Tag Archive for: Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur

Gengið var um Stóra-Hamradal og upp í Litla-Hamradal þar norður af. Upp úr honum var gengið til norðvesturs upp á Núpshlíðarháls og síðan eftir hálsinum ofan við Hraunssel, um Selsvallafjall og Grænavatnseggjar ofan við Grænavatn og niður að Spákonuvatni, Sogadal og staðnæmst við Sogagíg við rætur Trölladyngju ofan Höskuldarvalla.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Í Stóra-Hamradal er hár hamraveggur, misgengi. Dalurinn hefur sigið, en ofan af brúnum gjárveggjarins hefur síðan runnið nýrra þunnfljótandi hraun úr gígunum ofan við Tófubruna. Sumsstaðar hefur það smurt veggina líkt og að vandaða múrhúðun sé um að ræða. Undir gjánni sunnarlega er hlaðin rúningsrétt.
Litli-Hamradalur virðist ekki jafn tilkomumikill og stóri bróðir hans, en dalurinn er allsléttur og getur verið mjög litskrúðugur í bjartviðri, einkum eftir rigningar. Gengið var á Núpshlíðarhálsinn upp úr norðurenda dalsins. Þegar komið var upp á brún blasti Höfði í suðvestri, Sandfell í vestri og Hraunssels-Vatnsfell í norðvestri.

Hraunssel

Hraunssel.

Niður undir hálsinum lá Hraunsselið, vel gróið. Út frá því liggja greinilegar gamlar götur, sem spillt hefur verið í seinni tíð með utanvegaakstri.
Hraunsel var sel frá Hrauni í Grindavík. Ofarlega í hlíðinni eru falleg litbrigði kulnaðra hverasvæða. Eftir að hafa staldrað við í grónum brekkunum ofan við selið var haldið áfram norður eftir hálsinum og útsýnið nýtt til hins ítrasta.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Smátt og smátt fjarlægist Sandfell í blámóðuna að baki, Hraunsels-Vatnsfell og fleiri fell þokast hjá á vinstri hönd en Driffell, Keilir og Oddafell skýrast þá norðar dregur. Þegar komið er norðar kemur slétt graslendi Selsvalla í ljós. Af Selsvallafjalli má, ef vel er að gáð, sjá tóftir Grindavíkurseljanna suðvestanvert á völlunum sem og undir hlíðinni á þeim austanverðum. Selsvellir mynduðust með framburði lækja úr hálsinum.
Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna.

Selsvellir

Sel við Selsvelli.

Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum. Syðst á austanverðum völlunum er svonefndar Kúalágar.
Norðan Selsvalla taka aftur við hraun, mosavaxin víðast hvar. Spölkorn vestan við Núpshlíðarháls, úti í hrauninu vestan Selsvalla að norðanverðu, er einn fallegasti hraungígurinn á Reykjanesskaga, Moshóll. Því miður er búið að skemma hann að hluta með umferð ökutækja. Hann er nyrsti gígurinn á gígaröð sem Afstapahraun er runnið úr. Það rann í norður og í sjó fram í Vatnsleysuvík, hjá Kúagerði, löngu eftir að land byggðist. Úr suðurhluta sprungunnar er Leggjabrjótshraun runnið, sem fyrr er nefnt.

Grænavatn

Grænavatn.

Frá Grænavatnseggjum er frábært útsýni niður að Grænavatni á hægri hönd og að Trölladyngju og Grænudyngju til norðurs. Dyngjurnar eru móbergshnjúkar (393 og 375 m.y.s). Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Þar er og mikill jarðhiti á ýmsum stöðum. Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda A-V-skák.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld, og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt.

Spákonuvatn birtist í einum gígnum á vinstri hönd. Fallegt útsýni er frá því yfir að Keili og umhverfi hans. Gengið var niður hin litskrúðugu Sog, um Sogadal og litið í Sogagíg þar sem selstóftir Sogasels voru skoðaðar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.utivist.is/utivist/greinar
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Trolladyngja/
-http://www.os.is/jardhiti/
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur.

Dyngjur-3

Dyngjur.

Ögmundastígur

Farið var um Hrauntungu í Kapelluhrauni og leitað fjárhella, sem þar eiga að vera.

Hrauntungur

Hrauntunguskjól.

Í Tungunni fannst fjárskjól hlaðið fyrir hellisskúta og skjól í jarðfalli, sem hlaðið hafði verið fyrir. Stórt birkitré huldi innganginn í skjólið, sem mun hafa verið afdrep fyrir smala, en þegar inn var komið blasti við talsvert rými og miklar hleðslur.

Þá var haldið í Krýsuvík og gengið norður með vestanverðu Krýsuvíkur-Mælifelli, í kantinum á Ögmundarhrauni, framhjá Drumbi og inn í Bleikingsdal. Til baka var gengið með læk í gegnum hraunið. Staldrað var við hjá Ögmundardys, en eins og flestum er kunnugt lét Krýsuvíkurbóndi (sumir segja Njarðvíkurbóndi) drepa og síðan dysja vinnumanninn Ögmund eftir að hafa svikið hann um að mega eiga dóttur hans ef hann gæti rutt braut í gegnum hraunið innan tilskilins tíma.

Stóri-Hamradalur

Rétt í Stóra-Hamradal.

Einungis brot af hinum gamla Ögmundavegi er eftir í hrauninu. Nýr vegur, Hlínarvegurinn, var lagður ofan í hann yfir Ögmundarhraun á fyrri hluta 20. aldar.
Loks var gengið yfir Tófubruna vestan Latfjalls, upp í gígana og áfram yfir í Stóra-Hamradal. Þar undir hömrunum er gömul rétt, sem notuð var til rúninga á öldum áður, skv. upplýsingum Jóns Guðmundssonar frá Skála.
Veður var með miklum ágætum.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.