Þorlákshöfn

Á svæði nálægt gamla Þorlákshafnarbænum má, auk leifar bæjarins, m.a. sjá aðrar rústir bæja og verbúða, gömul tún, túngarða o.fl.
Á landnotkunaruppdrætti eru auðkennd sérstaklega Sigríðarbær, Thorlakshofn-1Ingileifarbær, brunnur í túni, túngarður, Erlendarkot og Helgubær. Ætlunin var að ganga um Þorlákshöfn með það fyrir augum að skoða m.a. nefndar bæjartóftir, Selvogsgötu, Langabásvörðu, Smalavörðu, Þrívörður, Miðmundarbyrgi, Hákarlabyrgi, Hafnavörðu, Réttarstekk, Hraunbúðir, brunninn og túngarðana umhverfis bæina, Þorlákshól, Hlíðarendavörðu og Skeiðsvörðu.
Áhugasamir Þorlákshafnarbúar komu með í förina til að skoða þessar elstu fornminjar bæjarins.
Þorlákshöfn er kennd við Þorlák biskup helga.  Sögn er, að Þorlákur biskup hafi stigið þar á land, er hann kom frá biskupsvígslu 1178, af því sé nafnið komið.
Í fornleifaskráningu frá árinu 1999 kemur m.a. eftirfarandi fram um byggð í Þorlákshöfn: “Elstu heimildir um Þorlákshöfn eru frá 14. öld.
thorlakshofn-7Máldaga Þorlákshafnarkirkju er getið í Vilchins máldagasafni frá 1397. Í máldaga Hjallakirkju frá árinu 1400 segir að Hjallakirkja eigi hús og skipstöðu í Þorlákshöfn. Þá hefur verið útgerð í Þorlákshöfn jafnhliða búskap. Árið 1570 var hálfkirkjan í Þorlákshöfn talin eiga í Melsmýri. Aðstæður við Þorlákshöfn hafa sennilega ráðið mestu um fyrstu byggðina og hefur þar a.m.k. frá 14. öld, og sennilega allt frá fyrstu tíð, verið verstöð.
Skálholtskirkja eignaðist Þorlákshöfn snemma, eins og margar útgerðarjarðir um Suðurnes, og 1509 átti hún þrjá fjórðu hluti í reka á Skeiði, milli Ölfusárósa og Þorlákshafnar. Getið er um geymslumann skreiðar í Þorlákshöfn og var hann á vegum Skálholtsbiskups. Um það leyti hefur verið útskipun frá Þorlákshöfn og er það m.a. staðfest er í fógetareikningum frá 1553. 

thorlakshofn-8

Regluleg verslun hófst síðan í Þorlákshöfn á seinni hluta 18. aldar og var þar löggilt verslunarhöfn árið 1875.
Þorlákshafnarbærinn, verstöðin, verslunarhús og önnur mannvirki munu ávallt hafa verið á sama stað, upp frá vörunum, Þorláksvör, Suðurvör og Norðurvör. Þar voru til langs tíma mannvistarleifar eftir margra alda búskap, útgerð og verslun.
“Í bæjarröðinni voru allmörg hús, geymsluhús austast en baðstofa, hlaðin úr höggnu grjóti, vestast. Fjós var vesta í móti, og hesthús, en heyhlaðan, ærhús og fleiri byggingar að bæjarbaki. Suður af eystri hluta bæjarhúsanna stóð tveggja hæða timburhús og fleiri hús áföst, austan við það, en stórt geymsluhús aðeins sunnar”.
thorlakshofn-9Við bæjarstæðið munu hafa staðið nokkur kot eða hjáleigur, s.s. Sigurðarhús (Rass), Gíslahús, Einarshús eða Jóns Brandssonar hús, Hóll, Gjáhús og Helgahús
Brunnur var á hlaðinu, milli kálgarðsins og áðurnefnds timburhúss, þar sem nú er Hafnarskeið 6. Annar brunnur, Fjósabrunnur, var vestur frá fjósadyrum (nú framan við Hafnarskeið 7). Hraunbúðabrunnur var austan við Hraunbúðir, í litlum hringlaga hól með fyrhyrndri dæld í miðju. Stétt var að brunninum.”
Hálfdán Jónsson lögréttumaður á Reykjum í Ölfusi ritaði þetta um Þorlákshöfn: “Þorlákshöfn hefir sitt nafn af Þorláki biskupi Þórhallssyni hinum helga í Skálholti, er þar meinast fyrst hafi á land gengið eftir sína biskupslegu vígslu. Þar heitir og enn nú að framanverðu við bæinn Þorláksvör, Þorlákssker og Þorlákshóll, þar túnið er hæst. Í þessari veiðistöðu ganga árlega um vertíðartímann frá kyndilmessu og í 14 vikur þar eftir yfir fjörutíu skip stór og smá; mörg þeirra heyra til biskupsstólnum í Skálholti.”
Önnur sögn er, að eigandi jarðarinnar hafi í sjávarháska heitið á Þorlák sér til liðsinnis og svo gefið Skálholti jörðina. Talið er að áður hafi hún heitið Elliðahöfn. Það er staðfest með dómi 1774.  En samkvæmt dómnum mun höfnin hafa heitið  Elliðahöfn í fyrstu, eða eftir að hún var mönnum byggð, og máski fram yfir lát Þorláks biskups helga 1193. – Næstum sex öldum síðar er enn fólk í Ölfusi og Flóa, sem kannast við hið forna heiti Elliðahöfn.

thorlakshofn-10

Þorlákshöfn var að fornu fari ein af hinum mestu hlunnindajörðun Árnessýslu. Í jarðabók Árna Magnússonar Páls Vídalíns 1708 segir m.a.: “Rekavon er hér góð af viðum og hvölum á Þorlákshafnar-skeiði”. Þá var þar sölvatekja mikil, er sveitamenn fyrr á tímum sóttu þangað, stundum um langa leið. Gamlar sagnir herma, að á hallæristímum, td. eftir móðuharðindin, hafi það gerst, að Skagfirðingar hafi komið suður yfir fjöll til sölvakaupa í Þorlákshöfn. Sölin í Þorlákshöfn voru talin mikið góð, jafnvel betri en annars staðar austanfjalls. Mikið að Þorlákshafnarsölvunum var flutt í sjálft staðarbúið í Skálholti. Þar voru þau sem annars staðar notuð til matar og manneldis.
thorlakshofn-11Trjárekinn var löngum mikill í Þorlákshöfn.  Svo lengi, sem biskupsstóllinn átti jörðina, má sjá það af heimildum frá 16., 17. og 18. öld, hve viðarrekinn var oft feikimikill og löngum fluttur upp að Skálholti. Þar var hann notaður til húsagerðar, viðhalds húsa og búsmuna og annarra smíða. Einnig var rekaviðurinn oft seldur sveitamönnum, þegar biskupsstóllinn áleit sig aflögufæran þeim nytjagögnum.

thorlakshofn-12

Það voru lítil skilyrði til búsetu fyrir sjómennina í Þorlákshöfn. Túnið sjálft og suður af því, svo nefnt Þorlákshafnarnes var eina gróna landið um langan aldur og höfðu heimabændur það fyrir búpening sinn. Utan þess svæðis og ofan við það var næsta nágrennið mestmegnis foksandur með melgrastoppum, klappir og hraun.
Um miðja vegu milli Skötubótar og Hafnarness stóð Þorlákshafnarbærinn uppi á allháum sjógarði eða uppfyllingu sem hét Sjógarður og sneri stöfnum mót suðri. Í bæjarröðinni voru allmörg hús, geymsluhús austast, en baðstofa hlaðin úr höggnu grjóti vestast. Fjós var þar vestan í móti og hesthús, en heyhlaða, ærhús og fleiri byggingar að bæjarbaki. Suður af eystri hluta bæjarhúsanna stóð tveggja hæð timburhús og fleiri hús áföst austan við það, en stórt geymsluhús aðeins sunnar. Stór kálgarður var sunnan við bæinn og brunnur á hlaðinu milli kálgarðs og áðurnefnd timburhúss.
thorlakshofn-6Suður frá bænum voru verbúðir og geymsluhús þeim tilheyrandi upp frá Suðurvör, og norðan við bæinn voru einnig verbúðir og geymsluhús upp frá Norðurvör, enda var Þorlákshöfn mikil verstöð um aldir.
Vestan við bæinn, kálgarðinn og Suðurvarar-byggingarnar var stórt slétt tún. Bar þar hæst Þorlákshól breiðan og langan frá norðri til sðurs. Vestur frá fjósdyrum var Fjósaflöt og norðan við hana Fjósatjörn og Fjósabrunnur. Nyrst á túninu norðan við Fjósaflöt var Kirkjuflöt nú að mestu undir byggingum.
Nú er búið að umturna öllu bæjarstæðinu, svo að ekkert er eftir nema hluti af Þorlákshól.
Kirkjan stóð stuttan spöl norðvestur frá gamla bænum, þar sem hann hefur sjálfsagt staðið öldum saman, allt til að sá síðasti var rifinn til grunna sumarið 1962. Við kirkjuna hefur verið grafreitur og garður hlaðinn kringum hann. Kemur það fram í einni heimild 1673, að garður sé umhverfis kirkjuna. Mætti því ætla, að þá hafi verið þar öðru hverju grafið í honum.

thorlakshofn-13

Þegar kirkjan var fallin og menn hafa séð fram á, að hún yrði ekki endurbyggð, var upp úr tóft hennar reist sjóbúð, er var ávallt síðan kölluð kirkjubúðin. Vísuðu dyr hennar, sem voru til vesturs, á Geitafell. Kirkjubúðinni var haldið við og notuð af sjómönnum í meira en heila öld, allt fram yfir síðustu aldamót. Þá var hún rifin og jöfnuð við jörðu.
Það voru því aðrar ástæður en landbúskapur, sem lágu til þess, að sókn sjómanna til Þorlákshafnar var meiri en annarra verstöðva. Ástæðurnar voru einkum tvær, önnur var sú að lendingarnar voru taldar þar betri en alls staðar annars staðar á nærliggjandi svæðum. Var því oftar mögulegt að komast til róðra á næstu fiskimið. Þar af leiðandi urðu þar að jafnaði betri hluti en í öðrum verstöðvum austan fjalls, enda segir í Jarðabók Árna og Páls 1708, að þar sé “verstaða merkilega góð”.

thorlakshofn-14

Hin ástæðan var sú, að þar var langöruggasta landtakan og hættuminnst mönnum, skipum og afla. Stundum kom það fyrir að með öllu var ólendandi við Loftstaðasand, Stokkseyri og Eyrarbakka, svo að menn urðu frá að hverfa og var þá oft eina lífsvonin að leita til Þorlákshafnar. Margar sögur eru til af því að opnu skipin austan Ölfusár leituðu til Þorlákshafnar, þegar ólendandi var í heimaverstöðvunum og náðu á slysalaust landi í Þorlákshöfn. Var hún í slíkum tilfellum stundum nefnd þrautalending eða “lífhöfn” hinum sjóhröktu mönnum.
Elztu verbúðirnar í Þorlákshöfn voru hlaðnar úr thorlakshofn-15sandsniddu að utan, en hlaðnar úr grjóti að innan, brimbörðu og lásléttu. Veggirnir voru ekki hærri en það að utan, að það mátti sitja á þeim, enda hölluðust þeir mikið frá. Í hverri búð voru þrír bálkar hvoru megin og einn fyrir stafni, og hver bálkur um þrjár álnir á lengd. Við hver bálkaskipti var stoð, sem gekk frá þverbitanum og niður í gólf.  Þverbitinn var alltaf úr sveru rekatré. Engar sperrur voru, heldur rekadrumbar reistir upp á endann og bustuðu efst. Þeir voru hafðir svo þéttir, að þeir námu alveg saman og sett mold ofan á og loks sandsnidda, en hún varð að vera tvö fet á þykkt, svo að toldi saman.
Í gólfinu voru hellur og urðu þær að halla út að dyrunum, svo að runnið gæti út bleytan, því að stundum komu menn rennandi blautir inn. Upp úr mæninum var túða. Yfir hverjum bálk voru hnefastór göt og látin gjörð þar í með líknarbelg á.

thorlakshofn-16

Í hinum gömlu verstöðvum á 18. öld, þar sem fjölmenni var mikið samankomið og lausningjalýður slangraði um, vildi stundum bera við, að gripdeildir og ýmsir óknyttir væru hafðir í frammi ásamt drykkjuskap og slarki. Þótti þá yfirvöldum brýn nauðsyn, að gapastokkur væri hafður á slíkum stöðum eða í grennd við þá.
Samkvæmt gömlum munnmælum var gapastokkur í Þorlákshöfn. Hvenær hann hefur verið settur þar upp, veit nú enginn. Trúlega hefur það verið gert í samráði við sýslumann og Skálholtsbiskup, eftir að stóllinn hafði eignarrétt á jörðinni, til þess að halda þar uppi skikkan og tyfta höttóttan lýð, sem þar var stundum saman kominn. Að líkindum hefur gapastokkur verið þar alla 18. öldina. Hann hefur verið hafður þar sem refsandi ámining öllum þeim mörgu, er þar voru og þangað komu á vetrarvertíðum, enda stundum máski þurft að grípa til hans, þegar fjölmennið var þar sem mest.  Árið 1703 eru heimilisfastir í Þorlákshöfn yfir 60 manns auk allra útróðrarmanna á vertíðinni.

thorlakshofn-17

Gapastokkurinn í Þorlákshöfn hefur að líkindum verið í kirkjuþilinu að vestanverðu við inngöngudyrnar, svo lengi sem kirkjan var þar uppistandandi. En gömul munnmæli voru, að eftir það hefði hann verið settur upp norðanvert við Þorlákshól, nokkurn spöl frá sjálfum bænum. Voru hálsjárnin og fótajárn fest í tré, er stóð upp á endann í meira en mannhæð og gekk í jörð niður. Þar stóð svo þetta refsitæki sem þögil áminning öllum þeim, er komu heim á hlað í Þorlákshöfn. Sagnir voru um það, að á sumardaginn fyrsta og á lokadaginn fyrr á tímum hefðu menn stundum í brennivínsdrykkju verið settir í gapastokkinn fyrir óspektir og látnir þar dasast um stundarsakir.

thorlakshofn-18

Hvenær hætt var að nota gapastokkinn í Þorlákshöfn, er nú ekki lengur vitað. Uppi mun hann trúlega hafa verið fram um aldamótin 1800 eða eitthvað lengur. Hálsjárnin voru enn til í Þorlákshöfn fram yfir 1840, og voru þá sem ónýtt brotajárnsrusl. Þau sá þá og handlék Hávarður Andrésson, síðar á Tannastöðum, er var þá sjómaður í Þorlákshöfn. Höfðu þá ungir menn stundum í galsa gripið þau og brugðið þeim á háls félaga sinna, er færi gafst. Voru þá leifar þessa gamla refsitækis þegjandi vottur þess, að sá aldarandi var orðinn breyttur, er gaf valdsmönnum rétt til þess að beita því miskunnarlaust, þótt máski um litlar sakir væri að ræða.

thorlakshofn-21

Lendingar voru tvær í Þorlákshöfn; Norður- og Suðurvör, og voru þær um mitt Hafnarnes austanvert. Varir þessar höfðu tvo stóra kosti. Þann fyrstan að siglingaleiðin að þeim var hrein og skerjalaus. Og hinn, sem oftar skipti sköpum um gildi þeirra, að þar var sjór ekki ófær nema rok væri af suðaustri eða um 30 gráður hvoru megin við þá átt.
Í heimild segir m.a.: “”Austur frá Spori er vík sem heitir Stekkjar-bót. Réttarstekkur er stutt upp af Stekkjarbót. Stekkurinn er sýndur á aðalskipulagskorti. Hann er um 70 m austan við Nesbraut þar sem hún beygir til suðurs.
Rétt fyrir 1890 voru reist í Þorlákshöfn fjögur smábýli eða tómthús. Þau voru yfirleitt kennd við konurnar sem í þeim bjuggu, enda voru þær alljafna heima, en menn þeirra í atvinnu utan heimilis. Syðst í túninu, suðaustur frá þessum bæjum [Helgubæ & Erlendarkoti], er stór hóll, sem snýr endum  austur og vestur, algróinn, með miklum rústum. Þar stóð Ingileifarbær austan til hólnum. Þar bjuggu Ingileif Símonardóttir og Einar Guðmunds-son.

thorlakshofn-22

Tómthús þessi voru í byggð fram um aldamótin 1900. Tóftin er mæld inn á kort frá Ölfushreppi.”
Hraunbúðir, tóftin, eru á grasigrónu svæði og eru einna heillegustu sjóbúðaminjar í Þorlákshöfn.
Í Þorlákshöfn var hálfkirkja fram um 1770 og hafði svo verið a.m.k. í 250 ár og sennilega í allt að 400 ár. Kirkjugarður var norðan við bæjarhúsin og voru flutt þaðan að Hjalla bein er upp komu í jarðraski við hafnarframkvæmdir 1962. Í heimild frá 1673 er getið um garð umhverfis kirkjuna. Kirkjuflöt er örnefni er mun hafa verið nyrst á túninu. Þegar kirkjan var fallin var byggð sjóbúð í tóftinni, nefnd Kirkjubúðin (sjá síðar).
Verbúðir og geymsluhús voru suður frá bænum, ofan við Suðurvör. Aðrar verbúðir og geymsluhús, Hjallabúðir, voru norður af bænum, thorlakshofn-23ofan við Norðurvör. Annars voru sjóbúðirnar þarna allt að 25 talsins um tíma, ofan við lendingarnar. Þær voru sumar að nokkru grafnar inn í hóla og hæðir, að innan hlaðnar úr grjóthnullungum, þ.e. sjóbörðu grjóti, með sandi og mold milli laganna. Byggingarformið var líkt og fjós voru byggð til sveita framundir aldamótin 1900. Í hverri þeirra voru venjulega 14-16 menn.
Réttarstekkur er upp af Réttarbót austur frá Spori. Um var að ræða fráfærurétt. Langveggir eru enn sýnilegir.
Skeiðisvarða er austur á miðjum Kampi. Hafnarvarða er fallin, við hlið Þorlákshafnarvita. Langabásvarða er á hól upp af miðjum Langabás, um 250 metra frá sjó og er 18 m há. Þrívörður stóðu á hól, en eru nú fallnar. Smalavarða er stór varða nokkru norðan Þorlákshóls. Hlíðarendavarða er við götuna upp að Hlíðarenda, litlu vestar en núverandi vegur, vörðubrot á klapparhól við norðurenda Unabakka.

thorlakshofn-24

Prestavarða er ofan við Leirar en hún markar upphaf leiðarinnar að Hrauni, miðsvæðis milli Skötubótar og Miðöldu.
Á skilti við gamla Þorlákshafnarbæinn er eftirfarandi áletrun: “Þorlákshafnarbærinn stóð uppi á allháum sjógarði. Sneri bærinn stöfnum mót suðri. Hann var byggður 1880-1885. Í bæjarröðinni voru allmörg hús. vestan við bæinn var stórt slétt tún. Bar þar hæst Þorlákshól, langan og breiðan frá norðri til suðurs. Stór hluti hólsins hefur veriðs léttaður undir mannvirki og nú er aðeins hluti af honum eftir. Þorlákshafnarbærinn var rifinn árið 1962. Í Ráðhúsi Ölfuss er hægt að skoða líkan af bænum eftir Sigurð Sólmundsson.

thorlakshofn-25

Nafnið Þorlákshöfn er, sem fyrr sagði, dregið af Þorláki helga sem var biskup í Skálholti 1178-1193. Til eru tvær sagnir um uppruna nafnsins. Önnur sagan segir að Þorlákur hafi fyrst stigið hér á land þegar hann kom frá biskupsvígslu árið 1178. Hin sögnin er að eigandi jarðarinnar sem þá hét Elliðahöfn hafi heitið á Þorlák helga að hjálpa sér þegar hann lenti í sjávarháska og síðan gefið Skálholti jörðina. Lítið er til af rituðum heimildum um Þorlákshöfn fyrr en um 1400 þegar Skálholtsstóll var orðinn eigandi hennar en menn hafa giskað á að útræði hafi hafist í Þorlákshöfn rétt eftir að menn settust að í Ölfusi.”
Fjögur smábýli eða tómthús voru reist í Þorlákshöfn um 1890. Þau voru Helgubær, Magnúsarkot eða Kotið, Erlendarkot, Ingileifarbær og Sigríðar, Siggu- eða Guðmundarbær. Tóftir þeirra sjást enn.
Á skilti við Helgubæ stendur m.a.: “Í Helgubæ bjuggu Helga Jónsdóttir og Magnús Símonarson en húsið hefur einnig verið  kennt við hann og thorlakshofn-26kallað Magnúsarkot eða Kotið. Síðustu íbúar Helgubæjar voru Gísli Jónsson og Ólöf Stafánsdóttir en Gísli byggði reisulegt hús sem búið var í fram yfir 1920, þá var það rifið og flutt til eyrarbakka ogs íaðn á Selfoss þar sem verslunin Höfn var til húsa fram yfir 1970 en verslunin dró nafn sitt af upprunalegum stað hússins, Þorlákshöfn.
Um 1820 voru hjáleigubýli Þorlákshafnar ökk komin í eyði, þar sem landgæði voru ekki næg til að fóðra búfénað bónda og leiguliða. Sextíu árum síðar gaf Jón Árnason, þáverandi eigandi Þorlákshafnar, leyfi til að endurbyggja hjáleigukotin með þeim skilmálum að íbúarnir héldu engar skepnur á landinu. Voru kotin þess vegna kölluð þurrabúðarkot eða tómthús. Íbúar þeirra sóttu sjó á vertíðum og unnu ýmis tilfallandi störf þess á milli svo sem vegavinnu, uppskipun og kaupavinnu.

thorlakshofn-27

Flest voru tómthúsin fjögur í byggð á sama tíma og voru þau yfirleitt kennd við konurnar sem í þeim bjuggu.”
Eftir að kirkjan í Þorlákshöfn lagðist af var reist sjóbúð upp úr tóft hennar og var hún æ síðan nefnd Kirkjubúð. Dyr búðarinnar snéru í vestur og vísuðu að Geitafelli.
Kirkjubúðinni var haldið við og notuð af sjómönnum í meira en eina öld, allt fram undir aldamótin 1900. Þá var hún rifin og jöfnuð við jörðu. Kirkjan hefur staðið þar sem nú er Hafnarskeið 8.
Sveitarfélagið Ölfus hefur nú sett upp söguskitli við allnokkra merkisstaði í bænum, m.a. marga þá er skoðaðir voru í þessari ferð. Styrkur til þess verkefnis mun hafa fengist frá Menningarsjóði Suðurlands og Þjóðhátíðarsjóði. Verður verkið að teljast sérstaklega eftirtektarvert því það bæði gefur áhugasömu fólki ýmsar upplýsingar um staðina og hvetur aðra til að kynna sér svæðið í sögulegu samhengi.

thorlakshofn-28

Á skilti við gamla kirkjureitin stendur: “Fram til 1770 var hálfkirkja í Þorlákshöfn en ekki er vitað með vissu hve lengi kirkjan stóð. Messað var í kirkjunni á vertíðum enda langt fyrir sjómenn að fara að Hjalla í Ölfusi, en þangað sóttu íbúar í Þorlákshöfn messur utan vertíðar þar sem veður og færð voru mun betri yfir sumartímann.
Umhverfis Þorlákskirkju og norðan við Þorlákshafnarbæinn var kirkjugarður. Árið 1962 komu upp bein í jarðraski vegna hafnarframkvæmda. Beinin voru flutt að Hjalla og jarðsett þar. Í vestanverðu þili kirkjunnar var gapastokkur og hefur hann líklega verið settur upp eftir að Skálholtsstóll eignaðist jörðina. Gapastokkur var tól, notað til refsingar og niðurlægingar afbrotamönnum. Hann var búinn til úr klofnum og götuðum stokk eða viðarborðum. Á honum voru festingar sem voru settar um háls fanga og ökkla eða úlnlið, eftir gerð stokksins.

thorlakshofn-31

Hérlendis voru gapastokkar notaðir til refsingar fyrir minniháttar afbrot og óhlýðni, svo sem brot á lögum um lausamennsku, flakk og betl en þeir komust þó ekki í almenna notkun fyrr en um miðja 18. öld. Á messudögum voru brotamenn gjarnan settir í stokkana, þeim til skammt og öðrum til viðvörunar. Gapastokkurinn var fluttur norður fyrir bæjarhól Þorlákshafnarbæjarins þegar kirkjan lagðist af. Þar stóð hann sem áminning fyrir alla þá sem komu heim á hlaðið og munu drukknir menn hafa verið settir í stokkinn á tyllidögum til að víman rynni afþeim. Á Íslandi voru gapastokkar aflagðir með tilskipan árið 1809 en óvíst er hvenær hætt var að nota stokkinn í Þorlákshöfn. Hálsjárnin voru enn til um 1840 og gripu galsafengin ungmenni í þau til að gera at í félögum sínum.”

thorlakshofn-30

Á skilti við Sýslu stendur: “Áður en frystihús Meitilsins var reist á Sýslu hafði þessi klöpp fleiri en eitt hlutvek. Festarhringur var í Sýslu og hafa þar eflaust verið budnin kaupför sem lágu við festar úti á legunni. Varningur skipanna hefur þá verið settur upp á Sýslu. Sumir vilja meina að nafnið sé tilkomið vegna þessara uppskipunar og þá dregið af athöfninni að sýsla eitthvað.
Áður fyrr var Sýsla grasi gróin og var þá glímuvöllur vermanna sem komu þar saman til að “glíma af sér sýsluna”. Sá sem tapaði var dæmdur til að hreinsa skít og annan óþverra fram til vertíðarloka og var hann í háði nefndur “sýslumaður”.
Inn í klöppina að austanverðu gekk nokkuð djúp og víð sprunga, gekk hún saman efst en sjór féll að henni og frá og var hún þurr á fjöru. Þar munu sjómenn, sérstaklega úr Norðurvröinni, hafa gert þarfir sínar og var þá haft á orði að menn væru “á setunum í Sýslu”. Í flóði féll þar að og hreinsaðist þá klöppin jafnharðan. Segja má að þarna hafi verið fyrirtaks vatnssalerni frá náttúrunnar hendi.”
Á skilti við
Hraunbúðir má lesa eftirfarandi texta: “Hraunbúðir eru einna heillegustu sjóbúðaminjarnar í Þorlákshöfn. Stærsti hlutinn eru tvö samhliða hús sem snúa í norðvestur-suðaustur með inngangi í suðausturenda. Við suðvesturgafl húsanna er önnur minni tóft sem snýr eins og hinar og mun hún hafa verið smiðja. Norðvestan við smiðjutóftina eru hringlaga tóft sem líklega var beitukofi. Allir veggir tóftanna eru hlaðnir úr torfi og grjóti.

thorlakshofn-35

Sjóbúðirnar í Þorlákshöfn voru iðulega grafnar inn í hóla eða hæðir og hlaðnar með hleðslugrjóti. Oft voru búðirnar hriplekar. Fleiri óþægindi hrjáðu verbúðamenn en einna verstar voru rotturnar. Þær komu út úr veggjunum þegar ljós voru slökkt og leituðu að æti. Styggðust þær, stukku þær upp um alla veggi og djöfluðust í þekjunni lengi nætur. Eina nóttina vöknuðu menn í Hraunsbúð við ægilegt sársaukaýlfur og fundu rottu fasta í öngli. Skal engan undra að menn hafi séð og heyrt drauga í öllum skúmaskotum fyrir tíma rafmagnsins.
thorlakshofn-36Eftir þarsíðustu aldamót [1800] var farið að byggja búðirnar undir súð og seinna voru þær byggðar með steinlímdum veggjum og klæddar að innan með timbri. Þá voru jafnvel eldavélar í sumum þeirra.”
Við Brunninn, einn af nokkrum, stendur á skilti: “
Við brunn milli Hraunbúða og tómthúsanna stendur m.a.: “Þó nokkrir brunnar hafa verið í Þorlákshöfn. Ekki hafa þeir þó verið sérlega gjöfulir því í þeim gætti sjávarfalla og voru þeir oft þurrir nema hátt stæði í sjó og þá var vatnið gjarnan of salt og heldur lítið. Geta má líkum að því að fólk hafi gjarnan hist við brunnana og tekið þar tal saman. Kannski hefur Þorlákshafnar-Sigga nýtt tækifærið og spáð fyrir þeim sem sóttu vatn úr brunni.
Þorlákshafnar-Sigga eða Hafnar-Sigga var einsetukona sem er talin fædd að saurbæ í Ölfusi árið 1729. Sigga var mikil að vallarsýn, þrekmikil og hafði karlmannskrafta. Hún þótti forn í lund og gædd hinu mesta orðkynngi. Enginn vildi hafa formælingar hennar yfir sér og fékk hún því oftast vilja sínum framgengt.

thorlakshofn-35

Sér til framfærslu smíðaði Hafnar-Sigga smágripi kostagóða og spáði fyrir um framtíð manna. Hún las í lófa sjómanna sem þorðu ekki annað en að gera henni allt til hæfis svo þeir fengju góða spá. Menn gerðu aðeins gys að Siggu einu sinni. Hún var vinum sínum afar trygg og í þakklæstisskyni færðu sjómenn henni gjarnan smálegt við endurkomu á vertíð í Þorlákshöfn. Að vertíð lokinni flakkaði Sigga um sveitir, seldi þar handavinnu sína, spáði fyrir sveitarfólki og aflaði vista til næsta vetrar. Hún safnaði álftafjöðrum sem hún svo skipti fyrir tóbaki og brennivínskút hjá kaupmanninum á Eyrarbakka. Kúturinn dugði Siggu yfir veturinn, sér í lagi af því að gestir hennar bættu stundum á hann.
Dag einn á vetrarvertíð árið 1819 urðu menn þess varir að ekki rauk úr eldhússtrompinum á koti Siggu og var hún þá dáin í rúmi sínu, hafði hlotið snöggt en milt andlát á tíræðisaldri. Hafnar-Sigga var síðasta manneskjan sem fékk greftrun í gamla grafreitnum í Þorlákshöfn.”

thorlakshofn-34

Á skilti við Siggubæ má lesa: “Siggubær eða Sigríðarbær liggur á vesturenda sama hóls og Ingileifarbær. Tóftin snýr í austur-vestur. Hægt er að greina þrjú hólf, eitt í vesturenda tóftarinnar og tvö í austurendanum, inngangur hefur svo verið á suðurhlið. Veggirnir eru hlaðnir úr torfi og grjóti. Milli Siggubæjar og Ingileifarbæjar eru um 17 metra langt svæði sem er hærra en umhverfið og má gera ráð fyrir að einnig hafi þar staðið hús. Siggubær var kenndur við síðustu ábúendurna, þau Sigríði Einarsdóttur og Guðmund Guðmundsson.”
thorlakshofn-37Við Ingileifarbæ stendur:
“Í Ingileifarbæ bjuggu Ingileif Símonardóttir og Einar Guðmundsson, oft nefndur Einar Guð til aðgreiningar frá öðrum nöfnum sínum. Í báðum bæjunum var búið fram yfir aldamótin 1900. Ingileif var systir Magnúsar Símonarsonar í Helgubæ. Synstkinabrúðkaup var í Hjallakirkju 13. júlí 1890 þar sem Ingileif giftist Einar og Magnús kvæntist Helgu Jónsdóttur.
Einar var gáfaður og margfróður maður og liggur eftir hann merkilegur kafli um líf og starf sjómanna í Þorlákshöfn um 1870.”
Á skilti við Miðmundabyrgið stendur: “
Miðmundabyrgi er rúst tveggja hákarlabyrgja. Litlar upplýsingar eru til um hákarlaveiðar í Þorlákshöfn frá fyrri tíð. Í úttekt sem gerð var á brytaskemmu Skálholts árið 1663 er telinn einn nýr 30 faðma ólavaður, ætlaður hákarlaútvegi í Þorlákshöfn.

thorlakshofn-33

Í skjali frá 1771 má sjá að ábúendur í Þorlákshöfn hafa ekki leyfi til að stunda hákarlaveiðar og fara þeir fram á að fá slíkt leyfi þótt veiðar hafi ekki verið stundaðar síðustu 73 árin þar á undan. Heimild frá 1840 greinir frá að í Þorlákshöfn hafi verið skjótfenginn og mikill hákarlsafli sem hafi svo farið minnakdi eftir að þilskipaveiðar hófust, hákarlaveiðarnar lögðust þó ekki af alveg af því á árunum 1860-1870 fóru menn í nokkrar legur í byrjun vertíðar.
Verkun hákarls var misjöfn eftir landsvæðum en örnefni í Þorlákshöfn benda til að hann hafi verið lagður í gryfjur og látinn kasast í vikur eða mánuði áður en hann þótti neysluhæfur.”
thorlakshofn-36Við Lat má lesa m.a.:
“Latur er ættaður austarlega af Urðum og var notaður sem viðmið um sjófærð og veður, þannig þurfti 9-12 áratog til að róa fyrir Lat í góðu veðri en þegar verra var í sjó voru áratogin 90-100. Fólk gekk gjarnan út að Lat sér til skemmtunar og heilsubótar á meðan hann var enn á sínum upphaflega stað.
Latur var fluttur á núverandi stað þann 19. nóvember 2004. Taið er að hann sé um 60 tonn að þyngd og þurfti að nota þrjár stórar vélar og bíl af stærstu gerð með öflugan tengivagn til að flytja steininn.”
Síðasti bærinn á Þorlákshól var byggður 1880-85 og rifinn 1962. Líkan af bænum má sjá í ráðhúsinu í Þorlákshöfn. Sigurður Sólmundarson gerði líkanið árið 1991.
Aðrar minjar, sem skoðaðar voru í ferðinni, voru m.a. skipasteinn með áletruninni H.J – 1881, thorlakshofn-32vestan hús eldriborgara, letursteinn með áletruninni JJ 1970, að baki húss nr. 3 við C-götu og hestasteinn eða skipasteinn aftan við ráðhúss bæjarins. Stendur hann þar í umferðareyju ásamt ankeri. Ekki er að sjá áletrun á þeim steini.
Sigurður Jónsson, skipulags- og byggingafulltrúi, tók á móti þátttakendum í ráðhúsinu. Sýndi hann m.a. allmerkilegar ljósmyndir og teikningar á veggjum þess er gefa vel til kynna hvernig Þorlákshöfn hefur litið út fyrrum. Þar á meðal voru teikningar eftir Guðmund frá Miðdal er sýndu gömlu húsaþyrpinguna og sjóbúðirnar fyrrnefndu. Sigurður er greinilega áhugasamur um sögu staðarins sem og um mikilvægi varðveislu gamalla minja, sem enn má sjá í Þorlákshöfn.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Saga Þorlákshafnar.
-Sigurður Jónsson.
-Jóhann Davíðsson, B-götu 9.
-Örnefnalýsing fyrir Þorlákshöfn.
-Fornleifaskráning fyrir Þorlákshöfn 1999.

thorlakshofn-5