Eftirfarandi umfjöllun um “Jón á Skála“, Jón Valgeir Guðmundsson, birtist á vefsíðu Grindavíkur árið 2020. Viðtalið við hann hafði áður birst í Járngerði.
Ég væri til í að lifa aftur allt það líf sem ég hef nú þegar lifað
Jón á Skála, eða Jón Valgeir Guðmundsson, er elsti núlifandi Grindvíkingurinn og verður 98 ára í sumar. Ritstjóri Járngerðar hitti hann snemma í janúar og tók við hann viðtal sem við endurbirtum núna á heimasíðunni en það birtist áður í Járngerði.
Jón tekur á móti blaðamanni í notalegri íbúð í nýrri viðbyggingu við Víðihlíð rétt eftir áramótin. Jólaljósin eru enn tendruð og fallegur rauður jóladúkur þekur eldhúsborðið þar sem við fáum okkur sæti. Við byrjum á því að ræða flutninginn í Víðihlíð sem Jón er alsæll með, svo ánægður að hann hefur þegar nefnt kotið Sælustaði. Hann lýsir dvölinni í Víðihlíð sem „himnaríki á jörðu“.
Jón Valgeir fæddist á Ísólfsskála í Grindavík, 4. júní 1921 og er því að verða 98 ára gamall. Sama dag bar kind lambi sem lifði í 14 ár. Jóni var gefið þetta lamb og sagði hann lambið hafa verið mikla happaskepnu. Það var grátt að lit og mjög eftirsótt var að fá gráa ull. Hann seldi móðursystur sinni reyfið og fékk tvær krónur fyrir það. Rétt eftir að Jón var fermdur drapst þó þessi happaskepna. Afi hans og amma létust með aðeins dags millibili, þann 19. og 20. apríl 1921. Hann hét Jón og hún Valgerður og því fékk hann nafnið Jón Valgeir. Jón átti 11 systkini, 5 hálf- og 6 alsystkin. Á langri ævi hefur Jón komið víða við, unnið vegavinnu, verið lengi á sjó og svo vann hann við að keyra vörubíl fyrir útgerðina í Þórkötlustaðahverfinu.
Byrjaði 12 ára í vegavinnu milli Ísólfsskála og Krýsuvíkur
Þegar Jón rifjar upp það sem á daga hans hefur drifið segir hann æsku sína hafa verið yndislega, „hún var mjög góð, ég fór snemma að vinna. Ég komst í vegavinnu hjá Einari Ben en hann var að gera veg frá Ísólfsskála upp að Krísuvík. Hann átti bæði Krýsuvíkina og Herdísarvíkina. Ég fékk vinnu í gegnum föðurbróður minn sem kom að verkinu. Ég var þar um vorið 1933, þá var ég 12 ára. Ég var síðan sendur upp í Skála til að elda fyrir mennina sem voru að vinna að veginum. Þetta gekk mjög vel, ég gat matreitt allt; kartöflur, rófur, kjöt eða fisk, matargerðin var einföld. Ég fékk 100 krónur fyrir sumarið,“ segir Jón.
„Fjórtán ára fór ég á vertíð hérna í Grindavík. Ég var á trillu og fékk 150 krónur fyrir þá vertíð sem var frá febrúar fram í maí. Af því þurfti ég að borga stakk fyrir 10 krónur og stígvél fyrir 12 krónur. Ég fékk ekki nema hálfan hlut þar sem þetta var fyrsta vertíðin mín. Á næstu vertíð fékk ég 350 krónur.“
Strandaði á síldarveiðum
„Árið 1938 fór ég á síld á Ægi frá Sandgerði og fékk 850 krónur fyrir sumarið, þá var róið út á árum. Við köstuðum þar á torfu við Skjálfanda.
Við náðum að fylla Ægi og héldum í land á Siglufirði. Um nóttina, meðan við erum á siglingu, gerist það að það heyrist skruðningur, svo heyrði ég voða læti í vélinni og svo kom dauðaþögn. Það var svarta þoka, sást ekki út úr augunum, sjórinn var spegilsléttur. Við höfðum fengið í skrúfuna og báturinn strandað. Um nóttina erum við allir komnir upp á dekk. Klukkan hálf sex um morguninn var komin fjara og þá gátum við náð úr skrúfunni og svo biðum við bara eftir því að það félli að aftur. Svo líður og bíður og ekkert gerist en báturinn stóð milli tveggja kletta. Klukkan 14:00 daginn eftir losnar báturinn og í því kemur Muninn, bátur frá sömu útgerð og Ægir, sem er þá þegar búinn að landa síldinni sem hann var með og skipstjórinn kallaði: „Hvernig fórstu að því að stranda í svona góðu veðri?“ Okkur gekk í kjölfarið vel að veiða, eltum bara múkkann og fylltum báða bátana.
Dreymdi fyrir sjávarháska við Færeyjabanka
Jón segir að lífið hafi alltaf gengið vel hjá honum, „alla tíð, það hefur alltaf verið bjart í kringum mig. Ég er berdreyminn, á sjó og landi, og mig dreymir oft fyrir vandræðum. Ég hef verið heppinn, sloppið úr háska vegna aðvarana sem ég fékk í draumi.“
Jón heldur áfram að rifja upp atvik þar sem hann dreymdi fyrir sjávarháska. „Árið 1959 gerðist ég útgerðarmaður og keypti bát. Við fengum leyfi til að byggja bát í Þýskalandi. Við fórum að sækja bátinn, fórum tveir úr Grindavík, ég og Guðmundur Helgason, en nokkrir voru komnir út. Báturinn átti að leggja af stað heim þremur dögum fyrir jól. Þegar við erum að sigla Eystrasaltið þá dreymir mig að tvær konur ætli að drepa mig. Ég var hálf vankaður þegar ég vakna enda leiðinlegur draumur, svo ég segi við skipsfélaga mína að mig hafi dreymt ljótan draum í nótt og ég túlkaði drauminn á þann veg að litlu myndi muna að við færumst með skipinu. Þegar við erum komnir á Færeyjabankann, þá er hífandi rok og suðaustan 12 vindstig. Ég var skráður annar vélstjóri, en ég var uppi um 10 um morguninn. Þá sé ég þennan voða sjó koma á eftir bátnum, alveg himinháar öldur. Ég stoppa strax vélina til að taka ferðina af bátnum. Þá kemur siglingamaðurinn, Jón Pétursson, og segir: „Hvern djöfulinn, af hverju erum við að hægja á?“ Og ég segi við hann: „Hvað, sérðu ekki hvað er að ske?“
„Þessi 75 tommu trébátur, sem við vorum á, hann stakkst bara á nefið. Ef ég hefði ekki slegið af þá hefði honum bara hvolft. Og þetta hefur fylgt mér alla tíð, bæði á sjó og landi, ég fæ þessar aðvaranir. Mig dreymdi oft fyrir afla og eins þegar ekkert fékkst. Ef það var von á afla þá var báturinn á kafi í draumnum, en ef ekkert fékkst þá var hann bundinn við bryggju í draumnum. Svona hefur þetta verið allt mitt líf, alltaf eitthvað verið til að bjarga mér. Mig dreymdi þó ekki fyrir strandinu á Ægi og það er vegna þess að þá var rennisléttur sjórinn og gott veður.“
„Þú verður ekki gamall maður“
„Einu sinni dreymdi mig að ég var úti í Hælsvík, ég var á trillu sem var nánast sokkin, sást ekkert í hana nema lestarborðið. Þetta var á sunnudegi og við förum út að Hælsvík og þar er ekkert að hafa. Síðan klukkan ellefu um kvöldið vænkaðist staðan og við fengum fullt af fiski. Drógum fullan bát eða um tvö tonn.“ Jón segir að þegar þeir hafi komið í land á mánudagsmorgni, hafi Þórarinn Pétursson, sem sá um reksturinn í Þórkötlustaðavinnslunni, komið til hans og sagt að nú ætti að skipa út 6000 kössum af fiski. „Hann sagði við mig að ég yrði nú ekki upp á marga fiskana ef ég ætlaði að vinna svona, „þá verður þú nú ekki gamall maður,“ en ég svaraði því til að það besta sem maður gerði væri að vera vinnandi. Svo fór að hann dó því miður úr krabbameini um sextugt og hér er ég, lifandi enn þá!
Berserksgangur í Kvennó
Gamli tíminn er rifjaður upp og skemmtanir sem oft voru haldnar í Kvennó berast í tal, hvernig nýi tíminn mætir þeim gamla þegar kemur að slíku. Jón rifjar þá upp skemmtun í Kvennó sem haldin var á laugardegi fyrir páska, fyrir töluvert mörgum árum. Félagsheimilið Festi var a.m.k. ekki risið. „Yfirleitt var dansað á neðri hæðinni í Kvennó, setið var á bekkjum og konum boðið upp í dans. Þó var hópur sem hélt sig á efri hæðinni, oftast karlmenn sem sátu og drukku.“ Jóni var minnisstætt atvik þegar Kalli í Karlsskála var búinn að fá sér aðeins of mikið, losaði borðfætur undan borði og gekk svo berserksgang og lamdi alla þá sem fyrir voru. Jón sagði að svo mikil hafi lætin verið að hann hafi hlaupið eins og byssubrandur niður, út og heim. Hann hafi eftir þetta ekki verið mjög spenntur fyrir að sækja skemmtanir sem þessar. Menn hefðu orðið svo lemstraðir í átökunum að þeir gátu ekki róið eftir páskastoppið, „en það hefur aldrei verið stuggað við mér og ég ekki við neinum,“ bætir Jón við.
Mikilvægt að vera heilbrigður á líkama og sál
Talið berst að langlífi en nokkur systkina Jóns hafa lifað nokkuð lengi. „Það besta við að vera langlífur er að hafa nóg að gera og nóg að starfa. Og vera heilbrigður á líkama og sál. Það að trúa á almættið skiptir miklu máli. Það styrkir mann svo að vita af því að það er einhver sem lætur mann vita af vandræðum. Þetta hefur fylgt mér alla daga. Ég reri nú einn um nokkurt skeið en aldrei hef ég óttast neitt eða verið hræddur um að nokkuð komi fyrir mig. Þetta er alveg æðislegt að fá að lifa svona lengi og fá að vera svona heilbrigður. Ég væri til í að lifa allt það líf, sem ég hef nú þegar lifað, aftur. Það hefur ekkert komið fyrir mig og ég hef verið látinn vita ef hættur eru framundan. Draumarnir hafa alltaf fylgt mér,“ segir Jón að lokum.
Jón dó ári seinna, líkt og allra núlifandi má vænta.
Heimild:
-https://grindavik.is/v/22455