Gengið var frá Ísólfsskálavegi til austurs vestan við Lat.
Gengið er yfir úfið mosahraun og inn á stíg er liggur áfram til austurs sunnan við Latshornið. Skammt austan við hornið, þar sem úfna hrauninu sleppir liggur hraunbakki til suðurs. Ef honum er fylgt spölkorn er komið að fallegum dyrahleðslum fyrir skúta. Hurðarhellan stendur enn vinstra megin við dyrnar. Inni má sjá mannvistaleifar. Á skútanum er op og hlaðið í kringum það. Líklegt er talið að skútinn hafi verið notaður sem sæluhús á ferðum manna um stíginn frá Húshólma, ofan Seltanga, að Ísólfsskála og áfram, annað hvort norður um Sandakraveg að Skógfellastíg eða til Grindavíkur. Þá gæti hann einnig hafa verið notaður af vegagerðarmönnum er lögðu Ísólfsskálaveginn á sínum tíma. Sæluhús þetta er fáum kunnugt.
Tiltölulega stutt er í Óbrennishólmann, þangað sem ferðinni var heitið. Hægt er að ganga inn í hólmann vestast í honum eða fylga stígnum uns komið er að þvergötu til vinstri. Hún liggur í gegnum hraunið og inn í suðaustanverðan hólmann.
Á hæð í sunnanverðum hólmanum er nokkuð stór fjárborg. Enn sést vel móta fyrir hringnum. Erfitt er að mynda hringinn vegna afstöðu hans á hólnum. Skammt austan hennar, nær hraunkantinum, er önnur minni fjárborg. Einnig gæti þarna hafa verið um topphlaðið hús að ræða að forni fyrirmynd. Sunnan tóttarinnar er rétt eða gerði inni í hraunkraga. Hlaðið er framan við kragann, en þær hleðslur virðast vera nýrri en t.d. fjárborgirnar.
Efst í hólmanum norðaustanverðum (fara þarf yfir mosahraun á kafla) er hlaðinn garður, sem hraunið hefur stöðvast við. Vel sést móta fyrir hleðslunum á nokkrum stöðum. Garðurinn endar í króg skammt neðar. Þar gæti einnig hafa verið fjárbyrgi og að neðsta hleðslan sé hluti þess.
Vestan við stóru fjárborgina liggur gróinn og nokkuð jarðlægur garður undan hraunkantinum, upp með dragi og áfram upp í hólmann. Hér virðist vera um mjög fornan garð að ræða. Hann eyðist nokkru ofar, en þó má enn sjá móta fyrir honum ofan við miðjan hólmann, en þá hefur hann breytt lítillega um stefnu skammt, neðan við eldri hraunkant í miðjum hólmanum. Garðurinn virðist vera með samskonar lagi og garðarnir í Húshólma.
Ögmundarhraun, sem umlykur Óbrennishólma, kom úr gígaröðum austan í Vesturhálsi (Núpshlíðarhálsi). Það hefur runnið til suðurs á milli Latfjalls og Krýsuvíkur-Mælifells – allt niður í sjó – og gjörbreytt ströndinni. Hefur hraunið runnið yfir bæ, eða bæi, og önnur mannvirki sem þarna voru. Óbrennishólmi og Húshólmi hafa þá væntanlega staðið hátt í landinu, en hraunið runnið með hlíðum og lægðum. Eldra hraunið inni í Óbrennishólma og Húshólma hefu runnið áður en Ögmundarhraun rann. Virðist það hafa komið úr gígaröð suðaustur af Krýsuvíkur-Mælifelli.
Jón Jónsson, jarðfræðingur, sagði einn gíginn þar, einn þann merkilegasta hér á landi, en sá hefur nú að mestu verið eyðilagður vegna efnistöku.
Sagnir eru til um að á þessu svæði hafi verið blómleg byggð áður en Ögmundarhraun rann um 1150. Ströndin hafi verið lík og nú er á Selatöngum, neðan við Húshólma og við Skála. Þar hafi verið góð lending og kjörstaða, bæði til lands og sjávar.
Veður var með ágætum – hlýtt og lygnt. Gangan tók 2 klst og 43 mín.