Fagridalur

Orðrómurinn átti við rök að styðjast – það eru tóftir í Fagradal eftir allt saman.

Fagridalur

Tóft í Fagradal.

Haldið var á skyrtunni inn Fagradal, yfir ás vestan hans og síðan niður í dalinn þar sem var vel gróinn botninn var grandskoðaður. Gamla þjóðleiðin til Krýsuvíkur liggur þvert yfir ofanverðan botninn, skammt neðan við neðstu hraunbrúnina er fyllir ofan- og vestanverðan dalinn og síðan upp með henni austanverðri og upp úr dalnum austan við Vatnshlíðarhornið.
Dalurinn er það gróinn að ótrúlegt væri ef hann hefði ekki verið nýttur fyrr á öldum. Misgamlar og umfangsmiklar skriður hafa hlaupið niður brattar hlíðarnar, en gróðurtorfurnar standa að mestu óraskaðar þrátt fyrir mikla landeyðingu framan við dalinn og í dölunum í kring, s.s. í Breiðdal, Slysadal og Leirdal. Stórt vatn er framan við Fagradalsmúla, en það þornar í þurrkatíð á sumrum. Annað stórt vatn er sunnan við Leirdalshnúk, en norðan við það, sunnan undir hnúknum, vottar fyrir fornri tótt, sennilega garði. Ekkert vatn var í Breiðdalnum svo vel mátti sjá gróðurtorfurnar í honum innan um leirflögin. Í norðanverðum Breiðdalnum eru hleðslur sem virðast hafa verið hlaðnir garðar, en eru nú að mestu jarðlægir. Hvorugir staðirnir hafa verið skráðir sem slíkir og tóftirnar því enn á fárra vitorði.

Fagridalur

Hrútur í Fagradal.

Gömlu þjóðleiðinni var fylgt yfir Fagradalinn. Í stað þess að fylgja jeppaslóða um dalinn var gömlu leiðinni fylgt norður með honum austanverðum. Löngu liðinn hrútur liggur utan leiðar, sbr. meðfylgjandi mynd. Framundan virtist vera tóft á hól. Þegar betur var að gáð kom í ljós að tóftirnar gætu verið tvær. Í raun er þetta eðlilegasti staðurinn til að byggja t.d. sel ef dalurinn hefur verið nýttur til slíkra nota. Meðfærilegt grjót hafði greinilega verið fært úr nálægri skriðu. Mótar fyrir húsi, eða húsum á hólnum. Þrátt fyrir leit var ekki önnur mannvirki að sjá þarna lálægt. Vatnið er þó í seilingarfjarlægð. Ofan við það er vel gróið. Stígnum var fylgt áfram austur með hlíðinni ofan vatnsins uns sást niður í Tvíbollahraun. Þaðan er gott útsýni yfir í Breiðdal, Leirdal og allt að Helgafelli. Þrátt fyrir landeyðinguna, sem nú er orðin, var þarna fagurt yfir að líta.
Gengið var niður að vatninu og síðan áfram niður í Breiðdal, vestur með Breiðdalshöfða og að upphafsstað.
Gangan tók u.þ.b. 1 og ½ klst. Veður var frábært – bjart, hiti og lygna.

Fagridalur

Tóftir í Fagradal.