Knarrarnessel

Knarrarnessel er nokkurn spöl ofan Klifgjár. Þar er flatlendast miðað við önnur selstæði á Vatnsleysustrandarheiðinni (Strandarheiðinni). Selstígurinn er ekki augljós frá Klifgjánni og upp í selið, en hann liggur fast við Knarrarnesselsvatnsstæðið, sem er um 100 metrum neðan og norðan við nyrstu tóftirnar. Þar er oftast vatn enda vatnsstæði þetta með þeim stærstu í heiðinni.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Selstæðið er stórt með mörgum tóftum. Þar má finna átta slíkar, misjafnlega stórar og margflóknar. Þrjá hlaðna stekki er að sjá í selstöðunni. Fjöldi stekkja benda jafnan til fjölda selja á viðkomandi svæði. Hins vegar má geta þess að stekkir virðast ekki alltaf augljósir. Þannig má ætla að enn einn stekkurinn hafi fylgt austustu tóftunum þremur. Þær eru í grónum krika ofan við hinatr tóftirnar. Sjá má móta fyrir hleðslu milli tveggja húsa, en alls eru rýmin í þeim fimm að tölu. Tvær tóftanna eru nokkuð heillegar og jafnvel sjá hveru stór rýmin hafa verið. Í nyrstu tóftinni mældust innanrýmin 140×280. Það er svipað hlutfall og í öðrum rýmum annarra tófta, ekki einungis í þessu seli heldur og fleirum. Ein tóftin, sú syðsta í vestanverðri selstöðunni, er greinilega stærst umfangs. Hún hefur verið með fleiri rýmum en hinar, líklega einum fjórum, en það er óalgengt í seljum á Reykjanesskaganum, sem jafnan hefur þrjú slík, þ.e. eldhúsið með sérinngangi og búr og svefnaðstöðu með sameiginlegum inngangi.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

Því, sem hér er lýst, er einungis ályktun út frá því sem sést á yfirborðinu, en ef grafið yrði í rústirnar gæti ýmislegt annað komið í ljós, s.s. tengsl einstakra rýma innbyrðis. Stekkirnir eru svipaðir að gerð, tvö hólf. Þó má sjá móta fyrir bogadreginni hleðslu við endann á vestasta stekknum. Hlaðin kví er skammt norðan við selstæðið. Líklega höfðu flestir bæir í Knarrarnesshverfi selstöðu þarna og í heimildum er getið um Litla-Knarrarnessel og Ásláksstaðasel á þessum stað. Rétt fyrir ofan selið er nokkuð stór gjá sem snýr bergvegg til sjávar og er Gjáselsgjá framhald hennar til suðvesturs. Þegar bornar eru saman selstöður í landnámi Ingólfs sést að Vatnsleysuströnd og Grindavík hafa nokkra sérstöðu varðandi sel því þar er mörgum bæjum hrúgað saman á einn stað en svo virðist ekki vera annarsstaðar, hvorki á Rosmhvalanesi, Höfnum, né Hraunabæjum og ekki að sjá slíkt í Kjósarsýslu.
Nýleg lambaspörð voru í einni tóftinni (í apríl).

Breiðagerðisslakki

Brak á slysstað ofan Breiðagerðisslakka.

Norðaustur af selinu er flak úr þýskri Junkers könnunarherflugvél. Hún varð fyrir skotárás bandarískrar orrustuflugvélar í april 1943. Þrír fórust en loftskeytamaðurinn komst lífs af í fallhlíf. Hann var fyrsti þýski flugliðinn, sem bjargaðist úr flugvél sem skotin var niður yfir Íslandi og jafnframt sá fyrsti sem Bandaríkjamenn tóku höndum í Seinni heimstyrjödlinni. Sjá má merkingar á einstökum hlutum.
Auðnasel er norðaustur af Knarrrarnesseli, innan við slakkann, Breiðagerðisslakka, sem þýska flugvélin hrapaði í og er um 20. mín. gangur milli seljanna.

Breiðagerðissel - Auðnasel

Auðnasel – Uppdráttur ÓSÁ.

Selið liggur suðvestur við hæð eina, sem heitir Sýrholt. Margar tóftir eru þar mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfi, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði. Á hæsta hólnum í seltúninu er varða. Vatnsstæði hefur ekki fundist við selið, en heimildir segja það vera norðvestur af því, nokkurn spöl neðan þess, og sunnan við háan og brattan klapparhól.

Tóftir í Auðnaseli eru á fjórum stöðum. Líklega eru þó austari tóftirnar tvær huti af sama selinu. Fjórða tóftin gæti mögulega verið tyrfður tvískiptur stekkur, en tveir aðrir, hlaðnir stekkir eru skammt norðar. Á tveimur stöðum við selstöðuna eru göt undir klapparhæðum. Svo virðist sem hleðslur séu niðri í þeim, en gróið er yfir þær að mestu.

Fornusel

Fornusel í Sýrholti – uppdráttur ÓSÁ.

Klofinn klapparhæð er vestan við selstöðuna, en ekki er að sjá hleðslur í henni. Vel hefði mátt nýta hana sem nátthaga og er ekki óliklegt að það hafi verið gert.

Fornuselshæða er getið í Jarðabókinni 1703 og þá þar sem Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu í seli áður en þeir bæir fengu selstöðu í Sogaseli. Líklega eru Fornuselshæðir þær sömu og nefnt hefur verið Sýrholt. Þar eru fornar tóftir á a.m.k. tveimur stöðum, auk stekkst í gjá.
Hrafnslaupur er í Klifgjá neðan Auðnasels.
Strokkar heita klapparhæðir ofan Reykjanesbrautar. Í austurátt frá Strokkum er lítið selstæði, sem heitir Fornasel. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum, en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og vera frá Landakoti. Í Jarðabókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annaðs el á þessum slóðum, en bókin nefnir Fornuselshæðir, sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni, sbr. framangreint.

Fornasel

Fornassel – uppdráttur ÓSÁ.

Fornasel sést vel frá Reykjanesbrautinni, enda ekki langt ofan við hana. Sennilega er það eitt aðgengilegasta selið á Reykjanesskaganum – eitt hið minnsta, en jafnframt eitt hið fallegasta. Hæð (sem áreiðanlega hefur heitið eitthvað fyrrum) skilur að tóftir selstöðunnar. Þær eru annars vegar sunnan við hana og hins vegar norðan við hana. Á milli er vatnsstæðið.
Sunnanverðar tóftirnar eru umfangsmeiri. Þær eru vel grónar, en þó má ennþá sjá móta fyrir tveimur rýmum og því þriðja skammt sunnar. Líklegt er að þar hafi eldhúsið verið. Austan við tóftirnar er skeifulaga gerði, huganlega nátthagi.
Vatnsbólið hefur verið bæði áreiðanlegt og gott. Hlaðið hefur verið umhverfis það og sést enn móta fyrir hleðslunum austan þess og norðan.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ.

Norðaustan við vatnsstæðið er tvískipt tóft, að öllum líkindum stekkur. Hann er mjög gróinn og ber merki húss, en ólíklegt er að svo hafi verið.
Fróðlegt er að skoða, bera saman og greina hinar ýmsu selstöður á Reykjanesskagnum, en FERLIR hefur nú skoðað 145 slíkar. Selin hafa ekki öll verið nýtt á sama tíma, en telja má, miðað við heimildir, að um helmingur þeirra hafi jafnan verið í notkun að jafnaði. Eldri selstöður voru gerðar upp aftur og aftur og síðan ný reist að teknu tilliti til nýrra krafna og aukins rýmis, enda verður að telja mjög líklegt að haft hafi verið í seli hér á landi allt frá fyrstu búsetu og þangað til selsbúskapurinn lagðist af að mestu skömmu fyrir aldamótin 1900. Merki um slíkt má sjá í nokkrum seljanna. Þannig má og sjá, miðað við stærð rýma og gerð seljanna, hvaða sel hafi verið í notkun á svipuðum tíma. Elstu selin eru greinilega einföldust að allri gerð, en seinni tíma selin eru formlegri og rýmin stærri.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – SG – 1995

Knarrarnessel

Knarrarnessel – vatnsstæðið.