Flagghúsið

Nú (júlí 2005) er verið að endurbyggja Flaghúsið svonefnda í Grindavík.
Flagghúsið er eitt elsta hús Grindavíkur, talið vera byggt árið 1890. Erling Einarsson í EP verk h/f, eigandi hússins, áformar að koma húsinu í upprunalegt horf og eru framkvæmdir hafnar.
FlagghúsiðLjóst er að mikið verk er fyrir höndum. Erling er þegar búinn að smíða sperrur og hefur verkað panelklæðningu sem fer inni í húsið með ákveðnum aðferðum þannig að hann lítur út fyrir að vera hundrað ára gamall. Verkið ætlar Erling að taka í áföngum. Hann áætlar í fyrstu atrennu að loka húsinu með undirklæðningu, koma járni á þakið, hlaða undir sökkla og síðan endurgera klæðningar utan og innan svo eitthvað sé nefnt.
Flagghúsið fékk viðurnefni sitt af því að það þjónaði sjófarendum á Járngerðarstaðasundi. Dagbjartur Einarsson frá Ásgarði (1876-1944) hætti formensku fimmtugur að aldri og tók þá að sér það hlutverk að gefa sjófarendum leiðbeiningar ú landi um veðurhofur og lendingaraðstæður. Járngerðarstaðarsund var erfitt, jafnvel vönum mönnum og landtaka oft erfið og illfær.

Flagghúsið

Á tímabilinu frá 1925 framundir 1940 var notað sérstakt merkjakerfi sem Dagbjartur sá um. Í fyrstu var hengt á suðurgafl Sæbóls hvítt merkjaflagg en síðar var sett á Flagghúsið mikil stöng á norðurgaflinn. Þá var hífður upp einn belgur ef vá var í vændum t.d veðrabrigði og tveir belgir þýddi aðgát á sundi og brim í lendingu. Gifta fylgdi þessu starfi hans og færðu formenn í Járngerðastaðahverfi honum silfurskjöld er hann lét af þessum starfa sem viðukenningu fyrir hjálp á hættustundum.
Húsnúmer í Grindavík eru miðuð við þann stað, sem Flagghúsið er nú.
Þegar FERLIR kíkti á Flagghúsið í ársbyrjun 2006 var búið að undirklæða, járnið komið á þakið, sökkulvinnu lokið og búið að loka húsinu. Ljóst er að endurbyggingin mun verða glæsileg. Nú þarf hins vegar að fara að huga að nágrenninu, þ.e. næstu húsum, annað hvort gera kröfu um að þau verði lagfærð, eða að bærinn kaupi þau fyrir lítið með frekari endur- og uppbyggingu gamalla húsa á þessu svæði að markmiði. Með því væri kominn grundvöllur til að endurgera hluta gamla bæjarins, ofan við gömlu Norðurvörina, í Járngerðarstaðahverfi. Það myndi án efa setja mikinn svip á bæinn, fylla bæjarbúa stolti og jafnframt gera Grindavík áhugaverðan kost fyrir ferðamenn.

Flagghúsið

Flagghúsið endurbyggt.

Ljóst er að endurgerð húsa eins og Flagghússins kostar talsverða fjármuni og tíma. Mikilvægt er að aðilar gangi samhentir til verka og efli um leið almennan vilja til frekari uppbyggingar á svæðinu. Fögur orð duga skammt í þeim efnum, en eru þó ágætis byrjun. Styðja þarf við áhugasamt fólk og hvetja það áfram, t.d. með markvissum styrkjum og framlögum.
Erling hefur haft áhuga á að endurbyggja skúrinn Lubba, sem var beituskúr og stóð sunnan við Flagghúsið. Vonandi mun honum verða gert kleift að koma því í verk, sem og endurbyggja verslunina norðan við húsið, sem sjá má á meðfylgjandi málverki Gunnlaugs Schevings.

Flagghúsið

Flagghúsið.

Vinstra megin á málverkinu má einnig sjá hús, sem kallað var “Samvinnubragginn”. Samvinnuútgerðin í Grindavík hafði þar verbúð, beituskúr og netaloft 1930-1970. Eldra nafn á húsinu var Eyrabakkahús. Þar hafði Eyrabakkaverslun vöruhús og aðsetur frá því um 1880 fram yfir aldamótin 1900. Grindavíkurhöfn hafði þarna áhaldahús fram undir 1990. Húsið var rifið af Grindavíkurbæ eftir að því hlutverki lauk.
Norðurvörin er framundan húsinu. Hún var fagurlega grjótlögð en er orðin, ásamt bryggjunni, skemmd og þarfnast viðgerðar. Eins er með aðgengið og umhverfið – allt þarf þetta að laga.
(Sjá einnig
Flagghúsið – endurnýjun II).

Heimild:
-grindavik.is
-Ering Einarsson

Einarsbúð

Einarsbúð og nágrenni – Flagghúsið í miðið.