Ætlunin var að ganga um Staðarhverfi í Grindavík, rekja staðsetningar einstakra bæja, sem þar voru, sem og önnur gömul mannvirki á svæðinu. Má þar nefna útgerðarminjarnar á Hvirflum, konungsverslunarminjarnar við Kóngshellu og Hvirfla, hreppsstjórasamfélagsminjarnar á Húsatóftum o.fl. o.fl.
Gangan var liður í undirbúningi að gerð sögu- og örnefnaskiltis, sem fyrirhugað er að setja upp í Staðarhverfi. Með í fartaskinu var örnefnalýsing fyrir Húsatóftir og Stað sem og fornleifaskráning fyrir Stað frá árinu 1999 auk fleiri gagna.
Haldið var rangsælis um hverfið, frá Húsatóftum að Stað. Skoðaðar voru tóftir tómthúsanna Hamra, Blómsturvalla, Dalbæjar, Vindheima og Reynisstaðar (Reynivalla). Öll þessi hús voru byggð eftir 1910. Sunnar eru leifar dönsku konungsverslunarinnar, alls sex hús og brunnur.
Fyrrum bæjarstæðið á stað var skoðað, einkum eldri bæjarins. Bergskot var austan við bæinn, upp á svonefndum Bringum. Leifar þess þess sjást enn. Einnig tóftir Nýjabæjar, u.þ.b. 100 metra norður af þeim.
Íbúðarhúsið að Móakoti var rifið nýlega svo þar sjást enn ummerki eftir það svo og garða og tún. Lönd voru austan við Stað og Merki á Hvirflum, á ystu mörkum.
Hjáleigan Kvíadalur var suður af Stað. Þar sjást enn heillegar tóftir. Austar var Litla-Gerði og enn austar, á miðjum Gerðistöngum, var Staðargerði eða Stóra-Gerði öðru nafni. Þar sjást enn vegglegar vegghleðslu bæjarins, garða og sem og falleg heimtröð.
Staðarbrunnurinn hefur nú verið lagaður, en hann var upphaflega hlaðinn árið 1914. Dýptin á honum er 23 fet. Hóll er sunnan við brunninn. Sagt er að þar hafi fyrir löngu verið hjáleigan Krubba, eða Krukka eins og sr. Geir Backmann nefnir hana. Annar hóll er skammt suðaustar, líklega leifar hjáleigunnar Króks.
Melstaður var sunnan við Hvirfla, nýbýli frá Stað frá árinu 1936. Þá má nefna hjáleiguna Sjávarhús, sem áður stóð á Staðarklöppinni, rétt við Staðarvörina. Þau munu hafa farið í eyði í sjávarflóðinu mikla árið 1799.
Hlaðnir brunnar eru nokkrir í Staðarhverfi, s.s. við Stað, Stóra-Gerði, Melstað, Hústóftir og Kóngshelluna. Gamla réttin sést að hluta til enn ofan við Gerðistanga. Með ströndinni eru víða grunnar og ker síðan frá saltfiskverkuninni, einkum eftir 1930. Nokkrir grunnanna eru ofan við gömlu brygguna við Hvirfla, í Húsatóftarlandi. Vestan í Hvirflum er Vatnstangi yst
ur. Á honum er gróin tóft. Vestan við hana er lítil vík. Í henni leysir ferskvatn. Vegna seinni tíma bygginga sést orðið lítið af verslunarstaðnum, sem þar var fyrr á öldum. Á einokunartímabilinu kom t.d. öll sigling á þessa vík, en mun hafa lagst endanlega af í tíð Hörmangara. Víkin hefur ekki sérstakt nafn svo vitað sér, en hefur stundum verið nefnd Staðarvík því Staðarsundið er þarna utan við hana.
Hvirflavörður eru tvær; neðri varðan er ofan við efsta flóðfar og hin 150 metrum ofar. Vörðurnar eru leiðarmerki á Staðarsund og landamerki milli Húsatófta og Staðar með stefnu um Skothól í Hauga við Haugsvörðugjá. Steinbryggjan austan við neðri vörðuna var reist árið 1933, en hún er í landi Húsatófta þrátt fyrir að lending hafi verið betri í Staðarvíkinni. Ástæðan er ágreiningur, sem var, um gjald fyrir bryggjuaðstöðuna.
Þótt landið sunnan Kóngshellunnar sé komið undir sjó, má þó enn sjá leifar á skerjum, m.a. hluta af flóraðri götu. Barlestasker er syðst sunnan Garðafjörðu. Þar munu verslunarskipin fyrrum hafa tekið barlest. Upp af þeim er stór og mikil klöpp, Kóngshellan, sbr. framangreindar minjar.
Örnefni á þessu svæði eru fjölmörg. Við gerð sögu- og örnefnaskiltis í Staðarhverfi er m.a. stuðst við “Örnefni í Staðarhverfi”, sem séra Gísli Brynjólfsson skráði, örnefni skv. upplýsingum Guðsteins Einarssonar, hreppsstjóra, sóknarlýsingu Geirs Backmanns frá 1840, lýsingum Einars, Jóns og Þórhalls Einarssona frá Húsatóftum, “Mannfólk mikilla sæva – Staðhverfingabók”, heimilda Gamalíels Jónssonar bónda á Stað, Árna Vilmundasonar, Þorsteins Bjarnasonar o.fl., auk þess sem Loftur Jónsson mun gæta samræmis. Þá verður og byggt á lýsingum bræðranna Helga og ÓLafs Gamalíelssona frá því er þeir gengu með FERLIR um svæðið fyrir nokkrum misserum og lýstu örnefnum, minjum og staðháttum á svæðinu. Loks verður tekið mið af nýjum uppgötvunum við þéttriðna vettvangsleit á svæðinu. Nú þegar er uppkast uppdráttarsins svo þakin örnefnum og minjum að varla sést í auðan díl. Líklega verður að grisja uppdráttinn eitthvað áður en hann kemur endanlega fyrir almenningssjónir.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.