Færslur

Hjallasel

Gengið var upp með austanverðu Kerlingarbergi áleiðis að Litlabergi.

Ölfus

Hjallasel.

Haldið var áfram upp í Lyngbrekkur og stefnan þá tekin upp í svonefndar Vatnsbrekkur með stefnu á Skálafell. Undir brekkunum kúrði fallegt sel. Sennilega er um að ræða sel frá Hjalla. Megintóftin var óvenjustór af selstóft að vera, en rými var austan við hana. Tvískipt tóft var lítillega ofar (norðar) og síðan önnur skammt vestar. Á milli hennar og megintóftarinnar var garður. Tækifærið var notað og selstaðan rissuð upp. Suðaustan við tóftirnar eru Selbrekkur ofan við Hjalla. Gamall stígur liggur í móanum upp hlíðina og liðast áfram upp hana skammt vestan við selið. Að sögn Hjalta Þórðarsonar, bónda á Bjarnastöðum, sem er manna fróðastur um þetta svæði, er þarna um að ræða sel, mjög gamalt, frá Hjalla og síðar notað sem sauðhús. Annað sel frá Hjalla væri í u.þ.b. 20 mín. gang til norðvesturs upp í heiðinni, í svonefndum Sellautum. Það væri minna og einnig mjög gamalt.

Hjallasel

Hjallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Hjalli er bær og kirkjustaður í Ölfusi. Hann er sennilega kunnastur fyrir að þar bjó einhver vitrasti og lögfróðasti höfðingi landsins á sínum tíma, Skafti Þóróddsson, lögsögumaður (†1030). Síðasti katólski biskupinn í Skálholti, Ögmundur Pálsson, var í heimsókn hjá Ásdísi systur sinni að Hjalla 2. júní 1541, þegar danskir hermenn handtóku hann þar. Hann sætti illri meðferð í þeirra höndum og var fluttur til Hafnarfjarðar, þar sem hann var settur á skip til Kaupmannahafnar. Ögmundur lézt á leiðinni.

Til baka var gengið ofan við brekkurnar áleiðis niður að Kerlingarbergi. Gengið var niður af því að vestanverðu og var þá komið selstíginn frá Hrauni. Hann liggur áfram upp í Hraunsel undir Löngubrekkum, sem eru þarna skammt ofar. Hraunsel er lítið sel utan í úfnum hraunkanti skammt austan við Raufarhólshelli.
Stígnum var fylgt niður eftir, niður að Lækjarmóa og að Guðnýjarhæð. Þar er sagt að Guðný smali hafi alið barn.

Ölfus

Hjalli – örnefnakort.

FERLIR hefur pússlað saman örnefnakortum fyrir Ölfusbæina. Eru það þrjú stór kort er mynda samfellt svæði frá Þrengslum að Þurá. Áður höfðu verið útbúin slík kort af svæðinu vestan Þrengslanna.
Þarna er Fjallsendaborgin, stór gróin fjárborg. Heimildir segja að ekki sé ólíklegt að hún hafi verið topphlaðin. Skammt norðaustar er hlaðin, fremur lítil, fjárborg, Lækjarborg. Stuttir leiðigarðar liggja út frá borginni. Neðar er Sólarvarðan á Hjallafjalli, en vestar er Fjallsendi.
Framundan er að taka hús á Hrafnkeli á Hrauni og Helga á Bjarnastöðum. Þeir eru mjög fróðir um svæðið og geta auðveldlega kveðið á um heiti og staðsetningar eintakra minja skv. Örnefnakortunum. Fengist hafa talsverðar upplýsingar um einstakar minjar, s.s. Beinteinsvörðu, en í henni á að vera letursteinn. Svo er einnig um Markaklett á gömlu þjóðleiðinni undir Hjallafjalli.

Fjallsendaborg

Fjallsendaborg.

Ekki er að sjá á örnefnalýsingum að getið sé um selstöður bæjanna undir Hjallafjalli í Ölfusi. Í lýsingu af Hjalla segir m.a. að “vestan við Kerlingarberg er skarð nokkurt sem í heild kallast Selstígur, þó að nafnið eigi einkum við götuna, sem liggur þar upp á brúnina.”
Í örnefnalýsingu fyrir Ytri-Grímslæk segir: “Klapparhóll og tóft af fjárborg. Nálægt miðju svæðisins er lágur klapparhóll og utan í honum er tóft af fjárborg. Var fjárborgin notuð af bændum í sveitinni fyrr á öldum og þá fyrst og fremst til að skýla sauðfé í vondum veðrum. (Munnleg heimild: Gunnar Konráðsson, nóvember 1997). Hóllinn og fjárborgin setja skemmtilegan svip á landslagið. Fjáborgin teldst orðið til fornleifa þar sem hún er eldri en 100 ára og af þeirri ástæðu skal ekki gróðursetja nær ystu mörkum hennar en 20 m. og er það í samræmi við þjóðminjalög.” Framundan er m.a. að huga að þessari borg.
Frábært veður – bjart og hlýtt. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Ölfus

Ölfus – kort.

Hjallaborg

Bæirnir í Hjallahverfi standa undir Hjallahlíðinni (Kinninni) og út frá henni, og er Hjalli í miðju hverfinu. Hjallahverfi og Bakki kallast til samans Hjallatorfa, með sameiginleg landamerki útávið. Þar sem lönd jarðanna liggja mjög óreglulega, er erfitt að segja hvaða örnefni tilheyra hverri jörð.

Hjallaborg

Hjallaborg.

Gengið var frá Hjalla. Við kirkjustaðinn Hjalla er að sjálfsögðu kirkja; Hjallakirkja. Hún var byggð og vígð 1928 um haustið.
Katólskar kirkjur voru helgaðar Ólafi helga Noregskonungi. Hjallakirkja var útkirkja frá Arnarbæli og frá Hveragerði. Húsameistari var Þorleifur Eyjólfsson og yfirsmiður Kristinn Vigfússon. Kirkjan er steinsteypt, fyrsta steinsteypta kirkjan austanfjalls. Norðan undir kirkjugarðinum er lítið hesthús, sem heitir Granahesthús, um 10 m frá honum. Það var notað fyrir uppáhaldsreiðhesta Hjallabóndans. Stallurinn í því er ein hella, um 20 sm þykk, fullur metri á hæð og um 2 metrar á lengd, nær inn í báða hliðarveggi hússins. Sögn er, að kona sem bjó á Hjalla, hafi reitt hellu þessa fyrir framan sig á hestinum Grana ofan af Hjallafjalli. Aldrei mátti gera við Granahesthús. Fórust skepnur voveiflega, væri það gert. Nú er Granahesthús hrunið en veggir standa að mestu. Túnið norður frá Granahesthúsi upp að Þorgrímsstaðatúni heitir Granaflöt. Ofan við það liggur Þorgrímsstaðastígur (Krikastígur)upp stallinn.
Bæir á Hjallatorfunni voru t.a.m. Krókur (Hjalla-Krókur), norðaustur frá Hjalla. Móakot var austan við Hjalla en sunnan við Krók. Gerðakot er sunnan þjóðvegarins og austan lækjarins. Lækur er vestan Bæjarlækjar, vestur frá Hjalla. Austast í Lækjartúni var Rjómabú um allmörg ár á fyrsta fjórðungi 20. aldar. Það var venjulega nefnt Hjallarjómabú. Það stóð nákvæmlega þar sem nú er vegurinn, brúin yfir lækinn.
Goðhóll hét lítill hóll, grasigróinn, vestan Lækjartúns, ofan við gömlu götuna. Hann var allur tekinn sem efni í veginn. Bjarnastaðir eru upp við Hjallafjall þar sem það er hæst, norður frá Læk.

Lækjarborg

Lækjarborg.

Upp frá Enni liggur gata í sneiðingum upp á brúnina. Hún heitir Krikastígur. Ofan Krikastígs, uppi á brúninni er allstórt móabarð sem heitir Göngumói. Annar stígur, Bjarnastaðastígur liggur upp á brúnina vestan túnsins. Frá Stekkatúni liggur gata upp brekkuna og vestur með klettunum í fjallsbrúninni, en beygir þá upp á brún, gegnum lægð sem heitir Lágaskarð, en neðantil heitir gatan Kúastígur. Það er hægasta gatan upp á fjallsbrúnina, og sú eina sem hestfær var.
Þorgrímsstaðir stóðu austur frá Bjarnastöðum, fyrir botni Bæjarlækjar. Þar í brekkurótunum, austan og ofan bæjarins er húslaga steinn sem heitir Álfakirkja. Neðan við hana eru þrjár þúfur sem heita Biskupaleiði. Þar hvíla huldufólksbiskupar. Aldrei má slá Biskupaleiðin né slétta þau út.
Gengið var upp svonefnt Þorgrímsstaðagil. Rudd gata liggur upp Kinnina og heitir hún Kinnarstígur. Vestan hans er lítill hellisskúti; Baunahellir. Þar ræktuðu ungir menn baunir á öðrum tug 20. aldar. Nú eru allar byggingar afmáðar á Þorgrímsstöðum, og túnum skipt milli Gerðakots og Bjarnastaða.
Ofar, á Hjallafjalli (Neðrafjalli) er Langimói. Hjallaborg er á Neðrafjalli. Ofar er Efrafjall. Þarna skiptast á melar og móabörð, og frekar fátt um örnefni. Upp frá Króksstíg eru Suðurferðarmóar upp að Efrafjalli, fyrir vestan Hest. Þar eru grasbrekkur og lautir í brúninni fyrir vestan Leynira (þeir eru taldir með Bakka), og heita Suðurferðabrekka. Gatan þar upp brekkuna kallast Kálberstígur. Þannig var nafnið víst oftast borið fram, en mun eiga að vera Kálfsbergsstígur, kenndur við Kálfsberg, lítinn klettastapa þar í brúninni.
Neðrafjall hefur nú orðið gróðureyðingunni að bráð, einkum vestari hluti þess. Nú er reynt að planta þar skógi á stóru svæði ofan við Hjallabæina.

Hraunssel

Selsstígur Hraunssels.

Nafnið Kálfsberg er tekið eftir riti Hálfdánar Jónssonar lögréttumanns frá 1703. Það getur ekki átt við nokkurn annan stað en klett þennan eða stapa. Vestan við Suðurferðabrekku. er Brattabrekka, með kletta í brún og hærri en brúnin austar og vestar. Rétt neðan við vesturenda Bröttubrekku er dálítil hæð, sem heitir Háaleiti. Þar hafði Jón Helgason bóndi á Hjalla, síðar kaupmaður í Reykjavík, sauðahús fram yfir aldamótin 1900. Miklar hleðslur eru í rústunum (stundum nefndar Hjallaborg). Stórt gerði er norðaustan við það. Veggir hafa verið tvíhlaðnir.
Ofar (norðnorðaustar), í Lækjarmóum er Hjallasel. Þar eru rústir sels og stekks. Selsleifar eru og enn norðvestar og ofar í heiðinni (sjá aðra FERLIRslýsingu).
Rétt vestan við Lækjarmóa er lítil hæð sem heitir Guðnýjarhæð. Þar er sagt að Guðný smali hafi alið barn. Suðaustan hennar sést Lækjarborgin vel í gróðureyddu landslaginu.
Fjallsendaborg er vestar, undir Kerlingabergi. Selstígur liggur upp með því vestanverðu, áleiðis að Hraunseli, sem þar er í hraunkantinum skammt norðaustan við Raufarhólshelli.

Hjallaborg

Hjallaborg – uppdráttur ÓSÁ.

Spölkorn fyrir vestan Borgarstíg er stór varða uppi á brúninni. Heitir hún Sólarstígsvarða. Aðeins vestan við hana er krókótt, en áberandi, kindagata upp á brúnina. Hún heitir Sólarstígur. Neðan undir Sólarstígsvörðu er stór, stakur steinn niðri á jafnsléttu. Hann heitir Sólarsteinn og er landamerkjahornmark milli Hjallatorfu og Grímslækja.
Skammt fyrir vestan Sólarstíg er gata upp á brúnina, framan í nefi nokkru, og heitir Grímslækjarstígur. Í stórum, algrónum hvammi litlu vestar er enn gata og heitir Hraunsstígur. Skammt fyrir vestan Hraunsstíg er gil. Þar kemur Bolasteinsrás fram af brúninni. Á grænni flöt vestan við rásina er stór steinn sem heitir Bolasteinn. Þar segir sagan að kona hafi bjargast upp undan mannýgum bola. Og þegar boli vildi ekki hafa sig burt, gat hún hellt úr nálhúsi sínu upp í hann. Þá fór hann að lina aðsóknina. Upp af Bolasteini er grasbrekka, og hellisskúti ofan hennar, en klettar í brúninni. Brekkan heitir Hellisbrekka. Framan í nefi vestan við Hellisbrekku er gata upp á brúnina. Hún heitir Steinkustígur. Þar blæs af, svo hægt er að reka þar fé, þó aðrar götur séu ófærar af snjó. Gata liggur út með hlíðinni frá Hjallahverfi út á Hlíðarbæi. Hún heitir Tíðagata (stikuð með rauðum hælum), og er í mörkum Hjallatorfu út að Hlíðarbæjalandi.
Gengið var niður af Neðrafjalli um Hraunsstíg ofan við Bolastein og Tíðargötunni síðan fylgt að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Hjallasel

Hjallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Hjallasel

Hjallasel í Ölfusi hafa jafnan reynst áhugasömu fólki erfið leitar og staðsetningar.
En fyrst svolítið um Solstigsvarda“sel”. Í Safni til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju frá 1856 má lesa eftirfarandi um örnefnið “sel”: “Sel merkir sumardvalarstað, helst á heiðum eða við fjöll uppi, þar sem ær og kýr eru hafðar á beit og með málnytuna farið, eins og lög gera ráð fyrir; húsakynnin voru ætíð lítil og órífleg, ekki nema 2 herbergi eða svo, enda ekki mart manna að jafnaði. Alment var »haft í seli« á Íslandi lángt fram eftir öldum, uns það hætti, bæði vegna ódugnaðar og eins hins, að þörfin á að hafa í seli var aldrei eins mikil á Íslandi eins og t. d. í Noregi, nema þá rjett á stöku stöðum. En nöfnin eru mjög þýðingarmikil, einmitt fyrir búskap Íslendinga á fyrri öldum. Sel urðu að bæjum (kotum) líkt og fjós o.s.frv.”.
Í “Orðasafni í fornleifafræði”, sem Fornleifastofnun Íslands birtir á vefsíðu sinni er örnefnið “sel” m.a. Hjalli-21skilgreint: “sel hk. [skilgr.] Bústaður í úthögum eða inn til fjalla þar sem búsmali, aðallega málnytupeningur, var hafður á sumrum. [skýr.] Tilgangur með selstöðu var margþættur: Að hlífa heimahögum við ágangi, nýta útbeit og slægjur og jafnvel eftirsókn í kjarnmeiri gróður. Sumstaðar hafa sel verið notuð sem beitarhús á vetrum. [enska] shieling”.
Ekki er að sjá á örnefnalýsingum að getið sé um selstöður bæjanna undir Hjallafjalli í Ölfusi. Í lýsingu af Hjalla segir m.a. að “vestan við Kerlingarberg er skarð nokkurt sem í heild kallast Selstígur, þó að nafnið eigi einkum við götuna, sem liggur þar upp á brúnina.”

Hjalli-25

Selsstígur þessi liggur frá Hrauni upp í selstöðu frá þeim bæ í hraunkrikanum undir Skógbrekku.
Í örnefnalýsingu fyrir Ytri-Grímslæk segir: “Klapparhóll og tóft af fjárborg. Nálægt miðju svæðisins er lágur klapparhóll og utan í honum er tóft af fjárborg. Var fjárborgin notuð af bændum í sveitinni fyrr á öldum og þá fyrst og fremst til að skýla sauðfé í vondum veðrum. (Munnleg heimild: Gunnar Konráðsson, nóvember 1997).”
Í örnefnalýsingu fyrir Hjallahverfi eftir Eirík Einarsson segir m.a. um þetta svæði:
“Nöfn utan gömlu túnanna, neðan brúnar Hjallafjalls. Með Bakka eru talin nöfn í Bakkabrekkum, út að Hjallarás, nema gatan út með fjallinu, en af efri bæjum sóknarinnar var hún nefnd Hjallagötur. Vestan við Bakkarás, upp við hlíðina, er fjárrétt sem heitir Hjallarétt. Þar var réttað vor og haust.

Hjalli-23

Rétt fyrir vestan Hjallarétt er gata upp á brúnina, þar sem hlíðin skagar einna lengst fram. Hún heitir Suðurferðastígur og Króksstígur. Allgóð hestagata. Litlu vestar, austan við Króksrás, bugðast önnur gata upp á brúnina. Hún heitir Kúastígur eða Króksstígur.
Rétt fyrir vestan Öxl er gata úr brekkunni upp á brúnina, og heitir Borgarstígur. Spölkorn fyrir vestan Borgarstíg er stór varða uppi á brúninni. Heitir hún Sólarstígsvarða. Aðeins vestan við hana er krókótt kindagata upp á brúnina. Hún heitir Sólarstígur. Í stórum, algrónum hvammi litlu vestar er enn gata og heitir Hraunsstígur.
Upp af Bolasteini er grasbrekka, og hellisskúti ofan hennar, en klettar í brúninni. Brekkan heitir Hellisbrekka. Framan í nefi vestan við Hellisbrekku er gata upp á brúnina. Hún heitir Steinkustígur.
Upp frá Króksstíg eru Suðurferðarmóar upp að Efrafjalli, fyrir vestan Hest. Þar eru grasbrekkur og lautir í brúninni fyrir vestan Leynira (þeir eru taldir með Bakka), og heita Suðurferðabrekka. Gatan þar upp brekkuna kallast Kálberstígur. Þannig var nafnið víst oftast borið fram, en mun eiga að vera Kálfsbergsstígur, kenndur við Kálfsberg, lítinn klettastapa þar í brúninni.
Vestan við Suðurferðabrekku. er Brattabrekka, með kletta í brún og hærri en brúnin austar og vestar. Rétt neðan við vesturenda Bröttubrekku er dálítil hæð, sem heitir Háaleiti. Þar hafði Jón Helgason bóndi á Hjalla, síðar kaupmaður í Reykjavík, sauðahús fram yfir aldamótin 1900. Sér þar fyrir rústum.

Hjallasel efra - á Efra-Fjalli-2

Í brúninni vestur af Bröttubrekku, og nokkru lægri, eru Selbrekkur, algrónar. Austast í þeim heitir Pall-Selbrekka. Neðan við Selbrekkur er dálítil lægð sem heitir Litli-Leirdalur (182), og niður frá honum, suðvestur frá Háaleiti er Stóri-Leirdalur. Vestan við Selbrekkur verður rani eða múli sem heitir Rjúpnamúli. Niður frá honum heita Lækjarmóar. Þar eru rústir sels eða stekks, og heitir Lækjarborg.”
Gengið var áleiðis upp í Lyngbrekkur og stefnan þá tekin upp í svonefndar Vatnsbrekkur með stefnu í átt að Skálafelli. Skammt norðaustar var komið í Selbrekkur. Í brekkunum kúrði fallegt sel; Hjallasel I. Þarna mun vera um að ræða gamla selstöðu frá Hjalla. Megintóttin er óvenjustór af selstóft að vera, en rými var austan við hana.

Hjalli-26

Tvískipt tóft var lítillega ofar (norðar) og síðan önnur skammt vestar. Á milli hennar og megintóftarinnar var garður. Tækifærið var notað og selstaðan rissuð upp. Gamall stígur liggur í móanum upp hlíðina og liðast áfram upp hana skammt vestan við selið. Að sögn Hjalta Þórðarsonar, bónda á Bjarnastöðum, sem er manna fróðastur um þetta svæði, átti þarna uppi einnig að vera selstaða, mjög gömul, frá Hjalla og síðar notuð sem sauðhús [fjárborg, sbr. Lækjarborg]. Um 20 mín. gangur er á milli seljanna til norðvesturs, í svonefndum Sellautum. Á milli seljanna, á Efra-Fjalli má sjá brak úr flugvél er þar fórst á seinni stríðsárunum.
Þegar Lækjaborgin er skoðuð má telja víst að þar hefur “einungis” verið lítil fjárborg á annars litlum og lágum hól.

Fjallsendaborg

Enn má sjá talsverðar hleðslur í föllnum veggjunum sem og leiði- eða skjólgarða bæði suðaustan og norðvestan við hana. Telja verður ólíklegt að þarna hafi verið stekkur fyrrum, hvað þá selstaða. Líklegra er að selstaðan hafi við þar sem nú er Hjallaborg (stórt fjárhús og gerði) neðan við Selbrekkur.
Skammt suðvestar er Fjallsendaborgin, mjög gróin og stór á og utan í klapparhól. Fjárborgir voru á Reykjanesskaganum notaðar sem skjól fyrir útigangsfé því óvíða voru byggð fjárhús og/eða beitarhús á svæðinu fyrr en í lok 19. aldar og byrjun þeirrar tuttugustu. Vegna hversu slíkar byggingar eru tiltölulega nýlegar sjást minjar þeirra jafnan mjög vel í landslaginu. Ein slík er á lágum grónum hól skammt austsuðaustar, talsvert áberandi, norðan og ofan við Sólarstígsvörðu. 

Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Örnefnalýsing frá Hjalla.
-Örnefnalýsing frá Ytri-Grímslæk.
-Gunnar Konráðsson – munnleg heimild.
-Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju, Bæjarnöfn á Íslandi, Hið íslenska bókmenntafjelag 1856, 4.b., bls. 475.
-Örnefnalýsing Eiríks Einarsson fyrir Hjallahverfi.
http://www.instarch.is/instarch/ordasafn

Hjallasel

Hjallasel – uppdráttur ÓSÁ.

Portfolio Items