Brunnurinn norðvestan við bæinn (Húsið) Hellur á Vatnsleysuströnd dæmigerður fyrir fyrrum hlaðna brunna, þ.e. eldri en fyrir aldamótin 1900. Hann er í gróinni lægð milli lágra holta, rétt neðan við Digruvörðu.
Á Knarrarnesi stóðu bæir Knarrarneshverfis; Minna-Knarrarnes vestar með þurrabúðina Hellur og Vík, Stóra-Knarrarnes innar eða austar. Þar var oft tvíbýli, nefndist Austurbær og Vesturbær.
Þurrabúðin Hellur er í Hellnatúni eða Hellnaflöt, Hellnalóð. Bæirnir stóðu í Knarrarnestúni. Litla-Knarrarnes var vestar í Litla-Knarrarnestúni. Frá bæ lá Litla-Knarrarnesgatan upp á veg. Í túninu var Litla-Knarrarnesbrunnur.
Ofan við þjóðveginn er þessi hlaðni brunnur. Hann hefur verið fylltur upp til að koma í veg fyrir hugsanleg óhöpp líkt og svo margir brunnar aðrir á Reykjanesi. Brunnhleðslan sést vel. Sagðist Birgir, heimalingur í Minna-Knarrarnesi, hafa stundum séð vatn efst í brunninum. Ekki liggur ljóst fyrir hvers vegna brunnstæðið er þarna, en þó er vitað að gamli bærinn stóð þarna skammt fyrir norðan brunninn. Hann gæti því hafa tilheyrt honum á þeim tíma. Staðsetningin gæti líka hafa komið til af staðsetningu þurrabúðanna. Fornfáleg hlaðin rétt er skammt ofar. Hún er sigin í jarðveginn, en má sjá móta fyrir henni.
Úr Digravörðu liggja landamerki Minna-Knarrarness í Eldborgir ofan við Knarrarnessel, skammt norðan við gamla Hlöðunesselið. Talið er að varðan hafi verið ein kirkjuvarðanna svonefndu, en þarna neðan við á gatan að Kálfatjarnarkirkju að hafa legið fyrrum.
Þegar hér er komið við sögu hefur FERLIR skoða 158 gamla brunna og vatnsstæði á Reykjanesskaganum (2009).
Heimild m.a.:
-Örnefnalýsing fyrir Minna-Knarrarnes.