Færslur

Gjásel

Í bók Árna Óla, Strönd og Vogar – Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs, fjallar hann um “Selstöður í heiðinni” – Vogaheiði.

Árni Óla

Árni Óla.

“Seljarústir segja sína sögu um búskaparháttu fyrr á öldum. Landnámsmenn fluttu með sér frá Noregi þann sið að hafa í seli. Og íslenzka bændastéttin var fastheldin á þetta, því að um þúsund ár hafa selin staðið.

Þegar Vatnsleysuströnd byggðist, munu hafa verið mjög góðir hagar í heiðinni. Hver jörð átti þá sitt sel, og sennilega hefir þá verið vatnsból hjá hverju seli. En er gróður gekk til þurrðar, jarðvegur breyttist og uppblástur hófst, þá hverfur vatnið víða. Í Jarðabók Árna og Páls er getið um 12 selstöður, en viðkvæðið er oftast, að þar sé vatnsskortur til mikils baga, og sum selin sé að leggjast niður þess vegna. Þó er enn haft í seli á flestum eða öllum jörðunum, en sum selin hafa verið færð saman. Selin hafa því upphaflega verið fleiri.
Hér verða nú taldar seljarústirnar í Vogaheiði og Strandarheiði, og er aðallega stuðzt við frásögn Benjamíns Halldórssonar og lýsingar hans á staðháttum.

Selhólar

Selhólar.

1. Selhólar heita skammt fyrir ofan Voga. Þar sést fyrir gömlum seltóftabrotum. Vatnsból þess sels hefir verið í Snorrastaðatjörnum.

Nýjasel

Nýjasel.

2. Nýjasel er við Snorrastaðatjarnir ofanverðar. Þar hafa verið glöggvar seltóftir fram til þessa. (Þegar leitað er Nýjasels verður það ekki auðfundið. Fylgja þarf gjánni  uns komið er að tóftunum, sem eru harla óljósar. Fyrir þá/þau er þekkja til seltófta er þarna þó augljós selstaða, en lítilmátleg hefur hún verið í þá tíð; þrjár litlar tóftir og stekkur – þrátt fyrir allt dæmigerð sem slík á þessu svæði.)

3. Þórusel er skammt austur af Vogum. Er þarna allstórt svæði, sem einu nafni nefndist Þórusel.

Þórusel

Þórusel.

Þar sjást nú engin merki seltófta [sem er reyndar ekki rétt] og ekkert vatnsból er þar nærri. Þjóðsagnir herma, að fyrrum hafi verið stórbýli, þar sem nú heitir Þórusker hjá Vogavík, og hafi þar verið 18 hurðir á járnum.

Þórusel

Þórusel.

Býli þetta var kennt við Þóru þá, er selstaðan dregur nafn af. Þórusker var utan við Vogavíkina og þótti fyrrum vera hafnarbót, enda þótt það kæmi ekki upp fyrr en með hálfföllnum sjó. Alldjúpt sund var milli skersins og lands, en nú er þar kominn hafnargarður, sem tengir skerið við land. Norður af Þóruskeri em 4—5 sker, sem nefnd eru Kotasker, og yfir þau fellur sjór á sama tíma og hann fellur yfir Þórusker. Norðvestur af Þóruskeri eru 2 allstórir boðar, sem nefnast Geldingar. Þar á ábúandi Þóruskers að hafa haft geldinga sína. Geldingarnir koma úr sjó nokkru fyrir stórstraumsfjöru, en í smástraum sjást þeir ekki. Milli þeirra og Þóruskers er fremur stutt sund, sem ekki er bátgengt um stórstraumsfjöru. Á milli Geldinganna er mjótt og djúpt sund og er þar hvítur sandur í botni.

Arahnúkasel

Arahnúkasel.

4. Arahnúkssel er hjá Stóru-Aragjá (Litla-Aragjá er nokkru neðar) og er þangað röskur hálfrar stundar gangur frá Vogum. Í Arahnúksseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún þar umhverfis, en vatn mun þar ekki nærlendis. Túnið var seinast slegið 1917.

Vogasel

Vogasel eldri.

5. Gamla-Vogasel er austast í svonefndu Vogaholti. Þar eru greinilegar seltóftir og nokkuð stórt seltún, en vatn mun þar ekki vera.

Dalssel

Dalssel í Fagradal.

6. Dalsel er í Fagradal við samnefnt fjall. Þar hafa sézt seltóftir til skamms tíma, en Fagridalur er nú uppblásinn fyrir löngu. Dalselið mun hafa verið notað frá Grindavík (Járngerðarstöðum?).

7. Stóruvogasel.

Vogasel

Vogasel yngri.

 Jarðabókinni segir svo um Stóru-Voga: „Selstöðu vissa á jörðin eina nærri, þar sem kallað er Vogaholt, aðra vill hún eigna sér þar sem heitir Fagridalur, en þar um eru misgreiningar, því Járngerðarstaðamenn í Grindavík vilja eigna sér þessa selstöðu, þó segja menn að Fagridalur liggi fyrir norðan og vestan þann fjallahrygg, sem hæst liggur millum Grindavíkur og Vatnsleysustrandar.”

Gjásel

Gjásel.

Sennilega hafa öll þessi sel, sem hér hafa verið talin, verið frá Vogum, færzt til eftir því sem á stóð um vatn og beit. Jarðabókin segir, að Minni-Vogar hafi þá í seli með Stóru-Vogum í Vogaholti. Gera má og ráð fyrir, að hjáleigubændurnir hafi fengið að hafa skepnur sínar þar. Og eftir því sem Jarðabókin telur, hafa þá verið í selinu 21 kýr og 35 ær.

Gjásel

Gjásel.

8. Gjásel er um 3/4 klukkustundar gang frá Brunnastöðum. Þar em glöggar seltóftir, en lítið seltún. Hjá selinu er djúp gjá, nafnlaus. Í gjánni er óþrjótandi vatn, en erfitt að ná því. Benjamín gerir ráð fyrir því, að þar hafi nágrannaselin fengið vatn handa skepnum sínum og til annarra þarfa.

Brunnastaðasel

Brunnastaðasel.

9. Brunnastaðasel er austur af Gamla-Vogaseli. Mitt á milli þessara selja er Markhóll, sem skiptir löndum milli Voga og Brunnastaða. Þarna em margar og allglöggar seltóftir og allstórt seltún, en ekkert vatn. Þangað mun vera um klukkustundar gangur frá Brunnastöðum. Á Brunnastöðum var stórt bú 1703 og hafa þá verið þar í seli 16 kýr og 34 ær. Þarna eru þó taldir litlir hagar og vatnsskortur tilfinnanlegur þegar þurrkar ganga.
10. Hlöðunessel er austur af Brunnastaðaseli. Þar eru litlar og ógreinilegar seltóftir og lítið seltún. Í Jarðabókinni segir að hagar sé þar bjarglegir, en vatnsból lélegt „og hefir orðið að flytja úr selinu fyrir vatnsskort”.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – stekkur.

11. Knarrarnessel er norðaustur af Hlöðunesseli, um stundar gang frá Knarrarnesi. Þar eru margar og allglöggar seltóftir. Þar hefir verið sundurdráttarrétt, hlaðin úr grjóti, og sést vel fyrir henni.

Knarrarnessel

Knarrarnessel.

Þarna er stórt seltún og allmikið vatn í nokkuð stóru leirflagi. í miklum þurrkum hefir vatn þetta þomað, og svo var fyrir 1920, en þá var grafin niður í leirflagið nokkuð djúp hola. Komu menn þar niður á mó, er reyndist góður eldiviður, en mósvæðið takmarkast á alla vegu af hraunklöppum og var mórinn því fljótt upp urinn. Ekki er vitað, að mór hafi fundizt annars staðar í allri Strandarheiði.
Það er sízt að undra, þótt selsrústir sé hér meiri en annars staðar, því að 1703 höfðu hér 5 bæir í seli: Stóru-Ásláksstaðir, Litlu-Ásláksstaðir, Litla-Knarrarnes, Stóra-Knarranes og Breiðagerði. Á þessum bæjum öllum voru þá 22 kýr og 45 ær. Réttin mun hafa verið gerð til þess að aðskilja fé bæjanna.

Auðnasel

Auðnasel.

12. Auðnasel er austur af Knarranesseli. Þar em margar greinilegar seltóftir og allstórt seltún. Vatn er þar dálítið í brunnholu, sem ekki lekur. Brunnholan er svo sem metri að þvermáli og er sunnan við háan og brattan klapparhól.

Breiðagerðissel

Í Auðnaseli.

Af hólnum og klöppunum þar um kring rennur rigningavatn í holuna, svo að í vætutíð hefir verið þar nægjanlegt vatn, en í miklum þurrkum þraut vatnið. Vatnsból þetta er ekki í selinu sjálfu, það er norðvestur af því og nokkurn spöl neðar. Munu nú fáir vita, hvar vatnsból þetta er, og varla munu menn rekast á það nema af tilviljun. Sagt er, að Auðnabóndi hafi haft ítak í Knarranesseli, líklega vegna vatnsins þar. Í Auðnaseli munu hafa verið 11 kýr og 32 ær árið 1703.

Kolgrafarholt

Kolgrafarholt.

13. Kolgrafaholt heitir um hálfrar stundar gang frá Þórustöðum. Sýnir nafnið, að þar hefir fyrrum verið gert til kola, enda má enn sjá kolgrafir, sem sagðar eru frá Þórustöðum. En allur skógur er horfinn þar 1703, því að þá sækir jörðin kolskóg í Almenninga. Hjá Kolgrafaholti sjást engar seltóftir, en þarna var gerð allstór fjárrétt og gætu seltóftirnar þá hafa horfið. Í Jarðabókinni segir: „Selstöðu á jörðin (Þórustaðir) þar sem kallaðar eru Fornuselshæðir, þar eru hagar næsta að þrotum komnir, en vatnsból svo lakt, að fyrir þann skort er selstaðan aflögð orðin, og hefir því búandinn selstöðu að annarra láni með miklum óhægindum og langt í burtu.“

Flekkavíkursel

Flekkavíkursel.

14. Flekkuvíkursel er um 1/2 stundar gang frá Flekkuvík. Þar eru glöggar seltóftir, en ekki margar. Eru þær við berghamar hjá Hrafnagjá, sem sagt er að nái frá Reykjanesi og í sjó fram í túninu á Stóru-Vatnsleysu. Í Flekkuvíkurseli er lítið seltún, en nokkrar grasi grónar flatir austur og vestur frá selinu, með gjárbarminum. Heim að selinu er þröngt einstigi yfir gjárhamarinn. Í Jarðabókinni segir: „Selstöðu á jörðin og brúkar þar sem heitir Flekkuvíkursel, eru þar hagar viðsæmandi, en stórt mein að vatnsleysi og báglegt eldiviðartak.“

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

15. Rauðhólssel átti Stóra-Vatnsleysa. Það er við hraunjaðarinn, sem liggur frá Kúagerði, en vestur af Snókafelli, sem er úti í hrauninu. Í Rauðhólsseli eru glöggar seltóftir og allstórt seltún, undir allháum melhóli, sem nefnist Rauðhóll. Vatn er þar ekkert, en nóg vatn í Kúagerði, og þar mun líka einhvern tíma hafa verið sel.

Oddafellssel

Oddafellssel.

16. Oddafell heitir milli Keilis og Trölladyngju. Þar átti Minni-Vatnsleysa selstöðu. Þótti þangað bæði langt og erfitt að sækja, en þar voru bjarglegir hagar og vatn nægilegt.

Sogasel

Sogasel

17. Sogasel. Það er uppi í Vesturhálsi og í landi Stóru-Vatnsleysu, en þar höfðu Kálfatjörn og Bakki selstöðu.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Er þangað um 2 1/2 klukkustundar gangur frá Kálfatjörn. Umhverfis seltóftirnar, sem eru greinilegar, og kargaþýft seltúnið er allhá hringmynduð hamragirðing, en lítið op á henni til suðurs. Þar var inngangur að selinu. Þarna er skjól í flestum áttum. Fyrir sunnan selið eru Sog og eftir þeim rennur lítill lækur, sem þó getur þornað í langvarandi þurrki. Ekki er mjög langt frá selinu að Grænavatni, en þar bregzt aldrei vatn. Í þessu seli hafa sennilega verið 15 kýr og 36 ær árið 1703. [Sogasel var selstaða frá Krýsuvík, enda í þess landi, en var látið Kálfatjörn í tímabundið skiptum fyrir uppsátur.]

Hvassahraunssel

Hvassahraunssel.

18. Hvassahraunssel var vestast í Almenningum. Þar voru góðir hagar, „en vatnsból brestur til stórmeina”.”

Sel

Sel vestan Esju – ÓSÁ.

Í framangreinda umfjöllun vantar reyndar nokkrar fyrrum selstöður í heiðinni, s.s. Snorrastaðasel, Kolholtssel, Hólssel, Fornuselin, Hlöðunessel, Selsvallaselin, Hraunssel o.fl.

Heimild:
Strönd og Vogar, Selstöður í heiðinni, Úr sögu einnar sveitar í landnámi Ingólfs, Árni Óla, Reykjavík 1961, bls. 242-246.

Ströbnd og Vogar

Strönd og Vogar – Árna Óla.

Sogaselsgígur

Bæirnir Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu áður í seli á Fornaselshæð, vestan Rauðhóls norðan Keilis og síðan vestur undir Oddafelli, en fengu síðan mun betri selsstöðu í Sogaseli í skiptum við Krýsuvík fyrir uppsátur á Ströndinni.

Sogasel

Sogasel – tóftir einnar stöðunnar.

Enn má sjá leifar selstöðvanna, ekki síst í Sogagíg. Elsta selstöðin, frá Krýsuvík, er reyndar utan við gíginn, neðarlega í Sogadal. Tóftarhóllinn sést vel og enn má, ef vel er að gáð, greina þar rými.

Í Sogagígnum eru leifar þriggja selstöðva. Sú elsta er í miðjum gígnum. Þar má enn greina rými, en þær, sem eru austar og norðar undir gígveggjunum eru augljósar. Þar eru rýmin augljós, s.s. eldhús, baðstofa og búr. Rétt er í gígnum sem og stekkir og kvíar. Gerði norðan nyrstu selstöðunnar hefur nú orðið fyrir áhrifum nýlegrar jarðskjálftarhrinu.

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Þegar farið er til suðurs frá Höskuldavöllum upp Sogaselsdal eða Sogadal, er þar stór og víður gýgur á vinstri hönd. Hann heitir Sogaselsgígur eða Sogagígur. Op hans snýr til suðurs, að Sogalæk, sem rennur niður dalinn og áfram niður á Höskuldarvellina, allt niður í Sóleyjarkrika. Lækurinn hefur í gegnum tíðina myndað gróðið undirlendi vallanna. Gígurinn, gróinn, er girtur skeifulaga hamrabelti og myndar því ágætt aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og enn fyrrum Krýsuvík um tíma, sem fyrr sagði.

Sogasel

Sogasel.

Í samantekt Orra Vésteinssonar um menningarminjar í Grindavíkurkaupstað frá árin 2001 segir m.a. að “Sogaselsdalur sé grasigróinn gýgur vestast í Sogunum og þar var sel frá Flekkuvík”, segir í örnefnaskrá fyrir Vesturháls. Guðrún Gísladóttir getur Sogasels í skýrslu frá 1993 og birtir af því uppdrátt: “Seljarústirnar eru þrjár. Sú austasta er í bestu ásigkomulagi. Þarna var haft í seli um 1703 frá Kálfatjörn í Vatnsleysustrandarhreppi, en síðar einnig frá Bakka”.

Sogasel

Í Sogaseli.

Gígurinn er mjög skjólgóður og þar hefur verið góð selsstaða. Frá honum liggur selsstígur niður og norður yfir vellina og áfram á milli nyrstu hluta Oddafellsins þar sem farið hefur verið framhjá Oddafellsseli, yfir hraunið á Oddafellsselsstíg og áfram norður Þórustaðastíg heim að bæjum.

Sogasel er skjólsæl selstaða í grónum gíg. Utan hans eru einnig góðir gróningar, auk Sogalækjarins, sem hefur verið grundvöllur selstöðunnar. Skiljanlegt er að Krýsuvíkurbændur hafi gefið hana eftir fyrir útræði á Vatnsleysuströnd, enda selsstígurinn þaðan æði langur. Sogasels er getið í Örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Krýsuvík: “Vestast í Sogunum er sel, sem heitir Sogasel”. Í Örnefnalýsingu Gísla Sigurðssonar fyrir Krýsuvík er hins vegar ekki minnst á selstöðuna, einungis á örnefnið “Sogaselshrygg”. Í örnefnalýsingu fyrir Kálfatjörn má finna örnefndið “Krýsuvíkurvör” skammt austan Kálfatjarnarvararinnar.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Trölladyngja

       Árni Óla skrifar um “Trölladyngju og nágrenni” í í Lesbók Morgunblaðsins árið 1944:

Trölladyngja
“Þar sem jeg ólst upp hefði það þótt meira en lítil skömm, og talið bera vott um sjerstaka fáfræði og heimsku, ef einhver kunni ekki nöfn á öllum þeim fjöllum og kennileitum, sem blöstu við frá bæ hans. Frá Reykjavík blasir við víður, margbreytilegur og fagur fjallahringur. En hversu margir eru þeir Reykvíkingar sem kunna skil á nöfnum allra þeirri fjalla er hjeðan sjást”.

Trölladyngja

Trölladyngja.

-Jeg býst við því að þeir sjeu sorglega fáir. Og sumir þekkja víst ekki með nafni önnur fjöll en Esjuna, og máske Keili, vegna þess hvað hann blasir vel við og menn komast trauðlega hjá því að veita honum athygli. Hjer skal nú ekki reynt að bæta úr þessu, en geta má hins, að fyrir nokkrum árum ljet Ferðafjelag Íslands setja upp útsýnisskjöld á Valhúsahæð, og eru þar áletraðar upplýsingar um örnefni á flestum þeim stöðum, er þaðan sjást. Undanfarin ár hefir ekki verið greiður aðgangur að þessum útsýnisskildi, en nú fer það að lagast, og er þess þá að vænta, að margir leggi þangað leið sína, til þess að afla sjer þeirrar fræðslu, sem þeir ef til vill fyrirverða sig fyrir að leita hjá öðrum, vegna þess að enn eimir eftir af þeim hugsunarhætti, að vanvirða sje að vera svo fáfróður að þekkja ekki næsta umhverfi.

Trölladyngjusvæðið

Trölladyngjusvæðið – loftmynd.

Ef maður er staddur eitthvert góðviðriskvöld á Skólavörðuhæð, Rauðarárholti eða Öskjuhlíð, og horfir til suðvesturs og vesturs, blasa þar við mörg lág fjöll. Mest ber á Keili, en vestur undan honum sjer á Keilisbræður og Fagradalsfjall. Sunnan við Keili sjest fjallaþyrping og undir þeim margir reykir af jarðhita. Þarna er Trölladyngja og Mávahlíðar og bera saman, þótt nokkurt bil sje á milli þeirra. Þar fyrir sunnan sjest Sveifluháls, sem nær frá Vatnsskarði suður með öllu Kleifarvatni og  lengra vestur.
Rjett fyrir vestan Trölladyngju er annað fjall, sem nefnist Grænadyngja. Það sjest ekki héðan. Á milli Dyngjanna er skarð, sem nefnist Sog. Vestur af Grænudyngju er Núpshlíðarháls og er hann jafn langur Sveifluhálsi og honum áþekkur um hæð. En ofan á honum eru tveir hryggir með mörgum tindum og skörðum.

Trölladyngja

Trölladyngja nyrst á Núpshlíðarhálsi.

Við háls þennan hafa orðið mikil eldsumbrot og eru þar langar gígaraðir beggja vegna. Yfirleitt er allur þessi fjallaklasi gamlar og stórfenglegar eldstöðvar. Austan undir rana, sem gengur suður úr Trölladyngju eru stórir goskatlar, 20—30 talsins. —
Skammt þar frá er sjerstakur eldgígur einn, rauðleitur og brattur, um 70 fet á hæð. Rjett við Sog er ótölulegur fjöldi eldgíga og eru sumir stórir, allt að 600 metrum ummáls eða meira. Í Mávahlíðum eru líka sundur tættir gígar. Úr öllum þessum gosstöðvum hafa komið ægileg hraun, sem runnið hafa ýmist norðaustur eða suðvestur, norður að sjó milli Vatnsleysu og Hafnarfjarðar, og suður að sjó milli Selatanga og Ísólfsskála. Er víða hraun ofan á hrauni. Yngstu hraunin eru ekki gömul, því að þarna hefir gosið nokkrum sinnum síðan á landnámsöld.

Höskuldarvellir


Höskuldarvellir.

Eru til nokkrar heimildir í annálum um gosin. Árið 1151 „var eldur í Trölladyngju, húsrið og manndauði”. Annað gos var 1188. Þriðja gosið 1360 og „rak þá vikurinn allt vestur á Mýrar, en sá eldinn af Snæfellsnesi”. Á árunum 1389—’90 voru ógurleg eldgos hjer á landi. Þá brann Hekla, Síðujökull, Trölladyngja- og fleiri fjöll; segir Espholin að Trölladyngja hafi brunnið suður í sjó og að Selvogi, en það er sýnilega rangt, því að hraun frá Trölladyngju hafa ekki komist að Selvogi, þar sem hár fjallgarður er á milli. Seinustu sagnir um gos í Trölladyngju eru frá árunum 1510.

Að morgni sunnudagsins 16. júlí lagði á stað frá Reykjavík hópur manna, sem ætlaði að ganga að Keili og Trölladyngju. Var farið hjeðan í bíl vestur á Vatnsleysuströnd, vestur undir Stóru-Vatnsleysu. Þaðan var svo gangan hafin beina stefnu á Keili, en þangað er 10—12 km. leið yfir Strandarheiði.

Trölladyngja

Trölladyngja – herforingjaráðskort.

Þegar litið er á uppdrátt herforingjaráðsins af þessum slóðum, verður ekki betur sjeð, en hjer sje allt gróðurlaust, hraun og sandar yfir allt og varla neins staðar grænan blett að finna.
En þessu er ekki þann veg farið.  Strandarheiðin er talsvert gróin, og hvergi nærri jafn ömurleg eins og hún sýnist vera á kortinu. Þar er alls konar lyng, fjalldrapi, vallgresi, heiðarblóm margskonar. Þar eru grænar lautir, og í sprungum er víða fjölbreyttur gróður. Eru þarna góðir sauðfjárhagar. Leiðin suður að Keili er öll á fótinn, jafnt og þjett. Hvergi eru brekkur, heldur jafn aflíðandi, og verður maður þess varla var hvað landið hækkar, en þó er hæð þess orðin um 170 metrar þegar suður og vestur undir Keili kemur.

Sogin


FERLIRsfélagi á hverasvæðinu neðan við Sogin.

Ekki er dauflegt þarna í heiðinni, síður en svo. Þar ómar allt um kring söngur heiðarfugla, sem hafa valið sjer bústaði í móunum. Þar eru lóur og spóar, steindeplar og sólskríkjur. Þar eru líka kjóar, og mávar og hrafnar eru þar á flökti að leita sjer ætis. Við gengum fram á lóuhreiður með 3 eggjum. Hún hefir orðið seint fyrir.
Skammt þar frá flögraði rjúpa og barmaði sjer, hefir annað hvort átt þar helunguð egg í hreiðri eða litla unga. Þetta er ekki sagt til þess að gera heiðina að einhverjum dásemdastað. En það er sagt vegna þess, að manni hlýnar ósjálfrátt um hjartarætur þegar maður hittir gróið land, þar sem maður hjelt áður að væri eyðimörk, engum byggileg nema refum og minkum. Og vel á minnst, minkur var þarna uppi á háheiði, og smaug niður í holu þegar að honum var komið. Sennilega hefir hann lifað þarna í vor á eggjum og fugli og máske líka gert sjer dagamun með því að ráðast á unglömb.

Selsvellir

Selin á Selsvöllum.

Austan að Strandarheiði heitir Afstapahraun. Það hefir komið upp í eldgígum fram hjá Núpshlíðarhálsi. Rennur það fyrst í mjóum straum milli Keilis og Oddafells, sem er langur og hár melur (220 m.) vestan við Dyngjurnar. En þegar kemur norður með Oddafelli, breiðir það úr sjer og norðan við melinn sveigir það austur og fellur saman við Dyngjuhraun, og ná þau þaðan fram til sjávar.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Það er gaman að ganga með hraungarðinum að vestan. Eru þar víða grösugar dældir og bollar, en hraungarðurinn úfinn og grettur á aðra hönd, með alls konar furðumyndum, sprungum, gjótum, hellum og ranghölum. Mikill grámosi er í hrauninu, en gróður enginn. Er það mjög illt yfirferðar, og geta menn misstigið sig þar illilega og lent í huldum sprungum og gjótum. Við fundum veg yfir það, ef veg skyldi kalla, og komumst yfir á rindann, sem gengur norður úr Oddafelli. Blasti þá við einkennileg sjón í þessari auðn, víðir, grænir og eggsljettir vellir. sem náðu utan úr kverkinni milli Afstapahrauns og Dyngjuhrauns, up p að Trölladyngju og suður milli hennar og Oddafells. Þarna var fjöldi hesta og sauðfjár á beit. Var því einna líkast sem þarna hefði opnast fyrir okkur hinn fagri og gróðursæli Árdalur, sem Jón lærði kvað um. Þessi grassljetta heitir Höskuldarvellir, umgirt hrauni, fjöllum, eldgígum og gufuhverum.


Syðst í skarðinu milli Trölladyngju og Oddafells sáum við reyki mikla og stefndum þangað. Þar hefir dálítil hrauntunga runnið fram niður að völlunum og rýkur víða upp úr hrauninu. Hitinn er á allstóru svæði og þótt ekki sjáist rjúka er mosinn í hrauninu alls staðar volgur. Í miðri hrauntungunni er kringlótt jarðfall og þar er hitinn einna mestur. Eru tveir leirhverir í botni jarðfallsins, annar með stálgráum leir, en hinn með hvítum. En út úr brúnum jarðfallsins koma gufur og virðist hitinn þar meiri heldur en í sjálfum gígnum. Í gegn um gufuhvininn heyrast dynkir nokkrir með stuttu millibili. Stafa þeir sjálfsagt frá einhverjum hver sem er inni í hrauninu og sjest ekki.

Trölladyngja

Trölladyngja.

Sje haldið vestur með fjallinu, slitnar hraunið og koma þar aftur grænir vellir, þó ekki jafn víðlendir og Höskuldarvellir. Þeir heita Seljavellir og hefir þar verið haft í seli til forna. Annað sel hefir verið við rætur Trölladyngju. Hjet það, Sogasel og dró nafn sitt af grafningnum þar fyrir vestan. Ekki sá jeg tættur þess, en þær mun þó unnt að finna.
Vestur af Seljavöllum tekur enn við hraun, og úti í því er Hverinn eini. Er það sjóðandi leirhver og leggur þaðan megna brennisteinsfýlu.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Eggert Ólafsson segir um þennan hver, að hann hafi allt af verið, að flytja sig, en nú mun hann lengi hafa verið á sama stað. Er hann í jarðfalli og eru í botni þess hraunbjörg, sundursoðin af hveragufum, en á milli þeirra er bláleit leðja sem sýður og bullar og hvín. Rjett fyrir norðan hverinn er hverahrúðursbreiða, og mundi þá hverinn hafa verið þar áður. Um þennan hver var því trúað áður að þar hefðist við furðufuglar, sem kallaðir voru hverafuglar. Er þeim svo lýst, að þeir hafi verið kolsvartir, fiðurlausir og með litla vængi. Hverafugla er víða getið, en hvergi í leirhver, nema á þessum eina stað.

Sogin

Sogin.

Á Trölladyngju eru tveir háir hnúkar úr móbergi og eru þeir mjög ólíkir, því að sá vestari er brattur og hvass, en hinn breiður og kollóttur. Eru þeir alla vega sorfnir og nagaðir af frosti, vatni og vindi, stallalausir og eins og þeir hafi verið steyptir upphaflega. Er furða hvað gróður hefir náð að festa þar rætur, því að grænar tungur teygja sig upp eftir þeim. Eins er nokkur gróður fyrir vestan þá og upp með Soginu. Þar rekst maður á rennandi vatn, en það er sjaldgæft á Reykjanesskaga.
Dálítill lækur kemur hoppandi niður úr Soginu og á hann upptök sín í vatni, sem er á bak við Grænudyngju og heitir Djúpavatn. Þar er og tjörn dálítið norðar. Er þessa getið hjer vegna þess hvað það er sjaldgæft að hitta vatn á þessum útskaga. Lækurinn er eflaust teljandi vatnsfall í vorleysingum. Má sjá það á því, að hann hefir rutt sjer farveg norður endilanga Höskuldarvöllu, en nú var svo lítið í honum, að hann komst aðeins niður úr hlíðinni og hvarf þar í hraunið. Í honum er tært og svalandi vatn.

Sogasel

Sogasel.

Norðan undir Trölladyngju koma heitar gufur upp úr hrauninu á nokkrum stöðum, og þar fyrir norðan, austast á völlunum, eru nokkrir leirhverir. Hjer er því um allstórt jarðhitasvæði að ræða, en engin not er hægt að hafa af þeim hita. Það er tæplega að ferðamenn geti soðið mat sinn þarna eins og er. En sjálfsagt væri hægt að handsama þarna hitaorku, ef borað væri niður úr hrauninu. Þó mun það eiga langt í land vegna þess hvað staðurinn er afskekktur.

Sogasel

Sogasel undir Trölladyngju – fornleifar.

En hitt þykir mjer líklegt, að fólk muni fara að venja komur sínar á þessar slóðir, þegar fram líða stundir, og dvelja þar dögum saman í tjöldum. Hefir staðurinn öll skilyrði til þess að vera eftirsóttur af dvalargestum. Þarna er stórbrotið landslag og fjölbreytni í náttúru óvenju mikil, hrikaleg hraun og klungur, fögur og há fjöll með víðu útsýni. grænar brekkur og grónir vellir, lækur í gili og mjúkur mosi til að hafa í hvílubeði í tjaldi. Og svo eru þarna stórkostlegar gosstöðvar, sem nábúum er varla vansalaust að hafa ekki kynst, svo mjög sem þær hafa sett svip á Reykjanesskaga, og eru auk þess eitt hið mesta náttúruundur í nágrenni Reykjavíkur.
Jeg fullyrði, að það er meira gaman að því að skoða Trölladyngju, fjöllin þar og umhverfið, heldur en sjálft Reykjanes.”

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins – 29. tölublað (20.08.1944), Árni Óla; Trölladyngja, bls. 369-373.

Trölladyngja

Trölladyngja og Sogaselsgígur nær.

Spákonuvatn

Genginn var hringur frá Rauðhól í Afstapahrauni, að Oddafelli og inn með því að Driffelli, með Keili og áfram niður að Rauðhól.

Núpshlíðarháls

Á Núpshlíðarhálsi. Spákonuvatn og Keilir fjær.

Margt bar fyrir augu á þessari leið, sem jafnframt er að hluta til mikið notuð af fólki, sem gengur að og frá Keili. Gönguleið þessi er mjög auðveld, einkum með Oddafellinu og frá Keili niður að Rauðhól.

Á leiðinni upp að Rauðhól mátti sjá á hægri hönd, uppi á klapparbrúnunum utan við nýja hraunið, fallega hálffallna fjárborg, nefnd Gvendarborg. Borgina hlóð Guðmundur Hannesson er seinast bjó á Ísólfsskála og sá er sagður er hafa skotið síðasta hreindýrið á Reykjanesi.

Keilir

FERLIRsfélagar – Keilir að baki.

Margir hafa gengið á Keili eða ætla sér það. Sumir fara bara til að ganga, en eins og sjá má er margt að skoða þegar gengið er á fjallið, hvort sem farið er frá Oddafelli eða Rauðhól.
Þegar gengið er til vesturs norðan Oddafells, um svonefndan Oddafellsselstíg, er ljóst að þar fyrir innan hafa verið að a.m.k. tvö sel eða sel frá mismunandi tímum. Selin, eða selið, voru frá Minni-Vatnsleysu.
Þau eru greinilega bæði mjög gömul. Gengið er yfir fyrsta stekkinn þegar komið er að vikinu eftir fyrstu hæðina. Sér þaðan inn að Höskuldarvöllum.

Oddafellsel

Oddafellsel – stekkur.

Skammt frá stekknum er tótt og síðan annar hlaðinn stekkur á bak við hraunhrygg. Innar sjást vel tvær tóttir, sem nefna má Oddafellssel nyrðra.
Þar við virðist vera gamall brunnur. Fjórir stígar liggja yfir hraunið, sá fyrsti skammt fyrir innan fyrstu tóttirnar. Hann er greinilega nýjastur syðst og mest farinn af fólki, sem gengur á Keili. Ef haldið er áfram inn eftir hraunkantinum eru greinilegar tóttir, sem nefna má Oddafellssel syðra.
Ofan þeirra eru fallega hlaðnar kvíar utan í hraunkantinum og svolítið ofar má sjá tvöfaldan hlaðinn stekk utan í kantinum. Ef farið er upp á hraunbrúnina ofan við fyrstu kvíina má glöggt sjá gamla stíginn í gegnum hraunið. Sá stígur norður yfir hraunið sameinast síðan stígnum, sem liggur yfir það framar og fyrst var komið að.

Keilir

Keilir – stígur frá Oddafelli.

Enn ofar með Oddafellinu má sjá stíg liggja norður yfir hraunið í átt að Keili, en hann virðist vera nýrri en stígurinn frá seljunum og annar stígur, er liggur til norðurs skammt vestar, á móts við vikið áður en komið er að vestasta Oddafellinu, eða Fjallinu eina. Þar fyrir ofan er Hverinn eini. Hann var einn mesti gufuhver landsins um tíma, en nú er þar einungis litskrúðug lægð í hraunið og smá gufustrókur í henni miðri. Við hverinn er smágert hverahrúður í flögum við 4 eða 5 eldri hveraop.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Frá hvernum má sjá í suðaustri inn í Sogagíg þar sem Sogaselið er, nokkrar tóttir og fallega hlaðinn stekkur utan í norðurhlið gígsins. Þarna var sel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Í suðri sér inn á Selsvellina, en suðvestast á völlunum eru ein þrjú sel og tveir hlaðnir stekkir. Skammt úti í hrauninu er enn ein tótt og lítil kví. Á ská á móti á völlunum austanverðum, undir hálsinum, eru þrjár tóttir eldra sels. Á Selsvöllum var selstaða frá bæjum í Grindavík. Frá þessum stað er um klukkustunda sérstaklega greiðfær gangur inn eftir völlunum og til baka. Tveir lækir renna eftir völlunum. Einnig er auðvelt að ganga frá þessum stað upp í Sogagýg.

Þórustaðastígur

Þórustaðastígur við Selsvelli.

Efsti stígurinn norður yfir hraunið liggur í átt að norðausturhorni Driffells og er hann styttstur stíganna. Að honum gengnum og þegar komið er yfir hraunið er leiðin greið að uppgöngustíg á Keili.
Margir halda að Keilir sé gamalt eldfjall, en svo er ekki. Hann hefur aldrei gosið. Strýtumyndað fjallið varð til við gos undir jökli og er úr móbergi með dólerít-klöppum efst uppi. Litlir mórauðir móbergstindar standa fyrir norðan rætur hans og eru þeir kallaðir Keilisbörn.

Ef gengið er austur eftir stígnum, sem liggur að uppgöngunni að Keili, er komið að vörðu.

Gvendarborg

Gvendarborg.

Við hana má sjá gamlan stíg, Þórustaðastíg, sem liggur til norðurs niður að Þórustöðum á Vatnsleysuströnd. Ef honum er fylgt kemur annar stígur inn á hann skammt norðar, Rauðhólsselsstígur. Liggur hann þar til austurs. Við hann er há og mjó varða. Stígurinn er vel greinilegur.
Þegar komið er niður grasbrekkur og að hraunkanti liggur stígurinn norður með kantinum.

Göngufólk á Keili styttir sér stundum leið með því að fara upp á hraunið þegar komið er að sléttri klöpp og ganga síðan áfram þar til austurs sunnan Rauðhóls.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Ef hins vegar haldið er haldið áfram niður með hraunkantinum er gengið yfir gamlan stekk utan í sléttri skjólhellu og þaðan liggur leiðin niður að Rauðhólsseli. Það birtist í grashvammi undir hólnum.
Sel þetta var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagan segir að ekki hafi verið vært í selinu eftir sextándu vikur sumar vegna draugagangs. Ekki er að sjá neitt vatnsból við selið, en þar nálægt má vel finna aðalbláberjalyng í þröngum gjám. Í norðanverðum hvamminum er yngsta tóttin og önnur eldri í honum miðjum. Þaðan er hægt að fylgja stígnum áfram til austurs með norðanverðum Rauðhól að upphafsreit.
Frábært veður – Gangan tók um 2 og 1/2 klst.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Sogasel

Gengið var um nýja borsvæðið vestan Trölladyngju, yfir að Oddafelli og með því að Hvernum eina.

Spákonuvatn

Spákonuvatn. Keilir fjær.

Áður en komið var að syðsta hluta Oddafellsins mátti sjá gamlan stíg yfir hraunið norðan fellsins í átt að norðausturenda Driffells. Einungis lítill gufustrókur stendur nú upp úr hvernum, sem eitt sinn var stærsti gufuhver landsins, sást jafnvel frá Reykjavík þegar best lét. Frá hvernum var genginn gamall stígur er liggur austan hversins og inn með Selsvallalæknum. Þórustaðastígurinn liggur þar upp úr Kúalág, en gegið var áfram suður yfir vellina, framhjá seljunum undir hlíðinni og að vestari seljunum suðvestast á þeim. Norðan þeirra er stígur yfir hraunið að Hraunsels-Vatnsfelli. Ákafla er hann vel markaður í klöppina. Uppi á því austanverðu er allstórt vatnsstæði. Þarna er um að ræða þrjú sel og eru fallegir stekkir við þau öll, auk réttar og fjárskjóla í hrauninu innan þeirra.

Sogasel

Sel í Sogaselsgíg.

Gengið var upp með Núpshlíðarhálsi, með læknum þar sem hann kemur niður gil í hálsinum (Sogadal) og áfram utan í honum að Sogagíg. Þegar komið er að honum myndar gígurinn fallega umgjörð um selið með Trölladyngjuna í bakgrunni. Í gígnum eru a.m.k þrjár tóttasamstæður og mjög heillegur og fallegir stekkir og rétt, hlaðinn utan í norðurhlið gígsins, auk smalaskjóls. Ein tóft til viðbótar er utan gígsins. Handan hans í norðri myndaði Oddafellið litskrúðungan forgrunn að Keili er sveipaði um sig þunnri skýjahulu.

Sogasel

Í Sogaseli.

Á leiðinni var gerð leit að útilegumannahelli sem átti skv. þjóðsögunni að vera nálægt Hvernum eina. Ekki er ólíklegt að hann sé fundinn. Í hellinum áttu útilegumenn að hafa hafst við í byrjun 18. aldar. Þeir herjuðu á bændur á Vatnsleysuströnd og er Flekkuvík sérstaklega tilgreind í sögunni. Gerðir voru út leiðangrar til að handsama þá, sem að lokum tókst. Voru þeir þá færðir að Bessastöðum og hengdir í Gálgaklettum (sjá HÉR). Sagt er að bændur hafi eyðilagt bæli útilegumannanna svo aðrir tækju ekki þeirra stað.

Hverinn eini

Hverinn eini.

Staðurinn, sem um ræðir er hinn ákjósanlegasti. Á aðra hönd er jarðhiti og hina kalt vatn. Innan seilingar hefur fé gengið um haga. Ofan við bælið er hæð og má auðveldlega sjá til mannaferða úr öllum áttum. Er þá auðvelt að dyljast í nágrenninu. Misskilningur er að menn hafi hafst við í hraunhellum til dvalar eða búsetu. Til þess voru þeir of rakakenndir, kaldir og hreinlega blautir. Þessi staður hefur aftur á móti að öllum líkindum verið reftur og þakinn hellum og mosa og þannig haldist þurr og verið ágæt vistarvera. Í honum hafa þrír til fimm menn auðveldlega getað dvalið með góðu móti.
Gangan tók 3 klst og 24 mín. Frábært veður – logn og hlýtt – roðagyllt fjöllin.

Sogasel

Sogasel – uppdráttur ÓSÁ.

Sogasel

Haldið var upp á Höskuldarvelli þar sem ætlunin var að ganga á Trölladyngju og síðan til baka um Sogin. Vegurinn upp á Höskuldarvelli liggur upp Afstapahraun, sem mun vera frá sögulegum tíma.

Keilir

Hoft á Keili af Trölladyngju.

Gengið var upp grasi gróna vesturhlíð Dyngjunnar, um skarð og síðan aflíðandi upp á hana að austanverðu. Dyngjan er ber á bakinu, en ekki erfið uppgöngu. Heildargangan tekur u.þ.b. 30 mínútur. Fallegt útsýni er af Trölladyngju yfir Höskuldarvelli, Oddafell, Eldborg, Lambafell, niður og norðaustur eftir Dyngjurana, Grænudyngju og um hálsinn að sunnanverðu, yfir að Spákonuvatni og Sogin. Grænadyngja er austan við Trölladyngju og er gróinn dalur (dyngja) á milli þeirra. Hún er gróin upp á topp og því tiltölulega auðveld uppgöngu.
Trölladyngja er móbergsfjall, en þegar komið er á efri hluta hennar verður bólstraberg áberandi. Stundum var talað um Trölladyngur, Dyngjur eða Dyngjuhnúka, og þá átt við báða hnúkana. Trölladyngja er um 375 m og Grænadyngja er um 400 m. Í Trölladyngju hefur fundist silfurberg.
Milli Dyngnanna er skarð sem skipt er þversum af lágum hálsi og heitir hann líklega Söðull.

Sog

Í Sogum.

Sogin skilja Dyngjurnar frá Núpshlíðarhálsi, en þau eru grafningar miklir. Í þeim eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu, og litadýrðin mikil, einkum að sunnanverðu. Hraun hafa runnið bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun, bæði yngra og eldra (Geldingahraun). Enn er þarna mikill jarðhiti á ýmsum stöðum.
Reykjanesinu er gjarnan skipt í 4 eða 5 eldstöðvakerfi, Reykjanes-Grindavík-Vogar (oft talið sem tvö kerfi), Krýsuvík-Trölladyngja, Brennisteinsfjöll-Bláfjöll og Hengill-Selvogur. Hliðrunarbelti með austur-vestur stefnu í gegnum þessi kerfi veldur tíðum jarðskjálftum á Reykjanesi og á því hafa myndazt háhitasvæði á yfirborði, s.s. á Reykjanesi, í Eldvörpum, í Svartsengi, í Krýsuvík og í Brennisteinsfjöllum. Eldstöðvakerfin hafa öll skilað blágrýti (þóleiískt berg) til yfirborðsins á nútíma nema Hengilssvæðið. Píkrít er að finna í gömlu og minni dyngjunum á svæðinu en ólivínþóleit í hinum yngri og stærri. Fjöldi dyngnanna frá nútíma er u.þ.b. 30 og gossprungur eru í tugatali.

Sogin

Litadýrð Soganna.

Eldborgin norðan við Trölladyngju var einnig nefnd Ketillinn. Hún hefur verið fallegur gígur, en er nú ekki svipur hjá sjón. Jón Jónsson, jarðfræðingur, segir að gosið í Eldborg hafi án efa verið með þeim seinustu á þessu svæði og sennilega það síðasta. Það er því yngra en Afstapahraun.
Höskuldavellir eru rúmur kílómetri að lengd og tæpur kílómetri á breidd. Þeir urðu til við leiframburð Sogalækjar, sem kemur úr Sogunum og rennur norður um vellina. Ekki er vitað við hvaða mann vellirnir eru kenndir, en þeir eru í landi Stóru-Vatnsleysu.
Gengið var upp skarðið stóra milli Dyngnanna, yfir að Sogunum. Búið er að girða af beitarhólf Suðurnesjamanna, en víða í grónum giljum má sjá allt að fimm metra undir girðinguna.

Sog

Í Sogum.

Sogin eru 150-200 m djúp leirgil sem mikill jarðhiti hefur verið í fyrrum og aðeins eimir af enn. Þægilegt er að ganga niður í Sogin sunnan við Dyngjurnar og útsýnið er stórbrotið og litadýrðin mikil. Leirkenndur jarðvegurinn er rokgjarn, en drekkur í sig bleytu. Fallegur hver er í hlíðinni sunnan við Sogalæk. Honum var fylgt niður Sogaselsdalur eða Sogadal, litið á tóftir þar sunnan við lækinn og síðan haldið að selsminjunum inni í Sogagíg eða Sogaselsgíg. Gígurinn er opinn til suðurs, girtur skeifulaga hamrabelti og hefur því myndað gott aðhald fyrir skepnur. Þarna var Sogasel frá Kálfatjarnarhverfi og jafnvel Krýsuvík. Margar kofatóftir eru á þremur stöðum í gígnum og kví undir vestari hamraveggnum og við nyrstu tóftina.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 33 mín.

Heimild m.a.:
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi eftir Sesselju G. Guðmundsdóttur.

Sogin

Sogin.

Eldvörp

Vefurinn “VisitReykjanes” gaf út “göngukort“; Reykjanes-HikingMap, sem leiðbeina átti áhugasömu fólki um útivist að dásemdum Reykjanesskagans. Kortið og upplýsingarnar eru sæmilegar til síns brúks:

1. Arnarsetur

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun – hrauntjörn.

Fremur stutt gossprunga (2 km) með gjall- og klepragígum. Hraun frá henni (um 20 ferkm) er stórskorið og þar eru hraunhellar og ummerki um mannvistir. Eldgosið er úr seinni hluta rek- og goshrinunnar Reykjaneseldar á árabilinu 1210-1240.

2. Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll

Brennisteinsfjöll – Kistufellsgígur.

Stór þyrping móbergsfjalla frá síðari hluta ísaldar. Efst er hraundyngjan Kistufell. Fjöllin eru skorin nokkrum gossprungum með nútíma gígaröðum en þó ekki yngri en landnám. Háhitasvæði er norðan í fjöllunum. Þar var numinn brennisteinn nálægt 1880.

3. Djúpavatn/Spákonuvatn/Arnarvatn

Djúpavatn

Djúpavatn.

Þrjú stöðvötn í móbergshryggjunum Vesturhálsi og Sveifluhálsi, að mestu með grunnvatni. Djúpavatn er við samnefnda ökuleið, að hluta eldgígur. Spákonuvatn við Sogin er sprengigígur, eins og Arnarvatn við göngustíg yfir Sveifluháls.

4. Eldborg við Höskuldarvelli

Eldborg

Eldborg undir Trölladyngju.

Norðvestur af Höskuldarvöllum, sléttu graslendi við rætur Grænudyngju og Trölladyngju, rís stór gjall- og klepragígur, eldri en landnám. Gígurinn er skemmdur eftir efnisnám. Jarðhitagufur stíga upp við gíginn.

5. Eldborg við Geitahlíð

Eldborg

Eldborg undir Geitahlíð.

Forsöguleg gossprunga skerst inn móbergsstapann Geitafell með fimm gígum. Eldborg er þeirra langstærstur og brattastur, úr gjalli en einkum kleprum. Austur úr honum liggur myndarlegur hraunfarvegur, hrauntröð.

6. Eldvörp

Eldvörp

Í Eldvörpum.

Um 10 km löng gígaröð í skástígum hlutum úr gos- og rekhrinunniReykjaneseldum 1210-1240, ásamt um 20 ferkm hrauni. Jarðhiti er á yfirborði við miðbik raðarinnar og ein rannsóknarborhola. Mannvistarleifar eru hér og var við Eldvörp.

7. Grænadyngja/Trölladyngja

Trölladyngja

Trölladyngja á Reykjanesskaga.

Brött móbergsfjöll vestan við Sog. Ungar gossprungur umlykja þau og háhitasvæði eru þar nálæg. Apalhraun runnu frá gosstöðvum suður til sjávar við Reykjanesbraut, t.d. Afstapahraun.

8. Hafnarberg

Hafnarberg

Hafnarberg.

Há og löng sjávarbjörg, að mestu úr hraunlögum, sunnan við gömlu verstöðina Hafnir. Nokkrar tegundir sjávarfugla verpa í þverhnípinu. Merkt og vinsæl gönguleið liggur þangað frá vegi að Reykjanesi.

9. Háleyjarbunga

Háleyjarbunga

Háleyjarbunga.

Lítil og flöt hraundyngja með stórum toppgíg, 20-25 m djúpum, eftir flæðigos. Hún er 9.000 ára gömul eða eldri, og úr frumstæðri basalttegund úr möttli sem nefnist pikrít. Grænir ólivínkristallar eru áberandi.

10. Hrafnagjá

Hrafnagjá

Hrafnagjá.

Siggengi á togsprungu, 12 km langt og allt að 30 m hátt. Það er lengsta brotalínan af þeirri gerð á Reykjanesskaga og sést af Reykjanesbraut. Gjáin er hluti dæmigerðs sigdals skammt frá Vogum.

11. Hrólfsvík

Hrólfsvík

Hrólfsvík.

Lítil vík, þekkt sem fundarstaður hraunmola með hnyðlingum, þ.e. grófgerðum djúpbergsmolum úr gabbróinnskoti. Hraunið er af óvissum aldri og uppruna.

12. Hrútagjáardyngja

Hrútargjárdyngja

Hrútargjárdyngja.

Hraundyngja, 6.000-6.500 ára, ásamt 80- 100 ferkm hrauni; alls rúmir 3 rúmkílómetrar. Hún er með stórum toppgíg og skorin djúpum gjám sem kunna að vera merki um ris vegna kvikuinnskota.

13. Hvassahraunskatlar

Hvassahrauns

Hvassahraunskatlar.

Hraundrýli í hrauni úr Hrútagjárdyngju. Þau myndast jafnan við öflugt gasútstreymi nálægt eldgíg en í þessu tilviki um 10 km frá dyngjuhvirflinum.

14. Katlahraun

Katlahraun

Í Katlahrauni.

Hraun sem rann í sjó fram fyrir um 2.000 árum, hlóðst upp við ströndina vegna fyrirstöðu. Stór, hringlaga hrauntjörn myndaðist en tæmdist eftir að hlutar hennar höfðu storknað. Eftir standa margvíslegar hraunmyndanir.

15. Kerlingarbás

Önglabrjótsnef

Berggangur í Kerlingarbás.

Leifar þriggja stórra gjóskugíga, 800 til 2.000 ára gamalla. Ofan á þeim liggja hraunlög, það efsta úr Yngri Stampagígum, úr Reykjaneseldum, eins og tvö yngstu gjóskulögin. Berggangar skera gjóskuna.

16. Lambafellsgjá

Lambafellsgjá

Í Lambafellsgjá.

Lambafell myndaðist sennilega á næst síðasta jökulskeiði. Toghreyfingar vegna plötuskriðs hafa klofið fellið. Í norðri opnast 150 m löng og 50 m djúp gjá en aðeins 3-6 m breið, með veggjum úr bólstrabergi. Gjáin er vel fær.

17. Méltunnuklif

Méltunnuklif

Méltunnuklif.

Lágt klettabelti með ólíkum jarðlögum, móbergi (palagónít túffi), gamalli jökulurð, millilögum, hraunlögum og einum roffleti; samtals ágætt yfirlit yfir helstu þætti í myndunarsögu Reykjanesskagans.

18. Rosmhvalanes

Rosmhvalanes

Á Rosmhvalanesi.

Stórt flatlendi með elstu jarðlögum Reykjanesskagans. Yfirborðslögin eru úr dyngjuhraunum, mjög jökulsorfnum. Myndunartíminn er talin vera tvö síðustu hlýskeið ísaldar sem gengu yfir fyrir 120.000 (Eem) til 240.000 árum (Saale).

19. Sandfellshæð

Sandfellshæð

Sandfellshæð.

Ein stærsta hraundyngja Reykjanesskagans. Hraunbreiðan úr henni nær vel yfir 100 ferkm. Toppgígurinn er stór en grunnur. Eldstöðin er um 14.000 ára en þá stóð sjór 30 m lægra en nú.

20. Skálafell

Skálafell

Skálafell á Reykjanesi.


Samsett eldstöð sem hlóðst upp fyrir 3.000 til 8.000 árum í fáeinum eldgosum. Efst er reglulegur gjall- og klepragígur. Misgegngi í grendinni mynda austurjaðar Reykjaneseldstöðvakerfisins og gos- og rekbeltisins á Suðvesturlandi.

21. Sog

Sog

Í Sogum.

Fáein vatnssorfin gil og lágir hryggir suðvestan við Trölladyngju mynda sundursoðið, myndbreytt og litríkt svæði eftir virka háhitahveri. Þar er töluvert um gufuaugu, vatnshveri og leirhveri.

22. Stampar

Stampar

Gígar í Yngra- Stampahrauni.

Tvær samsíða gossprungur með fjölda gjall- og klepragíga á Reykjanesi, nálægt Reykjanesvirkjun. Eldri gígarnir og hraun eru 1.800 til 2.000 ára en hinir urðu til í Reykjaneseldum, langri gos- og rekhrinu 1210-1240, ásamt 4,6 ferkm hrauni.

23. Sundhnúkaröð

Sundhnúkar

Sundhnúkar.

Gígaröð sem reis á gossprungu fyrir um 2.300 árum. Hraun frá henni rann til sjávar, m.a. þar sem nú er Grindavík. Þar voru ágætar bátalendingar í lóni sem smám saman þróaðist til góðrar hafnar og þéttbýlisins.

24. Sveifluháls

Sveifluháls

Á Sveifluhálsi.

Einn af lengstu og stærstu móberghryggjum jarðvangsins. Hann geymir góðan þverskurð af ásýndum móbergsmyndunar; lagskipt móberg (túff), þursaberg (breksju) og bólstraberg. Allt ber þetta vitni um átök kviku, jökulíss og vatns.

25. Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur

Þráinsskjöldur – gígurinn.

Stór og flöt hraundyngja, vel sjáanleg af Reykjanesbraut. Hún liggur langan veg yfir helluhraun hennar. Það er yfir 130 ferkm að flatarmáli og rúmmál gosmyndunarinnar a.m.k. 5,2 rúmkm. Dyngjan er talin um 14.000 ára gömul.

26. Ögmundarhraun

Ögmundarhraun

Ögmundarhraun – dys Ögmundar.

Stór hraunbreiða frá 1151. Hún er syðsti hluti nokkru yngri hrauna úr rek- og goshrinunni Krýsuvíkureldum (1151-1180). Gossprungan nær sundurslitin um 25 km til norðausturs. Ögmundur var sagður berserkur sem lagði veg um hraunið.

27. Brimketill

Brimketill

Brimketill – Oddnýjarlaug.

Lítil náttúrulaug í rofdæld með sjó, án jarðhitavirkni, við ströndina vestan við Grindavík. Þarna á skessan Oddný að hafa setið á góðum stundum.

28. Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa

Brú milli heimsálfa.

Táknræn göngubrú liggur yfir togsprungu sem rekja má til gliðnunar jarðskorpu vegna plötu-(fleka-)reks um Mið-Atlantshafshrygginn. Meðalrekhraðinn er um 2 cm/ár en hreyfingarnar verða í hrinum með mislöngu bili.

29. Eldey

Eldey

Eldey.

Eldey reis úr sjó í gjóskugosi og er gerð úr lagskiptu móbergi, 77 m há, um 15 km frá landi úti á Reykjaneshrygg sem er hluti Mið-Atlanshafshryggjarins. Aldur hennar er óþekktur. Um 18.000 súlupör halda sig á 0,3 ferkm flötu landi.

30. Gunnuhver

Gunnuhver

Gunnuhver.

Þyrping ólgandi leir- og gufuhvera á Reykjanesi. Þeir breytast með tíma. Þyrpingin varð til að nokkru eftir jarðskjálftahrinu 1967. Heitið vitnar um sögu af illræmdum draug, Gunnu, sem sökkt var með blekkingum ofan í hver.

31. Festarfjall/Hraunsvík

Festarfjall

Festarfjall og Hraunsvík.

Móbergsfjall eftir eldgos undir jökli, sennilega á síðasta jökulskeiði ísaldar. Sjávararof hefur afhjúpar háan þverskurð af móbergi, brotabergi og bóstrabergi ásamt aðfærslugangi kviku. Hann er sagður vera silfurfesti tröllskessu.

32. Hópsnes

Grindavík

Grindavík – Hópsnes- og Þórkötlustaðanes.

Lítið nes við Grindavíkurbæ, myndað við hraunrennsli frá gígaröð kenndri við Sundhnúk. Hraunið á hlut í góðum hafnarskilyrðum við bæinn.

33. Húshólmi

Húshólmi

Húshólmi – skáli.

Óbrinnishólmi (kipuka), land sem Ögundarhraun náði ekki af kaffæra árið 1151. Þar getur að líta rústir býlis og kirkju, auk hlaðinna veggja. Hluti húsanna og mest allt ræktarland hvarf í hraunið.

34. Keilir/Keilisbörn

Keilir

Keilir.

Keilulaga móbergsfjall tengt við lágan hrygg, Keilisbörn. Gosmyndunin kom undan ísaldarjökli á sínum tíma. Keilir er einkennisfjall Reykjanesskagans, vegna lögunar, og það er gamalt mið af sjó.

35. Kleifarvatn

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Stærsta stöðuvatn Reykjanesskagans, 9,1 ferkm og 97 m djúpt. Það fyllir í dæld milli Brennisteinsfjalla og móbergshryggjarins Sveifluhálss. Smálækir renna í það en aðeins grunnvatn úr því. Sagt er að þar búi svartur
risaormur.

36. Mannvistarleifar við Eldvörp

Eldvörp

Eldvörp – byrgi.

Ýmsar mannvistarleifar er af finna í Eldvarpahrauni; þrjá þjóðstíga milli byggða og þyrpingu kofa úr hraungrýti. Óvíst er um tilgang þeirra en varla unnt að samþykkja sögusagnir um útilegumenn.

37. Ósar

Ósar

Ósar.

Vogur með mörgum skerjum og hólmum við Hafnir. Í þorpinu er uppgrafnar rústir af norrænni eða keltnskri útstöð. Ósar eru verndarsvæði vegna fuglalífs og áhugaverðs sjávarvistkerfis.

38. Pattersonflugvöllur

Patterssonsvöllur

Lífsstöðugrjót við Patterssonsvöll.

Undir gömlum flugvelli er að finna þjappað sjávarset með lítið steingerðum skeljum. Algengasta tegundin er sandmiga (smyslingur), 20.000 –
22.000 ára gamlar leifar vistkerfis frá því skömmu fyrir hámark síðasta jökulskeiðs.

39. Selatangar

Selatangar

Selatangar – sjóbúðir.

Lágir hrauntangar með rústum af verbúðum, að mestu úr hraungrýti. Auk þeirra eru þar fiskibyrgi, bæði til að þurrka fisk og geyma. Verstöðin var notuð frá því á miðöldum allt til 1884.

40. Snorrastaðatjarnir/Háibjalli

Snorrastaðatjarnir

Snorrastaðasel við Snorrastaðatjarnir.

Háibjalli er 10 m hátt siggengi næst Snorrastaðatjörnum. Þarna er gróskumikið og vinsælt útvistarsvæði, og farfuglar hvílast þar á leið sinni.

41. Sogasel

Soagsel

Sogasel í Sogaselsgíg.

Rústir af seli (sumarkofa þar sem fólk hafi auga með sauðfé á beit); skammt frá Grænudyngju og Sogum. Selið er sérstætt vegna þess að það var byggt inni í stórum gjallgíg.

42. Svartsengi

Svartsengi

Háhitasvæðið í Svartsengi.

Eitt af helstu háhitasvæðum á Reykjanesskaga. Þar er framleitt rafafl á landsnetið og heitt vatn til byggða á skaganum. Afrennsli frá virkjuninni er notað í Bláa lónið en auðlindagarðurinn er fyrirtaks dæmi um heildræna nýtingu jarðvarma.

43. Valahnúkar/Valabjargargjá/Valahnúksmöl

Valahnúkur

Valahnúkar og Valahnúkamöl.

Hér mætast þurrlendið og Mið-Atlantshafshryggurinn. Valahnúkur er rofið móbergsfell með bólstrabergi og þursabergi. Valabjargargjá er stórt siggengi og Valahnúksmöl, úr hnullungum, girðir fyrir lítinn sigdal austan við Valahnúk.

44. Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell

Þorbjarnarfell (Þorbjörn).

Stakt móbergsfjall norður af Grindavík. Misgengi þvera það og mynda grunnan sigdal. Hluti hans kallast Þjófagjá eftir 15 misyndismönnum sem þar eiga að hafa dvalist.

45. Básendar

Básendar

Básendar – húsgrunnur.

Gríðarmikil fárvirðri, við háflóð, olli versta sjávarflóði í manna minnum á Suðvesturlandi árið 1799. Heitið, Básendaflóð, er komið af lítilli verslunar- og verstöð. Þar breyttist ströndin til mikilla muna og byggðin eyddist að
mestu.

46. Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Stór steinn við þjóðleiðina milli Krýsuvíkur og Grindavíkur. Í honum eru þrjár holur. Sagnir herma að ein sé fyrir hunda, önnur fyrir menn og sú þriðja handa hestum. Ferðalangar áttu að geta treyst á að komast þarna í drykkjarvatn.

47. Garðskagaviti

Garðskagaviti

Garðskagaviti.

Eldri vitinn er reistur 1897 en hinn var byggður 1944. Áður hafði stóra varða verið hlaðin á skagatánni og 1884 var sett í hana ljósker. Svæðið er mikilvægt fyrir farfugla.

48. Gálgaklettar

Gálgaklettar

Gálgaklettar í Hagafelli.

Efst á Þorbjarnarfelli við Grindavík eru háir móbergsklettar með þessu heiti. Þjóðsaga hermir að þar hafi staðbundnir þjófar verið teknir af lífi.

49. Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja

Hvalsneskirkja.

Vel viðhaldin kirkja og kirkjugarður frá árinu 1887. Kirkjan er byggð úr tilhögnu grágrýtishrauni (basalti) sem fengið var í nágrenninu. Hluti innviða
eru úr rekatimbri. Systurkirjkuna er að finna í Njarðvík.

50. Reykjanesviti

Reykjanesviti

Reykjanesviti.

Vitinn er elsti viti í fullri notkun á landinu, frá 1908. Lengst af var þar vitavörður og bóndi að störfum og má sjá ummerki eftir búskap víða í nágrenninu. Nú er vitanum að mestu fjarstýrt.

51. Skagagarðurinn

Skagagarður

Skagagarðurinn.

Leifar af mjög löngum og háum garði síðan á fyrri hluta Þjóðveldisaldar (870-1000). Hann var byggður úr tofi og grjóti til að aðskilja húsdýr, tún og akra. Garðurinn er mjög siginn og hefur víða horfið með öllu.

52. Staðarborg

Staðarborg

Staðarborg.

Hringlaga fjárgeymsla en án þaks. Hún er rúmlega 2 m há, 8 m í þvermál og 35 m að ummáli og vandlega hlaðin úr flötu hraungrýti. Aldurinn er óþekktur en talinn í nokkrum öldum.

53. Vigdísarvellir

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – Krýsuvíkur-Mælifell fjær.

Víðir, flatir grasvellir við rætur móbergshryggja. Þar sjást rústir tveggja smábýla sem minna á forna búskaparhætti á hálendi. Yngri bærinn var yfirgefinn eftir harða jarðskjálfta 1905.

54. Vogur í Höfnum

Hafnir

Skálinn í Höfnum.

Rústir elstu byggðar á Reykjanesskaga. Aldursgreind til 9. aldar. Þarna eru hefðbundinn skáli og smáhýsi. Ef til vill er um að ræða útstöð landkönnuða, svipaða byggingum norrænna manna á Nýfundnalandi.

55. Þórshöfn

Þórshöfn

Áletrun á klöpp við Þórshöfn.

Einn helsti 15. og 16. aldar verslunarstaður Þjóðverja á Íslandi. Á 18. öld tóku skip að nýta höfnina að nýju, en smám saman varð þar fáfarnara eftir því sem höfnin í Sandgerði batnaði.

Heimild:
-https://www.visitreykjanes.is/static/files/pdf/Reykjanes_HikingMap.pdf

Göngukort

Göngukortið.

Stóri-Hamradalur

Gengið var um Stóra-Hamradal og upp í Litla-Hamradal þar norður af. Upp úr honum var gengið til norðvesturs upp á Núpshlíðarháls og síðan eftir hálsinum ofan við Hraunssel, um Selsvallafjall og Grænavatnseggjar ofan við Grænavatn og niður að Spákonuvatni, Sogadal og staðnæmst við Sogagíg við rætur Trölladyngju ofan Höskuldarvalla.

Stóri-Hamradalur

Stóri-Hamradalur.

Í Stóra-Hamradal er hár hamraveggur, misgengi. Dalurinn hefur sigið, en ofan af brúnum gjárveggjarins hefur síðan runnið nýrra þunnfljótandi hraun úr gígunum ofan við Tófubruna. Sumsstaðar hefur það smurt veggina líkt og að vandaða múrhúðun sé um að ræða. Undir gjánni sunnarlega er hlaðin rúningsrétt.
Litli-Hamradalur virðist ekki jafn tilkomumikill og stóri bróðir hans, en dalurinn er allsléttur og getur verið mjög litskrúðugur í bjartviðri, einkum eftir rigningar. Gengið var á Núpshlíðarhálsinn upp úr norðurenda dalsins. Þegar komið var upp á brún blasti Höfði í suðvestri, Sandfell í vestri og Hraunssels-Vatnsfell í norðvestri.

Hraunssel

Hraunssel.

Niður undir hálsinum lá Hraunsselið, vel gróið. Út frá því liggja greinilegar gamlar götur, sem spillt hefur verið í seinni tíð með utanvegaakstri.
Hraunsel var sel frá Hrauni í Grindavík. Ofarlega í hlíðinni eru falleg litbrigði kulnaðra hverasvæða. Eftir að hafa staldrað við í grónum brekkunum ofan við selið var haldið áfram norður eftir hálsinum og útsýnið nýtt til hins ítrasta.

Selsvellir

Horft að Selsvöllum frá Trölladyngju.

Smátt og smátt fjarlægist Sandfell í blámóðuna að baki, Hraunsels-Vatnsfell og fleiri fell þokast hjá á vinstri hönd en Driffell, Keilir og Oddafell skýrast þá norðar dregur. Þegar komið er norðar kemur slétt graslendi Selsvalla í ljós. Af Selsvallafjalli má, ef vel er að gáð, sjá tóftir Grindavíkurseljanna suðvestanvert á völlunum sem og undir hlíðinni á þeim austanverðum. Selsvellir mynduðust með framburði lækja úr hálsinum.
Vellirnir eru eins og vin í eyðimörk, og hér var eftirsótt beitiland fyrir búfé. Selsvellir tilheyrðu Stað í Grindavík og notuðu Staðarprestar og hjáleigubændur þeirra selstöðuna.

Selsvellir

Sel við Selsvelli.

Um miðja nítjándu öld höfðu hér 6 bændur í seli ásamt prestinum á Stað og átti hver sitt selhús. Samtals voru þá um 500 fjár og 30 nautgripir á Selsvöllum. Syðst á austanverðum völlunum er svonefndar Kúalágar.
Norðan Selsvalla taka aftur við hraun, mosavaxin víðast hvar. Spölkorn vestan við Núpshlíðarháls, úti í hrauninu vestan Selsvalla að norðanverðu, er einn fallegasti hraungígurinn á Reykjanesskaga, Moshóll. Því miður er búið að skemma hann að hluta með umferð ökutækja. Hann er nyrsti gígurinn á gígaröð sem Afstapahraun er runnið úr. Það rann í norður og í sjó fram í Vatnsleysuvík, hjá Kúagerði, löngu eftir að land byggðist. Úr suðurhluta sprungunnar er Leggjabrjótshraun runnið, sem fyrr er nefnt.

Grænavatn

Grænavatn.

Frá Grænavatnseggjum er frábært útsýni niður að Grænavatni á hægri hönd og að Trölladyngju og Grænudyngju til norðurs. Dyngjurnar eru móbergshnjúkar (393 og 375 m.y.s). Í dyngjunni eru miklar eldstöðvar, bæði að sunnan- og norðanverðu. Hraun hafa runnið þaðan bæði í norður og suður, meðal annars Afstapahraun. Þar er og mikill jarðhiti á ýmsum stöðum. Í Trölladyngju eru hverir og ummyndun samfelldust á skák sem nær austan frá Djúpavatni vestur á Oddafell. Hveravirkin er fremur dauf, tveir hverir upp við Sogin, gufur með smávegis brennisteini og hverasprengigígur neðan undir hálsinum og hitaskellur í Oddafelli. Sprengigígar og miklir gjallgígar eru á gossprungum þar sem þær liggja yfir ofannefnda A-V-skák.

Spákonuvatn

Spákonuvatn og Keilir.

Ummyndun er mest í Sogum þar sem stórt svæði er ummyndað í klessuleir. Þar eru stórir sprengigígar frá ísöld, og vatn í sumum. Djúpavatn er myndað á sama hátt.

Spákonuvatn birtist í einum gígnum á vinstri hönd. Fallegt útsýni er frá því yfir að Keili og umhverfi hans. Gengið var niður hin litskrúðugu Sog, um Sogadal og litið í Sogagíg þar sem selstóftir Sogasels voru skoðaðar.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 33 mín.

Heimildir m.a.:
-http://www.utivist.is/utivist/greinar
-http://www.reykjanes.is/Um_Reykjanes/Fjoll/Trolladyngja/
-http://www.os.is/jardhiti/
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur.

Dyngjur-3

Dyngjur.

Keilir

Gestur Guðfinnsson fjallar um “Kynnisferð á Keili” í Alþýðublaðinu árið 1958″

“Keilir er ekki hátt fjall. Skýjakljúfar New-Yorkborgar myndu bera höfuð og herðar yfir hann ef þeir væru settir niður við hliðina á honum, og meira en það. Flest fjöll í nágrenni Reykjavíkur eru hærri og stærri en hann, samt vita fleiri deili á Keili en öðrum fjöllum, sem sjást af bæjarhlaði Reykvíkinga, hann skipar sitt rúm á Reykjanesskaganum með mikilli prýði, og hræddur er ég um, að margur myndi sakna vinar í stað, ef hann væri horfinn af sjónarsviðinu.

Keilir

Keilir.

Ég hef stundum gert mér það til gamans á ferðalögum suður með sjó að fara óvirðingarorðum um hann, sagt eitthvað á há leið, að svona smáþúst væri tæplega hægt að kalla fjall, þetta væri hálfgerð hundabúfa, sem ekki væri nafn gefandi. Æfinlega hefur einhver ferðafélaganna risið upp til varnar Keili, stundum Suðurnesjamaður, stundum ættingi einhvers Suðurnesjamanns, Jafnvel í þriðja eða fjórða lið, eða þá Reykvíkingur, og mótmælt kröftuglega slíkum svívirðingum, eins og hverju öðru guðlasti, ég veit ekki, hvort sumir fyrirgefa mér ævilangt. Hann virðist eiga mikinn og traustan flokk forsvarsmanna og aðdáenda. Og furðulega margir þykjast eiga Keili.

Keilir

Keilir.

Fjallið mitt, segja þeir, og það er auðheyrt á röddinni, að annað eins fjall muni vandfundið á jarðkringlunni. Ekki veit ég, hvað stjórnarskráin kann að segja um allan þennan eignarrétt. kannski má véfengja hann, kannski er hann líka öllum öðrum eignarrétti æðri og meiri.
En þó að Keilir sé þannig mikils metinn og dáður og eigi ítök í mörgum og margir eigi ítök í honum, þá eru þeir næsta fáir, sem gera sér það ómak að heimsækja þetta fyrirfjall Reykjanesskagans. Þó ber það við. Ekki alls fyrir löngu stefndi Jóhannes Kolbeinsson, hinn vinsæli og vel þekkti fararstjóri Ferðafélags Íslands, þangað liði sínu, tveim tylftum kvenna og karla, í virðingar- og kynningarskyni. Sú heimsókn var mikill sómi fyrir fjallið. Þetta var fríður flokkur og glæsilegur, svo sem vera bar og slíkt fjall á skilið.

Keilir

Keilir – Oddafell nær.

Það var mikið blíðskapar veður þennan dag, logn og sólskin um allar jarðir, sjórinn sléttur og blár bátur á miði. Snæfellsiökull skein í allri sinni dýrð handan við flóann. Meðfram Reykjanesveginum gægðist græn vornálin upp úr hvítum þúfnakollunum. Ekki segir af reisunni fyrr en komið var suður undir Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd. Venjan hefur verið að ganga að Keili frá Kúagerði, sem er í vesturjaðri Afstapahrauns. Það er líklega tveggja tíma gangur. Nú hefur verið rudd akbraut af veginum norðan Vatnsleysu alla leið upp á Höskuldarvelli, og styttir það gönguna til muna. Þegar að þessum afleggjara kom, var hann lokaður með digurri járnkeðju, læstri. Sankti-Pétur geymir lykilinn að hinu gullna hliði himnaríkis og hleypir engum óverðugum inn í það dýrðarland, og Pétur er samvizkusemin sjálf.

Keilir

Keilir.

Margar sögur eru sagðar af dyravörzlu Péturs, en aldrei hefur heyrzt, að hann hafi neitað fjallamanni um inngöngu. Bóndinn á Vatnsleysu geymir hins vegar lykilinn að hinum nýja vegi, sem liggur um Afstapahraun á Höskuldarvelli, leiðinni að hinu dýrlega fjalli, Keili. Mér er ekki kunnugt, hvort sömu reglur gilda þarna og hjá Pétri, nema Jóhannes talaði við bóndann og fékk lykilinn, enda var þetta allt réttlátt fólk.
Höskuldarvellir liggja norðvestan undir Trölladyngju. Þar er allmikið gróðurlendi og sauðland gott. Hiti er þarna í jörðu, og leggur víða gufu upp úr hraununum í kring, en heimildir munu vera til um gos á þessum slóð um á 14. öld. Af Höskuldarvöllum er stutt og létt ganga að Keili. Liggur leiðin fyrst yfir lágan hæðarhrygg, Oddsfell, en síðan um mosagróið apalhraun að fjallinu.

Keilir

Á leið á Keili.

Keilir er eins og nafnið bendir til, keilulaga fjall, hæðin er aðeins 379 m. yfir sjávarmál, en varla mikið meira en 250 m., ef miðað er við hraunin í kring. Það er því engin sérstök þrekraun að ganga á fjallið, til þess þarf ekki meiri karlmennsku en guð hefur gefið venjulegu fólki, enda komust allir á tindinn, þó að sumir ættu að vísu dálítið erfitt með pundin sín. Keilir er móbergsfjall með grágrýtishúfu á kollinum, sem hefur eflaust verið honum mikil vörn og hlífiskjöldur gegn eyðingaröflum vatns og veðra. Reykvíkingar þekkja hann bezt í bláma fiarlægðarinnar eða hvítum vetrarlit. Stundum slær á hann rauðleitum bjarma að kvöldlagi. Þá er hann fegurstur. Ásýnd Keilis er eirrauð sem egypzkur píramíði, segir hið góðkunna Suðurnesjaskáld, Kristinn Pétursson, einhversstaðar. Þegar komið er að fjallinu og dýrðarljómi fjarlægðarinnar horfinn, ber aftur á móti mest á gráum og móbrúnum lit, skriður og klettar eru einkenni höfðingjans, gróður fyrirfinnst ekki svo teljandi sé, það verður varla slitið upp strá til að tyggja.

Keilir

Keilir og Keilisbörn, sem sumir nefna Hrafnabjörg.

Af Keili blasir við allur fjallahringurinn umhverfis Faxaflóa. Að þessu sinni var umgjörðin um flóann óvenjulega hvít á að líta og glampandi björt í sólskininu. Hins vegar var næsta umhverfi Keilis, Reykjanesskaginn sjálfur, dálítið harðneskjulegur og dökkur á brún og brá að vanda: gömul eldvörp, dyngjur, og storknuð hraun. Þó má víða sjá gras og gróðurvinjar og mosinn breiðir sig yfir úfin hraunin, mjúkur og þykkur. Í norðaustri, upp af Kaldárbotnum, rís Helgafell og Valahnúkur, þar sem Farfuglar eiga sitt Valaból.

Fjallið eina

Fjallið eina.

Þangað er líklega um fjögra tíma gangur frá Keili. Um það bil miðja vegu milli Keilis og Helgafells er lítið, sérstakt fell, Fjallið eina. Nafnið býr yfir einkennilegum töfrum. Ætli eitthvert gott fyrirtæki í bænum þurfi ekki bráðum á því að halda. Það er sem sé mikið í tízku að klína allskonar örnefnum og fjallaheitum á veitingahús og verzlunarfyrirtæki, jafnvel smá búðarholur og sjoppur eru látnar heita í höfuðið á sögufrægustu stöðum landsins, minna má ekki gagn gera. Þetta er eins og að hafa þjóðsönginn fyrir rokktexta á hlöðuballi. Fjallið eina hefur ennþá sloppið við sæmdina.

Sogasel

Í Sogaseli.

Að lokinni nokkurri viðdvöl á tindi Keilis var haldið að Sogaseli, eyðibýli eða seli, ekki alllangt frá vesturjaðri Trölladyngiu, og etinn dagverður. Það er eitthvert sérkennilegasta bæjarstæði eða bólstaður, sem ég hef séð. Húsin hafa staðið á flötum, grasigrónum gígbotni. Gígurinn er á að gizka eitt til tvö hundruð metrar í þvermáL, hringlagaður, girtur þverhníptum hamravegg á þrjá vegu úr grábrúnu og eldrauðu bergi. Þetta hlýtur að vera sérstaklega skjólsæll og veðursæll staður. Allmiklar húsarústir eru þarna á gígflötinni. Kunnugir þekkja sjálfsagt sögu þessa staðar, en ekki kann ég skil á henni, líklegt má þó teljast, að þarna hafi verið hafður nautpeningur í seli, fremur en að um sjálfstætt býli eða búskap hafi verið að ræða. Einhver skaut fram þeirri spurningu, hvort öruggt væri, að þarna gæti ekki gosið aftur, en enginn hafði bréf upp á það. Búskapurinn í Sogaseli minnir á fuglinn hans Jóns úr Vör, sem gerði sér hreiður í fallbyssukjaftinum. Ekki er mér kunnugt hvenær staðurinn fór í eyði. Líklega hefði slík gestakoma sem þessi þótt tíðindum sæta í Sogaseli á þeim tíma, sem fólk hafði aðsetur þar.
Þegar staðið var upp frá dagverði í Sogaseli, var förinni haldið áfram í litskrúðugri halarófu suður Sogin áleiðis til Krýsuvíkur. Sólin skein á vinalegar hlíðar Grænudyngju, Að baki reis Keilir, einn og sérstæður, og bar við bláa heiðríkju vesturloftsins. Framundan blöstu við hálsar og hraunflákar.
Bráðum mundi leið okkar liggja framhjá Djúpvatni, þar sem nykurinn býr.” – Gestur Guðfinnsson.

Heimild:
-Alþýðublaðið, 106. tbl. 13.05.1958, Kynnisför á Keili, Gestur Guðfinsson, bls. 7.

Sogaselsgígur

Sogaselsgígur.