Færslur

Þórkötlustaðanes

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1992 ritar Hinrik Bergsson viðtal við Júlíus Danílesson um “Útgerðarsögu í Þórkötlustaðanesi”.

Hinrik Bergsson“Óljóst tengjast bernskuminningar mínar, ferðum suður í Þórkötlustaðarnes með bræðrum mínum og frænku, til að færa föður okkar mat eftir róður eða beitningu, og kannski var rennt fyrir smáufsa af bryggjusporðinum í leiðinni. Seinna, þegar ég fór að vinna í tímavinnu hjá Hraðfrystihúsi Þórkötlustaða, minntist ég sögusagna mér eldri manna sem tóku þátt í sjósókn og uppbyggingarstarfsemi og síðan endalokum útgerðar í Nesinu.
Það teygðist því stundum úr kaffitímunum við frásagnir af sjóróðrum, vinnu, fólki og spaugilegum atburðum. Þarna voru menn að minnast sinna mestu manndómsára, þegar þeir voru flestir í útgerð og sjósókn og voru sínir eigin herrar.
Þeim fækkar nú óðum sem róið hafa ur Nesinu og á síðasta ári lést Magnús Þórðarson frá Búðum, en hann lifði lengst þeirra formanna sem reru úr Nesinu. Til að koma á blað þessu tímabili í útgerðarsögu Grindavíkur átti ég tal við Júlíus Bjargþór Daníelsson. Hann er fæddur 27. ágúst 1910 og er sonur hjónanna Daníels Daníelssonar og Þóru Jónsdóttur frá Garðbæ.

Allur fiskur seilaður upp

Þórkötlustaðanes
Frá því ég man fyrst eftir mér réru Þórkötlungar úr Buðlungavör (buðlungur=fiskhlaði), og voru að jafnaði gerðir út 5 tíæringar á vetrarvertíðum en í vertíðarlok sem ávallt var 11. maí, var þeim hvolft í naust fyrir ofan vörina en minni skip sexróin, voru notuð á sumrin og haustin, segir Júlíus er hann rifjar upp liðan tíma.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – lifrabræðsla.

Árið 1929 komu fyrstu vélarnar í skipin í Þórkötlustaðahverfi. Þá var Þórkatlan keypt af Jóni bróður mínum og fleirum og með þeim byrjaði ég að róa ári síðar suður í Nesi. Í fyrstu var engin bryggja, lent var í Nesvörinni og allt seilað upp. Þá var eitt færið bundið upp í hnykil og alar seilar bundnar saman og tvær laggarbaugjur settar við og rakið ofan af hnyklunum þar til komið var inn í vörina, þá var vaðið í land og skipið strax dregið á land með spili sem knúið var af líkamskraftinum. Síðar kom vélspilið sem létti mikil setninguna.
Upp úr vörinni fóru fljótlega að rísa fiskverkunarhús, beitningarskúrar, ískofar sem beitugeymsla og lifrarbræðsla. Þá voru þrjú íbúðarhús byggð í Nesinu; Höfn, Arnarhvoll og Þórshamar.

Byrjað á bryggjusmíði

Þórkötlustaðanes

Bryggjan í Nesi.

Vorið 1932 var fyrst farið að huga að bryggjusmíði og var hún staðsett um 35 metra sunnan gömlu bátavararinnar og unnið við hana í tvö sumur. Bryggjan var þannig að byggð, að í henni voru steyptir veggir, grjótfylling og steypt þekja og hallaði hún fram í sjó. lengdin var 70 m. og breiddin 8 m.
Kostnaður við bryggjugerðina var 37 þús. kr. Ríkið greiddi þriðjung kostnaðar en heimamenn 2/3, sem tíðkaðist á þessum tíma. Bryggjusmíðin tókst vel í alla staði og hún gjörbreytti allri aðstöðunni til hins betra. Erfiður uppburður á fiski var nú úr sögunni, því nú fóru bílarnir fram á bryggjuna og fluttu fiskinn beint úr bátunum. Þá voru steyptir stokkar með eikarhlutum norðan við bryggjuna ári síðar, til að setja bátana á. Fljótlega kom í ljós að bryggjan náði oaf stutt fram, bátarnir flutu ekki upp með ehnni þegar lágsjávað var og eins var sker fyrir framendanum sem var til mikilla óþæginda.

Þórkötlustaðanes

Lending á Þórkötlustaðanesi.

Því var farið að huga að lengingu bryggjunnar, en það var ekki fyrr en árið 1945 sem hún var lengd með 20 m löngu keri sem steypt var af heimamönnum á stokkum norðan vuð bryggjuna. Þessi síðasta framkvæmd í nesinu kom ekki að miklum notum því margir voru þá komnir í bretavinnuna og ári síðar var Hraðfrystihús Þórkötlustaða stofnað. Það voru því aðeins Guðmundur Ben. á Svani, magmús í Búðum á Sæbjörgu og Haraldur á Eyvindarstöðum á Vini sem gerðu þarna út eina vetrarvertíð, en örlög útgerðar í Nesinu voru brátt ráðin, því öll skipin voru selnd og enginn þeirra sem gerði þar út flutti sína útgerð út í Hópið í Járngerðarstaðahverfið, nema óbeint sem hluthafar í Hraðfrystihúsinu. Þegar mest var hins vegar í útgerð í nesinu voru 11 skip gerða þaðan út og þá voru umsvifin ekki minni en í Járngerðarstaðarhverfinu.
Byggðin drógst saman, fiskhúsin voru rifin og sjö íbúðarhús voru flutt úr Nesinu og Hverfinu og nú líktist Nesið stóru byggðarsafni frá fjórða áratugnum. Þannig fylgir búsetan örlögum atvinnuháttanna. En í Nesinu hefur ávallt verið mikil happalending, eins og þessi gamla þjóðsaga um sundin á Járngerðarstöðum og Þórkötlustöðum vitnar um.

Þjóðsagan um sundin
Þórkötlustaðanes
“Í fyrndinni voru aðalhöfuðbólin í Grindavík, hvort við sitt sund, Járngerðarstaðir við samnefnt sund og Þórkötlustaðir við sitt sund. Ekki er getið nafna bændanna á höfuðbólum þessum, en konurnar hétu, Járngerður á Járngerðasrtöðum og Þórkatla á Þórkötlustöðum.
Engir aukvisar munu bændurnir þó hafa verið, þótt nafna þeirra sé ekki getið, því þeir höfðu mannaforráð, svo sem betri menn höfðu, og stjórnaði hvor sínum bát, af kappi miklu, þannig, að þeir fóru lengra og sóttu meira en fjöldinn.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – lifrabræðslan.

Einhverju sinni, þegar flestir Grindvíkingar voru á sjó, bar það til, að sjó tók að brima, sem kallað var, þ.e., þegar aldan vex svo að hún fer að brotna yfir leiðina (sundin). Bátarnir höfðu fljótlega farið að leita lands og allir verið komnir í land, þegar þeir heimabændurnir komu hvor í sínu sundi. Þá gerðist það, að bóndi Járngerðar fórst með allri áhöfn á Járngerðarstaðasundi, en bóndi Þórkötlu hafði komist klakklaust inn Þórkötlustaðasund.
Hitnað mun þeim frúnum hafa í hamsi við að bíða eftir afdrifum bænda sinna, því eftir að séð var, að maður Járngerðar hafði farist á Járngerðarstaðasundi, lagði hún það á, að á því sundi skyldu farast 20 bátar. Aftur á móti lagði Þórkatla það á, að á Þórkötlustaðasundi, réttförnu, skyldi enginn bátur farast.
Þetta þykir allt hafa orðið að áhrínsorðum, þannig að enginn bátur hefur farist á Þórkötlustaðasundi.”

250-400 fyrir vertíðina

Þórkötlustaðanes

Vélspilið á Nesinu.

Margi vermenn komu í Nesið oft ára eftir ár. Þetta voru mest aðkomumenn autan úr sveitum, úr Hreppunum, Tungunum og all aleið autan úr Skaftafelli. Þeir reru á vetrarvertíðinni fra því seinnipartinn í janúar og fram til 11. maí. Það fiskaðist oft mjög vel á þessum árum og oft var tvíróið sama daginn.
Ég man eftir því, segir Júlíus, að eina vertíðina fengum við 500 skipspund af þurrfiski, þ.e. 160 kg. í hverju pundi. Eitthvað nálægt 80 tonnum. Menn voru yfirleitt ráðnir uppá kauo frá 250 upp í 400 kr. fyrir vertíðina, sem hélst fram undir stríð.
Tíðarfarið var ákaflega misjafnt þá eins og nú. Þetta var brimverstöð og sundið varasamt en með gætni og varkárni fór allt vel og ekki veit ég til að skip farist á Þórkötlsutaðasundi og það gengið eftir sem segir í þjóðsögunni.
Ég kveð Júlíus Daníelsson á heimili hans á Hrafnistu í hafnarfirði. Hans minni er enn gott og hann hefur frá mörgu að segja frá liðnum tíma. M.a. sína eigin útgerðarsögu eða þátttöku hans við hin ýmsu skipsströnd en Júlíus var einn af þeim sem björgðu skipverjunum af Cap Fagnet þann 24. mars 1931 og er annar núlifandi þeirra bj0örgunarsveitarmanna. Þá var fluglínutæki í fyrsta sinn notað við björgunarstörf hérlendis.” – Hingrik Bergsson

Heimild:
-Sjómanndagsblað Grindavíkur 1992, Hinrik Bergsson, Útgerðarsaga í Þórkötlustaðanesi, bls. 35-36.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – loftmynd.

Árni Guðmundsson

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1993 skrifar Ólafur Rúnar Þorvarðarson frásögn Árna Guðmundssonar frá Teigi um komu hans í franska fiskiskútu á þriðja áratug síðustu aldar utan við Þórkötlustaðahverfi undir fyrirsögninni “Um borð hjá Frönsurum”.

Ólafur Rúnar

Árni hafði frá mörgu að segja eftir áratuga langa sjómennsku og fer frásögn hans hér á eftir.

“Það mun hafa verið nálægt sumarmálum, að við héldum út á Fasæli síðla dags að leggja línu. Línan var venjulega látin liggja yfir nóttina og dregin næsta dag, ef veður leyfði. Við vorum fjórir á bátnum, sem var opinn vélbátur. Veður var gott, og er við höfðum lagt, héldum við áleiðis til lands. Engir bátar eða skip voru á miðunum í nánd við okkur utan ein skúta sem var á færum og hélt sig nærri þeims lóðum, er við höfðum byrjað að leggja línuna.
Nálguðumst við nú skútuna og sáum að þar var mannskapur uppi. Voru uppi getgátur háseta minna um það hverrar þjóðar þeir menn kynnu að vera, uns við veittum því athygli að frakkaklæddur maður með hatt á höfði byrjaði að veifa og kalla til okkar. Ég hafði á orði að líklega vildi hann okkur eitthvað þessi og rétt væri að athuga það nánar. Ekki leist mínum mönnum meira en svo á það tiltæki, en ég bað þá að bíða rólega á meðan ég færi um borð og lögðum við svo að skútunni.

Árni Guðmundsson

Farsæll GK 56, sem Árni í teigi og bræður hans gerðu út frá Þórkötlustaðahverfi. Um borð er talið frá v: Vilmundur Daníelsson frá Garbæ, Þorkell Árnason frá Teigi og Guðmundur Guðmundsson bróðir Árna formanns.

Sá frakkaklæddi tók á móti mér þegar ég kom upp á þiðjur, tók undir hönd mér og leiddi mig niður í káetu. Þóttist ég vitað að það færi skipstjórinn. Býður hann mér að setjast, og hellir í tvö staup. Gerum við vegunum góð skil og af málfari hans og bendingum ræð ég að þeir séu franskir sjómenn. Ekki var frönskukunnáttu minni mikið fyrir að fara en eftir eitt eða tvö staup til viðbótar vorum við þó farnir að skilja hvor annan nóg til þess að ég þóttir vita erindi hans. Var það í því fólgið að biðja mig um að koma fyrir sig skeyti til franska konsúlatsins á Íslandi. Sem við sitjum í káetunni, kemur þar niður hávaxinn maður, sem ég áleit vera stýrimann skútunnar. Taka þeir skipstjóri tal saman og fer sá fyrrnefndi upp að því loknu. Settist skipstjóri nú við skriftir. Fékk hann mér síðan bréf í hendur og héldum við svo upp á þilfar.

Árni Guðmundsson

Frönsk skúta líkri þeirri er fram kemur í viðtalinu.

Skúta þessi var frekar lítil en tvímastra. Heldur fannst mér aðbúnaður bágborinn um borð. Ég tók eftir því að hásetarnir voru berhentir við færin. Höfðu þeir aðeins skinnpjötlur í lófunum og voru hendur þeirra bólgnar og kaunum hlaðanar eftir langa útivist. En þeir höfðu aldeilis ekki setið auðum höndum á meðan ég var niðri í káetu hjá skipstjóranum. Kom nú í ljós hvert erindi stýrimaður hafði átt niður því þegar ég var að stíga af skipsfjöl, sá ég að búið var að koma um borð í bátinn okkar tveim pokum af kartöflum ásamt talsverðu af kexi og rauðvíni.
Árni GuðmundssonMér þótti nú leitt að geta ekki launað þeim þetta með einhverjum hætti og eftir að hafa rætt málið við drengina mína var ákveðið að gefa þeim sjóvettlingana sem við höfðum meðferðis. Voru það fimm pör, sem þeir þáðu með þökkum. Ég vildi nú bæta þeim þetta upp enn frekar og varð því að samkomulagi með okkur að hittast aftur á svipuðum slóðum næsta dag. Yfirgáfum við síðan skútumenn og héldum til lands. Hafði ég í huga að færa þeim fleiri pör af vettlingum eða einhvern annan ullarfatanð. Færði ég þetta í tal við konu mína þegar heim kom og var það auðsótt mál.
Með birtingu morguninn eftir vaknaði ég við það, að farið var að hvessa af austri. Beið ég þá ekki boðanna, en kallaði á hásetana mína saman í hvelli. Þegar við komum út á miðin fórum við strax að darga. Vindur fór vaxandi og við höfðum ekki verið lengi við línudráttinn er við sáum skútuna koma siglandi austan að fyrir fullum seglum. Stefndi hún í átt til okkar, en sveigði af leið er nokkrar bátslengdir voru á milli og hélt til hafs. Veifuðu þeir frönsku í kveðjuskyni enda ekki tiltök að komast um borð vegna veðursins. Skildi þar með okkur og höfðum við ekki meira af þeim að segja. En skeytinu komum við áleiðis og vonandi hefur það ratað rétta boðleið.
Lýkur hér frásögn Árna Guðmundssonar.
Frösnku skúturnar, er stunduðu víðar á Íslandsmiðum fra á þessa öld, voru einkum frá bæjunum Paimpol og Dunkerque. Þyngst var sókn þeirra hingað á ofanverðri 19. öld og fram að árum fyrri heimstyrjaldar. Voru á því tímabili oftast 150-350 skútur árlega á Íslandsmiðum. Eftir það fór þeim ört fækkandi og samkvæmt heimildum er síðast getið franskrar fiskiskútu að veiðum hér á landi árið 1938.” – ÓRÞ

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1993, Um borð hjá Frönsurum, Ólafur Rúnar Þorvarðarson, bls. 32-33.

Þórkötlustaðanes

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1996 fjallar Þórarinn Ólafsson um “Vetrarvertíð í Þórkötlustaðahverfi”.

Þórarinn Ólafsson

“Trilluútgerð í Þórkötlustaðahverfi á sér langa sögu, en hún lagðist niður 1946. Vertíð hófts eftir að aðkomumennirnir sem ráðnir höfðu verið komu, og var það venjulega um miðjan janúar. Þá var hafist handa við undirbúning fyrir vertíðina. Að vísu voru heimamenn búnir að fara yfir línuna, hreinsa ásinn, hnýta á, setja upp línu, fella og bæta net, en það var aðallega gert á haustin því þá var nægur tími til þeirra hluta. Einnig var búið að bika og lita línu og net. Var það aðallega gert í heimahúsum.
Eitt var það sem higa þurfti vel að, var ískofinn. Hver trilla hafði sinn kofa og þurfti að fylla hann af snjó til að hægt væri að geyma beitu og beitta línuna, því ekki var til íshús í Þórkötlustaðarhverfi þá. Í ískofanum var kassi sem geymdi síld og bjóð og utan um þennan kassa var hólf, 5-6 tommu breitt, og í það var settur snjór blandaður meðs alti og við það fékkst ágætis frost í kassann. Það þurfti að líta vel eftir kassanum og þótti það leiðinleg vinna að passa upp á kassann. Rafmagn þekktist ekki á þeim tíma í Þórkötlustaðahverfi. Notaðar voru gasluktir í skúrana en svokallaðar hænsnaluktir til að lýsa sér þegar gengið var til skips. Var oft gaman að sjá ljóslínuna sem myndaðist alla leið suður í Nes, því margir voru mennirnir með luktir og allir fóru á sjó á svipuðum tíma.
Þegar í Nesið kom var farið fyrst í ískofann og balarnir teknir og bornir á bakinu niður á bryggju. Síðan var skipið sett niður, bjóðin tekin um borð og haldið í róður. Yfirleitt voru níu menn á hverju skipi, fjórir á sjó og fimm í landi. Skipin voru tólf að tölu, 4-7 tonn að stærð. Vertíðin 1941 var að mig minnir síðasta vertíðin sem fiskur var saltaður að einhverju marki í Nesinu. Síðar var fiskurinn bara slægður og þótti það mikill léttir á vinnu hjá mannskapnum. Þá var aflinn seldur í skip og siglt með hann á Englandsmarkað. Þegar skipið var róið tók beitningin við. Að henni lokinni var aðgerðarvöllurinn undirbúinn, en alltaf var gert að úti þegar salta var.
Þórkötlustaðanes
Uppþvottakista, flatningsborð og hausningabúkka var komið fyrir á sinn stað. Síðan fóru sumir að leggja á hnífa en aðrir að ná í sjó í kistuna, sérstakleha þegar lágsjávað var, því þá var langt að fara. Oftast var þó reynt að bíða eftir að sjór kæmi í Skottann, en í honum var fljóð og fjara og var þá miklu styrttra að fara. Þegar skip kom að var fiskinum kastað upp með stingjum á bryggjuna og þaðan upp á bílpall sem ók honum upp á aðgerðarvöll.
ÞórkötlustaðanesNæst var að setja skipið upp á kamp. Til þess var notað heimatilbúið spil, en það var sívalur trjádrumbur sem tvö göt voru í gegnum ofarlega og spírur teknar í gegnum götin svo kross myndaðist. Á spírurnar lagðist mannskapurinn og gekk hring eftir hring og voru þeir margir þegar lágt var í. Tveir menn studdu skipið og formaðurinn hlunnaði fyrir, Þessi aðferð lagðist af stuttu seinna og kom þá vélknúið spil og hlunnarnir steyptir niður, skipið lagt á sliskju og skipshörfninn horfði bara á.
Þá var eftir að gera að. Fiskurinn hausaður, flattur, þveginn og saltaður. Hrogn og lifur voru auðvitað hirt og lagt inn hjá lifrabræðslunni. Það var passað vel up á lifrina því hún sagði til um fiskiríið yfir vertíðina. Sá taldist aflakóngur sem hafði flesta potta af lifur. Hjá lifrabræðslunni var fyrsti vísir að verslun í hverfinu, því hjá Guðmanni bræslu, eins og hann var kallaður, fékkst sítrón, malt, vettlingar og tóbak og mig minnir að hann hafi verið með kæfubelgi stundum og kannski eitthvað lítilsháttar fleira. Það var ekki ónýtt hjá krökkunum að verða sér úti um lifrarbodd á bryggjunni og leggja inn hjá Guðmanni bræslu og fá sítrínuflösku í staðinn.
Þegar landlega var, þá var tíminn notaður til að umsalta fiskinum, spyrða upp hausa og hryggi og koma þeim út í hraun til þurrkunar. Þegar kom fram í febrúar var farið að huga að netunum, tína grjót í fjörukampinum, það borið í skúrana og hoggin rauf í steinana og snærishanki utan um þannig að úr urðu netasteinar. Einnig þurfti á stjórum að halda, en það voru þungar hellur sem meitluð voru göt í gegnum og tréklossi rekinn í gatið og voru þeir notaðir á sitt hvorn enda netratrossunnar.
ÞórkötlustaðanesLoðnan gekk yfirliett um mánaðarmótin febrúar og mars og var þá strax skipt yfir á net. Netatíminn stóð í 2-3 vikur og var þá skipt yfir á línu aftur til 11. maí, en þá var sá einlegi lokadagur. Var þá búið að ganga frá skipum í naust, formaðurinn búinn að gera upp við aðkomumennina, en þeir voru yfirlitt ráðnir upp á kaup. Nú gátu menn gert sér glaðan dag. Man ég að okkur krökkunum þótti lokadagurinn ein mesta hátíð ársins, mkikill gleðskapur og sungið við raust. Loks komu bílar frá Steindóri og sóttu mennina og var ekki frítt við að saknaðarsvipur væri á mörgu andlitinu.

Þórkötlustaðanes

Ískofi á Þórkötlustaðanesi.

Ekki má gleyma þætti húsmæðranna á vertíðinni. Sjómennirnir þurftu fæði og þjónustu, því þeir voru á heimilunum. Braggar þekktust ekki. Þegar róðir var, var þeim færður maturinn suður í Nes og lenti það meðal annars á börnunum. Það lenti líka á kvenfólkinu að verka sundmagana úr þorskinum. hann var plokkaður, þveginn og saltaður. Á vorin var hann útvatnaður, þurrkaður og seldur. Á einstaka heimilum var hann nýttur til matar. Á flestum heimilum réði húsmóðirin sér húshjálp, svokallaðar hlutakonur, yfir vertíðina, því mikið var að gera. Það var eins með þær, þessi mikla vinna sem af þeimm var krafist kom ekki í veg fyrir að þær kæmu aftur og aftur, ef þær þá ekki náðu sér í mannsefni og fóru hvergi. Eins og áður segir voru aðkomumennirnir ráðnir upp á kaup og þess vegna gat formaðurinn gert upp við þá á lokadag, en heimamenn voru ráðnir upp á hlut. Við hlutamenn var ekki hægt að gera upp fyrr en búið var aðs elja fiskinn. Það lenti því á heimamönnum að vaska, þurrka og pakka fiskinum og við það unnu allir sem vettlingi gátu valdið.

Þórkötlustaðanes

Gamla bryggjan í Nesi.

Að endingu langar mig að minnast á þann góða félgasskap sem var í Þórkötlustaðahverfinu sem ég man eftir. Aaðkomumennirnir voru á einkaheimilum og urðu þeir einir af fjölskyldunni. Oft kom það fyrir þegar við krakkarnir vorum að leika okkur að sjómennirnir voru með okkur í allskonar leikjum, Ég minnist þess einnig að margir sjómannanna komu vertíð eftir vertíð og við marga aðkomausjómennina bundust löng vináttubönd.
Fyrsta vertíðin mín var árið 1941, þá 14 ára gamall. Það fiskaðist vel þessa vertíð og man ég að fyrripart vertiðar var norðanstilla og róið upp á hvern dag og mikið að gera. Það var nú ekkert að því þótt vinnan væri mikil og erfið, en svefnleysið, það var hrikalegt. Ég veit ekki hvað sagt yrði við formann í dag, sem ekki leyfði 14 ára ungling að sofa nema 2-3 tíma á sólarhring hátt í mánaðartíma, en þetta gerðist nú samt í því skiprúmi sem ég var í fyrstu vertíðna. Helgarfrí þekktust ekki. En þetta gleymdist og áfram verið á sjó og urðu árin næstum 50 á sjónum.
Ef ég ætti að velja mér ævistarf aftur mundi ég vilja endurtaka allt, nema fyrstu vertíðina.” – Grindavík 10. apríl 1996, Þórarinn Ólafsson

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1996, Vetrarvertíð í Þórkötlustaðahverfi, Þórarinn Ólafsson, bls. 49-51.

Þórkötlustaðanes

Athafnasvæðið í Nesinu – uppdráttur ÓSÁ.