Færslur

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall er margbrotið fjall norðaustan Grindavíkur, stærsti stapinn á svæðinu. Örnefni í Fagradalsfjalli má t.d. nefna Langhól, efstu bungu fjallsins í norðri. Auðveldasta uppgangan á hann er upp af Görninni í suðvestanverðu fjallinu. Þaðan er þægilegu aflíðandi gangur á hólinn.

Reykjanesskagi

Örnefni á miðjum Reykjanesskaga.

Fagurt útsýni er af Langhól yfir allt til höfuðborgarsvæðisins. Þá má nefna Geldingadal þar sem “dys” Ísólfs er að finna. Stóri-hrútur er í austanverðu fjallinu, keilulagaður stapi, og Borgarfjall er í því sunnanverðu. Kastið vestan í Fagradalsfjalli er sögustaður flugvélaflaks úr Seinni Heimstyrjöldinni, líkt og Langihryggur autan í því sem og Langóllinn fyrrnefndi. Fagridalur, sem fjallið tekur nafn sitt af er undir því norðvestanverðu. Þar hvílir Dalsselið, selstaða frá Þórkötlustöðum. Skammt ofar og austar er mikilfenglegur, þverskorinn, gígur fjallsins í Kálffelli. Samnefnt fell er einnig skammt norðvestar.

Í Náttúrufræðingnum árið 2011 er fjallað um jarðskjálftahrinu við Fagradalsfjall í maí 2009.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni.

Árið 2009 var rólegt á skjálftasviðinu. Mestu skjálftar ársins urðu í allsnarpri skjálftahrinu við Fagradalsfjall á Reykjanesskaga. Forskjálftavirkni hófst um kl. 17 þann 29. maí, en meginskjálftinn, 4,7 stig, varð kl. 21:33 sama kvöld.

Fagradalsfjall

Jarðskjálftar í og við Fagradalsfjall.

Upptök hans voru við vestanvert Fagradalsfjall. Hann fannst víða um suðvestanvert landið, vestur í Búðardal og austur að Hvolsvelli og olli meira aðsegja grjóthruni í Esju, eins og nefnt er í kaflanum um skriðuföll. Fjöldi eftirskjálfta fylgdi í kjölfarið, sá stærsti kl. 13:35 daginn eftir með upptök við norðanvert fjallið. Hann var 4,3 stig og fannst einnig víða. Alls mældust um 2000 skjálftar í hrinunni sem gengin var um garð fyrir mánaðamótin.

Í Náttúrufræðingnum 1966 fjallar Guðmundur Kjartansson um “Stapakenninguna og Surtsey“. Fagradalsfjall er vestastur stapa landsins.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall – kort.

Á þremur stórum svæðum Íslands er berggrunnurinn að mjög miklu leyti úr móbergi og allur myndaður af eldgosum seint á ísöld, einkum síðasta jökulskeiðinu. Þetta eru móbergssvæði Norðurlands, Miðsuðurlands og Suðvesturlands. Þau eru öll fjöllótt, og fjöllin, sem eru úr móbergi með mismiklu ívafi af bólstrabergi, eru tvenns konar að gerð: flest hryggir, en sum stapar.

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli.

Svo er um þessa fjallgerð, stapana, sem aðrar „gerðir”, að hún bendir til sameiginlegs uppruna einstaklinganna, sem til hennar teljast. Uppruni stapanna hefur verið skýrður á þrjá allólíka vegu:

Fjallið eina

Fjallið eina – stapi.

1. Rofkenningin: Fjöllin hafa meitlazt fram við gröft vatna, jökla eða jafnvel sjávar úr víðáttumiklu hálendi, sem var h. u. b. jafnhátt og brúnir fjallanna eru nú.
2. Misgengis- eða höggunarkenningin: Fjöllin eru ris (horstar), þ.e. misgengnar jarðskorpuspildur, og fylgja misgengissprungurnar hlíðum þeirra allt í kring.
3. Upphleðslukenningin: Fjöllin hafa hlaðizt upp í eldgosum og fremur lítið breytzt síðan að stærð eða lögun.
Fyrstu áratugi þessarar aldar voru mjög skiptar skoðanir meðal jarðfræðinga um það, hver þessara kenninga ætti helzt við ummyndun íslenzku stapanna. — Þeir Þorvaldur Thoroddsen og Helgi Pjeturss létu þetta deilumál lítið til sín taka, enda var viðhorf þeirra fremur hlutlaust. Báðir lýsa stöpunum sem eldfjallarústum, þeir hafi hlaðizt upp í eldgosum, en síðan bæði haggazt og rofizt, svo að hin upphaflega eldfjallslögun er nú farin út um þúfur (Þorv. Thoroddsen 1906 og Helgi Pjeturss 1910).

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni.

Í Faxa árið 1984 er fjallað um fjöllin ofan Grindavíkur, þ.á.m. Fagradalsfjall.

Jón Jónsson, jarðfræðingur hefur varið mörgum árum til rannsókna á Reykjanesskaga. En furðu hljótt hefur þó verið um þær rannsóknir hans og lítt verið minnst á þær hér í Faxa.
1978 gaf Jón út fjölritað rit um rannsóknir sínar. Trúlega er það nú í fárra höndum. En mjög er æskilegt að hann gefi það síðar út á prenti, svo að flestir eigi aðgang að þeim upplýsingum, sem þar eru. Hér verða birtir örstuttir kaflar úr riti Jóns, sem fjalla um fjöllin á skaganum næst okkur: Þorbjarnarfell, Lágafell, Hagafell, Sýlingafell, Skógfellin, Fagradalsfjall og Keili.

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn). Misgengi gengur í gegnum fellið.

Þorbjarnarfell (243 m) vekur athygli fyrst og fremst af því hvað það er mikið brotið og verður að því nánar vikið síðar. Fellið er úr bólstrabergi og móbergsþursa með bólstrum á víð og dreif, en lítið er um blágrýtisæðar í því það séð verður og hraun eru þar engin. Bergið í fellinu hefur ekki verið athugað nánar. Að norðaustan er það mjög ummyndað af jarðhita. Þorbjarnarfell hefur án efa myndast við gos undir ís meðan jöklar huldu landið. Vestur úr Þorbjarnarfelli gengur hæðarbunga, sem Lágafell heitir. Það er forn eldstöð, líklega frá því seint á síðasta jökulskeiði. Ennþá sér fyrir hrauni og nokkrum gígum kringum hann ásamt gjalli, en engin merki sjást til þess að jökull hafi gengið þar yfir.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Lágafell virðist vera yngra en Þorbjarnarfell. Norðaustur af Þorbjarnarfelli liggur Selás og tengir það við Hagafell og Svartsengisfell. Þessi fell eru að langmestu leyti úr bólstrabergi og kemur það sérstaklega vel fram í Gálgaklettum í Hagafelli, en þeir eru misgengi, sem brýtur fellið um þvert. Stór björg hafa losnað og hrapað ofan á hraunið. Er þar þægilegt að grannskoða bólstraberg.

Svartsengisfell

Svartsengisfell.

Norðan undir Gálgaklettum er svæðið þakið hraunum upp að Svartsengisfelli (206 m), sem svo er nefnt af Grindvíkingum, en á kortinu er það nefnt Sýlingafell og mun það hafa verið málvenja í Vogum og á Vatnsleysuströnd. Hið neðra Svartsengisfell að mestu úr bólstrabergi og þursa en efst á því er gígur allstór eða raunar öllu heldur tveir samhangandi gígir og grágrýtishraun kringum þá.

Sýlingarfell

Sýlingarfell. Svartsengi t.h. og Þorbjörn t.v.

Fjallið er sennilega byggt sem stapi og mjög unglegt, hefur sennilega verið virkt seint á síðasta jökulskeiði. Vestan í fjallinu eru gosmyndanir, sem samanstanda af ösku og vikri, og hefur það efni verið unnið um árabil, og er svo enn. Sú myndun hverfur inn undir fellið sjálft. Misgengissprunga liggur um fellið þvert með stefnu norðaustur-suðvestur og ummyndun eftir jarðhita er þar mikil enda er virkur jarðhiti (háhiti) við rætur fjallsins. Ummyndunina má rekja um norðanverðan Selháls yfir í Þorbjarnarfell eins og áður var drepið á. Tengist þessi ummyndun jarðhitasvæðinu Svartsengi. (Bls. 31-32).

Skógfellavegur

Litla-Skógfell.

Stóra-Skógfell (188m) er um 1,5 km austur af Svartsengisfelli. Það er algjörlega úr bólstrabergi. Litla-Skógfell er um 3 km austar og einnig það er úr bólstrabergi, en ólíkt er það berginu í Stóra-Skógfelli. (Bls. 32).

Fagradalsfjall

Flugvélaflak í Fagradalsfjalli.

Fagradalsfjall (385 m) er byggt upp sem stapi, hið neðra úr bólstrabergi, brotabergi og túffi, en með hettur úr grágrýti. Líta verður á f jallið sem dyngju og er gígurinn nyrst í fjallinu.

Grindavík

Grindavík – Fagradalsfjall, Stóri-Hrútur og Merardalir 2020.

Fagradalsfjall hefur að mestu leyti byggst upp undir ís og virðist ekki ólíklegt að jökull hafi legið að því norðaustanverðu fram til þess að eldvirkni hætti. Mætti ætla að jökull hafi legið umhverfis það, þegar grágrýtishraun, sem þekja það, runnu, en þau eru frá áðurnefndum gíg komin og hafa runnið til suðurs og suðvesturs en ekki norðurs. Norðurendi fjallsins er úr móbergsbrotabergi allt frá toppgígnum og niður úr svo langt sem sér. Í gíg Fagradalsfjalls er ennþá grágrýtishraun. (Bls. 34-35).
Til skýringar fyrir þá sem ekki þekkja Fagradalsfjall, skal þess getið, að það er aflangt, ekki ólíkt hval í laginu, séð frá Keflavík. Er gígurinn í þeim hluta fjallsins sem fjær veit bænum. Skógfellin eru á vinstri hönd úti í hrauninu þegar ekið er til Grindvíkur.

Trölladyngja

Gömul FERLIRsmynd tekin ofan Soga. Keilir fjær, Spákonuvatn t.h.

Keilir (379 m) er frægastur fjalla á Reykjanesskaga. Norðaustan við hann eru þrír hnúkar, sem nefndir eru Keilisbörn. Þeir eru úr lagaskiptu móbergstúffi og raunar er það sumsstaðar í Keili sjálfum að neðanverðu. Í þessu túffi má víða finna báruför, sem sýna að efni þetta hefur sest til í vatni. Útlit þeirra bendir til að um grunnt vatn hafi verið að ræða.

Keilir

Keilir og Keilisbörn.

Milli Keilis og Keilisbarna er hringlaga dalur. Víða má sjá að túfflögum hallar inn að þessum dal. Grágrýti er í toppum á Keili og sums staðar utan í honum virðist það koma fram og gæti það verið berggangur. Sennilega er þetta hraun í gosrás fjallsins því ekki er að efa að Keilir er eldstöð frá jökultíma.”

Sjá meira um jarðfræði Fagradalsfjalls HÉR.

Heimildir:
-Náttúrufræðingurinn, Náttúrfarsallnáll 2009, 3.-4. tbl. 2011, bls. 166.
-Náttúrufræðingurinn, 1.-2. tbl. 01.04.1966, Stapakenningin oog Surtsey, Guðmundur Kjartansson, bls. 2-4.
-Faxi, 3. tbl. 01.03.1984, Úr flæðamálinu, bls. 88.

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni.

Grindavík

Klukkan þrjú í nótt, 14. janúar 2024, hófst áköf smáskjálftavirkni á sama svæði og gos hófst 18. desember síðastliðinn austan við Sundhnúk. Einkenni jarðskjálftavirkninnar voru á þá leið að talið var fullvíst að kvikuhlaup væri hafið. Grindavíkursvæðið var rýmt.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024.

Klukkan sex um morguninn hafi virst sem framrás gangsins hafi stöðvast. Eftir það virtist jarðskjálftavirkni hafa náð jafnvægi og gos hófst rétt fyrir klukkan átta austan við Hagafell á ca. 900 m langri sprungu, skammt sunnan við eldri gossprunguna. Um hádegisbilið opnaðist svo ný 100 m sprunga skammt suðvestar, u.þ.b. 200 metrum ofan við efstu húsin við götuna Efra Hóp í í Hópshverfinu. Hraun tók fljótlega að renna áleiðis að hverfinu og eyrði engu, sem á vegi þess varð.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024.

Hraunið úr Sundhnúk og gígaröðinni norðan hans er talið vera yngra en 3000 ára og eldra en 2000 ára. Þá myndaðist Sundhnúkahraun. Eldra hraunið, sem myndaði Dalahraun, kom upp í gígaröðnni skammt austar, er talið vera yngra en 8000 ára og eldra en 3000 ára.

Fornleifar hafa farið undir nýja hraunið þar sem Skógfellavegur lá um gossvæðin millum Grindavíkur og Voga. Fornar götur hafa ekki hingað til verið í fyrirrúmi við skráningu fornleifa þrátt fyrir ákvæði þess efnis í fyrrum Þjóðminjalögum og núverandi Minjalögum.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024. Neðri gossprungan.

Lengri sprungan er að mestu leyti norðan þeirra varnagarða sem lokið hafði verið við að mestu. Þeir beindu megin hraunstraumnum til vesturs og náði hrauntungan fljótlega vel yfir Grindavíkurveg og þaðan áfram meðfram görðunum til suðvesturs.

Telja verður líklegt að gosið verði skammvinnt nú, líkt og hið fyrra. Grindavík er nú rafmagns-, hitavatns- og heitavatnslaus. Ljóst er að mikil uppbyggingarvinna er framundan, bæði meðal íbúanna og stjórnenda sveitarfélagsins með nauðsynlegum stuðningi ríkisvaldsins sem og alls almennings í landinu.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024.

Á vefsíðunni www.ferlir.is má sjá lýsingar, fróðleik, frásagnir, myndir og uppdrætti af öllum fornum þjóðleiðum á Reykjanesskagnum. Þú þarft einungis að skrifa örnefnið í leitina efst á vefsíðunni…

Sjá má myndir af goshrinunum ofan Grindavíkur HÉR. Einnig má sjá myndir frá eldgosum við Litla-Hrút, í Geldingadölum og í Meradal.

Grindavík

Grindavík – eldgos 14. jan. 2024. Efri gossprungan.

Sýlingafell

Gengið var um Svartsengi og með Svartsengisfelli að Sundhnúk. Sást vel hvernig hraunið hefur komi upp úr suðuröxl Svartsengisfels og runnið bæði til austurs og vesturs.
Vesturræman sést mjög vel frá Orkuverinu í Svartsengi þar sem það kemur sem foss niður vesturhlíð fellsins, ekki ólíkt því sem gerðist í Kálfadölum norðan Vegghamra.

Svartsengisfell

Svartsengisfell.

Norðan Sundhnúks er Sundhnúkagígaröðin að segja má ósnert. Gígarnir mynda röð út frá Sundhnúk og er hið mikla hraun vestan við þá runnið úr þeim, niður í Svartsengi. Auðvelt er að ganga upp að Gálgaklettum sunnan Sundhnúks. Gálgakletta er getið í þjóðsögunni um Ræningjana í Ræningjagjá (Þjófagjá) í Þorbjarnarfelli, handtöku þeirra á Baðsvöllum norðan fellsins og aftöku þeirra í klettunum. Þá var gengið upp á Svartsengisfell, er nefnist Sýlingafell frá sjó.

Svartengisfjall

Sólstafir ofan Svartsengisfjalls.

Þaðan er ágætt útsýni yfir umhverfið, m.a. yfir að Gálgaklettum og Hagafelli í suðri og Húsafell, Fiskidalsfjall, Festisfjall, Hrafnshlíð (Siglubergsháls) og Fagradalsfjall í austri. Í toppi fjallsins er allstór gígur. Haldið var niður norðurhlíð Svartsengisfells ofan við Svartsengi þar sem fjölmennir dansleikir voru haldnir hér áður fyrr. Sagan segir að engið heiti eftir Svarti, hrúti Molda-Gnúps, þess er fyrstur nam land í Grindavík (að því að talið er).

Sundhnúksröðin er á náttúruminjaskrá, þ.e. Sundhnúksgígaröðin öll, frá Melhól í vestur að hraunkantinum sunnan Þorbjarnarfells, með honum vestur og norður fyrir fellið, að háspennulínu sem er u.þ.b. 200 m vestan þjóðvegar.

Sundhnúkar

Sundhnúkar.

Mörkin fylgja síðan línunni til norðurs að stað 2 km norðan Arnarseturs og þaðan austur í horn landamerkjalínu við norðausturhorn Litla-Skógfells, síðan beina línu sem hugsast dregin til norðausturs í Kálffell. Þaðan liggja mörkin í Fagradals-Vatnsfell og því næst um beina línu sem dregin er til suðvesturs um Fagradalsfjall, Sandhól, Vatnsheiði og að lokum í Melhól. Í heildina er tæplega 9 km löng gígaröð kennd við Sundhnúk.
Fallegar hrauntraðir eru í suðvesturhlíð Hagafells, en Grindavíkurbær stendur á hrauni úr gígaröðinni.

Vatnshæð

Vatnsstæði í Vatnsheiði.

Skammt austar er Vatnsheiðin, þrjár dyngjur, en úr þeim rann t.d. það hraun er nú myndar Þórkötlustaðanesið/Hópsnesið. Í því miðju er stór og mikil hrauntröð. Ein dyngjanna, sú syðsta, opnaðist er jarðýtu var ekið um hann. Nefnist opið nú K9. Stiga þarf til að komast niður um gígopið, en fróðlegt væri að fara þangað niður og skoða hvað er í boði þar niðri.
Arnarseturshraunið er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Hraun við Svartsengi og Grindavík er ca 2400 ára. Án þess væri engin höfn í Grindavík.

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Suðvesturlandið einkennist af Reykjanesskaganum, en það er hér sem Atlantshafshryggurinn gengur á land. Mikið af hraunum eru á Reykjanesskaganum, sem bera vott um hina miklu eldvirkni. Atlantshafshryggurinn gengur í gegnum mitt landið og heitir hér Reykjaneshryggur, en fyrir norðan land nefnist hann Kolbeinseyjarhryggur. Þetta undur heimsins hefur mótað Ísland, ýtt Ameríku frá Afríku og um leið myndað Atlantshafið. Ísland stendur á flekaskilum en vesturhluti landsins tilheyrir Ameríkuflekanum, en austurhlutinn Evrasíuflekanum. Sumir vilja halda því fram að Grindvíkingar fylgi Evrópuhlutanum, en Keflvíkingar fylgi Ameríkuhlutanum.

Sýlingafell

Sýlingafell – sýlingurinn (gígur/hvylft/laut).

Í Svartsengi, þarna skammt frá, er orkuver Hitaveitu Suðurnesja á háhitasvæði sem nýtir heitan jarðsjó. Í þessum jarðsjó er mikið um efnaupplausnir sem tæra málma og því er honum ekki veitt beint inn á veitukerfin, heldur látin hita upp ferskt vatn fyrir veituna í varmaskiptum. Við þetta fellur til mikill jarðsjór sem streymir út í hraunið og myndar Bláa Lónið, sem frægt er sem heilsubað fyrir fólk með húðsjúkdóma. Svífandi kísilagnir og fleiri efni eru ástæða þess að vatnið litast blátt.

Sprungur

FERLIRsfélagar á ferð um sprungusvæði Reykjanesskagans.

Á Reykjanesi er einnig annað háhitasvæði sem er vestur undir Skálafelli og svokölluðum Stömpum sem brunnu fyrir yfir 1000 árum. Bjarmar jarðeldsins lýstu upp haf og land, en talið er að slíkt muni gerast aftur þó ekki sé hægt að segja til um tímsetningu.

Í ferðinni gaf Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja, ágætt yfirlit yfir jarðsögu Svartsengis, tilurð og þróun orkuvers Hitaveitunnar. Fram kom m.a. í máli hans að undir hraununum er gífurlegt vatnsmagn, undir því er mikið magn sjávar er seitlast hefur inn undir bergið. Ferska vatnið flýtur ofan á og því hefur verið dælt upp til neyslu og heitavatnsnotkunar. Gufan, um 240 °C heit, sem kemur fram er vatnið minnkar og leitar jafnvægis, er notuð til að hita kalda vatnið. Hún kemur um 160°C heit inn í orkuverið þar sem súrefnið og óæskileg efni eru unnin úr vatninu áður en það er leitt hæfilega heitt inn í hús neytenda á Suðurnesjum.

Svartsengi

Svartsengisvirkjun.

Æðar og sprungur í jarðskorpunni eru nokkurs konar svitaholur jarðar og út um þær leitar gufa og glóandi hraun er þannig stendur á. Eina slíka “svitaholu” má sjá í toppi Svartengisfells og aðrar í Sundhnúkagígaröðinni, þarna skammt frá.
Fram kom í máli Alberts að við uppbyggingu orkuversins hafi mikil reynsla orðið til, m.ö.o. mörg mistök verið gerð er takast þurfti á við ný og óvænt vandamál, en án þeirra hefði ekki orðið nein þróun. Neysluvatnsnýtingin hafi þróast í heitavatnsnýtingu, hún í raforkunýtingu og heilsunýtingu og enn biðu ónýttir möguleikar, s.s. varðandi nýtingu umframorku og affalls, t.d. til líftækniðnaðar, vetnisiðnaðar og súrefnisiðnaðar. Affallsvarma væri t.d. hæg að nota til að hita upp golfvöll eða annað er þurfa þykir.

Svartengi

Svartsengi.

Miklu máli skiptir að menn séu frjóir í hugsun er kemur að hugsanlegri nýtingu þess ónýtta. Ljóst væri að við Reykjanesvirkjunina væri um 100 sinnum meiri vandamál að etja en þá sem fyrir er í Svartsengi, m.a. vegna útfellinga og sjávarseltu.
Albert taldi miklar framfarir hafa orðið í viðhorfi virkjunaraðila til umhverfismála. Nú væri jafnan reynt að samræma sjónarmið verndunar og nýtingar s.s. kostur væri. Umhverfi orkuversins bæri þess glöggt merki.
“Með Alberti fer maðr með reynslu”, hefði Molda-Gnúpur sagt ef hann hefði verið uppi nú á dögum.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Sundhnúkur

 Gengið var frá Melhól og upp með hrauntröð að Hagafelli. Ætlunin var að setja stefnuna til norðurs frá Gálgaklettum með austanverðum Sundhnúk áleiðis að Sýlingafelli, venda síðan til austurs inn í Dalahraun, upp á Vatnshæð og fylgja loks niðurdölum Hagafells bakleiðis aftur að Melhól.

Svæðið

Þorbjarnarfell, Hagafell, Sundhnúkur og Svartsengisfell (Sýlingafell) – kort.

Þeir/þau, sem ekki þekkja til örnefnanna eru jafnnær við framangreinda lýsingu. Hin/ir, sem þekkja til þeirra, eru líka jafn nær því bæði er Melhóllinn horfinn og Sýlingafellið er öllu jöfnu nefnt Svartsengisfell. Enn færri, ef einhverjir, vita hvar Dalahraun er. Byrja þarf því að reyna að lýsa fyrir lesandanum staðháttum.
Þegar komið er upp fyrir Selháls milli suðvestanverðs Hagafells og norðaustanverðs Þorbjarnarfells eftir Grindavíkurveginum að norðan hefði Melhóllinn átt að blasa við sjónum. Hann var fyrrum á mörkum Hóps og Járngerðarstaða, en hefur nú að mestu verið tekinn undir Grindavíkurveginn. Í sjálfu sér má segja að framkvæmdin, þ.e. vegagerðin, hafi verið nauðsynleg úrbót til framfara á gömlu vegarstæði (síðan 1918) þess tíma, en aftur á móti má efast um að slík skammsýni hafi í raun leitt til framfara. Hafa ber í huga að óraskaðar náttúruminjar sem Melhóll er ávísun á stóraukinn áhuga ferðamanna til lengri framtíðar litið, en ferðaþjónustan er að verða sú atvinnugrein er “skaffar þjóðarbúinu” hvað mestar tekjur.
falleg hrauntröð við fjallið.

Hrauntröð syðst í Sundhnúkagígaröðinni

Hrauntröð sunnan Hagafells. Þorbjarnarfell fjær.

Fjarlægður Melhóllinn ætti að verða öllum skammsýnum verðug áminning um að bera jafnan virðingu fyrir þeim, sem horfa vilja lengra fram á veginn.
Hagafell er suðurendi Svartsengisfells (Sýlingafells). Siðaustasti hluti þess hefur náð að rísa einna hæst í gosi á sprungurein undir jökli á síðasta kuldaskeiði (>11.000 árum síðan).
Á og undir suðuröxlinni eru gígar, leifar gígaraðar Sundhnúka, 
sem er um 8 km löng og áfram að Sundhnúk sem er aðal gígurinn og stendur hann norðan við Hagafell. Í suðaustanverðu Hagafelli, þeim hluta er reis hæst, eru Gálgaklettar.

Hagafell

Hagafell – loftmynd.

Þegar hér er komið er nauðsynlegt að “bakka” svolítið í hinni nánustu umhverfissögu svæðisins því í Þorbjarnarfelli er annað örnefni er tengjast Gálgaklettsnafninu, þ.e. Þjófagjá í Þorbjarnarfelli, auk þess sem undir fellinu að norðanverðu eru Baðsvellir.
Þorbjörn eins og fjallið er oftast kallað er um 243m hátt og að mestu úr bólstrabergi og bólstrabrotabergi, hefur orðið til við gos undir jökli. Slíkt berg er myndað úr bólstrabrotum eins og nafnið gefur til kynna. Það einkennist af kubbum sem á einn kant hafa svarta glerhúð en eru að öðru leyti ekki frábrugðnir basaltmolum sem koma fyrir í þursabergi. Það er smáholótt og brotnar auðveldlega í eins konar stuðla sem mynda, sem næst rétt horn við glerkennt og þétt yfirborðið. Innan um eru reglulegir, heilir bólstrar. Það sem er sérstakt við þetta fjall er að það er klofið að endilöngu af sprungum og í því er sigdalur.

Í Gálgaklettum

Gálgaklettar í Hagafelli.

Þjóðsaga er til af þjófunum er héldu til í Þjófagjá og á Baðsvöllum. Til að gera langa sögu stutta voru þeir handteknir eftir brellur í laug á Baðsvöllum og síðan hengdir skýrslulaust í Gálgaklettum í Hagafelli – þarna skammt austar.
Þarna á hæstu hæðum ofan Grindavíkur var hið ágætasta útsýni og því kjörinn vettvangur til að rifja upp landamerki Grindavíkurjarðanna, Jángerðarstaða, Hóps, Þórkötlustaða og Hrauns.
Í landamerkjabréfi Járngerðarstaða, dags. 19.10.1823, þinglýst 21.06.1889 segir m.a.: “…..að vestan byrjuð : Frá Markhól við sjóinn beina stefnu í Stapafellsþúfu, þaðan í Arnarstein fyrir ofan Snorrastaðavatnsgjá, úr Arnarsteini í þúfuna á Skógfelli-litla, þaðan í þúfuna á Stagafelli [Hagafelli], þaðan beint fram í Markalón á Hópsrifi…. Landamerkjalýsingu mótmælt af eigendum Hóps og Húsatópta…”

Hagafell

Gígaröð sunnan Hagafells – loftmynd.

Í landamerkjabréfi Hóps, dags. 08.06.1889, þinglýst 20.06.1890, segir m.a.: “…..að vestanverðu frá stórstraumsfjöruborði eftir Miðós á vestara Hóprifi upp fyrir vestan Langatanga sjónhent að marbakka, að þar merktri fastri klöpp. Að austanverðu frá stórstraumsfjöruborði eftir Miðós á vestara Hóprifi að merktri klöpp fyrir miðju Markalóni (sem er fyrir austan digru Sigguvörðu á Þórkötlustaðanesi), þaðan sem sama sjónhending ræður hæst á Stóra-Skógfelli, þaðan á hæsta hnjúk á Litla- Skógfelli, þar á móts við landamerki jarðarinnar Járngerðarstaða. Þar eð óglöggt hefur verið að ákveða glögg heiðarlandamerki milli jarða þessara, þá hefur eigandi jarðarinnar Járngerðarstaða, samþykkt að jörðin Hóp skyldi eiga hér eftir óátalið 1/5 af öllu heiðarlandi þessara jarða, sem er rétt hlutfall samanborið við forngildi beggja jarðanna.”

Hellir í Sundhnúkagígaröðinni

Sundhnúkahellir norðan Sundhnúks. Sýlingafell (t.v.) og Stóra-Skógfell.

Í örnefnalýsingu fyrir Hóp segir hins vegar: “En í vesturenda hans eru merkin móti Hrauni og í Melhól, sem er þar vestur af. En aftur á móti er niðri í nesinu, á merkjum móti Hópi, svonefnt Markalón.” Hér bendir til að efri takmörk Hópslands hafi verið við Mehól. Þá segir: “Landið er því sneið af Þorkötlustaðanesinu og svo spildan samhliða landi Þorkötlustaða norður til Skógfells. Mikið af landinu er eldbrunnið, en gróið upp aftur á allstórum svæðum.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes. Ofar eru Þorbjarnarfell, Hagafell, Sýlingafell og Húsafell.

Þorkötlustaðanes er allmikið nes, er gengur hér fram í sjó. Vesturhluti þess tilheyrir Hópi. Nokkuð framarlega í nesinu á merkjum er lón, sem heitir Markalón. Þar við er klöpp, sem er á merkjum… Þá rís hér upp fell, sem syðst heitir Hagafell. Þetta er frekar lágt fell. Norðan í því er klettabelti, sem heitir Gálgaklettar. Þar segir sagan, að þjófarnir úr Þjófagjá hafi verið hengdir. Norðan þeirra verður fellið slétt að ofan og nafnlaust, þar til á austanverðu fellinu er hnúkur, sem heitir Sundhnúkur. Nyrzt heitir það Svartsengisfell. Í toppi þess er gígur, sem frá vissum stöðum gerir í það sýlingu, enda er það sums staðar nefnt Sýlingarfell.”

Sýlingafell

Sýlingafell (Svartengisfell) og Svartsengi – loftmynd.

Jafnframt segir í lýsingunni: “Vestan úr Hagafelli er hraunkvísl, sem eins og steypist fram af fellinu. Það heitir Gráigeiri, og er gamalt fiskimið Melhóll í Gráageira. Þar vestan fellsins er svonefndur Selháls, sem vegurinn liggur yfir. Þar innar með fellinu er Dagmálaholt . Norðan undir Hagafelli er Svartsengi. Það er skemmtistaður Grindvíkinga, grasflatir, sem áður voru slegnar. Sagt er, að Svartur, sem þetta er kennt við, hafi verið á Hópi. Upp af Svartsengi er svo norðurendinn á hæðinni, sem Hagafell er syðst á. Nyrzt heitir það Svartsengisfell (63). Í toppi þess er gígur, sem frá vissum stöðum gerir í það sýlingu, enda er það sums staðar nefnt Sýlingarfell”.

Vatnsheiði

Vatnsheiði.

Í landamerkjabréfi fyrir Þórkötlustaðir, dags. 20.06.1890, segir m.a.: “….fyrir miðju Marka-lóni í fjöru, á Þórkötlustaðanesi, er mark á klöpp er aðskilur að land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Hóp, þaðan liggja mörkin til heiðar, sjónhending á toppinn á Stóra-Skógfelli, þá áfram sömu stefnu yfir Litla-Skógfell, að steini sem þar stendur við götuna, þaðan að Kálffelli, þaðan að Vatnskötlum (Vatnsfelli) fyrir norðan Fagradal, (samkvæmt landamerkjum frá 1270, endurnýjuðum 28. júní 1620), þaðan yfir Vatnsheiði, þá áfram fyrir vestan Húsfell til sjávar í miðjan Markabás í fjöru, er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Hraun, er þar mark á klöpp. Einkennismark marksteinanna er L.M….”

Skógfellastígur austan milli Sundhnúks og Vatnshæðar

Skógfellastígur sunnan Stóra-Skógfells.

Í örnefnalýsingu fyrir Þórkötlustaði segir m.a.: “Ofan við byggðina er geil í hraunið og byrjar þar gamli vegurinn frá Þórkötlustöðum til Voga og Hafnarfjarðar. Þar heitir Leynir (Þórkötlustaðaleynir til aðgreiningar frá Hraunsleyni) og nær hann inn á móts við Vatnsheiði. Gatan liggur samhliða hraunrima. Efst í Leyninum og austan við götuna er grasivaxinn hóll með hraunklöppum umhverfis og heitir hann Grenhóll. Norð-norðvestan við Grenhól við götuna er skjólsamt fyrir sauðfé og heitir þar Skítastaður.
Vatnsheiði eru þrjár gróðurlitlar, samvaxnar hæðir norður af Húsafelli og nær sú fremsta vestur fyrir og fram fyrir það. Þær heita Fremstahæð, Miðhæð og Innstahæð. Nafnið er dregið af vatnskötlum [vatnskatli, et.] í Innstuhæð og þornar þar ekki nema í mestu þurrkum. Þar eru landamerki á milli Hrauns og Þórkötlustaða.

Sudhnúkur

Sundhnúkur – loftmynd.

Í norðvestur frá Innstuhæðinni, í Vatnsheiði, er hæð eða smáhnúkur; Sundhnúkur og er hann á landamerkjum milli Þórkötlustaða og Járngerðarstaða.” Hér er, þrátt fyrir landamerkjabréf Hóps, kveðið á um að Sundhnúkur sé á mörkum Járngerðarstaða og Þórkötlustaða. Skv. því átti Hóp einungis land að Melhól.
Í landamerkjabréfi fyrir Hraun, dags
. 17.06.1890, þinglýst 20.06.1890, segir m.a.: “…úr miðjum “markabás” í fjöru er mark á klöpp er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Þórkötlustaðir, þaðan liggja mörkin til heiðar vestan til við Húsafell og yfir Vatnsheiði, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan til austurs á Selsvallafjall, upp af “Sogaselsdal”, þá eftir Selsvallafjalli til suðurs samhliða landamerkjum jarðarinnar Krýsuvíkur þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á Móklettum. Skal sú sjónhending ráða merkjum frá landi jarðarinnar Ísólfsskála, þaðan til suðurs fram yfir festargnípu í fjöru….”

Móklettar

Móklettar – áletrun (landamerki).

Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir m.a.: “… úr miðjum ,,markabás” í fjöru er mark á klöpp er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Þórkötlustaðir, þaðan liggja mörkin til heiðar vestan til við Húsafell og yfir Vatnsheiði…”
Eftir að hafa skoðað bólstrabergsmyndanir í Hagafelli var ferðinni haldið áfram til norður, áleiðis að og meðfram Sundhnúk. Framundan var
Sýlingafell. Norðan og norðaustan í fjallinu er mikil jarðhitamyndun þar sem fyrir er Svartsengi og Sýlingafell, jarðhitasvæði þar sem Bláa lónið er m.a. staðsett. Gígskál er í toppnum.

Dalahraun

Dalahraun og nágrenni – loftmynd.

Komið var við í rúmgóðum helli eftir að hafa þverað Sundhnúkaröðina, en síðan var stefnan tekin á Vatnsheiðina. Norður af Vatnsheiði er kallað Sprengisandur. Um hann lá gamli vegurinn, einnig um Lyngrima. Þá tekur við sama hraunið og nefnt var hjá Hrauni, og heitir það Dalahraun. Það hraun er frekar mishæðalítið, nema þar rís norðar allhátt fell, sem heitir Stóra-Skógfell. Austan þess er gamall vegur, nefndur Skógfellsvegur.

Grindavík

Grindavík – jarðfræðikort Jóns Jónssonar.

Vatnsheiði myndaðist snemma á nútíma. Þrjár samvaxnar pikrít-dyngjur eða pikrítdyngja með þrjá samvaxna gíga (svæðisgos). Nyrsti gígurinn er stærstur og hæstur og nær hringlaga, líklega um 200 m að þvermáli.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsingar Þórkötlustaða, Hóps og Járngerðarstaða.
-Landamerkjalýsingar Þórkötlustaða, Hóps og Járngerðarstaða.

Gígopið í Innstuhæð Vatnshæðar

Sundhnúkahraun

Orkustofnun gaf út ritið “Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort” á sínum tíma eftir Jón Jónsson, jarðfræðing. Þar fjallar Jón m.a. um Sundhnúkahraun ofan Grindavíkur:

Sundhnúkar

Sundhnúkahraun – loftmynd.

“Nafn þetta er tilbúningur minn að nokkru leyti. Því víkur þannig við að í heild hefur hraun þetta ekki nafn og gígaröðin, sem það er komið úr, ekki heldur að ég veit.
Ýmsir hlutar hraunsins hafa því ýms nöfn og oft ná þau örnefni til margra hraunstrauma frá mismunandi tímum.

Sundhnúkur

Sundhnúkur fyrir miðri mynd. Grindavík fjær.

Norðaustur af Hagafelli ofan við Grindavík er hár gígur, sem nefndur er Sundhnúkur (Jónsson 1973). Hef ég látið hann gefa nafn gígaröðinni allri og hrauninu, sem frá henni er komið. Gígaröðin sjálf byrjar suðvestan undir Hagafelli og virðist stærsti gígurinn þar heita Melhóll, en mikið er nú ekki eftir af honum, því efnistaka hefur þar verið um árabil.
Ég mun nota nafnið hér sem jarðfræðilegt hugtak og láta það gilda fyrir allt það hraun, sem komið hefur úr þessari gígaröð í því síðasta gosi, sem í henni varð, en hraunið nær yfir stórt svæði og ýms örnefni fyrir í því og hefur þessi nafngift að sjálfsögðu ekki áhrif á þau.

Sundhnúkur

Sundhnúkur og Sundhnúkagígaröðin.

Gígaröð sú, sem Sundhnúkraun er komið úr, byrjar suðvestan undir Hagafelli. Þar eru nokkrir gígir í röð og er eða öllu heldur var einn þeirra mestur og heitir Melhóll eins og áður er sagt.

Hagafell

Hrauntröð við Hagafell.

Þaðan liggur svo röð af smágígum upp suðvesturhlíðina á Hagafelli og eru þar snotrar hrauntraðir, sem sýna að þarna hefur verið hraunfoss. Úr ofannefndum gígum er meginhluti þess hrauns komið, sem á kortinu ber nafnið Klifhólahraun. Gígaröðin er svo lítt áberandi á kafla norðan undir Gálgaklettum, en þeir eru misgengi, sem stefnir eins og gígaröðin frá suðvestri til norðausturs. Hún er þar á kafla tvískipt og stefna hennar lítt eitt óregluleg, gígirnir smáir og hraunhellan, sem myndast hefur kringum þá á sléttunni norðan Gálgakletta, vafalaust þunn. Frá þessum gígum hefur hraun runnið í þrjár áttir til austurs norðan við Gálgakletta, til suðvesturs eins og áður er nefnt og loks til norðvesturs og norðurs.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Örmjór hraunfoss hefur fallið niður á Selháls, þar sem vegurinn nú liggur, en numið staðar þar. Hefur hraunið þar runnið út á jarðhitasvæði, sem virkt hefur verið þegar hraunið rann og væntanlega nokkru eftir það. Verður að því vikið síðar. Svo hefur allbreiður hraunfoss fallið norður af fellinu og runnið út á forna gjallgígi, sem þar verða fyrir. Er vegurinn skorinn gegnum nyrsta hluta þessarar hrauntungu. Verður nánar greint frá þessu svæði síðar.

Grindavík

Grindavík ofanverð.

Nokkurn spöl norðaustur af Hagafelli verður gígaröðin öllu fyrirferðarmeiri. Rísa þar háir gígir og nefnist Sundhnúkur sá þeirra, er hæst ber. Frá þessari gígaþyrpingu hefur megin hraunflóð það, er til suðurs rann, komið. Það hefur fallið eftir dalnum, sem verður milli Vatnsheiðar, sem er dyngja, og Hagafells. Það hefur fyllt dalinn hlíða milli og fallið beint í sjó fram og myndar þar um 2 km langan og rúmlega 1 km breiðan tanga, Þórkötlustaðanes, en vestan undir honum er vík sú, er Grindavík heitir og hefur frá fyrstu tíð verið ein mesta verstöð þessa lands. Tilveru sína á víkin hrauninu að þakka, því án þess væru þar engin hafnarskilyrði. Nokkru norðan við Sundhnúk verður skarð í gígaröðina á ný, en norðar tekur hún sig upp aftur og heldur eftir það beinu striki að heita má austur að Stóra-Skógfelli. Þessi kafli gígaraðarinnar er sá mesti hvað hraunrennsli snertir. Er ljóst að hraunrennsli hefur að mestu verið bundið við ákveðna kafla gígaraðarinnar og hefur hún því naumast verið virk öll nema rétt í byrjun gossins og sennilega um stuttan tíma. Virðist þetta vera mjög venjulegt um sprungugos yfirleitt (Jónsson 1970).

Sundhnúkahraun

Karlinn í Sundhúkahrauni.

Frá þessum kafla gígaraðarinnar, kanski væri réttara að kalla það gígaraðir, hafa hraunstraumar fallið til norðurs og austurs, auk þess sem þaðan hafa hraun runnið niður í áðurnefndan dal milli Hagafells og Vatnsheiðar saman við hraunin úr Sundhnúkagígum.

Sundhnúkur

Hraunssvæðið norðan Grindavíkur. Stóra-Skógfell næst.

Mikill hraunstraumur hefur fallið til norðurs frá þessum gígum, runnið vestur með Svartsengisfelli að norðan og þekur allstórt svæði vestur af því og norður að Eldvarpahrauni. Þar hverfur það undir Illahraun, sem því er yngra. Hraunin úr Eldvörpum, Illahraun og hraun úr stórum gíg suðvestur af Þórðarfelli, er að því er séð verður samtíma myndun. Þessi hraunstraumur hefur fyllt skarðið milli Svartsengisfells og Stóra-Skógfells. Virðist hraunið þar mjög þykkt enda er sýnilegt að hver straumurinn hefur þar hlaðist ofan á annan. Geta má þess að þrjár gossprungur eru í Stóra-Skógfelli og stefna allar eins. Sjálft er fellið úr bólstrabergi. Til suðurs og suðausturs hefur hraunið náð lengst í mjóum tanga, sem liggur meðfram Vatnsheiðardyngjunni að austan. Mikill hraunflái er milli ofannefndrar gígaraðar, Vatnsheiðar og Fagradalsfjalls. Ganga þau hraun undir nafninu Dalahraun (Bárðarson 1929), en aðeins lítill hluti þeirra er kominn úr því gosi, sem hér um ræðir. Það er hinsvegar ljóst að áður hefur gosið á sprungu, sem er lítið eitt til hliðar við Sundhnúkasprunguna. Sumt af þessum hraunum á rætur að rekja til hennar, nokkuð til Vatnsheiðardyngjunnar og enn nokkur hluti til fornra eldstöðva norðaustan undir Hrafnshlíð. Loks má vel vera að fleiri eldstöðvar séu faldar undir þessum hraunum.

Sundhnúkahraun

Sundhnúkahraun – velkomnum boðið að skoða djásnið innandyra.

Það er greinilegt að þarna hafa mörg gos átt sér stað frá því að ísöld lauk. Yngsta hraunið á þessu svæði er það, sem komið er úr Sundhnúkagígum, en það þekur ekki stórt svæði þarna austan til og hefur víðast hvar ekki runnið langt til suðurs frá eldvörpunum. Það er því mun minna en virðast kann við fyrstu sýn. Við suðurhornið á Stóra-Skógfelli er gígaröðin lítið eitt hliðruð til suðausturs og stefnan breytist um hér um bil 7° til suðurs.

Jarðfræðikort

Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – Jón Jónsson.

Hraunið hefur runnið báðum megin við Stóra-Skógfell, en nær þó ekki saman norðan þess. Milli Stóra-Skógfell og Litla-Skógfells eru mörk hraunsins sums staðar óljós, enda koma þar fyrir eldri hraun og eldstöðvar auk þeirra, sem eru í Stóra-Skógfelli sjálfu og áður er getið. Suðurbrún hraunsins er og víða óljós, enda svo skammt frá eldvörpunum að hraunið hefur verið mjög heitt og því náð að renna í mjög þunnum straumum. Nú er það gróið mosa og mörk þess því víða hulin.

Sundhnúkahraun

Gíggjár í Sundhnúkahrauni.

Fremur lítið hraun hefur runnið úr gígaröðinni eftir að austur fyrir Stóra-Skógfell kemur. Gígirnir eru litlir, mest í þráðbeinni röð, sem heita má að sé óslitin úr því. Smá hraunspýja hefur runnið norður eftir austanhalt við Litla-Skógfell, en ekki náð alla leið norður á móts við það. Gígaröðin endar svo í smágígum, sem liggja upp í brekkurnar, suðaustur af Litla-Skógfelli, en þær brekkur eru raunar hluti af Þráinsskjaldarhrauni. Í heild er gígaröðin um 8.5 km á lengd.

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Sundhnúkahraun hefur runnið tæpum 400 árum fyrir upphaf okkar tímatals. Í Sundhnúkahraununum ber lítið á sprungum yfirleitt og bendir það til að fremur hægfara hreyfingar séu þar eða þá, og það virðist full svo trúlegt, að þær séu bundnar ákveðnum tímabilum. Mætti telja líklegt að hreyfingar þessar fari aðallega fram þegar jarðskjálftar ganga.”
Skógfellastígurinn millum Grindavíkur og Voga liggur um Sundvörðuhraunin – sjá HÉR.

Heimild:
-Orkustofnun, Jarðfræðikort af Reykjanesskaga – skýringar við jarðfræðikort, Jón Jónsson, 1978, bls. 135-140.

Skógfellavegur

Skógfellastígur milli Skógfellanna.

Sundhnúkur

Gengið var frá Sýlingsfelli að Selshálsi ofan Grindavíkur með viðkomu í Hópsseli. Þá voru skoðaðar tóttir í brekkukvos norðan selsins, sem gætu verið hluti selsins.

Hagafell

Gálgaklettar í Hagafelli.

Haldið var upp, til suðurs og austurs að Gálgaklettum. Um er að ræða hrikalega kletta undir háum sléttum klettavegg norðan Hagafells. Segir þjóðsagan að þar hafi yfirvaldið hengt nokkra ræningja skýrslulaust eftir að þeir náðust við heitar laugar undir Þorbjarnafelli, en þeir höfðu haldið til í Þjófagjá í fellinu og herjað þaðan á íbúa þorpsins. Óþarfi er að birta mynd af klettunum. Bæði eru þeir auðfundnir og auk þess er mikilvægt að leyfa ímyndunaraflinu að njóta sín á stað sem þessum. Þarna er fallegt um að litast – útsýni yfir á Vatnaheiði og að Fagradalsfjalli.

Stapinn

Hlaðið byrgi á Stapanum.

Þá var haldið að hlöðnu byrgi á Stapanum ofan og austan við Brekku. Stapagatan var gengin spölkorn, en síðan vikið af henni og gengið ofan Stapabrúnar. Ætlunin var að leita að Kolbeinsvörðu og hugað að letursteini (1774), sem í henni á að vera. Gengið var að Kolbeinsskor og síðan frá henni áleiðis að Stapakoti. Allar vörður voru skoðaðar á leiðinni, bæði neðst á brúninni sem og aðrar ofar. Nokkrar vörður eða vörðubrot eru við Stapagötuna, sem einnig voru skoðaðar – en allt kom fyrir ekki. Letursteinninn er enn ófundinn. Austan við Stapakot eru
miklar hleðslur, garðar og hús, auk tótta gamla bæjarins sunnan þeirra. Þá má enn greina fallega heimreið bæjarins með hleðslum beggja vegna.
Í leiðinni var litið á hringlóttan hlaðinn fót vörðu á heiðinni, sem gæti vel verið landamerkjavarða. Uplýsingar höfðu borist um að hún væri svonefnd Kolbeinsvarða, en þar fannst enginn letursteinn heldur. Mjög er gróið umhverfis fótinn.
Frábært veður.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.