Í Morgunblaðinu 1970 er grein; ” Í Staðarkirkjugarði” eftir séra Gísla Brynjólfsson. Þar fjallar hann um klukkuna í Staðarkirkjugarði og aðdraganda að komu hennar við strendur Grindavíkur:
“Klukkan í Staðarkirkjugarði –
Þetta er klukka dauðans.”
Jónsbás.
“Það er hún, þessi gamla, kopargræna skipsklukka í litla turninum í kirkjugarðinum á Stað, sem hringir líkhringinguna út yfir leiðin í þessum grafreit Suðurnesja. Ómar hennar eru síðasta kveðja lífsins til látinna.
Hún á sína sögu, þessi klukka.
-Sú saga minnir líka á dauðann, ekki síðnur en núverandi notkun hennar. Það er dapurleg saga um mannlega villu og synd og sviplegan dauða. — Þegar maður les hina stuttorðu áletrun: S.S. ANLABY – 1896 – Hull, þá mun sumum ef til vill koma í hug þessi orð postuans í Rómverjabréfinu: “Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn“.
Svipaður togari og Alnaby.
Anlaby var brezkur togari, sem strandaði dimma óveðursnótt vestan við Jónsbásskletta á Húsatóftafjöru í Grindavík 14. janúar 1902. Áhöfnin var 11 manns og fórust þeir allir. Skipstjórinn var enginn annar en hinn alræmdi landhelgisbrjótur Carl Nilsson, eða Sænski Carl, eins og sumir kölluðu hann.
Hann var skipstjóri á togaranum Royalist nr. 423 frá Hull, sem sökkti bátnum undir Hannesi Hafstein á Dýrafirði 10. október 1899 og varð þrem mönnum að bana. Fyrir það ódæði var hann síðar dæmdur í fangelsi í Danmörku. Er hann hafði lokið refsivist sinni hélt hann á Anlaby á Íslandsmið, sagður alráðinn í því að hefna ófara sinna á Íslendingum og velgja þeim undir uggum. „En hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna undir Jónsbássklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna, “eins og Guðsteinn Einarsson kemst að orði í ritgerð sinni í bókinni: Frá Suðurnesjum.
Jónsbássklettar.
Daginn áður en Anlaby strandaði, var veður gott, næstum logn en dimmt í lofti. Þennan dag var Sæmundur á Járngerðarstöðum, þá 13 ára, gendur út með sjó að huga að kindum. Sá hann þá marga togara að veiðum skammt frá landi. Það var sorgleg sjón, en því miður alltof algeng á þeim árum, því lítt fengu landsmenn reist rönd við yfirgangi útlendra veiðiþjófa.
Um nóttina gerði versta veður. Næsta dag var Björn, vinnumaður Einars í Garðhúsum að ganga til kinda á þessum sömu slóðum. Þegar hann kom út í Hvalvík, sem er skammt austan Jónsbásskletta, fann hann þar mannslík nokkru ofan við flæðarmál. Maðurinn hafði bundið sig við belg og var auðséð, að hann hafði komizt lifandi í land þótt ótrúlegt væri í slíku hafróti. Hann hafði farið úr öðru stígvélinu og lá það við hlið hans. Alls rak 10 lík af Anlaby.
Staður.
Hreppstjóri Grindvíkinga, Einar Jónsson á Húsatóftum, sendi þegar hraðboða til Hafnarfjarðar á fund Pál sýslumanns Einarssonar með tilkynningu um strandið. Skrifaði sýslumaður hreppstjóra með sendimanni til baka, bað hann bjarga því, sem ræki úr skipinu og láta leita fjörur að líkum hinna drukknuðu, og ef þau fyndust, þá að láta jarða þau að kristnum sið.
Jafnframt ráðfærði sýslumaður sig, pr. telefon, við enska consulatið í Reykjavík og hafði samráð við það um allar framkvæmdir í sambandi við strandið. Þann 20. lagði sýslumaður af stað til Grindavíkur, en sakir illviðra og annarra tálmana náði hann ekki þangað fyrr en á 3ja degi. Voru þá fundin 4 lík og næsta dag fundust önnur fjögur, segir sýslumaður í skýrslu sinni.
Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið h.m.
Það sem rekið hafði úr skipinu var aðallega timbur, allt brotið í spón. Skipið hafð brotnað í þrennt, framstafninn og skutinn hafði rekið á land, en sjálfur skrokkurinn var spölkörn frá landi, alltaf í kafi. Og enn í dag má um stórstraumsfjöru, sjá vélina úr Anlaby standa þangi vaxna langt frammi á Húsatóftafjöru.
Allt strandið, einnig skrokkurinn, var selt á uppboði 23. janúar. Síðar, eða 17. febrúar var svo haldið annað uppboð á ýmsu rekaldi sem þá hafði borizt á land, ennfremur talsverðu af fatnaði skipverja, sem hirtur hafði verið og rækilega sótthreinsaðir af „fagmanni” undir umsjón hreppstjóra.
Alls nam andvirði seldra muna á þessum uppboðum 728 krónum og 35 aurum. Hins vegar voru gjöldin heldur meiri, eða 743 krónur og 18 aurar svo það vantaði nœstum 15 krónur á að skipveriar á Anlaby ættu fyrir útför sinni.
Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu.
Frá líkfundunum og útför skipverja greinir prestsþjónustubók Staðarsóknar á þessa leið:
„Í janúr 1902 fundust níu lík af sjó rekin af botnvörpuskipinu Anlaby, sem brotnaði í spón á Húsatóftafjörum 14. janúar. Voru 4 líkin greftruð 24. janúar og fimm líkin greftruð 27. janúar. Í febrúar rak upp 10. líkið og var það greftrað 6. febrúar.”
Þá vantaði það ellefta. Hver var hann? Um það segir Guðsteinn frá Húsatóftium í fyrrnefndri ritgerð:
„Eftir að jarðarför þeirra tíu, sem rak, hafði farið fram og sendar höfðu verið lýsingar af líkunum, þótti það sannað, að sá, sem vantaði væri skipstjórinn sjálfur, Carl Nilsson.”
En þótt þessi lítt þokkaði brezk-sænski skipstjóri næði ekki að fá leg í íslenzkri mold, Sét hann sig hér ekki án vitnisburðar. Á þessum tíma var vinnukona á Stað í Grindavík, sem átti von á barni. Hennar vitjaði Sænski-Carl í draumi oftar en einu sinni. Hún mun haía skilið heimsóknir hans á þá leið að hann væri að biðja hana að koma upp nafni sínu ef hún mundi son ala.
Brak úr Alnaby ofan Jónsbáss.
Og svo varð. Vinnukonan á Stað fæddi dreng 31. júlí um sumarið. Þann 5. ágúst var hann vatni ausinn og hlaut nafnið Karl Nilson.
Þannig má segja að skipstjórinn á Anlaby hafi á vissan hátt „náð landi” í Grindavík þótt hann hlyti hina votu gröf í hafrátinu við Jónsbásskletta, lítt harmaður af því fólki, sem jafnan mun líta á hann sem holdi klæddan ofstopa og yfirgang gegn varnarlausri þjóð, sem var að leita réttar síns á eigin fiski miðum og verja lífsbjörg sína. – G. Br.
Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær.
Í Þjóðviljanum 1902 segir: “Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar”:
“Enskt botnvörpuskip, Anlaby að nafni, strandaði í Grindavík fyrir skömmu, og brotnaði i spón.
Skipstjóri á „Anlaby” var Nilsson sænski, er olli manndauðanum í Dýrafirði haustið 1899.
Staður 1925.
Hann var ný sloppinn úr betrunarhúsinu, eptir að hafa tekið þar út hegninguna, og réðst þegar, sem skipstjóri á „Anlaby” og lagði af stað frá Hull í fyrstu veiðiferð sina, á jóladagsmorguninn.
Enginn vafi getur á því leikið, að skipshöfnin á „Anlaby” hefir öll drukknað, enda voru tvö lík rekin í Grindavíkinni, er síðast fréttist.
Svo er að sjá, sem þeir félagar hafi verið að ólöglegum botnvörpuveiðum, því að botnvarpan var í sjó, en þá orðið of nærri landi, sakir þoku eða myrkurs, og skipið steytt á steini, og liðazt þar sundur, en skipverjar eigi fengið borgið sér til lands, sakir brims. Brottför Nilsson’s úr heimi þessum hefur því orðið all-kynleg og svaðaleg, — að drukkna þannig, er hann leitaði landsins aptur, fyrsta skipti, og var tekinn til fyrri iðju sinnar, ólöglegra landhelgisveiða.”
Fréttin var endurskrifuð í Heimskringlu sama ár.
Heimildir:
-Morgunblaðið, 131. tbl. 14.06.1970, Í Staðarkirkjugarði, séra Gísli brynjólfsson, bls. 6.
-Þjóðviljinn, Þjóðviljinn ungi, 4.-5. tbl. 28.01.1902, Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar, bls. 29.
-Heimskringla, 22. tbl. 13.03.1902, Sænski Nilson drukknar, bls. 1.
Staðarkirkjugarður.