Færslur

Litlahraun

Ekið var niður að Selöldu og steinbrúin skoðuð yfir Vestari-læk, fjárhúsin undir Strákum, bærinn á Fitjum og fjárhúsin, borgirnar sunnan við Eyri, tóttir bæjarins Eyri og gamla selið frá Krýsuvík þar undir austanverðri Selöldunni.

Selalda

Selalda – fjárborg.

Við skoðun á syðri fjárborginni kom í ljós að hún virðist vera meira en bara fjárborg. Vestan í henni eru tóttir húsa. Annað þeirra virðist jafnvel hafa verið notaður við fráfærur eða jafnvel ílangt hús. Norðan við hann er greinilega gamall vörslugarður og annar þvert á hann að austanverðu.
Haldið var upp á Rauðaskriðu og áfram austur eftir Krýsuvíkurbjargi. Staðnæmst var í Litlahrauni við svonefndan “Gvendarhelli” eða Gvendarstekk skv. korti JG af umhverfi Krýsuvíkur.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

Sennilega er þarna um einhverja “tilhliðrun” að ræða því Gvendur hafði fé í helli í Klofningum um tíma. Ekki er þó útilokað að hann hafi einnig haft fé þarna um sinn, enda benda mannvirkin til nokkurra umsvifa. Þarna eru m.a. talsverð tótt og skúti inn í henni undir hraunhól. Sunnar, við nef hraunhólsins, er hlaðið fyrir fjárskjól og garðhleðsla austan við það. Þegar verið var að skoða svæðið kom í ljós hlaðin rétt í hraunkrika vestan við fjárskjólið. Lítið gerði er hlaðið utan í réttina, en inni í henni er skúti og hleðslur fyrir framan hann.

Litlahraun

Litlahraun – fjárskjól.

Skammt norðar, með hraunkantinum, er þröngt gat og þar undir virðist vera hellir. Uppi á hólnum, lítillega norðar, er fallin gömul varða. Greinilegt er að hraunhólar þessir hafa verið notaðir, annað hvort sem selsstaða eða fjárhald um tíma. Norðan við stóru tóttina er hola er virðist hafa verið brunnur. Í skjóli þar skammt norðar eru verksummerki er benda til þess að þar kunni að vera tótt eða tóttir undir og við nokkuð sléttan hraunvegg, er veitt hefur skjól fyrir austanáttinni. Enn norðar með hraunkantinum er ágætt vatnsstæði.
Líklegt verður að telja að Krýsuvíkur-Gvendur frá Læk hafi haft fé þarna í Litlahrauni um tíma og jafnvel hafi átt fjárhúsið, réttina og fjárskjólið, sem þar eru.
Frábært veður í fögru umhverfi.

Litlahraun

Minjar í Litlahrauni – uppdráttur ÓSÁ.

Ólafsgjá

Gengið var að Pétursborg á Huldugjárbarmi. Ágætir Vogabúar slógust með í för. Eftir u.þ.b. 20 mín gang var komið að Huldugjá. Fjárborgin á barminum er bæði heilleg og falleg. Hún mun vera fyrrum sauðabyrgi frá Tumakoti í Vogum, nefnt eftir Pétri Andréssyni bónda þar (1839-1904), sem talinn er hafa hlaðið borgina. Vesturveggurinn hefur haldið sér nokkuð vel, en austurveggurinn hefur aðhyllst jörðinni – að hluta a.m.k. Fjárhústóftir eru sunnan við borgina.

Arasel

Ara(hnúka)sel – tilgáta.

Frá borginni var stefnan tekin að Arahnúkaseli undir Stóru-Aragjá þar sem hún er hæst. Gjáinn er ein margra er marka landssigið að sunnanverðu í Vogaheiði. Hrafnagjá og Háibjalli markar það að norðanverðu. Þarna eru heillegar tóftir vænlegs sels á skjólgóðum stað með hið ágætasta útsýni niður heiðina að Vogum. Hlaðnir stekkir eru við selið líkt og í öðrum hinum 140 seljum á Reykjanesskaganum.
Þá var stefnan tekin að Stapaþúfu, stundum nefnd Stapaþúfuhóll, norðan Brunnastaðasels. Þúfan er hár kringlóttur hóll. Gamlar sagnir frá 18. öld kveða á um manngerðar hleðslur undir hólnum. Tilgangur ferðarinnar var m.a. að kanna hvort svo gæti verið. Ljóst er að norðanundir hólnum hafa verið gamlar hleðslur er lognast hafa út af. Þó sást enn móta fyrir hleðslum í samræmi við heimildir. Fokið hefur að hólnum og hann gróið upp, en grjótið stendur út undan honum við fótstykkið. Á þúfunni var hreiður með þremur eggjum og bak við stein austan í henni fundust þrír torkennilegir peningar.

Gjásel

Gjásel í heiðinni.

Frá Stapaþúfu var haldið að Gjáslel, einu fallegasta selinu á Reykjanesskaganum. Þar eru, auk stekkjar og kvíar, átta keðjuhústóftir undir gjárveggnum. Líklega er þetta eitt fyrsta raðhús hér á landi. Óvíst er frá hvaða bæ selstaðan þarna var. Það er ekki nefnt í Jarðabókinni 1703. Talið er þó líklegt að Hlöðunesmenn hafi haft þarna í seli, en sel þeirra var þá þarna ofar í heiðinni, en aflagt. Enn sést þó móta fyrir tóftum og stekk hins gamla Hlöðunesssels á stakri torfu, sem nú er að blása upp.

Ólafsgjá

Ólafsgjá og Ólafsvarða.

Haldið var niður heiðina að Ólafsgjá (6357678-2218860) og bæði varðan og gjáin skoðuð. Í gjána féll Ólafur Þorleifsson úr Hlöðuneshverfi á aðfangadag árið 1900 er hann var að huga að fé. Mikil leit var gerð að honum, en hann fannst ekki fyrr en u.þ.b. 30 árum síðar er menn voru að vitja kindar, sem átti að hafa fallið í gjána. Þar sást þá hvar Ólafur sat enn á klettasyllu í gjánni, en fótleggirnir höfðu fallið dýpra niður í hana.

Ólafur Þorleifsson

Bein Ólafs eftir fundinn.

Af verksummerkjum að dæma virtist hann hafa lærbrotnað við fallið í gjána, en reynt að nota göngustaf sinn til að komast upp aftur, en hann þá brotnað. Lengi vel var talið að Ólafi hafi verið komið fyrir í heiðinni og hlutust af því nokkur leiðindi.
Gátan leystist hins vegar 30 árum seinna, sem fyrr sagði. Gjáin, sem er á sléttlendi, er fremur stutt og þröng, en æði djúp. Frásögn af Ólafi og atburði þessum má lesa í Lesbók Morgunblaðsins fyrir nokkrum árum sem og í bókinni Hrakningar og heiðarvegir, 3. bindi, eftir Pálma Hannesson og Jón Eyþórsson.

Loks var gengið í Hólssel ofan Huldugjár og tóftirnar og hleðslurnar í og við hraunhólinn skoðaðar. Hólssel er það sel, sem einna erfiðast er að ganga að sem vísu í heiðinni. Það er á milli þriggja hóla austan við Pétursborgina ofan við Huldugjá.

Pétursborg

Pétursborg.

Í bakaleiðinni var skyggnst eftir Þóruseli, sem á að var stutt frá Reykjanesbrautinni nálægt Vogaafleggjara. Einn staður kemur sterklegar til greina en aðrir; hár klofinn hraunhóll, gróinn bæði að utan- og innaverðu. Sjá má móta fyrir tóftarhlutum utan í honum, í skjóli fyrir suðaustanáttinni. Komið var við í Gvendarstekk skammt ofan við Voga. Ýmislegt bendir til að hann sé gömul fjárborg, en enginn veit nú frá hvaða bæ hann var. Gvendarbrunnur er þarna skammt rá, einn af fjórum á Reykjanesskaganum. Ekki er með öllu útilokað að nafngiftin tengist að einhverju leyti Guðmundi góða, líkt og brunnurinn. Hann gæti t.d. hafa átt viðdvöl þar í skjólinu á leið sinni um Ströndina, án þess að nokkurt sé um það fullyrt. Taldið t.a.m. að sá góði maður hafi aldrei litið marga brunnnafna sína augum, ekki frekar en Grettir grettistökin víða um land.
Að göngu lokinni var þátttakendum boðið í kaffihlaðborð í Vogunum.
Skínandi veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Pétursborg

Pétursborg.

Vogar

Gengið var að Gvendarstekk ofan við Voga og síðan haldið til vesturs um holtið að Gvendarbrunni. Þá lá leiðin niður í bæinn og götur þræddar að Suðurkoti. Skammt norðvestan við húsið er Suðurkotsbrunnur. Hann var skoðaður.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Vogum.

Gvendarstekkur er skammt vestan við þjóðveginn niður í Voga, skammt ofan hólinn Skyggni, en hann stendur rétt norðan við svokallað þurrkhús Jóns heitins Benediktssonar frá Suðurkoti (1904-1984). Ofan þurrkhússins og hólsins er trjárækt Ungmennafélgsins Þróttar frá árinu 1951. Standa lágvaxin grenitré sunnan undir fallegum, grónum, en nafnlausum hól. Ofan við hann er annar ámóta hóll og utan í honum sunnanverðum er stór tóft, sem heitir Gvendarstekkur. Þarna virðst hafa verið fjárborg, en enginn veit lengur frá hvaða bæ hún var.
Gvendarbrunnur er milli Leirdals og efstu húsanna í Vogunum. Guðmundur góði Arason Hólabiskup (1160-1237) er sagður hafa vígt brunninn. Hann er lítil hola við klappir og er oftast eitthvert vatn í henni.

Suðurkot

Suðurkot í Vogum.

Suðurkot er eitt af gömlu húsunum í Vogum. Eftir nokkra leit og eftirgrennslan hafðist upp á gamalli konu skammt frá húsinu. Aðspurð um brunninn við Suðurkot gekk hún án hiks að þúst við götukantinn norðvestan við húsið, benti á hana og sagði: “Þarna er hann, brunnurinn, sem var.” Lok hafði verið sett á hann svo enginn færi sér að voða og með tímanum hefur hlaðist utan í og ofan á hann grús frá veginum. Í dag er þessum merkilega brunni lítill sómi sýndur, en tilvalið væri að gera hann upp og hafa hann sýnilegan fyrir áhugasama vegfarendur sem dæmigerðan brunn við hús eða bæ á Ströndinni fyrrum daga.
Frábært veður. Gangan tók 59 mínútur.

Heimildir m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir á Vatnseysuströnd – Sesselja G. Guðmundsdóttir – 1995.

Gvendarstekkur

Gvendarstekkur.