Rafnshús

Hér segir frá “Sjósókn og fólki á Suðurnesjum” snemma á öldinni. Frásögnin í heild birtist í mbl. árið 1970. Höfundurinn, Gísli Sigurðsson, lögregluþjónn í Hafnarfirði tók saman. Ekki kemur fram við hvern er rætt.”

 Grindavík á fyrri hluta 20. aldar

Ótrúlegt, en samt er það satt, að 8 ára að aldri fór ég í verið upp í Grindavík.
Foreldrar mínir settust að í Hafnarfirði vorið 1911. Faðir minn hafði um árabil róið í Grindavík. Verið þar útróðramaður, útgerðarmaður. Það er; hann réðst til róðra fyrir ákveðið  kaup hjá einhverjum formanni. Hann hafði lengi verið útgerðarmaður hjá hjónunum í Rafnshúsum, Jóni Jónssyni og konu hans Marenu Jónsdóttur, en róið alla tíð hjá Gísla í Vík, syni þeirra Rafnshúsahjóna. Gísli fór með teinæring og var aflasæll alla sína tíð, svo að aldrei hlekktist honum á né mönnum hans. Hann var einnig með aflahæstu formönnum og því hafði hann ráð á góðum mönnum og dugmiklum. Ráð hafði verið fyrir því gjört, að faðir minn væri í Rafnshúsum þessa vertíð. Þótti foreldrum mínum sjálfsagt að leysa upp heimilið. Móðir mín skyldi vera hlutakona í Vík. Það er þjónustustúlka hjá konu Gísla, Kristjönu Jónsdóttur. Ég átti að fljóta með og vera í Rafnshúsum.

Skógfellavegur

Á kyndilmessu, 1. febrúar, skyldi hver útróðramaður vera kominn til skips.
Við lögðum svo af stað. veður var hið bezta. Pabbi minn bar allt dótið, en við gengum laus. Við gengum sem leið liggur Vagnveginn gamla suður Hraun. Undir túngarðinum í Hvassahrauni fengum við okkur bita. Fórum svo heim og fengum molakaffi. Minnir mig að bollinn kostaði 10 aura. Þaðan héldum við svo áfram eins og leið liggur suður Vatnsleysuströnd. Faðri minn þekkti hvern bæ og kannaðist við flesta bændurna.
Allmikið var farið að skyggja er við komum í Vogana. Ætlunin var að leita þar gistingar á einhverjum bæ. Gistum við að mig minnir í Hábæ hjá Ásmundi Jónssyni og konu hans. Vel var við okkur tekið og gisting auðfengin. Um kvöldið ræddu þeir margt saman Ámundur og faðir minn, um sjósókn og sjómennsku, formenn og sjógarpa á Suðurnesjum. Varð þeim um þetta skrafdrjúgt körlunum.
Snemma morguninn eftir vorum við á fótum. Fengum hressingu og ný skyldi lagt upp í seinni áfangann. veður hafði ekki breytzt og því hið ágætasta veður.
Sigurgeir Gíslason var um þetta leyti ekki lengra kominn með Suðurnesjaveginn en í Voga. Við fórum því eftir hestatroðningunum fyrsta spölinn, eða suður undir Stapa. Þar rétt undir Fálkaþúfu tekur við Alfaraleiðin suður til Grindavíkur, Skógfellaleiðin. Sunnan Bjallanna taka við Gjárnar. Þær hafa allar verið brúaðar með grjóthleðslu. En hættulegar gátu þær verið þegar yfir þær hemaði snjó, því hyldýpi er beggja megin brúnna, sem eru um þrjú til fjögur fet á breidd. Mörg skepnan hefur horfið með öllu í þessar gjár. Menn hafa einnig horfið í gjárnar bæði þarna og í Strandarheiðinni. Óhugnanlegar sögur ganga þar um. 

Brandsgjá

Maður nokkur var hér við smalamennsku og hvarf með öllu. Tugum ára seinna sáu smalar á eftir kind niður í eina gjána. Þegar sigið var eftir henni, fundust bein þessa ógæfusama manns. Og verksummerki þess, að hann hafði hlaðið vegg í gjána, til að komast upp, en ekki komið hleðslunni nógu hátt.
Þegar við komum að syðstu gjánni, Stóru-Aragjá, segir faðir minn: “Hér var það sem Brandur bóndi á Ísólfsskála missti hest sinn niður í vetur á jölaföstunni”. Og faðir minn sagði okkur söguna, en hún verður ekki rakin hér. Það setur að manni hroll við hugsunina um hætturnar. Þó hafa menn verið á ferð um þessar gjár frá alda öðli eins og ekkert hafi í skorizt.
Skógfellaleið var á þessum tímum greiðfær vel og víða vörðuð og því auðrötuð. Gatan liggur upp með austuröxl Litla-Skógfells og vestur með hlíðum þess og þar út á eggslétt klapparhraun, þar sem hestar fortíðarinnar hafa sorfið í hraunhellurnar alldjúpar götur. Á einum stað má greina þrjár götur hlið við hlið. Leiðin stefnir nú á Stóra-Skógfell, en rétt áður er komið að hraunhóli ekki stórum, sem heitir Hálfnunarhóll og er þar hálfnuð leið úr Vogum til Grindavíkur, hvort sem farið er í Járngerðarstaða- eða Þorkötlustaðahverfin eða að Ísólfsskála.
Sunnan Stóra-Skógfells liggur gatan um úfið hraunið, austan við Svartsengi, Sundhnúk, Hagafell og Melhól. Skammt þar sunnar er mikil varða á hraunbrún, en niður undan tekur við Hópsheiðin. Af hraunbrúninni sést vel niður í Járngerðarstaðahverfi. Við héldum götunni niður undir Hópið og  vestan þess og lögðum leið okkar í búðirnar ofan til við Varirnar.

Tóftir

Rafnshús var lítill bær. Baðstofa, bæjardyr og eldhús inn af þeim. Baðastofan var þriggja stafgólfa og hólfuð sundur. Tvö rúm undir hvorri súð í sjálfri baðstofunni. Borð fram milli rúmanna undir sexrúða glugga. Skarðsúð. Framan við milliþilið var borð undir vestursúð, þar sem maturinn var skammtaður og fjögrarúðugluggi, sneri í vestur. Kistur og skápar voru þarna inni. Fyrir bæjardyrum var hurð með klinku og hleypijárni, en lítill gluggi yfir dyrunum. Inni í göngunum var hurð á vinstri hönd í baðstofuna, en inn af göngunum var milligerð með dyrum í eldhúsið, sem var hlóðareldhús. Þar inni voru nokkur ílát sem geymdu mat ýmiss konar og þar var líka geymdur eldiviður. Það var aðallega þang og þari, sem sóttur var í fjöruna neðan við túnið. Lagði af eldiviði þessum sérkennilegan og höfgan þef um bæinn. Lang í frá var hann óþægilegur. Til hliðar við bæinn var fjós fyrir tvær kýr og hlaða. Svolítinn spöl frá bænum stóð hjallur. Þar var allur matur geymdur bæði niðri og uppi, en nokkur hluti hjallsins var þurrkhjallur með grindum. Beint fram af bæjardyrunum var for. Þar var öllu skolpi hellt sem til féll og þangað var slori ekið. Á vorin var svo öllu þessu ekið á tún til áburðar.”

Heimild:
Lesbók mbl 22. nóv. 1970.

Sundhnúkahraun

Sprungur í Sundhnúkahrauni.