Færslur

Óttarsstaðasel
Gengið var frá Rauðamel að fjölfarinni Alfaraleiðinni á milli Innesja og Útnesja. Henni var fylgt að Gvendarbrunni, einum þeirra mörgu brunna, sem Guðmundur góði vígði í sinni tíð.
Norðvestan brunnsins er Gvendarbrunnshæð.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðafjárskjól.

Sunnan í því er ónefnt fjárskjól frá Óttarsstöðum, hlaðið fyrir skúta. Skammt vestan brunnsins var beygt s Óttarstaðaselsstíg. Önnur nöfn á stígnum eru Skógarstígur og Raftastígur (og stundum Rauðamelsstígur). Skömmu eftir að komið fyrir sporðinn á Selhrauni þegar yfir línuveginn var komið, var beygt út af honum til vesturs með fallegum hraunhól. Gengið var inn í stóra sprungu og síðan inn eftir henni þangað til komið var að stóru jarðfalli. Þar blasti við mikil hleðsla fyrir víðum skúta. Haldið var upp úr jarðfallinu og beygt til norðvesturs.

Brennisel

Brennisel.

Eftir stutta göngu yfir tiltölulega gróið hraun var komið upp á hraunhól. Norðan hans var jarðfall og í því mikil vegghleðsla, algerlega heil. Utar er hleðsla fyrir skúta, en í miðju jarðfallinu er greinileg tótt. Hún sést ekki yfir sumarið því birkið vex svo til alveg yfir hana og yllir jarðfallið. Þarna er sennilega um Brennisel að ræða, sem gamlar heimildir eru til um. Það var sel notað til kolagerðar, en ofar í Almenningunum var hrístaka svo til allra bæja með ströndinni, allt fram á 19. öld. Ef vel er leitað þarna skammt norðar má finna enn eldra og líklegt kolasel, í lægð við hraunhól. Hleðslurnar eru vel mosavaxnar og erfitt að greina þær, en tótt er enn greinileg handan við hleðslurnar. Sama er að segja um þetta sel og hið fyrra, gróðurinn þekur það nú alveg yfir sumartímann.

Álfakirkja

Álfakirkja.

Sunnan Brennisels er mikill krosstapi, sennilega þriðji Krosstapinn á þessu svæði, sem getið er um. Hann ber heitið Álfakirkja. Í honum norðanverðum er fjárhellir með hleðslum fyrir munna. Ef haldið er til austurs frá Álfakirkjunni, að Óttarsstaðaselsstíg og honum fylgt spölkorn til suðurs má sjá vörðu á hægri hönd. Hún stendur við jarðfall og neðan hennar eru vandlegar hleðslur fyrir skúta. Hann er lágur mjög en víður um sig. Hrísrunni vex fyrir opið og því er mjög erfitt að komast að honum yfir sumartímann.

Óttarsstaðasel

Meitlaskjól.

Nokkru sunnar eru Meitlarnir, Stóri-Meitill og Litli-Meitill. Þetta eru greinileg fjárskjól í hlofnum hraunhólum vestan stígsins (Meitlaskjól). Rétt eftir að gengið er yfir Stóruhæðir og skömmu áður en komið er upp úr litlu dalverpi við svonefnda Meitla og í Óttarsstaðasel má sjá lítinn fjárhelli vinstra megin við stíginn, Meitlahelli eða Meitlaskjól. Hleðslur eru fyrir munnanum og framan við opið. Líklega hafa þær verið notaðar sem kví því þarna er gott skjól fyrir suðaustanáttinni. Óttarsstaðasel eru rústir tveggja seljahúsa og snúa þau göflum saman. Aðrar dyrnar hafa snúið í austur og hinar í vestur. Göng og tvær vistarverur hafa verið í hvoru húsi. Í seljum á Reykjanesskaga voru vistarveran venjulega með sama inngang og búr eða geymsla, en eldhúsið til hliðar með sérinngangi.

Óttarsstaðasel

Óttarsstaðasel – nátthagi.

Vatnsstæðið er rétt hjá tóttunum í austur. Í vestur er hraunhryggur og vestan í honum er stórt fjárskjól með miklum hleðslum. Vel má greina hlaðinn stekk sunnan við selið og sunnan þess er greinilegur nátthagi.
Í litlum skúta suðvestan við vatnsstæðið er einnig gott vatn að finna. Þar vestan við er Þúfuhóll og Þúfhólsskjól vestan í honum. Hjá hólnum liggur Rauðhólastígur að Tóhólum og Rauðhól. Í Tóhólum er Tóhólahellir og í Rauðhól er Rauðhólshellir. Stígurinn liggur síðan um Skógarnef yfir á Mosana hjá Bögguklettum um Dyngnahraun, hjá Lambafellunum að Eldborg, um Jónsbrennur undir Trölladyngju að Höskuldarvöllum.

Óttarsstaðir

Óttarsstaðasel – Þúfhólsskjól.

Annar Mosastígur liggur frá Óttarsstaðaselsstíg norðan við Bekkina áleiðis upp í Skógarnef. Þá götu fóru Hraunamenn er þá vantaði mosa til eldiviðar.
Vestan við Óttarsstaðarsel, í uþ.b. 15 mín. fjarlægð, er Lónakotssel. Í því eru þrjár byggingar. Auk Lónakotssels voru þar sel frá tveimur hjáleigum Óttarstaða, Eyðikoti og Kolbeinskoti. Austan við Óttarsstaðasel, í u.þ.b. 20 mín. fjarlægð, er Straumssel. Þar var búið fram á miðja 19. öld, eða þangað til bærinn brann. Enn austar eru gömul sel frá Þorbjarnarstöðum, Gjásel og Fornasel. Nýlega var grafið í tvær tóttir þess síðarnefnda og kom í ljós að þær voru frá 1500-1600.
Frábært veður.

Óttarsstaðasel

Tóftir Óttarsstaðasels.

Ólafsgjá

Gengið var að Pétursborg á Huldugjárbarmi. Ágætir Vogabúar slógust með í för. Eftir u.þ.b. 20 mín gang var komið að Huldugjá. Fjárborgin á barminum er bæði heilleg og falleg. Hún mun vera fyrrum sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum, nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar (1839-1904), sem talinn er hafa hlaðið borgina. Vesturveggurinn hefur haldið sér nokkuð vel, en austurveggurinn hefur aðhyllst jörðinni – að hluta a.m.k. Fjárhústóftir eru sunnan við borgina.

Arasel

Ara(hnúka)sel – tilgáta.

Frá borginni var stefnan tekin að Arahnúkaseli undir Stóru-Aragjá þar sem hún er hæst. Gjáinn er ein margra er marka landssigið að sunnanverðu í Vogaheiði. Hrafnagjá og Háibjalli markar það að norðanverðu. Þarna eru heillegar tóftir vænlegs sels á skjólgóðum stað með hið ágætasta útsýni niður heiðina að Vogum. Hlaðnir stekkir eru við selið líkt og í öðrum hinum 140 seljum á Reykjanesskaganum.
Þá var stefnan tekin að Stapaþúfu, stundum nefnd Stapaþúfuhóll, norðan Brunnastaðasels. Þúfan er hár kringlóttur hóll. Gamlar sagnir frá 18. öld kveða á um manngerðar hleðslur undir hólnum. Tilgangur ferðarinnar var m.a. að kanna hvort svo gæti verið. Ljóst er að norðanundir hólnum hafa verið gamlar hleðslur er lognast hafa út af. Þó sást enn móta fyrir hleðslum í samræmi við heimildir. Fokið hefur að hólnum og hann gróið upp, en grjótið stendur út undan honum við fótstykkið. Á þúfunni var hreiður með þremur eggjum og bak við stein austan í henni fundust þrír torkennilegir peningar.

Gjásel

Gjásel í heiðinni.

Frá Stapaþúfu var haldið að Gjáslel, einu fallegasta selinu á Reykjanesskaganum. Þar eru, auk stekkjar og kvíar, átta keðjuhústóftir undir gjárveggnum. Líklega er þetta eitt fyrsta raðhús hér á landi. Óvíst er frá hvaða bæ selstaðan þarna var. Það er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703. Talið er þó líklegt að Hlöðunesmenn hafi haft þarna í seli, en sel þeirra var þá þarna ofar í heiðinni, en aflagt. Enn sést þó móta fyrir tóftum og stekk hins gamla Hlöðunesssels á stakri torfu, sem nú er að blása upp.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Haldið var niður heiðina að Ólafsgjá (6357678-2218860) og bæði varðan og gjáin skoðuð. Í gjána féll Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi á aðfangadag árið 1900 er hann var að huga að fé. Mikil leit var gerð að honum, en hann fannst ekki fyrr en u.þ.b. 30 árum síðar er menn voru að vitja kindar, sem átti að hafa fallið í gjána. Þar sást þá hvar Ólafur sat enn á klettasyllu í gjánni, en fótleggirnir höfðu fallið dýpra niður í hana.

Ólafur Þorleifsson

Bein Ólafs eftir fundinn.

Af verksummerkjum að dæma virtist hann hafa lærbrotnað við fallið í gjána, en reynt að nota göngustaf sinn til að komast upp aftur, en hann þá brotnað. Lengi vel var talið að Ólafi hafi verið komið fyrir í heiðinni og hlutust af því nokkur leiðindi.
Gátan leystist hins vegar 30 árum seinna, sem fyrr sagði. Gjáin, sem er á sléttlendi, er fremur stutt og þröng, en æði djúp. Frásögn af Ólafi og atburði þessum má lesa í Lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum árum sem og í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.

Loks var gengið í Hólssel ofan Huldugjár og tóftirnar og hleðslurnar í og við hraunhólinn skoðaðar. Hólssel er það sel, sem einna erfiðast er að ganga að sem vísu í heiðinni. Það er á milli þriggja hóla austan við Pétursborgina ofan við Huldugjá.

Pétursborg

Pétursborg.

Í bakaleiðinni var skyggnst eftir Þóruseli, sem á að var stutt frá Reykjanesbrautinni nálægt Vogaafleggjara. Einn staður kemur sterklegar til greina en aðrir; hár klofinn hraunhóll, gróinn bæði að utan- og innaverðu. Sjá má móta fyrir tóftarhlutum utan í honum, í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Komið var við í Gvendarstekk skammt ofan við Voga. Ýmislegt bendir til að hann sé gömul fjárborg, en enginn veit nú frá hvaða bæ hann var. Gvendarbrunnur er þarna skammt rá, einn af fjórum á Reykjanesskaganum. Ekki er með öllu útilokað að nafngiftin tengist að einhverju leyti Guðmundi góða, líkt og brunnurinn. Hann gæti t.d. hafa átt viðdvöl þar í skjólinu á leið sinni um Ströndina, án þess að nokkurt sé um það fullyrt. Taldið t.a.m. að sá góði maður hafi aldrei litið marga brunnnafna sína augum, ekki frekar en Grettir grettistökin víða um land.
Að göngu lokinni var þátttakendum boðið í kaffihlaðborð í Vogunum.
Skínandi veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Pétursborg

Pétursborg.

Alafarleið

Alfaraleiðin er gamla þjóðleiðin milli Innnesja og Útnesja frá Hafnarfirði. Hún er vel mörkuð í landið og því tiltölulega auðvelt að fylgja henni þar sem hún liggur framhjá Þorbjarnastöðum í Hraunum (fór í eyði um 1930), sunnan Reykjanesbrautar, og áfram vestur úr. Í rauninni er hægt að fylgja gömlu leiðinni frá Hvaleyri og áleiðis að Hvassahrauni þar sem hún kemur niður að Reykjanesbrautinni ofan við hin nýju mislægu gatnamót, sem þar eru.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – stekkurinn (réttin).

Fyrsta varðan á leiðinni er nú inni á miðjum golfvellinum á Hvaleyri. Önnur varða, eða vörðubrot, er skammt sunnar. Þriðja varðan er sunnan Reykjanesbrautar. Síðan tekur við svæði Kapelluhrauns þar sem búið er að fjarlægja yfirborðslagið og þar með götuna. Gatan kemur síðan aftur í ljós við kapelluna á u.þ.b. 10 metra kafla og loks þar sem hún kemur niður Brunann ofan við tjarnirnar við Gerði. Efst á Brunanum við götuna er varða. Þá liðast hún með tjörnunum að austan- og síðan sunnanverðu í áttina að Miðmundarhæð. Hún er augsýnileg þar sem Miðmundarvarða stendur uppi á hæðinni. Gengið er framhjá túngörðum Þorbjarnastaða.

Þorbjarnarstaðir

Gránuskúti – fjárskjól ofan Þorbjarnarstaða.

Að þessu sinni var tækifærið notað og kíkt á tóftirnar sem og Gránuskúta. Þvottastæðið er neðan við Þvottastíginn þar sem er hlaðinn bakki út í tjörnina sunnanverða. Vel má sjá hleðlsur gamla brunnsins í tjörninni. Ofan við götuna er Þorbjarnarstaðaréttin undir breiðum klapparhól. Hún er ekki ósvipuð Óttarstaðaréttinni, með tvo dilka, lambakró og fallega hlöðnum veggjum.
Alfaraleiðin liggur áfram framhjá Miðmundarholti (-hól), yfir Straumsselsstíg. Gatan er vörðuð meira og minna, ýmist með heilum vörðum eða endurupphlöðum.

Alfaraleið

Alfaraleiðin.

Þá var komið að Gvendarbrunni, litið á fjárskjólið nálægt honum og síðan haldið áfram suður götuna. Brunnurinn er hola í miðjum grasbala á lítilli klapparhæð við götuna. Sagan segir að Guðmundur góði Hólabiskup hafi blessað hann á sínum tíma. Þegar litið var í brunninn var ekki frá því að Gvendur sæist í honum ef vel var að gáð. Að minnsta kosti virtist hann alltaf gæjast fram þegar kíkt var ofan í brunninn.

Alfaraleiðin

Alfraleiðin – varða.

Annars eru Gvendarbrunnarnir a.m.k. fjórir á Reykjanesi, þ.e. þessi við Alfaraleiðina, Gvendarbrunnur í Vogum, Gvendarbrunnar í Heiðmörk og Gvendarhola í Arnarneshæð. Það er líkt með Gvendarbrunnum og Grettistökum að Gvendur og Grettir hafa að öllum líkindum aldrei litið hvorutveggja augum. En það er nú önnur saga. Sá átrúnaður fylgdi svonefndum Gvendarbrunnum (sem talið var að Guðmundur biskup hinn góði hefði blessað) að vatnið í þeim læknaði mein. Þannig var t.d. talið gott að bera það á augu eða á sár svo þau myndu gróa. Nokkrar heilar og fallega hlaðnar vörður eru á þessum kafla leiðarinnar. Skammt vestan Gvendarbrunns má sjá leifar af tveimur stórum vörðum, sem verið hafa beggja vegna götunnar.

Óttarsstaðaborg

Óttarsstaðaborg (Kristrúnarborg).

Þegar komið er framhjá Óttarstaðaborginni (Kristrúnarborginni) liggur Óttarstaðaselsstíg (Skógargötuna) yfir hana. Smalaskálahæðir eru á hægri hönd. Skammt vestar liggur Lónakostsselsstígur yfir götuna og upp í hæðir. Varðan ofan við selið sést vel. Nú verður gatan óljósari, en ef farið er hægt og rólega og tekin mið af kennileitum og vörðubrotum má sjá hvar gatan hallar til vesturs og líður svo í bugðum áleiðis að Hvassahrauni. Skammt sunnan Reykjanesbrautar, áður en komið er á móts við Hvassahraun, hverfur hún svo til alveg, en Reykjanesbrautin hefur verið lögð yfir götuna á þessum kafla.
Alfaraleiðin er skemmtileg gönguleið um fallegt hraun. Á leiðinni ber margt fyrir augu, sem áhugavert er að staldra við og skoða nánar.
Að ganga þennan kafla leiðarinnar tekur u.þ.b. 2 klst.

Alafaraleið

Gvendarbrunnur.

Gvendarbrunnur

Í örnefnalýsingum fyrir Óttarsstaði er getið um þrjá hella eða skúta á tiltölulega afmörkuðu svæði í Óttarsstaðalandi. Fyrst segir frá Sjónarhólshelli sunnan undir Sjónarhól þeim er áheldur Sjónarhólsvörðu; “fjárhellir í stórum krika. Hann hefur verið yfirreftur, en nú er það dottið mikið niður”. Rétt norður af hólnum eru tvær vörður; Ingveldarvörður. Ekki er vitað hvernig stendur á nafngiftinni. Jakobsvarða er austar, á Jakobshæð. Norðan undir hæðinni er ævargamall stekkur eða rétt. Enn mótar vel fyrir hleðslunum.

Sjónarhólsskúti

Sjónarhólshellir.

Vestan við Rauðamel, sem nú er horfinn, en í staðinn komin djúp malargryfja, er mikil klapparhæð, sem nefnist Smalaskáli. Uppi á hæðinni er skotbyrgi eða leifar eftir smalahús. Syðst í hæðinni er Smalaskálaker, sporöskjulaga jarðfall með rauðamelshól í botni. Norðvestan undir hæðinni er Smalaskálaskúti, “hellir, sem fé lá í. Þar var skógarhrísla stór, sem óx fyrir hellismunnanum”: Suðvestur af Smalaskála er fjárborgin gamla; Borgin, fráþví fyrir aldamót. Kona, er Kristrún hét og bjó á Óttarsstöðum, hlóð hana ásamt vinnumanni sínum.
Skógargata (seljagata Óttarsstaða) lá suður yfir Rauðamel litla og austan við Rauðamel stóra (gryfjan), en Suðurnesjavegurinn liggur á milli Rauðamelanna. Austan við Rauðamel stóra er Gvendarbrunnshæð og þar liggur landamerkjalínan í Gvendarbrunn, sem er stór hola í klöpp við elsta veginn (Alfaraleiðina) milli Innnesja og Útnesja. “Í Gvendarbrunnshæð vestanverðri er fjárhellir, kallaður Gvendarbrunnshellir”.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnsskjól.

Í annarri örnefnalýsingu segir að Smalaskálahellir sé ofan við Jakobsvörðu, “upp undir vegi, neðan Smalaskála. Þar austar, rétt neðan vegar, er Nónhólakerið, sem er skammt frá Rauðamel”. Í þessari lýsingu er hvorki minnst á Sjónarhólshelli né Gvendarbrunnshelli, en getið bæði um Sjónahól og Sjónarhólshæðir “upp af Vatnagörðum”, sem eru á vesturmörkum Óttarsstaða að Lónakotsmörkum. Við þau, Óttarsstaðamegin er Vatnagarðahellir (Vatnagarðafjárskjól/-skúti). Hellisins er getið bæði í lýsingum fyrir Óttarsstaði og Lónakot. Lónakotsfólkið mun þó hafa nýtt hann fyrir fé og stundum jafnvel til annars. Í örnefnalýsingu fyrir Straum er bæði getið um Gvendarbrunnshæð og Gvendarbrunn, en ekki um Gvendarbrunnshelli. Hann er rétt utan við austurmörk Straums, en mörkin liggja bæði um hæðina og brunninn.

Smalaskálaskjól

Smalaskálaskjól.

Gengið var fyrst frá Reykjanesbraut niður að Sjónarhólshelli. Hann er reyndar suðaustan við Sjónarhól, a.m.k. miðað við nútímaáttir. Hlaðið er fyrir skúta sunnan í stóru ílöngu jarðfalli. Um er að ræða mikla hleðslu. Skútinn hefur verið allgott skjól og rúmar fjölda fjár.
Þá var gengið til suðausturs, áleiðis að Smalaskála. Ofan við Reykjanesbrautina, samhliða henni, liggja bæði gamli Keflavíkurvegurinn sem og gamli Suðurnesjavegurinn. Keflavíkurvegurinn hefur að vísu verið lagður ofan í Suðurnesjaveginn, en sumsstaðar má sjá þann síðarnefnda hlyggjast út undan þeim fyrrnefnda.

Gvendarbrunnshellir

Gvendarbrunnshellir.

Upp undir Suðurnesjaveginum eru hleðslur fyrir skúta í grónu jarðfalli. Varða er skammt frá því. Gróið er fyrir opið og birkihríslur loka honum að hluta. Skúti þessi er norðvestan við Smalaskála, “upp undir (gamla) vegi”. Hér gæti verið um svonefndan Smalaskálaskúta að ræða.
Þá var haldið áfram til suðausturs vestan Rauðamels, í áttina að Gvendarbrunnshæð. Gengið var yfir á Alfaraleiðina og henni síðan fylgt til vesturs uns komið var að Gvendarbrunni. Austar eru Draugadalir og vestar eru Löngubrekkur. Brunnurinn er, eins og fyrr var lýst, “stór hola í klöpp”. Umhverfis holuna er gróið gras og einhver tíma hefur verið þar varða, sem nú er fallin. Hleðsla undir girðinguna á mörkum Óttarsstaða og Straums liggur þarna upp hraunið. Norðvestan við brunninn, undir hæðinni, er vel gróið. Þar er Gvendarbrunnshellir. Nokkrar hleðslur eru fyrir skúta og þar hefur verið þokkalegt fjárskjól þótt það hafi verið mót suðri.
Hraunið þarna er stórbrotið, en tiltölulega auðvelt yfirverðar. Ekki er ólíklegt að á svæðinu kunni að leynast ýmislegt forvitnilegt. T.d. var gengið fram á rýmilegan skúta í hrauninu skammt norðvestan Smalaskála (Smalaskálahæðar). Hann er niðri í litlu jarðfalli. Í því vex myndarleg birkihrísla. Þegar farið var niður í jarðfallið og undir hrísluna kom opið í ljós. Fyrir innan er hið ágætasta skjól.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 11 mín.

Vatnagarðahellir

Vatnagarðahellir.

Hafnarfjörður

Gísli Sigurðsson skrifaði grein í Fjarðarfréttir árið 1969 undir fyrirsögninni “Á fornum slóðum“:

“Eftir að Gvendur góði hafði um árabil verið barinn til bókarinnar, gerðist hann prestur. Hann gerðist andheitari öðrum kennimönnum og ölmusubetri, svo að fáir fóru tómhentir af hans fundi. Hann fór víða um land og vígði björg og vöð, sem hættuleg höfðu verið mönnum. Hann vígði og brunna, svo að hverjum þeim, er úr drakk, varð það að heilsulind og til margs konar blessunar. Enda þótt Gvendur væri Norðlendingur, kom hann ekki svo lítið við hér á Suður- og Inn-Nesjum og vígði hér fleiri brunna en víða annars staðar.
Skulu þeir nú taldir:

Gvendarbrunnur í Vogum

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Vogum.

Sunnan byggðar í Vogum er tjörn lítil og norðan hennar er einn þessara brunna. Hann var um aldabil heilsulind mönnum og skepnum. Má vera að svo sé enn.

Gvendarbrunnur í Hraunum
Gvendarbrunnur í Hraunum er rétt við gamla alfaraveginn. Hann er þar í klöpp undir Gvendarbrunnshæð. Fer ekki mikið fyrir honum, en margur mun á ferð sinni eftir þeim gamla vegi hafa þáð þar svaladrykk. Ekki er vatnið gott á bragðið, svo að mér varð að orði, er ég drakk úr honum fyrir nokkrum árum, það sama og kerlingin sagði: „Beiskur ertu, drottinn minn.“

Gvendarbrunnur í Arnarnesi

Arnarnes

Arnarnes – Gvendarbrunnur.

Norðan í Arnarnesi vestanverðu, rétt spölkorn neðan gömlu alfaraleiðarinnar, er lind lítil og rennur úr henni lækur til sjávar. Upp frá honum liggur stígur, sem svo hefur verið fáfarinn um síðustu aldir, að hann er mosagróinn. En vatnið er gott og heilnæmt.

Gvendarbrunnar í Rauðhólum
Þar höfum við fjórða brunninn, sem Gvendur góði vígði. Frá honum streymir nú það lífsins vatn, sem nær allri Stór-Reykjavík er af brynnt daglega. Eiga fáar höfuðborgir jafn gott vatn íbúum sínum.
Af þessu má sjá, að Gvendur hinn góði var á undan sinni samtíð, því með vígslu staða, eins og þessara brunna, hefur hann bent okkur á hve nauðsynlegt það er, okkur mannanna börnum, að ganga með virðingu um náttúruna og vernda hana, þar sem því verður við komið, gegn allri óhelgi.
Alls staðar kringum okkur eru staðir, minni og stærri, sem okkur ber að ganga um með virðingu og beita getu okkar stöðum þessum til verndar, helga þá með virðulegri umgengni. Hér í Hafnarfirði og nágrenni er margt slíkra staða:

Varðan við Vörðustíg

Hafnarfjörður

Varða við Vörðustíg.

1887 var samningur gerður um land Akurgerðis. Landið var merkt vörðum. Nú er þessi varða ein uppistandandi af þeim. Vörðu þessa ber okkur því að vernda.
[Ákjósanlegast er að ganga að vörðunni um stíg frá Merkurgötu.]

Arnarklettarnir tveir
Við Arnarhraun eru klettar tveir með þessu nafni. Hér hefur rétt verið stefnt, því þeir eru nú verndaðir og eiga að standa eins og þeir eru.

Hellisgerði
Gerðið við Fjarðarhelli var tekið í vernd ágætis félagsskapar, félagsins Magna. Þar átti að vernda svipmót Hafnarfjarðarhrauns. Nú er staður þessi verndaður með því að þar er upp risinn einn hinn sérkennilegasti og fegursti garður á landi hér.

Fagrihvammur

Hafnarfjörður

Fagrihvammur ofan Brúsastaða. Loftmynd 1954.

Hvammur vestur í hrauni, ofan Brúsastaða, hefur, að því er ég bezt veit, verið skráður sem einn þeirra staða, er verndaður verður til framtíðar, að hann haldi og beri svipmót hraunsins.

Ástjörn

Ástjörn

Ástjörn.

Hún hefur nú verið skráð verndarsvæði og um eitt hundrað metra landspilda allt um kring tjörnina. Var þessa þörf, þar sem við tjörnina er einn gróðursælasti staður hér nærlendis, með fjölbreyttari gróðri en annars staðar er að finna. Og þar verpir í sefinu
flórgoðinn, sérkennilegur fugl.

Bæjarrústir í Setbergstúni
Ofanvert við heyhlöðu á Setbergi eru rústir gamla Setbergsbæjarins. Það er trúa mín, að þar sé að finna allar þær gerðir bæja, sem tíðkazt hafa á landi hér frá landnámstíð fram til síðustu aldamóta. Þessar rústir ber að varðveita, þar til hægt er að grafa þær upp af vísindalegri nákvæmni.

Setbergssel

Setbergssel.

Þá eru ekki selja-rústirnar fáar í nágrenninu, sem vernda ber. Fjárborgir eru margar hér í nágrenninu og ber að varðveita þær. Sumar eru reyndar komnar undir verndarvæng Þjóðminjasafns Íslands og þeirra ágætu manna, er þar starfa.
Lesari góður, vafalaust munt þú geta bent á miklu fleiri staði en hér eru nefndir. Gerðu það, og þú munt eiga í huga þér ánægjulega hugsun um gott verk, sem ekki kostaði mikið.
En umfram allt, tileinkaðu þér með ferðum um nágrennið þá unaðslegu staði, sem eru allt um kring og kalla á þig og þitt óeigingjarna starf, þína óeigingjörnu umhyggju.”

Heimild:
-Fjarðarfréttir, 4. tbl. 01.09.1969, Á fornum slóðum – Gísli Sigurðsson, bls. 3.

Kaldársel

Kaldársel – fjárborg.

Hafnarfjörður

Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 1966, “Við veginn” – Magnús Jónsson, bls. 21:

“Ein af mestu umferðaræðum landsins er sem kunnugt er vegurinn milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Verður í þessu greinarkorni rabbað um eitt og annað, sem í hugann kemur á hluta af þeirri leið, þótt lesandinn megi ekki búast við að verða að miklum mun fróðari eftir lesturinn en áður.

Magnús Jónsson

Magnús Jónsson.

Nú liggur þar steyptur vegur, en á fyrsta tugi aldarinnar og lengur stóð þar yfir vegarlagning sem leysti reiðgötuna af hólmi, því að um eiginlega lagða vegi var ekki að ræða hér á landi áður fyrr, heldur troðninga, sem ekki voru mótaðir af mannshöndinni, nema e.t.v. nokkrum steinum rutt frá. Þó varð ekki komizt hjá víðtækara verki, þar sem brunahraun þöktu stór landsvæði. En þar hafa menn lyft huganum frá bakraun og tilbreytingarlausum átökum við hnullunga og eggjagrjót með myndum þjóðsagna: Ósk um að berserkir — sem tæpast voru mannlegar verur — fengju rutt vegi um þessa farartálma á svipstundu svo að segja. Samkvæmt þjóðtrúnni gerðist slíkt bæði í Berskerkjahrauni á Snæfellsnesi og í Ögmundarhrauni, sem snemma í byggðarsögu landsins rann í sjó fram milli Krýsuvíkur og Grindavíkur. Er þar auðséð, hvar hægt en óstöðvandi hraunrennslið hefur umkringt mannvirki, — en það er önnur saga.
En hvað sem líður fyrstu myndun lestaveganna í hraununum, þá voru þeir „framtíðarvegir‘, sem fullnægðu kröfum kynslóðanna, sem ekki þekktu annað betra. Öðru máli var að gegna með mýrarkenndan jarðveg. Verið gæti, að margur lestarmaður hafi með nokkurri furðu hugleitt þá tilhögun skaparans, að nautgripunum skyldi veitast svo furðu auðvelt að ösla um þau fen og foræði, sem klyfjahestarnir hans urðu að krækja fyrir, já, oft um langan veg, þótt ekki bæru þeir alltaf þunga úttekt úr kaupstaðnum. „Betri er krókur en kelda“, segir máltækið. Og því er það, að einhverjir fyrstu lagðir vegir voru hinar svonefndu brýr, sem lagðar voru stytztu leið yfir mýrarfláka víða um land. Er eitt slíkt örnefni til hér í nágrenni Hafnarfjarðar, sem er „Dysjabrú’. Er það vegarkaflinn þaðan sem hrauninu sleppir og að Garðaholti. Þetta mannvirki er að sjálfsögðu kennt við Dysjar, eitt þekktasta býli Garðahrepps.

Í þéttbýlinu

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður 1903.

Þegar halda skyldi t. d. frá Reykjavík til Suðurnesja, var farið um Hafnarfjörð með sjónum. Við Arahús — nánast þar sem nú er Strandgata 21 — var æði stutt bilið á milli sjávarmálsins og hins byggða bóls. Þegar suður fyrir lækinn kom tók við samfelld möl, allt að Hamrinum syðri. Þótt sjávarmöl sé þreytandi manna- og hestafótum, hefur hún ýmsa kosti. Leikvöllur barnaskólans frá 1902 var t. d. þakinn þykku lagi af henni. Varð sársaukinn hverfandi lítill, þótt dottið væri á hnéð í áflogum, þar sem hver steinn var svo afsleppur að hann ýttist frá. Fátt er líka heppilegra til að drýgja með steinsteypu en hrein möl úr fjörunni. En nú er velmegunin svo mikil, að sjaldan er talað um að drýgja nokkurn skapaðan hlut í þeirri merkingu. Gatan sveigði fljótlega upp á við, þar sem enn er farið að Ásmundarbakaríi og Prentsmiðju Hafnarfjarðar, því næst þar sem er Suðurgata 24, en síðan skáhallt upp hallann í átt til sjávar. Fljótlega hallaði því undan fæti aftur og var þá komið á Flensborgarmöl.
Algengt vegarstæði er „milli hrauns og hlíða“, t.d. upp í Kaldársel, en hér hefur það sennilega verið bezt „milli mýrar og malar“, ef svo mætti segja. Síðan lá leiðin með sjónum, líkt og þegar nú er farið að verksmiðjunni Lýsi og mjöl, og reyndar alveg suður að Hvaleyri. Var svo farið beint af augum framhjá Hjörtskoti og komið niður þar, sem síðar var sandnámið verðmæta og umdeilda.

Byggðin að baki

Kapellan

Kapellan – sjá má leifar Alfaraleiðarinnar, sem lá framhjá henni.

Þá tekur hraunið við. Það er með ávölum klettabungum og gróðri sízt minni en í Hafnarfjarðarhrauni. Er m. a. athyglisvert að skoða, hve langir geta orðið leggir blómanna, sem vaxa í klettasprungunum og teygja sig í birtuna. — Nokkurn veginn sézt hvar lestavegurinn liggur, allmiklu nær sjónum en hinir, og hafa hófar og mannsfætur jafnvel unnið nokkuð á sléttum klöppunum. Þó er vegna gróðurs hraunsins ekki eins auðvelt að fylgja þessari slóð í Hellnahrauninu eins og var til skamms tíma, þegar í Kapelluhraunið kom. Það er miklu yngra, sennilega runnið á 12. öld að áliti jarðfræðinga, ólíkt hinu fyrra að allri gerð og liggur ofan á því. Í annálum er hraunbreiðan öll nefnd Nýjahraun. Í því er lítill gróður annar en mosi, og þess vegna var það, að elzta leiðin um það sást svo vel. Hún þaktist öll grasi og öðrum lággróðri eins og græn rönd um gráan mosann, frá norðri til suðurs, sundurslitin af nýrri veginum sunnan til í hrauninu, — lá þar upp fyrir hann.

Selsvellir

Alfaraleiðin.

Flest sagnorð um þann hluta þessarar hraunbreiðu, sem hér er átt við, mætti hafa í þátíð. Hraunið er þar tæpast lengur til, en hefur verið rutt, flutt og sléttað með stórvirkum vélum. Enn hefur þó verið þyrmt mannvirkinu gamla, Kapellunni, sem hraunið næst sjónum dregur nafn af. Í Jólablaði Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1961 er ýtarleg grein um mannvirki þetta eftir Ólaf Þ. Kristjánsson skólastjóra. Það var vorið 1950 að lítið líkneski fannst þar af einum dýrlinga kaþólsku kirkjunnar, heilagri Barböru. Þótti hún góð til áheita gegn hvers konar eldsvoða, sprengingum og þvíumlíku. Þar sem, eins og áður er sagt, að hraunið rann eftir landnámstíð, verður manni ósjálfrátt að tengja þennan dýrling einnig bæn gegn eldgosum og hraunrennsli.

Suðurnesjavegur

Suðurnesjavegurinn vestan Straums.

Vart er hægt að hugsa sér meiri andstæður en hljóðlátt bænarandarp innan veggja þessa litla frumstæða húss og svo þau gífurlegu umsvif nútímans, sem fyrirhuguð eru svo að segja á þessum stað, þar sem er álverksmiðjan. Er þá að engu orðin hin kyrrláta fegurð byggðarlagsins í Hraununum, sem svo er nefnt. Hraunin taka við þar sem Kapelluhrauni sleppir. Kapellan lá alveg við elzta veginn — reiðgötuna, — nýrri vegurinn var ofan við hana, en sá nýjasti — steypti — er fáa metra neðan við.
Í Hraununum voru allmargir bæir, en þó aldrei kirkjustaður. Er nú aðeins Straumur í byggð og Óttarsstaðir tveir. Bærinn í Þýzkubúð stendur enn, og ber hann og nánasta umhverfið vitni um hinn hverfandi eiginleika, nægjusemi. Ofar, þar sem vegirnir liggja nú, voru m. a. Stóri- og Litli-Lambhagi og Þorbjarnarstaðir.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleið.

Efst liggur reiðgatan gamla, en nú verður aftur erfiðara um vik að fylgja henni. Hraunið, sem við nú erum komin í, er ein af stærri hraunbreiðunum og nefnist Almenningur. Er það álíka gróið og Hellnahraun, en líkist enn meira Hafnarfjarðarhrauni. Elzti vegurinn liggur þar fjærst sjónum eins og áður er sagt, en nýrri vegurinn hjá rauðamelsnámunum og síðan klettaborginni Smalaskála. Steypti vegurinn er enn neðar. Við elzta veginn, nokkru nær Hafnarfirði en rauðamelurinn er tekinn, er vatnsbólið Gvendarbrunnur. Þar var tilvalinn áningarstaður, alltaf vatn og svo grasi gróið sléttlendi umhverfis.
Er slíkt óvíða að finna á Reykjanesskaga, og bendir m.a. til þess hið langa nafn hreppsins, sem við nú nálgumst, Vatnsleysustrandarhrepps. En hér hvílumst við (til næstu jóla?) Hér hefur líka Guðmundur biskup Arason hvílt lúin bein, eftir að hafa vígt vatnslind þessa, öldum og óbornum til blessunar. Og hér umhverfis vatnsbólið sat einn bekkur úr Barnaskóla Hafnarfjarðar fyrir 30 árum, ásamt kennaranum, Friðrik Bjarnasyni. Fölleitur, brúneygur drengur úr þeim hópi hefur stundum farið þangað síðan.”

Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 24.12.1966, Við veginn – Magnús Jónsson, bls. 21.

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – Gamli barnaskólinn fyrir miðju.

Vogar

Gengið var að Gvendarstekk ofan við Voga og síðan haldið til vesturs um holtið að Gvendarbrunni. Þá lá leiðin niður í bæinn og götur þræddar að Suðurkoti. Skammt norðvestan við húsið er Suðurkotsbrunnur. Hann var skoðaður.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Vogum.

Gvendarstekkur er skammt vestan við þjóðveginn niður í Voga, skammt ofan hólinn Skyggni, en hann stendur rétt norðan við svokallað þurrkhús Jóns heitins Benediktssonar frá Suðurkoti (1904-1984). Ofan þurrkhússins og hólsins er trjárækt Ungmennafélgsins Þróttar frá árinu 1951. Standa lágvaxin grenitré sunnan undir fallegum, grónum, en nafnlausum hól. Ofan við hann er annar ámóta hóll og utan í honum sunnanverðum er stór tóft, sem heitir Gvendarstekkur. Þarna virðst hafa verið fjárborg, en enginn veit lengur frá hvaða bæ hún var.
Gvendarbrunnur er milli Leirdals og efstu húsanna í Vogunum. Guðmundur góði Arason Hólabiskup (1160-1237) er sagður hafa vígt brunninn. Hann er lítil hola við klappir og er oftast eitthvert vatn í henni.

Suðurkot

Suðurkot í Vogum.

Suðurkot er eitt af gömlu húsunum í Vogum. Eftir nokkra leit og eftirgrennslan hafðist upp á gamalli konu skammt frá húsinu. Aðspurð um brunninn við Suðurkot gekk hún án hiks að þúst við götukantinn norðvestan við húsið, benti á hana og sagði: “Þarna er hann, brunnurinn, sem var.” Lok hafði verið sett á hann svo enginn færi sér að voða og með tímanum hefur hlaðist utan í og ofan á hann grús frá veginum. Í dag er þessum merkilega brunni lítill sómi sýndur, en tilvalið væri að gera hann upp og hafa hann sýnilegan fyrir áhugasama vegfarendur sem dæmigerðan brunn við hús eða bæ á Ströndinni fyrrum daga.
Frábært veður. Gangan tók 59 mínútur.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnseysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Gvendarstekkur

Gvendarstekkur.