ekki verið dýpri en svo, að komast hefði mátt þurrt í skinnbrók. En nú er þar óvætt dýpi um stærstu fjörur.“ (bls. 150).
Örfirisey
Það er til önnur heimild um þetta eiði eða granda milli Hólmans og Akureyjar. Í Sögu Reykjavíkur 870–1870, fyrra bindi, er birt mynd á blaðsíðu 62 af elsta korti sem til er af Reykjavík. Þetta kort er frá 1715 og nær yfir ytri hluta Kollafjarðar, suðurströnd Kjalarness og Seltjarnarnes vestan Laugarness. Örfirisey með verslunarhúsunum er á kortinu miðju og landtengingin, þ.e. Grandinn, sést greinilega. Sama má segja um grandann út í Hólmann, hann kemur skýrt fram, en það athyglisverða er að hann endar ekki í Hólmanum heldur liggur áfram út í Akurey. Mjög líklegt er að í upphafi átjándu aldar, þ.e á þeim tíma sem kortið er teiknað, hafi aðeins verið hægt að ganga þurrum fótum út í Akurey á stærstu fjörum. Við landnám hefur Akurey hins vegar verið í líkri stöðu landfræðilega og Örfirisey var mörg hundruð árum síðar, þ.e. eyja tengd við land með granda sem var ávallt á þurru um fjöru. Það fólk sem hér settist að við upphaf byggðar hefur líklega þekkt áþekk náttúrufyrirbæri frá fyrri heimkynnum sínum og gefur eyjunni því nafn við hæfi. Það nafn var sennilega Örfirisey.
Þegar Reykjanes breytist í eyju við landbrot eru eyjarnar orðnar tvær með áþekk náttúruleg einkenni, nánast hlið við hlið. Smám saman fer fólk að kenna ytri eyjuna við þá starfsemi sem þar er stunduð, þ.e. akuryrkju.
Örfiriseyjarnafnið flyst hins vegar yfir á Reykjanesið og ryður gamla nafninu út á norðurenda eyjarinnar þar sem það situr enn án staðfestu í landslagi. Þessi nafnasaga er að sjálfsögðu getgátur, en vert er að benda á að örnefnaflakk er ekki óþekkt hér á landi.

Örfirisey

Örfirisey 1958.

Nú eru liðnir rúmir sjö áratugir síðan Þórbergur og Ólafur gengu um Örfirisey og rifjuðu upp örnefni á og í nágrenni eyjunnar. Á þeim tíma var eyjan að mestu eins og náttúran hafði mótað hana, en nú er fátt sem minnir á Örfirisey þess tíma. Þó má enn finna staði sem Þórbergur fjallar um, svo sem klappirnar á norðurenda eyjunnar með gömlum áletrunum. Vestasti hluti klappanna er í raun norðvesturhorn hinnar eiginlegu Örfiriseyjar og sé horft þaðan í norðnorðvestur má á fjöru greina tvö sker, annað nær eyjunni, hitt fjær. Þessi sker kallaði Ólafur frá Hlíðarhúsum, Reykjanes. Lítið eitt austar í fjörunni, þar sem þarinn er þykkastur, leynist lítil flöt flúð með glufu sem er um hálf fingurhæð að breidd. Þetta eru síðustu leifar hversins sem gaf tveim stöðum nafn. Annað nafnið, Reykjanes, er nú að mestu gleymt, en hitt nafnið, Reykjavík, hefur farið víðar en nokkurt annað staðarnafn íslenskt.
Nafnið Reykjavík er okkur tamt í munni, en sjaldnast leiðum við hugann að því af hverju það er dregið.”

Emil Hannes Valgeirsson bloggaði um örnefnið “Reykjarvík”:

“Það er dálítið sérstakt að lögheimili fyrsta landnámsmannsins hafi verið akkúrat á þeim stað þar sem höfuðborg landsins stendur í dag. En hvar var hún þessi Reykjarvík sem sá merki maður á að hafa byggt sér ból? Og þá meina ég Reykjarvík með erri eins og staðurinn er nefndur í Íslendingabók. Ýmist er talið að um sé að ræða víkina sem afmarkast af Örfirisey og Laugarnestanga eða víkina þar sem gamla höfnin er. En kannski er þriðji möguleikinn til staðar?

Örfirisey

Örfirisey 1960.

Á þeim rúmu 1100 árum sem liðin eru síðan Ingólfur Arnarson var og hét hafa orðið miklar breytingar á landsháttum á strandlengjunni hér við sundin blá vegna ágangs sjávar en ekki síður vegna þess að hér suðvestanlands er landið stöðugt að síga vegna nálægðarinnar við gosbelti Reykjanesskagans. Talið er að þetta landsig gæti hafa verið allt að tveimur metrum frá landnámi og strandlengjan því á stórum svæðum allt önnur en hún er í dag, eyjar og sker hafa sokkið í sæ og nes hafa orðið af eyjum.

Á ljósmynd Sigfúsar Eymundssonar, sem tekin er frá Skólavörðuholtinu árið 1877, sést hvernig aðstæður voru þarna fyrir 132 árum. Örfirisey er tengd landi með mjóum granda og annar grandi liggur frá honum í sveigju að skerjum sem ná langleiðina að Akurey en í sameiningu má sjá út úr þessu vísi að stórri skeifu. Í dag eru skerin við Akurey ekki nema svipur hjá sjón, eru oftar en ekki í kafi og tengjast ekki landi nema kannski í mestu stórstraumsfjörum. Uppfyllingar hafa svo að sjálfsögðu gerbreytt stöðu Örfiriseyjar sem er í dag ekkert annað en nes, eins og það hefur væntanlega verið fyrr á tímum.

Örfirisey

Örfirisey 1970.

Ef landshættir hafa verið einhvern vegin svona á tímum Ingólfs Arnarsonar, sést að þarna hefur verið allstórt nes eða tangi sem hefur náð alla leið út í Akurey. Þarna hef ég merkt inn bláan punkt sem merkir hverasvæði en nokkuð víst þykir að þarna hafi verið heit laug eða hverasvæði sem í dag er sokkið í sæ. Ysti hluti Örfiriseyjar er reyndar enn í dag kallaður Reykjarnes. Sennilega hefur allt þetta nes sem Örfirisey tilheyrir í dag, verið kallað Reykjarnes og miðað við sjávarstöðu nú, er líklegt að lítil vík hafi gengið inn í landið þarna rétt vestur af hverasvæðinu og ef einhver hefur viljað kalla þá vík eitthvað hlýtur nafnið Reykjarvík óneitanlega að koma upp í hugann.

Reykjarvík. Sú hugmynd að nafnið á höfuðborg landsins sé dregið af lítilli vík sem fyrir löngu er sokkin í sæ er ekki endilega minn eigin hugarburður. Mig rámar nefnilega í að hafa lesið um þetta í Lesbókinni fyrir einhverjum árum en hef þó ekki fundið þá grein aftur. Örnefnið eða bæjarnafnið Reykjavík virðist ekki hafa verið verið notað öldum saman því landnámsjörðin var lengst af kölluð „Vík“ á Seltjarnarnesi en það heiti er dregið af Seltjörn við Gróttu sem hefur staðið fyrir opnu hafi frá því Básendaflóðið gekk þar yfir 1799. Það var ekki fyrr en þéttbýli fór að myndast í kvosinni að staðurinn fékk nafnið Reykjavík. Þar hafa fundist elstu mannvistarleifar hér á landi og því kemur einnig vel til greina að Reykjarvík sé einfaldlega bara víkin þar sem gamla höfnin er nú, eins og gjarnan er talað um.

Örfirisey

Örfirisey 1985.

Hugmyndin sem ég minntist á hér fyrr um að Reykjavíkin afmarkist af Örfirisey og Laugarnestanga hefur sennilega orðið til vegna heitu lauganna í Laugardal enda inniheldur sú stóra vík tvö reykjasvæði. Mér finnst þó sú vík vera full víðáttumikil, þar að auki er Laugardalur hvergi sjáanlegur frá kvosinni og í nokkurra kílómetra fjarlægð. Hverasvæðið á Reykjarnesi hefur örugglega þótt alveg nógu merkilegt eitt og sér til að nota í örnefni og ef Reykjarvík hefur verið skrifað með erri hlýtur það að vísa í einn ákveðinn reyk, en ekki fleiri.

Að lokum má svo benda á að þótt örnefnið Örfirisey hafi verið til frá fyrstu tíð, er ekki víst að það nafn hafi alltaf átt við sama stað og í dag. Það er nefnilega vel þekkt að þar sem landshættir eru stöðugt að breytast geta örnefni farið á flakk og aðlagast nýju landslagi eins og gæti verið raunin með Reykjarvíkina”.

Heimild:
-Morgunblaðið 16. apríl 2006; Garðar Svavarsson, Nafngjafi Reykjavíkur, bls. 22.
-https://emilhannes.blog.is/blog/emilhannes/entry/883564/

Örfirisey

Örfirisey – Reykjanes framar.

Heiðmörk

Sigurður málari Guðmundsson kom fyrstur fram með hugmyndina um friðun Heiðmerkur árið 1870. Hann taldi nauðsynlegt að Reykvíkingar gætu notið útivistar í geðfelldu umhverfi í nágrenni bæjarins. En góðir hlutir gerast hægt – nú sem fyrrum.
Upplýsingaskilti í Heiðmörk - saga og tilurðÞað var þó ekki fyrr en 1936 að Hákon Bjarnason skógræktarstjóri kynnti hugmyndina opinberlega, en hann taldi svæðið ákjósanlegt til útivistar fyrir almenning. Árið 1946 var Skógræktarfélag Reykjavíkur stofnað og fékk þá svæðið í vöggugjöf. Heiðmörk var friðuð í nokkrum áföngum á árunum 1950-1958 frá Elliðavatni að Vífilsstaðahlíð. Nú er Heiðmerkursvæðið rúmir 3000 ha. að stærð, að Rauðhólum, en þeir voru friðlýstir árið 1961. Þann 25. júní 1950 var Heiðmörk vígð, en þá gróðursetti Gunnar Thoroddsen borgarstjóri, greniplöntu á Vígsluflöt.
Fyrsta gróðursetningin fór þó fram vorið 1949 þegar starfsmenn Skógræktarfélagsins gróðursettu 5000 greniplöntur í svæði sem nú heitir Undanfari. Árangur skógræktarstarfsins er greinilegur og vex nú upp á 800 ha. Svæði með yfir 60 tegundum trjá og runna. Nokkur trjánna hafa náð 20 m hæð. Mikil tilraunastarfsemi með mismunandi trjátegundum og ræktunaraðferðum hefur farið fram undanfarna áratugi en nú er aðallega gróðursett sitkagreni, stafafura og birki. Starfsmenn Skógræktarfélags Reykjavíkur, landnemafélög og vinnuhópar Vinnuskóla Reykjavíkur og Landsvikjunar hafa séð um gróðursetninguna. Nú hafa verið gróðursetta yfir 5 milljón plöntur í svæðið.
Upplýsingar á vefsíðu HeiðmerkurEn aðdragandinn var kannski ekki eins auðveldur og virðist skv. framangreindu. Náttúruvernd og markviss nýting umhverfisins hefur jafnan verið að frumkvæði fárra er séð hafa tilganginn umfram aðra. Þegar skilningurinn verður öðrum augljós skapast þó jafnan grundvöllur fyrir jákvæðari þróun þessa til lengri framtíðar.
Sigurður Nordal skrifaði grein í Lesbók MBL 11. maí 1941 sem hafði fyrirsögnina HEIÐMÖRK. Um var að ræða erindi sem hann hafði flutt á útvarpskvöldi Skógræktarfjelagsins 2. maí s.á. Erindið var síðar gefið út í safnriti Sigurðar, List og lífsskoðun, 3. bindi, bls. 317-323. Af þessu tilefni sagði Sigurður m.a.: “Til ills fórum vér um góð héruð, er vér skulum byggja útnes þetta” – er í Landnámu haft eftir Karla, þræli Ingólfs Arnarssonar, þegar fyrst var numið hér land. Mörgum manni, sem fer um aðalþjóðveginn til Reykjavíkur, austan yfir Fjall, mun koma eitthvað svipað til hugar. Það eru mikil umskipti að láta að baki sér hið grösuga víðlendi þar eystra og fara um Svínahraun og Sandskeið. Og svo má heita, að því nær sem dregur höfuðstaðnum, þegar komið er niður á Árbæjarmela og yfir Elliðaár, því óyndislegri verði þessi leið frá náttúrunnar hendi, mýrar og hrjóstug holt á víxl. Að vísu er margvíslega fegurð að sjá úr Reykjavík og í nánd við hana… Raun ber því líka vitni, að næsta nágrennið laðar ekki bæjarbúa til sín.
Nýlegar framkvæmdir í Heiðmörk - ólíkt því er áður hafst var aðÞað getur vakið hreinustu furðu að ganga á fögrum sunnudegi, hvort sem er um vetur eða sumar, út á Seltjarnarnes, inn með Viðeyjarsundum eða suður í Fossvog. Á þessum leiðum er oftast örfátt fólk á gangi, líkt og í grennd við ofurlítið þorp. Hvar eru tugir þúsundanna, sem kúldrazt hafa sex daga vikunnar við vinnu sína í bænum, innan húss og utan, og nú ættu að leita frá göturykinu, kolareyknum og húsaþvögunni, draga að sjer hreint loft, liðka sig, styrkja og hressa með eðlilegri hreyfingu, njóta fegurðar lofts, láðs og lagar? Hvar er allt fólkið?
Nú skulum við hugsa okkur, að göngumaðurinn leggi leið sína dálítið lengra frá bænum, upp á Vatnsendahæð, suður með Hjöllum, upp á Búrfell, Helgafell, upp í Grindaskörð. Þar er hægt að vera á ferð heila sunnudaga, í dásamlegasta veðri, án þess að sjá nokkura tvífætta skepnu á sveimi.
Eg hef einstöku sinnum tekið með mér kunningja mína, sem bornir og barnfæddir eru í Reykjavík, um þessar slóðir… – alveg gagntekinn af því að horfa yfir þetta land, eyðilegt að vísu, en með svo undarlega heiðan og sterkan svip í einfaldleika sínum. Það var ekkert annað en mjúkar, boðamyndaðara línur langra ása, einstöku lítil vötn, fáein fell, sem tóðu upp úr, og fjallasveigurinn frá Vífilsfelli til Keilis eins og skjólgarður um þessa friðarsýn. Mér fannst þá í svip, að þeta væri fegursta útsýni, sem eg ef séð. Það hafði áhrif á mig með einhvers konar persónulegum mætti, tilhaldslaust, alvarlegt, sefandi og styrkjandi í senn. Eg hafði ekkert af því skoðað, nema það sem séð varð frá þjóðveginum.
Nokkrum árum síðar, þegar eg kom heim til langdvalar í Reykjavík, byrjaði eg að kynnast því. Það voru ekki ferðalög, sem í frásögur eru færandi; sunnudagsgöngur með nestispoka á baki upp að Gvendarbrunnum, suður í Kaldársel, smám saman til nýrra og nýrra staða, sem náð varð til með því að ganga alla leið, fram og aftur, á einum degi. Þær kostuðu ekkert annað en skóslitið, og þær heimtuðu ekki önnur afrek en að taka hvorn fótinn fram fyrir annan. Eg er enginn göngugarpur, liðónýtur að klífa fjöll, hef aldrei lagt í að ganga upp á Esju, kann ekkert til þess að fara í öræfaferðir né útilegur. Mér dettur ekki í hug að efast um, að þeir menn, sem hafa dug og tækifæri til þess að ferðast um hálendi Íslands og liggja þar við, finni þar enn meiri hressingu, eflingu og æfintýri.
Þjóðhátíðarlundurinn frá 1974 illa farinn - afkomendur virðast bera takmarkaða virðingu fyrir frumkvöðlastarfinuVið skulum ganga fyrir vesturenda Elliðavatns, fram hjá beitarhúsunum og suðaustur yfir ásana. Allt í einu komum við niður í langan og mjóan dal, sem liggur til suðurs. Vestan megin er klettabelti með dálitlu skógarkjarri. Það eru Hjallarnir. Dalbotninn er víðast eggléttar grundir, aflíðandi móaflesjur að austan. Þarna er fjallaloft og fjallró, svo að ótrúlegt má þykja, að við séum ekki nema rúma 10 kílómetra frá borginni. Við göngum með Hjöllunum, beina leið að Gjáarrétt. Þar er einkennilegt um að litast, stór hellir, djúpar hraunsprungur, ein þeirra með vatnsbóli í botni og þrep gerð niður að því. Við höldum upp eftir Gjánni, sem hefur myndazt við að hraunstraumur hefur runnið þar fram, jaðrarnir storknað, en bráðin hraunleðjan í miðjunni skilið eftir auðan farveg. Gjáin er undrasmíð, með íhvolfum skjöldum beggja vegna, sem væru þing að að hafa bak við ræðupall í samkomuhúsi. Þegar hærra dregur, þrengist hún  og grynnist. Hraunsteinarnir verða rauðir, víða með víravirki af steinþráðum, eins og þeir væru nýstorkanðir. Og allt í einu sjáum við niður í stóran eldgíg, sem tæmt hefur allt hraunið úr sér niður Gjána. Hann heitir Búrfell.”
Þá fjallar Sigurður um næsta nágrenni, s.s. Kaldársel, Vatnsenda, Gvendarbrunna, Vífilsstaðahlíð, Húsfell, Helgafell og svæðið ofan Hafnarfjarðar.
Upplýsingar um Þjóðhátíðarlundinn - 1974“Ástæðan til þess, að eg hef gert þessar stöðvar að umtalsefni, er fyrirætlun Skógræktarfjelagsins að fá þær girtar og friðaðar. Það er tvennt, sem fyrir forystumönnum félagsins vakir; að klæða þetta landssvæði smám saman fjölbreyttum skógargróðri, ferga það og prýða, að laða fólkið af mölinni til þess að leita þar athvarfs og hressingar. Maggi Magnús yfirlæknir skrifaði hugvekju í Morgunblaðið, er hann nefndi Sumarland Reykvíkinga. Og Hákon Bjarnason skógræktarstjóri mun síðar í kvöld gera nánari grein fyrir málinu. Þetta er fyrirætlun sem á skilið óskiptan stuðning Reykvíkinga, bæði bæjarfélags og einstaklinga, og æskilegast væri, að nágrannabæirnir tveir, [Kópavogur] og Hafnarfjörður, tækju höndum saman að framkvæma hana af stórhug og myndarskap.
Þessum þjóðgarði þarf að velja nafn, sem honum í senn sæmir vel og minnir á takmark hans og tilgang. Eg vil stinga upp á því, að hann verði kallaður Heiðmörk. Heiðmörk er fornt heiti á einu fylkinu á Upplöndum í Noregi. Mörk er skógur. Allir finna, hversu vel það fer í nöfnum eins og Þórsmörk og Þelamörk. Í því er fólginn draumur voru um að klæða landið aftur íturvöxnum trjágróðri. Heiður er bjartur, og Heimörk; hið bjarta skóglendi. – er heiti, sem vel mun fara þessu friðsæla landi með tæru lofti og litum.
Heiðmörk á að verða okkar sólskinsblettur í heiði í réttri merkinu; þar eigum við að njóta heiðríku lands og lofts betur en unnt er að gera á götum bæjanna, heiðríkju hugans, heiðríkju einverunnar.”

(Sjá Heiðmörk – kort).

Heimildir m.a.:
-Sigurður Nordal, safnritið List og lífsskoðun, 3. bindi, bls. 317-323.
-Lesbók MBL. 11. maí 1941, bls. 161-163.
-Skilti við Helluvatn í Heiðmörk – Saga Heiðmerkur.

Heiðmörk

Fjárborg í Heiðmörk.