Ib Ibsen, norskur maður, sendi FERLIR eftirfarandi umfjöllun um svonefnda Kleifarvatnshella. Ib hefur stúderað jarðfræði Krýsuvíkur með aðaláherslu á ummyndun bergs beggja vegna vatnsins. Að vestanverðu afmarkast sigdældin, sem myndar Kleifarvatn, af móbergshálsi frá ísaldarskeiði og að austanverðu grágrýtisdyngju frá hlýskeiði. Vatnsskarðið lokar afrennsli úr vatninu til norðurs og grágrýtisháls til suðurs. Reglulega hefur Kleifarvatn þó reynt að komast yfir hálsinn, en ávallt þuft að hverfa til fyrri legu. Þessar tilraunir hafa gert Krýsvíkingum erfitt fyrir því vatnið hefur skilið eftir sig fínan sand, sem síðan hefur fokið yfir ræktuð tún og engi. Hér verður þó einungis horft á berg- og hellamynduninina við Kleifarvatn og þá einkum í móbergsmyndunum að vestanverðu og norðan.
Eldsmiðjan er nafn á helli undir Hellunni norðan Kleifarvatns. Vatnið hefur grafið sig þarna inn í laust brotabergið áður en þjóðvegurinn kom til sögunnar árið 1944. Þá skrifaði Árni Óla m.a.: “Vegurinn á fyrst að liggja undir klettunum suður í vikið fyrir norðan Stapann innri. Þarf hann að vera hár yfir vatnsborð það, sem nú er, ef duga skal. Bæði er að vatnið getur hækkað mikið frá því sem nú er, og svo er öldugangur mikill þarna í sunnanveðrum og gengur brimlöðrið langt upp í kletta.” Eru skrif hans í heild annars staðar á vefsíðunni (Krýsuvíkurvegurinn).
Í ferð Óskars Sævarsson í Saltfisksetrinu með Bögga á Akri um þjóðveginn fyrir skömmu sagði hann Óskari frá því þegar hann var þarna með föður sínum sem gutti c.a. 10 ára. Þá var kallinn að vinna við að leggja veginn og þeir notuðu hellinn sem eldsmiðju. Var hellirinn alltaf kallaður því nafni. Þeir voru með hlóðir og fylltu að kvöldi með rekavið, létu loga yfir nótt, og að morgni voru glóðir sem entust til að laga og gera við t.d. brotin fjaðrablöð og fleira sem aflaga fór.
Óskar man eftir því að hafa komið þarna þegar hann ásamt öðrum voru að smala úr Breiðdal og með Stöpunum niður að Lambafelli, sem oft var gert daginn fyrir fyrstu göngur. Þá var matast þarna í aftakaveðri og Láki heitinn í Vík kallaði hellinn “Eldsmiðjuna”. Var hann sjálfur að öllum líkindum þarna við vinnu á sínum tíma. (Mundi Láki m.a. eftir því að hafa dreymt eitt sinn að tröllkona tannskökk hefði sótt að honum þar sem hann lá í fleti sínu í hellinum). Þá eru til gleymdar sagnir um að útilegumenn hafi hafst við í helli þessum um nokkurt skeið og sótt þaðan að ferðamönnum á leið um Helluna. Segir langlífur orðrómur að útilegumennirnir hafi setið fyrir ferðamönnunum á bak við stóran stein við þjóðleiðina, þar sem hún var bröttust, og potað í þá með priki svo þeir misstu fótanna og steyptust fram af brúninni þar sem limlesting eða dauði beið þeirra.
Hellir þessi hefur að öllum líkindum í seinni tíð og verið nýttur þegar vegagerðarmenn komu að honum, en áður náði vatnið oftast að honum. Hellinn notaði m.a., að sögn Láka, Guðmann (Haraldur) á Hamri, sem var eldsmiður og var t.d. með smiðju í skúr bak við Hamar, þegar unnið var að vegagerðinni og í honum áðu síðar meir veghefilsstjórar er voru við vinnu sína á veginum. Nemendur í Vinnuskólanum í Krýsuvík á sjötta og sjöunda áratug 20. aldar kölluðu hellinn jafnan Hellinn, en í seinni tíð hefur hann verið nefndur
Helluhellir. Þessi hellir ásamt öðrum við Kleifarvatn eru mótaðir af vatninu. Verkið hefur tekið tæplega 11.000 ár. Vatnshlíðin við norðaustanvert Kleifarvatn er bæði há og brött. Áður fyrr gekk hún einnig undir heitinu “Hrossabrekkur”. Í seinni tíð hefur fótgangendum verið fært með vatninu undir hlíðinni, en að öllu jöfnu er þeim þar ófært, líkt og var undir Hellunum áður en vegurinn var lagður. Þó eru dæmi um að menn hafi farið með hlíðinni á hestum þótt fótgangandi hafi ekki komsit þá leiðina. Annars þarf að fara upp hlíðina og rekja brúnir hennar að Vatnshlíðarhorninu ofan við hið eiginlega Vatnsskarð. Uppi í hlíðinni er m.a. brött kvos. Í henni er fallegur hrauntaumur, sem hefur stöðvast þar.
Undir lágum Lambhagastapanum er gömul hlaðin rétt. Við hana er skúti, sem fyrrum var hinn myndarlegasti hellir. Nú hefur vatnið, eftir að lækkaði í því, nánast fyllt hann af sandi. Það á þó eftir að breytast aftur og mun hann þá verða stór og mikill á ný. Þarna drógu leitarmenn í sundur og gistu jafnvel í hellinum yfir nótt. Landfastur tangi tengir Lambhaga við vesturhlutann, milli Kleifarvatns og Lambhagatjarnar. Norðan tjarnarinnar er Blesaflöt. Í suður af Lambhaga er tangi út í vatnið. Við enda hans mátti til skamms tíma sjá sprungu þá er myndaðist í jarðskjálftunum árið 2000 og vatnið seitlaði niður í með þeim afleiðingum að yfirborðaði lækkaði.
Smiðjan fyrrnefnda er undir Hellunni. Fóru ferðamenn jafnvel úr skóm og fetuðu versta kaflann, sem áður er lýst, á sokkaleistunum. Þessi leið, sem var hliðarleið frá Dalaleiðinni um Fagradal og austur fyrir Kleifarvatn, þótti styttri, ef og þegar hún var fær. Vel sést móta enn fyrir gömlu götunni í móbergshlíðinni ofan við Hellurnar. Ofar eru Hellutindar.
Sunnar er Innri-Stapi og Stefánshöfði þaðan sem ösku Stefáns Stefánssonar, leiðsögumanns, var dreift frá yfir vatnið að hans ósk. Stapatindar eru þar ofar á Sveifluhálsinum. Huldur taka við skammt sunnar og síðan Hulstur.
Syðri-Stapi skagar út í vatnið. Nyrst í honum eru aflangur hellir, sem meðal veiðimanna hefur verið nefndur Ófæra. Jafnan hefur verið erfitt, en eftirsóknarvert, að komast út í hellinn þegar hátt hefur verið í vatninu. Bæði er ágætt skjól þarna undir berginu og vel hefur veiðst þar í eðlilegu árferði. Þá er inn af hellinum “baðstofa”, sem stendur svolítið hærra og hefur verið auðvelt að halla sér í á meðan beðið var eftir ábiti. Bólstrar og brotaberg einkenna umhverfi Ófæru.
Austan undan í Syðri-Stapa er Indíáninn, klettur í vatninu sem er á að líta eins og indíánahöfuð frá ákveðnum sjónarhornum. Landmegin við hann er sæmilegur skúti, en lágur. Það hefur ekki verið nema hinn síðasta hálfa áratug að gegnt hefur verið í hann þurrum fótum. Þess vegna hefur skúti þessi ekki enn fengið nefnu. Dýna er í honum og hefur verið síðan skömmu eftir að lækkaði í vatninu. Hún mun væntanlega hverfa með tímanum, en í minningu hennar er rétt að gefa skútanum nafnið “Dýnan”.
Sunnan við Stapann eru einnig skútar, sem vatnið hefur náð að grafa inn í mjúkt móbergið. Annar er bæði minni og lægri, stendur svolítið hærra, en hinn er öllu burðugri. Ekki hefur fest á honum nafn svo heitið geti. Einhverjir ofurbjartsýnir, jafnvel undir áhrifum, vildu gefa honum nafnið “Bergsalir”, en aðrir jarðbundnari vildu einfaldlega nefna hann “WC”, sem mun vera nær lagi því varla er til sá veiðimaður við Kleifarvatn er ekki hefur losað sig þar við eitthvað innvortist. Á sumrin anga “salarkynnin” af óþef, en á vetrum minna. Reynt hefur verið að draga úr fnyknum með því að kveikja elda eða öðrum ráðum. Þegar erindi um mögulega nýtingu gerseminnar hefur verið borið undir heilbrigðisyfirvöld í Hafnarfirði hafa þau brugðist við með því að krossa sig á bak og fyrir líkt og von væri á Svartadauða.
Við nýjustu rannsókn á “Salerninu” fundust merkilegar mannvistarleifar, þ.e. samstæðir norskir prjónavettlingar. Gætu þær rennt stoðum undir staðfestingu á landnámi norrænna manna hér á landi. Talið hefur verið að svonefndir Papar hafi búið hér fyrrum og þá í hellum, en nú virðist vera hægt að renna stoðum undir að þessir Papar hafi verið norrænir pabbar (papa).
Beggja megin Syðri-Stapa eru ágætar basaltsandstrandir. Í gegnum tíðina hefur Kleifarvatn verið vinsæll köfunarstaður. Í vatninu eru nefnilega góðar aðstæður fyrir þá sem eru að læra eða hafa lokið námskeiði og vilja æfa sig. Vatnið er frekar tært svona 10-15 metrar og skyggnið breytist ekki líkt og það gerir í sjónum. Þess vegna geta kafarar nánast alltaf gengið að aðstæðum vísum. Þó bera að geta þess að í miklum vindum og þá sérstaklega í austanátt getur vatnið átt það til að gára og öldurnar verða þó nokkuð háar í slíkum aðstæðum. Gallinn við vatnið er sá að dýralíf í því er fábreytt. Þarna eru stangveiðar algengar en að sjá fiska undir yfirborðinu er sjaldgæfara. Köfurum finnst það hálfpartinn skrítið að nokkuð veiðist þarna yfirleitt. Eflaust er besti köfunarstaðurinn staðsettur við Indíánann, sem fyrr er nefndur..
Miðdegishnúkur er myndarlegustu hnúkanna á Sveifluhálsi. Á honum er landmælingastöpull, en margir gera sér ferð á hnúkinn til að dáðst þar að útsýninu til allra átta. Frá Ási ofan við Hafnarfjörð var hnúkurinn jafnan nefndur Hádegishnúkur.
Hvammahraunið (Hvannahraunið) rann niður hlíðina (Gullbringu) og út í vatnið austanvert. Þar má veiða stærstu fiskana í vatninu. Sumir segja að lögulegt fellið skammt austar heiti Gullbringa, við norðurenda Kálfadala. Dalaleið, sem svo hefur verið nefnd, austurvatnaleið Krýsuvíkur, liggur þarna upp með gróinni hlíð milli Gullbringu og Hvammahrauns, framhjá Gullbringuhelli og beygir norður yfir hraunið, að Vatnshlíðinni. Þar liggur gatan svo til beint í norður þar sem hún kemur niður í Fagradal áður en hún liðast um Dalina austan Undirhlíða og Gvendarselshæðar að Kaldárseli. Í Slysadal má sjá dysjar hesta þess útlenska ferðamanns, sem varð fyrir því óláni að missa þá niður um ísi lagðan dalinn að vetrarlagi. Áður hét dalurinn (því Slysadalir er einungis einn) Leirdalur Innri, en nú er Leirdalur Ytri jafnan nefndur Leirdalur. Svona breytast nöfn og staðhættir með tímanum.
Auk þessara hella má nefna fyrrnefndan Gullbringuhelli austan við Kleifarvatn, en sá er hraunhellir. Í honum er hlaðið bæli.