Þórkötlustaðanes

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1996 fjallar Þórarinn Ólafsson um “Vetrarvertíð í Þórkötlustaðahverfi”.

Þórarinn Ólafsson

“Trilluútgerð í Þórkötlustaðahverfi á sér langa sögu, en hún lagðist niður 1946. Vertíð hófts eftir að aðkomumennirnir sem ráðnir höfðu verið komu, og var það venjulega um miðjan janúar. Þá var hafist handa við undirbúning fyrir vertíðina. Að vísu voru heimamenn búnir að fara yfir línuna, hreinsa ásinn, hnýta á, setja upp línu, fella og bæta net, en það var aðallega gert á haustin því þá var nægur tími til þeirra hluta. Einnig var búið að bika og lita línu og net. Var það aðallega gert í heimahúsum.
Eitt var það sem higa þurfti vel að, var ískofinn. Hver trilla hafði sinn kofa og þurfti að fylla hann af snjó til að hægt væri að geyma beitu og beitta línuna, því ekki var til íshús í Þórkötlustaðarhverfi þá. Í ískofanum var kassi sem geymdi síld og bjóð og utan um þennan kassa var hólf, 5-6 tommu breitt, og í það var settur snjór blandaður meðs alti og við það fékkst ágætis frost í kassann. Það þurfti að líta vel eftir kassanum og þótti það leiðinleg vinna að passa upp á kassann. Rafmagn þekktist ekki á þeim tíma í Þórkötlustaðahverfi. Notaðar voru gasluktir í skúrana en svokallaðar hænsnaluktir til að lýsa sér þegar gengið var til skips. Var oft gaman að sjá ljóslínuna sem myndaðist alla leið suður í Nes, því margir voru mennirnir með luktir og allir fóru á sjó á svipuðum tíma.
Þegar í Nesið kom var farið fyrst í ískofann og balarnir teknir og bornir á bakinu niður á bryggju. Síðan var skipið sett niður, bjóðin tekin um borð og haldið í róður. Yfirleitt voru níu menn á hverju skipi, fjórir á sjó og fimm í landi. Skipin voru tólf að tölu, 4-7 tonn að stærð. Vertíðin 1941 var að mig minnir síðasta vertíðin sem fiskur var saltaður að einhverju marki í Nesinu. Síðar var fiskurinn bara slægður og þótti það mikill léttir á vinnu hjá mannskapnum. Þá var aflinn seldur í skip og siglt með hann á Englandsmarkað. Þegar skipið var róið tók beitningin við. Að henni lokinni var aðgerðarvöllurinn undirbúinn, en alltaf var gert að úti þegar salta var.
Þórkötlustaðanes
Uppþvottakista, flatningsborð og hausningabúkka var komið fyrir á sinn stað. Síðan fóru sumir að leggja á hnífa en aðrir að ná í sjó í kistuna, sérstakleha þegar lágsjávað var, því þá var langt að fara. Oftast var þó reynt að bíða eftir að sjór kæmi í Skottann, en í honum var fljóð og fjara og var þá miklu styrttra að fara. Þegar skip kom að var fiskinum kastað upp með stingjum á bryggjuna og þaðan upp á bílpall sem ók honum upp á aðgerðarvöll.
ÞórkötlustaðanesNæst var að setja skipið upp á kamp. Til þess var notað heimatilbúið spil, en það var sívalur trjádrumbur sem tvö göt voru í gegnum ofarlega og spírur teknar í gegnum götin svo kross myndaðist. Á spírurnar lagðist mannskapurinn og gekk hring eftir hring og voru þeir margir þegar lágt var í. Tveir menn studdu skipið og formaðurinn hlunnaði fyrir, Þessi aðferð lagðist af stuttu seinna og kom þá vélknúið spil og hlunnarnir steyptir niður, skipið lagt á sliskju og skipshörfninn horfði bara á.
Þá var eftir að gera að. Fiskurinn hausaður, flattur, þveginn og saltaður. Hrogn og lifur voru auðvitað hirt og lagt inn hjá lifrabræðslunni. Það var passað vel up á lifrina því hún sagði til um fiskiríið yfir vertíðina. Sá taldist aflakóngur sem hafði flesta potta af lifur. Hjá lifrabræðslunni var fyrsti vísir að verslun í hverfinu, því hjá Guðmanni bræslu, eins og hann var kallaður, fékkst sítrón, malt, vettlingar og tóbak og mig minnir að hann hafi verið með kæfubelgi stundum og kannski eitthvað lítilsháttar fleira. Það var ekki ónýtt hjá krökkunum að verða sér úti um lifrarbodd á bryggjunni og leggja inn hjá Guðmanni bræslu og fá sítrínuflösku í staðinn.
Þegar landlega var, þá var tíminn notaður til að umsalta fiskinum, spyrða upp hausa og hryggi og koma þeim út í hraun til þurrkunar. Þegar kom fram í febrúar var farið að huga að netunum, tína grjót í fjörukampinum, það borið í skúrana og hoggin rauf í steinana og snærishanki utan um þannig að úr urðu netasteinar. Einnig þurfti á stjórum að halda, en það voru þungar hellur sem meitluð voru göt í gegnum og tréklossi rekinn í gatið og voru þeir notaðir á sitt hvorn enda netratrossunnar.
ÞórkötlustaðanesLoðnan gekk yfirliett um mánaðarmótin febrúar og mars og var þá strax skipt yfir á net. Netatíminn stóð í 2-3 vikur og var þá skipt yfir á línu aftur til 11. maí, en þá var sá einlegi lokadagur. Var þá búið að ganga frá skipum í naust, formaðurinn búinn að gera upp við aðkomumennina, en þeir voru yfirlitt ráðnir upp á kaup. Nú gátu menn gert sér glaðan dag. Man ég að okkur krökkunum þótti lokadagurinn ein mesta hátíð ársins, mkikill gleðskapur og sungið við raust. Loks komu bílar frá Steindóri og sóttu mennina og var ekki frítt við að saknaðarsvipur væri á mörgu andlitinu.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Ekki má gleyma þætti húsmæðranna á vertíðinni. Sjómennirnir þurftu fæði og þjónustu, því þeir voru á heimilunum. Braggar þekktust ekki. Þegar róðir var, var þeim færður maturinn suður í Nes og lenti það meðal annars á börnunum. Það lenti líka á kvenfólkinu að verka sundmagana úr þorskinum. hann var plokkaður, þveginn og saltaður. Á vorin var hann útvatnaður, þurrkaður og seldur. Á einstaka heimilum var hann nýttur til matar. Á flestum heimilum réði húsmóðirin sér húshjálp, svokallaðar hlutakonur, yfir vertíðina, því mikið var að gera. Það var eins með þær, þessi mikla vinna sem af þeimm var krafist kom ekki í veg fyrir að þær kæmu aftur og aftur, ef þær þá ekki náðu sér í mannsefni og fóru hvergi. Eins og áður segir voru aðkomumennirnir ráðnir upp á kaup og þess vegna gat formaðurinn gert upp við þá á lokadag, en heimamenn voru ráðnir upp á hlut. Við hlutamenn var ekki hægt að gera upp fyrr en búið var aðs elja fiskinn. Það lenti því á heimamönnum að vaska, þurrka og pakka fiskinum og við það unnu allir sem vettlingi gátu valdið.

Þórkötlustaðanes

Gamla bryggjan í Nesi.

Að endingu langar mig að minnast á þann góða félgasskap sem var í Þórkötlustaðahverfinu sem ég man eftir. Aaðkomumennirnir voru á einkaheimilum og urðu þeir einir af fjölskyldunni. Oft kom það fyrir þegar við krakkarnir vorum að leika okkur að sjómennirnir voru með okkur í allskonar leikjum, Ég minnist þess einnig að margir sjómannanna komu vertíð eftir vertíð og við marga aðkomausjómennina bundust löng vináttubönd.
Fyrsta vertíðin mín var árið 1941, þá 14 ára gamall. Það fiskaðist vel þessa vertíð og man ég að fyrripart vertiðar var norðanstilla og róið upp á hvern dag og mikið að gera. Það var nú ekkert að því þótt vinnan væri mikil og erfið, en svefnleysið, það var hrikalegt. Ég veit ekki hvað sagt yrði við formann í dag, sem ekki leyfði 14 ára ungling að sofa nema 2-3 tíma á sólarhring hátt í mánaðartíma, en þetta gerðist nú samt í því skiprúmi sem ég var í fyrstu vertíðna. Helgarfrí þekktust ekki. En þetta gleymdist og áfram verið á sjó og urðu árin næstum 50 á sjónum.
Ef ég ætti að velja mér ævistarf aftur mundi ég vilja endurtaka allt, nema fyrstu vertíðina.” – Grindavík 10. apríl 1996, Þórarinn Ólafsson

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1996, Vetrarvertíð í Þórkötlustaðahverfi, Þórarinn Ólafsson, bls. 49-51.

Þórkötlustaðanes

Athafnasvæðið í Nesinu – uppdráttur ÓSÁ.