Færslur

Staðarhverfi

Farið var með Helga Gamalíassyni frá Stað áleiðis út að Héleyjabungu, en þar undir bungunni á að vera gömul klukka. Á leiðinni lýsti Helgi Litluvör og Stóruvöllum, litlum grasbölum suðvestan við farskiptamöstrin ofan við byggðina í Grindavík. Þar eru hleðslur er gætu einhverjar hýst refagildrur og það gamlar.

Staðarhverfi

Óli Gam. sýnir FERLIRsfélögum fornan brunn.

Vestan við kirkjugarðinn á Stað og sunnan við Staðarbrunninn er hóll í túninu. Í hólnum á að vera gamall bær er nefndist Krukka (Krubba). Hann var yfirgefinn í miklum sandstormi er gekk yfir fyrir einhverjum öldum síðan. Gamli Staðarbærinn var hins vegar vestan og fast við kirkjugarðinn. Honum var ýtt um koll þegar farið var að slétta túnin neðan við nýja húsið, sem stóð utan í hólnum norðvestan við garðinn. Helgi hafði gengið með þann draum í maganum að Staðarbrunnurinn, sem hlaðinn var 1914, yrði einhvern tímann hlaðinn upp og hafður áhugasömu fólki til sýnis, enda hið fallegasta mannvirki.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – klukkuport.

Í hól vestan Móakots, nálægt sjónum, voru flestir skipshafnarmeðlima færeyska kúttersins Anne fra Tofte (frá Austurey) lagðir til og síðan jarðaðir í kirkjugarðinum í Reykjavík (Hólavallakirkjugarði). Um tugur ungra manna fórst með bátnum þarna fyrir utan, austan Staðarbergs, flestir úr sömu fjölskyldunum. Atburðurinn var mikil harmsaga.

Í kirkjugarðinum á Stað er klukknaport. Í því er klukka úr Alnaby, sem strandaði austan við Stað, í Jónsbás, árið 1901. Mannskaði varð, en skipstjórinn, Nilson, kom við sögu í Dýrafjarðarmálinu svonefnda þegar Hannes Hafstein, sýslumaður, ætlaði ásamt heimamönnum að handsama þar landhelgisbrjóta í firðinum eins og frægt varð.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – klukkuport.

Þegar komið var út í Háleyjabungu benti Helgi á staðinn þar sem hann hafði síðast séð nefnda klukku. Ekki var nægilega fallið frá til þess að hægt væri að nálgast hana að þessu sinni, en svo til nákvæm staðsetning er komin á hana. Helgi sagðist hafa verið að eltast við mink þegar hann hafi allt í einu rekist á klukkuna í fjörunni. Þá hafi verið mjög lágsjávað. Hún er líkast til um 60 cm á hæð og virðist vera úr járni. “Ef hún hefði verið út kopar hefði einhver verið búinn að hirða hana fyrir löngu”, sagði Helgi og glotti. Brotið er úr henni á einum stað. Klukka þessi gæti verið fjörgömul, en enginn veit hversu lengi hún hefur legið á þessum stað.

Háleyjar

Tóft undir Háleyjarbungu.

Utan í Háleyjabungu er m.a. tóft af hlöðnu húsi. Enginn veit hvaða hlutverk það hefur þjónað. Þó er jafnvel talið að Skálholtskirkja hafi átt reka við Háleyjar og Krossavík, sem er skammt vestar. Ekki er ólíklegt að menn biskups hafi unnið reka og/eða setið um reka því hann þótti mikil hlunnindi áður fyrr. Aðal siglingaleiðin til landsins var þarna fyirr utan og og aldrei var að vita hvað kynni að gerast í vondum veðrum. Gat þá skipt miklu máli að vera til staðar þegar eitthvað bar út af. Hval gat líka rekið fyrirvarlalaust á land og var þá betra að geta brugðist fljótt og vel við.
Farið verður fljótlega aftur á staðinn við hentugri aðstæður og þess freistað að ná klukkunni á land.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu.

Jónsbásar

Eftirfarandi er úr erindi Sigrúnar Jónsdóttur Franklín, sem hún hélt á Sagnakvöldi í Saltfisksetrinu 16. ferb. 2006 og nefndist “Sök bítur sekan“:

Staður

Klukknaportið í Staðarkirkjugarði.

Við strandlengjuna austast í landi Húsatótta skammt utan við Hvalvíkina eru Jónsbásaklettar en þar strandaði breski togarinn Anlaby 14. janúar 1902 og fórust allir sem á honum voru, 11 manns. Skipstjóri á Anlaby var Svíinn Carl August Nilson, og var þetta fyrsta ferð hans til Íslands að aflokinni fangelsisvist, sem honum var gert að afplána fyrir aðförina frægu að Hannesi Hafstein og mönnum hans á Dýrafirði árið 1899. Af þessum atburðum og af Carl Nilson spunnust margar sögur sem ég ætla að segja ykkur frá hér í kvöld og þá einkum þær sögur sem tengjast Grindavík og lítið hafa verið í sviðsljósinu fram til þessa. Við öflun heimilda styðst ég aðallega við kaflann frá Valahnúk til Seljabótar sem Guðsteinn Einarsson skrifaði í bókina Frá Suðurnesjum og kemur inn á þennan atburð og Staðhverfingabókina, Mannfólk mikilla sæva sem séra Gísli Brynjólfsson skrifaði. Feður beggja þessa höfunda koma við sögu. Faðir Guðsteins var Einar hreppstjóri á Húsatóftum og foreldrar séra Gísla voru séra Brynjólfur á Stað og frú Helga Ketilsdóttir.

Staður

Staðarströndin.

Árið 1999 þegar 100 ár voru liðin frá ódæðisverkinu á Dýrafirði var þess minnst þar og reistur minnisvarði um þá þrjá menn sem fórust í aðförinni. Eins var minnst á þetta ódæðisverk í fjölmiðlum 2004 þegar 100 ár voru liðin frá því að Íslendingar fengu heimastjórn og Hannes Hafsteinn varð fyrsti ráðherra Íslands. En fæstir þekkja söguna eftir að Carl Nilson kemur aftur til Íslands og ætlar að hefna sín á Íslendingum að talið var.Fyrir þá sem þekkja ekki fyrri söguna þá ætla ég í stuttu máli að rifja upp atburðinn á Dýrafirði. Carl Nilson var þá skipstjóri á breskum togara Royalist. Hann var við botnvörpuveiðar innan landhelgi, sem þá var 3 mílur, á miðjum Dýrafirði. Hannes sem þá var sýslumaður Norður-Ísfirðinga fór ásamt 5 öðrum til að ráðast til uppgöngu í togarann. Á þeim tíma voru varnir Íslendinga í landhelgismálum litlar og Englendingar notfærðu sér það. Nilson á að hafa komið til verslunarstjórans á Þingeyri nokkrum dögum áður og tekið út varning og ætlaði að borga síðar sem hann gerði ekki. Hann málaði yfir nafnið á togaranum Royalist svo aðeins sást oyalist til þess að blekkja menn. Skipsmenn á Royalist slepptu togvírnum að talið var þannig að báturinn sem Hannes var á hvolfdi og þeir lentu í sjónum og þrír drukknuðu en Hannesi ásamt tveimur öðrum var bjargað á síðustu stundu. Ekki samt að talið var fyrr en að menn í landi sem að sáu aðfarirnar með sjónauka réru að togaranum komu að. Sjónauki þessi er nú geymdur á Byggðasafninu á Ísafirði og kallaður lífgjafi Hannesar. Báturinn sem þeir Hannes voru á nefnist Ingjaldur og var síðast þegar ég vissi á sjóminjasafninu í Hafnarfirði. Um borð í Royalist var sjómaður frá Keflavík. Eftir atvikið sigldu þeir til Keflavíkur áður en þeir héldu til Englands og talið er að sjómaðurinn hafi tekið með sér fjölskyldu sína og flutt út. Nilson var síðan um haustið aftur tekinn við landhelgisbrot þá við Jótlandsskaga.
Hann var færður til Kaupmannahafnar. Fyrir tilviljun var póstbáturinn Laura sem var í ferðum milli Íslands og Danmerkur þar á ferð og Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri sem var um borð í áttaði sig á því að um sama skipstjóra var að ræða og í atvikinu á Dýrafirði. Nilson var dæmdur í fangelsisvist fyrir atburðinn á Dýrafirði en óljóst er hvort hann sat af sér dóminn eða ekki.

Jónsbásar

Jónsbásar.

Tveimur árum síðar var hann á leið til Íslands á nýjan leik er hann strandar við Jónsbáskletta við Grindavík. Svo sem oft vill vera í sambandi við voveifleg slys, varð nokkuð til af draumum og fyrirbærum í sambandi við strand þetta. Merkastur þótti draumur frú Helgu Ketilsdóttur, konu séra Brynjólfs Gunnarssonar, prests á Stað, sem hana hafði dreymt nokkru fyrir hátíðar, áður en strandið varð, og hún sagt hann þá strax. Draumurinn var þannig að henni fannt að knúð væri dyra og 10 menn báðu um gistingu á Stað. Eitthvað leist henni illa á að hýsa svona stóran hóp og færðust undan því. En þeir sóttu fast á og svöruðu henni að Einar Jónsson hreppstjóri á Húsatóftum myndi sjá um þá. En þannig vildi til að Einar hreppstjóri sá um alla björgun og einnig um útför mannanna í Staðarkirkjugarði.

Enginn vissi þegar skipið fór upp. Sá sem fyrstur varð þess áskynja, var Björn, Sigurðsson vinnumaður í Garðhúsum. Hann var að ganga til kinda þegar hann sá rekald og dauðan mann. Talið var að han hafi verið með lífsmarki er í land kom, því hann lá ofan við flæðarmálið. Björn lét Einar hreppstjóra strax vita.

Staður

Jónsbás.

Helgi Gamalíelsson á Stað sagði að eftir ákveðna átt eins og var í þessu tilviki þá höfðu Staðhverfingar það til siðs að ganga á reka. Þennan dag var leiðindaveður og af einhverri ástæðu var það ekki gert en það hefði ef til vill geta orðið manninum til lífs. Höfðu Staðhverfingar það á samviskunni og fyrir vikið var ekki mikið talað um þennan atburð.

Úr skipinu rak 10 lík á rúmri viku en eitt líkið fannst ekki og var það talið vera af Nilson skipstjóra. Líkin voru flutt í Staðarkirkju og búið um þau þar og leitað eftir öllu til að bera kennsl á þau. Einn morguninn kom maður til Einars hreppstjóra, Bjarni frá Bergskoti; hann tjáði Einari að þá nótt hefði sig dreymt sama drauminn aftur og aftur, og þótti honum maður koma til sín og biðja sig að fara til hreppstjóra og segja honum að hann vildi fá aftur það sem hafði verið tekið frá sér og hann sé norðast í kórnum. Einar tók drauminn bókstaflega þvi einmitt hafði verið tekinn hringur af því líki sem utast var í kórnum í kirkjunni og var hann látinn á hann aftur.

Anlaby

Brak úr Alnaby ofan Jónsbáss.

Eitt fyrirbæri var sett í samband við strand þetta. Tveir ungir menn áttu þá heima á Húsatóftum. Þeir voru vanir að fara á kvöldin til fuglaveiða á báti út í Flæðikletta. Eitt skiptið heyra þeir undarlegt hljóð og þeir veltu því fyrir sér hvort að selir mundu geta hljóðað svona. En varla höfðu þeir sleppt orðinu er upphófst óskaplega langdregið og ámátlegt hljóð. Þeir flýttu sér í land og fóru aldrei út í Flæðikletta að kvöldlagi eftir þetta. Þetta fyrirbæri var sett í sambandi við Anlaby strandið og kallað ”náhljóð”.

Annað fyrirbæri var einnig sett í samband við strandið. Eitt kvöldið var Júlíus Einarsson frá Garðhúsum að fara að finna heitmey sína Vilborgu, dóttur presthjónanna síra Brynjólfs og frú Helgu Ketilsdóttur og var Júlíus ríðandi á þeirri leið. Þegar hann var kominn út fyrir síkið fyrir neðan og vestan túnið á Járngerðarstöðum nam hesturinn staðar, og var ekki unnt að koma honum úr sporunum, hvernig sem hann reyndi. Hesturinn gerði ekki annað en að prjóna og ganga aftur á bak. Hann stökk af baki og teymdi hestinn á eftir sér. Varð honum litið til hægri handar og sá þar gríðar stóran mann sem ógnaði honum eins og hann hygðist reka hann í sjóinn. Júlíus blótaði manninum og stóð honum mikill stuggur af honum. Maðurinn fylgdi honum mest alla leiðina en hvarf svo skammt austan við túnið á Stað. Júlíus var náfölur og brugðið við þennan atburð er hann kom á Stað. Flestum kom saman um að tengja þennan förumann við skipstrandið.

Staður

Klukka Anlaby í klukkuportinu.

Nilson gerði vart við sig á eftirminnilegan en jafnframt gleðilegri hátt. Þennan vetur 1902 eftir skipstrandið var vinnukona á Stað, sem ekki fór ein saman. Hana fór að dreyma Nilson, sem lét það ótvírætt í ljós að hann vildi vera hjá henni. Var ekki um að villast að hann var að vitja nafns. Vinnukonan ól son og hann var látinn heita Karl Nilson og fæddist á Stað 31. júlí 1902 og foreldrar hans voru Jón Tómasson og Guðbjörg Ásgrímsdóttir. Karl hinn íslenski var gæfumaður að því að ég best veit.

Flakið af Anlaby sást lengi út af Jónsbásklettum. Nú er það horfið með öllu nema ketillinn sem kemur upp úr við útsog á stórstraumsfjöru. Við útfarir í Staðarkirkjugarði er ennþá hringt úr skipsklukkunni úr Anlaby. Klukknaportið er nýuppgert og sómir sér vel í garðinum. Eins og þið hafið heyrt þá hafa ótrúlegar margar sögur spunnist út frá Nilson skipstjóra bæði við atburðinn á Dýrafirði og hér við Grindavík ég vona að þið hafið haft gagn og gaman af þessari samantekt.
Nilson átti ekki afturkvæmt til Íslands og má segja að hann hafi fengið makleg málagjöld er brimaldan við Jónsbáskletta söng honum sitt dánarlag og sannast þar máltækið sök bítur sekan í bókstaflegri merkingu.
Í ævisögu Hannesar Hafsteins (eldri útgáfu) vitnar höfundurinn, Kristján Albertsson. til skrifa í Lögréttu 1933 þar sem hann sgeir að “eitt lík rak höfuðlaust, og var talið vera Nilson; “hafði sennilega hákarl klippt af honum hausinn, en almenningur lagði út sem “æ´ðri stjórn”, og með réttu.”
Þessi saga Nilsons varð yrkisefni Jóns Trausta er hann orti kvæðiðVendetta en það þýðir blóðhefnd þ.e.a. vættirnir hefndu fyrir ódæðisverkið.
Að lokum flutti Áki Erlingsson ljóðið Vendetta er fjallar um atburðinn á Dýrafirði.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Staðarhverfi

Í Lesbók Morgunblaðsins 1965 er grein séra Gísla Brynjólfssonar undir fyrirsögninni “Úttekt á Stað“:

Gervallt segir fjær og nær:
sjáið sigur lífsins.

Staðarhverfi

Staðarhverfi – uppdráttur ÓSÁ.

Þetta gæti verið bæði lag og texti í söng þessa dags, fyrsta fardags vorsins 1965, —þriðja júní. Vor og sól og siguröfl gróandans hvarvetna að taka völdin á landinu okkar kalda, sem ljómar í gullnum geislum morgunsins, er „glófaxið steypist um haga og tún“. Sjá “Lífið hefur dauðann deytt“.

Túnakort

Staðarhverfi – túnakort 1918.

En þótt undarlegt sé, er það samt svo, þegar maður er staddur hér, á hinu gamla prestssetri, Stað í Grindavík, þennan vormorgun, þá finnst manni það vera dauðinn, sem hafi svo óeðlilega mikil völd mitt í ríki lífsins og ljóssins, því að þessi bær er nú af öllum yfirgefinn nema hinum framliðnu.
Kirkjan er löngu ofan tekin og reist á öðrum stað. Presturinn er fluttur burtu fyrir mörgum áratugum. Bóndinn er dáinn og enginn kominn til að taka við jörð og búi. En kirkjugarðurinn er enn í notkun.
Og þegar dauðinn hefur barið að dyrum á einhverju heimili í söfnuði Grindvíkinga, og hinn látni hefur verið kvaddur í kirkjunni austur í Járngerðarstaðahverfi, þá er kistunni ekið um klungróttan hraunveginn út að Stað, þar sem grafreiturinn bíður og sendin mold Suðurnesja tekur hana í sinn opna faðm.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.

Þetta er fallegur kirkjugarður, vel girtur og vel hirtur svo sem sæmir þessu efnaða myndarplássi — Grindavík. Vestan til í honum miðjum — trúega á þeim stað þar sem kirkjan stóð; hefur verið reistur klukkuturn.

Staður

Staður í Staðarhverfi 1960.

Hann ljómar rauður og hvítur í sól morgunsins. Niður úr honum hangir klukkustrengurinn. — Nei, það er bezt að taka ekki í hann. Það væri synd gegn heilögum anda vorsins og lífsins ao rjúfa kyrrð þessa dags með líkhringingu. Það yrði næsta hjáróma hljómur í þeirri symfoniu gleðinnar og gróskunnar, sem maður finnur að fyllir loftið. En skaðlaust er nú að skoða þessa líkaböng Grindvíkinga. Skyldi þetta vera einhver forngripur? Eða skyldi hún bara vera skipklukka úr einhverju strandinu? Jú, ekki ber á öðru. Klukkan hefur þessa áletrun: — S.S. Anlaby — 1898 — Hull.

Hún er úr brezkum togara, sem strandaði hér við svokallaða Jónsbásarkletta í ársbyrjun 1902. Frá því segir Guðsteinn hreppstjóri Einarsson í bókinni „Frá Suðurnesjum”, á þessa leið: „Þetta strand mátti heita nokkuð sögulegt. Skipið hét Anlaby, og skipstjórinn á því var einn rómaðasti landhelgisbrjótur, sem verið hefir hér við land fyrr og síðar á enskum togurum, og er þá nokkuð mikið sagt. En hann var með togara þann, er rétt um aldamótin varð þremur mönnum að bana vestur á Dýrafirði.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu á Stað.

Hannes Hafstein, þáverandi sýslumaður, fór um borð í togarann, sem var að veiðum uppi í landsteinum. Var grunur á, að sleppt hefði verið vír úr tolla á togaranum, sem hefði hvolft bátnum. Ekki hafði verið sýnd tilraun frá togaranum að bjarga mönnum þeim, sem voru að hrekjast í sjónum, svo hér hefir verið um verulegan þrjót að ræða. Ekki var hann tekinn þarna, en kæra hafði verið send út af verknaði þessum til hinna dönsku yfirvalda í Kaupmannahöfn. En sennilega hefði það ekki komið að miklu gagni, ef þessi sami skipstjóri hefði ekki svo víða komið við, en hann var tekinn í landhelgi við Jótlandsstrendur ekki “löngu seinna, og fyrir þá tilviljun mun hann hafa fengið dóm fyrir þennan verknað sinn í Dýrafirði. Sagt var, að hann hefði verið dæmdur í tveggja ára fangelsi og verið í sinni fyrstu för hingað til landsins eftir að hafa tekið út sína fangelsisvist.

Staður

Staður fyrrum.

Skipstjóri þessi hafði heitið Carl Nilson og verið kallaður Sænski Carl. Það voru og sagnir um, að hann hefði verið búinn að heita því að velgja Íslendingum undir uggum, þegar hann kæmi þar á miðin aftur, en hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna í Jónsbásarklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna.
Svo sem oft vill verða í sambandi við voveifleg slys, varð nokkuð til af draumum og fyrirbærum í sambandi við strand þetta.

Merkastur þótti draumur frú Helgu Ketilsdóttur, konu séra Brynjólfs Gunnarssonar, prests á Stað, sem hana hafði dreymt nokkru fyrir hátíðar, áður en strandið varð, og hún sagt hann þá strax.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Draumurinn var á þá leið að henni þótti vera knúið dyra og einhver fara fram, sem kallað var, en koma aftur og segja, að hópur manna sé úti, sem vilji fá að tala við hana. Hún fór fram og þarna stóðu, að hún hélt, 9 eða 10 menn. Þeir báru upp erindið, og var það að fá hjá henni gistingu. Eitthvað leizt henni illa á að hýsa svona stóran hóp manna og færðist undan því, en þeir sóttu fast á og sögðu á þá leið, að þeir yrðu að fá gistingu á Stað. Þá þóttist hún segja, að hún vissi ekki, hvernig hún hefði rúm handa þeirn öllum, en þeir þá svarað, að hún þyrfti ekki að hugsa um þau, því hann Einar mundi sjá um það. Ekki var draumur þessi lengri, en þótti passa við strandið, því Einar Jónsson, hreppstjóri á Húsatóftum, sá um alla björgun og einnig um útför mannanna.

Staður

Staður 1925.

Úr skipinu rak tíu lík á rúmri viku. Þá var lítið um húsrými, og voru líkin öll flutt í Staðarkirkju og lögð þar til á bekkjum í kórnum. Um leið og þau voru þvegin, var leitað eftir öllum merkjum, tattoveringu, hringum og öllu, sem sérkenndi og var það gert samkvæmt beiðni. Þegar sjö lík voru rekin og búið að ganga frá þeim, eins og áður er lýst, vildi það til snemma morguns, að maður kom til Einars hreppstjóra. Sá hét Bjarni frá Bergskoti; hann tjáði Einari, að þá nótt hefði sig dreymt sama drauminn aftur og aftur, þannig, að hann hefði vaknað á milli.

Grindavík

Grindavík – Staður 1927.

Draumurinn var þannig, að Bjarna þótti maður koma til sín og biðja sig að fara til Einars hreppstjóra og segja honum, að hann vilji fá aftur það, sem tekið hafi verið frá sér, og að hann sé norðast í kórnum. Bjarni vissi ekkert, hvað um gæti verið að ræða, en setti drauminn þó í samband við hina drukknuðu menn. Einar hreppstjóri tók draum þennan bókstaflega, því einmitt hafði verið tekinn hringur af því líki sem utast var í kórnum að norðanverðu, og var hann látinn á það aftur.
Eftir að jarðarför þeirra tíu, sem rak, hafði farið fram og send höfðu verið merki og lýsingar á líkunum, þótti það sannað, að sá, sem vantaði, væri skipstjórinn; sjálfur, Carl Nilson”.

Við látum þessa fróðlegu og skilmerki legu frásögn hins kunnuga manns nægja um hinztu för Sænska Carls á Íslandsmið.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið, “rautt og hvítt”, h.m.

Við látum hugsunina um hann ekki tefja okkur frá úttektargerðinni eða draga skugga upp á heiðríkju þessa bjarta dags. Á þessari stund á það ekki við að vera með neinar slíkar umþenkingar. Hinn dauði hefur sinn dóm með sér.

Útihúsin hér á Stað eru mjög fornfáleg og farin að láta á sjá. Hér hafa ekki verið hafðar aðrar skepnur en sauðfé síðustu árin. Það borgar sig bezt, því að hér er féð létt á fóðrum. Snjór liggur hér aldrei á, svo að alltaf næst til jarðar og aldrei bregzt beit í fjörunni þar sem sjálft Atlantshafið fellur á strönd Reykjanesskaga — og ber þarann upp í stórar hrannir. Ærnar eru á beit á grænu túninu og una sér vel með lömbum sínum, sem eru farin að verða bústin, enda þau yngstu nokkurra daga gömul. Við göngum í húsin og lítum inn í hvern kofa. Inni í einum þeirra er hvít ær með lambi sínu. Þegar við komum í dyrnar stappar hún dálítið frekjulega niður öðrum framfæti og segir: Menn! Hvað eruð þið að gera hér? Þið vilduð ekki búa á þessum Stað og skilduð okkur sauðkindurnar einar eftir. Hvaða erindi eigið þið hingað nú? Viljið þið ekki bara gera svo vel að láta okkur í friði.

Þórkötlustaðarétt

Hermann í Stakkavík, bóndi á Stað, og Birgir á Hópi í Þórkötlustaðarréttum.

Við finnum það, að þessi kind hefur mikið til síns máls, svo að við treystum okkur ekki til að taka upp neinar rökræður við hana um rétt okkar til þessa Staðar, sem mennirnir hafa yfirgefið — gengið frá eftir 1000 ára búskap.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Aðrar skepnur en ærnar og lömbin fyrirfinnast hér ekki. Jú annars. Ekki er vert að fullyrða of mikið strax. Nú koma í ljós fram undan kirkjugarðinum tvö följörp hross og veifa svörtum töglum sínum til að verjast flugum loftsins í sólarhitanum. Einhver spyr: Hver á þessi hross? En það veit enginn hver á þau. Hér vekja hestar ekki neina interessu. Þeir eru víst bara til af gömlum vana, því að útreiðarmanían hefur ekki enn haldið innreið sína í Grindavík. Fiskur og fé eru þær lífverur, sem fólkið sinnir, enda eru það þær, sem ásamt fáum kúm hafa haldið lífinu í því frá upphafi byggðar hér.
Já. Fiskurinn og sjórinn — sjórinn og Suðurnes — það eru eins og tvær hliðar á sama hlutnum — líka hér í Staðarhverfinu. Og það var eins og við manninn mælt; þegar hætt var að stunda sjóinn héðan var byggðin vitanlega búin að vera.

Staðarvör

Staðarvör – flóruð.

Frammi á kampinum sjáum við leifar af fornri frægð í útgerð þessa pláss — varirnar, sem eru hálforpnar grjóti, því að nú eru margir áratugir síðan skipi var ráðið þar til hlunns. Hér hefur fyrir eina tíð verið byggð bryggja með skjólgarði sjávarmegin. Auðsjáanlega allgjörvulegt mannvirki á sínum tíma.

Staðarhverfi

Bryggjan á mörkum Staðahverfis og Húsatófta.

En ekki þætti þetta beysið bólverk nú fyrir hinn glæsilega fiskiflota Grindvíkinga. Upp að þessari bryggju leggst heldur aldrei nein fleyta, því að héðan er aldrei róið á sjó. Fyrir ofan kampinn hvolfa bátarnir, sem eitt sinn sigldu stoltir á miðin í Grindavíkursjó og færðu hina miklu lífsbjörg í bú fólksins í Staðarhverfi. Undir aflabrögðunum var öll afkoma þess komin. Hér hvolfa þessi gömlu skip og bíða þess eins að fúna niður og forganga.
Svo var úttekt lokið eins og lög gera ráð fyrir.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn.

Og nú eru fardagar löngu liðnir. Vor þessa árs að baki og sumarið, þetta blessaða bjarta sumar, næstum líka á enda runnið. Haustgrá ský hafa hellt þungum regnskúrum síðsumarsins yfir úfin hraunin kringum Grindavík, og punturinn í túninu á Stað hefur tekið á sig fölan lit sinunnar. Það var enginn bóndi á Stað í vor.
Jörðin var leigð ungum Grindvíkingi, sem stundar fjárbúskap með fiskvinnunni og íbúðarhúsið tóku Reykvíkingar á leigu — skrifstofumenn, sem ætla að fara þangað til að fá sér ferskt loft í lungun þegar kontórvinnunni er lokið. Og eins og myndin ber með sér, er þetta myndarlegt hús, með fannhvíta veggi og fagurrautt, nýmálað þak, því að félagarnir í Lions-klúbbnum í Grindavík tóku sig til og máluðu það eitt kvöld í sumar eftir vinnutíma. Það var drengilega gert í virðingarskyni við hinn helga reit og af ræktarsemi við Staðinn, sem var prestssetur Grindavíkur um aldaraðir. – G. Br.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 33. tbl. 17.10.1965, Úttekt á Stað, séra Gísli Brynjólfsson, bls. 8-9 og 14.

Staður

Staður – nýja klukknaportið. Síðasta íbúðarhúsið “með hvannvíta veggi” – byggt um 1930.

Ingjaldur

Í Lesbók Morgunblaðsins 1927 fjallar Árni Óla um Nilson skipstjóra á Anlaby – “Úr sögu landhelgisvarnanna“:

Hannes Hafstein

Hannes Hafstein.

“Það var rjett fyrir aldamótin, að yfirgangur erlenrka botnvörpuskipa byrjaði hjer við land fyrir alvöru. Landhelgisgæsluna hafði þá danska skipið “Heimdallur” og gekk hann vel fram þann tíma ársins, sem hann var hjer við land. En á haustin og fyrri hluta vetrar var landið varnarlaust, að kalla mátti, fyrir ásælni og yfirgangi útlendinga. Óðu þeir þá uppi hjer eins og stigamenn og voru ósvífnari en dæmi eru til nú á dögum.
Árið 1899 var Hannes Hafstein sýslumaður í Ísafjarðarsýslu. Þá var það um haustið, dagana 4.- 9. október, að enskt botnvörpuskip var stöðugt að veiðum inni á Dýrafirði og var oft að toga alveg uppi í landsteinum. Dýrfirðingum þótti þetta illur vágestur. Tóku þeir því saman ráð sín og gerðu sendimann, Guðjón Friðriksson að nafni, á fund sýslumanns til þess að kæra skip þetta.
Kom Guðjón til Ísafjarðar hinn 9. október og bar mál þetta upp fyrir sýslumanni. Brá hann þegar við og fór um nóttina með sendimanni yfir til Dýrafjarðar, og komu þeir þar að morgni. Var þá skipið að veiðum fram undan Haukadal, og örskamt undan Landi.
Hannes Hafstein fjekk sjer nú bát og fór við 6. mann út að skipinu. Var veður kalt og hráslagalegt. Mennirnir, sem með honum voru hjetu: Jóhannes Guðmundsson, Bessastöðum, Guðmundur Jónsson á Bakka, Jón Þórðarson, Jón Gunnarsson og Guðjón Friðriksson, sá er áður er nefndur.
Á botnvörpuskipinu var einn Íslendingur, Valdemar Rögnvaldsson að nafni, búsettur í Keflavík. Var það mál manna, að hann hefði þekkt sýslumann áður en báturinu náði skipinu, enda þótt sýslumaður væri í yfirhöfn utan yfir einkennisbúningi sínum. Segir sagan, að hann hafi varað skipverja við því, að hætta væri á ferðum, því að þeir bjuggust til varnar með bareflum þá er báturinn nálgaðist.

Ingjaldur

Ingjaldur – landhelgisbátur.

Sýslumaður ávarpaði nú skipstjóra og vildi fá að komast upp á skipið, en hinn svaraði aðeins ónotum og skömmum. Reyndu bátverjar þá að ná í kaðal, sem hjekk útbyrðis, en tókst það ekki, og seig báturinn þannig aftur með skipinu, sem var á hægri ferð. Þegar báturinn kom aftur undir skut náðu bátverjar í vörpuvírinn og drógust svo með skipinu um stund. En er skipverjar sáu það, þutu þeir aftur í skut með ópum og óhljóðum og báru sig vígamannlega. Hannes Hafstein sýndi þá einkennisbúning sinn og krafist þess af skipstjóra, að hann ljeti sig ná uppgöngu á skipið. En skipverjar svöruðu með því, að skjóta þungri og stórri ár á bátverja, en til allrar hamingju hittu þeir engan þeirra, því að hverjum þeim, sem árin hæfði, hefði verið stórmeiðsl eða bani búinn. Síðan slökuðu skipverjar alt í einu á vörpuvírnum. Lenti þá vírinn á bátnum svo að hann stakst á stefnið og sökk.
Skipverjar skeyttu þessu engu, en fóru að draga inn vörpuna. — Máttu þeir þó sjá, að allir þeir, sem á bátnum höfðu verið, voru í bráðum lífsháska. Jóni Gunnarssyni og Guðjóni tókst að ná í háfinn og hjeldu sjer þar. En hinir fjórir skoluðust nokkuð í burtu.

Dýrafjörður

Dýrafjörður – minnismerki um atburðinn á Dýrafirði 1899.

Voru þeir allir ósyndir nema sýslumaður, sem var syndur eins og selur og hið mesta karlmenni. Reyndi hann eftir föngum að bjarga þeim fjelögum Jóhannesi, Guðmundi og Jóni Þórðarsyni og draga þá að bátnum. Lá þá við sjálft að það mundi verða til þess að hann drukknaði þar, því að í fátinu, sem á hinum drukknandi mönnum var, drógu þeir sýslumann hvað eftir annað í kaf, og mun hann ekki hafa komist í aðra þrekraun meiri.
Skipverjar horfðu á þá fjelaga berjast við dauðann rjett utan við borðstokkinn, en það ljetu þeir ekki á sig fá. — En í landi sáu menn aðfarirnar og var skotið fram tveimur bátum til þess að reyna að bjarga þeim fjelögum. Þá er bátar þessir voru komnir miðja vega milli lands og skips, var svo að sjá, sem skipverjar iðruðust framferðis síns, því að þeir gerðu sig líklega til þess að skjóta út björgunarbáti. En þó hættu þeir við það aftur og fleygðu út kaðli og bjarghjring til hinna druknandi manna- Þá voru sokknir þeir 3, sem ekki náðu í bátinn. Þeim Jóni Gunnarssyni og Guðjóni tókst að ná í bjarghringinn, en Hannes Hafstein náði í kaðalinn og brá honum utan um sig. Mátti ekki tæpara standa, því að um leið og hann hafði bundið sig þannig, leið yfir hann. Var hann örmagna af sjávarkulda og áreynslu og vissi ekki af sjer fyr en nokkru síðar. Höfðu skipverjar þá dregið hann og hina 2 upp á þilfar. Lágu þeir þar milli heims og heljar þangað til bátarnir komu frá landi. Með þeim fluttust þeir í land og voru bornir heim til Matthíasar Ólafssonar í Haukadal.
Þegar er skipið hafði losnað við menn þá, er björguðust, ljet það í haf og höfðu menn ekki meira af því í það sinn. Bjuggust margir við, að ekki yrði hægt að hafa hendur í hári sökudólganna, því að þeir höfðu málað yfir suma stafi í nafni og númeri skipsins. Gátu þeir sýslumaður eigi lesið annað en þetta: OYALI H 42.
Á þessum árum var hjer enginn ritsími nje talsími og bárust því fregnir seint og illa yfir landið. En hjer stóð svo á, að skip kom frá Vestfjörðum hingað til Reykjavíkur fáum dögum seinna og flutti fregnir af þessum atburði- — Hinn 26. október sigldi Tryggvi Gunnarsson bankastjóri hjeðan með „Laura” til Kaupmannahafnar og hafði frjett um atburð þennan rjett áður en hann fór. „Laura” kom til Kaupmannahafnar 8. nóv. og þann sama dag varð Tryggva gengið þar inn á veitingahús. Þar voru dagblöðin til sýnis og í þeim sá Tryggvi smáfrjett um það, að enskur botnvörpungur, „Royalist” að nafni, hefði verið tekinn að ólöglegum veiðum hjá Jótlandsskaga og fluttur til Frederikshavn.

Tryggvi Gunnarsson

Tryggvi Gunnarsson.

Sagan um viðureign Hannesar Hafstein við botnvörpunginn á Dýrafirði, var Tryggva enn í fersku minni, þar sem hann hafði heyrt fréttina rjett áður en hann steig á skipsfjöl í Reykjavík. — Kemur honum þá undir eins til hugar: Þetta skyldi þó aldrei vera sama skipið? „OYALI” hjet það — og mun þá eigi hafi vantað R fyrir framan og ST fyrir aftan — að málað hafi verið yfir þá stafi?
Tryggvi ljet ekki við það sitja að draga þetta tvennt saman í huga sínum. Hann símaði þegar til Ólafs Halldórssonar, sem þá var á íslensku skrifstofunni í Kaupmannahöfn, og sagði honum frá grun sínum. – Ólafur var heldur eigi sá maður, að hann hleypti þessu frá sjer, hversu ótrúleg, sem honum hefir sagan virst. — Hann sneri sjer þegar til hinna dönsku stjórnarvalda. Þá var svo komið, að Nilsson skipstjóri á „Royalist” hafði gengið inn á sátt í Frederikshavn fyrir landhelgisbrot og var í þann veginn að fara þaðan. Stóð aðeins á því, að hann hafði eigi fengið skipsskjölin afhent. Var hann nú kyrrsettur að nýju og kom þá upp úr kafinu, að þetta var sama skipið sem valdið hafði manndrápunum á Dýrafirði 10. október þá um haustið. Voru nú þrír af skipverjunum, Nilsson skipstjóri (sænskur), Holnigrén stýrimaður og Rugaard matsveinn settir í varðhald og mál höfðað gegn þeim.
Vegir forlaganna eru órannsakanlegir. Eftir hermdarverkið á Dýrafirði lætur skipið í haf og bjóst víst enginn við því, að hægt mundi að hafa hendur í hári sökudólganna. En það er alveg eins og forsjónin hafi ætlast til þess að málið kæmist upp. Nilsson fer utan, en getur eigi stilt sig um að fara í landhelgi Danmerkur. Þar er hann tekinn. Tryggvi Gunnarsson siglir um sama leyti, en frjettir áður á skotspónum um Dýrafjarðarslysið. Af tilviljun rekst hann á frjettina um landhelgisbrotið hjá Jótlandi, og dettur það þegar í hug — sem fæstum mundi þó hafa hugkvæmst — að hjer sje sama skipið og var á Dýrafirði. Ef honum hefði eigi dottið það í hug og ef þeir Ólafur Halldórsson hefði eigi báðir brugðið eins fljótt við og þeir gerðu, mundi Nilsson hafa sloppið frá Frederikshavn. Er það undarleg atvikakeðja, sem verður þess valdandi, að sökudólgunum er náð.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Skal nú fljótt yfir sögu farið í bili. Hinn 27. mars 1900 voru þeir fjelagar þrír dæmdir í undirrjetti, Nilsson í 18 mánaða betrunarhússvinnu, 3000 kr. sekt til landsjóðs Íslands og 200 kr. sekt til ríkissjóðs Dana fyrir landhelgisbrot hjá Jótlandi um haustið. Stýrimaður var dæmdur í 3×5 daga upp á vatn og brauð, og matsveinn í 4×5 daga upp á vatn og brauð.
Svo fór málið til hæstarjettar í Danmörku. Var Nilsson þá dæmdur í tveggja ára betrunarhússvinnu; 3000 kr. skyldi hann greiða landsjóði Íslands, og ríkissjóði Dana 200 kr. Auk þess skyldi hann greiða Hannesi Hafstein 750 kr. í skaðabætur og ekkjum 2 þeirra manna, er druknuðu, annari 3600 krónur, en hinni 1100 kr. Dómur hinna var staðfestur í hæstarjetti, en Nilsson var dæmdur til þess að flytjast af landi brott eftir úttöku hegningar, vegna þess að hann var útlendingur; Svíi.
Vitum vjer nú eigi hvernig fór með hegningu Nilssons, en hitt er víst, að hann er kominn til Englands öndverðan vetur 1901 og fær þar nýtt skip til forráða. — Hjet það „Anlaby”. Sigldi hann því skipi þegar til veiða hjá Íslandsströndum.
Um miðjan jan. 1902 sáust tveir botnvörpungar undan Grindavík og voru þar að veiðum, sjálfsagt í landhelgi. Um kvöldið gerði afspyrnurok á landsunnan og dimmviðri. Æsti þá mjög sjó þar syðra, eins og vant er, þótt í hægara veðri sje. Hættu skipin þá veiðum samtímis og hjeldu til hafs.

Staðarhverfi

Staðarhverfi.

Af afdrifum þeirra er það að segja, að eftir nokkra daga kom annað skipið til Keflavíkur og hafði þá sögu að segja, að skömmu eftir að skipin ljetu út frá Grindavík, hefði þau orðið viðskila, og hefði þeir seinast sjeð það til hins skipsins, „Anlaby” að það stefndi frá landi og stóð einn maður í stýrishúsi. Síðan hefir það skip ekki sjest.
Daginn eftir að skipin þessi tvö ljetu í haf frá Grindavík, fór maður þaðan niður til sjávar til þess að gá að kindum. Var þá komið fram undir hádegi og komið gott veður. En er hann kom niður fyrir sjávarkambinn milli Húsatófta og Járngerðarstaða, rekst hann þar á sjórekinn mann í fjörunni. Virtist honum sem líf mundi leynast með manni þessum og að hann mundi nýkominn á land. — Var hann með belg á baki, kominn upp úr fjörumáli og lá þar hjá honum annað stígvjelið í fjörunni, og varð eigi annað sjeð, en maðurinn hefði sjálfur dregið það af sjer.

Jónsbásar

Jónsbásar – Brunnar fjær.

Maður sá, er líkið fann gerði þegar aðvart. Hreppstjórinn, Einar Jónsson á Húsatóftum skarst í leikinn. Var hinn sjórekni maður þegar fluttur til kirkju. Þangað kom maddama Helga Ketilsdóttir, systir Ólafs bónda á Kalmanstjörn, og gerði á honum tvær lífgunartilraunir. — En þær reyndust báðar árangurslausar og veitti þá maddama Helga líkinu nábjargirnar.
Þegar eftir að fyrsta líkið fannst var gangskör ger að því að leita í fjörunum og komast eftir því hvar skipið mundi vera og hvort enginn hefði komist af því lífs á land. Sú leit reyndist svo, að af skipinu fannst rekið borðstokkur, stefni og „hekk”. Nokkuru síðar fannst eitthvað rekið af kolum, en aldrei fannst neitt af innanstokksmunum skipsins nje áhöldum.
En úti í lóni, sem er rjett fram af svonefndum Brunnum fundust lík 10 manna. Voru þau slædd þar upp. Sex líkin voru allsnakin að öðru leyti en því, að eitt þeirra var með mittisól.
Talið er, að skipið muni hafa farist aðfaranótt 14. jan. sjá það, að þessir menn höfðu druknað í svefni, eða skipið farist meðan þeir lágu í hvílum sínum. En lík skipstjórans fannst ekki og hefir ekki fundist. Þá gekk sú saga, að lík hans hefði rekið og verið höfuðlaust- Var það af ýmsum tekið sem tákn þess, að forsjónin hefði viljað refsa honum fyrir framferðið á Dýrafirði. Menn eru gjarnir á að trúa slíku og því fjekk þessi saga svo byr undir vængi að hún barst um land alt. En það vitum vjer sannast um þetta að segja, að ástæðan til þess, að þessi saga kom upp, mun vera sú, að ellefta líkið sem náðist, var mjög skaddað á höfði, svo mjög, að vart mundi þekkjanlegt þeim, er manninn þekktu í lifanda lífi. En eigi var það skipstjóri.

Staður

Staður fyrrum.

Að undirlagi sýslumannsins í Gullbringu- og Kjósarsýslu rannsakaði hreppstjóri nákvæmlega, hvort eigi væri nein merki á líkunum, ef vinir eða vandamenn gæti merkt af hver maðurirm væri.
Sýslumaður mun einnig hafa lagt svo fyrir, að sæist engin merki (tatoveringar) á einhverju líki, þá skyldi aðgæta hvort eigi mætti ráða það af öðru hver maðurinn væri, t.d. hvort ekkert væri í vasa líksins er benti á það, eða þó ekki væri annað en hringur á hönd með stöfum.
Nú vildi svo til, að af þessum ellefu líkum voru 10 með merki á handlegg eða hönd, en ellefta líkið ekki. En á hönd þess var einbugur. Vegna þess að höndin var sollin, varð honum ekki náð ,af, nema því aðeins að hann væri sagaður sundur. Var til þess fenginn maður frá Stað, Sigurður Hjeronýmusson að nafni. Fundust þá innan í hringnum stafir. Skrifaði hreppstjóri þá hjá sjer, en ætlaði jafnframt að senda hringinn til skipafjelagsins er skipið átti, svo að hann kæmist til ástvina mannsins.
Nú voru smíðaðar kistur að öllum þessum líkum og þau kistulögð. Þá var það annaðhvort nóttina á eftir, eða næstu nótt, að mann, sem býr í Bergskoti, og Bjarni Ólafsson hjet, dreymir það, að maður kemur á gluggann hjá honum. Bjarni þekkir eigi þennan mann og hefir aldrei sjeð hann fyr. Þessi maður talar til Bjarna og biður hann að sjá svo um, að hann fái aftur það, sem tekið hafi verið af sjer.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær. Gröf sjómannanna af Anlaby er vinstra megin ofanvert.

Um morguninn segir Bjarni þennan draum sinn, og þótti hann undarlegur. Var þá gestkomandi hjá honum Sigurður Hjeronýmusson, sá, er fyrr getur. Þegar hann heyrði drauminn, brá honum í brún og hugsaði með sjer eitthvað á þessa leið: „Það skyldi þó aldrei hafa verið maðurinn, sem jeg sagaði hringinn af, og nú hefir vitjað Bjarna í draumi, og er að kalla eftir hringnum?” Þetta var þó þeim mun ólíklegra sem Bjarni hafði eigi hugmynd um hringinn. Samt sem áður fer Sigurður heim til hreppstjórans; en hvað þeim fór á milli, eða hvort sýslumanns naut líka að, vitum vjer ekki. En hitt er víst, að afráðið var það, að senda hringinn eigi af landi brott, heldur skyldi hann leggjast í kistuna hjá því líki, sem hann var af tekinn. En nú stóðu þar 11 kistur, og allar eins. Var því vandi að finna manninn, sem hringinn átti. Þá voru fengnir til þess trúverðugir menn að brjóta upp kisturnar og skila hringnum. Ekki hittu þeir á rjettu kistuna fyrst, sem ekki var von, en í þriðju kistunni lá sá rjetti. Var nú hringurinn lagður í kistuna hjá honum, kistunum öllum lokað, og síðan hefir eigi orðið vart við þennan mann.
Mennirnir þessir eru grafnir í Grindavík, allir í sömu gröf. Sú gröf sjest enn þá í Grindavík — framandi og nafnlausra sjómannagröf — en enn veit hvert mannsbarn þar syðra hvar hennar er að leita.

Staðarhverfi

Horft yfir kirkjugarðinn í Staðarhverfi.

Nú er stutt eftir af þessari sögu, en þó verður að bæta nokkru við. Það var nokkuru eftir jarðarförina, að stúlku á Stað, Margrjeti Salomonsdóttur að nafni, dreymir það, að hún er þar í rúmi sínu inni í baðstofu. Þykir henni þá maður koma upp í stigagættina. Hann ávarpar hana og segist vera kominn til þess að þakka fyrir sig og fjelaga sína. „En eitt þykir mjer verst,” bætir hann við, „að eigi skyldi jafn mikið haft við okkur alla.”
Jeg sel það ekki dýrara en jeg keypti, að stúlkunni fannst þetta vera sá maður frá „Anlaby”, er fyrstur fannst. Var nú margt rætt um drauni þennan og fanst mönnum ólíklegt, að hann ætti við nein rök að styðjast, ef svo væri að hún ætti að eiga við sjóreknu mennina af „Anlaby”, því að enginn vissi betur en að líkum þeirra allra hefði verið gert jafn hátt undir höfði og sami sómi sýndur. En þó varð það síðar nokkuð, er menn hugsuðu sig betur um, að annað varð uppi á teningnum.
Jafnóðum sem líkin fundust, voru þau borin í kirkju. Báru ýmist 4 eða 6 menn hvert lík og um leið og þau voru borin inn úr kirkjudyrum, var klukkum hringt og sunginn sálmurinn: „Jurtagarður er herrans hjer.” En af einhverri vangá, er eigi varð kunnugt um fyr en síðar, höfðu burðarmenn eins líksins borið það svo í kirkju að yfir því var hvorki klukkum hringt nje sálmur sunginn.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 3. tbl. 23.01.1927, Nilson Skipstjóri – Úr sögu landhelgisvarnanna, Árni Óla, bls. 17-20.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu á Stað.

Staður

Í Morgunblaðinu 1970 er grein; ” Í Staðarkirkjugarði” eftir séra Gísla Brynjólfsson. Þar fjallar hann um klukkuna í Staðarkirkjugarði og aðdraganda að komu hennar við strendur Grindavíkur:

Klukkan í Staðarkirkjugarði –
Þetta er klukka dauðans.”

Jónsbásar

Jónsbás.

“Það er hún, þessi gamla, kopargræna skipsklukka í litla turninum í kirkjugarðinum á Stað, sem hringir líkhringinguna út yfir leiðin í þessum grafreit Suðurnesja. Ómar hennar eru síðasta kveðja lífsins til látinna.
Hún á sína sögu, þessi klukka.
-Sú saga minnir líka á dauðann, ekki síðnur en núverandi notkun hennar. Það er dapurleg saga um mannlega villu og synd og sviplegan dauða. — Þegar maður les hina stuttorðu áletrun: S.S. ANLABY – 1896 – Hull, þá mun sumum ef til vill koma í hug þessi orð postuans í Rómverjabréfinu: “Mín er hefndin, ég mun endurgjalda, segir Drottinn“.

Togari

Svipaður togari og Alnaby.

Anlaby var brezkur togari, sem strandaði dimma óveðursnótt vestan við Jónsbásskletta á Húsatóftafjöru í Grindavík 14. janúar 1902. Áhöfnin var 11 manns og fórust þeir allir. Skipstjórinn var enginn annar en hinn alræmdi landhelgisbrjótur Carl Nilsson, eða Sænski Carl, eins og sumir kölluðu hann.
Hann var skipstjóri á togaranum Royalist nr. 423 frá Hull, sem sökkti bátnum undir Hannesi Hafstein á Dýrafirði 10. október 1899 og varð þrem mönnum að bana. Fyrir það ódæði var hann síðar dæmdur í fangelsi í Danmörku. Er hann hafði lokið refsivist sinni hélt hann á Anlaby á Íslandsmið, sagður alráðinn í því að hefna ófara sinna á Íslendingum og velgja þeim undir uggum. „En hvað sem því líður, var það staðreynd, að þarna undir Jónsbássklettum átti þessi þjarkur sitt síðasta uppgjör við tilveruna, “eins og Guðsteinn Einarsson kemst að orði í ritgerð sinni í bókinni: Frá Suðurnesjum.

Jónsbásar

Jónsbássklettar.

Daginn áður en Anlaby strandaði, var veður gott, næstum logn en dimmt í lofti. Þennan dag var Sæmundur á Járngerðarstöðum, þá 13 ára, gendur út með sjó að huga að kindum. Sá hann þá marga togara að veiðum skammt frá landi. Það var sorgleg sjón, en því miður alltof algeng á þeim árum, því lítt fengu landsmenn reist rönd við yfirgangi útlendra veiðiþjófa.
Um nóttina gerði versta veður. Næsta dag var Björn, vinnumaður Einars í Garðhúsum að ganga til kinda á þessum sömu slóðum. Þegar hann kom út í Hvalvík, sem er skammt austan Jónsbásskletta, fann hann þar mannslík nokkru ofan við flæðarmál. Maðurinn hafði bundið sig við belg og var auðséð, að hann hafði komizt lifandi í land þótt ótrúlegt væri í slíku hafróti. Hann hafði farið úr öðru stígvélinu og lá það við hlið hans. Alls rak 10 lík af Anlaby.

Staður

Staður.

Hreppstjóri Grindvíkinga, Einar Jónsson á Húsatóftum, sendi þegar hraðboða til Hafnarfjarðar á fund Pál sýslumanns Einarssonar með tilkynningu um strandið. Skrifaði sýslumaður hreppstjóra með sendimanni til baka, bað hann bjarga því, sem ræki úr skipinu og láta leita fjörur að líkum hinna drukknuðu, og ef þau fyndust, þá að láta jarða þau að kristnum sið.
Jafnframt ráðfærði sýslumaður sig, pr. telefon, við enska consulatið í Reykjavík og hafði samráð við það um allar framkvæmdir í sambandi við strandið. Þann 20. lagði sýslumaður af stað til Grindavíkur, en sakir illviðra og annarra tálmana náði hann ekki þangað fyrr en á 3ja degi. Voru þá fundin 4 lík og næsta dag fundust önnur fjögur, segir sýslumaður í skýrslu sinni.

Staðarhverfi

Klukknaport í Staðarkirkjugarði. Gamla kirkjuportið h.m.

Það sem rekið hafði úr skipinu var aðallega timbur, allt brotið í spón. Skipið hafð brotnað í þrennt, framstafninn og skutinn hafði rekið á land, en sjálfur skrokkurinn var spölkörn frá landi, alltaf í kafi. Og enn í dag má um stórstraumsfjöru, sjá vélina úr Anlaby standa þangi vaxna langt frammi á Húsatóftafjöru.
Allt strandið, einnig skrokkurinn, var selt á uppboði 23. janúar. Síðar, eða 17. febrúar var svo haldið annað uppboð á ýmsu rekaldi sem þá hafði borizt á land, ennfremur talsverðu af fatnaði skipverja, sem hirtur hafði verið og rækilega sótthreinsaðir af „fagmanni” undir umsjón hreppstjóra.

Alls nam andvirði seldra muna á þessum uppboðum 728 krónum og 35 aurum. Hins vegar voru gjöldin heldur meiri, eða 743 krónur og 18 aurar svo það vantaði nœstum 15 krónur á að skipveriar á Anlaby ættu fyrir útför sinni.

Anlaby

Skipsklukka Anlaby í klukknapotrinu.

Frá líkfundunum og útför skipverja greinir prestsþjónustubók Staðarsóknar á þessa leið:
Í janúr 1902 fundust níu lík af sjó rekin af botnvörpuskipinu Anlaby, sem brotnaði í spón á Húsatóftafjörum 14. janúar. Voru 4 líkin greftruð 24. janúar og fimm líkin greftruð 27. janúar. Í febrúar rak upp 10. líkið og var það greftrað 6. febrúar.”
Þá vantaði það ellefta. Hver var hann? Um það segir Guðsteinn frá Húsatóftium í fyrrnefndri ritgerð:
„Eftir að jarðarför þeirra tíu, sem rak, hafði farið fram og sendar höfðu verið lýsingar af líkunum, þótti það sannað, að sá, sem vantaði væri skipstjórinn sjálfur, Carl Nilsson.”
En þótt þessi lítt þokkaði brezk-sænski skipstjóri næði ekki að fá leg í íslenzkri mold, Sét hann sig hér ekki án vitnisburðar. Á þessum tíma var vinnukona á Stað í Grindavík, sem átti von á barni. Hennar vitjaði Sænski-Carl í draumi oftar en einu sinni. Hún mun haía skilið heimsóknir hans á þá leið að hann væri að biðja hana að koma upp nafni sínu ef hún mundi son ala.

Anlaby

Brak úr Alnaby ofan Jónsbáss.

Og svo varð. Vinnukonan á Stað fæddi dreng 31. júlí um sumarið. Þann 5. ágúst var hann vatni ausinn og hlaut nafnið Karl Nilson.
Þannig má segja að skipstjórinn á Anlaby hafi á vissan hátt „náð landi” í Grindavík þótt hann hlyti hina votu gröf í hafrátinu við Jónsbásskletta, lítt harmaður af því fólki, sem jafnan mun líta á hann sem holdi klæddan ofstopa og yfirgang gegn varnarlausri þjóð, sem var að leita réttar síns á eigin fiski miðum og verja lífsbjörg sína. – G. Br.

Staður

Staður. Kirkjan stóð á hólnum nær.

Í Þjóðviljanum 1902 segir: “Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar”:
“Enskt botnvörpuskip, Anlaby að nafni, strandaði í Grindavík fyrir skömmu, og brotnaði i spón.
Skipstjóri á „Anlaby” var Nilsson sænski, er olli manndauðanum í Dýrafirði haustið 1899.

Staður

Staður 1925.

Hann var ný sloppinn úr betrunarhúsinu, eptir að hafa tekið þar út hegninguna, og réðst þegar, sem skipstjóri á „Anlaby” og lagði af stað frá Hull í fyrstu veiðiferð sina, á jóladagsmorguninn.
Enginn vafi getur á því leikið, að skipshöfnin á „Anlaby” hefir öll drukknað, enda voru tvö lík rekin í Grindavíkinni, er síðast fréttist.
Svo er að sjá, sem þeir félagar hafi verið að ólöglegum botnvörpuveiðum, því að botnvarpan var í sjó, en þá orðið of nærri landi, sakir þoku eða myrkurs, og skipið steytt á steini, og liðazt þar sundur, en skipverjar eigi fengið borgið sér til lands, sakir brims. Brottför Nilsson’s úr heimi þessum hefur því orðið all-kynleg og svaðaleg, — að drukkna þannig, er hann leitaði landsins aptur, fyrsta skipti, og var tekinn til fyrri iðju sinnar, ólöglegra landhelgisveiða.”

Fréttin var endurskrifuð í Heimskringlu sama ár.

Heimildir:
-Morgunblaðið, 131. tbl. 14.06.1970, Í Staðarkirkjugarði, séra Gísli brynjólfsson, bls. 6.
-Þjóðviljinn, Þjóðviljinn ungi, 4.-5. tbl. 28.01.1902, Botnvörpuskip strandað – Sænski Nilson drukknar, bls. 29.
-Heimskringla, 22. tbl. 13.03.1902, Sænski Nilson drukknar, bls. 1.

Staðarkirkjugarður

Staðarkirkjugarður.