Færslur

Sogasel

Gengið var um nýja borsvæðið vestan Trölladyngju, yfir að Oddafelli og með því að Hvernum eina.

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.

Áður en komið var að syðsta hluta Oddafellsins mátti sjá gamlan stíg yfir hraunið norðan fellsins í átt að norðausturenda Driffells. Einungis lítill gufustrókur stendur nú upp úr hvernum, sem eitt sinn var stærsti gufuhver landsins, sást jafnvel frá Reykjavík þegar best lét. Frá hvernum var genginn gamall stígur er liggur austan hversins og inn með Selsvallalæknum. Þórustaðastígurinn liggur þar upp úr Kúalág, en gegið var áfram suður yfir vellina, framhjá seljunum undir hlíðinni og að vestari seljunum suðvestast á þeim. Norðan þeirra er stígur yfir hraunið að Hraunsels-Vatnsfelli. Ákafla er hann vel markaður í klöppina. Uppi á því austanverðu er allstórt vatnsstæði. Þarna er um að ræða þrjú sel og eru fallegir stekkir við þau öll, auk réttar og fjárskjóla í hrauninu innan þeirra.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Gengið var upp með Núpshlíðarhálsi, með læknum þar sem hann kemur niður gil í hálsinum (Sogadal) og áfram utan í honum að Sogagíg. Þegar komið er að honum myndar gígurinn fallega umgjörð um selið með Trölladyngjuna í bakgrunni. Í gígnum eru a.m.k þrjár tóttasamstæður og mjög heillegur og fallegir stekkir og rétt, hlaðinn utan í norðurhlið gígsins, auk smalaskjóls. Ein tóft til viðbótar er utan gígsins. Handan hans í norðri myndaði Oddafellið litskrúðungan forgrunn að Keili er sveipaði um sig þunnri skýjahulu.

Sogasel

Í Sogaseli.

Á leiðinni var gerð leit að útilegumannahelli sem átti skv. þjóðsögunni að vera nálægt Hvernum eina. Ekki er ólíklegt að hann sé fundinn. Í hellinum áttu útilegumenn að hafa hafst við í byrjun 18. aldar. Þeir herjuðu á bændur á Vatnsleysuströnd og er Flekkuvík sérstaklega tilgreind í sögunni. Gerðir voru út leiðangrar til að handsama þá, sem að lokum tókst. Voru þeir þá færðir að Bessastöðum og hengdir í Gálgaklettum (sjá HÉR). Sagt er að bændur hafi eyðilagt bæli útilegumannanna svo aðrir tækju ekki þeirra stað.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Staðurinn, sem um ræðir er hinn ákjósanlegasti. Á aðra hönd er jarðhiti og hina kalt vatn. Innan seilingar hefur fé gengið um haga. Ofan við bælið er hæð og má auðveldlega sjá til mannaferða úr öllum áttum. Er þá auðvelt að dyljast í nágrenninu. Misskilningur er að menn hafi hafst við í hraunhellum til dvalar eða búsetu. Til þess voru þeir of rakakenndir, kaldir og hreinlega blautir. Þessi staður hefur aftur á móti að öllum líkindum verið reftur og þakinn hellum og mosa og þannig haldist þurr og verið ágæt vistarvera. Í honum hafa þrír til fimm menn auðveldlega getað dvalið með góðu móti.
Gangan tók 3 klst og 24 mín. Frábært veður – logn og hlýtt – roðagyllt fjöllin.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Hverinn eini

Ætlunin var að skoða bæði skjól, sem útilegumenn kunna að hafa hafst við í sunnan Selsvalla á 17. öld sem og “helli”, sem þeir dvöldust í norðan Selsvalla. Hvorutveggja er til í skráðum heimildum og hefur að geyma mannvistarleifar. Í leiðinni var og ætlunin að skoða hinar gömlu götur er liggja að og frá Selsvöllum, selsrústirnar á völlunum og Hverinn eina, en upplýsingar liggja fyrir um brennisteinsnám þar á 17. öld.

Selsvallaselsstígur

Selsvallaselsstígur.

Þegar á upphafsstað var komið sást hvar vegur hafði verið lagður upp hraunhlíðina ofan við núverandi borholusvæði undir Sogunum. Vélarhljóð bárust ofan úr Sogunum. Hvorutveggja, augnstungan í hlíðinni og hávaðinn í annars órsökuðu umhverfinu þar fyrir ofan, særðu hjörtu þeirra sem hafa haft samúð með landinu, sem fóstrað hefur fóður forfeðrana frá upphafi.
Gengið var suður með vestanverðum hlíðum Núpshlíðarháls og inn á Selsvelli, framhjá virku jarðhitasvæði undir Trölladyngju og fallegu smávatni í jarðfalli. Þarna hafði áður verið hinn ágætasti jarðvatnsvarmi, líkt og í Grjótagjá við Mývatn. Við norðanverða Selsvelli birtist Kúadalur fyrst sjónum manna, síðan nyrðri Selsvallalækurinn og Moshóll á hægri hönd, fallegur gígur, sem margir framkvæmdarmenn hafa haft augastað á, þ.e. efnislega. Hóllinn geymir einn fallegasta gjallgíg landsins.
Gengið var inn með ónafngreindum fjöllum austanverðra Selsvalla, að rústunum undir Selsvallafjalli. Þær eru allnokkrar. Ekki er með öllu útilokað að sú stærsta hafi á einhverju tímaskeiði geymt kot eða bæ, enda hefur þarna verið álitleg beit og vænlegar sláttulendur. Suðvestar eru rústir seljanna á Selsvöllum. Áður hafði virst sem gata lægi þar frá eldri rústunum niður að þeim nýrri, en þegar betur var að gáð kom í ljós að þarna var um að ræða eldri farvegi Selsvallalækjarins syðri. Hann kemur þarna niður úr gili og hefur leikið sér vítt og breytt um vellina á löngum tíma. Sjá má ummerki eftir lækinn til vesturs en síðan til norðurs á nokkrum stöðum.

Selsvellir

Tóft á Selsvöllum.

Rústirnar á suðvestanverðum Selsvöllum er enn samar við sig; Vogaréttin á sínum stað og hinn fallegi stekkur sunnar. Þarna eru tóftir þriggja selja. Eitt þeirra mun hafa verið frá Stað, en hin voru einnig frá Grindavíkurstórbýlunum tveimur; Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum. Stekkirnir eru jafn margir selstöðunum. Sá þriðji er vestan vallanna, skammt norðan selstóftanna.
Undir hraunhól er op. Ferðin var m.a. farin til að kanna þar inn undir. Við eftirgrennslan kom í ljós að lágur skúti lá þarna undir seltóftina er stóð henni næst. Talsverður jarðvegur hefur sest að á botninum og ekki var að sjá neinar mannvistarleifar í skútanum.
Annar skúti, svipaður, var sunnan við hraunhólinn. Ekki voru mannvistarleifar heldur í honum. Útilegumenn héldu til á þessum slóðum á 17. öld. Þeir áttu að hafa verið þrír saman. Í báðum skútunum var nægilegt svefnrými fyrir þá alla þrjá.
Gömlu alfaraleiðinni (selsgötunni) var fylgt til vesturs. Hún greinist miðja vegu í hrauninu milli Selsvalla og Hraunsels-Vatnsfells, en á því er vatnstæði. Sumsstaðar er gatan grópuð djúpt í klöppina.
Í´”Útilegumönnum og auðum tóftum” segir m.a. að “um aldamótin 1700 var hörmungatíð hér á landi. Þjóðin var orðin mergsogin af alls konar álögum og langvarandi kúgun einokunarverslunarinnar. Hún mátti því ekki við neinu. En verstu árin voru tugtímabilið 1693-1703.
Hekla byrjaði að gjósa. Jarðskjálftar fylgdu í kjölfarið. Fiskur brást algjörlega. Kom því mikið los á fólk, og voru rán og stuldir í öllum sveitum, en þó mest sunnanlands. Hafís rak að landinu. Voru þá hafþök svo að segja hringinn í kringum landið. Í Faxaflóa lá ísinn fram yfir vertíðarlok. Fjárfellir var víða um land og útigangshross hrundu niður. Fólk féll úr hungri. Árið 1703 létust 30 á Suðurnesjum. Allt var etið sem tönn á festi. Fólkið við sjóinn lifði á fjörugrösum og þangi, en í sveitum við fjallagrös, rætur og söl. Sumir átu hesta, skinn og skóbætur steiktar. Fundust og þeir, sem átu hesta, hunda og hrafna.

Selsvellir

Leitað að mögulegu útilegumannaskjóli.

Var þá þjófaöld mikil, stuldir og rán, svo að menn gátu trautt haldið sínu. Veturinn 1701 voru til dæmis hýddir og markaðir nær 20 þjófar í Árnessýslu. Fóru þá þjófar að leggjast út víða um land. Er getið um tvo útileguþjófa á Suðurnesjum; annar var hengdur, en hinn slapp.
Þannig var þá ástandið á Íslandi þegar sagan hefst af útileguþjófunum á Reykjanesi. Maður er nefndur Jón Þórðarson frá Eystri-Hrepp. 1701 tók hann sig upp og fór á vergang. Fyrst slóst í för með honum unglingspiltur, Gísli Oddsson og síðan landshornamaður, Jón Þorláksson og var úr Landeyjum. Fóru þeir alla leið suður á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast frá Jóni Árnasyni í Flekkuvík, en áður höfðu þeir stolið á 14 bæjum á leið sinni.

Í Flekkuvík náðu þeir í 8 hákarlslykkjur, þrjá fiska, eina duggarasokka, kýrlær og hálstrefil. Með þennan feng og það sem þeim hafði áður áskotnast fóru þeir upp um heiði og allt suður um Selsvöllu og voru ákveðnir í því að leggjast út og lifa á stuldum. Var nú komið fram á vor og tíðarfar gott, svo að allt var á gróanda og fé þar um allan afréttinn. Munu þeir hafa búist við því að geta náð í nóg sauðakjöt til matar sér.

Selsvellir

Rétt á Selsvöllum.

Skammt sunnan Selsvöllu fundu þeir skúta nokkurn og hreiðruðu þar um sig. Er nú ekki gott að segja, hvort þeir hafa verið staðháttum þarna kunnugir, en heldur var óvarlegt að setjast þarna að, því að staðurinn var á alfaraleið á þeim dögum. Má þó vera, að þeir hafi valdið hann af ásettu ráði til þess að eiga hægara með að sitja fyrir ferðamönnum, eins og síðar kom fram.
Ekki höfðu þeir hafst lengi við þarna, er Hallur Sigmundsson bóndi á Ísólfsskála varð þeirra var. Þótti honum þetta illir gestir og ekki tilhlökkunarefni að hafa þá í nábýli við sig. Ekki tók hann þó það ráð að segja til þeirra, heldur fór á fund þeirra og átaldi þá fyrir að hafa sest þarna að. Kallaði hann það hið mesta óráð fyrir þá, því að byggðarmenn mundu brátt verða þeirra varir og veita þeim aðgöngu. En þar sem hann var einn, en þeir þrír, mun honum ekki hafa litist ráðlegt að hafa í hótunum við þá. Skildi með þeim óhappalaust.
Þeim útilegumönnum mun nú ekki hafa litist á að vera þarna lengur, því að vel gat svo farið, að Hallur vísaði á felustað þeirra. Tóku þeir sig því upp og fluttu sig lengra norður með fjallinu og settust að í helli, sem var skammt frá Hvernum eina, en hann er í hrauninu milli Selsvalla og Höskuldarvalla, eða vestur af Trölladyngju. Var hellir þessi betri en hinn fyrri, en skammt frá alfaravegi sem hinn. Vatn er þarna ekkert, og hafa þeir því annaðhvort orðið að sækja það norður í Sog eða þá suður á Selsvöllu. Lítið hefur verið þarna um eldsneyti, varla annað en mosi, en vera má, að þeir hafi soðið mat sinn við hverahita, því að ýmsir hverir eru á þessum slóðum.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Einn góðan veðurdag, skömmu eftir að þeir höfðu sest þarna að, fór þar um veginn ferðamaður austan úr Flóa í Árnessýslu, er Bárður hét Gunnarsson. Átti hann sér einskis ills von og vissi ekki fyrri til en þrír stigamenn settust að honum. Rændu þeir af honum tveimur ljáum, hettu, vetrungsskinni, buxum, sjóskóm, fernum skæðum og einhverju felira. Komst Bárður svo frá þeim slyppur og snauður.
Þrjár vikur voru útilegumenninir þarna og rændu auk þess á þeim tíma þremur sauðum til matar sér.
Sjálfsagt hefir Bárður ekki sagt sínar farir sléttar, er hann kom til mannabyggða, því að brátt fréttist það, hverjir óaldarmenn væru komnir þar í sveit. Jón í Flekkuvík, sem fyrstur hafði orðið fyrir barðinu á þeim, tók sér þá fyrir hendur að safna liði og veita þeim aðför. Urðu þeir tólf saman og höfðu tvær byssur og eitthvað fleira vopna.
Var þetta viku fyrir Alþingi. Fór nú þessi hópur til fjalla og kom að hellinum svo að útilegumenn voru þar allir inni. Jón skoraði á þá til útgöngu og að gefast upp, en þeir svöruðu engu. Þá greip Jón til byssu sinnar og kallaði hátt, að allir skyldu skjóta inn í hellinn. Gerði hann það til þess að hræða þá og láta þá halda að allir væru þeir vopnaðir byssum, þótt byssunar væru ekki nema tvær. Skaut svo Jón inn í hellinn og hæfði hettuna á höfði Jóns Þorlákssonar, svo að hún fauk af honum, en maninn sakaði ekki. Þá guggnuðu þeir útilegumenn, er þeir sáu hver alvara var hér á ferðum, og gáfust upp. Voru þeir því næst fluttir til Bessastaða.
Jón Eyjólfsson vicelögmaður í Nesi var þá sýslumaður í Gullbringusýslu, og kom það í hans hlut að rannsaka má útilegumannanna.

Keilir

Keilir.

Þingaði Jón í málum þeirra í Kópavogi, en dómsmálabækur Jóns frá þeim árum eru nú glataðar, og er því ekki hægt að vita, hvað fleira hefir komið þar fram en hermt er í annálum og Alþingisbókum. En séra Eyjólfur á Völlum, sonur Jóns vicelögmanns, hefir sagt allskilmerkilega frá þessu, og mátti hann manna best um það vita, því að hann átti þá heima í Nesi við Seltjörn hjá föður sínum.
Degi áður en Jón kvæði upp dóm yfir þeim félögum, braust Jón Þorláksson úr járnum á Bessastöðum. Náðist hann aftur, en með hverjum hætti það hefir verið er ekki vitað. Dómur var kveðinn upp yfir þeim hinn 6. júlí, og síðan voru þeir fluttir til Alþingis. Höfðu þeir þá ekki verið nema 3 daga í haldi á Bessastöðum. Auk þeirra þjófnaða, sem að framan getur, sannaðist á þá, að þeir hefðu stolið 65 sauðum og eigi minna en 7 fjórðungum af smjöri auk “aðskiljanlegra hluta ætra og óætra”.
Jónarnir báðir voru hengdir, en Gísla Oddsyni vægðu þeir, vegna þess hve ungur hann var og hann hafði aldrei verið dæmdur fyrr. Þarna mátti því sjá á sólkskinsdegi tvo útilegumenn af Reykjanesi, hangandi í gálgum á Alþingi, einum helgasta stað þjóðarinnar til merkis um þá óstjórn, sem hafði komið Íslandi á kaldan klaka.“
Stefnan var tekin til norðurs yfir frosið mosahraunið. Þetta er hraunssvæði, sem að öllu jöfnu er ekki gengið, enda þykkur mosi víðast hvar á hraunþekjunni. Margir smáskútar er þarna í hrauninu, en enginn þeirra sýnilega með mannvistarleifum í.
Sagnir eru til um útilegumannahelli nálægt Hvernum eina, norðan selsvalla. Ólafur Briem segir í bókinni Útilegumenn á Reykjanesfjallgarði frá þremur þjófum, sem getið er um í Vallnaannál 1703: …”á Vatnsleysuströnd. Þar stálu þeir síðast í Flekkuvík og fóru svo til fjalls upp og allt suður um Selsvöllu, þar tóku þeir sér hæli undir skúta nokkrum…. Leist þeim eigi að vera þar lengur og fóru norður með fjallinu í helli þann, er skammt er frá Hverinum eini. Voru þar síðan þrjár vikur og tóku þrjá sauði þar í hálsinum, rændu ferðamenn….” Leit hefur verið gerð að hellinum, en hella er sögð hafa verið lögð yfir op hans til að varna því að sauðfé félli þar niður um.

Hverinn eini

Vatnsstæði við Hverinn eina.

Stefnan var tekin á Þórustaðastíginn er liggur þarna í gegnum hraunið frá suðurenda Driffells og yfir að suðurenda Moshóls við norðanverða Selsvelli. Við hann var gerð leit að hugsanlegum skútum, en engir fundust með mannvistarleifum í. Jarðfall hefur hrunið niður norðan Moshóls og þar skammt norðar er gat niður í jörðina. Hvorutveggja var skoðað gaumgæfilega. Gatið skilaði einum árangri, en nánari skoðun á jarðfallinu gæti hugsanlega skilað einhverri niðurstöðu. Gróið er í botninn og steinar, sem ekki hafa ratað þangað að sjálfsdáðum, eru í jöðrum. Þetta þarf að skoða nánar við tækifæri.

Þá var stefnan tekin eftir selsstígnum norðan Selsvalla að Hvernum eina. Fréttir höfðu borist um það á göngunni að einhverju sinni hefði Hverinn eini verið notaður til brennisteinsnáms.
Í Landfræðissögu Íslands, bindi II, bls. 84-94, fjallar Þorvaldur Thoroddsen um Gísla Magnússon sýslumann Rangvellinga frá 1659. Gísli var einnig nefndur Vísi-Gísli sökum kunnáttu sinnar. Hann var hinn fyrsti lærði náttúrufræðingur á Íslandi og fór vítt um landið til þess að rannsaka steina og málma. Árið 1647 fékk Gísli á alþingi einkaleyfi til brennisteinsnáms.
Á bls. 87-88 segir „ Í bréfi dagsettu á Bessastöðum 4. sept. 1619 (það ár getur reyndar ekki staðiðst þar sem Gísli var ekki fæddur fyrr enn 1621, ártalið hlýtur að vera einhverntíma í kringum 1650) ritar Gísli Magnússon Birni syni sínum, er þá var við nám í Kaupmannahöfn, á þessa leið: „Þann brennistein, sem hér er að fá, hefi ég látið upptaka í sumar, sem er fáeinar lestir, svo sem fyrir lítið skip barlestarkorn; ég hefi látið leita í öllum Suðurfjöllum, ég hefi látið leita hjá Keilir og Móhálsum og var þar ei nema á 12 hesta að fá, item hefi ég látið leita á Reykjum í þeim öllum fjöllum, einnig í Henglafjöllum …“
Jóhanna og Viktor úr Vogunum, sem voru með í göngunni töldu víst að þar sem Gísli segist hafa látið leita „hjá Keilir“ og fengið einhver brennistein, geta verið í Hvernum eina, enda um fáa eða enga aðra staði er að ræða. Ummerki í hvernum eru líka þess eðlis, eins og brotist hafi verið niður eftir æðinni. Þar með er Hverinn eini ekki eingöngu náttúruminjar heldur einnig orðin sögulegar minjar.

Selsvellir

Rétt á Selsvöllum.

Þegar komið var að Hvernum eina sást vel hvernig svæðið umhverfis hans hafði verið nýtt í framangreindum tilgangi. Verkamenn höfðu brotið sér leið niður eftir brennisteinskjarnanum og kastað “hratinu” til hliðar og framan við hverinn.
Brennisteinn var fluttur út frá Íslandi allt frá 14. öld en hann var nauðsynlegur til púðurgerðar og því gat brennisteinsnám verið arðvænlegt. Konungur áttaði sig á þessu snemma og reyndi mikið að ná undir sig einkarétti á þessari verslun. Bændur áttu brennisteinsnámurnar og unnu í þeim en vinnslan fór þó aðeins fram hluta af ári þar sem vinnuaflið var bundið við landbúnaðarstörf mikinn hluta ársins og hefur það væntanlega komið í veg fyrir að hægt væri að gera brennisteinsvinnslu að arðvænlegum iðnaði.
Á miðöldum var íslenski brennisteinninn notaður til hernaðar og var einkum eftirsóttur á 15. og 16. öld þegar farið var að nota byssupúður en brennisteinn var einmitt nauðsynlegur til púðurgerðar þar sem honum var blandað saman við saltpétur og kol. Brennisteinn var útflutningsvara frá 14. öld en segja má að blómatími brennisteinsverslunar hér á landi hafi verið á 15. og 16. öld. Nokkuð var um brennistein á Íslandi en svo virðist sem brennisteinsvinnsla hafi hafist snemma hér á landi en elsta heimild um brennisteinsnám er frá 1279.
Brennisteininn er að finna á háhitasvæðum og var hann grafinn úr jörðu. Niels Horrebow, erlendur ferðamaður á Íslandi á 18. öld, lýsti aðförunum við moksturinn svona:
“Þegar heitt er í veðri þola menn ekki að vinna að brennisteinsgreftrinum á daginn. Þá er unnið á nóttunni, sem á sumrin er nægilega björt til þess. Menn þeir, sem að greftrinum eru, vefja vaðmálsdruslum um skó sína. því að annars myndu þeir brenna þegar í stað, en brennisteinninn er svo heitur, þegar hann kemur úr jörðinni að ekki er unnt að snerta á honum, en hann kólnar fljótt.”

Hverinn eini

Hverinn eini.

Brennisteinninn, sem grafinn var upp hér á landi, innihélt um 14-22% óhreinindi og þurfti því að hreinsa hann. Fyrr á öldum var hann þó fluttur út óhreinsaður en árið 1753 var á vegum Innréttinganna reist hreinsunarverk í Krísuvík og árið 1762 á Húsavík. Samkvæmt skýrslu voru um 72,5 tonn af brennisteini frá Krísuvík flutt út á árunum 1755-1763 á vegum Innréttinganna sem fengið höfðu einkaleyfi til að vinna og hreinsa brennistein um 1752.
Brennisteinninn var hreinsaður með vatni og lýsi og hann síðan bræddur í járnpotti sem yfirleitt var hitaður upp með mó. Einn slíkan ofan má finna í Brennisteinsfjöllum. Gæta þurfti þess að hita pottinn ekki um of því þá gufaði brennisteinninn upp. Við bræðsluna flutu óhreinindi og lýsi, sem notað var við bræðsluna, ofan á brennisteininum, sem fleytt var af með járnspaða. Brennisteininum var síðan hellt ofan í eikarmót gegnum síu og honum síðan raðað ofan í tunnur til útflutnings.
Verslun með brennistein gat verið arðbær en svo virðist sem bæði kirkju- og konungsvald hafi áttað sig á þessu snemma enda reyndu þau mikið til að afla sér einkaréttar á verslun með brennistein. Landið varð snemma frægt fyrir þetta gula efni en í tilraunum Danakonunga fyrr á öldum til þess að veðsetja landið var talinn mikill kostur að landið væri ríkt af brennisteini. Árið 1560 náði konungur undir sig brennisteinsversluninni en hagnaður hans af þeirri verslun fyrsta árið var nokkur. Hagnaðurinn fór síðan minnkandi og mátti m.a. kenna um lágu verði á brennisteini erlendis. Á fyrri hluta 18. aldar lifnaði þó aftur yfir brennisteinsversluninni en árið 1852 var ákveðið að hvíla brennisteinsnámurnar þar sem búið var að fara illa með þær og vinna í þeim í langan tíma en brennisteinninn hafði í raun ekki fengið að endurnýja sig. Undir lok 19. aldar var nokkur brennisteinsvinnsla í Krýsuvík.
Vitað er með vissu að síðast var numinn brennisteinn í Hvernum eina snemma árs 2006. Þá var og gerð tilraun til að baka þar hverabrauð með misjöfnum árangri. Í það skiptið var þó bætt um betur og braut etið þar jöfnum höndum með smérbræðingi.
Gufuhver sá er sagður var einn sá stærsti hér á landi og mun hafa sést vel frá höfuðborginni um tíma, en dó um 1918, var norðan við Hverinn eina. Svæðið allt ber vott um hverinn og er hið ágætasta minnismerki um það sem einu sinni var, en dó. Öllu ásættanlegra er að horfa á, finna og skynja það sem hefur dáið af sjálfsdáðum en allt það sem deytt er vísvitandi af fáfróðri mannskepnunni.
Loks var haldið eftir fyrrnefndum selsstíg norður með austanverðu Oddafelli og stefnan tekin á upphafsstað.
Gangan tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Árni Óla – Frásagnir – þjóðlífsmyndir frá ýmsum tímum – 1955.
-Landfræðissaga Íslands, bindi II, bls. 84-94, frá 1659.
-www.idan.is

Melhóll

Melhóll við Selsvelli.

 

Húshellir

Nafnið Fjallið eina hefur löngum vafist fyrir mörgum. Fjallið eina er ekki aðeins nafn á einu fjalli eins og ætla mætti, heldur þremur, ef fjöll skyldi kalla. Þau eru þessi:

Fjallið eina

Fjallið eina – dæmigerður stapi.

1) Móbergshnjúkur (223 m) skammt vestan við Krýsuvíkurveg, norður af Sveifluhálsi fyrir sunnan eða suðvestan Óbrinnishólabruna.
2) Ávöl alda (401 m) í Árnessýslu, austan undir Bláfjöllum í Reykjanesfjallgarði.
3) Lágt fell (210 m) í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu. Því er þannig lýst í örnefnaskrá: “Vestan við Höskuldarvelli er norðurendi á frekar lágu felli, sem er mjög langt og mjótt og liggur til suðurs. Heitir það Oddafell, stundum nefnt Fjallið eina.” (Örnefnaskrá Stóru- og Minni-Vatnsleysu). Sesselja G. Guðmundsdóttir segir í bók sinni, Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi, að við vesturjaðar Höskuldarvalla sé “Oddafell sem Þ. Thoroddsen kallar Fjallið Eina og er það eina heimildin um þetta nafn á fellinu. Líklega hefur verið einhver nafnaruglingur hjá Thoroddsen því Fjallið eina er til á þessum slóðum eða nokkrum kílómetrum norðaustan við Dyngjur.”

Hverinn eini

Hverinn eini.

Hér gæti verið komin skýring á staðsetningu útilegumanna á Reykjanesskaganum er kveður á um dvöl þeirra undir Núpshlíðarhálsi sunnan Selsvalla, en þeir færðu sig síðan norður með fjöllunum og fundu sér stað nálægt Hvernum eina. Menn gætu hafa verið að færa fjöllin og jafnvel hverina til eftir því sem þeir best þekktu. Þannig gæti Oddafellið hafa heitið Fjallið eina um stund þar sem Hverinn eini var þar. Menn gætu hafa tengt hann staðsetningu útilegumannanna. Þeir gætu því hafa haldið til í helli við Fjallið eina norðan Hrútargjárdyngju, sem reyndar er ekki svo langt í burtu, en þó í öryggri fjarlægð frá þeim stað, sem vitnaðist um þá við Selsvelli. Í Húshelli við Fjallið eina eru hleðslur og mannvistarleifar. Hellirinn er við gömlu þjóðleiðina upp frá Stórhöfða áleiðis til Krýsuvíkur.
Þetta er einungis hugmynd – og ber að virða hana sem slíka.

Húshellir

Op Húshellis.

Spákonuvatn

Í Andvara 1884 er hluti Ferðabókar Þorvaldar Thoroddsonar þar sem segir frá “Ferðum á Suðurlandi sumarið 1883”. En fyrst svolítið um höfundinn:

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen; 1855-1921.

“Þorvaldur Thoroddsen er fyrsti Íslendingurinn sem lagði jarðfræði fyrir sig í námi og starfi. Hann varð heimsfrægur fyrir rannsóknir sínar á jarðrænni gerð Íslands og þeim ferlum sem þar eru virk. Hann er með mikilvirkustu rithöfundum Íslandssögunnar og í raun landkönnuður Íslands, enda skoðaði hann landið allt að kalla, vítt og breitt, og snúast flest hans skrif um það og náttúrur þess. Fáir munu fyrr en á geimtækniöld hafa ferðast svo vítt um landið og haft jafn víða yfirsýn um það og hann hafði. Fáir hafa líka ritað meira um það en hann. Hjátrúar- og hindurvitnalaus ferðaðist hann á hestum um landið hátt og lágt sumar eftir sumar þegar fólk trúði því býsna almennt að hálendi landsins byggðu fjandsamlegir útilegumenn og þegar mestu harðindaár Íslandssögunnar réðu færð og veðrum.

Þorvaldur fæddist í Flatey á Breiðafirði 1855 og lést í Kaupmannahöfn 1921. Foreldrar hans voru Jón Thoroddsen (1818-1868) skáld og sýslumaður og kona hans Kristín Ólína Þorvaldsdóttir (1833-1879). Á bak við þau bæði eru ættir athafna- og dugnaðarmanna sem hafa haft áhrif á Íslandssöguna. Þorvaldur lærði undirstöðufög í heimahúsum, en ellefu ára gamall fór hann frá foreldrum sínum til Jóns Árnasonar stiftsbókavarðar og konu hans í Reykjavík til þess að búa sig undir skóla. Þorvaldur kom í Lærða skólann 13 ára gamall árið 1868 og varð þaðan stúdent árið 1875. Hann útskrifaðist með 2. einkunn, næstlægstur sinna félaga, og þótti aldrei sérstakur námsmaður í þeim skóla. Fyrir því er þekkt ástæða sem ekki lýtur að skorti á námsgáfum.

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen – Lýsing Íslands.

Þorvaldur varð kennari í nýstofnuðum Möðruvallaskóla árið 1880 og var þar til 1884. Hann var kennari við Lærða skólann frá 1885 til 1895. Árin 1884-1885 var hann á ferðalagi erlendis til náms og gagnasöfnunar og hann var aftur erlendis 1892-1893, þá orðinn vel þekktur fræðimaður. Árið 1895 flutti Þorvaldur alfarinn til Kaupmannahafnar og sat þar við fræðastörf og skriftir það sem eftir var ævinnar.
Þorvaldur notaði sumrin á milli kennslumissera til rannsókna og fór í kerfisbundna leiðangra um landið allt á árunum 1882-1898.
Þorvaldur ThoroddsenÚr þessum rannsóknum kom aragrúi ritgerða og bóka sem lýstu og útskýrðu landið og náttúrur þess. Segja má að landið hafi verið óþekkt jarðfræðilega þegar hann byrjaði, aðeins til fáeinar greinargerðir á víð og dreif eftir hina og þessa, mest útlendinga og mest ómenntaða menn á sviði jarðfræði. Þegar hann lauk sínum skrifum var til heildarmynd svo glögg og yfirgripsmikil að enginn jarðfræðingur sem unnið hefur á Íslandi hefur komist hjá því að fara í fótspor hans og byggja á þeirri frumþekkingu sem hann dró saman. Hann var ekki sérfræðingur með þröngt áhugasvið heldur víðsýnn fræðimaður og landkönnuður sem las alla þá náttúru sem fyrir augun bar og gerði grein fyrir henni.

Þorvaldur ThorodddsenRitstörf Þorvaldar voru með eindæmum mikil og margbreytileg, allt frá stuttum athugasemdum upp í fjögurra binda stórvirki. Landfræðisagan kom í fjórum bindum á árunum 1892-1904 og er nú nýlega endurútgefin (2003-2009), þýsk útgáfa af sama verki kom út í tveimur bindum 1897-1898, Landskjálftar á Íslandi í tveimur hlutum 1899 og 1905, endurbætt 2. útgáfa af Lýsingu Íslands kom út árið 1900, jarðfræðikort af Íslandi í kvarðanum 1:600.000 frá árinu 1901, Island, Grundriss der Geographie und Geologie ásamt nýrri útgáfu af jarðfræðikortinu í kvarðanum 1:750.000 kom út 1906, og stórlega endurbætt Lýsing Íslands í tveimur bindum árin 1908 og 1911 og tvö viðbótarbindi um landbúnað á Íslandi á árunum 1917-1922.

Þorvaldur Thoroddsen

Ferðabókin kom út í fjórum bindum árin 1913-1915 og aftur 1958-1960, Árferði á Íslandi 1915-16 og þriðja útgáfan af stuttu Íslandslýsingunni árið 1919 og fleira mætti telja. Á árunum 1909-1912 ritaði hann einnig hið mikla verk sitt um íslensk eldfjöll, Geschichte der Isländischen Vulkane, sem þó kom ekki út fyrr en að honum látnum. Auk þessara bókverka komu á þessum árum ótal greinar, stuttar og langar, í ýmsum blöðum og tímaritum, íslenskum og erlendum, alþýðlegum og hávísindalegum, um ýmis efni, langflest náttúrufræðileg.
Ísland er ólíkt öðrum löndum og því var Þorvaldur að fást við annað en fræðimenn á sama sviði erlendis. Fyrir vikið er afar margt í skrifum hans sem ekki finnst annars staðar á prenti á þessum tímum. Hann varð enda heimsfrægur fyrir störf sín og mun frægari erlendis en samtímamenn hans hér heima gerðu sér grein fyrir. Dagblöð allt frá New York til Moskvu sögðu frá ferðum hans og uppgötvunum. Honum hlotnuðust líka ótal viðurkenningar erlendis fyrir framlag sitt. Þar á meðal eru viðurkenningar frá virtustu vísindafélögum og akademíum beggja vegna Atlantshafs. Ein þessara viðurkenninga er Dalyorðan frá ameríska landfræðifélaginu sem jafnað hefur verið til Nóbelsverðlauna, sem ekki eru veitt fyrir jarðvísindi. Hér heima var honum lítill sómi sýndur.”

Í “Ferðum á Suðurlandi 1883” segir m.a. um Trölladyngjusvæðið:
Andvari“Úr Grindavík fórum við austur á við fram hjá Hrauni, upp háls hjá Festarfjalli og að Ísólfsskála. Móberg er hjer í fjöllunum, en þó víða dálítil dólerít-lög ofan á. Festarfjall gengur þverhnýpt fram í sjö; austan við það er Ísólfsskáli. mjög afskekktur bær, og taka við hraun rjett fyrir austin túnið. Þau hraun hafa runnið úr gígum vestan við Núpshlíðarháls. Frá Ísólfsskála riðum við upp á Selvelli við Núpshlíðarháls.

Á leiðinni er á einum stað á hálsi nokkru fyrir austan Ísólfsskála svo kallaður Drykkjarsteinn. Það er stór móbergsteinn með djúpum holum í; sezt þar stundum vatn í holurnar, og er það kærkomið ferðamönnum í sumarhita. Við riðum yfir sljettuna vestan við Núpshlíðarháls; er hún öll þakin hrauni: hraun þetta hefir komið úr mörgum gígum, sem eru ofarlega og neðarlega við hálsinn; fellur það niður að sjó milli Núpshlíðarháls og Mælifells vestra, og eru þar í því tveir breiðir hraunfossar, áður en það kemur niður á ströndina; breiðist það síðan út vestur að Ísólfsskála og austur undir Selatanga; en þar hefir Ögmundarhraun runnið yfir það.

Frykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Fram með vesturhlíðum Núpshlíðarháls er víðast mjög grösugt og fallegt land milli hrauns og fjalls. Komum við fyrst að Hraunsseli; það er nú í rústum, en ágætt gras er í kring og dálítil vatnsdeiglu í klettunum fyrir ofan. Rjett fyrir norðan þetta sel hafa nokkrir hraunlækir streymt út úr hlíðinni niður í aðalhraunið, en eigi eru þar verulegir gígir; hraunið hefir beinlínis gubbast út um sprungu í fjallinu. Alla leið norður á Selvelli eru stórir gígir í röð í hrauninu fyrir neðan hálsinn.

Selsvellir

Selsvellir – seljatóftir.

Selvellir eru stórar grassljettur norður með hálsinum norðanverðum, allt norður fyrir Trölladyngju; er þar ágætt haglendi og vatn nóg: lækur, sem fellur úr hálsinum niður undir hraunin. Þar hefir áður verið sel frá Stað í Grindavík, en er nú af tekið; nú hafa menn þar nokkurs konar afrjett, og reka þangað fje og hesta, enda er þar fríðara land og byggilegra, en víða þar, sem mikil byggð er; væri þar nóg land fyrir 2-3 bæi, því bæði eru slægjur nógar á völlunum og ágæt beit í hálsinum.
Við settumst að hjá læknum á Selvöllum, bjuggum þar sem bezt um tjald vort og dvöldum þar nokkra daga, til þess að skoða hraunin og fjöllin í kring.

Oddafell

Oddafell – Keilir fjær. Þorvaldur nefnir Oddafellið “Fjallið eina”.

Fyrir vestan Selvelli eru tvö fjöll eða hálsar; heitir annar Driffell, en nokkru neðar er »Fjallið eina«.

Mitt á milli Driffells og Trölladyngju, sem er á norðurendanum á Núpshlíðarhálsi, er »Hverinn eini«, mitt út í stóru hrauni norður af gömlum gíg, og suður af “Fjallinu eina”. Í hrauninu er kringlótt skál, 14 fet að þvermáli; í henni er hverinn; það er sjóðandi leirhver. Í botninum liggja hraunbjörg; milli þeirra koma upp gufumekkir, og í kring um þau er bláleitur leirgrautur; sýður og orgar í jörðinni, þegar gufurnar þjóta upp um leðjuna. Hraunsteinarnir eru dálítið sundurjetnir af hinum súru hveragufum og hjer og hvar sjást dálitlir brennisteinsblettir. Hjer um bil 3—4 faðma fyrir norðan »Hverinn eina« er gömul hverahrúðursbreiða; þar er nú enginn hiti; en áður hafa heitar vatnsgufur komið upp um 4 eða 5 op; hverahrúðrið er smágjört, í flögum, og dálítið af sundursoðnum leir og brennisteini innan um hrúðrið; breiðan er 130 fet frá norðri til suðurs, og 150 fet frá austri til vesturs. Úr »Hvernum eina« leggur stækustu brennisteinsfýlu, svo mjer ætlaði að verða óglatt, er jeg stóð á barmi hans. í góðu veðri sjest gufustrókurinn úr þessum hver langt í burtu.

Keilir

Keilir.

Frá Selvöllum fórum við upp á Keilir (1239′); fórum fram hjá Driffelli yfir mikil og úfin hraun, og var þar víða illt að fara. Tilsýndar gætu menn ímyndað sjer eptir löguninni á Keilir, að hann væri gamalt eldfjall, en svo er eigi; hann hefir aldrei gosið; hann er móbergsstrýta með dólerít-klöppum efst uppi. Keilir er strýtumyndaður og mjög brattur ; norður úr honum gengur þó öxl eða rani, svo þar er bezt að komast upp. Litlir mórauðir móbergstindar standa fyrir norðan rætur hans, og eru kallaðir Keilisbörn. Við göngum upp öxlina. Hún er miklu dökkleitari en bergið í kring, af því að hún er mestmegnis úr kolsvörtum hraunmolum þegar ofar dregur verður miklu brattara; þar er lausaskriða ofan á, en sumstaðar sljettar móbergsklappir; þó má nokkurn veginn festa fót á þeim, því smáir hraunmolar standa út úr móberginu eins og oddar og gera það hrufótt. Gekk nokkuð örðugt að sneiða sig upp skriðurnar og móbergsklappirnar, en þegar kom upp á dólerít-klappirnar var það allt ljettara.

Trölladyngja

Gömul FERLIRsmynd tekin við Trölladyngju. Keilir fjær.

Efst er Keilir lítill um sig, og er þar lítill flatur kringlóttur melur, og varða á melnum, sem líklega hefir verið byggð þegar strandmælingarnar voru gjörðar. Móbergið í Keilir er mjög einkennilegt og óvanalega ljett; kemur það af því, að í því eru víða vikurmolar í stað basaltkenndra hraunmola, sem optast eru í móbergi. Keilir stendur einstakur upp úr afarmikilli hraunbungu, sem hefst uppi við Fagradalsfjall, en hallast jafnt og þjett niður að sjó; úr Njarðvík og af Suðurnesjum sjest þessi hraunbunga glöggt, því þaðan tekur rönd hennar sig upp yfir lægri hraunin, sem utar eru á nesinu. Af Keilir gjörði jeg ýmsar mælingar. Þaðan er bezta útsjón yfir Eeykjanesskagann, Innnes og Faxaflóa; sjest þaðan allt frá Eldey og austur í Kálfstinda. þaðan sjest vel, að Strandahraunin gömlu koma úr krikunum uppi við Fagradalsfjöll, en eigi varð jeg þar var við gígi. Sumir kalla hraunin vestur af Keilir Þráinskjölds- eða Þráinskallahraun. Nýleg hraun hafa á einum stað fallið frá Fagradalsfjöllum vestan við gömlu hraunin, er Keilir stendur á; ná þau að vestan hjer um bil saman við Eldvarpahraun, en hafa fallið niður fyrir Vogastapavatn að austan. Dálítill hver sjest í hrauninu fyrir ofan Vogastapavatn; gufustrókur stóð þar beint upp í loptið. Ágætlega sást yfir hraunin hjá Selvöllum, Trölladyngjuhraunin og hraunin frá Undirhlíðum og Máfahlíðum. Afstapahraun hefir runnið alveg niður í sjó hjá Kúagerði og armur úr því nær töluvert til vesturs; mestur hluti þessa hrauns hefir komið frá Trölladyngju, en þó virðist töluvert hafa komið úr gígunum við Máfahlíðar. Upp úr Afstapahrauni ofauverðu stendur einstakt móbergsfell, sem heitir Snókafell. Strandahraun eru þau hraun, sem liggja fyrir vestan Afstapahraun, en hinn eiginlegi Almenningur er á milli Afstapahrauns og Kapelluhrauns.

Driffell

Driffell. Trölladyngja fjær.

Almenningshraun eru afargömul og líklega komin undan Máfahlíðum, Undirhlíðum og ef til vill nokkuð úr Trölladyngju. Milli Keilis og Trölladyngju eru tvö fell, sem áður var getið um, Driffell sunnar og vestar, en “Fjallið eina« norðar. “Fjallið eina” er mjög langur, en lágur háls, rjett við Dyngju, og graslendi á milli og dálítil gömul hraun. Úr ýmsum gígum við Selvelli hefir hraun runnið norður á við milli »Fjallsins eina« og Driffells, og milli Driffells og Keilis eru þau bæði nýleg og úfin; koma þau svo saman við Afstapahraun og önnur eldri Dyngjuhraun; verður þar allt í graut, svo eigi er hægt að greina sundur, því allt er umturnað og öfugt, þar sem öll þessi hraun koma saman. Við norðurendann á Driffelli hefir hraunröndin sprungið frá, er það rann, og standa þar sljéttar hraunhellur 2—3 mannhæðir á hæð, reistar á rönd, þráðbeint upp í loptið. Sum hraunin úr gígunum við Selvelli hafa runnið suður á við niður að Selatöngum, eins og fyrr er getið.

Selsvellir

Moshóll á Selsvöllum. Driffell og Keilir fjær.

Daginn eptir að við gengum upp á Keilir var veðrið svo illt á Selvöllum, að eigi var hundi út sigandi, óg næstu nótt á eptir var svo mikið hvassviðri og húðarigning, að tjaldið ætlaði um koll, og oss kom ekki dúr á auga. Þar við bættist, að vætan varð svo mikil alstaðar, að hvergi var hægt að fá þurran blett til að liggja á, því jörðin saug í sig vatnið eins og svampur, og urðum við allir gagndrepa, þrátt fyrir regnföt og annan umbúnað. Þegar veður er svo, er eigi hægt að rannsaka eða mæla, og sáum við oss því ekki annað fært, en að ílýja til byggða. Húðarigning var, þegar við fórum af stað, og svartaþoka í hálsinum; klöngruðumst við þó upp hálsinn, þó illt væri að koma hestunum, og komumst eptir nokkra hrakninga á stíg niður að Vigdísarvöllum; fórum við síðan yfir Sveifluháls Hettuveg að Krýsuvík. Vegur þessi er mjög brattur og liggur hátt. Þar eru enn þá efst í hálsinum ýmsar hveraleifar, sundursoðinn jarðvegur og brennisteinsblandinn á stöku stað. Dvöldum við síðan nokkra daga í Krýsuvík hjá Árna sýslumanni í góðu yfirlæti.

Hettustígur

Hettuvegur.

Áður en jeg fór af Selvöllum hafði jeg skoðað nokkuð af Trölladyngju, og nú fór jeg nokkrar ferðir þangað frá Krýsuvík, þegar veðrið var orðið bærilegt, og mældi þar og skoðaði eins nákvæmlega og jeg gat; fjallið er þess vort, því það er eitt með meiri eldfjöllum á Íslandi.

Núpshlíðarháls, sem opt hefir verið nefndur, er hjer um bil 2 mílur á lengd, og gengur frá suðvestri til norðausturs nærri niður að sjó upp af Selatöngum, og nær norður undir Undirhlíðar, hjer um bil jafnlangt og Sveifluháls. Háls þessi er allur úr móbergi, allhár, víðast 12—1300 fet og sumstaðar hærri; ofan á honum eru víðast 2 jafnhliða hryggir, með mörgum kömbum og nybbum, tindum og skörðum. Við háls þennan hafa orðið mikil eldsumbrot, og eru langar gígaraðir beggja megin. Nyrzti endinn á Núphlíðarhálsi klýfst í sundur í tvær álmur og er Trölladyngja á vestari álmunni.

Trölladyngja

Mávahlíðar fyrir miðju – Trölladyngja og Grænadyngja fjær. Mávahlíðahnúkur t.v.

Framhald af eystri álmunni eru Máfahlíðar, og eru þær nokkurs konar hjalli niður af Undirhlíðum, sem ganga norður og austur frá endanum á Sveifluhálsi; þó eru á Máfahlíðum dálitlir hvassir móbergstindar. Dalurinn milli Núphlíðarháls og Sveifluháls er fullur af hraunum, og hafa þau öll komið upp að vestanverðu úr gígum, sem annaðhvort eru utan í hálsinum eða rjett fyrir neðan hann; úr Sveifluhálsi hafa hvergi hraun runnið, og par eru engir gígir nema nokkrir mjög gamlir allra syðst í honum. Undan Máfahlíðum hafa mikil hraun runnið, og eru flest nýleg og mjög ill yfirferðar eða því nær ófær gangandi mönnum. Rjett fyrir neðan efsta toppinn á Máfahlíðum er stór gígur, allur sundurtættur af eldsumbrotum, og hlaðinn upp úr stórum hraunstykkjum; hallinn á þessum gíg er um 30°, en hæðin að eins 73 fet; hraunin frá Máfahlíðum hafa runnið vestur á við í mörgum breiðum kvíslum niður í Dyngjuhraunin og saman við efsta hlutann af Afstapahrauni ; í hraunum þessum eru víða stórar sprungur og djúpar; var ís í botninum á sumum. Dalurinn milli Núphlíðarháls og Sveiflubáls er mjög mjór rjett fyrir ofan Vigdísarvelli, því að þar slaga álmur úr Núphlíðarhálsi og smáfell út í dalinn; fyrir neðan þessi fell eru ýmsir gamlir smá-gígir og stdrar raðir af nýrri gígum, sem Ögmundarhraun hefir runnið úr, og skal þess síðar getið.

Eldborg

Eldborg norðan Trölladyngja. Lambafell fjær.

Trölladyngja er stór hnúður á endanum á Núphlíðarhálsi, eins og fyrr var sagt; er lægð mcð mörgum dalverpum í hálsinn fyrir sunnan Dyngjuna og má ríða þar yfir frá Djúpavatni, sem er austan við hálsinn, og yfir á vellina fyrir austan Fjallið eina. í lægðinni eru 4—500 feta djúp gil, sem eru kölluð Sog; skiptast þau í tvö aðaldrög að ofan og mörg smærri efst, en sameinast niður að sljettunni gagnvart Fjallinu eina; í giljum þessum er lílið vatn, en þau hafa samt grafið sig svo djúpt niður í móbergið; hefir þar áður verið fjarskalegur jarðhiti, því allt er þar sundursoðið af hveragufum, og er móbergið í hlíðum þeirra orðið að eintómum leir, sem víðast er rauður, en sumstaðar eru aðrir litir, hvítir, gulir og bláir. Enginn er þar jarðhiti nú svo nefna megi; jeg sá að eins á einum stað neðst í grófinni 3 litla reyki koma út úr berginu. Sunnan við Sogin uppi á fjallinu rjett fyrir ofan þau er leirhver utan í barði; þar bullar rauðleit leðja upp úr mörgum smáholum; hiti er þar 78° C. Í “Fjallinu eina” beint á móti Sogum hefir og verið jarðhiti, því þar sjest upplitað og sundur soðið móberg, og gufar upp úr hrauninu fyrir neðan. Uppi á fjallinu suður af leirhverunum, er jeg síðast nefndi, er vatn í dálítilli hvylft og er kallað Grænavatn. Hin eiginlega Dyngja er fyrir norðan Sogin; eru á henni tveir hnúkar úr móbergi, hinn eystri breiður um sig og kollóttur, en hinn vestari hvass og miklu brattari; djúp rauf er á milli hnúkanna norður úr. Norður af eystri hnúknum gengur langur rani, og úr honum hafa mestu gosin orðið; utan í röndinni á rananum vestanverðum er röð af fjarskalegum gígum. Hefir raninn klofnað að endilöngu og gígirnir myndazt í sprungunni; sjest sprungan sumstaðar í móbeiginu og hallast hraunhrúgur gíganna upp að eystri vegg hennar. Tveir syðstu gígirnir eru langstærstir: hinn syðsti 236 fet á hæð yfir hraunið fyrir vestan, og hallast 34°, en úr því taka við margsamtvinnaðir gígir norður úr, milli 20 og 30 að tölu.

Sogagígur

Sogagígur.

Vestur af gígaröðinni er snarbratt, og hefir hraunið fallið niður í samanhangandi fossi, fyrst úr sprungunni og síðan úr gígunum, er þeir voru myndaðir. Hraunið hefir verið svo seigt og runnið svo hægt úr sumum af minni gígunum, að þeir eru eins og gleraðir pottar með sívölum sljettum röndum; sumstaðar eru eins og stampar af steyptu járni. Fyrir neðan gígaröðina að vestan er lóng sprunga og hefir líka runnið úr henni seigfljótandi hraunleðja, svo barmar hennar eru allir gleraðir af þunnum og þjettum hraunskánum. Uppi í raufinni milli eystri og vestari hnúksins eru og gígir.

Úr öllum þessum gígum hefir komið afarmikið hraunflóð, og eru það upptök Afstapahraunsins, sem hraunin frá Máfahlíðum hafa síðan runnið saman við. Hraunið allt vestan við Dyngjuranann hefir sokkið við gosið líkloga 100—200 fet. Beint norður af vestari Dyngjuhnúknum er stór mjög gamall rauður gígur, rúm 70 fet á hæð (halli 25°). Sunnan við þennan gíg, milli hans og vestari hnúksins, er töluverður hiti í hrauninu; koma vatnsgufur þar upp um ótal göt; er hitinn þar víðast 40—60° C, en í einu opi voru 78°. Fyrir vestan vestari hnúkinn eru sljettir vellir yfir að Fjallinu eina, og eru þeir áframhald af Selvöllum; þeim megin eru nokkrir smágígir gamlir utan í bnúknum, sem hraun hefir runnið úr, og sumstaðar hefir það spýtzt úr sprungunum án þess gígir mynduðust. Móbergið í endanum á vesturhnúknum hefir á einum stað sprungið í sundur, og stendur sú sprunga lóðrjett á eldsprungunni í eystri rananum, en ekkert hraun hefir þar upp komið.

Sogin

Sogin. Keilir fjær.

Elztu gosin, sem orðið hafa úr Trölladyngju, hafa komið sunnar, rjett við Sogin, enda er þar utan í hlíðunum sá urmull af gömlum stórum gígum, að varla verður tölu á komið. Hafa eldsprungurnar myndazt hver við hliðina á annari, og verið svo þjett, að gígirnir virðast standa í hrúgum; en þó má sjá hina vanalegu stefnu frá norðaustri til suðvesturs, þegar vel er að gáð. Fyrir norðan vesturendann á Sogunum niður undir jafnsljettu er ein gígahrúgan; þar eru að minnsta kosti 30 gígir, en allir svo gamlir, grónir mosa og fallnir saman, að illt er að greina hina smærri. Einn hinn stærsti er neðst við Sogalækinn; hann er opinn til suðurs og eins og skeifa í lögun og í botni hans stór grasi vaxinn völlur. Fyrir sunnan lækinn, ofan frá Grænavatni niður á jafnsljettu og suður með fjalli, suður að hrygg, sem gengur út úr Núphlíðarhálsi vestur undinn Hverinn eina, er mesta mergð af gígum (að minnsta kosti 80—100 að tölu). Þeir eru í mörgum röðum utan í hlíðinni og sumir geysistórir. Nyrzt og hæst upp í hlíðinni, við neðri rönd Grænavatns, er einn af stærstu gígunum; hann er að eins hjer um bil 40 fet hærra upp að ofan en yfirborð vatnsins, en hjer um hil 300 fet er hann á hæð að neðanverðu niður að jafnsljettu; hryggur skiptir gíg þessum í tvennt; hann er 140 fet á dýpt og 1700 fet að ummáli. Fyrir neðan hann, rjett niður á jafnsljettu, er kringlóttur “sandgígur, fiatvaxinn (halli 2—3°), og lágur, en mjög stór ummáls (2400 fet). í kring um þessa stóru gígi og suður af þeim er mesti sægur af smærri gígum; þó þeir sjeu eigi mjög stórir í samanburði við þessa, þá eru þeir þó allmerkilegir að mörgu leyti, sumir snarbrattir að innan, aðrir eins og skálar og bollar. Syðsti gígurinn rjett við Selvelli er langstærstur; stendur önnur hlið hans utan í hlíðinni, en hin niðri á völlum; hann er aflangur og opinn í báða enda og yfir 3000 fet að ummáli; innan í honum hafa margir smærri gígir myndazt. Norður af þessum stóra gíg sitja margir smáir utan í hlíðinni, eins og vasar.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall. Nauthólar nær.

Þess er nokkrum sinnum getið í annálum, að Trölladyngjur hafi gosið ; en optast er gosið að eins nefnt, án þess frekari frásögn sje um það, og verður þá eigi sjeð, hvort átt er við þessar Trölladyngjur eða eldfjall með sama nafni í Ódáðahrauni: en hvergi er beinlínis sagt, að Trölladyngjur í Ódáðahrauni hafi gosið; verður eigi skorið úr þessu fyrr en þetta eldfjall er skoðað, en það hefir enginn enn þá gjört, enda er enginn hægðarleikur að komast þangað. Getið er um fimm gos í Trölladyngjum, fyrst 1151. fá segir svo: “Var eldur í Trölladyngjum, húsrið og manndauði”.

Ár 1188 »eldsuppkoma í Trölladyngjum« (Ísl. ann. bls. 76).

Selvogsgata

Selvogsgata. Bláfeldur fjær. Honum hefur oftlega verið kenndur við “Trölladyngju” í fornum sögnum.

Ár 1340 segir Gísli biskup Oddsson, að eldur hafi verið í Trölladyngjum, og að hraun hafi hlaupið þaðan og niður í Selvog. Að hraun hafi runnið úr Trölladyngju niður í Selvog, er ómögulegt, því tveir háir fjallgarðar eru á milli; hefir þetta verið sagt af ókunnugleika þeirra, er skrifsettu þetta; hraun þetta kom úr eldgígum í Brennisteinsfjöllum, sem fyrr er getið. Í Flateyjarannál er getið um eldgos úr Trölladyngjum 1360, »ok eyddust margir bæir í Mýrdal af öskufalli, en vikurinn rak allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snjófellsnesi«. Mikil líkindi eru til, að hjer sje átt við Trölladyngju á Reykjanesi. Veturinn 1389—90 var víða eldur uppi á Íslandi; þá brann Hekla. Síðujökult og Trölladyngja; segir Espólín (Árbækur I, bls. 110) að Trölladyngja hafi hrunnið allt suður í sjó og að Selvogi. Hjer or sama villan og við gosið 1340, nefnilega, að brunnið hafi að Selvogi. Vera má að þá hafi brunnið gígirnir, sem ná frá Trölladyngju og allt suður undir sjó vestan við Núphlíðarháls, og hraunið myndazt, er fallið hefir þar niður austan við ísólfsskála. Eitthvað er blandað málum með þessi Trölladyngjugos flest, og hefir það komið af ókunnugleika annálaritaranna; fjöllin hjer syðra eru öll svo eldbrunnin, og hjer eru svo margir gígir, að menn hafa eigi getað greint sundur hina einstöku gosstaði, og hafa öræfin og hraunin þó líklega verið byggðamönnum í kring lítt kunn, og svo er enn. Á hraununum við Trölladyngju er auðsjeð, að sjálf Dyngjan hefir eigi gosið opt síðan land byggðist; hið eina hraun, sem nokkuð kveður að, og auðsjeð er að paðan hefir komið síðan á landnámstíð, er Afstapahraun; aptur hafa þaðan komið mörg og mikil gos áður. Í fjöllunum í kring, hæði í Máfahlíð og Núphlíðarhálsi, hefir og eflaust gosið síðan land byggðist.”

Heimild:
-Andvari, 1. tbl. 01.01.1884, Ferðir á Suðurlandi sumarið 1883, Þorvaldur Thoroddsen, bls. 47-57.
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=58559

Trölladyngja

Trölladyngja. Vættur fjallanna nær.