Færslur

Knarrarnessel
Breiðagerðisslakki

Brak flugvélar ofan Breiðagerðisslakka.

Knarrarnessel er nokkurn spöl ofan Klifgjár. Þar er flatlendast miðað við önnur selstæði á Vatnsleysustrandarheiðinni (Strandarheiðinni). Selstígurinn er ekki augljós frá Klifgjánni og upp í selið, en hann liggur fast við Knarrarnesselsvatnsstæðið, sem er um 100 metrum neðan og norðan við nyrstu tóftirnar. Þar er oftast vatn enda vatnsstæði þetta með þeim stærstu í heiðinni.
Selstæðið er stórt með mörgum tóftum. Þar má finna átta slíkar, misjafnlega stórar og margflóknar. Þrjá hlaðna stekki er að sjá í selstöðunni. Fjöldi stekkja benda jafnan til fjölda selja á viðkomandi svæði. Hins vegar má geta þess að stekkir virðast ekki alltaf augljósir. Þannig má ætla að enn einn stekkurinn hafi fylgt austustu tóftunum þremur. Þær eru í grónum krika ofan við hinatr tóftirnar. Sjá má móta fyrir hleðslu milli tveggja húsa, en alls eru rýmin í þeim fimm að tölu. Tvær tóftanna eru nokkuð heillegar og jafnvel sjá hveru stór rýmin hafa verið. Í nyrstu tóftinni mældust innanrýmin 140×280. Það er svipað hlutfall og í öðrum rýmum annarra tófta, ekki einungis í þessu seli heldur og fleirum. Ein tóftin, sú syðsta í vestanverðri selstöðunni, er greinilega stærst umfangs. Hún hefur verið með fleiri rýmum en hinar, líklega einum fjórum, en það er óalgengt í seljum á Reykjanesskaganum, sem jafnan hefur þrjú slík, þ.e. eldhúsið með sérinngangi og búr og svefnaðstöðu með sameiginlegum inngangi. Því, sem hér er lýst, er einungis ályktun út frá því sem sést á yfirborðinu, en ef grafið yrði í rústirnar gæti ýmislegt annað komið í ljós, s.s. tengsl einstakra rýma innbyrðis. Stekkirnir eru svipaðir að gerð, tvö hólf. Þó má sjá móta fyrir bogadreginni hleðslu við endann á vestasta stekknum. Hlaðin kví er skammt norðan við selstæðið. Líklega höfðu flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er nokkuð stór gjá sem snýr bergvegg til sjávar og er Gjáselsgjá framhald hennar til suðvesturs. Þegar bornar eru saman selstöður í landnámi Ingólfs sést að Vatnsleysuströnd og Grindavík hafa nokkra sérstöðu varðandi sel því þar er mörgum bæjum hrúgað saman á einn stað en svo virðist ekki vera annarsstaðar, hvorki á Rosmhvalanesi, Höfnum, né Hraunabæjum og ekki að sjá slíkt í Kjósarsýslu.
Nýleg lambaspörð voru í einni tóftinni (í apríl).

Norðaustur af selinu er flak úr þýskri Junkers könnunarherflugvél. Hún varð fyrir skotárás bandarískrar orrustuflugvélar í april 1943. Þrír fórust en loftskeytamaðurinn komst lífs af í fallhlíf. Hann var fyrsti þýski flugliðinn, sem bjargaðist úr flugvél sem skotin var niður yfir Íslandi og jafnframt sá fyrsti sem Bandaríkjamenn tóku höndum í Seinni heimstyrjödlinni. Sjá má merkingar á einstökum hlutum.
Auðnasel er norðaustur af Knarrrarnesseli, innan við slakkann, Breiðagerðisslakka, sem þýska flugvélin hrapaði í og er um 20. mín. gangur milli seljanna. Selið liggur suðvestur við hæð eina, sem heitir Sýrholt. Margar tóftir eru þar mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfi, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði. Á hæsta hólnum í seltúninu er varða. Vatnsstæði hefur ekki fundist við selið, en heimildir segja það vera norðvestur af því, nokkurn spöl neðan þess, og sunnan við háan og brattan klapparhól.

Tóftir í Auðnaseli eru á fjórum stöðum. Líklega eru þó austari tóftirnar tvær huti af sama selinu. Fjórða tóftin gæti mögulega verið tyrfður tvískiptur stekkur, en tveir aðrir, hlaðnir stekkir eru skammt norðar. Á tveimur stöðum við selstöðuna eru göt undir klapparhæðum. Svo virðist sem hleðslur séu niðri í þeim, en gróið er yfir þær að mestu. Klofinn klapparhæð er vestan við selstöðuna, en ekki er að sjá hleðslur í henni. Vel hefði mátt nýta hana sem nátthaga og er ekki óliklegt að það hafi verið gert.
Fornuselshæða er getið í Jarðabókinni 1703 og þá þar sem Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu í seli áður en þeir bæir fengu selstöðu í Sogaseli. Líklega eru Fornuselshæðir þær sömu og nefnt hefur verið Sýrholt. Þar eru fornar tóftir á a.m.k. tveimur stöðum, auk stekkst í gjá.
Hrafnslaupur er í Klifgjá neðan Auðnasels.
Strokkar heita klapparhæðir ofan Reykjanesbrautar. Í austurátt frá Strokkum er lítið selstæði, sem heitir Fornasel. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum, en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og vera frá Landakoti. Í Jarðabókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annaðs el á þessum slóðum, en bókin nefnir Fornuselshæðir, sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni, sbr. framangreint.
Fornasel sést vel frá Reykjanesbrautinni, enda ekki langt ofan við hana. Sennilega er það eitt aðgengilegasta selið á Reykjanesskaganum – eitt hið minnsta, en jafnframt eitt hið fallegasta. Hæð (sem áreiðanlega hefur heitið eitthvað fyrrum) skilur að tóftir selstöðunnar. Þær eru annars vegar sunnan við hana og hins vegar norðan við hana. Á milli er vatnsstæðið.

Sunnanverðar tóftirnar eru umfangsmeiri. Þær eru vel grónar, en þó má ennþá sjá móta fyrir tveimur rýmum og því þriðja skammt sunnar. Líklegt er að þar hafi eldhúsið verið. Austan við tóftirnar er skeifulaga gerði, huganlega nátthagi.
Vatnsbólið hefur verið bæði áreiðanlegt og gott. Hlaðið hefur verið umhverfis það og sést enn móta fyrir hleðslunum austan þess og norðan.
Norðaustan við vatnsstæðið er tvískipt tóft, að öllum líkindum stekkur. Hann er mjög gróinn og ber merki húss, en ólíklegt er að svo hafi verið.
Fróðlegt er að skoða, bera saman og greina hinar ýmsu selstöður á Reykjanesskagnum, en FERLIR hefur nú skoðað 145 slíkar. Selin hafa ekki öll verið nýtt á sama tíma, en telja má, miðað við heimildir, að um helmingur þeirra hafi jafnan verið í notkun að jafnaði. Eldri selstöður voru gerðar upp aftur og aftur og síðan ný reist að teknu tilliti til nýrra krafna og aukins rýmis, enda verður að telja mjög líklegt að haft hafi verið í seli hér á landi allt frá fyrstu búsetu og þangað til selsbúskapurinn lagðist af að mestu skömmu fyrir aldamótin 1900. Merki um slíkt má sjá í nokkrum seljanna. Þannig má og sjá, miðað við stærð rýma og gerð seljanna, hvaða sel hafi verið í notkun á svipuðum tíma. Elstu selin eru greinilega einföldust að allri gerð, en seinni tíma selin eru formlegri og rýmin stærri.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995

Knarrarnessel
Gengið var frá Skrokkum við Reykjanesbraut að Fornaseli. Selið er í vel grónum hól og sést hann vel frá brautinni. U.þ.b. 10 mín. gangur er að því.

Auðnasel

Stekkur í Auðnaseli.

Ýmist er sagt að selið hafi verið frá Þórustöðum eða Landakoti og þá heitið Litlasel. Í selinu er ein megin tóft með tveimur vistarverum og hlöðnu gerði sunnan við. Vestar er hlaðinn stekkur. Ofan við hólinn er vatnsstæði í krika og minni tóft með tveimur vistarverum.
Gengið var áfram inn áheiðina að Auðnaseli. Selstæðið sást vel framundan, ofan við Klifgjána. Í því eru fjórar tóftir, tveir hlaðnir stekkir, auk kvíar. Varða er á holti vestan við tóftirnar. Handgert vatnsstæði er norðvestan við miðtóftirnar. Það var þurrt að þessu sinni líkt og önnur vatnsstæði í heiðinni þetta sumarið. Annar stekkurinn er uppi á holtinu ofan við selið.
Gengið var til suðsuðvesturs að Knarrarnesseli. Á leiðinni var gengið um Breiðagerðisslakka og tækifærið notað og kíkt á flak þýsku Junkerflugvélarinnar, sem þar var skotin niður í aprílmánuði 1943.
U.þ.b. 20 mínútna gangur er á milli seljanna. Í Knarrarnesseli eru þrjár megintóftir, auk einnar stakrar, og þrír hlaðnir stekkir. Vatnsstæðið er í hól norðvestan við selið, fast við selstíginn. Það var líka þurrt að þessu sinni, greinilega nýuppþornað. Í Knarrarnesseli er í heimildum getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel.
Gengið var niður Knarrarnesselstíginn að Klifgjá, yfir hana við vörðu á brún hennar og áfram niður að Skrokkum. Við vörðuna var greni.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Fornasel

Fornassel – uppdráttur ÓSÁ.

Brunnastaðasel

Gengið var yfir Hrafnagjá frá Reykjanesbraut, upp Vogaheiði áleiðis upp í Knarrarnessel og Brunnastaðasel, síðan niður heiðina á ný, niður að Snorrastaðatjörnum með viðkomu í Nýjaseli.

Arasel

Arasel (Arahnúkasel).

Hrafnagjá liggur, að sumir segja, frá Háabjalla og alla leið í sjó fram í túninu á Stóru-Vatnsleysu. Af loftmyndum að dæma eru skil á milli Hrafnagjá Vatsleysumanna og Hrafnagjár Vogamanna. Hvað sem því líður er gjáin falleg og gefur Almannagjá lítið eftir á köflum. Hæst er Hrafnagjá um 30 metrar, þ.e. ofan Voganna.
Gjárnar upp Vogaheiðina eftir að gengið hefur verið yfir Hrafnagjá heita m.a. Huldugjá, Litla-Aragjá, Stóra-Aragjá, Klifgjá, Gjáselsgjá, Holtsgjá og Brunnastaðaselsgjá.
Á Huldugrjárbarmi er Pétursborg. Gjáin er nokkuð há á kafla. Litla-Aragjá og Stóra-Aragjá eru óljóslega sagðar heita eftir Ara, fornmanni í Vogum, en ekki eru til skráðar heimilir um það. Sá möguleiki er fyrir hendi að Aranafnið sé jafnvel tilkomið af fuglsnafninu örn. Þar sem bergveggurinn er hæstur í Stóru-Aragjá heitir Arahnúkur. Undir Arahnúk er Arahnúkasel eða Arasel. Í Jarðabók 1703 er ekki getið um þetta sel, en það kom fyrir að selstaða var færð neðar í heiðina eftir því sem vatnið minnkaði og gróðurinn eyddist. Arahnúkaselstæðið er fallegt og grösugt í góðu skjóli við gjárvegginn og þar finnast tíu kofatóftir ásamt kví. Sagt er að bletturnn hafi síðast verið sleginn árið 1917. Ekkert vatnsból finnst við selið og líklega hefur vatn verið sótt í Snorrastaðatjarnir.

Gjásel

Gjásel.

Í bergveggunum á Arahnúk er hrafnsóðal og þar sem uppgangan er á hnúkinn er Araselsgrenið. Heimildir er um tvö önnur nöfn á Stóru-Aragjá, Aragjá og Stór-Aragjá. Stóra-Aragjá nær allt að Skógfellahrauni til suðvesturs, en þegar komið er nokkuð norðaustur fyrir Arahnúk þrengist gjáin til muna og er svo til horfin í Brunnastaðalandi. Nokkrar heimildir segja að Stóra-Aragjá sé sama gjá og Klifgjá þegar komið er austar í heiðina.
Í norðaustur frá Arahnúk er Ólafsgjá og Ólafsvarða. Gjáin er í raun sprunga út úr vestasta hluta klifgjár, en Ólafsgjá er mjög þröng og báðir veggir eru jafnháir landinu í kring. Um aldamótin 1900 hrapaði Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi þegar hann var að huga að fé rétt fyrir jólin. Mikil leit var gerð, en allt kom fyrir ekki. Árið 1931, eða um 30 árum seinna, fundust svo bein hans í gjánni þegar verið var að sækja kind, sem fallið hafði niður í sprunguna á nákvæmlega sama stað og Ólafur. Um atburðinn er ritað í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.

Brunnastaðasel

Stekkur í Brunnastaðaseli.

Brunnastaðaselið er stórt og fallegt, snýr í norðvestur, og blasir við af Reykjanesbrautinni þegar ekið er um Stapann og inn úr. Af seljunum í heiðinni er Brunnastaðasel fjærst byggðinni. Upp undir gjánni eru nokkrar gamalgrónar tóftir, en aðeins norðar og neðar á grasblettinum eru tvær til þrjár nýrri. Í þröngri gjánni er lítil heilleg kví og hafa gjárveggirnir verið notaðir sem aðhald þegar ærnar voru reknar inn á mjaltatíma. Ofar er Brunnastaaðselsvarða og heimildir eru um Brunnastaðaselsvatnsstæði.
Gengið var niður heiðina áleiðis að Snorrastaðatjörnum. Þegar skammt var eftir að tjörnunum var komið við í Nýjaseli undir Nýjaselsbjalla. Selið hefur tilhyert bændum í Vogum og líklega byggst eftir að selstaða lagðist af ofar í heiðinni eða þá að þarna hafi eingöngu verið kúasel. Rétt norður af selinu eru grasgefnir hólar, sem gætu heitið Selhólar, en heimidlir eru til um það örnefni á þessum slóðum.
Í gömlum heimildum er getið um Snorrastaði einhvers staðar við Snorrastaðatjarnir, en hvergi sést merki um þann bæ. Í Jarðabókinni 1703 segir um Snorrastaði: “Forn eyðijörð og hefur um langan aldur í eyði legið… Nú er allt land þessarar jarðar lagt undir brúlkun ábúenda í Vogum hvoru tveggja, og hefur yfir hundrað ár verið svo”. Tjarnirnar eru oftast sagðar þrjár, en eru í það minnsta fimm ef ekki er því meiri þurrkur.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnseysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir.Gjasel-210

Knarrarnessel
Birgir Þórarinsson slóst með í för eftir að hinn litskrúðugi heimahani á Minna-Knarrarnesi hafði tekið á móti þátttakendum á hlaðinu. Hvita-Táta skokkaði um hlaðið og dillaði skottinu. Hún vissi greinilega hvað stóð til.

Knarranes

Knarrarnesselsstígur.

Hellirigning hafði verið á svæðinu, en við komu FERLIRs stytti upp. Geislar sólarinnar böðuðu tún og móa. Kríuungi kúrði undir girðingu og reyndi að láta fara lítið fyrir sér. Mamman heimtaði alla athygli allra.
Fyrst benti Birgir á letursteininn í formi myllusteinsins. hann hafði hreinsað mosann af steininum og í ljæos hafði komið ártalið 1823.. Þá benti hann á svonefnt Brandsleiði á túninu suðaustan við íbúðarhúsið. Það er lítill hóll sem lítur út fyrir að vera forn dys. Birgir sagði að ekki mætti slá hólinn því sú væri trú manna að hann væri álagablettur. Benjamín Eiríksson, sem alist hafði upp á Minna-Knarrranesi, hafði haft orð á því að þarna væri líklegast fornmaður grafinn. “Dysin” er ofarlega í túnkantinum, svo til beint fyrir ofan innsiglinguna í vörina, líkt og Flekkuleiði í Flekkuvík. Þar lét Flekka gamla dysa sig er hún hafði útsýn að innsiglingunni. Gæti verið eitthvað hliðstætt.
Gengið var frá Hellum handan Strandarvegar og litið á Árnastekk skammt suður af bænum Hellum. Um er að ræða nokkuð stórt hlaðið gerði. Birgir sagði að grjót hafi sennilega verið tekið úr gerðinu og notað í höfnina í Vogum á sínum tíma. Þó mátti vel sjá neðsta lagið, sem var orðið nokkuð jarðlægt. Inni í gerðinu er tóft. Stekkurinn sjálfur er í og utan í gerðinu að norðanverðu. Sést vel móta fyrir honum við girðingu vestan við klapparhól, sem þar er. Ekki er vitað hvaða Árna stekkurinn eða gerðið er nefnt eftir. Sumir telja að þar eigi að standa Arnarstekkur, en úr þeirri missvísun verður sennilega seint ráðið. Minjarnar standa fyrir sínu samt sem áður.
Haldið var upp á línuveginn ofan Reykjanesbrautar eftir að kíkt hafði verið á hlaðna refagildru í vörðu á leiðinni skammt norðan við Hrafnagjá. Staðnæmst var við vörðu við Knarrarnesselsstíginn.

Knarrarnessel

Vatnsstæði í Knarrarnesseli.

Stígnum var fylgt áleiðis í selið. Hann er greinilegur svo til alla leiðina ofan Hrafnagjár. Bæði eru vörður eða vörðubrot við hann og þá er hann einkar áberandi þar sem farið er yfir gjárnar á leiðinni. Þar sem farið er yfir Klifgjá eru t.d. vörður beggja vegna gjárinnar. Á einum stað, á klapparholti, er selsstígurinn markaður í klöppina. Skammt vestan við brúna yfir gjána er lítil varða við svonefnt Knarranesselsgreni. Ofan við gjána er Leiflagsvatnsstæðið. Norðvestan þess eru leifar tveggja skotbyrgja refaskyttna, en þriðja byrgið og það fallegasta er sunnan við vatnsstæðið. Vatnsstæðið sjálft var alveg þurrt þegar komið var að því, þrátt fyrir allnokkra rigningu fyrr um daginn.
Þegar komið er að Knarrarnesseli sjást tvær vörður. Norðan þeirra er vatnsstæðið. Allnokkurt vatn var í því að þessu sinni, enda er þetta vatnsstæði talið hafa verið með þeim stærri í heiðinni. Selið sjálft er á nokkuð sléttri hraunhæð og í því eru margar tóftir. Sjá má a.m.k. tóftir á fjórum stöðum. Hverri þyrpingu fylgir stekkur. Fyrst var fyrir fyrir selsstaða með eldhúsi og þremur öðrum rýmum. Stekkur var norðan hússins. Vestan við það sást móta fyrir miklu mun elda seli með tveimur tóftum. Þær eru greinilega með öðru lagi en eldri seltóftirnar. Stekkur þess virðist vera leifar jarðlægs stekks svolítið vestar. Forvitnilegt væri að grafa þessar minjar upp, svona til að athuga hvernig lag þeirra er. Sunnar er stærstu tóftirnar. Í þeim er eldhús og tvö rými (hefðbundið sel á Reykjanesi). Suðvestan þess er tvískiptur stekkur. Handan við holtið að suðaustanverðu eru tóftir enn annars sels. Í því er eldhús og viðverurými. Vestan þess eru tvær aðrar tóftir með hleðslum á milli.Â
Talið er að flestir bæir í Knarraneshverfi hafi haft þarna selstöðu. Getið erum Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er stór gjá. Gjáselsgjá er framhald hennar til vesturs. Gjáselið sást vel þegar gengið var áleiðis uppí Knarrarnesselið.

Knarrarnessel

Stekkur í Knarrarnesseli.

Ofan við Knarrarnessel, með stefnu í Keili, er Vandarholt. Nafnið er talið vera vegna þess að vandasamt hafi verið að reka fé niður svæðið og yfir gjána.
Norðaustan frá selinu er Breiðagerðisslakki. Í apríl 1943 hrapaði þýsk Junkers könnunarflugvél niður í þennan slakka. þrír fórust, en loftskeytmaðurinn komst lífs af í fallhlíf, lítið meiddur. hann var fyrst þýski flugliðinn sem bjargaðist úr flugvél sem skotin var niður yfir Íslandi og jafnframt sá fyrsti sem Bandaríkjamenn tóku höndum í Seinni heimstyrjöldinni. Lík þeirra sem fórust voru grafin í upphafi við Brautarholt á Kjalarnesi, en eftir stríðið voru þau flutt í Fossvogskirkjugarðinn. Enn sést nokkuð af brotum úr vélinni.
Suðsuðaustur af Knarranesseli eru Eldborgir, níu gígar í röð er mynda m 900 metra langan hrygg. Austast í Eldborgum er skotbyrgi við greni. Vestast eru Eldborgargren, s.s. Hólsgrenið, Skútagrenið, Hellisgrenið, Brúnagrenið og Sléttugrenin. Við þau eru a.m.k. þrjú hlaðin skotbyrgi. Eitt af þeim er sýnu stærst. Ekki var að sjá að refur væri í grenjunum núna, því ef svo væri færi það varla á milli mála.

Knarrarnes

Byrgi við Eldborgargrenin.

Gíslhóll er stuttu ofan við eystri hluta Eldborganna og á honum er varða. Spölkorn sunnan hólsins er Eldborgarvatnsstæðið eða Gíslhólsvatnsstæðið í gróinni lægð og situr vatn þar langt fram, eftir sumri.
Norðnorðvestan við Eldborgargrenin var gengið fram á enn eitt skotbyrgið í heiðinni. Sunnan þess er greni. Austan þess er mjög gömul hlaðin refagildra yfir grenjaopi. Svo er að sjá sem þarna séu minjar enn eldri veiðiaðferða en síðar tíðkaðust með skotvopnum. Líklegt er að maðurinn hafi löngum reynt að vinna þarna á skolla, enda mörgum grenjum fyrir að fara á tiltölulega litlu svæði.
Landamerki Minna-Knarrarness eru sögð liggja í beina línu upp í Eldborgargrenin. Ofan þeirra er “bjartur” áberandi hraunhóll. Neðar, á breiðu “hvalbaksklapparholti” eru merki eftir gamla vörðu. Tvær minni hafa verið hlaðnar úr henni, en eru nú einungis brot. Fótur þeirra gömlu stendur enn. Í beina línu frá Eldborgargrenjunum í gegnum þessa vörðu er enn annað gróið vörðubrot á klapparhól. Af honum sést íbúðarhúsið í Minna-Knarrarnesi. Á milli er áberandi stór varða á klapparhól skammt norðan línuvegarins. Þessar vörður mynda beina línu frá Minna-Knarrarnesi í ljósan hraunhól skammt ofan við vestasta gígin í Eldborgum, þ.e. örskammt vestar og ofar en þar sem flest Elborgargrenin eru.
Frábært veður – sól og stilla – og hiti. Gangan tók 3 klst og 43 mín.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd eftir Sesselju G. Guðmundsdóttur.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Auðnasel
Gengið var frá Skrokkum við Reykjanesbraut að Fornaseli. Selið er í vel grónum hól og sést hann vel frá brautinni. U.þ.b. 10 mínútna gangur er að því. Ýmist er sagt að selið hafi verið frá Þórustöðum eða Landakoti og þá heitið Litlasel. Í selinu er ein megintótt með tveimur vistarverum og hlöðnu gerði sunnan við. Vestar er hlaðinn stekkur. Ofan við hólinn er vatnsstæði í krika og minni tótt með tveimur vistarverum.
Gengið var áfram inn á heiðina að Auðnaseli. Selstæðið sást vel framundan, ofan við Klifgjána. Í því eru fjórar tóttir, tveir hlaðnir stekkir, auk kvíar. Varða er á holti vestan við tóttirnar. Handgert vatnsstæði er norðvestan við miðtóttirnar. Það var þurrt að þessu sinni líkt og önnur
vatnsstæði í heiðinni. Annar stekkurinn er uppi á holtinu ofan við selin.
Gengið var til suðsuðvesturs að Knarrarnesseli. Á leiðinni var gengið um Breiðagerðisslakka og tækifærið notað og kíkt á flak þýsku Junkervélarinnar, sem þar var skotin niður í aprílmánuði 1943.
U.þ.b. 20 mínútna gangur er á milli seljanna. Í Knarrarnesseli eru þrjár megintóttir, auk einnar stakrar, og þrír hlaðnir stekkir. Vatnsstæðið er í hól norðvestan við selið, fast við selsstíginn. Það var líka þurrt að þessu sinni, greinilega nýþornað. Í Knarrarnesseli er í heimildum getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel.
Gengið var niður selsstíginn að Klifgjánni, yfir og niður hana við vörðu á brún hennar og áfram niður að Skrokkum.
Frábært veður.