Færslur

Fornigarður

“Landbúnaðurinn hefir hér á Íslandi mikið til þrætt sömu sporin í 900 ár að því er búnaðarhætti snertir. Er það að vísu óræktur vottur um tryggð og fastheldni vor Ísendinga við gamlar venjur og væri að sönnu allrar virðingar vert, ef vér hefðum eigi jafnframt fellt niður aðal-búmannskostina; atorkuna og dugnaðinn.

Óbrennishólmi

Garður í Óbrennishólma.

Slægjulöndin skiftust þá eins og nú í tún og engjar, en sá er munurinn, að á söguöldinni voru slægjulöndin, bæði tún og engjar, rammlega girt og varin fyrir ágangi fénaðar og var það eitt hið fyrsta og æðsta boðorð í landbúnaðarlöggjöf forfeðra vorra. Og eigi létu þeir þar við sitja. Þeir girtu einnig haga sína og afréttarlönd. Þorsteinn Egilsson á Borg lét gera garð um þvera Grísatungu milli Laugavatns og Glúfrár, og hefir það verið býsna mikið verk, enda lét hann þar að vera marga menn um vorið.

Ögmundarstígur

Ögmundarstígur.

Ein af þrautum þeim, er Víga-Styr lagði fyrir berserkinn, er hann mælti til ráðahags við dóttur hans, var sú, að hann skyldi leggja hagagarð yfir þvert hraunið milli landa þeirra Vermundar. Hér er hagagarðurinn um leið merkigarður, og hefir það auðvitað víða fallið saman. Lögin heimiluðu hverjum bónda, að krefjast þess af nágranna sínum, að hann legði merkigarð á milli landa þeirra í félagi við hann, og var nefndur löggarður og verkið löggarðsönn. Löggarður skyldi vera 5 feta þykkur niður við jörð, en 3 feta að ofan, og axlar hár af þrepi. Lögin ætla 12 vikur á ári til garð-anna og sýnir það bezt hve mikla áherslu forfeður vorir lögðu á að verja land sitt. Þeim mönnum, er vel kunnu til garðlags, varð öðrum fremur gott til vistar, og sóttust menn eftir þeim langt að og vildu oft mikið til vinna.

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Maður var nefndur Ásbjörn vegghamar, ættaður úr Flóa. Hann var heldur óþokkamenni og illa kynntur, en margir slægðust til að taka við honum, því hann var garðlagsmaður svo mikill, að enginn lagði lag við hann. Hafðist hann við austur í Fljótsdalshéraði og lagði garða um tún manna og svo merkigarða. Var hann svo mikill meistari á garðlag, að þeir garðar stóðu öldum saman í Austfjörðum, er hann lagði. En vér þurfum eigi að leita vitnisburðar fornritanna um atorku og dugnað forfeðra vorra í þessu efni. Verkin sýna merkin. Enn í dag sjást víða hér á landi leifar af fornum merkigörðum, og eru þeir hin mestu mannvirki í sinni röð og óskeikull vottur um hið stórbrotna starfsþrek forfeðra vorra. Fyrir ofan Stóra-Klofa á Rangárvöllum sér enn votta fyrir fornum garði yfir þveran hreppinn, nær ½ mílu á lengd.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.

Hafa menn eignað Torfa ríka garð þennan, af þeim ástæðum sennilega, að hann var einna alkunnastur höfðingi um þessar slóðir, en óefað er mannvirki þetta miklu eldra. Á Mýrum vestra er og fjöldinn allur af slíkum fornaldargarðlögum, eigi aðeins í grennd við bæina, heldur og víða í höfum úti. Í Suður-Þingeyjarsýslu (Reykjadal, Laxárdal og Reykjahverfi) er örmull af fornum görðum. Liggja þeir meðal annars yfir Fljótsheiði þvera frá norðri til suðurs, nál. 5 mílur vegar á lengd, og yfir Hvammsheiði. Hafa sumir ætlað þetta forna upphleypta vegi, eða “göngugarða”, og meðal annars eignað Guðmundi ríka á Mörðuvöllum einn þeirra, yfir Hvammsheiði, er létta skyldi ferðir hans í Reykjahverfi. En allt munu þetta vera fornir merkigarðar eða afréttagarðar. Sumstaðar sér og votta fyrir fornum túngörðum, er sýna það og sanna, að tún fornmanna hafa verið miklu stærri en nú, enda leiðir það og beint af skepnufjöldanum [sjá frásögn annars staðar].”

Efnið er úr Gullöld Íslendinga eftir Jóns Jónsson, alþýðufyrirlestrar með myndum, Reykjavík 1906, bls. 244-246.

Grjóthleðsla-9

Unnið við endurgerð sjógarðs í Vogum.

Selvogur

Býlin í Garðahverfi liggja svo þétt að kominn er vísir að svolitlu þorpi og var girt í kringum það allt með görðum.
gardur-221Varnargarður lá meðfram sjónum og norðaustan megin teygði sig hinn mikli Garðatúngarður, frá Balatjörn í suðaustri, um Dysjamýri og Garðaholt, til Skógtjarnar í norðvestri. Garðinn lét séra Markús Magnússon reisa í kringum 1800 og væntanlega hafa allir íbúar hverfisins sameinast um verkið undir hans stjórn. Voru þá fjarlægð eldri garðlög við túnin ofanverð. Garðar hafa því verið þarna fyrr þótt þá þyrfti að endurhlaða með jöfnu millibili. Mannvirkjagerð af þessu tagi hefur tíðkast frá fornu fari og eru varðveittir garðar annars staðar sem vörðu heilu byggðalögin, t.d. Skagagarður á Garðskaga (Kristján Eldjárn.  Árb. ferðaf. 1903: Bls. 107-19). og Bjarnargarður í Landbroti (Sigurður Þórarinsson. Árb. ÍF 1982:bls. 5-39). Í Grágás eru jafnvel lagaákvæði um þetta og segir að Löggarður átti að vera „fimm feta þjokkur við jörð niðri, en þriggja ofan, og skal hann taka í öxl þeim manni af þrepi, er bæði hefir gildar álnar og faðma” (Ísl. fornr. XII: Bls. 112).

gardar-221Í Lýsingu Garðaprestakalls 1842 segir:  „Garðlag er og þvert yfir Garðahverfi sem skiptir því í austur og vestur hverfið. Fleiri garðlög finnast, er sýna, að hér eru tún forðum útgrædd upp í Garðaholt”. Hér mun átt við Garðatúngarð sem skipti milli Garðatorfunnar meðfram sjónum og nytjalands hverfisins fyrir ofan. Á Túnakorti 1918 má sjá hvar hann liggur frá suðaustri til norðvesturs meðfram túnum bæjanna Dysja, Pálshúsa, Nýjabæjar, Garða, Ráðagerðis, Hlíðar, Hausastaðakots og Hausastaða. Hann byrjar við Balatjörn og endar við Skógtjörn. Skv. Fasteignabókum er enn túngarður við allar jarðirnar árin 1932-44.
Í Örnefnaskrá 1964 segir:  „Garðatúngarður: Þetta var mikill túngarður, hlaðinn af grjóti. Lá neðan frá Dysjamöl við Balatjörn norður allt að Skógtjörn. Girti þannig af alla Garðatorfuna með hjáleignatúnunum. Séra Markús stiptprófastur Magnússon lét hlaða þennan garð á síðari hluta 18. aldar. Var það mikið mannvirki. „ Þegar garðurinn var lagður voru um leið fjarlægðir aðrir garðar sem voru  „vítt um túnin ofanverð, og munu hafa verið nokkurs konar varnargarðar um akurreiti, þegar akuryrkja var stunduð […] „  Talað var um Austurgarð austur frá loggardurGarðahliði, en Vesturgarð vestur frá því. (G.R.G: 95). Austan Dysja var kallaður Dysjatúngarður (181-220). Fornleifaskráning fór fram árið 1984 og fundust þá hlutar Vesturgarðsins. Ofan Garða er hann varðveittur frá Garðhúsum til Háteigs og birtist síðan aftur á um 70 m kafla ofan Hlíðar en endar við girðingarhorn við heimkeyrslu Grjóta. Ætla má að allir íbúar Garðahverfis hafi sameinast um byggingu þessa mikla túngarðs undir stjórn séra Markúsar enda hefur þeim líklega borið skylda til. Eins og fram kemur voru þarna eldri garðlög fyrir en mannvirkjagerð af þessu tagi hefur tíðkast frá fornu fari. Annars staðar á landinu eru varðveittir langir garðar sem varið hafa heilu byggðalögin og má nefna Skagagarð á Garðskaga og Bjarnagarð í Landbroti. Í Grágás eru lagaákvæði um byggingu slíkra garða og segir þar að Löggarður átti að vera „fimm feta þjokkur við jörð niðri, en þriggja ofan, og skal hann taka í öxl þeim manni af þrepi, er bæði hefir gildar álnar og faðma”.

Heimildir:
-Árni Helgason:  „Lýsing Garðaprestakalls 1842”. Landnám Ingólfs. Safn til sögu þess III. Félagið Ingólfur gaf út. Rvk. 1937-9. Bls. 197-220.
-Fasteignabók löggilt af Fjármálaráðuneytinu samkv. lögum nr. 41, 8. sept. 1931 öðlast gildi 1. apríl 1932.
-Fasteignabók löggilt af Fjármálaráðuneytinu samkv. lögum nr. 3, 6. jan. 1938. 1942-1944.
-Gísli Sigurðsson: Skrá yfir örnefni og fiskimið í Álftaneshreppi hinum forna: Bessastaðahreppi: Garðahreppi: Hafnarfirði og Hraunum: 1964. Garðahverfi A40, 43-4 / Garðaland B38, 41-2.
-Guðlaugur Rúnar Guðmundsson: Örnefni og leiðir í landi Garðabæjar Safn til sögu Garðabæjar III. Garðab. 2001.
-Guðrún Sveinbjarnardóttir:  „1300-33/36”. Fornleifaskráning í Garðabæ 1984. Þjóðminjasafn Íslands.
-Sigurður Þórarinsson:  „Bjarnagarður. „ Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1981. Rvk. 1982. Bls. 5-39.
-Uppdráttur af túnum í Garðahverfi frá 1918: Garðar, Krókur, Nýibær.
-Uppdráttur af túnum í Garðahverfi: Bakki, Pálshús, Dysjar (Desjar) frá 1918.
-Uppdráttur af túnum í Garðahverfi: Hausastaðir, Hausastaðakot, Katrínarkot,
-Móakot, Hlíð (2 býli), Háteigur, Miðengi frá 1918.
-Kristján Eldjárn.  Árb. ferðaf. 1903: Bls. 107-19.
-Sigurður Þórarinsson. Árb. ÍF 1982:bls. 5-39.
-Ísl. fornr. XII: Bls. 112.

Garðar

Garðar.

Fornigarður

Leó M Jónsson í Höfnum vakti athygli á eftirfarandi varðandi garðleifar og löggarða: “Ég var að skoða betur hleðslurnar (garðaleifarnar) við Kirkjuhöfn og Sandhöfn í sumar en þær eru að miklu leyti sokknar í sand.
GarðhleðslaVar að pæla í því hvað menn hefðu haft sem viðmið við þessar hleðslur því það vekur athygli manns að mótun garða, þar sem hún er greinanleg, virðist vera lík. Engu er líkara en að hlaðið hafi verið eftir einhvers konar mæli eða móti. Ég rakst á það í bókinni Þjóðhættir, höf. Finnur Jónsson á Kjörseyri, Hrútaf. (bls. 189)  að hér áður fyrr var talað um ,,Löggarð“, t.d. í sambandi við áreið (landamörk). Löggarður var samkvæmt Finni 5 feta breiður í grunninn, 3 fet að ofan og 1,5 alin á hæð (sem á 18-19. öld mun hafa náð meðalmanni í öxl). Ég hef ekki gert mér sérstaka ferð út á Hafnaeyri til að mæla þetta. En það skyldi nú ekki vera að þetta hefðu verið löggarðar? (Sagt er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar að í gömlum lögum hafi verið til ákvæði um ,,Lögreð“ og að kerling hafi sótt um skilnað með tilvísun í það – svo ýmislegt finnst nú þegar grúskað er).”
Viðbrögð FERLIRs voru eftirfarandi: “Gaman að heyra þetta. Höfum fjallað eitthvað um vegghleðslur og grjótgarða – sjá HÉR
og HÉR og HÉR.

Í Jónsbók er fjallað um löggarða sbr. kap. 22. “Um engi á annars jörðu – Ef maðr á engi á annars manns jörðu, þá skal hinn eigi beita engi þat frá því er sex vikur eru af sumri. En sá er engit á, skal þat fyrst láta vinna, nema hann vili töðu sína fyrr vinna. En ef hann vinnr eigi svá, ok vill þó unnit hafa, þá bæti … þeim er jörð á, ok óheilagt heyit ok engit. Nú á hann engjar í fleiri manna löndum, þá skal hann sitt sumar hvert fyrst slá, ok eigi fyrri heima en þau eru öll slegin. …

Löggarður 5

Kost á maðr at gera löggarð um þetta engi, ef eigi liggja beituteigar hér í annarra manna, fimm aura verðir eða meira, ok grafa í sínu engimarki torf til, ok láta hlið á garði. En ef hann vill grjótgarð hafa, þá brjóti hann ef hann vill í annars manns jörðu grjót upp, ok bæti … skaða, ef af því gerist. Rétt er honum at setja garð þann á jörð hins, á hrjóstr eða hölkn, ef eigi verða innangarðs beituteigar hins fimm aura verðir. En ef hann gerir annan veg, bæti skaða … landsdrottni. Honum er rétt at byrgja aptr garðinn fimmtadaginn er sex vikur eru af sumri. Hann skal hirt hafa hey sitt ór garðinum ok hliðum upp lokit er fjórar vikur eru til vetrar, nema nauðsyn banni. Síðan er óheilagt heyit og engit fyrir þeim, er jörð á undir, þó at hann lúki upp hlið á garðinum.”
Löggarður 8Í kap. 23 segir: “Um löggarð um hey í annars jörðu – Maðr skal gera löggarð um hey sitt í annars landi ok grafa í sínu engimarki torf til, ok svá skal hann gera löggarða í fjallhögum, þó at hann eigi sjálfr jörð undir, ok í engimarki sjálfs síns, ef eigi er lengra frá annars manns landsmarki en tvau hundruð faðma tólfræð. Ef garðr sá fellr eða þrútnar svell upp í hjá, þá skal sá er beit á um garðinn eða svá nær gera orð þeim er hey á í garðinum ok varða búfé sínu við heyi hins. En hann skal til fara um at búa eða brott færa, þegar honum er sagt forfallalaust. Ella er heyit óheilagt við þess búfé er þar á beit svá nær. Sömu leið skal fara, ef snjó leggr at garðinum, nema sjálfr vili frá láta snjóinn. Ef hinn varðar eigi við eða gerir eigi orð sem nú sagði, bæti skaða þann allan sem hans fé gerir … þeim er hey á. Ef maðr lætr engi sitt liggja óslegit þrjú sumur samfleytt, þá er sá eigi skyldr at verja er jörð á, nema hinn segi fyrir fardaga, at hann vill slá engit.
Löggarður 10Nú býr maðr svá nær engi sínu, því er hann á á annars jörðu, at hann vill heiman beita ok slá eigi, þá á hann kost þess, svá at hann skal mann hafa at fé sínu, ok gæta svá at eigi gangi í haga hins eða eng. Ef fé þess manns treðst í garði þeim er beitina á svá nær sem fyrr var tínt, af því at löggarðr var eigi þar sem hann skyldi vera, þá á sá þat allt at bæta er garði skyldi upp halda. Nú er hey fært í hús eða hlöður svá nær beit hins sem fyrr váttar, þá skal svá um búa at búfé hins komist eigi at heyinu. En ef húsit fellr ofan, þá skal beitarmaðr gera þeim orð er á ok verja við fé sínu þar til er hinn kemr til er hey á, eða gera upp sjálfr ella. Nú vill hinn eigi til fara eða hefir eigi byrgt dyrr eða vindauga, ok kemst búfé þar inn, þá ábyrgist hann, ef fé hins treðst þar eða fellr hús á … En ef fen eða vötn eða forað gerða um hey manna, ok er hey þegar óheilagt, er fé kemst yfir.”
Í  kap. 24. segir: ” Um viðarvöxt í engi manns á annars jörðu –    Hverr maðr á engivöxt í sínu engimarki. En ef víðara vex, þá á sá er jörð á undir. Nú vex viðr í engi manns, þar er annarr á jörð undir, ok er rétt at sá rífi upp við þann allan er engit á, ef þat er rifhrís, en sá á viðinn er jörð á undir. Þat er rifhrís er skjótara er at rífa upp en höggva. En þat er höggskógr er skjótara er at höggva en rífa. Nú vex höggskógr í engi því er maðr á á annars jörðu, þá skal sá kaupa, ef hann vill, er jörð á, eptir því sem sex skynsamir menn meta at engit var vert. Skal sá kjósa er engi átti, hvárt hann vill heldr hafa engi jafngott eða aðra aura.
GrjótveggurSá er jörð á undir eignast bæði engit ok svá skóginn, ef hinn vill eigi selja. Nú vill jarðeigandi eigi kaupa, þá eignast hinn bæði engi sitt ok skóginn. Ef engi þat spillist af eggveri er maðr á á annars manns jörðu, þá skal á sömu leið fara sem um þat engi er skógrinn vex á, ok svá þó at fiskivötn komi þar upp. Svá skal virða engit sem vert var áðr spilltist af skógi eða eggveri eða vatni. … Menn eigu at æja eykjum sínum í annars landi á sumar, þar sem eigi hefir fyrr slegit verit. Hverr maðr á gróðr á sinni jörðu.”
Í kap. 25 segir:  “Ef hey rekr á annars jörðu – Ef sjór eða vötn eða veðr rekr hey manna saman, þá skal sá er hey á á annars jörðu kveðja þann skiptis er hey á með honum. Vill hann eigi skipta, … hafi þat hverr af sem dómr dæmir. Þeir menn er þat hey eigu er á annars jörð rekr skulu at frjálsu þurrka heyit þar, en eigi heim færa fyrr en skipt er. Hann má þat ok vinna á jörðu hins, þar er hvárki er akr né eng, at gera löggarð um heyit.
GarðarEf hey rekr á engi hins, þá bæti honum skaða sem metinn verðr. Ef hey rekr í haga manns, ok á sá at gera löggarð um, er hey á, ok svá at þurrka…”
Í kap. 32 segir: “Ef löggarðr er brotinn ok um löggrind ok þjóðveg – En ef maðr skýtr upp grind ok gengr fénaðr í akr eða eng, bæti skaða þann er gerr var … þeim er korn á eða gras. Ok svá ef maðr höggr grindarhæla í sundr, eða veltir steini frá, ef við liggr, ok stendr fyrir því opin. … En ef maðr ríðr eða gengr yfir akr, töðuvöll eða eng, ok vill eigi fara vegu rétta, sá maðr er sekr mörk við þann er lóð á. …”

GrágásGarðar hafa fyrrum áreiðanlega verið hlaðnir skv. tiltekinni forskrift, allt eftir því hvaða hlutverki þeir áttu að þjóna…. Löggarðar voru staðlaðir garðar sem girtu af eignarlönd manna. Þeir áttu að vera hlaðnir þannig að næði meðalmanni í öxl, en við þá hæð hefur bæst dýpt skurðarins sem efnið ver tekið úr beggja megin. Þeir áttu að vera þrjú fet á þykkt að ofan (um 85-90 cm) en fimm að neðan. Ef slíkur garður lá um þjóðbraut þvera varð að vera á honum hlið, faðmur og ein alin til viðbótar að breidd (2,3 m). Í hliðinu átti að vera trégrind á hjörum og skyldi vera unnt að opna hana og láta aftur án þess að stíga af hestbaki. Löggarðar voru því vegleg mannvirki. Þeir áttu augljóslega að hindra för hvers kyns búfjár, og Grágás getur þess að því aðeins megi lögsækja mann fyrir að beita fé sínu á annars landi að löggarður sé á milli. Mikil vinna var að hlaða garðana og eru í Grágás ítarlegar reglur um alla vinnutilhögun.

Heimildir:
-Leó M. Leóson, Höfnum.
-Jónsbók.
-mbl.is  – Árni Einarsson, menningarblað Lesbókar 28. maí 2005.

Fornigarður

Fornigarður í Selvogi.