Selvogur

Farið var með Þórði Sveinssyni um Selvogssvæðið, en hann er (að öllum öðrum ólöstuðum) fróðastur núlifandi manna um minjar og sögu svæðisins. Ætlunin var m.a. að staðsetja Imphólaréttina, sem í fornleifaskráningu er sögð “horfin”, Fornugötu, Járnhellra, Víghól eða Dómshæð (dómsstað fyrrum), Víghólsrétt, Nesstekk og Bjarnastaðastekk o.fl.

Imphólarétt

Þórður les Selvogslandið eins og hverja aðra skruddu. FERLIRsfélagar höfðu örnefnalýsingar frá Nesi, Bjarnastöðum, Þorkelsgerði og Götu. Þær voru samdar með hliðsjón af skrám eftir Gísla Sigurðsson, sem lesnar voru yfir af Eyþóri Þórðarsyni. Eyþór fæddist í Torfabæ í Selvogi 1898 og ólst þar upp. Hann bjó í Torfabæ til 1962. Upplýsingarnar voru skráðar í okt. 1980. Eyþór var frændi Þórðar, en hann tók fram að lýsingarnar gætu mögulega verið misjafnlega nákvæmar og þyrfti að taka tillit til þess við leitir að minjum á svæðinu.
Byrjað var við Litlu-Hásteina og réttin skoðuð, haldið yfir í Imphólaréttina í Imphólum og síðan um Öldurnar í leit að framangreindum örnefnum og mannvirkjum. Þórður benti m.a. að austurmörk Bjarnastaða hafi legið austar en talið er, þ.e. um hólklöppina Fótalaus, sem hann tilgreindi skammt norðan þjóðvegarins, nokkur austan markagirðingarinnar, sem nú er að mestu horfin. Norðar er Sótahóll. Þá benti hann á þjóðleiðir, nýjar og gamlar; núverandi akveg og þann eldri sunnar og Fornugötu, enn sunnar. Hún er enn vel greinileg og má sjá vörður við hana, bæði endurreistar og fallnar fyrir löngu.
FornagataÍ lýsingum segir m.a. um Fornugötu: “Austur við Nesmörk er Fornagata, langur hraunhóll sprunginn eftir endilöngu.  Á honum var Fornugötuvarða, sem nú er fallin, og kringum hann Fornugötuflatir.” Jafnframt að “ofar en Víghóll er Fornagata, klöpp með sprungu, sem líkist götutroðningi. Við Fornugötu mætast göturnar frá Vogsósum og neðan úr Selvogi. Hún er við götuslóðann austur á Sand, í slægjulöndin. Fornagata er bæði í landi Ness og Bjarnastaða, liggur yfir mörkin.” Þórður sagði götuna liggja frá austri til vesturs. Gatan sést enn vel austan við Hlíðarenda í gegnum hraunið, um Djúpadalahraun sunnan við fjárborgina og ofan við Kvennagönguhól(a). Þar færi hún með Eggjunum neðan við Hellisþúfu, um Fornagötuklöpp eða – hæð, með stefnu á Fuglastapaþúfu og um Strandarhæð, sunnan Vogsósa, yfir ósinn og áfram í gegnum hraunið sunnan og vestan Stakkavíkur, um Herdísarvík og áfram til vesturs um slétt Herdísarvíkurhraunið. Víða sæist gatan greinilega, s.s. í Strandarhæð sunnan við Gap og á sléttu helluhrauninu suðvestan við Stakkavík. Þetta hefði verið hin forna gata með suðurströndinni. Faðir hans hefði getið þess að gatan suðvestan Stakkavíkur hefði áður sést sunnar en nú er og mun sjórinn hafa tekið þann kafla hennar.
FERLIR rakti þessa götu fyrir nokkrum árum frá Hlíðarenda og vestur yfir hraunið. Síðan í Djúpudalahrauni, ofan Kvennagönguhóls, á Strandarhæð og vestan Vogsósa. Gatan er vörðuð vestan Hlíðarenda óg um Djúpudali og víðar á leiðinni má sjá fallnar vörður. Hinn nýji Suðurstrandarvegur mun fara yfir þessa fornu götu á kafla þar sem hún er hvað mest mörkuð í harða hraunhelluna.
Þegar gatan var skoðuð núna má vel rekja sig eftir henni við flatirnar. Vörður sjást enn, sem fyrr sagði, sumar vel skófgrónar. Norðaustan við Fornugötu(hól) greinist gatan, annars vegar niður í Selvog og hins vegar eins og að framan er lýst. Norðan í Fornugötu(hól) er tvískipt hlaðin gróin tóft, gæti hafa verið stekkur.
Ef götunni er fylgt í átt að Selvogi er rétt (lík Imphólaréttinni) nokkur suðvestar. Hún er skammt Bjarnastaðamegin við gömlu girðinguna. Eyþór Þórðarson getur þess í sinni lýsingu að Víghóll hafi verið “Dómstaður [og] átti við Víghól að hafa farið fram víg eða aftökur.” Er sagt, að Erlendur lögmaður Þorvarðarson hafi reiðst sveini sínum, er spáði því, að Strönd mundi eyðast af sandfoki. Hafi sveinninn flúið, en Erlendur elt hann upp að Víghól og drepið hann þar. Víghóll er skammt frá Fornugötu, hún liggur dálítið ofar en réttin. Gamla gatan lá framhjá Fornugötu. Ef þessi rétt er Víghólsréttin er gasi gróinn hóll örskammt norðaustan hennar umræddur Víghóll. Hafa ber í huga að mikla breytingar hafa orðið þarna á landsháttum frá því sem áður var því sandurinn fauk þar um fyrrum nánast óbeislaður. Þessi rétt er hins vegar mjög heilleg, en ekki auðfundin.
Víghólaréttin?Nefndir Hásteinar eru þrír hraunhólar við þjóðveginn. “Stóri-Hásteinn er efstur. Mörkin milli Ness og Bjarnastaða eru austan í honum. Þar er við hann klöpp, sem kölluð er Fótalaus, og var merki klappað í hana. [Hér virðist vera um misvísun að ræða hjá Eyþóri því ef þessi lína er notuð verður Bjarnastaðasel, sem er þarna ofan við, í Neslandi. Ef tekið er mið af eystri hólnum, sem Þórður benti á, þá er selið réttu megin við mörkin]. Ókunnugt er um tildrög þessa nafns. Litlu-Hásteinar eru tveir, og liggur vegurinn nú milli þeirra, utan í neðsta Hásteininum. Rétt var við neðsta Hásteininn. Hásteinahraun er milli Hásteina og kringum þá, og í því er Hásteinahellir. Það er smáskúti, kemst varla kind inn í hann. Hásteinsflag er fyrir neðan nýjasta veginn, undir neðsta Hásteininum. Það er gróið. Hásteinaflatir heita fyrir neðan Hásteina.
Austur með þjóðveginum eru Imphólar, lágir grashólar. Þar var Imphólarétt, sem nú er farin. Imphólaflatir og Klakksflatir ná saman, og Klakkur er þar fyrir austan.” Imphólar eru grónir lágir hólar sunnan Litlu-Hássteina. Norðan utan í þeim vestari er falleg rétt með leiðigarði.
“Spölkorn fyrir ofan Kvennagönguhól eru aðrir hraunhólar og kringum þá grösugar flatir. Þarna var Nessel, og sést enn fyrir tóftum þess. Selið er innan sandgræðslugirðingarinnar. Nú hafa verið reist fjárhús á móti selinu (ofan vegar, í Austurslökkum). Norðan þjóðvegar, hærra í heiðinni, var Hafliðavarða, sem var smalavarða, þ. e. hlaðin af smala.
Hellisþúfa er hraunhóll mikill í vestur frá Háaleiti og í honum Hellisþúfuhellir. Í hellinum var eitt sinn búið, og er einhver hleðsla úti fyrir. Sá mun hafa heitið Gísli, er þarna bjó.”
Þórður sagðist hafa hafst við í tjaldi þegar hann var yngri skammt vestan við Kvennagönguhóla ásamt föður sínum og bróður. Þá hefðu þeir fundið tölur eða hnappa, sem taldar voru hafa komið upp úr dys í örfoka landi. Nú hefði sandurinn lagst yfir moldarflagið og hulið dysina. Hann vissi nokkurn veginn hvar hún væri. Hnapparnir væru enn til.
Mörk Ness og Bjarnastaða“Tveir brunnar voru á Bjarnastöðum. Eldri brunnurinn var í miðju Gerðinu, en annar yngri nær bæ, alveg við traðirnar.
Á sjávarkampinum niður af Bjarnastöðum, Bjarnastaðakampi, var hlaðinn sjóvarnargarður og hlið í hann niður af tröðunum. Garðbrot, sem lá frá bæjarhúsunum niður með sjávargötunni, var nefnt Bryggjan. Bryggjan var til að ganga eftir, því að tjörn myndaðist fyrir ofan kampinn. Þar yzt fyrir ofan kampinn var gömul sjóbúð, Þorsteinsbúð.  Tóftin af henni hefur staðið til skamms tíma og verið notuð sem kartöflugeymsla. Yngri brunnurinn var rétt við búðina.
Efst við traðirnar heim að Bjarnastöðum, vestan við þær, var Guðnabær, hjáleiga frá Bjarnastöðum, nú löngu komin í eyði.  Tún Guðnabæjar skiptist í tvennt, Austurgerði og Vesturgerði, og lágu traðirnar heim að Bjarnastöðum milli þessara stykkja. Efst í Austurgerði er Unhóll á landamerkjum móti Nesi, rétt innan við  eða í túngarðinum, sem liggur ofan við alla bæina. Alveg um landamerki Ness og Bjarnastaða, nokkru neðan við Unhól, var brunnur fyrir Guðnabæ og Þórðarkot, hjáleigu í Nesi.
Nokkru vestar en Guðnabær var þurrabúð, nefnd Klöpp, og stóð hún ofan garðs. Túnblettur var þar í kring og í honum vestast lítill hóll, Æshóll. Merkin milli Götu og Bjarnastaða liggja alveg um Æshól. Vestast í Bjarnastaðalandi var hjáleigan Beggjakot, nú í eyði. Sömu traðir voru að Götu og Beggjakoti. Tún Beggjakots lá upp með tröðunum, upp undir garð og spöl niður fyrir bæinn. Á því standa fjárhús á nokkrum stöðum. Neðst í túninu var brunnur fyrir kotið.
Nokkru vestar stóðu Bjarnastaðaborgir, tvær fjárborgir á kampinum, en þær tók af í flóðinu mikla 25. febr. 1925. Lítið vik milli klappa niður af þeim heitir Borga(r)vik, og vestur af því Borga(r)klettar. Þeir eru fram af borgunum. Þar var fjárrétt lengi. Á milli Borgaklettanna er Sandlón, og vestan Borgakletta er Djúpalón. U. þ. b. upp af Borgaviki er Bjarnastaðarétt eða Miðvogsrétt, neðst í Gerðinu innan við sjóvarnargarðinn.
Selvogsheiði tekur við ofan túngarða á Bjarnastöðum, og er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði þar fyrir vestan.
Ofan Bjarnastaðatúns eru Bjarnastaðaflatir. Vestast á þeim ofan við hjáleiguna Klöpp var Litlavarða og Litluvörðuflöt. Eitthvað mun vera eftir af vörðunni. Ofar en Litlavarða var önnur varða ofarlega á Flötunum (68), kölluð Digravarða, Stóravarða eða Austurvogsvarða. Hún var Sundvarða fyrir Útvogssund. Átti hana að bera í austustu Hnúkana.  Rúst við FornugötuVið túngarðshlið Bjarnastaða byrjaði leiðin suður og lá upp heiðina.
Spölkorn upp frá Flötunum eru Bjarnastaðahólar kringum Digruvörðu. Það eru þrír lágir hraunhólar. Vestasti hóllinn er í Götulandi, Mið-Bjarnastaðahóll e.t.v. einnig, en Austasti-Bjarnastaðahóll er í Bjarnastaðalandi.  Eitthvað er eftir af grónu landi milli hólanna, sandurinn er ekki kominn þangað.” Ekki er fjallað um Bjarnastaðastekk í örnefnalýsingunni, en þar með er ekki sagt að hann hafi ekki verið til því hans er getið í lýsingu fyrir Götu.
“Á Nessandi er stórt svæði, nefnt Öldur. Sandurinn er þar gáróttur og lægðir á milli gáranna. Öldur liggja frá Flötum austur að landamerkjum, milli Heimasands og Sandamóta, en svo heitir, þar sem sandurinn mætir gróna landinu fyrir ofan og fer að hækka upp í heiðina.  Öldurnar voru slegnar frá Nesi og kotunum, hver hafði þar sitt stykki, en þetta var aðalslægjulandið utan túns. Vestust er Ertualda. Þá er Bartakotsalda. Á henni voru tættur, e.t.v. af býli.  Milli þessara tveggja eru Járnhellrar, sem svo voru nefndir. Járnhellrar eru klappir, og var í þær hellir, en hann fylltist af sandi.  Þarna voru jafnvel rústir gamlar. Járnhellrar fylgja aðallega Bartakotsöldu.” Vegna framkominna upplýsinga um að hellirinn hafi lokast svo og vegna þess að Miðheiðin er einn sandur, var ekki gerð sérstök leit að honum að þessu sinni.
Farið var niður undir Strákhæðir. “Norður af þeim er Smalaskáli á Heimasandi. Þar var einhver hleðsla. Var talið, að þar hefði einhvern tíma verið búið. Þar norður af er Taðhóll. Ekki er vitað, hvers vegna hann heitir svo, e.t.v. hafa hross staðið í skjóli undir honum. Við Taðhól byrjar Ertualda, og þar eru takmörk Heimasands.
Vestur af Taðhól er Dómhæð.  Sagt var, að þar hefðu farið fram dómar.
Varða við FornugötuFrá túngarðshliði að austan lá gata upp í heiðina, upp hjá Víghólsrétt, upp á Klakksflatir. Tvær smávörður við götuna voru kallaðar Ljúf og Leið, ekki vitað hvers vegna. Ofar er klöpp, sem kallast Beð, og á henni Beðvarða. Vestan götunnar er Grænaskjól. Þar er hleðsla, hefur eitthvað verið byggt. Vestur og upp af Grænaskjóli eru Lambastekkshólar og Lambastekkur þar hjá.” Vörður eru á þessari leið en erfitt er að sjá eftir lýsingunni hver hafi heitið hvað.
“Nesstekkur var vestan við Víghólsrétt, en hún er austan við Stóruvörðu, sem er ofarlega á Bjarnastaðaflötum. Nesstekkur er við mörk Ness og Bjarnastaða. Víghólsrétt er við Víghól, sem er svolítil hæð. Við Nesstekk er Nesstekkatún. Stekkir voru þarna í röð yfir landið, austast Nesstekkur, þá Bjarnastaðastekkur og Útvogsstekkur.” Þessi lýsing frá Nesi gefur tilefni til að fara aftur á vettvang og gaumgæfa svæðið vestan við fyrrnefnda rétt (Víghólarétt), sem gæti einnig verið Bjarnastaðastekkur. Hins vegar var engar minjar að sjá austan við hana. Meira síðar.
“Fyrir ofan Götutún halda áfram Bjarnastaðaflatir, og á þeim eru Bjarnastaðahólar. Vestasti-Bjarnastaðahóll er í Götulandi og e. t. v. einnig Mið-Bjarnastaðahóll. Ofan við hólana var lægð eða flöt, sem nefnd var Skjaldbreið, en er nú orðin uppblásin og nefnd Grjót (ft.). Þar ofar var Bjarnastaðastekkur, alveg við mörkin í Götu og e.t.v.  í Útvogslandi. Sést fyrir honum enn. Við stekkinn var Stekkatún og Stekkatúnsflatir í kring. Þetta er við veginn niður að bæjunum.” Þessi lýsing frá Götu bendir til að Bjarnastaðastekkurinn geti verið vestar en hér er tilgreind Víghólsrétt. Þá ætti Nesstekkur að vera á millum.
Ofar eru tveir hólar, Grænshólar (G.S. nefnir þá Grenshóla). Við þá mun áður fyrr hafa verið gren. Umhverfis hólana eru Grænshólaflatir. Þar austur af er Fornagata í Bjarnastaðalandi.”
Fornagata í MiðheiðinniÍ örnefnalýsingu fyrir Þorkelsgerði segir: “Áður fyrr var byggð í Selvogi skipt í Austurvog, sem var fyrir austan kirkjuna, og Vesturvog fyrir vestan kirkju, þ. e. frá kirkju og vestur að Vogsósum. Þá var Þorkelsgerði í Austurvognum. Í Þorkelsgerði voru Austurbær og Miðbær, sem var tómthús. Vestan við Þorkelsgerði er Torfabær. Hver bær átti sín tún, sem kennd voru við þá  og voru áður fyrr girt með görðum, en í seinni tíð eru komnar girðingar í þeirra stað. Traðir eða götur voru milli bæjanna. Ævagamall túngarður liggur fyrir ofan alla byggðina; hann nær alveg austur undir vita og vestur að Vogsósum. Víða hefur fokið mjög að honum sandur, svo að hann er nær á kafi, en þó sést hann sums staðar. Hlið voru á garðinum heim að hverjum bæ, gjarnan kennd við bæina.  Sagt er, að hliðin hefðu verið læst og grind í. Þorkelsgerðisbæir og Torfabær eiga hver sín tún, eins og fyrr segir, en land utan túns, í Selvogsheiði og fjalllendi er sameiginlegt.
Þorkelsgerði stóð áður neðarlega í túni, en var fært ofar undan sjó. Gömlu bæirnir sjást enn í Kampinum, svolítið uppi í túni, en nú standa bæirnir samhliða Torfabæ, sem var ofar. Sunnan eða framan við gamla bæinn hét Framtún eða Flötin. Í því var Þorkelsgerðisbrunnur, sem lengi vel var aðalbrunnur hverfisins. Síðar tók Eyþór brunn við Torfabæ einnig.  Frá brunninum lágu götur heim að bæjunum. Brunnurinn er til enn, en sjór fyllir hann í flóðum. Traðir fyrir kýr voru aðallega að austan, og var hlið á túngarðinum þar, rétt við hól, sem nefnist Kinn. Þaðan lágu traðir heim að bæ.
Þórður Sveinsson - t.h.Torfabær er vestan Þorkelsgerðis. Að sögn bjó þar Torfi lögréttumaður. Bærinn stendur uppi undir túngarði að norðan, það langt frá sjó, að hann var aldrei í hættu. Efst í norðvesturhorni túnsins er Mosakrókur, óræktarlaut vaxin mosa.  Þar voru tóttir, hefur e. t. v. verið þar býli. Neðst í túni er Krókur, þar stóðu fjárhúsin. Framtún var túnið neðan bæjar kallað, og í því var Torfabæjarbrunnur. Áður en hann var gerður, var sótt í Þorkelsgerðisbrunn.
Upp af Torfabæjartúni er Torfabæjarstekkur. Eyþór man ekki eftir fráfærum, þeim var hætt fyrir aldamót. Við stekkinn stendur Stekkjarvarða. Hún var mið fyrir Goltanga; átti hana að bera í Sundvörðuna á kampinum og í hæstu nípu á Björgunum (Svörtubjörgum).
Fyrir vestan Torfabæ var býli, sem hét Eima, komið í eyði fyrir löngu. Þar sem Eima stóð, heitir nú Eimuhóll.
Milli Torfabæjar og Eimu eru Útvogsréttir eða Þorkelsgerðisréttir, við túngarðinn í Torfabæ.
Ofan túngarða tekur við Selvogsheiði. Er kölluð Miðheiði upp frá Bjarnastöðum og vestur um Þorkelsgerðis- og Torfabæjarland, en Vesturheiði eða Útheiði er land Eimu og Vogsósa.
Ofan garðs er Gunnustekkur á merkjum Þorkelsgerðis og Eimu. Ormsstekkur var austarlega í Þorkelsgerðislandi, austur undir Götumörkum. Vestar og ofar var Brynkastekkur, sem nú er kominn í kaf. Þar nokkru ofar er Stekkjarvarðan, áður nefnd, mið á innra sundið.”
Af framangreindu má sjá að enn er að mörgu að hyggja á Selvogsheiðum.
Ferðin tók 3 klst og 3 mín. Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Þórður Sveinsson (f: 1930), mars 2007.
-Eyþór Þórðarson, (f: 1898), 30. okt. 1981.
-Örnefnalýsingar fyrir Bjarnastaði, Nes, Þorkelsgerði og Götu.
-Brynjúlfur Jónsson, 1903, bls. 51.

Strandarkirkja