Sundhnúkur

 Gengið var frá Melhól og upp með hrauntröð að Hagafelli. Ætlunin var að setja stefnuna til norðurs frá Gálgaklettum með austanverðum Sundhnúk áleiðis að Sýlingafelli, venda síðan til austurs inn í Dalahraun, upp á Vatnshæð og fylgja loks niðurdölum Hagafells bakleiðis aftur að Melhól.

Svæðið

Þorbjarnarfell, Hagafell, Sundhnúkur og Svartsengisfell (Sýlingafell) – kort.

Þeir/þau, sem ekki þekkja til örnefnanna eru jafnnær við framangreinda lýsingu. Hin/ir, sem þekkja til þeirra, eru líka jafn nær því bæði er Melhóllinn horfinn og Sýlingafellið er öllu jöfnu nefnt Svartsengisfell. Enn færri, ef einhverjir, vita hvar Dalahraun er. Byrja þarf því að reyna að lýsa fyrir lesandanum staðháttum.
Þegar komið er upp fyrir Selháls milli suðvestanverðs Hagafells og norðaustanverðs Þorbjarnarfells eftir Grindavíkurveginum að norðan hefði Melhóllinn átt að blasa við sjónum. Hann var fyrrum á mörkum Hóps og Járngerðarstaða, en hefur nú að mestu verið tekinn undir Grindavíkurveginn. Í sjálfu sér má segja að framkvæmdin, þ.e. vegagerðin, hafi verið nauðsynleg úrbót til framfara á gömlu vegarstæði (síðan 1918) þess tíma, en aftur á móti má efast um að slík skammsýni hafi í raun leitt til framfara. Hafa ber í huga að óraskaðar náttúruminjar sem Melhóll er ávísun á stóraukinn áhuga ferðamanna til lengri framtíðar litið, en ferðaþjónustan er að verða sú atvinnugrein er “skaffar þjóðarbúinu” hvað mestar tekjur.
falleg hrauntröð við fjallið.

Hrauntröð syðst í Sundhnúkagígaröðinni

Hrauntröð sunnan Hagafells. Þorbjarnarfell fjær.

Fjarlægður Melhóllinn ætti að verða öllum skammsýnum verðug áminning um að bera jafnan virðingu fyrir þeim, sem horfa vilja lengra fram á veginn.
Hagafell er suðurendi Svartsengisfells (Sýlingafells). Siðaustasti hluti þess hefur náð að rísa einna hæst í gosi á sprungurein undir jökli á síðasta kuldaskeiði (>11.000 árum síðan).
Á og undir suðuröxlinni eru gígar, leifar gígaraðar Sundhnúka, 
sem er um 8 km löng og áfram að Sundhnúk sem er aðal gígurinn og stendur hann norðan við Hagafell. Í suðaustanverðu Hagafelli, þeim hluta er reis hæst, eru Gálgaklettar.

Hagafell

Hagafell – loftmynd.

Þegar hér er komið er nauðsynlegt að “bakka” svolítið í hinni nánustu umhverfissögu svæðisins því í Þorbjarnarfelli er annað örnefni er tengjast Gálgaklettsnafninu, þ.e. Þjófagjá í Þorbjarnarfelli, auk þess sem undir fellinu að norðanverðu eru Baðsvellir.
Þorbjörn eins og fjallið er oftast kallað er um 243m hátt og að mestu úr bólstrabergi og bólstrabrotabergi, hefur orðið til við gos undir jökli. Slíkt berg er myndað úr bólstrabrotum eins og nafnið gefur til kynna. Það einkennist af kubbum sem á einn kant hafa svarta glerhúð en eru að öðru leyti ekki frábrugðnir basaltmolum sem koma fyrir í þursabergi. Það er smáholótt og brotnar auðveldlega í eins konar stuðla sem mynda, sem næst rétt horn við glerkennt og þétt yfirborðið. Innan um eru reglulegir, heilir bólstrar. Það sem er sérstakt við þetta fjall er að það er klofið að endilöngu af sprungum og í því er sigdalur.

Í Gálgaklettum

Gálgaklettar í Hagafelli.

Þjóðsaga er til af þjófunum er héldu til í Þjófagjá og á Baðsvöllum. Til að gera langa sögu stutta voru þeir handteknir eftir brellur í laug á Baðsvöllum og síðan hengdir skýrslulaust í Gálgaklettum í Hagafelli – þarna skammt austar.
Þarna á hæstu hæðum ofan Grindavíkur var hið ágætasta útsýni og því kjörinn vettvangur til að rifja upp landamerki Grindavíkurjarðanna, Jángerðarstaða, Hóps, Þórkötlustaða og Hrauns.
Í landamerkjabréfi Járngerðarstaða, dags. 19.10.1823, þinglýst 21.06.1889 segir m.a.: “…..að vestan byrjuð : Frá Markhól við sjóinn beina stefnu í Stapafellsþúfu, þaðan í Arnarstein fyrir ofan Snorrastaðavatnsgjá, úr Arnarsteini í þúfuna á Skógfelli-litla, þaðan í þúfuna á Stagafelli [Hagafelli], þaðan beint fram í Markalón á Hópsrifi…. Landamerkjalýsingu mótmælt af eigendum Hóps og Húsatópta…”

Hagafell

Gígaröð sunnan Hagafells – loftmynd.

Í landamerkjabréfi Hóps, dags. 08.06.1889, þinglýst 20.06.1890, segir m.a.: “…..að vestanverðu frá stórstraumsfjöruborði eftir Miðós á vestara Hóprifi upp fyrir vestan Langatanga sjónhent að marbakka, að þar merktri fastri klöpp. Að austanverðu frá stórstraumsfjöruborði eftir Miðós á vestara Hóprifi að merktri klöpp fyrir miðju Markalóni (sem er fyrir austan digru Sigguvörðu á Þórkötlustaðanesi), þaðan sem sama sjónhending ræður hæst á Stóra-Skógfelli, þaðan á hæsta hnjúk á Litla- Skógfelli, þar á móts við landamerki jarðarinnar Járngerðarstaða. Þar eð óglöggt hefur verið að ákveða glögg heiðarlandamerki milli jarða þessara, þá hefur eigandi jarðarinnar Járngerðarstaða, samþykkt að jörðin Hóp skyldi eiga hér eftir óátalið 1/5 af öllu heiðarlandi þessara jarða, sem er rétt hlutfall samanborið við forngildi beggja jarðanna.”

Hellir í Sundhnúkagígaröðinni

Sundhnúkahellir norðan Sundhnúks. Sýlingafell (t.v.) og Stóra-Skógfell.

Í örnefnalýsingu fyrir Hóp segir hins vegar: “En í vesturenda hans eru merkin móti Hrauni og í Melhól, sem er þar vestur af. En aftur á móti er niðri í nesinu, á merkjum móti Hópi, svonefnt Markalón.” Hér bendir til að efri takmörk Hópslands hafi verið við Mehól. Þá segir: “Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes. Ofar eru Þorbjarnarfell, Hagafell, Sýlingafell og Húsafell.

Þorkötlustaðanes er allmikið nes, er gengur hér fram í sjó. Vesturhluti þess tilheyrir Hópi. Nokkuð framarlega í nesinu á merkjum er lón, sem heitir Markalón. Þar við er klöpp, sem er á merkjum… Þá rís hér upp fell, sem syðst heitir Hagafell. Þetta er frekar lágt fell. Norðan í því er klettabelti, sem heitir Gálgaklettar. Þar segir sagan, að þjófarnir úr Þjófagjá hafi verið hengdir. Norðan þeirra verður fellið slétt að ofan og nafnlaust, þar til á austanverðu fellinu er hnúkur, sem heitir Sundhnúkur. Nyrzt heitir það Svartsengisfell. Í toppi þess er gígur, sem frá vissum stöðum gerir í það sýlingu, enda er það sums staðar nefnt Sýlingarfell.”

Sýlingafell

Sýlingafell (Svartengisfell) og Svartsengi – loftmynd.

Jafnframt segir í lýsingunni: “Vestan úr Hagafelli er hraunkvísl, sem eins og steypist fram af fellinu. Það heitir Gráigeiri, og er gamalt fiskimið Melhóll í Gráageira. Þar vestan fellsins er svonefndur Selháls, sem vegurinn liggur yfir. Þar innar með fellinu er Dagmálaholt . Norðan undir Hagafelli er Svartsengi. Það er skemmtistaður Grindvíkinga, grasflatir, sem áður voru slegnar. Sagt er, að Svartur, sem þetta er kennt við, hafi verið á Hópi. Upp af Svartsengi er svo norðurendinn á hæðinni, sem Hagafell er syðst á. Nyrzt heitir það Svartsengisfell (63). Í toppi þess er gígur, sem frá vissum stöðum gerir í það sýlingu, enda er það sums staðar nefnt Sýlingarfell”.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Í landamerkjabréfi fyrir Þórkötlustaðir, dags. 20.06.1890, segir m.a.: “….fyrir miðju Marka-lóni í fjöru, á Þórkötlustaðanesi, er mark á klöpp er aðskilur að land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Hóp, þaðan liggja mörkin til heiðar, sjónhending á toppinn á Stóra-Skógfelli, þá áfram sömu stefnu yfir Litla-Skógfell, að steini sem þar stendur við götuna, þaðan að Kálffelli, þaðan að Vatnskötlum (Vatnsfelli) fyrir norðan Fagradal, (samkvæmt landamerkjum frá 1270, endurnýjuðum 28. júní 1620), þaðan yfir Vatnsheiði, þá áfram fyrir vestan Húsfell til sjávar í miðjan Markabás í fjöru, er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Hraun, er þar mark á klöpp. Einkennismark marksteinanna er L.M….”

Skógfellastígur austan milli Sundhnúks og Vatnshæðar

Skógfellastígur sunnan Stóra-Skógfells.

Í örnefnalýsingu fyrir Þórkötlustaði segir m.a.: “Ofan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Efst í Leyninum og austan við götuna er grasivaxinn hóll með hraunklöppum umhverfis og heitir hann Grenhóll. Norð-norðvestan við Grenhól við götuna er skjólsamt fyrir sauðfé og heitir þar Skítastaður.
Vatnsheiði eru þrjár gróðurlitlar, samvaxnar hæðir norður af Húsafelli og nær sú fremsta vestur fyrir og fram fyrir það. Þær heita Fremstahæð, Miðhæð og Innstahæð. Nafnið er dregið af vatnskötlum [vatnskatli, et.] í Innstuhæð og þornar þar ekki nema í mestu þurrkum. Þar eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða.

Sudhnúkur

Sundhnúkur – loftmynd.

Í norðvestur frá Innstuhæðinni, í Vatnsheiði, er hæð eða smáhnúkur; Sundhnúkur og er hann á landamerkjum milli Þórkötlustaða og Járngerðarstaða.” Hér er, þrátt fyrir landamerkjabréf Hóps, kveðið á um að Sundhnúkur sé á mörkum Járngerðarstaða og Þórkötlustaða. Skv. því átti Hóp einungis land að Melhól.
Í landamerkjabréfi fyrir Hraun, dags
. 17.06.1890, þinglýst 20.06.1890, segir m.a.: “…úr miðjum “markabás” í fjöru er mark á klöpp er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Þórkötlustaðir, þaðan liggja mörkin til heiðar vestan til við Húsafell og yfir Vatnsheiði, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan til austurs á Selsvallafjall, upp af “Sogaselsdal”, þá eftir Selsvallafjalli til suðurs samhliða landamerkjum jarðarinnar Krýsuvíkur þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á Móklettum. Skal sú sjónhending ráða merkjum frá landi jarðarinnar Ísólfsskála, þaðan til suðurs fram yfir festargnípu í fjöru….”

Móklettar

Móklettar – áletrun (landamerki).

Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir m.a.: “… úr miðjum ,,markabás” í fjöru er mark á klöpp er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Þórkötlustaðir, þaðan liggja mörkin til heiðar vestan til við Húsafell og yfir Vatnsheiði…”
Eftir að hafa skoðað bólstrabergsmyndanir í Hagafelli var ferðinni haldið áfram til norður, áleiðis að og meðfram Sundhnúk. Framundan var
Sýlingafell. Norðan og norðaustan í fjallinu er mikil jarðhitamyndun þar sem fyrir er Svartsengi og Sýlingafell, jarðhitasvæði þar sem Bláa lónið er m.a. staðsett. Gígskál er í toppnum.

Dalahraun

Dalahraun og nágrenni – loftmynd.

Komið var við í rúmgóðum helli eftir að hafa þverað Sundhnúkaröðina, en síðan var stefnan tekin á Vatnsheiðina. Norður af Vatnsheiði er kallað Sprengisandur. Um hann lá gamli vegurinn, einnig um Lyngrima. Þá tekur við sama hraunið og nefnt var hjá Hrauni, og heitir það Dalahraun. Það hraun er frekar mishæðalítið, nema þar rís norðar allhátt fell, sem heitir Stóra-Skógfell. Austan þess er gamall vegur, nefndur Skógfellsvegur.

Grindavík

Grindavík – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Vatnsheiði myndaðist snemma á nútíma. Þrjár samvaxnar pikrít-dyngjur eða pikrítdyngja með þrjá samvaxna gíga (svæðisgos). Nyrsti gígurinn er stærstur og hæstur og nær hringlaga, líklega um 200 m að þvermáli.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsingar Þórkötlustaða, Hóps og Járngerðarstaða.
-Landamerkjalýsingar Þórkötlustaða, Hóps og Járngerðarstaða.

Gígopið í Innstuhæð Vatnshæðar