Í næstu nálægð við Flagghúsið (Olafsenshús) eru gömul hús, þ.e.a.s. þau sem ekki hafa verið rifin, er bæði hafa verið gerð upp að hluta eða verið látin drabbast niður. Sum húsanna, sem þarna voru, mætti endurbyggja með tiltölulega litlum tilkostnaðir (þegar heildarmynd gömlu þorpsmyndarinnar er höfð að markmiði til lengri framtíðar). Öruggt má telja, ef það verður gert, munu bæði íbúarnir sem og aðkomufólkið verða núlifandi ákvörðunaraðilum ævarandi þakklátir fyrir vikið. Eftir því sem tíminn líður munu líkur á endurgerð og enduruppbyggingu þessa kjarnasvæðis minnka og jafnvel að engu verða. Komandi kynslóðir munu þá verða mun fátækari á menningararfinn, auk þess sem vanrækt verður að gefa afkomendunum kost á að kynnast húsakosti og aðstæðum forfeðra Grindvíkinganna – hinna miklu sjósóknara og höndlara.
Flagghúsið er eitt elsta hús Grindavíkur. Það er talið vera byggt árið 1917. Það hefur verið, sem fyrr segir, í endurnýjun árdaga. Erling Einarsson í EP verk h/f, eigandi hússins, og Gugga eiginkona hans, áformuðu af framsýni að koma húsinu í upprunalegt horf og eru framkvæmdir nú komnar vel á veg. Ljóst er þó að mikið verk er enn fyrir höndum. Erling smíðaði sperrur, hálfhandlama, og verkaði panelklæðningu sem fór inn í húsið með ákveðnum aðferðum þannig að nú lítur hann út fyrir að vera a.m.k. hundrað ára gamall (þ.e. panellinn). Gugga kom m.a. með framkvæmanlegar tillögur og annaðist bókhaldið. Verkið hugsuðu þau hjónin sér að taka í markmiðssettum áföngum – ef vonir ganga eftir um viðhlítandi stuðning til mótvægis við eigið framlag. Þau hafa nú þegar náð að loka húsinu með klæðningu, en gluggaásetning, dyraumbúnaður o.fl. eru enn á hugarstreymisstigi.
Flagghúsið fékk viðurnefni sitt af því að það þjónaði sjófarendum á Járngerðarstaðasundi. Dagbjartur Einarsson frá Ásgarði (1876-1944 ) hætti formensku fimmtugur að aldri og tók þá að sér það hlutverk að gefa sjófarendum leiðbeiningar ú landi um veðurhofur og lendingaraðstæður. Járngerðarstaðarsund var erfitt, jafnvel vönum mönnum og landtaka oft hættuleg og illfær. Á tímabilinu frá 1925 framundir 1940 var notað sérstakt merkjakerfi sem Dagbjartur sá um. Í fyrstu var hengt á suðurgafl Sæbóls hvítt merkjaflagg en síðar var sett á Flagghúsið mikil stöng á norðurgaflinn. Þá var hífður upp einn belgur ef vá var í vændum t.d veðrabrigði og tveir belgir þýddi aðgát á sundi og brim í lendingu. Gifta fylgdi þessu starfi hans og færðu formenn í Járngerðastarhverfi honum silfurskjöld er hann lét af þessum starfa sem viðukenningu fyrir hjálp á hættustundum.
Einungis þetta eina hús er ennþá uppistandandi af verslunarhúsum Einars kaupmanns í Garðhúsum (sjá mynd á vefsíðunni frá því um 1960). Flagghúsið hafði áður verið íbúðarhús í Garðhúsum, byggt 1890 og síðar flutt o gert að pakkhúsi við Einarsbúð. Í dag er þetta hús upphaflegt viðmið skipulagðrar byggðar í Grindavík, enda öll húsnúmer í bænum frá þessu húsi talin. Flagghúsið hefur gegnt margvíslegum verkefnum meðal annars verið íbúðarhús, verbúð, samkomustaður, skemmtistaður, leikhús, andansstaður, stefnumótastaður, athvarf, beituskúr, pakkhús, salthús, veiðafærageymsla og netaloft. Auk þess er þarna sögusvið nóbelsverðlaunaskáldsins og leiksvið kvikmyndarinnar “Sölku Völku”. Þarna er uppspretta myndlistar málarans Gunnlaugs Scheving enda miðja margra mynda hans. Nafngift hússins er komin, sem fyrr sagði, af flaggstönginni, sem var á vesturgafli hússins. Þar voru sjómenn, sem fyrr sagði, varaðir við ef aðgæslu var þörf á Járngerðarstaðarsundi. Þá var flaggað lóðabelgjum, einum, tveim eða þrem, eftir því hversu slæmt sundið var. Eins var verkafólk kallað til með flaggi þegar breiða átti saltfisk á nálæga þurrkreiti eða taka þurfti fiskinn saman. Við endurbygginguna var skipt um þak, sperrur, bæði gólfin, fóttré og burðarbita bæði neðri- og efri hæðar. Einnig var skipt um klæðningu og stóran hluta burðarvirkis í gafli og hliðum hússins. Grjóthleðslur sökkuls voru endurhlaðnar svo og framstéttin. Reynt var með sérstakri bæsun að ná lit og áferð nýrra viðarhluta sem líkastan gömlu viðarhlutunum. Húsið var einangrað að utan og klætt bárujárni líkt og áður var. Þannig hafa innveggir hússins verið gerðir sýnilegir, en þeir geyma byggingarlag hússins og sögu gengina kynslóða sem skráð er á veggi hússins, bæði með málningu og útskurði. Útlit glugga og gluggaskipan verður upprunaleg þegar upp verður staðið. Sett verður flaggstöng á gafl hússins líkt og áður var.
Eins og áður sagði eru háleitar hugmyndir um að hýsa í Flagghúsi framtíðarinnar krambúð með menningar- og sögutengda starfsemi að markmiði, starfsemi sem sæmir merkri sögu hússins, byggðarlaginu svo og komandi kynslóðum. Þarna er um að ræða ómetanlegar minjar, sem ekki má glata, en öllu heldur gera að lifandi sýningarsal, hvort sem verður á verkum og handbragði forfeðranna eða orðsins látbragði.
Um langt skeið hefur mörgu hugsandi fólki verið það vel ljóst að Flagghúsið er veruleg menningarverðmæti sem ekki hefði mátt glata og orðið hefur verið að varðveita í upprunalegri mynd.
Endurbygging Flagghússins hefur hingað til kostað verulegar fjárhæðir og ekki hefur verið á eins manns færi að standa straum að endurbyggingu þess. Herslumuninn vantar þó enn til að klára húsið og gera nothæft til áhugaverðra hluta. Líklegt má telja að í framhaldi af því muni smitáhrifa gæta, þ.e. að áhugi á að vernda og endurbyggja nálæg hús mun fara vaxandi og þau ganga í endurnýjun nýtingardaga. Fylgi mun aukast við að svæðið allt verði jafnvel notað til uppbyggingar og varðveislu “gamalla” húsa – bæjarkjarna hinnar gömlu Grindavíkur.
Sem lið í sporgöngu þessa fór fram menningar- og sögutengd ganga í boði Grindavíkurbæjar og Saltfiskssetursins laugardaginn 21. okt. 2007. Gangan hófst við nýtt örnefna- og söguskilti af Járngerðarstöðum, sögusviði Tyrkjaránsins 1627. Skiltið er við gatnamót Verbrautar og Víkurbrauta, næstu gatnamót ofan við Pakkhúsið.
Genginn var hringur um hverfið, m.a. að þeim stað þar sem að þjóðsagan segir að “tyrkjaþistill” vaxi. Gengið var að dys Járngerðar og Járngerðarstaðabæjunum. Eitt horn leiðisins stóð þá undan beygju í götunni, en við nýlegar úrbætur á henni, var endanlega valtað yfir leiði gömlu konunnar – örnefnatilurð hverfisins. Síðan var gengið til baka meðfram strandlengjunni, með Járngerðarstaðavíkinni og vörunum, að gömlu bryggjunni og ýmislegt skoðað sem fyrir augu bar á leiðinni. Reynt var að gera gönguna bæði skemmtilega og fræðandi fyrir alla fjölskylduna. Boðið var upp á uppákomur s.s. hákarlasmakk o.fl.. Gangan endaði svo við gamla Flagghúsið, sem þá var í miðjum endurnýjunarkliðum. Það var til sýnis þátttakendum, auk þess sem Erling Einarsson rakti sögu þess og endurnýjunaráform.
Til fróðleiks má geta þess að afkomendur Dagbjarts Einarssonar frá Garðhúsum og Valgerðar Guðmundsdóttur frá Klöpp komu um haustið saman í húsi björgunarsveitarinnar Þorbjörns af sérstöku tilefni, m.a. tengt Pakkhúsinu. Þau bjuggu í Ásgarði í Grindavík. Við það tækifæri var stjórn björgunar sveitarinnar færður til varðveislu silfurskjöldur í ramma, en þar má lesa æviágrip og um tilurð þess að Dagbjarti var færður þessi silfurskjöldur frá formönnum í Járngerðarstaðar hverfi árið 1944.
Dagbjartur Einarsson fæddist að Garðhúsum í Grindavík 18. október 1876. Foreldrar hans voru Einar Jónsson óðalsbóndi og hreppstjóri og kona hans Guðrún Sigurðardóttir frá Selvogi.
Dagbjartur bjó í foreldrahúsum til fullorðinsára, en þá gerðist hann lausamaður og síðar formaður og útgerðarmaður. Kona Dagbjarts var Valgerður Guðmundsdóttir frá Klöpp í Þórkötlustaðarhverfi. Þau reistu sér bú þar sem hét að Völlum. Árið 1925 urðu þau fyrir miklum búsifjum vegna aftakaveðurs og flóðs sem gerði í janúar við suðurströnd landsins. Þá reistu þau hjón framangreint hús ofarlega í kauptúninu og nefndu Ásgarð.
Dagbjartur hætti formennsku fimmtugur að aldri og tók þá að sér það hlutverk að gefa sjófarendum á Járngerðarstaðarsundi leiðbeiningar úr landi um veðurhorfur og lendingaraðstæður. Járngerðarstaðarsund var erfitt, jafnvel vönum mönnum og landtaka oft erfið og illfær. Á tímabilinu frá 1925 framundir 1940 var notað sérstakt merkjakerfi sem Dagbjartur sá um. Í fyrstu var hengt á suðurgafl Sæbóls hvítt merkjaflagg, en síðar var sett á Flagghúsið mikil stöng á norðurgaflinn. Þá var hífður upp einn belgur ef vá var í vændum t.d veðrabrigði og tveir belgir þýddu aðgát á sundi og brim í lendingu. Gifta fylgdi þessu starfi hans.
Heimilisfesta Flagghússins ehf, kt. 6206012090, er að Efstahrauni 27, 240 Grindavík, sími: 4268438. Símtölum frá öllu áhugasömu fólk með nýtingarhugmyndir verður svarað, hvort sem þær lúta að Flagghúsinu eða nálægum húsum, s.s. Bakka, Kreppu, Júlíusarhúsi, Vörum og Sæmundarhúsi eða endurbyggingu horfinna húsa á svæðinu.
(Sjá einnig umfjöllun um Flagghúsið – endurnýjun I).