Færslur

Sýlingafell

Gengið var um Svartsengi og með Svartsengisfelli að Sundhnúk. Sást vel hvernig hraunið hefur komi upp úr suðuröxl Svartsengisfels og runnið bæði til austurs og vesturs.
Vesturræman sést mjög vel frá Orkuverinu í Svartsengi þar sem það kemur sem foss niður vesturhlíð fellsins, ekki ólíkt því sem gerðist í Kálfadölum norðan Vegghamra.

Svartsengisfell

Svartsengisfell.

Norðan Sundhnúks er Sundhnúkagígaröðin að segja má ósnert. Gígarnir mynda röð út frá Sundhnúk og er hið mikla hraun vestan við þá runnið úr þeim, niður í Svartsengi. Auðvelt er að ganga upp að Gálgaklettum sunnan Sundhnúks. Gálgakletta er getið í þjóðsögunni um Ræningjana í Ræningjagjá (Þjófagjá) í Þorbjarnarfelli, handtöku þeirra á Baðsvöllum norðan fellsins og aftöku þeirra í klettunum. Þá var gengið upp á Svartsengisfell, er nefnist Sýlingafell frá sjó.

Svartengisfjall

Sólstafir ofan Svartsengisfjalls.

Þaðan er ágætt útsýni yfir umhverfið, m.a. yfir að Gálgaklettum og Hagafelli í suðri og Húsafell, Fiskidalsfjall, Festisfjall, Hrafnshlíð (Siglubergsháls) og Fagradalsfjall í austri. Í toppi fjallsins er allstór gígur. Haldið var niður norðurhlíð Svartsengisfells ofan við Svartsengi þar sem fjölmennir dansleikir voru haldnir hér áður fyrr. Sagan segir að engið heiti eftir Svarti, hrúti Molda-Gnúps, þess er fyrstur nam land í Grindavík (að því að talið er).

Sundhnúksröðin er á náttúruminjaskrá, þ.e. Sundhnúksgígaröðin öll, frá Melhól í vestur að hraunkantinum sunnan Þorbjarnarfells, með honum vestur og norður fyrir fellið, að háspennulínu sem er u.þ.b. 200 m vestan þjóðvegar.

Sundhnúkar

Sundhnúkar.

Mörkin fylgja síðan línunni til norðurs að stað 2 km norðan Arnarseturs og þaðan austur í horn landamerkjalínu við norðausturhorn Litla-Skógfells, síðan beina línu sem hugsast dregin til norðausturs í Kálffell. Þaðan liggja mörkin í Fagradals-Vatnsfell og því næst um beina línu sem dregin er til suðvesturs um Fagradalsfjall, Sandhól, Vatnsheiði og að lokum í Melhól. Í heildina er tæplega 9 km löng gígaröð kennd við Sundhnúk.
Fallegar hrauntraðir eru í suðvesturhlíð Hagafells, en Grindavíkurbær stendur á hrauni úr gígaröðinni.

Vatnshæð

Vatnsstæði í Vatnsheiði.

Skammt austar er Vatnsheiðin, þrjár dyngjur, en úr þeim rann t.d. það hraun er nú myndar Þórkötlustaðanesið/Hópsnesið. Í því miðju er stór og mikil hrauntröð. Ein dyngjanna, sú syðsta, opnaðist er jarðýtu var ekið um hann. Nefnist opið nú K9. Stiga þarf til að komast niður um gígopið, en fróðlegt væri að fara þangað niður og skoða hvað er í boði þar niðri.
Arnarseturshraunið er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. Hraun við Svartsengi og Grindavík er ca 2400 ára. Án þess væri engin höfn í Grindavík.

Flekaskil

Flekaskil Norður-Atlantshafshryggjarins.

Suðvesturlandið einkennist af Reykjanesskaganum, en það er hér sem Atlantshafshryggurinn gengur á land. Mikið af hraunum eru á Reykjanesskaganum, sem bera vott um hina miklu eldvirkni. Atlantshafshryggurinn gengur í gegnum mitt landið og heitir hér Reykjaneshryggur, en fyrir norðan land nefnist hann Kolbeinseyjarhryggur. Þetta undur heimsins hefur mótað Ísland, ýtt Ameríku frá Afríku og um leið myndað Atlantshafið. Ísland stendur á flekaskilum en vesturhluti landsins tilheyrir Ameríkuflekanum, en austurhlutinn Evrasíuflekanum. Sumir vilja halda því fram að Grindvíkingar fylgi Evrópuhlutanum, en Keflvíkingar fylgi Ameríkuhlutanum.

Sýlingafell

Sýlingafell – sýlingurinn (gígur/hvylft/laut).

Í Svartsengi, þarna skammt frá, er orkuver Hitaveitu Suðurnesja á háhitasvæði sem nýtir heitan jarðsjó. Í þessum jarðsjó er mikið um efnaupplausnir sem tæra málma og því er honum ekki veitt beint inn á veitukerfin, heldur látin hita upp ferskt vatn fyrir veituna í varmaskiptum. Við þetta fellur til mikill jarðsjór sem streymir út í hraunið og myndar Bláa Lónið, sem frægt er sem heilsubað fyrir fólk með húðsjúkdóma. Svífandi kísilagnir og fleiri efni eru ástæða þess að vatnið litast blátt.

Sprungur

FERLIRsfélagar á ferð um sprungusvæði Reykjanesskagans.

Á Reykjanesi er einnig annað háhitasvæði sem er vestur undir Skálafelli og svokölluðum Stömpum sem brunnu fyrir yfir 1000 árum. Bjarmar jarðeldsins lýstu upp haf og land, en talið er að slíkt muni gerast aftur þó ekki sé hægt að segja til um tímsetningu.

Í ferðinni gaf Albert Albertsson, aðstoðarforstjóri Hitaveitu Suðurnesja, ágætt yfirlit yfir jarðsögu Svartsengis, tilurð og þróun orkuvers Hitaveitunnar. Fram kom m.a. í máli hans að undir hraununum er gífurlegt vatnsmagn, undir því er mikið magn sjávar er seitlast hefur inn undir bergið. Ferska vatnið flýtur ofan á og því hefur verið dælt upp til neyslu og heitavatnsnotkunar. Gufan, um 240 °C heit, sem kemur fram er vatnið minnkar og leitar jafnvægis, er notuð til að hita kalda vatnið. Hún kemur um 160°C heit inn í orkuverið þar sem súrefnið og óæskileg efni eru unnin úr vatninu áður en það er leitt hæfilega heitt inn í hús neytenda á Suðurnesjum.

Svartsengi

Svartsengisvirkjun.

Æðar og sprungur í jarðskorpunni eru nokkurs konar svitaholur jarðar og út um þær leitar gufa og glóandi hraun er þannig stendur á. Eina slíka “svitaholu” má sjá í toppi Svartengisfells og aðrar í Sundhnúkagígaröðinni, þarna skammt frá.
Fram kom í máli Alberts að við uppbyggingu orkuversins hafi mikil reynsla orðið til, m.ö.o. mörg mistök verið gerð er takast þurfti á við ný og óvænt vandamál, en án þeirra hefði ekki orðið nein þróun. Neysluvatnsnýtingin hafi þróast í heitavatnsnýtingu, hún í raforkunýtingu og heilsunýtingu og enn biðu ónýttir möguleikar, s.s. varðandi nýtingu umframorku og affalls, t.d. til líftækniðnaðar, vetnisiðnaðar og súrefnisiðnaðar. Affallsvarma væri t.d. hæg að nota til að hita upp golfvöll eða annað er þurfa þykir.

Svartengi

Svartsengi.

Miklu máli skiptir að menn séu frjóir í hugsun er kemur að hugsanlegri nýtingu þess ónýtta. Ljóst væri að við Reykjanesvirkjunina væri um 100 sinnum meiri vandamál að etja en þá sem fyrir er í Svartsengi, m.a. vegna útfellinga og sjávarseltu.
Albert taldi miklar framfarir hafa orðið í viðhorfi virkjunaraðila til umhverfismála. Nú væri jafnan reynt að samræma sjónarmið verndunar og nýtingar s.s. kostur væri. Umhverfi orkuversins bæri þess glöggt merki.
“Með Alberti fer maðr með reynslu”, hefði Molda-Gnúpur sagt ef hann hefði verið uppi nú á dögum.

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Skógfellavegur

Gengið var um Arnarsetur til austurs, yfir hraunið að Stóra-Skógfelli. Ætlunin var að skoða hvort enn mætti sjá leifar flugvélar, sem þar eru sagðar vera. Flugmaður, sem flogið hefur yfir svæðið nokkrum sinnum, kvaðst stundum sjá sólarljósið endurspeglast þar af glerbrotum á stóru svæði, auk þess sem hann hefði orðið var við brak í suðaustanverðu fellinu. Ekki leggja þó fyrir heimildir um flugslys á þessum stað.

Arnarsetur

Arnarsetur.

Eftir að hafa skoðað megingíginn í Arnarsetri var haldið eftir stíg í gegnum hraunið. Mikil efnistaka hefur átt sér stað í Arnarsetri, en allt um kring má enn sjá merkar náttúruminjar í Arnarseturshrauni. Stór og mikil hrauntröð er norðan við gíginn og önnur vestan við hann. Í og við þá tröð eru nokkrir hellar. Fallegur hellir er einnig norðan við nyrðri hrauntröðina. Landssvæðið er að hluta til í óskiptu landi Þórkötlustaðabæjanna sex; Þórkötlustaða (Austurbæjar, Miðbæjar og Vesturbæjar), Klappar, Einlands og Buðlungu. Austurmörkin liggja frá mörkum Hrauns í Markarbás, um Húsafjall, Skógfellin og í Arnar

klett sunnan Snorrastaðatjarna, þaðan í Seltjörn og úr henni í beina línu í Markastein í fjöruborðinu u.þ.b. 60 metrum vestan við Hópsnesvita. Talsvert hefur verið ekið af jarðvegi í gryfjurnar, auk þess enn er verið að taka þar efni – í algeru leyfisleysi að því er virðist. Svo er að sjá að eftirlitsaðilar í Grindavík hafi ekki fylgt nægilega vel eftir takmörkunum á efnistökum í gamalli námu sem þessari eða umgengni um svæðið, sem er jú í umdæmi bæjarins.

Skógfell

Stóra-Skógfell – Sandhóll nær.

Hitt er svo annað mál, að sorglegt er til þess að vita, hvernig farið hefur verið með annars verðmætt umhverfið þegar til lengri tíma er litið.
Arnarseturshraun (apal) er á leiðinni til Grindavíkur. Það er frá sögulegum tíma sbr. annála úr Skagafirði. Vallholtsannáll segir frá gosi 1661, en við rannsókn kom í ljós að landnámslagið (dökkt að ofan og ljóst að neðan) er undir hrauninu og Kötlulag (1495-1500) er ofan á því. ISOR telur Arnarseturshraun vera frá Reykjaneseldunum á 13. öld, sennilega frá árinu 1226. Það er því með yngstu hraunum á Reykjanesskaganum.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.

Frá því að land byggðist er talið að um 12 hraun hafi runnið á Reykjanesskaga eða að meðaltali eitt hraun á öld. Hraunin runnu þó einkum á tveimur gostímabilum: um 1000 og um 1300. Síðara tímabilið gengur undir fyrrnefnda nafninu Reykjaneseldar.
Flest eldgos á Reykjanesskaga, og raunar á Íslandi öllu, verða þannig að fyrst opnast sprunga og gýs hún öll í byrjun. Síðan takmarkast eldvirknin við einstaka staði þar sem gígbarmar hlaðast smám saman upp. Goskeilurnar deyja síðan hver af annarri þar til gosi lýkur og gígaröðin stendur ein eftir. Gos getur varað allt frá nokkrum klukkustundum upp í nokkrar vikur.

Í blandgosum, þar sem háir kvikustrókar þeyta kvikuslettum hátt í loft upp, hrúgast upp háir og reisulegir gjall- og klepragígar, líkt og Arnarseturshraunsgígurinn. Þeir eru með skarð í gígveggnum þar sem apalhraun hefur runnið út. Apalhraun er gert úr kviku sem rennur eins og seigfljótandi síróp. Hraunstraumurinn skríður eða veltur hægt fram og er jaðarinn jafnan mjög brattur. Yfirborð hraunanna er mjög úfið og þekkjast þau því auðveldlega.

Skóf

Skóf.

Í flæðigosum verða hins vegar engir kvikustrókar. Í þeim flæðir þunnfljótandi kvikan líkt og lækur undan halla og myndar hraun, gert úr mörgum þunnum lögum. Slík hraun hafa slétt yfirborð líkt gangstéttarhellum. Ofan á þeim eru hraunreipi sem myndast líkt og hrukkur í súpuskán. Gígar, sem myndast þegar helluhraun rennur, kallast eldborg eða dyngja eftir því hve lengi gosið hefur staðið. Báðar eru lágir og víðáttumiklir hraunskildir sem oftar en ekki er erfitt að greina í landslaginu. Kvika helluhraunanna kraumar oftast í kvikutjörn í gígnum. Kvikusletturnar hlaða upp kringlóttan, þunnan og lágan gígvegg sem hvergi er skarð í. Kvikan rennur nefnilega úr gígnum um göng undir storknu yfirborði hraunsins sem rann í byrjun gossins. Þegar gosinu lýkur tæmast göngin og mynda langa hraunhella.

Arnarsetur

Arnarseturshraun.

Arnarseturshraun er í rauninni sambland af hvorutveggja þó einkenni helluhraunsins séu þar meira áberandi.
Nú, 1879, þekja hraungambri og aðrar mosategundir Arnarseturshraunið að mestu. Grámosi eða gamburmosi er þessi mosi nefndur í daglegu tali, en hefur hlotið tegundarheitið hraungambri (Racomitrium lanuginosum). Þetta er einn algengasti og mest áberandi mosinn á öllum suður- og vesturhluta Íslands svo og í strandhéruðum Austurlands. Hann er einn fyrsti landneminn í nýjum hraunum.

Mosi

Mosi.

Við úthafsloftslag á snjóléttum svæðum verður hann einráður á allmörgum áratugum, og myndar samfelldar, mjúkar mosaþembur á 100 ára gömlum hraunum og eldri. Á snjóþyngri svæðum með landrænna loftslagi nær hann ekki að kveða niður keppinauta sína, sem þá verða stundum ráðandi í gróðurfari, einkum hraunbreyskja.

Stóra-Skógfell er úr bólstrabergi af svipaðri gerð og Sandfell, Stapafell og Súlur. Þegar komið var langleiðina að fellinu var komið í grónara hraun; Skógfellahraun. Skógfellahraun er miklu mun eldra og liggur undir Arnarseturshrauni. Skógfellin, bæði Stóra- og Litla-, eru gamlir eldgígar, sem veður, vindar, vatn og ís hafa náð að “aflaga”. Haldið var upp með fellinu að norðanverðu. Í raun er um að ræða tvo toppa á fellinu, en sá austari er hærri. Milli þeirra er háls. Gígurinn er gróinn. Fjárgata liggur um hálsinn. Í hliðunum erum ýmsar fléttur, kræður og glæður. Blóðberg- og lambagrasskollarnir settu svip á hlíðarnar. Á toppi toppanna eru litlar vörður. Útsýnið af austari toppnum til suðurs yfir Sundhnúkaröðina er einstök, sem og útsýni yfir gíg skammt austar og Sandhólinn, sem í raun er lítill gígur úr eldra hrauni.

Arnarseturshellar

Í Arnarseturshellum.

Haldið var skáhallt niður með hlíðunum. Á hálsi utan í vestari toppnum sást járnbrak og gulmálað dekk með axlaböndum björgunarsveitargallans. Sólin sendi geisla sína niður á fellið og glytti fallega á blauta smásteinanan. Þarna gæti verið komin skýring á “tálsýn” flugmannsins.
Ágætt útsýni er af Stóra-Skógfelli. Vestan við það er Gíghæðin, Þaðan sem lagt var af stað. Í austri blasir Fagradalsfjallið við með sína fylgifiska s.s. Sandhól og Kastið þar sem enn má sjá leifar flugvélar þeirrar er Andrews yfirhershöfðingi fórst með.
Sunnan Stóra-Skógfells liggur vegurinn austan undir fallegri Sundhnúksgígaröðinni, sem er um 8 km löng, og áfram að Sundhnúk sem er aðal gígurinn og stendur hann norðan við Hagafell. Gígaröðin er á Náttúrminjaskrá og á að varðveitast sem slík. Utar er Sundhnúkurinn sjálfur í allri sinni reisn.
Norðan Stóra-Skógfells sést vel yfir að Litla-Skógfelli. Skógfellagatan liðast á milli þeirra, sorfin í helluhraunsklöppina eftir hófa og fætur liðinna alda.

Arnarssetur

Arnarssetur – skjól.

Þegar gengið var á ská niður hlíðina á norðanverðu fellinu hljóp lítil aurskriða af stað skammt utar. Áhrifaríkt var að sjá og heyra hvernig skriðan fór af stað, fyrst hægt, en jók síðan hraðann uns hún óx að afli eftir því sem neðar dró – uns hún dó – áður en komið var alveg niður að rótum fellsins.
Skoðaðir voru nokkrir hellisskútar utan í Arnarsetri. Einn þeirra, utan í megingígnum, er yfir 20 metra langur með fallegum hraunmyndunum. Hann hafði ekki verið skoðaður áður. Í öðrum virtist þursmynd vera við opið. Meginhrauntröðin er mikilfengleg. Utan í henni á einum stað eru einstaklega litskrúðugar hraunmyndanir. Fyrir áhugasamt fólk um jarðfræði væri sennilega hægt að dvelja þarna heilan dag án vitundar um tíma og rúm. Litirnir í berginu eru einstakir, auk þess sem finna má þarna ótal hraunmyndanir og jarðmyndanir án mikillar leitar.

Arnarsetur

Arnarsetur – skjól.

Í nyrðri hrauntröðinni eru ótal skútar og lesa á hinar ýmsustu fígurur út úr hraunmyndunum í börmum gjárinnar. Efst á sjálfu Arnarsetrinu er líkt og fuglshöfuð og skammt norðar er þar bergþurs er horfir frjáum augum til vesturs, eftir vestari hrauntröðinni. Eflaust gætu hraunfræðingar, sem gefa sér tíma til að lesa hraunið, sagt talsvert um slíkar hraunmyndanirnar með hliðsjón af myndun þeirra og tilurð. Slíkt gæti orðið hinn áhugaverðasti fyrirlestur.
Frábært veður. Þægileg rigningin lék aðalhlutverkið í fyrstu, en á það ber að líta að um skírdag var að ræða og þá nota Grindvíkingar tækifærið og skíra allt óskírt á einu bretti. Sólin leikur aðalhlutverkið á svæðinu aðra daga, enda náði hún vel í gegn þess á milli.
Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.nat.is/
-http://www.isor.is/

Arnarsetur

Arnarsetur og nágrenni – örnefni.