Strandarkirkja

“Einn rigningardag fyrir skemmstu ákvað ég að heimsækja Strandarkirkju og kíkja á Herdísarvík í leiðinni. Er ég renndi þar í hlað var rigningin orðin svakaleg og lamdi bílinn utan. Eins og sannur Íslendingur (eehemm) skoðaði ég nágrennið fyrst, varð hundblautur og veðurbarinn en eftir nokkurn tíma varð ég að láta rigningunni eftir ströndina og kirkjugarðinn og hraðaði mér inn í hlýjuna í kirkjunni.

Strandarkirkja 2007

Strandarkirkja er í Engilsvík í Selvogi. Hún er þjóðfræg vegna almennra áheita og sumir segja ein ríkasta kirkja landsins. Að minnsta kosti hefur hún efnast vel. Prestsetrið var fyrrum í Vogsósum uns brauðið var lagt niður 1907. Kirkjan stendur í landi höfuðbólsins Strandar en það fór í eyði á 17 öld vegna sandfoks. Elstu lýsingar um kirkju á nákvæmlega þessum stað eru frá 15. öld en sú sem nú stendur er frá 1887, en hún hefur verið endurbyggð og er því  nokkuð breytt.

Sú saga er til að sjómenn nokkrir í lífsháska hétu því að gera kirkju þar sem þeir næðu landi ef þeir bara héldu lífi. Þeir komu auga á ljós og er þeir nálguðust land sáu þeir bjarta og fagra veru í flæðarmálinu. Þannig hófst saga Strandarkirkju í Engilsvík. Við kirkjuna stendur nú minnismerki eftir Gunnfríði Jónsdóttur um þennan atburð.

Bjallan í Strandarkirkju

Er ég kom í kirkjuna var mér heilsað á norsku. Þar voru þá staddar norskar mæðgur að bíða af sér rigninguna, verst að ég skil ekki hót í norsku og tala hana enn síður. Það var þó kinkað vingjarnlega kolli og skifst á óskiljanlegum orðum. Dóttirin (sennilega 8-9 ára) skoppaði glaðlega um kirkjuna og dáðist upphátt að öllum fallegu verkunum sem þarna voru. Hún rann upp í kór og kallaði þaðan niður á móður sína, ?hvað allt væri fallegt?, en það skildist mér naumlega á látbragðinu.

Selvogur og Herdísarvík eru vestustu byggðir Árnessýslu. Fjölmenn byggð og útræði var fyrrum í Selvogi. Þangað þyrptust Norskir lausakaupmenn um 1790 til að versla við landsmenn.  Þeir fengu fyrir sig umboðsmenn og einn þeirra var Bjarni Sigurðsson (1763-1833) í Selvogi. Hann kallaði sig seinna Bjarna Sívertsen uppá dönsku og þar hófst kaupmannsferill hans. Hann var sæmdur riddarakrossi í Danmörku fyrir dug og framkvæmdasemi árið 1812. Viti byggður 1919 er í Selvogi.

Til er gömul sögn um risastóran helli, Strandarhelli suðaustan af Vogsósum og var seinast kunnur 1931 er Guðmundur G. Bárðarson greinir frá honum í dagbók sinni. Hann er nú týndur en heimamenn kalla nú hellisskúta einn um 20 metra langan, Strandarhelli. Til eru sagnir um fleiri hella en flestir eru nú týndir.

StaðarkirkjaVestan við Selvog er Hlíðarvatn og úr því fellur ós til sjávar, Vogsós. Við upptök Vogsós eru rústir prestseturins Vogsósa en þar bjó jafnoki Sæmundar Fróða ?séra Eiríkur á Vogsósum? sá landsfrægi og fjölkunnugi klerkur.

Næst brenndi ég til Herdísarvíkur sem er fyrir vestan Hlíðarvatn og var fyrrum stórbýli og fjölmenn verstöð en er nú í eyði. Enn sjást rústir verbúðanna. Þar bjó skáldið Einar Benediktsson (1864-1940) sín síðustu ár eða frá 1932 til 1940. Hann reisti sér þar hús, gaf Háskóla Íslands síðan Herdísarvík 1935 og hefur hún nú verið friðlýst. Hús þetta er nú notað sem orlofshús Félags Háskólakennara.

Ég ók þarna um og skoðaði rústirnar. Stoppaði svo bílinn og steig út. Og varð strax blautur í fæturna enda á götutúttum. Hafði ekki reiknað með vel sprottnu grasinu en það var hundblautt því það gengu skúrir yfir öðru hvoru. Það er sagt að þarna í grenndinni sé ágætt berjaland en ég hafði minnstan áhuga á því, útaf fótrakanum. Ég fékk loks nóg af vatnsgutlinu í skónum, hoppaði upp í bílinn minn og ók í bæinn. Næst ætla ég að hafa sól er ég fer þarna aftur sem vonandi verður fljótlega.”

Hafa ber í huga að hér er um mjög saldgæfa frásögn að ræða – um rigningu á Reykjanesskaga, og það að sumalagi.

Framundan er FERLIRsferð með einum þeim staðkunnugasta í Selvogi. Tilgangurinn er að ganga um svæðið og rissa upp örnefna- og minjakort af svæðinu í heild sinni.

Heimild:
-Skrifað 1.8.2007 kl. 13:10 af Vilmundi Kristjánssyni.

Selvogur - örnefna- og minjakort

Selvogur – örnefna- og minjakort – ÓSÁ.