Staðarborg

“Á manntalsþingi Vatnsleysustrandarhrepps 1961 var þinglesin eftirfarandi friðlýsing: – Í landi jarðarinnar Kálfatjarnar í Vatnsleysustrandarhreppi í Gullbringusýslu, eru samkvæmt lögum um verndun fornminja, dags. 16. nóv. 1907, skrásettar og friðaðar fornminjar þessar:

Staðarborg

Fjárborg, sem kölluð er Staðarborg í Vatnsleysustrandar-heiði, 2 – 3 km frá bænum að Kálfatjörn, í stefnu þaðan og á Dyngju [eyktamörk á Kálfatjörn: Sól yfir Dyngjum kl. 9, yfir Keili kl. 10 og yfir innri enda Fagradalsfjalls kl. 12]. Þetta kunngerist eigöndum og ábúöndum greindra jarðar nú og eftirleiðis. Ber eiganda að varðveita friðlýsingarskjal þetta og sjá um að ábúanda sé jafnan kunnugt um friðlýsinguna.- [Hafa ber í huga að enginn ábúandi er lengur á Kálfatjörn svo ábyrgð laganna hefur væntanlega flust yfir á kirkjuhaldarann eða golfvallahaldarann, sem svo mjög sóttist eftir landinu til afnota].
Einn góðviðrisdag í sumar fór ég að skoða borg þessa og fékk Erlend bónda á Kálfatjörn til þess að fylgja mér þangað. Þetta er mikið mannvirki og ber þess glöggt vitni að þar hefir handlaginn maður verið að  verki. Borgin er hringlaga og eru veggirnir eingöngu hlaðnir úr grjóti, valdir hleðslusteinar bæði í ytri og innri hleðslu, en tylt upp á milli með smágrjóti. Vegghæð er um 2 metrar og veggþyktin neðst er um 1 ½ metri, en 1 metri efst. Þvermál að innan er um 8 metra, ummál hringsins að innan um 23 metra, en 35 metra að utan. Efst slútir hleðslan að innan nokkuð, líkt og Staðarborgbyggingar-meistarinn hafi hugsað sér að hlaða borgina upp í topp, eins og hinar smærri fjárborgir, sem voru víða um land. Segir í Íslenskum þjóðháttum að fram á 19. öld hafi það víða verið siður á Suðurlandi, að ekki voru til hús yfir sauði, önnur en jötunlausar fjárborgir. Borgir þessar voru venjulega kringlótt byrgi, hlaðin í topp og gátu verið 6 álna háar eða meira. Stundum var þó reft yfir þær og voru veggir þá ekki nema svo sem 2 álna háir. Dyr voru svo lágar, að fé var aðeins gegnt um þær, og engin hurð fyrir þeim. Inn í þessar borgir var fénu ætlað að hörfa í hríðum og ilviðrum, og stóðu þær því oft langt frá bæjum.
Þessi borg var öðru vísi, nema hvað hún er hringlaga. Hún er svo miklu stærri en aðrar fjárborgir, að henni svipar helst til hrossaborganna, sem fyrrum voru í Eyjafirði og Skagafirði. Dyrnar voru þó upphaflega svo lágar og þröngvar, aðeins 1 metri á hæð, að af því sést að þetta hefir verið sauðfjárborg en ekki hrossaborg. Einu sinni hafði þó tryppi [aðrir segja kálf] skriðið þar inn með einhverjum hætti, en komst ekki út sjálfkrafa og mönnum tókst ekki heldur að koma því út fyrr en dyrnar voru hækkaðar og ná þær nú upp úr tóftinni. En tveir stóri steinar, sem notaðir höfðu verið sem árefti yfir dyrnar, eru þar enn til sýnis, annar fyrir utan tóftina, en hinn við liggur á Staðarborgtveimur steinum innst við vegg inni í tóftinni og er þar eins og setubekkur.
Hleðslan að innan er mjög vandvirknislega af hendi leyst. Hafa verið valdir í hana aflangir steinar, með sléttum fleti á endanum, sem snúa inn í borgina. Víða eru smásteinar eða steinflísar hafðar til að skorða steina og yfirleitt er hleðslan slétt og holulítil. Ytri hleðslan er með nokkuð öðrum hætti. Þar hefir sýnilega verið kappkostað að binda hleðsluna sem bezt, þannig að hver steinn styddi annan. Þessi hleðsla er því ekki jafn slétt og hin. Stærst er grjótið neðst og skagar undirstaðan sums staðar nokkuð út úr veggnum og virðist svo sem hleðslumaður hafi ekki gætt nákvæmlega hringlögunarinnar þegar hann lagði undirstöðuna, en rétt það af á næsta hleðslulagi.
Enginn veit nú hve gömul þessi borg er og það mun sennilega reynast erfitt að kveða nokkuð á um aldur hennar. Sjálf veitir hún litlar upplýsingar um það, því að ekki hefir byggingameistarinn haft fyrir því að klappa ártal á stein til minningar um það hvenær hún var hlaðin, nema ef vera skyldi að hann hefði klappað það á klöppina inni í borginni. Hafi svo verið þá sést nú ekki fyrir því, vegna þess að taðskán þekur alla klöppina og hefðir fyllt upp allar ójöfnur, svo að gólfið er eggslétt. Er það nú allt grasi gróið og er mjög vistlegt þarna inni, enda er sagt, að þegar Stefán Thorarnesen var prestur á Kálfatjörn, þá hafi hann stundum farið með fólk sitt á sunnudögum upp í borgina og veitt því þar súkkulaði. Af því má ætla að þá hafi fyrir nokkru verið hætt að hýsa fé í borginni, þvía ð tæplega hefði presti þótt þar aðlaðandi ef ber taðskán hefði verið að sitja á. Gólfið hefir verið gróið. Inni í borginni er skjól fyrir öllum áttum og Staðarborgþað hefir ekki verið amalegt að liggja þar í grænu grasinu og njóta sólarylsins, eða fara í leiki. Hefir þá sjálfsagt oft verið glatt á hjalla þarna.
Sumir munu nú ef til vill segja að einhverjar upplýsingar um aldur borgarinnar mætti fá með því að rannsaka hve þykk taðskánin er þar inni. En það er afar hæpið, enda þótt hægt væri að grafa upp hvenær hætt var að nota borgina. Menn vita ekert um hve margt fé hefir verið þarna að staðaldri á vetrum, og svo eru miklar líkur til að þarna sé ekki öll sú taðskán, sem safnast hefir í borginni. Það er einmitt mjög líklegt að stungið hafi verið út úr henni hvað eftir annað. Vatnsleysustrandarbúar hafa frá ómunatíð verið í hraki með eldivið, og því er líklegt að prestarnir á Kálfatjörn hafi notað sér það tað, sem safnaðist í borgina.
En annað aldurseinkenni væri ef til vill tryggara. Það er mosinn og skófirnar, sem sezt hafa utan á steinana í hleðslunni. Nú veit ég ekki hvort hægt er að ákveða um aldur skófa, með því að rannssaka þær, en leystar hafa þó verið ýmsar gátur, er ekki sýndust auðráðnari.
Stærð borgarinnar gefur nokkra vísbendingu um að hún sé gömul. Borgin er á landi Kálfatjarnar og heitir Staðarborg, kennd við kirkjustaðinn. Hún er reist handa fé prestins á Kálfatjörn. Fyrir ofan hana er lægð í heiðina og nefnist Lágar. Þar hefir alla jafna verið bezta beitilandið, síðan sögur fara af. Hún er því sýnilega reist í þeim tilgangi, að útigangsfé prestins gæti leitað þar skjóls, eða verið rekið þar inn á kvödlin. En þá sést líka, að sá sem bjó á Kálfatjörn um þær mundir, hefir verið vel fjáreigandi og átt margt útigöngufé, því að hægt mun að koma á annað hundrað fjár inn í borgina. Stærð borgarinar hefir auðvitað verið miðuð við það, hve margt fé þurfti að hýsa í henni. Menn voru ekki að byggja stærri skýli fyrir fé sitt en þeir þurft nauðsynlega.
StaðarstekkurUm 1700 var sá prestur að Kálfatjörn er Oddur Árnason hét. Sauðfjáreign hans var þessi (samkvæmt Jarðabokinni): 14 ær, 4 sauðir tvævetrir, 7 sauðir veturgamlir, 2 hrútar og 6 lömb. Ekki hefir hann þurft á hinni stóru fjárborg að halda.
Skúli Magnússon segir frá því, að á árunum 1750-1766 hafi verið mikill hugur í mönnum að auka sauðfjáreign sína og hafi tala ær og sauða í allri Kálfatjarnarsókn þá komist upp í 1200. Skiftist þessi fjáreign á 18 jarðir og verða þá 66 kindur að meðaltali á jörð. Árið 1703 voru til jafnaðar 30 kindur á hverri jörð og hefir þá ekki verið meðal fjárbú hjá prestinum að Kálfatjörn. En hann hafði þá þó fram yfir aðra, að hann átti beitiland í Keilisnesi og þar gekk fé sjálfala allan veturinn.
Árið 1756 lét Friðrik V. konungur stofna kynbótabú sauðfjár að Elliðavatni og voru sendir þangað hrútar af ensku kyni bæði frá Noregi og Svíþjóð. Gekk sú tilraun vel. En árið 1761 voru fluttir þangað hrútar frá Holtsetalandi og með þeim barst fjárkláðinn hingað og breiddist óðfluga út. Árið 1778 var allt fé í Gullbringu- og Kjósarsýslu skorið niður vegna kláðans. Menn reyndu þó að koma sér upp fjárstofni aftur, en þremur árum seinna (1781) voru þó ekki nema 180 ær og sauðir í allri Kálfatjarnarsókn. Síðan hefir enginn prestur að Kálfatjörn átt svo margt fé, að hann hefði þurft að láta hlaða hina stóru borg, enda eru til munnmæli um það frá því um 1800 hvernig borgin hefði verið gerð.
PrestsvarðaÞessi munnmæli segja að maður sem Guðmundur hét hafi hlaðið borgina fyrir Kálfatjanarprest. Dró hann grjót víða að, enda eru þarna víða krosssprungnar klappir, þar sem gott var að fá hleðslusteina. Guðmundur byrjaði á því að raða grjótinu í langar raðir á holtið, þar sem borgin stendur og valdi svo úr þá steina, sem honum líkaði bezt að hafa í vegginn á hverjum stað. Er þetta til sannindamerkis um það hve vandvirkur og verkhygginn hann hefir verið, enda ber borgin þess vitni enn í dag. Guðmundur ætlaði að hlaða borgina upp í topp og var byrjaður á því að láta innvegginn hlaðast á sig. En prestur komst að þessu og harðbannaði honum það. Mun presti hafa litist það allt of mikið verk að hlaða þessa stóru borg upp í topp, enda hefði hún hlotið að verða geisihá með því móti og miklu tilkomumeira hús en sjálf kirkjan að Kálfatjörn. Guðmundur reiddist þessu svo að hann hljóp frá verkinu þar sem hann var kominn og fór frá presti.
Af þessu, sem nú hefir verið sagt, má sjá að mestar líkur benda til þess að leita verið nokkuð aftur í aldir ef ákveða skal aldur borgarinnar. Það verður að byrja á því að leita að þeim presti, er var svo fjármargur, að hann þurfti á svona stórri fjárborg að halda. Sá prestur hefur ekki verið þar seinustu 250 árin. Er því rétt að telja borgina til fornminja. Og sjálfsgat var að friða hana, enda þótt hún kunni að vera yngri en líkur benda til. Hún á það skilið vegna þess hve hún er merkilegt mannvirki.
Lyng við StaðarborgSkúli landfógeti segir í sóknarlýsingu sinni að Strandarheiði sé “eitthvað hið bezta land til sauðfjárræktar, það er eg hef séð á Íslandi.” Og telur það vera fjórar mílur á lengd og tvær á breidd, eða 8 fermílur. Í sóknarlýsingu Péturs Jónssonar 1840 er ekki kveðið jafn ríkt að orði, en þó segir þar að sums staðar í heiðinni sé sæmilegir hagar.
Nokkrar aðrar fjárborgir eru í nágrenni Staðarborgarinnar, bæði skráðar og óskráðar. Og um alla ofanverða heiðina eru rústir af gömlum seljum og bendir það til þess að fyrr á öldum hafi landbúnaður verið allmikill á þessum slóðum. Þar eru sel kennd við vissa bæi, svo sem Flekkuvíkursel, Auðnasel og Knarrarnessel. Flekkuvíkursel lagðist ekki niður fyrr en um 1870, en þá höfðu öll hin selin verið aflögð fyrir löngu.

Staðarborg

Staðarborg.

Erlendur á Kálfatjörm er glöggur maður og mjög athugull. Hann sýndi mér hvernig eins og háttaði um þegar upp í heiðina dró, hvað gróður var miklu minni og beir berangur næst bæjunum. Þar segir enn til sín lyngrifið og mosatekjan fyrrum. Þó er þar allt að gróa upp nú. Hann sýndi mér stóra fláka, sem höfðu verið blásin leirflög fyrir nokkrum árum, en voru nú að safna gróðri. Fyrst kemur geldingahnappurinn og festir rætur á víð og dreif. Við rætur hans myndast smáir töðutoppar og svo kemur lyngið og tekur sér bústað þar. Er þess þá skammt að bíða að toddarnir stækki óðum og renni saman í samfelldar gróðurbreiður. Þar sem hraun er, hefir grámosinn einnig numið land að nýju, og þar fer eins, í skjóli hans festir annar gróður rætur.”
Ýmsar aðrar fornminjar tengdir Staðarborginni má efna, s.s. Prestsvörðuna ofan Kálfatjarnar og Staðarstekkinn, skammt norðnorðvestan borgarinnar.

Heimild:
-Lesb. MBL, sunnudagur 20. júní 1952 – Árni Óla, bls. 357-360.

Stad