Ögmundastígur

Farið var um Hrauntungu í Kapelluhrauni og leitað fjárhella, sem þar eiga að vera.

Hrauntungur

Hrauntunguskjól.

Í Tungunni fannst fjárskjól hlaðið fyrir hellisskúta og skjól í jarðfalli, sem hlaðið hafði verið fyrir. Stórt birkitré huldi innganginn í skjólið, sem mun hafa verið afdrep fyrir smala, en þegar inn var komið blasti við talsvert rými og miklar hleðslur.

Þá var haldið í Krýsuvík og gengið norður með vestanverðu Krýsuvíkur-Mælifelli, í kantinum á Ögmundarhrauni, framhjá Drumbi og inn í Bleikingsdal. Til baka var gengið með læk í gegnum hraunið. Staldrað var við hjá Ögmundardys, en eins og flestum er kunnugt lét Krýsuvíkurbóndi (sumir segja Njarðvíkurbóndi) drepa og síðan dysja vinnumanninn Ögmund eftir að hafa svikið hann um að mega eiga dóttur hans ef hann gæti rutt braut í gegnum hraunið innan tilskilins tíma.

Stóri-Hamradalur

Rétt í Stóra-Hamradal.

Einungis brot af hinum gamla Ögmundavegi er eftir í hrauninu. Nýr vegur, Hlínarvegurinn, var lagður ofan í hann yfir Ögmundarhraun á fyrri hluta 20. aldar.
Loks var gengið yfir Tófubruna vestan Latfjalls, upp í gígana og áfram yfir í Stóra-Hamradal. Þar undir hömrunum er gömul rétt, sem notuð var til rúninga á öldum áður, skv. upplýsingum Jóns Guðmundssonar frá Skála.
Veður var með miklum ágætum.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.