Húshellir

Nafnið Fjallið eina hefur löngum vafist fyrir mörgum. Fjallið eina er ekki aðeins nafn á einu fjalli eins og ætla mætti, heldur þremur, ef fjöll skyldi kalla. Þau eru þessi:

Fjallið eina

Fjallið eina – dæmigerður stapi.

1) Móbergshnjúkur (223 m) skammt vestan við Krýsuvíkurveg, norður af Sveifluhálsi fyrir sunnan eða suðvestan Óbrinnishólabruna.
2) Ávöl alda (401 m) í Árnessýslu, austan undir Bláfjöllum í Reykjanesfjallgarði.
3) Lágt fell (210 m) í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu. Því er þannig lýst í örnefnaskrá: “Vestan við Höskuldarvelli er norðurendi á frekar lágu felli, sem er mjög langt og mjótt og liggur til suðurs. Heitir það Oddafell, stundum nefnt Fjallið eina.” (Örnefnaskrá Stóru- og Minni-Vatnsleysu). Sesselja G. Guðmundsdóttir segir í bók sinni, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, að við vesturjaðar Höskuldarvalla sé “Oddafell sem Þ. Thoroddsen kallar Fjallið Eina og er það eina heimildin um þetta nafn á fellinu. Líklega hefur verið einhver nafnaruglingur hjá Thoroddsen því Fjallið eina er til á þessum slóðum eða nokkrum kílómetrum norðaustan við Dyngjur.”

Hverinn eini

Hverinn eini.

Hér gæti verið komin skýring á staðsetningu útilegumanna á Reykjanesskaganum er kveður á um dvöl þeirra undir Núpshlíðarhálsi sunnan Selsvalla, en þeir færðu sig síðan norður með fjöllunum og fundu sér stað nálægt Hvernum eina. Menn gætu hafa verið að færa fjöllin og jafnvel hverina til eftir því sem þeir best þekktu. Þannig gæti Oddafellið hafa heitið Fjallið eina um stund þar sem Hverinn eini var þar. Menn gætu hafa tengt hann staðsetningu útilegumannanna. Þeir gætu því hafa haldið til í helli við Fjallið eina norðan Hrútargjárdyngju, sem reyndar er ekki svo langt í burtu, en þó í öryggri fjarlægð frá þeim stað, sem vitnaðist um þá við Selsvelli. Í Húshelli við Fjallið eina eru hleðslur og mannvistarleifar. Hellirinn er við gömlu þjóðleiðina upp frá Stórhöfða áleiðis til Krýsuvíkur.
Þetta er einungis hugmynd – og ber að virða hana sem slíka.

Húshellir

Op Húshellis.