Gengið var að Gvendarstekk ofan við Voga og síðan haldið til vesturs um holtið að Gvendarbrunni. Þá lá leiðin niður í bæinn og götur þræddar að Suðurkoti. Skammt norðvestan við húsið er Suðurkotsbrunnur. Hann var skoðaður.
Gvendarstekkur er skammt vestan við þjóðveginn niður í Voga, skammt ofan hólinn Skyggni, en hann stendur rétt norðan við svokallað þurrkhús Jóns heitins Benediktssonar frá Suðurkoti (1904-1984). Ofan þurrkhússins og hólsins er trjárækt Ungmennafélgsins Þróttar frá árinu 1951. Standa lágvaxin grenitré sunnan undir fallegum, grónum, en nafnlausum hól. Ofan við hann er annar ámóta hóll og utan í honum sunnanverðum er stór tóft, sem heitir Gvendarstekkur. Þarna virðst hafa verið fjárborg, en enginn veit lengur frá hvaða bæ hún var.
Gvendarbrunnur er milli Leirdals og efstu húsanna í Vogunum. Guðmundur góði Arason Hólabiskup (1160-1237) er sagður hafa vígt brunninn. Hann er lítil hola við klappir og er oftast eitthvert vatn í henni.
Suðurkot er eitt af gömlu húsunum í Vogum. Eftir nokkra leit og eftirgrennslan hafðist upp á gamalli konu skammt frá húsinu. Aðspurð um brunninn við Suðurkot gekk hún án hiks að þúst við götukantinn norðvestan við húsið, benti á hana og sagði: “Þarna er hann, brunnurinn, sem var.” Lok hafði verið sett á hann svo enginn færi sér að voða og með tímanum hefur hlaðist utan í og ofan á hann grús frá veginum. Í dag er þessum merkilega brunni lítill sómi sýndur, en tilvalið væri að gera hann upp og hafa hann sýnilegan fyrir áhugasama vegfarendur sem dæmigerðan brunn við hús eða bæ á Ströndinni fyrrum daga.
Frábært veður. Gangan tók 59 mínútur.
Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnseysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.