Kálfatjörn

FERLIRsfélagi, sem var á göngu á Vatnsleysuströnd fyrir skömmu, rak skyndilega auga í ártalsstein í fjörunni. Hann hafði margsinnis áður gengið sömu leið, en nú voru birtuskilyrðin (tilsýndarskilyrðin) hins vegar mun betri en áður, þ.e. sólin í réttu sjónarhorni svo skuggi féll á ártalið.

Ártalssteinninn

Við fyrstu skoðun virtist ártalið vera 1710, en þegar betur var að gáð varð ljóst að þarna hafði verið meitlað ártalið 1910. Nían var ógreinileg, en ef tekið er mið af öðrum ártalssteinum á Vatnsleysuströnd, t.am. ártalssteininum í gömlu sjóbúðinni við Kálfatjörn frá 1674 og kirkjubrúarsteininum frá 1790 þá er sjöan ógjarnan með þverstriki.
Hvað um það – ártalssteinn er þarna í fjörunni – og það merkilegur fyrir margra hluta sakir. Hann stendur efst í fjörunni, beint ofan við eina ákjósanlegustu og fallegustu vörina Ströndinni. Bærinn ofan við er á fornu bæjarstæði. Vörin var og notuð lengur en aðrar varir, löngu eftir að varanleg höfn var komin í Voga. Í beina línu við steininn er hleðsla; sökkull eða neðsta röð á hlöðnu húsi. Sjórinn hefur tekið annað af húsinu til sín, en eftir stendur þessi einharða röð til merkis um mannvirkið. Líklega hefur ártalssteinninn verið hornsteinn hússins eða byrgisins, en önnur slík eru allnokkur með ströndinni. Fyrrnefndur ártalssteinn neðan við Kálfatjörn er einnig dæmi um leifar af gömlu hlöðnu húsi, sem heimildir voru til um; verbúð.
SteinaröðinEf sá siður hefur haldist á Vatnsleysuströnd að ártalsmerkja verbúðirnar þá er þarna á þessu strandsvæði um að ræða leifar verbúðar frá 1910. Einungis vantar því þrjú ár upp á að þær geti talist til fornleifa. Þótt leifarnar séu í hættu vegna fyrirhugaðra framkvæmda á svæðinu hefur FERLIR ákveðið að geyma nákvæma opinberunnar hans og minjanna enn um þriggja ára skeið. Í rauninni eru þær dæmigerðar fyrir mannvirki á Ströndinni, líkt og lesa má um í heimildum manna er stunduðu vermennsku og sjósókn fyrr á öldum.
Ártalssteinninn er ágætt dæmi um fornleif, sem fengið hefur verið að vera óáreitt vegna þess að enginn hefur veitt henni sérstaka athygli. Þar með er hún orðin mikilvægur minnisvarði um aðrar slíkar, sem finna má á Vatnsleysuströnd – ef varið yrði tíma í að gaumgæfa allt það er þar mætti finna, hvort sem vegna skráðra heimilda eða einfaldlega nákvæmisleitar á svæðinu.
Ártalssteinn þessi er að vísu frá árinu 1910, en verðmæti hans eykst hins vegar í réttu hlutfalli við tilsettninguna. Hann gefur bæði til kynna að aðrar sjóbúðir á Vatnsleysuströnd hafi að öllum líkindum haft slíka hornsteina að geyma og að þá megi enn finna í nálægð leifa slíkra búða sem og í þeim búðum sem enn standa. Bara það gefur tilefni til enn einnar FERLIRsferðarinnar um strandir Vatnsleysustrandar!
Vatnsleysuströnd