Færslur

Oddur V. Gíslason

Í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 1991 er frásögn um þegar „minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason“ var afhjúpaður í Staðarkirkjugarði.

Oddur V. Gíslason

Frá athöfninni.

„Minnisvarði um Odd V. Gíslason var afhjúpaður í kirkjugarðinum á Stað í Grindavík 22. september 1990. Sr. Oddur var prestur í Grindavík og Höfnum 1879-1894 og var mikill forvígismaður um slysavarnir og fræðslu í þeim efnum.
Minnisvarðinn er gerður af listamanninum Gesti Þorgrímssyni, steyptur í brons og stendur á áletruðum steini. Hann er reistur að frumkvæði sóknarnefndar Grindavíkur og Hafna auk ættingja sr. Odds og Slysavarnarfélags Íslands.
Oddur beitti sér fyrir fræðslumálum í Grindavík og var á undan sinni samtíð um nýjungar. Þá stofnaði Oddur bjargráðanefndir um land allt sem voru undanfarar slysavarnadeilda sem voru stofnaðar seinna.
Gunnar TómasonVið athöfnina tóku til máls Svavar Árnason, formaður sóknarnefndar, og herra Ólafur Skúlason biskup yfir Íslandi, sem minntust sr. Odds og starfa hans. Eftir athöfnina í Staðarkirkjugarði bauð bæjarstjórn Grindavíkur til kaffisamsætis í félagsheimilinu Festi. Þar rakti Gunnar Tómasson, varaforseti Slysavarnarfélags Íslands, æviferil Odds. Þar kom m.a. fram að hann fór ekki alltaf troðnar slóðir og var orðinn þjóðsagnarpersóna í lifandi lífi. Fræg er sagan af Oddi þegar hann rændi brúði sinni Önnu Vilhjálmsdóttur frá Kirkjuvogi í Höfnum á gamlársdag árið 1870 til að giftast henni.“

Oddur Vigfús Gíslason (8. apríl 1836 – 10. janúar 1911) var íslenskur guðfræðingur, sjómaður og baráttumaður. Hann barðist lengi vel fyrir því að íslenskir sjómenn lærðu að synda, einnig að sjómenn tækju með sér bárufleyg svokallaðan, sem var holbauja með lýsi í og lak lýsið í sjóinn og lygndi með því bárurnar, og ýmsum öðrum öryggisatriðum fyrir sjómenn. Horft hefur verið til Odds sem frumkvöðuls sjóslysavarna á Íslandi.

Oddur V. Gíslason

Bátur Björgunarsveitar Þorbjörns í Grindavík, Oddur V. Gíslason.

Oddur var prestur, fyrst að Lundi í Borgarfirði frá 1875, svo á Stað í Grindavík var þar frá 1878 til 1894 þegar hann fluttist til Kanada og tók við preststörfum í Nýja Íslandi þangað til hann fluttist til Chicago og fór að læra til læknis á gamalsaldri og útskrifaðist kominn á áttræðisaldur.

Oddur. Gíslason

Séra Oddur V. Gíslason.

Oddur talaði fyrir því að sjómenn tækju upp að sigla á þilskipum í stað róðrarbáta.

Björgunarskip björgunarsveitarinnar Þorbjörns í Grindavík er nefnt eftir Oddi.

Oddur stóði í mikilli útgáfustarfsemi, gaf meðal annars út fyrstu kennslubókina í ensku hér á Ísla

ndi, gaf út fjölmörg rit tileinkuð sjómönnum og árið 1892 gaf hann út rit sem kallaðist Sæbjörg og fjallaði um ýmis mál sem honum þótti geta farið betur á Íslandi. Hann lést 10. Janúar 1911, 74 ára gamall og var jarðsunginn í Brookside cemetery í Winnipeg, Manitoba.

Heimild:
-Sjómannadagsblað Grindavíkur 1991, Minnisvarði um sr. Odd V. Gíslason afhjúpaður, bls. 18.
-https://is.wikipedia.org/wiki/Oddur_V._G%C3%ADslason

Oddur V. Gíslason

Staðarhverfi

Klukknaportið í kirkjugarðinum á Stað í Staðarhverfi við Grindavík hefur verið endunýjað.

Staður

Nýtt og gamalt klukkuport í Staðarkirkjugarði.

Það voru þeir feðgar í H.H. smíði sem sáu um verkið undir stjórn Helga Sæmundssonar. Kemur það í stað klukknaports sem smíðað var af Jóni Engilbertssyni frá Arnarhvoli í Grindavík á þriðja áratug síðustu aldar. Nýja portið er smíðað eftir fyrirmyndinni en þó nokkuð stærra og með koparklæðningu á þakhvelfingunni, portið hefur margvíslega trúarlega tilvísun og er í alla staði vel hannað. Ákvörðun um að hafa hið nýja klukknaport stærra helgast m.a. af því að kirkjugarðurinn á Stað hefur verið í mikilli endurnýjun og stækkun, hafa m.a. verið hlaðnir miklir og glæsilegir veggir er afmarka og skipta garðinum.
Í klukknaportinu er bjalla úr Hull-togaranum Anlaby er strandaði utan við Jónsbáskletta 14. janúar 1902 og „spónbrotnaði“. Ellefu lík skipverja rak að landi, en lík skipstjórans, Carls Nilsonar, fannst aldrei.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

Staðarhverfi
Farið var með Helga Gamalíassyni frá Stað áleiðis út að Héleyjabungu, en þar undir bungunni á að vera gömul klukka. Á leiðinni lýsti Helgi Litluvör og Stóruvöllum, litlum grasbölum suðvestan við farskiptamöstrin ofan við byggðina í Grindavík. Þar eru hleðslur er gætu einhverjar hýst refagildrur og það gamlar.

Staðarbrunnur

Helgi sýnir FERLIRsfélögum Staðarbrunninn.

Vestan við kirkjugarðinn á Stað og sunnan við Staðarbrunninn er hóll í túninu. Í hólnum á að vera gamall bær er nefndist Krukka (Krubba). Hann var yfirgefinn í miklum sandstormi er gekk yfir fyrir einhverjum öldum síðan. Gamli Staðarbærinn var hins vegar vestan og fast við kirkjugarðinn. Honum var ýtt um koll þegar farið var að slétta túnin neðan við nýja húsið, sem stóð utan í hólnum norðvestan við garðinn. Helgi hafði gengið með þann draum í maganum að Staðarbrunnurinn, sem hlaðinn var 1914, yrði einhvern tímann hlaðinn upp og hafður áhugasömu fólki til sýnis, enda hið fallegasta mannvirki.
Í hól vestan Móakots, nálægt sjónum, voru flestir skipshafnarmeðlima færeyska kúttersins Anne fra Tofte (frá Austurey) lagðir til og síðan jarðaðir í kirkjugarðinum í Reykjavík (Hólavallakirkjugarði). Um tugur ungra manna fórst með bátnum þarna fyrir utan, austan Staðarbergs, flestir úr sömu fjölskyldunum. Atburðurinn var mikil harmsaga.

Staðarkirkjugarður

Klukkuportið í Staðarkirkjugarði.

Í kirkjugarðinum á Stað er klukknaport. Í því er klukka úr Alnaby, sem strandaði austan við Stað, í Jónsbás, árið 1901. Mannskaði varð, en skipstjórinn, Nilson, kom við sögu í Dýrafjarðarmálinu svonefnda þegar Hannes Hafstein, sýslumaður, ætlaði ásamt heimamönnum að handsama þar landhelgisbrjóta í firðinum eins og frægt varð.
Þegar komið var út í Háleyjabungu benti Helgi á staðinn þar sem hann hafði síðast séð nefnda klukku. Ekki var nægilega fallið frá til þess að hægt væri að nálgast hana að þessu sinni, en svo til nákvæm staðsetning er komin á hana. Helgi sagðist hafa verið að eltast við mink þegar hann hafi allt í einu rekist á klukkuna í fjörunni. Þá hafi verið mjög lágsjávað. Hún er líkast til um 60 cm á hæð og virðist vera úr járni. “Ef hún hefði verið út kopar hefði einhver verið búinn að hirða hana fyrir löngu”, sagði Helgi og glotti. Brotið er úr henni á einum stað. Klukka þessi gæti verið fjörgömul, en enginn veit hversu lengi hún hefur legið á þessum stað.
Utan í Háleyjabungu er m.a. tóft af hlöðnu húsi. Enginn veit hvaða hlutverk það hefur þjónað. Þó er jafnvel talið að Skálholtskirkja hafi átt reka við Háleyjar og Krossavík, sem er skammt vestar. Ekki er ólíklegt að menn biskups hafi unnið reka og/eða setið um reka því hann þótti mikil hlunnindi áður fyrr. Aðal siglingaleiðin til landsins var þarna fyirr utan og og aldrei var að vita hvað kynni að gerast í vondum veðrum. Gat þá skipt miklu máli að vera til staðar þegar eitthvað bar út af. Hval gat líka rekið fyrirvarlalaust á land og var þá betra að geta brugðist fljótt og vel við.
Farið verður fljótlega aftur á staðinn við hentugri aðstæður og þess freistað að ná klukkunni á land.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu.