Húshólmi

FERLIR fór páskaferðina í Húshólma.

Húshólmi

Húshólmi – skilti við austurenda Húshólmastígs.

Gengið var niður eftir slóða með austurjarðri Ögmundarhrauns fá bifreiðastæðinu neðan við Suðurstrandarveg. Algengast er að fólk, sem ætlar í “göngu” ætli sér að ganga frá A til B, þ.e. frá upphafsstað og til baka. Hafa ber í huga að þessa á millum er fjölmargt áhugavert að gaumgæfa.
Rétt við stæðið er hringlaga gróið gerði utan í hraunkantinum, líklega rúningsrétt. Gata liggur upp vestanverða Krýsuvíkurheiði að fjárborginni á Borgarhólum. Hún er skammt sunnan gömlu Krýsuvíkurgötunnar milli Grindavíkur og Krýsuvíkur.
Vestanverð Krýsuvíkurheiðin er nú víða orðin gróðurlítil á milli fjalla og fjöru. Heyra mátti lóu af og til.

Húshólmi

Húshólmastígur frá Bergsendum vestari.

Haldið var áfram í átt til sjávar, framhjá vegvísi við Húshólmastíg, niður á Bergsenda vestari. Þar sést greinilegur stígur í gróningum um nýja hraunið (Ögmundarhraun (Húshólmabruni) frá 1151) vestan við gamla bergið. Nýtt hraunið hafði runnið fram af eldra bergi. Það sést greinilega á allnokkrum kafla skammt vestar. Hægt er að ganga áfram, hvort sem er neðan við það eða ofan. Vestar hækkar nýja hraunið, en ágætur stígur liggur upp og yfir það. Vestast og efst á brúninni er varða. Frá henni er ágætt útsýni til allra átta, hvort sem er um að ræða austur að Krýsuvíkurbergi eða til vesturs yfir að Hólmasundi (Miðrekum). Neðar eru Svörtuloft (Selhella) þar sem hafið hamast stöðugt á endimörkum nýja hraunsins. Ofar í hrauninu er hóll. Hann lætur ekki mikið yfir sér, en ef nánar er að gáð er á honum hlaðin varða; mið frá sjó. Mið sem þessi eru algeng með ströndinni.

Húshólmi

Sjávarstígurinn – gamla bergið framundan.

Þarna er ágætt að staldra við og virða fyrir sér önefnin með ströndinni, að teknu tillitil lýsinga Gísla Sigurðssonar og Ara Gíslasonar.
Vestasta hornið á Krýsvíkurbergi heitir Bergsendi, sem fyrr sagði. Vestan við Bergsenda eru Bergsendarekar undir gamla landfasta berginu, sem áður sagði, og Miðrekar ofan Hólmasunds. Ofan Sundsins er Húshólmi og Óbrennishólmi vestar. Á Húshólma sjást leifar af mannvirkjum, sem ætlunin var að skoða. Þar vottar vel fyrir garðlögum, sem eru leifar af túngörðum.

Ef við værum stödd á suðurbrún nýja hraunsins (vestast á sjónaröndinni frá vörðunni) vestan Húshólma, segir Gísli: “Ef haldið er niður með austurbrún Ögmundarhrauns, er komið nær miðju þar sem tvær vörður standa á brúninni (Brúnavörður).
Milli þessara varða liggur ruddur stígur þvert yfir hraunið. Kallast Húshólmastígur efri. Á vesturbrún hraunsins hefur verið hlaðið fyrir stíginn.

Húshólmi

Gamla bergið neðan Húshólmaburna.

Hér er komið í Húshólma einhvern merkasta stað á Suðurnesjum. Húshólmi er allstórt svæði og gróinn að mestu. Húshólmabruni nefnist hraunið austan hans eða Húshólmahraun neðst liggur Húshólmastígurinn neðri yfir það. Við jaðar þann sem er vestan við Húshólma eru miklir fornir garðar, Húshólmagarðar, sem ættu að sína að hér hafi miklir vallargarðar verið.

Húshólmi

Neðan við gamla Krýsuvíkurberg í Ögmundarhrauni.

Með vesturjaðrinum liggur stígur og er þá komið að rúst, sem sumir nefna Kirkjurúst þar í kring er Kirkjuflöt, sem aðrir nefna Kirkjulág. Nokkru neðar á að hafa verið brunnur, Húshólmabrunnur og þar Brunnlág. Frá Kirkjuflöt liggur ógreinilegur slóði upp í hraunið. Liggur hann að Húshólmarústunum. Hérna er um fjórar rústir að ræða. Tvær neðst og snúa frá suð-austri til norð-vestur og sú þriðja þvert á þær. Þar í var grafið og komið niður á viðarkolahrúgu. Taldist því að hér hafi verið smiðja.

Nokkru ofar er svo stærsta rústin og í henni holur, sem álítast að séu eftir stoðir, sem brunnið hafa þegar hraunið rann inn í hús þessi. Hraunhella er í gólfi allra húsanna. Af sumum mönnum er þarna talað um Gömlu Krýsuvík. Frá Kirkjuflöt liggur götuslóði vestur og upp á hraunið. Hefur verið flóraður með hellum og átti að liggja til Selatanga. Stígur þessi varð aldrei fullger (þ.e. stígurinn að Brúnavörður).”

Þá er stokkið í lýsingunni til austurs, að endimörkum Krýsuvíkurlands: “Strandlengjan fyrir Krýsuvíkurlandi er alllöng. Margt er þar örnefna.

Húshólmi

Tóftir í Kirkjulág vestan Húshólma.

Seljabót er austast. Þar eru jarða- hreppa- og sýslumörk. Vestar tekur svo við Krýsuvíkurbjarg. Það liggur milli Gjárinnar eystri og Gjárinnar vestri og er þar á margt örnefna. Strandarberg er austasti hluti þess og nær frá Bergsenda að [Eystri]Læk á Bergi. Þá tekur við Krýsuvíkurberg (þ.e. útsýnið frá vörðunni til austurs). Þá er komið á Skriðuás og þá er Skriða mikill gosöskustapi. Austan Skriðuáss er Kotaberg að Vondasigi.

Húshólmi

Horft til austurs að Krýsuvíkurbergi.

Framan í Skriðu er Ræningjastígur og er gengur með varúð niður í fjöru. Þar sem Skriða snýr við vesturátt er neðarlega á móbergshellunni svo nefnd Hermannshilla. Upp Ræningjastíg áttu Tyrkir að hafa komist 1627 er þeir rændu hér við land. Lundapallur er hér vestan í Skriðu. Hann er einnig kallaður Lundatorfa. Skriðunef tala menn um að hér hafi verið nefnt. Einstigið liggur hér niður skriðurnar niður á Hermannshillu, sem er hér niður undir fjöru, en þó verður að síga af henni niður í fjöruna. Vestan Skriðu tekur við Heiðnaberg eða Heinaberg og nær allt að Fitjalæk, sem hér fellur niður og fram af berginu, og nefnist hér Mígandagróf og fossinn Mígandi.

Húshólmi

Varða, mið, á hraunhól í Húshólmsbruna.

Kirkjufjara er undir Heinabergi, en þar fyrir vestan tekur við Betstæðingafjara og nær allt vestur að Hæl, Bergsenda vestri eða Gjánni vestri. Af Hælnum hefur víkin hér fyrir framan fengið nafn allt frá Skriðu vestur að Selatöngum og nefnist því Hælsvík [og heiðin þar ofar Hælsvíkurheiði]. Hér tekur við Húshólmabruni og Húshólmakampar hér framaf. (Hafa ber í huga að örnefnin hafa tekið breytingum frá einum tíma til annars. Nýting landsins virðist jafnan hafa skipt þar sköpum.)

Húshólmi

Hólmasund – fyrrum lending Krýsuvíkurbænda.

Þegar kemur fyrir Húshólma eru kamparnir tveir. Hinn eldri er síðan fyrir að hraunið rann, en sá fremri er kominn eftir að hraunið rann. Vestan við Hæl eru Hvalbásar og þar fyrir vestan Húshólmalending [Hólmasund], þar lentu Krýsvíkingar í lágdeifu og köstuðu fiski á land til eldis fólki sínu heima í Krýsuvíkurhverfi.

Húshólmi

Húshólmi – Hólmasundsstígur fremst.

Mávaflár eru hér vestur af og þá koma Þjófabásar, Þjófabás eystri, Þjófabásanef og Þjófabás vestri. Þá taka við Miðrekar, Miðrekar eystri og Miðrekar vestri [neðan við Óbrennishólma]. Hraunið upp af Miðrekum öllum nefnist Títuprjónahraun. Vestarlega við Miðreka er Selhella og hrauninu upp af er Grendalur og Grenið. Rétt áður en komið er að Selatanga verða fyrir út í sjónum Látrin, Selalátrin, Látrin eystri og Látrin vestri. Þá eru Selatangar.”

Húshólmi

Vatnsstæði og gerði neðst í Húshólma.

Ari Gíslason segir um svæðið frá Hælsvík (austan Bergsenda vestari) að Selatöngum: “Nú skulum við færa okkur um set og taka fyrir vestari hluta Krýsuvíkurlands. Síðast vorum við staddir niðri við sjó hjá Hælsvík. Vestan hennar er steinn fram í sjó, sem heitir Þyrsklingasteinn. Þar tekur við mjó hraunbreiða fram að sjó og víða hamrar. Næst vestan við Vestri-Bergsenda taka við svonefnd Svörtuloft. Eftir að þeim sleppir, taka við Miðrekarnir, sem fyrr var getið. Austarlega í Ögmundarhrauni eru tveir básar í hraunbrúninni við sjóinn, og heita þeir Rauðibás og Bolabás. Ekki eru þeir stórir og fjaran í þeim ekki meir en fáeinir metrar. Þegar kemur vestur fyrir Miðrekana og landinu fer að sveigja til norðurs, taka við Selatangar.”

Húshólmi

Verbúðartóft syðst í Húshólma.

Þar sem staðið er við vörðuna efst á suðurbrún Ögmundarhrauns (Húshólmabruna) má í góðu veðri sjá til Skriðu í austri og að Selatöngum í vestri. Mávaflár, Þjófabásar og Miðrekarnir í Títuprjónahrauni, allt að þeim vestari, eru torfærir. Þegar horft er yfir Húshólma sést vel hvar hraunið hefur runnið niður með Skála-Mælifelli að vestan og austur fyrir Krýsuvíkur-Mælifell að austan.

Gísli segir: “Ögmundarhraun verður að teljast mikið hraun. Það á upptök sín í sprungu, sem jarðfræðingar nefna Ögmundarsprungu. Hún er þrískift. Austursprunga Miðsprunga og Vestursprunga.

Vigdísarvellir

Fjárskjól í Austursprungunni við Vigdísarvelli.

Austursprungan á upptök sín inn á dal rétt vestan Vigdísarvalla og eru þar nokkrir gígar. Í einum þeirra er Fjárhellir, er þar hlaðið fyrir munnann og dyr á en garði frá munnanum inn eftir hellinum. Hraun úr þessari sprungu hefur runnið fram milli Mælifells og Urðarfells og sunnanundir Latsfjalli sem einnig nefnist Lasafjall. Gegnum hraun þetta, milli fyrrnefndra fjalla, lá Ögmundarstígur.

Sængurkonuhellir

Sængurkonurhellir, Víkurhellir, í Ögmundarhrauni sunnan Lats.

Úr miðsprungunni hefur einnig runnið allmikið hraun. Hefur það runnið bæði sunnan og norðan Urðarfells. Þar eru örnefni eins og Almenningur og var þar í eina tíð nokkur skógarló. Þar nokkru vestar eru Tóubrunar. Úr Vestursprungunni hefur runnið mikið hraun. Allt hefur það runnið norðan Latsfjalls. Núpshlíðarsprunga mætti sprunga þessi heita, því hún liggur fram um syðsta hluta Núpshlíðar fram á Skalla. Í hrauni þessu er Sængurkonuhellir eða Víkurhellir. Þar á kona að hafa alið barn á ferð milli Grindavíkur og Krýsuvíkur. Suður af Latsfjalli eru Latsfjallstögl og þar fram af Latur móbergshnúkur lítill með grastorfu Latstorfu. Hraunið hefur runnið hér með miklum gassa, það sést af hrauntröðum og rásum þeim sem liggja frá gígunum. Hraunið hér í slakkanum og gígarnir nefnast Katlahraun og Katlar. Neðan við Núpshlíð við hraunið liggur Núpshlíðarstígur fjárgata. Nú liggur eftir hrauni þessu akvegurinn frá Krýsuvík til Grindavíkur.

Óbrennishólmi

Óbrennishólmi; fjárborg eða virki!?

Frá Latstöglum liggur stígur, Óbrynnishólmastígur niður hraunið niður Óbrynnishólma allstórt svæði sem hraun hefur runnið kringum, en ekki þakið. Hér gefur að líta landslag það, sem verið hefur áður en hraunið rann. Móar og hvammar eða lægðir og hæðir og grýtt holt. Austast og efst í hólma þessum er Óbrynnishólmarúst. Litlu neðar er Fjárborgin litla og Fjárborgin stóra. Þær eru 6×7 metr. og 20×20 að stærð. Héðan liggur svo Óbrynnishólmastígur niður á Ögmundarhraun.” Í Óbrynnihólma eru leifar topphlaðins húss og hlaðnir garðar, sem nýja hraunið hefur staðnæmst við. “Fjárborgin stóra” hefur að öllum líkindum verið hlaðið virki. Það er efst á hól. Frá honum hefur verið ústýni yfir svo til allan hafflötinn til suðurs. Gróinn garður er og í Óbrynnishólma er gefur til kynna að öll ströndin ofan Gömlu Krýsuvíkur, víkurinnar sem nýja hraunið fyllti, hafi fyrrum verið í samfelldri byggð.

Húshólmi

Húshólmi – skálatóft.

Gengið var niður af hraunbrúninni. Þar er hlaðinn veggur, skjól refaskyttu. Sjá má slóðir eftir refi í grasinu með hraunbrúninni. Austan við Hólmasundsstíginn eru vatnsból og hlaðið lítið gerði. Skil gömlu strandarinnar og þeirrar nýju eru þarna augljós. Í hólmanum, beint ofan við stíginn, er rúst sjóbúðar. Hún var síðast notuð árið 1913 af Krýsuvíkurbændum, en þeir reru um tíma við erfið skilyrði frá Hólmasundi. Skammt ofar og vestar sést hvar gamall hlaðinn (nú gróinn) túngarður liggur undir nýju hraunbrúnina. Garðurinn liggur í boga upp hólmann til norðurs og norðvesturs þar sem hann fer undir hraunið efra. Innan þessa garðs er annar hlaðinn garður sem og þvergarður. Sunnan þvergarðsins er sporöskjulaga stórt gróið gerði; mjög líklega forn grafreitur. Enn ofar, úti í hrauninu vestan hólmans eru fyrrnefndar Kirkjulágar og skálatóftir, sem hraunið hefur runnið að, en ekki náð að kaffæra.

Húshólmi

Húshólmi – hlaðinn garður við Húshólmastíg.

Ofar í Húshólma er forn fjárborg, sennilega frá tímaskeiði minjanna. Enn ofar er hlaðin, mosagróin refagildra, einnig stekkur utan í grónum hraunkanti sem og minjar selshúsa. Greni er þar skammt vestar sem og skeifulaga hlaðið byrgi refaskyttu. Hringlaga byrgi (smalaskjól) er og á hraunbrúninni norðvestan stekksins.

Húshólmi

Húshólmastígur.

Þar sem gengið er upp úr hólmanum að austanverðu (Húshólmastígur) er hlaðinn þvergarður, sennilega frá þeim tíma er Húshólmi hefur um skeið verið notaður fyrir selstöðu, allnokkru eftir að nýja hraunið hafði kólnað. Húshólmastígur ber þess merki að allnokkur umferð hafi verið um hann um alllangan tíma, enda greiðfær með afbrigðum.

Gangan tók 1. klst og 36 mín. Frábært veður.

Heimildir:
-Örnefnalýsing Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík.
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík.

Húshólmi

Húshólmastígur.