Sýlingafell

Gengið var um Svartsengi og með Svartsengisfelli að Sundhnúk. Sást vel hvernig hraunið hefur komi upp úr suðuröxl Svartsengisfels og runnið bæði til austurs og vesturs.
Vesturræman sést mjög vel frá Orkuverinu í Svartsengi þar sem það kemur sem foss niður vesturhlíð fellsins, ekki ólíkt því sem gerðist í Kálfadölum norðan Vegghamra.

Svartsengisfell

Svartsengisfell.

Norðan Sundhnúks er Sundhnúkagígaröðin að segja má ósnert. Gígarnir mynda röð út frá Sundhnúk og er hið mikla hraun vestan við þá runnið úr þeim, niður í Svartsengi. Auðvelt er að ganga upp að Gálgaklettum sunnan Sundhnúks. Gálgakletta er getið í þjóðsögunni um Ræningjana í Ræningjagjá (Þjófagjá) í Þorbjarnarfelli, handtöku þeirra á Baðsvöllum norðan fellsins og aftöku þeirra í klettunum. Þá var gengið upp á Svartsengisfell, er nefnist Sýlingafell frá sjó.

Svartengisfjall

Sólstafir ofan Svartsengisfjalls.

Þaðan er ágætt útsýni yfir umhverfið, m.a. yfir að Gálgaklettum og Hagafelli í suðri og Húsafell, Fiskidalsfjall, Festisfjall, Hrafnshlíð (Siglubergsháls) og Fagradalsfjall í austri. Í toppi fjallsins er allstór gígur. Haldið var niður norðurhlíð Svartsengisfells ofan við Svartsengi þar sem fjölmennir dansleikir voru haldnir hér áður fyrr. Sagan segir að engið heiti eftir Svarti, hrúti Molda-Gnúps, þess er fyrstur nam land í Grindavík (að því að talið er).

Sundhnúksröðin er á náttúruminjaskrá, þ.e. Sundhnúksgígaröðin öll, frá Melhól í vestur að hraunkantinum sunnan Þorbjarnarfells, með honum vestur og norður fyrir fellið, að háspennulínu sem er u.þ.b. 200 m vestan þjóðvegar.

Sundhnúkar

Sundhnúkar.

Mörkin fylgja síðan línunni til norðurs að stað 2 km norðan Arnarseturs og þaðan austur í horn landamerkjalínu við norðausturhorn Litla-Skógfells, síðan beina línu sem hugsast dregin til norðausturs í Kálffell. Þaðan liggja mörkin í Fagradals-Vatnsfell og því næst um beina línu sem dregin er til suðvesturs um Fagradalsfjall, Sandhól, Vatnsheiði og að lokum í Melhól. Í heildina er tæplega 9 km löng gígaröð kennd við Sundhnúk.
Fallegar hrauntraðir eru í suðvesturhlíð Hagafells, en Grindavíkurbær stendur á hrauni úr gígaröðinni.

Vatnshæð

Vatnsstæði í Vatnsheiði.

Skammt austar er Vatnsheiðin, þrjár dyngjur, en úr þeim rann t.d. það hraun er nú myndar Þórkötlustaðanesið/Hópsnesið. Í því miðju er stór og mikil hrauntröð. Ein dyngjanna, sú syðsta, opnaðist er jarðýtu var ekið um hann. Nefnist opið nú K9. Stiga þarf til að komast niður um gígopið, en fróðlegt væri að fara þangað niður og skoða hvað er í boði þar niðri.
Arnarseturshraunið er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Hraun við Svartsengi og Grindavík er ca 2400 ára. Án þess væri engin höfn í Grindavík.

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Suðvesturlandið einkennist af Reykjanesskaganum, en það er hér sem Atlantshafshryggurinn gengur á land. Mikið af hraunum eru á Reykjanesskaganum, sem bera vott um hina miklu eldvirkni. Atlantshafshryggurinn gengur í gegnum mitt landið og heitir hér Reykjaneshryggur, en fyrir norðan land nefnist hann Kolbeinseyjarhryggur. Þetta undur heimsins hefur mótað Ísland, ýtt Ameríku frá Afríku og um leið myndað Atlantshafið. Ísland stendur á flekaskilum en vesturhluti landsins tilheyrir Ameríkuflekanum, en austurhlutinn Evrasíuflekanum. Sumir vilja halda því fram að Grindvíkingar fylgi Evrópuhlutanum, en Keflvíkingar fylgi Ameríkuhlutanum.

Sýlingafell

Sýlingafell – sýlingurinn (gígur/hvylft/laut).

Í Svartsengi, þarna skammt frá, er orkuver Hitaveitu Suðurnesja á háhitasvæði sem nýtir heitan jarðsjó. Í þessum jarðsjó er mikið um efnaupplausnir sem tæra málma og því er honum ekki veitt beint inn á veitukerfin, heldur látin hita upp ferskt vatn fyrir veituna í varmaskiptum. Við þetta fellur til mikill jarðsjór sem streymir út í hraunið og myndar Bláa Lónið, sem frægt er sem heilsubað fyrir fólk með húðsjúkdóma. Svífandi kísilagnir og fleiri efni eru ástæða þess að vatnið litast blátt.

Sprungur

FERLIRsfélagar á ferð um sprungusvæði Reykjanesskagans.

Á Reykjanesi er einnig annað háhitasvæði sem er vestur undir Skálafelli og svokölluðum Stömpum sem brunnu fyrir yfir 1000 árum. Bjarmar jarðeldsins lýstu upp haf og land, en talið er að slíkt muni gerast aftur þó ekki sé hægt að segja til um tímsetningu.

Í ferðinni gaf Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja, ágætt yfirlit yfir jarðsögu Svartsengis, tilurð og þróun orkuvers Hitaveitunnar. Fram kom m.a. í máli hans að undir hraununum er gífurlegt vatnsmagn, undir því er mikið magn sjávar er seitlast hefur inn undir bergið. Ferska vatnið flýtur ofan á og því hefur verið dælt upp til neyslu og heitavatnsnotkunar. Gufan, um 240 °C heit, sem kemur fram er vatnið minnkar og leitar jafnvægis, er notuð til að hita kalda vatnið. Hún kemur um 160°C heit inn í orkuverið þar sem súrefnið og óæskileg efni eru unnin úr vatninu áður en það er leitt hæfilega heitt inn í hús neytenda á Suðurnesjum.

Svartsengi

Svartsengisvirkjun.

Æðar og sprungur í jarðskorpunni eru nokkurs konar svitaholur jarðar og út um þær leitar gufa og glóandi hraun er þannig stendur á. Eina slíka “svitaholu” má sjá í toppi Svartengisfells og aðrar í Sundhnúkagígaröðinni, þarna skammt frá.
Fram kom í máli Alberts að við uppbyggingu orkuversins hafi mikil reynsla orðið til, m.ö.o. mörg mistök verið gerð er takast þurfti á við ný og óvænt vandamál, en án þeirra hefði ekki orðið nein þróun. Neysluvatnsnýtingin hafi þróast í heitavatnsnýtingu, hún í raforkunýtingu og heilsunýtingu og enn biðu ónýttir möguleikar, s.s. varðandi nýtingu umframorku og affalls, t.d. til líftækniðnaðar, vetnisiðnaðar og súrefnisiðnaðar. Affallsvarma væri t.d. hæg að nota til að hita upp golfvöll eða annað er þurfa þykir.

Svartengi

Svartsengi.

Miklu máli skiptir að menn séu frjóir í hugsun er kemur að hugsanlegri nýtingu þess ónýtta. Ljóst væri að við Reykjanesvirkjunina væri um 100 sinnum meiri vandamál að etja en þá sem fyrir er í Svartsengi, m.a. vegna útfellinga og sjávarseltu.
Albert taldi miklar framfarir hafa orðið í viðhorfi virkjunaraðila til umhverfismála. Nú væri jafnan reynt að samræma sjónarmið verndunar og nýtingar s.s. kostur væri. Umhverfi orkuversins bæri þess glöggt merki.
“Með Alberti fer maðr með reynslu”, hefði Molda-Gnúpur sagt ef hann hefði verið uppi nú á dögum.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.