Staðarhverfi

Í Lesbók Morgunblaðsins 1965 er grein séra Gísla Brynjólfssonar undir fyrirsögninni “Úttekt á Stað“:

Gervallt segir fjær og nær:
sjáið sigur lífsins.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta gæti verið bæði lag og texti í söng þessa dags, fyrsta fardags vorsins 1965, —þriðja júní. Vor og sól og siguröfl gróandans hvarvetna að taka völdin á landinu okkar kalda, sem ljómar í gullnum geislum morgunsins, er „glófaxið steypist um haga og tún“. Sjá “Lífið hefur dauðann deytt“.

Túnakort

Staðarhverfi – túnakort 1918.

En þótt undarlegt sé, er það samt svo, þegar maður er staddur hér, á hinu gamla prestssetri, Stað í Grindavík, þennan vormorgun, þá finnst manni það vera dauðinn, sem hafi svo óeðlilega mikil völd mitt í ríki lífsins og ljóssins, því að þessi bær er nú af öllum yfirgefinn nema hinum framliðnu.
Kirkjan er löngu ofan tekin og reist á öðrum stað. Presturinn er fluttur burtu fyrir mörgum áratugum. Bóndinn er dáinn og enginn kominn til að taka við jörð og búi. En kirkjugarðurinn er enn í notkun.
Og þegar dauðinn hefur barið að dyrum á einhverju heimili í söfnuði Grindvíkinga, og hinn látni hefur verið kvaddur í kirkjunni austur í Járngerðarstaðahverfi, þá er kistunni ekið um klungróttan hraunveginn út að Stað, þar sem grafreiturinn bíður og sendin mold Suðurnesja tekur hana í sinn opna faðm.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

Þetta er fallegur kirkjugarður, vel girtur og vel hirtur svo sem sæmir þessu efnaða myndarplássi — Grindavík. Vestan til í honum miðjum — trúega á þeim stað þar sem kirkjan stóð; hefur verið reistur klukkuturn.

Staður

Staður í Staðarhverfi 1960.

Hann ljómar rauður og hvítur í sól morgunsins. Niður úr honum hangir klukkustrengurinn. — Nei, það er bezt að taka ekki í hann. Það væri synd gegn heilögum anda vorsins og lífsins ao rjúfa kyrrð þessa dags með líkhringingu. Það yrði næsta hjáróma hljómur í þeirri symfoniu gleðinnar og gróskunnar, sem maður finnur að fyllir loftið. En skaðlaust er nú að skoða þessa líkaböng Grindvíkinga. Skyldi þetta vera einhver forngripur? Eða skyldi hún bara vera skipklukka úr einhverju strandinu? Jú, ekki ber á öðru. Klukkan hefur þessa áletrun: — S.S. Anlaby — 1898 — Hull.

Hún er úr brezkum togara, sem strandaði hér við svokallaða Jónsbásarkletta í ársbyrjun 1902. Frá því segir Guðsteinn hreppstjóri Einarsson í bókinni „Frá Suðurnesjum”, á þessa leið: „Þetta strand mátti heita nokkuð sögulegt. Skipið hét Anlaby, og skipstjórinn á því var einn rómaðasti landhelgisbrjótur, sem verið hefir hér við land fyrr og síðar á enskum togurum, og er þá nokkuð mikið sagt. En hann var með togara þann, er rétt um aldamótin varð þremur mönnum að bana vestur á Dýrafirði.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu á Stað.

Hannes Hafstein, þáverandi sýslumaður, fór um borð í togarann, sem var að veiðum uppi í landsteinum. Var grunur á, að sleppt hefði verið vír úr tolla á togaranum, sem hefði hvolft bátnum. Ekki hafði verið sýnd tilraun frá togaranum að bjarga mönnum þeim, sem voru að hrekjast í sjónum, svo hér hefir verið um verulegan þrjót að ræða. Ekki var hann tekinn þarna, en kæra hafði verið send út af verknaði þessum til hinna dönsku yfirvalda í Kaupmannahöfn. En sennilega hefði það ekki komið að miklu gagni, ef þessi sami skipstjóri hefði ekki svo víða komið við, en hann var tekinn í landhelgi við Jótlandsstrendur ekki “löngu seinna, og fyrir þá tilviljun mun hann hafa fengið dóm fyrir þennan verknað sinn í Dýrafirði. Sagt var, að hann hefði verið dæmdur í tveggja ára fangelsi og verið í sinni fyrstu för hingað til landsins eftir að hafa tekið út sína fangelsisvist.

Staður

Staður fyrrum.

Skipstjóri þessi hafði heitið Carl Nilson og verið kallaður Sænski Carl. Það voru og sagnir um, að hann hefði verið búinn að heita því að velgja Íslendingum undir uggum, þegar hann kæmi þar á miðin aftur, en hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna í Jónsbásarklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna.
Svo sem oft vill verða í sambandi við voveifleg slys, varð nokkuð til af draumum og fyrirbærum í sambandi við strand þetta.

Merkastur þótti draumur frú Helgu Ketilsdóttur, konu séra Brynjólfs Gunnarssonar, prests á Stað, sem hana hafði dreymt nokkru fyrir hátíðar, áður en strandið varð, og hún sagt hann þá strax.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Draumurinn var á þá leið að henni þótti vera knúið dyra og einhver fara fram, sem kallað var, en koma aftur og segja, að hópur manna sé úti, sem vilji fá að tala við hana. Hún fór fram og þarna stóðu, að hún hélt, 9 eða 10 menn. Þeir báru upp erindið, og var það að fá hjá henni gistingu. Eitthvað leizt henni illa á að hýsa svona stóran hóp manna og færðist undan því, en þeir sóttu fast á og sögðu á þá leið, að þeir yrðu að fá gistingu á Stað. Þá þóttist hún segja, að hún vissi ekki, hvernig hún hefði rúm handa þeirn öllum, en þeir þá svarað, að hún þyrfti ekki að hugsa um þau, því hann Einar mundi sjá um það. Ekki var draumur þessi lengri, en þótti passa við strandið, því Einar Jónsson, hreppstjóri á Húsatóftum, sá um alla björgun og einnig um útför mannanna.

Staður

Staður 1925.

Úr skipinu rak tíu lík á rúmri viku. Þá var lítið um húsrými, og voru líkin öll flutt í Staðarkirkju og lögð þar til á bekkjum í kórnum. Um leið og þau voru þvegin, var leitað eftir öllum merkjum, tattoveringu, hringum og öllu, sem sérkenndi og var það gert samkvæmt beiðni. Þegar sjö lík voru rekin og búið að ganga frá þeim, eins og áður er lýst, vildi það til snemma morguns, að maður kom til Einars hreppstjóra. Sá hét Bjarni frá Bergskoti; hann tjáði Einari, að þá nótt hefði sig dreymt sama drauminn aftur og aftur, þannig, að hann hefði vaknað á milli.

Grindavík

Grindavík – Staður 1927.

Draumurinn var þannig, að Bjarna þótti maður koma til sín og biðja sig að fara til Einars hreppstjóra og segja honum, að hann vilji fá aftur það, sem tekið hafi verið frá sér, og að hann sé norðast í kórnum. Bjarni vissi ekkert, hvað um gæti verið að ræða, en setti drauminn þó í samband við hina drukknuðu menn. Einar hreppstjóri tók draum þennan bókstaflega, því einmitt hafði verið tekinn hringur af því líki sem utast var í kórnum að norðanverðu, og var hann látinn á það aftur.
Eftir að jarðarför þeirra tíu, sem rak, hafði farið fram og send höfðu verið merki og lýsingar á líkunum, þótti það sannað, að sá, sem vantaði, væri skipstjórinn; sjálfur, Carl Nilson”.

Við látum þessa fróðlegu og skilmerki legu frásögn hins kunnuga manns nægja um hinztu för Sænska Carls á Íslandsmið.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið, “rautt og hvítt”, h.m.

Við látum hugsunina um hann ekki tefja okkur frá úttektargerðinni eða draga skugga upp á heiðríkju þessa bjarta dags. Á þessari stund á það ekki við að vera með neinar slíkar umþenkingar. Hinn dauði hefur sinn dóm með sér.

Útihúsin hér á Stað eru mjög fornfáleg og farin að láta á sjá. Hér hafa ekki verið hafðar aðrar skepnur en sauðfé síðustu árin. Það borgar sig bezt, því að hér er féð létt á fóðrum. Snjór liggur hér aldrei á, svo að alltaf næst til jarðar og aldrei bregzt beit í fjörunni þar sem sjálft Atlantshafið fellur á strönd Reykjanesskaga — og ber þarann upp í stórar hrannir. Ærnar eru á beit á grænu túninu og una sér vel með lömbum sínum, sem eru farin að verða bústin, enda þau yngstu nokkurra daga gömul. Við göngum í húsin og lítum inn í hvern kofa. Inni í einum þeirra er hvít ær með lambi sínu. Þegar við komum í dyrnar stappar hún dálítið frekjulega niður öðrum framfæti og segir: Menn! Hvað eruð þið að gera hér? Þið vilduð ekki búa á þessum Stað og skilduð okkur sauðkindurnar einar eftir. Hvaða erindi eigið þið hingað nú? Viljið þið ekki bara gera svo vel að láta okkur í friði.

Þórkötlustaðarétt

Hermann í Stakkavík, bóndi á Stað, og Birgir á Hópi í Þórkötlustaðarréttum.

Við finnum það, að þessi kind hefur mikið til síns máls, svo að við treystum okkur ekki til að taka upp neinar rökræður við hana um rétt okkar til þessa Staðar, sem mennirnir hafa yfirgefið — gengið frá eftir 1000 ára búskap.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Aðrar skepnur en ærnar og lömbin fyrirfinnast hér ekki. Jú annars. Ekki er vert að fullyrða of mikið strax. Nú koma í ljós fram undan kirkjugarðinum tvö följörp hross og veifa svörtum töglum sínum til að verjast flugum loftsins í sólarhitanum. Einhver spyr: Hver á þessi hross? En það veit enginn hver á þau. Hér vekja hestar ekki neina interessu. Þeir eru víst bara til af gömlum vana, því að útreiðarmanían hefur ekki enn haldið innreið sína í Grindavík. Fiskur og fé eru þær lífverur, sem fólkið sinnir, enda eru það þær, sem ásamt fáum kúm hafa haldið lífinu í því frá upphafi byggðar hér.
Já. Fiskurinn og sjórinn — sjórinn og Suðurnes — það eru eins og tvær hliðar á sama hlutnum — líka hér í Staðarhverfinu. Og það var eins og við manninn mælt; þegar hætt var að stunda sjóinn héðan var byggðin vitanlega búin að vera.

Staðarvör

Staðarvör – flóruð.

Frammi á kampinum sjáum við leifar af fornri frægð í útgerð þessa pláss — varirnar, sem eru hálforpnar grjóti, því að nú eru margir áratugir síðan skipi var ráðið þar til hlunns. Hér hefur fyrir eina tíð verið byggð bryggja með skjólgarði sjávarmegin. Auðsjáanlega allgjörvulegt mannvirki á sínum tíma.

Staðarhverfi

Bryggjan á mörkum Staðahverfis og Húsatófta.

En ekki þætti þetta beysið bólverk nú fyrir hinn glæsilega fiskiflota Grindvíkinga. Upp að þessari bryggju leggst heldur aldrei nein fleyta, því að héðan er aldrei róið á sjó. Fyrir ofan kampinn hvolfa bátarnir, sem eitt sinn sigldu stoltir á miðin í Grindavíkursjó og færðu hina miklu lífsbjörg í bú fólksins í Staðarhverfi. Undir aflabrögðunum var öll afkoma þess komin. Hér hvolfa þessi gömlu skip og bíða þess eins að fúna niður og forganga.
Svo var úttekt lokið eins og lög gera ráð fyrir.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Og nú eru fardagar löngu liðnir. Vor þessa árs að baki og sumarið, þetta blessaða bjarta sumar, næstum líka á enda runnið. Haustgrá ský hafa hellt þungum regnskúrum síðsumarsins yfir úfin hraunin kringum Grindavík, og punturinn í túninu á Stað hefur tekið á sig fölan lit sinunnar. Það var enginn bóndi á Stað í vor.
Jörðin var leigð ungum Grindvíkingi, sem stundar fjárbúskap með fiskvinnunni og íbúðarhúsið tóku Reykvíkingar á leigu — skrifstofumenn, sem ætla að fara þangað til að fá sér ferskt loft í lungun þegar kontórvinnunni er lokið. Og eins og myndin ber með sér, er þetta myndarlegt hús, með fannhvíta veggi og fagurrautt, nýmálað þak, því að félagarnir í Lions-klúbbnum í Grindavík tóku sig til og máluðu það eitt kvöld í sumar eftir vinnutíma. Það var drengilega gert í virðingarskyni við hinn helga reit og af ræktarsemi við Staðinn, sem var prestssetur Grindavíkur um aldaraðir. – G. Br.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 33. tbl. 17.10.1965, Úttekt á Stað, séra Gísli Brynjólfsson, bls. 8-9 og 14.

Staður

Staður – nýja klukknaportið. Síðasta íbúðarhúsið “með hvannvíta veggi” – byggt um 1930.