Litlahraun

Ekið var niður að Selöldu og steinbrúin skoðuð yfir Vestari-læk, fjárhúsin undir Strákum, bærinn á Fitjum og fjárhúsin, borgirnar sunnan við Eyri, tóttir bæjarins Eyri og gamla selið frá Krýsuvík þar undir austanverðri Selöldunni.

Selalda

Selalda – fjárborg.

Við skoðun á syðri fjárborginni kom í ljós að hún virðist vera meira en bara fjárborg. Vestan í henni eru tóttir húsa. Annað þeirra virðist jafnvel hafa verið notaður við fráfærur eða jafnvel ílangt hús. Norðan við hann er greinilega gamall vörslugarður og annar þvert á hann að austanverðu.
Haldið var upp á Rauðaskriðu og áfram austur eftir Krýsuvíkurbjargi. Staðnæmst var í Litlahrauni við svonefndan “Gvendarhelli” eða Gvendarstekk skv. korti JG af umhverfi Krýsuvíkur.

Gvendarhellir

Í Gvendarhelli.

Sennilega er þarna um einhverja “tilhliðrun” að ræða því Gvendur hafði fé í helli í Klofningum um tíma. Ekki er þó útilokað að hann hafi einnig haft fé þarna um sinn, enda benda mannvirkin til nokkurra umsvifa. Þarna eru m.a. talsverð tótt og skúti inn í henni undir hraunhól. Sunnar, við nef hraunhólsins, er hlaðið fyrir fjárskjól og garðhleðsla austan við það. Þegar verið var að skoða svæðið kom í ljós hlaðin rétt í hraunkrika vestan við fjárskjólið. Lítið gerði er hlaðið utan í réttina, en inni í henni er skúti og hleðslur fyrir framan hann.

Litlahraun

Litlahraun – fjárskjól.

Skammt norðar, með hraunkantinum, er þröngt gat og þar undir virðist vera hellir. Uppi á hólnum, lítillega norðar, er fallin gömul varða. Greinilegt er að hraunhólar þessir hafa verið notaðir, annað hvort sem selsstaða eða fjárhald um tíma. Norðan við stóru tóttina er hola er virðist hafa verið brunnur. Í skjóli þar skammt norðar eru verksummerki er benda til þess að þar kunni að vera tótt eða tóttir undir og við nokkuð sléttan hraunvegg, er veitt hefur skjól fyrir austanáttinni. Enn norðar með hraunkantinum er ágætt vatnsstæði.
Líklegt verður að telja að Krýsuvíkur-Gvendur frá Læk hafi haft fé þarna í Litlahrauni um tíma og jafnvel hafi átt fjárhúsið, réttina og fjárskjólið, sem þar eru.
Frábært veður í fögru umhverfi.

Litlahraun

Minjar í Litlahrauni – uppdráttur ÓSÁ.