Þann 31. mars árið 1955, klukkan tæplega 4 um nóttina, strandaði togarinn Jón Baldvinsson, rétt hjá Reykjanesvita. Loftskeytastöðin í Reykjavík heyrði strax neyðarkall togarans og tilkynnti það til skrifstofustjóra Slysavarnarfélagsins, sem þegar vakti vitavörðinn á Reykjanesvita, Sigurjón Ólafsson, og kallaði einnig til björgunarsveitina í Grindavík.
Um kl. 5 var vitavörðurinn kominn á strandstaðinn. Reyndist togarinn vera strandaður skammt undir svokölluðu Hrafnkelsstaðarbergi sem er skammt suður af Reykjanesvita. Tilkynnti Sigurjón Ólafsson vitavörður Slysavarnarfélaginu strax um hvar skipið væri strandað, og einnig að skipbrotsmenn væru búnir að skjóta línu í land. Um kl. 7 kom björgunarsveitin úr Grindavík á strandastaðinn, eftir mjög erfiða ferð, þar sem vegurinn út á Reykjanes var nærri ófær, en björgunarmennirnir voru ekki fyrr komnir á strandstað, en að þeir hófu björgunarstarfið, og kl. 07:30 var fyrsti skipbrotsmaðurinn dreginn á land. Jafnhliða því að Grindvíkingar voru búnir að búa sig af stað, fóru tveir menn úr björgunarsveitinni í Reykjavík áleiðis á strandstað. Um kl. 9 f.h. var búið að bjarga öllum skipbrotsmönnunum, 52 að tölu, og var hægt að fylgjast með björguninni vegna talstöðvarinnar. Strax eftir að búið var að bjarga skipbrotsmönnunum, var farið með þá heim í vitavarðarbústaðinn, þar sem vitavarðarhjónin höfðu mat og drykk á reiðum höndum, en Bæjarútgerð Reykjavíkur hafði sent matvæli til þeirra hjóna. Slysavarnarfélag Íslands sendi björgunarbifreið sína, ásamt fleiri bifreiðum, til að sækja skipbrotsmennina.
Þetta er stærzta björgun áhafnar úr einu skipi, sem framkvæmd hefur verið af björgunarsveit Slysavarnarfélags Íslands. Stærzta björgun áður var, er 38 mönnum var bjargað af franska togaranum Cap Fagnet, sem strandaði á Hraunsfjörum nálægt Grindavík 24. mars 1931. Einnig þá var björgunarsveitin í Grindavík að verki og hefur engin önnur björgunarsveit félagsins bjargað jafn mörgum mannslífum og þessi frækna sveit, enda hvergi á landinu strandað fleiri skip en í námunda við Reykjanes.